sunnudagur, 30. nóvember 2003

Snjónum hefur rignt niður á Egilsstöðum um leið og jólatréið hefur verið sett upp og ljósin kveikt, eins og sést hérna. Ég myndi gefa bringuhárið fyrir að vera á Egilsstöðum núna í góðum sunnudagsgír.
Föstudaginn síðastliðinn tókst mér loksins að gera eitt sem ég hef ætlað mér að gera í allan vetur. Ég komst í gegnum heilan dag í Reykjavík án þess að eyða krónu. Það var fyrir algjöra tilviljun að snemma þann dag hafði ég komist að því að ég ætti ekki krónu.
Síðustu vikur hef ég tekið eftir tveimur vægast sagt furðulegum auglýsingum frá tískuverslunum einhverjum. Sú fyrri er frá einhverri verslun í kringlunni og þar er verið að auglýsa einhverskonar hjólabrettaföt. Það sem er furðulegt við þessa auglýsingu er að hjólabrettin sem skoppararnir leika listir sínar á eru ósýnileg. Ekki nóg með það því í lokasenunni í auglýsingunni koma ca 6-8 manns á ósýnilegum hjólabrettum eftir götu, sallarólegir og ég sé ekki betur en að einn þeirra sé fótalaus. Virkilega merkileg auglýsing.

Seinni auglýsinguna rakst ég á í undirtónablaðinu nýjasta og þar er einnig um fataverslun að ræða. Í auglýsingunni er par í góðum gír, mjög hamingjusöm búin að vefja lítið, tannstórt skrímsli með risastór blá augu í handklæði eftir að hafa þrifið það. Parið er klætt í tískuföt á meðan skrímslið er nakið.

Ég skil að fyrirtæki vilji hafa auglýsingar sínar öðruvísi en öllu má ofgera. Ég allavega man ekki hvaða fyrirtæki voru að auglýsa þannig að þær eru ekki að virka á mig, held ég.
Ég hef bætt við hlekki á hinn stórmerkilega Spritta sem heldur uppi allsvakalegri dagbók hérna. Allir að kíkja þangað og skemmta sér, það er skipun!

laugardagur, 29. nóvember 2003

Strætóinn sem ég tók áðan niður að hlemmi lenti í árekstri á miðri leið. Lítið meira um það að segja nema að enginn slasaðist og undurfagra stelpan sem sat fyrir aftan mig lenti næstum því við hliðinni á mér.
Nýlega keypti ég mér nýja íþróttaskó sem ég get notað í körfubolta, skokk og annað sem krefst hreyfingar innanhúss sem utan. Ástæðan er auðvitað sú að gömlu skórnir eru ýmist týndir, uppurnir eða brotnaðir (botninn á körfuboltaskónnum sem ég keypti í Minnesota brotnaði). Það sem er merkilegt við þessi kaup er það að nú nota ég hvorki meira né minna en númerið 46 og 2/3 sem er persónulegt met, gamla metið var 46 en annars nota ég 45-45,5 venjulega. Þá vantar mig bara stærri hendur, helmingi stærra nef, pínulítinn bíl og svart hörund til að byrja að heilla stelpurnar.
Ég auglýsi hérmeð eftir gömlu körfuboltaskónum mínum sem hurfu sporlaust fyrir ca þremur árum eftir flutning frá Reykjavík til Egilsstaða. Þeir eru mjög auðþekkjanlegir því þetta eru Karl Malone körfuboltaskór, svartir að lit og merktir við hælinn með viðurnefni Malone; „Mailman“ og númeri; 32. Ef einhver hefur vísbendingu sem leiðir til þess að þeir komast í mínar hendur vinsamlegast láttu mig vita og ég mun launa þér með krónum 5.000 í reiðufé. Þetta er ekki grín. Sendið mér tölvupóst hérna ef þið hafið upplýsingar um málið.

föstudagur, 28. nóvember 2003

Á þeim rúmum þremur tímum sem ég notaði í próf dagsins (bókfærslan) fékk ég tvö sms smáskilaboð á símann minn sem var hálfvandræðalegt því mér var gefið illt auga af yfirsetukonunni sökum þess. Þessi tvö sms eru þau einu sem ég hef fengið síðastliðna viku og helmingi fleiri en smsið sem ég fékk fyrir næstum tveimur vikum síðan sem segir mér að þau eigi það til að koma á óheppilegum tíma, vægast sagt.

fimmtudagur, 27. nóvember 2003

Fyrir stuttu síðan fékk ég tölvupóst þar sem mér var tjáð að myndasíðan mín hafði ratað á borð bæjarstjórnar Egilsstaða. Ástæðan var sú að ég hafði, í snarheimsku minni, skráð teiti eitt sem fram fór í sumarbústað í mars síðastliðnum undir nafninu „lokahóf körfuknattleiksdeildar Hattar“. Það rétta í þessu máli er að sjálfsögðu það að Höttur styrkti ekki við bakið á þessu teiti né hvatti okkur til að halda þessa samankomu, hún var kostuð af þeim sem mættu og það vildi nú svo skemmtilega til að þangað rötuðu aðeins þeir sem höfðu æft með körfuknattleiksdeild Hattar um veturinn. Ég biðst því afsökunnar á því að hafa bendlað Hött við teiti þetta. Þessu hefur verið breytt.

Það gleður mig samt að frægð mín sé orðin svo mikil að bæjarstjórnir víðsvegar séu farnar að taka upp veftímarit þetta, eða dótturfyrirtæki þess.
Ég er vægast sagt í sjöunda himni þessa stundina. Ég var að koma úr bókfærsluprófinu þar sem mér gekk fáránlega vel. Á tímabili var ég að hugsa um að æpa upp í miðju prófi „Hvað er þetta eiginlega, á ekkert að reyna á nemendurnar í þessu helvítis prófi??“ en ákvað að sleppa því til lifa út daginn amk. Þegar ég svo kom úr prófinu athuga ég póstinn minn þar sem kemur í ljós að ég hef fengið 9,3 af 10 í vetrareinkunn í stærðfræðinni sem ég kláraði vonandi með lokaprófi á mánudaginn og 9,5 í vetrareinkunn í rekstrarhagfræði, þar af 9,8 fyrir hópverkefni sem ég vann með Óla Rúnar og Oddi rokkara en verkefnið, sem bar nafnið „Hörkufjör á heimavist!“, var með hæstu einkunn í bekknum.

Ég ætla hinsvegar ekki að ræða skilaverkefnið í aðferðafræði, þar sem ég fékk 6,5 auk þess sem -1,0 var dreginn af mér fyrir að hafa Halle Berry utan á verkefninu. Heldur ekki bókfærsluverkefni sem ég vann fyrir einhverju síðan og fékk 7,3 fyrir og var fyrir neðan meðaltalið.

Svona er nú skemmtilegt að vera í skóla.

miðvikudagur, 26. nóvember 2003

Bragi, sonur Þorsteins, sonur Gústafs hefur hafið dagbók á netinu. Ég stjórnaði einmitt unglingavinnu Fellabæjar með Braga tvö sumur þó hann hafi verið mun hærra settur en ég. Það voru mögnuð sumur sem ég mun aldrei gleyma. Allavega, hér er dagbókin og líka hægra megin í hlekkjunum.
Ég gleymi að minnast á hörku körfuboltans í gær en þá missteig ég mig frekar illa, fékk tvisvar olnbogaskot í andlitið og boltann í heilann (þið leggið tvo og tvo saman vonandi). Þrátt fyrir þessa grófu misnotkun á líkama mínum sigraði ég í öllum leikjum. Það var þó ekki fagur sigur að sögn viðstaddra.
Ég gekk fáklæddur á vigtina í world class í gær eftir að hafa spilað körfubolta við Gústa og Óla í ca 90 mínútur og komst að því að ég hef lést um ca fimm kíló síðan ég hætti að lyfta fyrir ca sex vikum síðan. Þá fór ég í hlýralausan bol og sá að ég er býsna mjór. Ég ætla því að taka stórt skref og segja eitthvað sem ég hef ekki þorað að segja hingað til af ótta við að það myndi ekki standast lengur; ég get ekki fitnað.
Gærdeginum var eytt í lærdóm fyrir bókfærsluna, körfubolta og svo festist ég við sófann þegar myndin 40 day og 40 night var í sjónvarpinu. Ágætis mynd, það sem ég sá af henni. Allavega, í dag mun ég eyða mestmegninu í lærdóm eins og svo oft.

Og það er allt sem ég hef um það að segja.

þriðjudagur, 25. nóvember 2003

Ég spái því að innan árs muni ég vera búinn að eignast svona bol og jafnvel kominn í hann. Einn af þeim fyndnari sem ég hef séð.

mánudagur, 24. nóvember 2003

Til að viðskiptalíf borgarinnar geti hafið störf á ný og fólk getið afspennt rasskinnarnar þá tilkynnist það hérmeð að mér gekk ágætlega á prófinu sem ég virðist hafa ritað mikið um í dag, án þess að vita af því. Ég mun ná áfanganum en ég býst ekki við góðri einkunn. Ég vona bara að vetrareinkunnin hækki mig slatta upp.
Ég held ég hafi náð nýju, áður óþekktu stressstigi. Hefur ykkur einhverntíman verkjað í tennurnar af stressi? 45 mínútur í fyrsta prófið.
Fyrsti dúett, sunginn á spjallforritinu Messenger, fór fram í dag þegar ég og Kristján Orri Magnússon tókum klassíska slagarann "Daginn í dag" eftir Jesús Krist Guðsson. Textinn er eitthvað á þessa leið:

„Daginn í dag, daginn í dag
gerði drottinn guð, gerði drottinn guð
gleðjast ég vil, gleðjast ég vil
og fagna þennan dag, og fagna þennan dag
Daginn í dag gerði drottinn guð
gleðjast ég vil og fagna þennan dag
daginn í dag, daginn í dag
gerði drottinn guð“

Það gerist ekki betra klukkutíma fyrir próf.
Í gærkvöldi tók ég mér ca klukkutímapásu frá lærdómnum til að fara í sturtu, snyrta mig og svo villtist ég inn í stofu þar sem þátturinn Banzai var á dagskrá (í sjónvarpstækinu) en það er vitleysingaþáttur í anda falinnar myndavélar og Jackass nema að þessi þáttur er ca sjöhundruð og fimmtíu sinnum fyndnari og þolanlegri en Jackass ruglið. Ég hló allan tímann sem ég hafði augun á skjánum og þegar Harold Bishop úr nágrönnum mætti í einhverri múnderingu, bankandi á hurðir hjá fólki og hlaupandi í burtu áður en það svaraði ætlaði allt um koll að keyra í hausnum á mér sökum hláturs. Svona eftir á að hyggja held ég að nokkur rifbein á mér hafi brákast eftir atriðið. Harold Bishop, ef þú lest þetta, ég er þinn mesti aðdáandi.
Ný tilhögun á Tunguveginum hefur valdið því að nú er hörkufjör að fara í sturtu. Einhver hefur náð að stífla sturtubotninn að mestu leyti og er það nú mikið kapphlaup fyrir sturtufara að ná að klára að þrífa sig áður en flæðir upp úr og yfir allt gólf. Ég var rétt í þessu að koma úr sturtu þar sem ég náði persónulegu meti; 4 mínútum og 29 sekúndum. Geri aðrir betur, eða verr hvernig sem á það er litið.
Áðan, nánar tiltekið klukkan 1:30 aðfaranótt mánudags, fékk ég sms í fyrsta sinn í næstum því viku og það vill svo skemmtilega til að þetta er eitt fyndnasta sms sem ég hef nokkurntíman fengið. Svona er það, orðrétt:

„Hvað er litla t í heildun fyrir framtíðarvirði samfellds tekjustreymis?“

Ég gat ekki annað gert en hlegið þegar ég svo fattaði að ég vissi svarið.

sunnudagur, 23. nóvember 2003

Þá er komið að lokum þessa dags. Honum var eytt 90% í að lesa fyrir stærðfræðiprófið sem allir eru að tala um, 5% í að skrá lífsreynslur mínar og 4% í að telja tennurnar á mér með tungunni. Nú hinsvegar hyggst ég eyða þessu eina prósenti sem ég á eftir í að fara í sturtu og ljúka svo deginum með svefni. Á morgun mun ég svo vakna eldsnemma með hárið allt upp í loftið og jafnvel út um gluggann, ef ég verð óheppinn.
Nýlega sagði ég einn aumasta aulabrandara sem sagður hefur verið á Tunguveginum. Þannig var mál með vexti að piltungarnir voru að horfa á Leon, sem er mynd um Franskan leigumorðingja sem tekur stúlku í sína umsjá. Ég gekk sporeskjulaga inn í stofuna og spurði strákana hvort ekki færi að koma út framhaldsmynd sem gæti t.d. borið nafnið Leoncie. Þeim var ekki skemmt og ég gat gat ekki hætt að hlægja (Seven).

laugardagur, 22. nóvember 2003

Þegar ég gekk heimleiðis frá Bónus Video verslun í gær, hlustandi á Veridis Quo með Daft punk, eftir vel heppnaða pylsuferð varð ég fyrir áreiti aðdáanda sem potaði í öxlina á mér. Þarna var augljóslega kominn lesandi veftímaritsins 'Við rætur hugans'. Hann bað mig um eiginhandahundraðkall því hann var blankur og langaði í vindil. Ég sagði að það væri það minnsta sem ég gæti gert fyrir diggan lesanda og hann svaraði eins og hógvær róni á til; þóttist ekki kannast við síðuna mína. Ég hló dátt og rétti honum hundrað krónur, vitandi það að veftímaritið mitt nær til jafnvel fátækustu drykkju og reykingasjúklinga.
Takk Styrmir fyrir að senda þennan hlekk. Þetta ætti að sanna mál mitt og milljónir annarra sem halda því fram að George Bush sé hálfviti.

Hér er annar hlekkur sem segir Bandaríkjamenn hafa vitað um Osama 12. september 2001 og að lokum er hlekkur sem tengir Bush ættina við Nasista á stríðstímabilinu. Hörkufjörug umræða framundan.
Ég sit hér í tölvupásu frá lærdómnum fyrir stærðfræðiprófið á mánudaginn, rétt eftir að ég slysaðist til að deilda á mér hendina. Það er þó allt í lagi því ég hyggst heilda hana aftur eftir smástund. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að eftir heildun veit ég ekki hversu marga putta ég hef. Svona er þetta bara, ég vissi hvað ég var að fara út í þegar ég skráði mig í þennan skóla.

föstudagur, 21. nóvember 2003

Þetta er með því áhugaverðasta sem ég hef lesið í langan tíma. Eflaust er þetta bara vitleysingur en samt, gaman að spá í svona hluti.
Ég ákvað að breyta þessari færslu um áhorf innlimi tunguvegs 18 á Sleepless in Seattle þar sem það var varla stakt orð í þeim pistli sannur. Hið rétta er að ég horfði einn á þessa mynd á dimmu og einmannalegu sunnudagskvöldi. Tilgangur upphaflegs pistils míns var líklega að upphefja sjálfan mig eða jafnvel að draga piltungana á mitt lága plan. Biðst ég velvirðingar á því.
Sleepless in Seattle er samt sem áður hörkumynd og kemst eflaust á top 20 listann minn.
Þá eru komnar myndir inn á Tunguvegssíðuna. Ég ítreka meðmæli mín á þessari síðu sem og þessari.

fimmtudagur, 20. nóvember 2003

Við getum öll verið sammála um að kvenmenn séu slæmir bílstjórar. Þær eru vanhæfar til að bakka í stæði og eiga erfitt með að einbeita sér að því einu að keyra. Því stærri sem bifreiðin er sem þær keyra, því mun meiri hætta er á ferðum. Það var einmitt í dag sem ég tók strætó, að ég hélt, í síðasta skipti þegar ég tók eftir að hafði gengið framhjá kvenkyns strætóbílstýru þegar ég sýndi græna kortið mitt. Eftir að afturendinn á strætóbifreiðinni lyftist upp á gangstétt í einni beygjunni var ekkert skrítið að ég hrópað „Við deyjum öll!“ þegar strætóbílstýran snarhemlaði við eina stoppistöðina þegar hún sá of seint að þar beið enn eitt fórnarlambið með grænt kort.
Það er því bærilegt spennufall í gangi þessa stundina og því afsakið þið vonandi að engin hnyttin endasetning sé hér.
Á mánudaginn er mitt fyrsta lokapróf í Háskóla Reykjavíkur. Það er í stærðfræði og tel ég mjög líklegt að ég nái þeim áfanga með góða einkunn. Ég er þó ekki byrjaður að læra þar sem ég frétti í gær að ég á að vera búin að lesa bók fyrir aðferðafræðitíma í fyrramálið. Lokaprófið mitt verður svo 8. desember og lokaverkefni í aðferðafræði 12. desember. Þá taka við jólainnkaup og ferð mín austur, hvernig sem ég kemst þangað og loks 17. desember hef ég jólaafleysingu á Heilsugæslunni á Egilsstöðum. Það gleður mig að hafa tíma minn næsta mánuðinn algjörlega bundinn.

miðvikudagur, 19. nóvember 2003

Tvífarar mánaðarins eru þessi og þessi. Ég viðurkenni þó að þetta er stolið því þessi magnaði penni sagði frá þessum samanburði í dagbók sinni. Ég hló þar til ég kafnaði næstum því á minni eigin tungu þegar ég las pistilinn.

Ég vil að lokum benda á að þessir náungar (pósturinn páll og Hr. Ísland) eru eflaust fínir náungar. Bara myndast mjög skringilega á þessum myndum.
Ég rak í rogastans í gærkvöldi þegar ég flakkaði milli sjónvarpsstöðva. Á skjá einum var þáttur um nokkra logandi homma sem sjá um að skipuleggja líf óhomma (gagnkynhneigðs manns) á einum degi, eða eitthvað þannig. Allavega, ég skipti á stöðina um leið og þeir drógu úr fataskáp óhommanns Utah Jazz vesti og ekki nóg með það heldur var það númer 12, John Stockton en ég á einmitt nákvæmlega eins vesti. Þegar umræðunni um vestið var lokið, og hún var eitthvað á þessa leið (skrifað eftir minni) „úúúúúú....do you listen to Jazz? ahehe Loving it babygirl!“ skipti ég snarlega yfir á karlmannaþátt einhvern þar sem menn drukku bjór, klipu í rassa á konum, hlóu digurbarkalega og leyndu tilfinningum sínum.
Þessi frétt er athyglisverð fyrir þær sakir að í þann tíma sem ég hef búið í Reykjavík (bæði núna og fyrir þremur árum ca) hef ég aldrei tekið eftir þessu fjalli. Annað hvort er skýjað og rigning eða ég bara ekki áhugasamur um eitthvað nauðaómerkilegt fjall. Þegar maður er búinn að venjast glæsilegu fjöllunum við Egilsstaði eða í Trékyllisvík er erfitt að taka eftir Esjunni, hvað þá að finnast hún falleg.

þriðjudagur, 18. nóvember 2003

Góðverk dagsins var í mínu boði þar sem ég sagði afgreiðslustúlku mötuneytisins að hún hafi gefið mér 100 krónur til baka af kaupum mínum í stað 50 króna. Með þessum 50 krónum sem ég gaf var ég í raun að kaupa mér orðstýr og sá orðstýr er að ég sé góður maður og hreinskilinn.

Illverk dagsins var reyndar líka í mínu boði en það var að biðjast ekki afsökunnar eftir að ég straukst upp við stúlku eina sem sat í sæti sem var aðeins of langt frá borðinu sem olli því að ég, eins og áður segir, straukst upp við hana. Ég get verið illmenni, rétt eins og velflestir í þessari bölvuðu borg.
Í könnun sem ég tók um daginn í skólanum kom eftirfarandi brot úr setningu fram:

„Ef ég hugsanlega bresti að því er hópstarf áhrærir, gæti verið að....“.

Ég ætlaði aldrei að geta hætt að hlæja þegar ég frétti að þetta þýðir einfaldlega: „Þegar hópsamstarf er annars vegar...“.

Ég hefði betur mætt í jakkafötum með pípuhattinn í þessa könnun.
Á drykkjarjógúrtinu sem ég drakk í morgun stendur m.a. að það innihaldi lifandi jógúrtgerla. Er ekki óþarfi að láta vita að gerlarnir séu lifandi?

mánudagur, 17. nóvember 2003

Í kaffipásunni í dag náði ég að afsanna þjóðsöguna um að karlmenn gætu ekki gert fleiri en einn hlut í einu þegar ég tefldi, borðaði samloku og las fréttablaðið allt í senn. Ég kom vel undirbúinn eftir að hafa æft mig heima í rúma viku og virtist vera með allt á hreinu. Ég kláraði verkefnið að lokum mjög sannfærandi, þó svo að ég hafi tapað skákinni, klínt samlokunni framan í mig án þess að átta mig á því að ég þurfti að opna munninn (og síðar meir tyggja) og starði þess á milli á fréttablaðið, vitandi ekkert.

Þá hef ég lokið enn einu verkefninu sem ég ætlaði mér í þessu lífi en áður hef ég lokið eftirfarandi 'verkefnum':

* Lenda í öðru sæti á fámennu bringusundsmóti í Trékyllisvík
* Fara á Utah Jazz leik
* Sjá um skákklúbb ME

og á eftir að ljúka við þennan lista:

* Lenda í fyrsta sæti á fámennu bringusundsmóti í Trékyllisvík
* Sjá Utah Jazz sigra meistaratitil
* Sjá um skákklúbb HR
* Tefla við Birgittu Haukdal og Maríkó (Threechess)
Í gær horfði ég á John Stockton DVD diskinn sem ég fékk sendan fyrir næstum tveimur vikum síðan. Ég hef sparað mér áhorfið hingað til vegna þess að ég veit hversu sorgmæddur ég yrði við að horfa á hann, í ljósi þess að Stockton hætti nýlega keppni. Áætlanir stóðust því ég þurfti að stoppa diskinn nokkrum sinnum til að hemja ekkann. Ég náði þó að klára hann að mestu en sparaði mér lokakaflann sökum tíma- og snýtiklútaleysis.
Á disknum er sagt frá því hversu einstakur leikamaður John Stockton var í raun og veru, eitthvað sem ég gerði mér fyllilega grein fyrir. Ég skal lána hverjum þeim sem vilja diskinn, með því skilyrði að vel sé farið með hann þar sem þetta er eini John Stockton DVD diskurinn á landinu.
Í síðustu viku var aðsóknin á þessa síðu söguleg. Hún náði 582 manns eins og þið sjáið hér og er það met, ef ekki er talið með batman.is eða tilveran.is hlekki sem skemma alla vefmælingu.

Takk kærlega fyrir að lesa ruglið.

sunnudagur, 16. nóvember 2003

Í gær sá ég myndina the man who wasn't there með Billy Bob Thornton í aðalhlutverki. Þetta er Cohen mynd en þeir hafa gert meistaraverk á borð við The Big Lebowski og Fargo. Myndin fjallar um mann sem er daufur í dálkinn. Konan hans heldur framhjá honum og hann bregst við með skrítnum hætti. Myndin er dauf, sagan lengi af stað og lítið situr eftir. Þó er þessi mynd vel gerð og áhugaverð. Til að fullkomna daufleikann er hún í svarthvítu sem reyndar, einhverra hluta vegna, gerir hana betri. Billy Bob leikur óaðfinnanlega. Tvær stjörnur af fjórum.

Á meðan á myndinni stóð fékk ég mér fjólublátt Extra jórturleður. Í einhverri senunni hætti ég að tyggja það og geymdi hægra megin í munninum. Nokkrum mínútum síðar hafði ég gleymt tyggjóinu sem nú hafði tvístrast og þegar ég rétti úr mér hrökk minni helmingurinn af tyggjóinu niður í háls. Ég náði því þó aftur með því að ræskja mig duglega og áfram hélt myndin. Það gerist ýmislegt á meðan maður horfir á spólu, án þess að maður taki stundum eftir því.

laugardagur, 15. nóvember 2003

Í dag fór ég í kringluna aldrei þessu vant. Þar er búið að skreyta allt í jóladóti og brjáluð jólatónlist hljómaði víðsvegar. Síðast þegar ég vissi var 15. nóvember og því eru ca 6 vikur til jóla. Ég er mikið jólabarn innra með mér og hef yndi af jólatímanum en mér finnst samt sem áður að berja ætti þá manneskju sem þessa ákvörðun tók til dauða með jóladótinu sem sett hefur verið upp. Jólin verða alltof hversdagsleg með þessari framkomu búðareigenda.
Það kom úr dúrnum að þetta lottó sem ég skrifaði um hér að neðan var bara eitthvað plat, öðru nafni kallast þetta ruslpóstur. Þetta gerir útslagið hvað ruslpóst varðar. Ruslpósturinn mun líklega valda því að þegar ég vinn svo loksins í þessu alheimslottói og fæ tölvupóst þess efnis, mun ég að öllum líkindum henda honum. Óheppinn.
Dömur mínar og herrar. Rétt í þessu, þegar ég athugaði póstinn minn á ftg@simnet.is e-mailið mitt, komst ég að því að ég var að vinna önnur verðlaun í alheimslottói einhverskonar án þess þó að muna eftir því að hafa tekið þátt. Þið getið búist við að sjá mig í fréttunum víðsvegar í fjölmiðlum á morgun og líklega út árið.

Nú er bara að gefa upp fullt nafn mitt, heimilisfang, visanúmer og bankabók ásamt leyniorði og ég verð einn af ríkustu Íslendingunum.

föstudagur, 14. nóvember 2003

Það gleður mig að tilkynna að eftir skokk kvöldsins komst ég að því að við það að hreyfa mig einu sinni í viku síðustu 4 vikur (samtals fjórum sinnum) hef ég náð þeim vafasama árangri að vera með úthald á við dapra sjötuga smástelpu. Helmingurinn af skokkinu er í blackout-i og hinn helmingurinn frekar óskýr. Ég man þó eftir að hafa kastað upp, reynt að stoppa bíla á bústaðaveginum og skriðið heim, grátandi. Þetta lífgar svo sannarlega upp á helgina sem annars hefði farið í lærdóm, utan körfubolta sem ég hyggst stunda á morgun upp úr kl 17:00.




Á þriðjudagskvöldið tók ég snarpa ákvörðun og fór í bíó með Gylfa, Kára og óþekktri þriðju manneskju sem var og er kvenkyns. Myndin heitir Matrix Revolutions en það er þriðja og síðasta myndin í Matrix þríleiknum sem hófst 1999. Gylfi hafði keypt miðana fyrr um daginn og bjóst ég ekki við öðru en venjulegum sætum í venjulegum sal. Þegar á hólminn var komið sá ég að um var að ræða svokallaða MMF (Mjög Mikilvægt Fólk) miða sem kosta rúmlega helmingi meira en þeir venjulegu. Í staðinn eru sætin af Latapiltungs gerð ásamt því að popp og gos er allt ókeypis. Að sjálfsögðu fengum við ekki nema fremstu sætin en aldrei þessu vant var það í fínu lagi. Við sáum þá bara myndina fyrst af öllum í salnum.
Allavega þá gerist þessi mynd aðallega í hinum "raunverulega heimi" þar sem hinar niðurbældu mannverur standa í stríði við vélarnar. Myndin er mjög skemmtileg, spennandi og áhugaverð í alla staði. Tæknibrellur eru til fyrirmyndar, eins og í hinum tveimur og eina slæma sem ég sá við hana er óþarfa og ósannfærandi væmni sem á sér stað hér og þar í myndinni auk þess sem inn í myndina eru fléttaðar einhverjar ógeðslegar hollywood sögur al a Armageddon.
Allt í allt skemmti ég mér konunglega í góðum félagsskap, þægilegum sætum og borðandi popp og drekkandi gos fyrir mörg þúsund krónur. Kvöldið fær fjórar stjörnur af fjórum en myndin þó aðeins þrjár af fjórum.
Ég hef bætt við ofurrollunum í hlekki, hverjar sem þær eru. Ástæðan er sú að þær hlekkjuðu á mig. Takk fyrir það.

fimmtudagur, 13. nóvember 2003



©kointernational.tk


Á laugardaginn er leikur í fyrstu deildinni í körfubolta sem vekur áhuga minn. Sá galli er á gjöf njarðar að hann er haldinn á Egilsstöðum. Höttur gegn ÍS eigast við eins og þið getið séð hér. Allir að mæta og hvetja Viðarslaust Hattarlið til sigurs.
Þá er loksins komin mynd á þessa síðu af snáða þeirra Styrmis og Lourdes konu hans og þar af leiðandi frænda mínum. Hér getið þið séð feðgana að leik. Magnaður krakki sem ég hlakka til að hitta í persónu, hvenær sem það verður.
Í nótt eyddi ég tíma mínum í að klára skilaverkefni fyrir rekstrarhagfræði. Vann til klukkan 4, þaðan var farið á select og ég verðlaunaður með beikonpylsu fyrir árangurinn. Þegar heim var komið plataði Óli Rúnar mig til að prófa FIFA 2003 (fyrir PS2) gegn sér og gekk það ágætlega framan af þó að ég tapaði alltaf. Ég ákvað að hætta ekki fyrr en ég myndi hitta á markið með Liverpool sem gekk loksins klukkan 7 og gat ég því farið að sofa sem ég og gerði.
Ég fæ ekki mikið af rokkstigum fyrir þessa nótt en þau tengjast töffarastælum einhverskonar að því er virðist og eru væntanleg á heimasíðu tunguvegs 18, en þar var þessari síðu einmitt nýlega bætt við.
Orðið af veftímariti þessu er orðið slíkt að fólk er farið að vitna í það í hvívetna. Hér er dæmi um góða tilvitnun, allt gert með leyfi mínu að sjálfsögðu.

miðvikudagur, 12. nóvember 2003

Það er mikið sjálfsalakassadrama í gangi í Háskóla Reykjavíkur þessa dagana. Ég keypti mér forlátt súkkulaði í gær á hundrað krónur, eins og svo oft, en í stað þess að fá eitt stykki duttu tvö í fang mér. Ég ljómaði allur upp og áleit mig heppnasta mann skólans í nokkrar sekúndur eða þar til ég var búinn að fjárfesta í kóki úr öðrum sjálfsölukassa á 100 krónur því þegar ég hugðist drekka innihald dollunnar reyndist þar vera verulega kæstur vökvi, semsagt eitthvað skemmdur. Þar sem allir voru farnir úr afgreiðslunni og ég hafði ekki geð í mér að bíða í matsölunni til morguns með gosið til að kvarta henti ég því og keypti nýtt, og úrelti þarmeð heppni mína sem fólst í því að fá tvö súkkulaðistykki á verði eins.

þriðjudagur, 11. nóvember 2003

Fyrir rúmri viku var ég truflaður við lærdóminn af ungri dömu sem var að safna í undirskriftarlista. Þegar ég athugaði betur sá ég að þarna var á ferðinni Ungfrú Ísland punktur is keppandi, hvorki meira né minna. Á meðan ég ritaði nafn mitt, kennitölu, bankanúmer og leyninúmer á spjaldið hennar velti ég því fyrir mér hvort ég ætti séns í hana. Stuttu eftir að hún yfirgaf herbergið fór ég að velta því fyrir mér undir hvað í ósköpunum ég hafi verið að skrifa. Ég vona bara að það tengist á engan hátt sjálfstæðis eða framsóknarflokknum, allt annað er skárra.
Ég bað nýlega lesblindan vin minn, sem les þessa síðu ekki að staðaldri, að reyna að segja mér hvernig hann sér síðuna mína. Hann teiknaði því mynd og hér er hún. Nú veit ég hvernig Gúmmi Tarzan leið... og auðvitað vini mínum líka.

mánudagur, 10. nóvember 2003

Í dag á myndasíðan mín eins árs afmæli. Það var semsagt þennan dag fyrir akkúrat ári sem ég setti inn slatta af myndum frá kjallarateiti okkar Björgvins í Tjarnarlöndum 14, kjallara en þaðan fluttum við í vor. Merkilegt hvað margt hefur gerst á þessu ári en um leið ekki neitt.
Allavega, hér eru fyrstu myndirnar. Ég hyggst svo innan tíðar, þeas þegar mér gefst tími, setja ca tíu til tuttugu bestu myndirnar frá upphafi upp. Í því verða örugglega myndir sem aldrei hafa birst áður.
Hrós dagsins fær Elsa Guðný fyrir að leiðrétta þennan misskilning hérna.
Það gleður mig að tilkynna að ritnefnd veftímaritsins Við rætur hugans mun að öllum líkindum eyða jólafríinu í að vinna á Heilsugæslustöð Egilsstaða við hitt og þetta. Eftir að móðir ritnefndarinnar hringdi og sagði frá því að það væri verið að leita að manneskju til að leysa af í einhverja daga þar hringdi ritnefnd og viti menn, það verður haft samband við mig með nánari upplýsingar um starfið sem bíður mín. Það er einróma álit okkar í ritnefndinni að þetta sé gleðiefni.
Þessi færsla er byggð á (sannri) bloggfærslu hjá Maggý:

Þið vitið hvernig Bachelor(ette) þættirnir eru; ríkur og myndarlegur karl velur úr hópi fallegra hóra eða öfugt. Það vill enginn viðurkenna það en útlitið og peningarnir skipta miklu máli þegar kemur að fólkinu sem valið er í þáttinn. Nú er hinsvegar kominn þáttur þar sem falleg kona velur úr foxljótum og ekki svo ríkum mönnum. Glæsilegt framtak hjá sjónvarpsstöðinni NBC. Hér getið þið séð konuna og mennina í lífi hennar.

sunnudagur, 9. nóvember 2003

Það eru blendnar tilfinningar sem ganga í gegnum heilabú mitt þessa stundina því klukkan 19:27 að staðartíma náði hár mitt sögulegri sídd. Það nær nú, ef greitt er á viðeigandi hátt, niður fyrir augu og er það í fyrsta skipti sem það gerist síðan 1987. Munurinn á þessu og síddinni 1987 er að andlit mitt hefur lengst umtalsvert frá því ég var níu ára gamall og þarmeð talið enni mitt sem segir mér að sögulegri sídd hefur verið náð.
Þetta er frekar skondin auglýsing. Afgangur hljómsveitarinnar Queen er farinn að eldast, en húmorinn eldist þó ekki af honum.
Gærdeginum var eytt í fjórar höfuðsyndir; ágirnd, reiði, græðgi og leti. Ágirnd var sú aðgerð að læra með Bylgju í HR til klukkan 16, þar sem ég horfði á eftir einni og sagði síðar við Bylgju að hún hafi verið mjög flott eintak af kvenmanni. Sú dauðasynd kom mér í koll þar sem við hittum hana aftur í kringlunni stuttu seinna og Bylgja hrópaði "Finnur, þarna er kærastan þín" sem gerði okkur (mig og kærustu mína) frekar vandræðaleg.
Reiðin tengist körfuboltanum sem ég stundaði frá klukkan ca 17 til 19:30. Þar var ég mjög reiður á tímabili yfir hæfileikaleysi mínu og varnarleysi liðs míns. Ég náði þó stjórn á reiðinni áður en eitthvað alvarlegt gerðist.
Græðgin er í sambandi við gærkvöldið þegar ég keypti mér alla heimsins óhollustu og hámaði í mig á meðan ég sat húðlatur við tölvuna á netinu eða við sjónvarpið.
Dagurinn í dag verður þó vonandi öðruvísi, andskotinn hafi það!

laugardagur, 8. nóvember 2003

Nú mega netverjar fara að vara sig því veftímarit þetta hefur fengið fyrsta styrktaraðilann. Á fimmtudaginn síðasta gaf MasterCard ritnefndinni tvær músarmottur og er þetta í fyrsta sinn í ca fjögur ár sem ég notast við þannig tækniundur. Síðasta motta var eyðilögð af ónefndum piltungi þegar ritnefndin spilaði við hann nba live 98 um árið og sigraði.
Með músarmottunum er ritnefndinni gert kleift að skrá mun fleiri færslur á mun minni tíma, sparandi allt að sjö prósent í orkubeitingu og tólf prósent í kostnaði. Fyrir það fær mastercard hlekk hér.
Öfgahópar hafa verið með múgæsingu síðustu daga fyrir utan Tunguveg 18, haldandi því fram að síða þessi sé á ýmsan hátt tengd djöflinum. Ég ákvað því að afsanna það í eitt skipti fyrir öll, fór á þessa síðu og lét hana ákveða þetta. Hér er niðurstaðan:


This site is certified 30% EVIL by the Gematriculator


Til að vera talinn djöfladýrkandi þarf síðan að vera meira en 50% ill. Þannig að hún sleppur fyrir horn. Ég býst við því að fólkið fyrir utan róist við þessa tilkynningu mína.

föstudagur, 7. nóvember 2003

Ný síða Tunguvegs 18 er fædd. Hönnuður er hinn mikli Guggur sem kýs að nota listamannanafnið Stuðmundur. Hér getið þið þesið hvað gerist hér á Tunguvegi 18 þó margt af þessu sé uppskáldað og persónulegar fantasíur Stuðmundar.
Rétt í þessu var ég að bæta metið í að vera enginn (enska = nobody). Ég kíkti á netsíðuna mína til að lesa um hvað ég skrifaði í rithamnum í gærkvöldi. Þegar mér var litið hægra megin í hlekkina og ætlaði mér að smella á gestabókina sá ég online töluna (talan fyrir neðan gestabókina) og hún var núll. Það var semsagt enginn að skoða síðuna að mér meðtöldum.
Metið í að vera enginn hef ég átt hingað til en það var að ennþá hefur ekki nokkur kvenmaður haldið hurð opinni fyrir mig hérna í háskólanum, þrátt fyrir að ég sé næstur á eftir þeim í gegn. Í vikunni til dæmis kom ég með lúkur fullar af skóladóti á eftir þremur stelpum sem, þegar ég hugsa betur út í það, ég held að hafi togað hurðina á eftir sér til að loka á mig.
Munið þið eftir Bob Goldthwait úr Police Academy myndunum? Þessi sem réði illa við röddina og var mjög sérstakur í alla staði? Ég sá hann í kvöld þegar ég horfði á CSI. Var búinn að horfa á allan þáttinn þar sem hann lék stórt hlutverk án þess að átta mig. Hann talaði eðlilega nema rétt undir blálokin þegar hann missti röddina aðeins of hátt. Þá stökk ég á fætur og öskraði upp yfir mig "BOB? BOB GOLDTHWAIT?" án viðbragða viðstaddra (Gústi var þarna og sofandi). Ég get þó huggað mig við það í kvöld þegar ég fer að sofa að þrátt fyrir að heimurinn sé á leið til helvítis þá lifir Bob Goldthwaith, ekki bara í minningunni heldur líka á sjónvarpsskjánum, sem kaldhæðnislega er besti vinur minn þessa dagana.

fimmtudagur, 6. nóvember 2003

Ef einhver kennari eða yfirmaður tilkynnir ykkur að nú eigið þið að vinna í bókhaldsforritinu Navision þá mæli ég með því að þið stökkvið út um gluggann frekar. Ég hef nú eytt tveimur tímum í þetta óaðgengilega, óskýra, bjánalega og illa gerða forrit á milli þess sem ég reyni að hemja mig frá því að brjóta skjáinn. Þvílíkt og annað eins rusl! Og svo er þetta notað í flestum fyrirtækjum landsins. Fólk er fífl en þó aðallega hálfvitinn sem hannaði þetta. Í þessu eru endalausir smágallar sem geta gert sallarólega endurskoðendur að blóðþyrstum fjöldamorðingjum á nokkrum mínútum.

Þessi færsla var í boði navision.is. (Ekki hika við að hafa samband við mig hér ef þið viljið bjóðast til að styrkja einhverjar færslur)
Á laugardagsnóttina fékk ég eftirfarandi smáskilaboð í símann minn frá vit, sennilega af þessari síðu þar sem ég gef upp hlekk hérna í hægra horni uppi til að senda á mig SMS; „Mig þráir í kynlíf...“ að sjálfsögðu nafnlaust.
Það greip mig örvænting eins og venjulega, ég horfði á símann í rúmar tíu mínútur og táraðist að lokum. Þetta eru þó hreinskilnustu og skemmtilegustu skilaboð sem ég hef fengið í langan tíma, þrátt fyrir þágufallssýki sendanda og þá staðreynd að þetta er líklegast aumt grín.
Meira svona, minna grín!
Klukkan er 4 að degi og ég var að uppgötva mér til skelfingar að ég er bara búinn að borða eitt stykki lítið hraun súkkulaði og drekka eina litla kók dós í allan dag. Ég er þó ekkert svangur. Ég finn smá til í lærleggjunum og dreg þá ályktun að líkaminn hefur hafið niðurrifsstarfsemi þar sem fituforði minn er uppurinn.

Það er yndislegt að vera aumur nemi með yfirdrátt.

miðvikudagur, 5. nóvember 2003

Ég lofaði ykkur víst stafrænum rjómaís hér eftir fyrirlesturinn sem fram fór í dag. Gjörið svo vel.
Tveir heiðursmenn hafa nýlega smellt hlekk á mig á síðurnar sínar. Það er því meira en sjálfsagt að hlekkja á þá til baka og þakka kærlega fyrir hérmeð. Þeir eru Maggi Tóka sem er athafnamaður og Ingvar Risi en hann er stór. Meira veit ég ekki um þessa menn nema þeir hafa báðir hætt í íþróttum til að einbeita sér að drykkjunni. Gott hjá þeim.
(kaldhæðni)Það velta því eflaust margir fyrir sér hvernig ég plana dagbók þessa (/kaldhæðni) og ég útskýri það hérmeð. Ég er með litla minnisbók með mér hvert sem ég fer og skrái í hana allt sem mér dettur í hug sem passað gæti á bloggið. Það er allt og sumt.

Það bar því til tíðinda síðustu þrjá daga þar sem ég var ekki í námundan við tölvu og skrifaði því ógrinnin öll af hugsunum. Ég nefnilega byrjaði á blaðsíðu númer 10, sem er ágætis árangur (ein hugmynd í hverja línu). Að því tilefni ákvað ég að muna sérstaklega hvað fyrsta hugmyndin að bloggi var á blaðsíðu númer 10 og rita sérstaklega ítarlega um það.

Hugmyndin var semsagt sú að skrifa um það að ég er kominn með 10 blaðsíður af blogghugmyndum og að blogga ítarlega um fyrstu hugmynd tíundu blaðsíðu.
Í dag klukkan 14:17 í Háskólanum í Reykjavík var haldinn fyrirlestur af hópnum E-plus. Hér eru nokkrar staðreyndir um fyrirlesturinn:

1. Fjallaði um innri markaðssetningu fyrirtækja
2. 20 mínútna langur
3. Talað á ensku
4. Í hópnum var ég ásamt fimm stúlkum
5. Hópurinn bauð upp á samlokur og kók fyrir hlustendur (styrkt af vífilfell og sóma)
6. Þrjár af stelpunum töluðu
7. Hann gekk illa

Ég hef ekki hugsað um annað en þennan fyrirlestur síðustu ca sex daga, vann samtals í honum um 40 tíma síðustu 3 daga. Þessi dagsetning (5. nóv.) hefur verið föst í hausnum á mér frá því að skólinn byrjaði vegna þessa fyrirlesturs. Þessi færsla er því ákveðin lokun á þetta mál og nú hyggst ég halda áfram með líf mitt.

þriðjudagur, 4. nóvember 2003



Mögnuð kvikmynd!


Föstudaginn síðastliðinn var haldið heljarinnar teiti á Tunguveginum þar sem meðalaldurinn var rúmlega helmingi hærri en venjulega, eða ca 16 ár. Eins og venjulega kaus ég að taka ekki þátt í áfengisgleðinni heldur hélt mig í herberginu þar sem ég horfði á skjá 1. Þegar fólk byrjaði að drepast hvert um annað frammi og öskrin og lætin minnkuðu byrjaði ég að horfa á magnaða mynd sem ég leigði mér fyrr um kvöldið. The Pianist kemst líklega í topp 10 myndir sem ég hef séð um ævina. Hún fjallar um gyðingafjölskyldu í seinni heimstyrjöldinni hvernig vonir þeirra verða að engu og hversu hroðalegt þetta stríð var. Adrien Brody fer á kostum ásamt vel flestum öðrum leikurum. Ég mæli svo mikið með þessari að ég næ varla andanum. Fjórar stjörnur af fjórum.

Þegar ég var búinn að horfa á myndina, um klukkan 4, ákvað ég að kíkja fram og athuga hvernig húsið liti út eftir partýið. Þessi mynd náðist af mér þar sem ég var staddur í stofunni.

mánudagur, 3. nóvember 2003

Við hverju búast þessir hálfvitar, myrðandi fólk undir verndarvæng bandaríkjanna??
Ég gleymdi alveg að segja frá því á sínum tíma þegar ég ræddi sallarólegur um myndina SWAT hérnaReg E. Cathey er í stóru hlutverki þar. Það muna allir eftir honum úr bestu mynd allra tíma; Seven þar sem hann lék líkskoðarann. Það er gaman að sjá að átta árum eftir Seven sé hann loksins að slá í gegn.
Ég las snöggvast í gegnum þetta og get mælt með þessu heilshugar. Hvernig væri að fólk fari aðeins að hugsa rökrétt í þessum heimi og hætti þessari vitleysu?
Konni Pella, sem dags daglega vinnur í BT á Egilsstöðum, hefur fundið sér framtíðarstarf sem leikari í breskum smokkaauglýsingum. Hér getið þið séð hann í einni slíkri í hlutverki kraftlyftingarmanns í gulum bol. Hann smellpassar í hlutverkið og skilur áhorfandann eftir veltandi því fyrir sér hvernig hann hafi farið að þessu sem þarna fer fram.

sunnudagur, 2. nóvember 2003

Þessi færsla er skráð með það að leiðarljósi að láta sunnudag þennan ganga ekki í gegn blogglausan. Ég náði semsagt að bjarga mér frá aðhlátursefni bloggheimsins en það munaði þó litlu, aðeins þremur mínútum.

Ástæðan fyrir kæruleysi þessu er ekki leti, ritstífla eða vankunnátta heldur tímaleysi því ég hef eytt síðustu 12 tímum í að vinna hópfyrirlestursverkefni með fjórum stúlkum, sem allar bera nafnið Eva nema ein. Næstu tveir dagar verða frekar uppteknir en ég reyni mitt besta að koma skoðunum mínum áfram áleiðis í gegnum þessa síðu.
Eftir fyrirlesturinn, sem verður á miðvikudaginn mun ég bæta ykkur þetta með stafrænum rjómaís eða einhverju álíka góðu.

laugardagur, 1. nóvember 2003

Það gleður mig að tilkynna að ég er orðinn frægasti Finnurinn á netinu. Þá niðurstöðu fékk ég með því að slá inn "Finnur" á google.com og fá mig efast á listann. Prófiði bara sjálf.
Var að enda við að lesa í fréttablaði dagsins að á næstunni muni vera gefinn út DVD diskur með bestu senum Radíus bræðra! Ég meig á mig um leið og ég ældi af spenningi en ég hef löngum verið nefndur, ásamt bræðrum mínum og nokkrum vinum, einn mesti aðdáandi þeirra Radíus bræðra. Á disknum verða Limbó þættirnir og allar radíus flugur þeirra bræðra úr dagsljósi og líklega þættirnir á laugardagskvöldunum ásamt spjalli þeirra bræðra um senurnar og hvernig hugmyndirnar urðu til. Lífið hefur öðlast tilgang á ný.

Ó já, tvíhöfði verða víst líka eitthvað á disknum en þeir eru mun slappari og mér nokk sama um þá drullukeppi.
Lubbi Klettaskáld bregst ekki bogalistin í þessu ljóð frekar en venjulega. Þetta ljóð er líka ótrúlega glæsilegt. Ég mæli mjög með því að fólk versli sér eitt stykki af ljóðabókinni hans, Svart á hvítu. Þær gerast ekki betri, fást í Mál og Menningu á laugarveginum og í kringlunni.