miðvikudagur, 31. október 2007

Ernest Hemingway var eitt sinn beðinn um að skrifa sex orða sögu. Hann gerði það og sagði söguna sitt besta verk, sem segir að stuttsagan sé góð, þar sem bækurnar hans seldust í kílótali. Sagan er eftirfarandi: For sale: baby shoes, never used. (Ísl.: Til sölu: barnaskór, aldrei notaðir. Bömmer.)

Ég var eitt sinn beðinn um að skrifa sex orða sögu, áðan nánar tiltekið af Jónasi. Ég gerði það og segi hérmeð að sögurnar sem ég samdi séu mín bestu verk, sem segir ekkert þar sem allt annað sem ég hef skrifað er rusl.

Allavega, hér eru sögurnar tvær:

I hate fucking kids, PeeWee said. (Ísl.: "Allt vitlaus á kaffihúsinu" sagði PeeWee).

"Ég elska þig!" Internetið svaraði ekki.

Ef einhver hefur sögu, skrifið hana í athugasemdirnar. Ég áskil mér rétt til að gefa söguna út í kilju.

þriðjudagur, 30. október 2007

Þegar hingað er komið við sögu er viðhaldskostnaður við bílinn minn kominn yfir kr. 300.000 á ca 22 mánuðum. Hér er svo listi yfir það sem er að honum:

* Þarfnast olíuskipta.
* Bílstjórahurðin er illa einangruð. Hún víbrar þegar ég öskra með lögum.
* Það er sláttur í gólfinu þegar ég beygi bílnum.
* Rúðuþurrkan í bakrúðunni fer í vitlausa átt þegar ég reyni að nota hana (þurrkar ekki rúðuna heldur það sem er fyrir neðan hana. Ekki spyrja.
* Lásinn á framhurðinni er að detta úr.
* Viftudót bílstjóramegin er brotið, einhvernveginn.
* Takkasamlæsing virkar ekki.
* Handfang að skottinu er brotið.
* Mjög pirraður náungi situr oft í honum (ég).
* Öryggispúðaljós í mælaborðinu er stundum kveikt að óþörfu.
* Beyglaður að aftan (fylgdi með í kaupunum).

En hver er ég að kvarta? Ég er ekkert skárri sjálfur. Hér eru mín meiðsl:

* Með biluð hné.
* Með bilaðan neðanverðan hægri fótlegg.
* Með vöðvabólgu sem hverfur ekki.
* Tognaður á handarbaki hægri handar.
* Grænmetisæta.
* Með fullt af gráum hárum.
* Smámunasamur.
* Neikvæður.
* Með bólu við nefið.
* Beyglaður í framan.
* Öskra "mella!" of oft.
* Og svo framvegis.

Ég veit ekki hver ég þykist vera að kvarta yfir bílnum. Ég er heppinn að hann vilji umgangast mig.

mánudagur, 29. október 2007

Ég hef áreiðanlegar heimilir fyrir því að ég sé að vinna í nýrri bloggsíðu. Meira um það síðar, þegar hún hefur tekið á sig mynd.

Heimildarmaður minn segir síðuna opnast í vikunni eða þegar hann hefur tíma til að vinna í henni.

Meira vildi hann ekki gefa upp.
Um helgina borðaði ég nánast ekkert nammi. Eftir þá martröð poppaði andlitið á mér út í bólum. Ég dreg því á ályktun að fráhvarfseinkenni frá nammi framkalli bólur í andlitið á mér.

Af virðingu við líkama minn hef ég því ákveðið að borða nammi daglega hér eftir og mikið af því.

Það mun taka mikinn viljastyrk og þetta verður erfitt, en ég hef það á tilfinningunni að líkami minn muni þakka mér síðar.

sunnudagur, 28. október 2007

Í gærkvöldi orgaði ég úr hamingju á bílnum mínum, Peugeot 206, þegar mér tókst loksins að spóla í hringi á einhverju plani. Ég taldi mig vera kominn í hóp simpansana sem eru á alltof kraftmiklum bílnum, spólandi í hringi fyrir ungar mellur. Sú hamingja varð þó að engu þegar það kom í ljós að ég var spólandi og öskrandi út um gluggann í fljúgandi hálku á sumardekkjum. Ömurleg vonbrigði.

föstudagur, 26. október 2007

Síðustu helgi lék ég leik með Álftanesi gegn ÍBV í körfubolta, eins og margoft hefur komið fram (blogglægð). Eftir leikinn var ég skipaður Framkvæmdastjóri tölfræðiútibús Körfuknattleiksdeldar Ungmennafélags Álftaness. Þetta er þriðja staðan mín innan félagsins. Af virðingu við lesendur mína kýs ég að skrifa ekki hina tvo titlana.

Allavega, ég hef loksins skráð niður tölfræði leiksins, eða þá tölfræði sem ég fæ af þessum bölvuðu ruslskýrslur sem notaðar eru í íslenskum körfubolta.

Tölfræðina er að finna hér.
Í dag keypti ég minn fyrsta geisladisk í amk 4 ár. Diskurinn sem varð fyrir valinu er sá nýjasti með Proclaimers og heitir Life with you. Ég hefði sennilega aldrei keypt diskinn ef ég væri ekki trylltur aðdáandi þeirra tvíbura.

Sem fær mig til að hugsa og fatta eitt. Ég held upp á þrjár hljómsveitir sem byrja á Pro. Þær eru Proclaimers, Prodigy og Propellerheads.

Þannig að ef einhver ætlar að stofna hljómsveit þá eru mjög miklar líkur á því að ég verði aðdáandi ef viðkomandi lætur hana byrja á Pro. Ég legg til nafnið Probability Distribution Function (Ísl.: Líkindadreifingarfall).

fimmtudagur, 25. október 2007

Ég hef loksins jafnað mig á því að fyrrum uppáhaldsþættirnir mínir, Boston Public, hættu fyrir ca 3 árum. Ég hef lært að treysta þáttum aftur og hef eignast nýjan uppáhaldsþátt. Nýji þátturinn heitir Dexter og fjallar um blóðmeinafræðing sem stundar fjöldamorð í frístundum.

Ekki nóg með að ég fái unaðshroll um allan líkama við að horfa á hann heldur er byrjunin á þættinum sú magnaðasta sem ég hef séð um ævina. Ég skora á alla að hætta að horfa á friends og annað rusl og byrja að horfa á Dexter. Ég treysti honum nógu vel til að halda ekki framhjá mér.

Hér er byrjunin:2. sería af Dexter byrjar fljótlega á Skjá einum.
Síðastliðin vika hefur verið mjög súrrealísk. Í henni gerðust þrír atburðir sem ég hélt að gætu ekki gerst. Hér er upptalningin:

* Ég kláraði að lesa bók. Hún heitir Gemsinn (E. Cell) eftir Stephen King (Ísl. Hörður Kristinsson). Rúmar 350 blaðsíður! Á ekki nema 7 mánuðum. Hún var frekar væmin og asnaleg.

* Bíllinn minn komst í gegnum skoðun. Eftir bara eina endurskoðun og 31.000 krónur í viðgerð, lýtaaðgerðir og mútur.

* Ég varð ekkert var við rigningu á sunnudaginn síðasta í Reykjavíkinni. Það eina sem ég þurfti að gera var að fara ekki út úr húsi.

miðvikudagur, 24. október 2007

Matur hefur verið borðaður, þvottur þveginn og myndir frá Vestmannaeyjaferðinni uppfærðar á nýju myndasíðuna. Kíkið á þær hér.

Næst á dagskrá er að skrifa bloggfærslu. Það gæti tekið smá tíma.

þriðjudagur, 23. október 2007

Ein aðstaða er til sem gæti sett alla enska stafsetningu í uppnám og kollvarpað hugmyndum vísindamanna um rökrétta hugsun. Sú aðstaða er ef að söngkonan Cher myndi byrja að drekka te af svo miklum áhuga að hún myndi vilja sameina nafn sitt áhugamálinu. Úr yrði nafnið TeaCher.

Tea-Cher yrði borið fram Tí-sjer.

Orðið teacher er nú þegar til og þýðir kennari. Það er hinsvegar borið fram tít-sjer.

Þarna gæti Cher, með smá lagni, látið fella niður seinna té-ið úr framburðinum á orðinu teacher (kennari) eða látið bera nafn sitt fram eins og um væri að ræða kennara (TeaCher).

Annað áhugavert:
Stafurinn t er borinn fram "té", sem er mjög líkt orðinu te, sem Cher þyrfti einmitt að drekka til að breyta þessu öllu. Ótrúlegt.

Heimildaskrá:
Andrésblað númer 12 2007.
Skæri.
Eftir nýliðna helgi hef ég uppgötvað hversu stórkostlegt lífið er. Núna, sama hversu illa mér líður eða slæmar aðstæðurnar eru, get ég alltaf bætt við "en ég er þó ekki um borð í Herjólfi [að æla]" og ljómað af hamingju.

Annars var ég að togna á hægri hendi á æfingu í gær. Frekar óheppileg tognun fyrir körfuboltann en ég er þó ekki um borð í Herjólfi.

Ég mun birta myndir frá keppnisferðinni til Vestmannaeyja fljótlega. Netið datt út heima fyrir helgi og hefur ekki dottið inn aftur. Þegar það gerist, detta myndir inn líka. Þangað til verð ég að bíða eftir því að Síminn nenni að gera við bilunina. Stórkostlega ömurleg þjónusta þar, en ég er þó ekki um borð í Herjólfi.

mánudagur, 22. október 2007

Ég hef snúið aftur frá Vestmannaeyjum, þar sem körfuboltaliðið mitt spilaði gegn ÍBV.

Ferðasagan:

Laugardagur
10:00 Lögðum af stað til Þorlákshafnar þar sem við tókum Herjólf til eyja.
12:00 Herjólfur leggur af stað.
12:03 Ég byrja að æla.
13:30 Nokkrir aðrir í liðinu byrja að æla.
15:00 Herjólfur kemur til eyja.
15:25 Ég hætti að æla.
17:00 Leikurinn gegn ÍBV byrjar. ÍBV 87 Álftanes 74. Daði stigahæstur með 33 stig. Ég með 6 stig, 3 fráköst, 3 blokkeringar og enga ælu á 15 mínútum. Við áttum að vinna þetta.
19:00 Búnir að koma okkur fyrir á gistiheimili og förum út að borða.
21:00 Póker spilaður. 10 manna mót, sem ég vinn.

Sunnudagur
01:00 Leikmenn fara út að skemmta sér. Ég fer að sofa.
03:00 Leikmenn fara að týnast inn. Ég vaki.
07:00 Leikmenn vakna og fara með Herjólfi til baka. Ég, Davíð og Gutti neitum að fara í Herjólf og ætlum að fljúga kl 12:00.
12:00 Flugi frestað.
15:00 Reddum flugi að Bakka. 6 mínútna flug = 2.500 krónur.
15:06 Leigjum bíl og keyrum til borgarinnar.
15:30 Ég fæ miklar æluharðsperrur.
18:00 Komnir í bæinn, búnir að skila bíl og í vondum gír.

Þó að lítið hafi gengið upp í þessari ferð var hún ótrúlega skemmtileg.

Ég vil ítreka ælutíma minn. Hann er ekki ýkjur. Ég ældi af miklum ákafa og áhuga í rúmar 3 klukkustundir án þess að stoppa. Þarmeð hef ég sannað það endanlega að ég er ekki kominn af víkingum, heldur kominn af frumbyggjum Íslands.

fimmtudagur, 18. október 2007

Ég hef verið valinn í lið Álftaness í körfubolta fyrir næsta leik. Þetta kollvarpar öllum mínum plönum fyrir framtíðina. Ég fer um helgina til Vestmannaeyja að spila gegn ÍBV.

Í kjölfarið get ég ekki lengur sagst aldrei hafa farið til Vestmannaeyja, sem veldur því að ég verð hrókur alls fagnaðar í flestum, ef ekki öllum partíum eftir helgina. Rökrétt framhald væri svo að segja upp vinnunni til að einbeita mér að körfunni og partíunum, sem leiðir til dópneyslu og líklega sjálfsvígs fljótlega eftir það.

Ótrúlegt hvað lífið breytist fljótt. Ég get ekkert gert í þessu. Það var ekki ég sem valdi í liðið.
Síðasta bloggfærsla var bloggfærsla númer 3.000 á þessari síðu. Fáránlegt! Þá er kominn tími á tölfræði.

Ég byrjaði að blogga 3. október 2002 og hef því bloggað í 5,04 ár eða í 1.841 dag. Ég steingleymdi að halda upp á 5 ára afmælið fyrir 15 dögum síðan, sökum nammivímu.

Ég hef skrifað 1,63 bloggfærslur á dag í þessi rúm 5 ár eða 595 bloggfærslur á ári. Þar af hef ég hætt að blogga tvisvar, í annað skiptið í meira en mánuð.

Hver segir svo að ég sé einmanna, sorglegur og ömurlegur nörd sem kann ekki að nýta tíma sinn í eitthvað gáfulegt? Ekki ég.

miðvikudagur, 17. október 2007

Ég hef verið seldur frá Hetti á Egilsstöðum til Íþróttafélags Álftaness fyrir 1.000 krónur! Álftanes borgaði ekki og Höttur fékk ekki peninginn heldur fóru þessar 1.000 krónur frá mér til KKÍ fyrir félagaskiptin.

Það er eitt að vera verðlaus íþróttamaður en annað að þurfa að greiða sjálfur fyrir söluna á sér.

þriðjudagur, 16. október 2007

Í dag verslaði ég inn. Eftir að ég kom heim og raðaði innkeyptu efni í ísskápinn og fleiri skápa kom meðleigjandi minn inn og fór í eldhúsið.

Þetta heyrðist í honum skömmu síðar:
"Fuck"
"Ef ég vissi ekki hver væri að leigja með mér myndi ég halda hann vera 250 kíló"
"Hvernig geturðu ekki verið allur í bólum og ógeðslegur?"

Tvennt lærði ég á þessu:
* Ég er ekki ógeðslegur, sem er gott.
* Það mistókst að versla bara hollan mat í dag. Það mistókst eiginlega að versla ekki bara nammi í dag. Sem er vont.

mánudagur, 15. október 2007

Ég hef ákveðið að hætta aldrei að vinna. Þó mér finnist ömurlegt að vinna þá finnst mér enn leiðinlegra að tapa.

Þessi fer beint í brandarabókina mína „Hvernig á að slá í gegn í partíum“ sem kemur vonandi út fyrir þessi jól.
Þegar maður er niðurlútur er gott að láta hressa sig við. Þetta má setja í eitt orð, en það er ljótasta orð íslandssögunnar. Veist þú hvert orðið er?

Nokkrar vísbendingar:
* Orðið sem um ræðir er 7 stafir á lengd, þar af eru 5 af þeim stöfum sami stafurinn eða 71,43%.
* 5 af síðustu 6 stöfum orðsins er þessi umræddi stafur, sem þýðir að orðið byrjar ekki á algengasta stafi orðsins.
* Niðurlútur maður, sem þurfti á meiningu orðsins að halda einn slæman veðurdag, kastaði upp yfir sjálfan sig við að heyra orðið.
* Ef orðinu er snúið við þýðir það ekki neitt.
* Ef stöfum orðsins er skipt út fyrir stafina f, i, n, n, u og r þá kemur nafnið mitt fram í orðinu.

Getið nú (í athugasemdum) hvert orðið er.

sunnudagur, 14. október 2007

Í dag tók ég þátt í tveimur keppnum.

Fyrri keppnin var sveitaskákmót, þar sem ég keppti á 6. borði sveitar austurlands. Eftir að hafa kviðið fyrir því í rúma viku, með viðeigandi blóðælum, að sitja og tefla í 4-6 klukkustundir, náði ég að merja sigur á 20 mínútum eftir 21 leik. Andstæðingur minn var 13 ára stelpa, sem er talsvert merkilegt þar sem ég er 7 ára strákur andlega. Ég held að sveitin hafi unnið umferðina. Ég rauk á dyr, kviknakinn yfir velgengni minni.

Hin keppnin var annar vináttuleikur í körfubolta gegn Glóa, sem við unnum 50-46. Það mun ekki nokkur lesandi trúa þessu en ég náði í byrjunarlið. Hér er línan mín:


Ég mun, eins og alþjóð sér, ekki ná í byrjunarlið aftur.
Ég er ekki frá því að friðarsúlan, sem kveikt var á við vandræðalega viðhöfn um daginn, sé að virka. Ég fór í bíó áðan og lenti ekki í neinum slagsmálum eða ófriði.

Allavega, sá myndina The brave one í bíó. Myndin er byggð á ósannsögulegum atburðum en hún fjallar um konu sem verður fyrir ófriði í formi barsmíða og reiðist í kjölfarið. Hún er nokkuð góð. Ég myndi gefa 7 af 10 í einkunn eða 2,8 stjörnur af fjórum.

föstudagur, 12. október 2007

Hér er gagnrýni dagsins:

Vinnan: Fjallar um vinnslu á tölfræði og uppsetningu skýrslna fyrir stjórnir og fundi. Í aðalhlutverki er ég og nokkrir vel valdir samstarfsmenn í aukahlutverkum. Nokkuð vel leikinn dagur. Afgreiðslustelpan sem veit alltaf hvað ég fæ mér kom sterk inn og lífgaði upp á annars dauft handrit. Dagurinn, sem er leikstýrt mjög illa, endaði snögglega klukkan 15:00 á þeim nótum að aðalhetjan tók sér frí út daginn.
Tvær stjörnur af fjórum.

Draumur: Framhald af vinnunni (sjá að ofan). Eftir vinnuna leggur aðalhetjan sig og dreymir ferð austur. Draumurinn er hálfgerð martröð. Illa samsett handrit og óhugnarleg atriði valda því að ég gekk út úr þessum draumi.
Hálf stjarna af fjórum.

Keila: Um kvöldið var farið í keilu. Í aðalhlutverki voru ég, Helgi bróðir, Björgvin bróðir, Svetlana spúsa Björgvins og Elmar Logi, auk nokkurra aukahlutverka (afgreiðslustelpa, öryggisverðir og spilendur á næstu braut). Vel leikið atriði sem endaði á því að ég hrósaði sigri með því að renna mér niður eina brautina ber að ofan. Óvæntur endir. Fjórar stjörnur af fjórum.

Í heildina fínn dagur að baki. Meira svona. Fram með höfundinn!

fimmtudagur, 11. október 2007

Ég lenti í áhugaverðum slagsmálum í morgun. Slagsmálin snérust ekki um hvort ég rotaðist eða ekki, heldur hvort ég vaknaði af rotinu eða ekki.

Það var ekki fyrr en í 12. lotu að ég var sleginn endanlega upp af vekjaranum, sem ég hafði slegið niður 11 sinnum, án þess að ná að rota hann eða drepa.

Ég mætti svo aðeins of seint í vinnuna vegna bardagans, með glóðarauga á heilanum og blóðnasir í augunum úr þreytu.

miðvikudagur, 10. október 2007

Í gærkvöldi ákvað ég, eftir að hafa sofnað í sófanum og misst af öllu því sem ég ætlaði að horfa á (Nágranna), að fara í samfesting, setja á mig öryggisgleraugu og mála eitt stykki listaverk.

Þegar kvöldinu var lokið hafði ég klárað tvær myndir. Hér að neðan er sú seinni:Þessi mynd táknar það svartnætti sem blasir við með hækkandi stýrivöxtum og hvernig það getur haft áhrif á grundvöll alls lífs (jörðin). Eftir liggur auðnin og eyðileggingin eftir fjármálastefnu seðlabankans. Það, og að ég þurfti að klára málninguna sem var afgangs eftir fyrri myndina, sem er ekki fólki með augu bjóðandi.

Myndin selst á 149 krónur, eða hæstbjóðanda.

þriðjudagur, 9. október 2007

Ég tók nokkur vel valin heljarstökk af ánægju um daginn þegar ég frétti að ég ætti um 20.000 vildarpunkta hjá Flugfélagi Íslands. Vildarpunktum safnar maður með óheilbrigðri neyslu og þeim má eyða með enn meiri neyslu, helst hjá Flugfélagi Íslands skilst mér.

Þegar ég ætlaði svo að nota þessa punkta til að bjóða Helga bróðir til Reykjavíkur um helgina rakst ég á skemmtilegan vegg.

Svo virðist sem aðeins örfá sæti í hverja vél eru notuð sem "punktasæti" og þessi sæti er uppseld fram að jólum. Samkvæmt leiðbeiningum á vefsíðu þeirra á maður að panta flugmiðann með amk 3ja daga fyrirvara. Góð ráðlegging.

Ekki nóg með þetta, því að borga með þessum punktum er ekki nóg. Flugfélagið tekur kr. 2.000 í þjónustugjald og skatt upp á rúmlegar 700 krónur á hverja lendingu.

Þannig að far, fram og til baka, til og frá Egilsstöðum myndi kosta mig 18.000 punkta og 3.400 krónur, að því gefnu að ég panti far með 3ja mánaða fyrirvara.

Snilldarþjónusta hjá þessu frábæra einokunarfyrirtæki. Ég er snarhættur í vildarklúbbinum. Ég vildi bara að ég gæti tekið heljarstökkin til baka, þar sem ég lenti einu sinni á andlitinu.

mánudagur, 8. október 2007

Í kvöld komst ég býsna nálægt botninum í matseld þegar ég brenndi pizzu sem þurfti bara að hita lítilega upp.

Eina leiðin fyrir mig að fara neðar er ef ég kveiki í eldhúsinu við að fá mér cheerios í mjólk eða missi handlegginn við að hella kók í glas.
Það er komið að nýju fötin keisarans vikunnar:

Veðramót, nýjasta íslenska bíómyndin þegar þetta er ritað, er lofuð í hvívetna. Fólk keppist um að öskra hrósin eftir að hafa séð hana og gekk einhver svo langt að segja hana eina bestu íslensku myndina hingað til. Hér er minn dómur:

Veðramót er ein leiðinlegasta íslenska bíómyndin hingað til. Ekki nóg með að sagan sé óáhugaverð og hundleiðinleg, persónusköpunin tilgerðarleg og ómerkileg og endirinn hræðilegur, þá kostar líka kr. 1.200 inn á hana. Leikurinn er reyndar ágætur, þegar fólk er ekki slefandi úr ofleik. Dæmigerð íslensk drama mynd um ekki neitt. Artí fartí viðbjóður. Hálf stjarna af fjórum fyrir fallegt landslag.

sunnudagur, 7. október 2007

Eftirfarandi video ætti að höfða til eftirfarandi hópa:

a) Körfuboltaáhugamanna.
b) Áhugafólk um dramatíska tónlist.
c) Stelpna og samkynhneigðra karlmanna sem eru fyrir elgmassaða blámenn.Annars er það að frétta að ég fór yfir á rauðu ljósi í dag án þess að fatta það. Engin lögga var á staðnum þannig að ég refsaði sjálfum mér með því að fleygja 20.000 krónum plús smámynt út um gluggann.

laugardagur, 6. október 2007

Á valhoppi mínu um Kringluna í dag rakst ég á hina fullkomnu gjöf fyrir vinkonu mína. Ég vil ekki vera dónalegur við hana, heldur finnst þægilegra að gefa henni mjög duldar vísbendingar um álit mitt á henni.

Gjöfin fæst í þremur bragðtegundum.

Í þessari nýju íbúð minni eru 57 naglar sem skildir hafa verið eftir í veggjunum, sennilega til að halda húsinu betur saman. Þetta getur verið frekar hættulegt, sérstaklega þegar maður er hlaupandi nakinn og öskrandi um íbúðina, missandi stjórn á sér og lendandi á veggjunum.

Allavega, ég hef fundið stórkostlega lausn á vandamálinu. Hengja myndir á naglana!

Ég hef keypt 58 striga til að mála á (ég geri ráð fyrir að ég geri 1 mistök). Allt sjálfsmyndir að sjálfsögðu.

Hlakka svo að bjóða vinum í heimsókn. Það verður ekkert óhugnarlegt, ég lofa.

Allavega, ég verð upptekinn næstu 2 vikurnar. Ekki trufla.

föstudagur, 5. október 2007

Í fyrsta sinn er ég talsvert feginn því að þurfa að ganga með gleraugu. Ég var að þurrka af þeim með peysunni, eins og ég geri stundum þegar mér leiðist, og voru þau svo skítug að ég þarf sennilega að fleygja peysunni, brenna og mögulega biðja peysuguðinn afsökunnar í formi dans.

Ef ég notaði ekki gleraugu væru þessi óhreinindi í augunum á mér og ég þyrfti líklega að láta fjarlægja þau. Ég vorkenni fólki sem notar ekki gleraugu, þó ekki væri nema bara öryggisgleraugu.

fimmtudagur, 4. október 2007

Ég hef ekki frá neinu að segja.

Ég hef ekki frá neinu að segja af því það hefur ekkert merkilegt gerst hjá mér.

Það hefur ekkert gerst hjá mér af því ég hef ekki orku í að gera neitt.

Ég hef ekki orku í að gera neitt því ég fer alltaf of seint að sofa.

Ég fer alltaf of seint að sofa af því ég sit fyrir framan tölvuna, horfandi á tóman skjáinn, bíðandi eftir að ég fái hugmynd að góðu bloggi.

Loksins fékk ég eina. Ég ætla að fara að sofa.
Það vita það ekki margir* en ég var með skjannahvítt hár þegar ég var ungur. Sérfræðingar segja mig hafa orðið gráhærðan svona langt fyrir aldur fram en þetta virðist hafa elst af mér.

Allavega, í fyrsta sinn býð ég upp á myndir frá æsku minni.

Varúð! Fólk sem er hrætt við Children of the corn börnin, ekki skoða myndirnar. Hér eru þær.

* margir = allir.

miðvikudagur, 3. október 2007

Þetta kann kannski að hljóma heimskulega en það er hægt að láta allt hljóma vel á gáfumennskugrundvelli með því að bæta orðinu "grundvöllur" við setninguna í einhverju formi.

Trúið mér ekki? Prófið bara sjálf, á athugasemdagrundvelli.

þriðjudagur, 2. október 2007

Verið óhræddir lesendur, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag fjórfari fæddur, sem er Kristján Orri, á vefsíðu fjórfaranna. Kíkið á þá hér.

mánudagur, 1. október 2007

Það er komið að prófi!

Takið það hér.

Hann/hún/það/þeir/þær/þau sem verður/verða gómaður/gómuð/gómaðir/gómaðar við svindl verður/verða...

....ekki svindla! Það er meiri skömm en heiður að fá fullkomið skor.
Ég komst að því í dag að allt getur versnað, sama hversu slæmt það er fyrir. Þessi hugljómun átti sér stað þegar maður, sem ég tel vera leiðinlegasta mann jarðkúlunnar, fékk sér tyggjó. Allir óþolandi menn verða meira óþolandi með tyggjó upp í sér.

Það er lærdómur dagsins.
1. október er mættur og hvorki meira né minna en 106 athugasemdir komu á síðuna í september. Það gerir 20,5% aukningu frá ágústmánuði, sem þýðir að ég held vinnunni minni sem fréttastjóri hérna!

Ég þakka þeim sem skrifuðu athugasemdir þegar ég grátbað um það.