þriðjudagur, 27. nóvember 2012

Barnajól

Í jólablaði Fréttablaðsins i dag eru nokkrir aðilar spurðir nokkurra spurninga. Að sjálfsögðu var litið framhjá mér þegar kom að þessum spurningum! Ég læt ekki vaða svona yfir mig og svara því spurningunum hér.

Barnajól

Hvers vegna höldum við jól?
Til að taka smá pásu frá hversdagslega lífinu og til að fagna hækkandi sól.

Hvað langar þig mest í jólagjöf?
Að sofa út í 10 daga í röð.

Hvað eru jólasveinarnir margir?
Einn og átta. Og fjórir.

Hver er uppáhaldsjólasveinninn þinn?
Stúfur.

Hvað myndirðu vilja borða á jólunum?
Hvað sem er. Nema rækjur.

Hvernig lítur jólakötturinn út?
Ekki ósvipaður Jóni Stóra, handrukkara.

fimmtudagur, 22. nóvember 2012

And-áhugamál

Í dag hóf ég leit að nýju áhugamáli þegar ég, í stað þess að leggja mig eftir vinnu, henti í þvottavél, fór í sturtu, rakaði mig og þreif húsið.

Í stað þess að finna eitthvað sem ég gat hugsað mér að gera af áfergju reglulega, fann ég mér and-áhugamál. Það felur í sér að þrífa rimlagluggatjöld. Ekkert í þessu lífi er leiðinlegra að gera.

Ég stefni á að gera það sem allra sjaldnast og af mjög litlum áhuga. Ég vil gjarnan að það standi "Hann komst í gegnum lífið án þess að þrífa rimlagluggatjöld mjög oft" á legsteininum mínum.

Eftir þennan fund lagði ég mig.

mánudagur, 12. nóvember 2012

Ævintýraleg bíóferð

Fyrir tæpri viku fór ég að sjá nýjustu James Bond myndina, Skyfall með vini mínum Eysteini Ara.

Myndin fjallar um ærslabelginn James Bond og ævintýri hans. Mjög góð mynd eins og allar James Bond myndirnar með Daniel Craig í aðalhlutverki. Það er mín kenning að hvaða James Bond mynd Daniel Craig sem er (Casino Royale, Quantum of Solace eða Skyfall) er betri en allar hinar James Bond myndirnar samanlagt, jafnvel margfeldi þeirra.

En meira um bíóferðina sjálfa. Það má eiginlega segja að ég hafi verið í hlutverki James Bond þetta kvöld. Fyrst þegar myndin hvarf af skjánum þegar um hálftími var eftir af henni en hljóðið hélt áfram, vegna einhverra mistaka starfsfólks. Rétt eins og njósnari hélt ég ró minni allan tímann. Njósnari missir ekki tök á skapi sínu og öskrar eitthvað óskiljanlegt í átt að sýningarvélinni, eins og næstum allir aðrir í salnum.

Ekki nóg með það heldur læstust nokkrir gestir myndarinnar inni í hringhurð á leið úr Smáralindinni (þar sem myndin var sýnd) þegar náunginn á sýningarvélinni þurfti líklega að leysa af á stjórntækjum hringhurðarinnar. Ég bauðst til að leita að starfsmanni öryggisgæslunnar, en án árangurs.

Í miðju símtali við 118 sá ég öryggisvörð á næstu hæð fyrir ofan, starandi á mig:

Ég: *Bendi á hann og gef til kynna að hann þyrfti að koma*
*Öryggisvörður horfir svipbrigðalaus á mig*
Ég: *Bendi af meiri ákafa, um leið og ég kveð 118, þar sem ég hafði fundið öryggisvörð*
*Öryggisvörðurinn horfir enn svipbrigðalausar á mig*
Ég: Ertu að vinna hérna?
Öryggisvörður: *Grafalvarlegur* Lít ég ekki út fyrir það?
Ég: Komdu þá! Það er fólk búið að vera læst í hringhurðinni hérna í 10 mínútur.
Öryggisvörður: Ó..eh...ok.
*Ég geng úr Smáralindinni án þess að líta til baka, eins og James Bond*

Og þetta náði ég að gera án Excel. Ótrúlegt.

Ég gef myndinni þrjár og hálfa stjörnu af fjórum.

mánudagur, 5. nóvember 2012

Peugeot pirringur

Það hefur ýmislegt komið fyrir bíl minn, Peugeot 206 árgerð 2000, síðan ég keypti hann fyrir sex árum. Flest af því hefur farið í taugarnar á mér. Um helgina gerði hann svo eitthvað sem slær öll met í að vera óþolandi.

Hér er listi yfir fimm mest pirrandi hluti sem hann hefur gert

5. Skildi skó eftir á þakinu.
Eftir körfuboltaæfingu á Álftanesi geymdi ég körfuboltaskónna á þaki bílsins á meðan ég ruslaði mér inn í hann og keyrði af stað. Ég var hálfnaður til Reykjavíkur þegar ég áttaði mig á mistökunum. Sem betur fer elti Gutti körfuboltagarpur mig og hirti upp skónna.

Tæknilega ekki bílnum að kenna. En samt. Helvítis Peugeot.

4. Rafmagnsleysi veldur því að ég komst ekki í rækt.
Bíllinn var rafmagnslaus um daginn þegar ég ætlaði í ræktina. Að vísu hefur þessi rafgeymir enst mun lengur en líftími rafgeyma er alla jafna. En samt.

3. Lásinn á bílstjórahurðinni datt af og önnur afturhurðin hætti að opnast.
Sirka ári eftir að bakkað var á mig og gert var við beygluna hætti önnur áklesst hurðin að opnast og lás hinnar datt af. Ég hef ekki læst bílnum mínum núna í um þrjú ár.

2. Eitthvað í vélinni hrundi.
Eitthvað rándýrt hrundi í vélinni (sem ég man alls ekki hvað kallast) tvisvar á sama ári. Ekki bara kostaði viðgerðin um 1000% af mínum fjármunum og tók nokkrar vikur heldur varð ég að taka strætó í mánuð það árið, til að komast ferða minna. Hryllingurinn.

1. Rúðuþurrkur skakkar.
Um helgina tók bíllinn upp á því að stoppa alltaf rúðuþurrkurnar í ca 30° hæð (í stað 0° venjulega). Ekkert gæti mögulega farið meira í taugarnar á mér. Ég togaði þær í 0° en en alltaf þegar ég set þær af stað aftur stoppa þær í sömu 30°. Helvítis Peugeot.