mánudagur, 31. desember 2007

Rafmagnið fór þrisvar sinnum í gær á meðan ég var í ræktinni, þar að auki einu sinni í heita pottinum eftir ræktina. Þar sat ég, í svartnættinu og snarvitlausu veðri, kjökrandi með einhverjum lækni sem skemmti sér vel.

Samtals var rafmagnslaust á Egilsstöðum og í Fellabæ í amk 4 tíma í gær. Það var ekki alslæmt. Það var til dæmis gaman að keyra um Egilsstaði og þykjast vera einn eftir í heiminum í myrkrinu. Grunsamlega góð tilfinning.

laugardagur, 29. desember 2007

Í fyrradag tróð ég 100 krónum í spilakassa slefandi úr græðgi, vann 1.500 krónur og leysti þær út. Það er mitt framlag til góðgerðamála.

Í gærkvöldi notaði ég svo 1.000 krónur af þessum gróða í að kaupa mig inn í póker. Þar vann ég 2.300 krónur.

Þessar 100 krónur urðu þannig að 2.800 krónum á tveimur sólarhringum. Það gerir 2.700 prósent ávöxtun á þessum skamma tíma.

Ef ég held áfram að ávaxta fé mitt svona út heilt ár get ég mögulega aukið 100 krónurnar í 49.275.000 krónur! Það er 492.750 prósent ávöxtun. Óraunhæft er þó að ætla að ég geti verið svona heppinn aftur, hvað þá í heilt ár.

Ég sé hinsvegar eftir að hafa ekki lagt milljón undir í spilakassann og borgað um 10 milljónir inn í pókermótið. Þá væri ég á grænni grein.

föstudagur, 28. desember 2007


Þessa mynd var ég að finna mjög djúpt í skáp heima hjá mömmu. Hún er teiknuð ca árið 1994 af Hjalta Jóni Sverrissyni. Myndin er af Karl Malone að troða ofan í stærðarinnar körfu. Hjalti Jón, sem þá var ca 6-7 ára gamall, leggur grunsamlega mikla áherslu á að Malone er svartur á hörund.

Stórkostleg teikning hjá stórkostlegu barni frá stórkostlegum tíma í lífi mínu þegar peningar voru eitthvað sem fullorðna fólkið hafði bara áhyggjur af og stelpur voru skrítnu, typpalausu strákarnir.

miðvikudagur, 26. desember 2007

Frá því ég kom til Egilsstaða, þann 22. desember eða fyrir 5 dögum síðan hef ég farið 4 sinnum í körfubolta. Þrisvar í Fellabæ og einu sinni á Hallormsstöðum. Á morgun er svo æfing á Egilsstöðum.

Í hvert sinn hef ég spilað í ca tvo og hálfan tíma, sem gera 150 mínútur í hvert sinn eða samtals 600 mínútur.

Á hverri nóttu hef ég sofið um 10 tíma eða í 600 mínútur á nóttu. Það eru 3.000 mínútur alls.

Afganginn, 3.600 mínútur, hef ég notað þaulskipulega í að gera alls ekki neitt, ef frá eru taldar þær 7 mínútur sem fóru í að skrifa þessa færslu.

Ef einhver þarf að láta gera eitthvað fyrir sig, hvað sem er, þá endilega hafið samband.

þriðjudagur, 25. desember 2007

Jólafríið gengur vel. Svo vel að það er ekkert að gera. Ef það mun ganga betur næstu daga mun hjartað í mér sennilega hætta að slá.

Jólin gengu líka vel. Svo vel að núna vantar mig ekkert lengur.

Sem minnir mig á það; ég mun aka til Reykjavíkur 2. eða 3. janúar næstkomandi. Ef einhver sem þetta les vantar far, endilega látið vita, ýmist í athugasemdum, í sms sendingum (S: 867 0533) eða flöskuskeyti.

sunnudagur, 23. desember 2007

Í gærkvöldi var haldið upp á 2ja ára afmæli Arthúrs með samkomu þar sem Arthúrkaka var snædd í góða vina hópi. Eftir kökuna, sem var frekar sykruð, var spilaður Fussball, pool og borðtennis, áður en nokkrir eyddu restinni af sykurorkunni í að slá í veggi með hnefunum.

Myndir voru teknar en sökum tæknivesens koma þær ekki inn fyrr en á nýju ári.

Ef ég kemst ekki í nettengda tölvu aftur fyrir jól þá óska ég lesendum síðunnar gleðilegra jóla. Passið að borða yfir ykkur. Ef ég kemst hinsvegar í nettengda tölvu fyrir jól; ekkert.

föstudagur, 21. desember 2007

Þetta er að frétta:

1. Eftir nokkra tíma legg ég af stað til Egilsstaða þar sem ég mun dvelja framyfir áramót í hópfaðmi fjölskyldunnar. Samkvæmt útreikningum mínum ætti það að verða gaman.

2. Á morgun, laugardag, fáum við Jónas í hendurnar nýbakaða súkkulaðitertu sem við hyggjumst snæða um kvöldið með vinum þegar 2ja ára afmæli Arthúrs er fagnað (næstum 5 mánuðum of seint). Á kökunni verður sérstök Arthúrstrípa. Myndir verða teknar og birtar síðar. Nektarmyndum verður eytt og þar af leiðandi ekki birtar.

3. Klukkan 18:30 í gærkvöldi kom ég kófsveittur og alblóðugur úr Kringlunni með allar jólagjafirnar. Ég ætti því að geta slappað af þar til jólin byrja. Ef tíminn líður jafn hratt og hann hefur gert hingað til þá ættu þau að byrja eftir ca þrjú korter.

4. Býsna vingjarnleg kona reyndi að vera vinaleg við mig í Kringlunni í gær með því að bjóða mér pláss á pökkunarborðinu við hliðina á sér. Ég vissi ekki hvernig átti að bregðast við, þannig að ég sleppti því. Ég tók þó plássinu. Mig minnir að ég hafi sagt "be..te..r?". Ef konan les þetta: Takk kærlega fyrir mig.

fimmtudagur, 20. desember 2007

Hér eru nokkrar áhugaverðar staðreyndir:

1. Kennitala mín, 280778-4439, er að finna í tölunni pí. Runan byrjar á tölustaf númer 1.303.073.196. Húrra fyrir því!

2. Ég velti því fyrir mér einhverja andvaka nóttina, hversu marga 5 ára krakka ég gæti sigrað í slagsmálum, googlaði því og fann síðu sem reiknar það út. Niðurstaðan, sem er hér að neðan, lætur mig sofa vært og ekki með krepptan hnefa.


17


3. Nú, þegar dauðinn nálgast, er gott að vita hvers virði lík mitt verður. Það fann ég líka á netinu. Lífvana líkami minn er 283.531 krónu virði. Á lífi fæst hann þó leigður ódýrara eða kr. 2.500 kvöldstundin.


$4415.00The Cadaver Calculator - Find out how much your body is worth.

miðvikudagur, 19. desember 2007

Einelti dagblaðanna heldur áfram. Í Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins á miðvikudögum, er einhver viðskiptamaðurinn látinn segja frá deginum sínum. Það er með ólíkindum hvað fólk er duglegt samkvæmt frásögnum þeirra.

Allavega, ég hef enn ekki verið beðinn um þetta. Ég geri þetta því bara hér, óumbeðinn!

Dagur í lífi...
Finns Torfa Gunnarssonar, vitleysings.

7:55 Vakna of seint. Hringi í Böðvar, samstarfsmann minn og segi honum að ég sé á leiðinni. Ekkert vandamál. Ég er ekkert mikilvægur. Tannbursta mig og hleyp út, öskrandi.

8:20 Mæti í vinnuna. Klára daglegar skýrslur sem þarf að skila. Fer því næst yfir póstinn og skoða verkefni dagsins. Skipulegg mig.

8:35 Vakna í alvörunni. Var að dreyma. Hringi í Böðvar og segi honum að ég sé á leiðinni. Ekkert vandamál. Ég er ekkert mikilvægur. Tannbursta mig og hleyp út öskrandi.

8:55 Mæti í vinnuna. Klára daglegar skýrslur sem þarf að skila. Fer því næst yfir póstinn og skoða verkefni dagsins. Skipulegg mig.

10:00 Fæ mér morgunmat ef tími gefst til.

10:15 Vinn við ýmis verkefni.

12:00 Óli Rú mætir og við förum í Kringluna í hádegismat. Ég borða bara á Sbarro, eins og alþjóð veit. Amk starfsfólkið þar.

13:00 Plana kvöldið. Stefnt á ræktina, sund og bíó með Möggu.

16:00 Vinn aðeins.

16:30 Fæ aukaverkefni sem þarf að klára í dag. Svitna.

18:00 Klára verkefnið og sendi það á réttan stað, með tárin í augunum.

18:15 Of seinn í ræktina. Tvíhöfði og brjóst tekin. Líka brjóstvöðvinn.

20:15 Sleppum sundi og erum of seint fyrir bíó. Fáum okkur að borða.

21:45 Hringi í Óla og næ svo í hann. Förum í bíó með Björgvini bróðir. Myndin Saw IV. Slöpp mynd.

00:00 Skutla Óla heim og fer heim. Spjalla við vini á msn og skrifa bloggfærslu. Velti upp áleitnum spurningum.

01:00 Tannbursta mig og tannþráðast. Les nokkrar blaðsíður í The God Delusion eftir Richard Dawkins og fer að sofa.

01:30 Fatta að ég á eftir að kaupa allar jólagjafirnar og fæ hjartsláttartruflanir.

þriðjudagur, 18. desember 2007

Ég má til með að sýna ykkur lag sem olli því að ég rankaði við mér, íklæddur aðeins sokkum, dansandi uppi á borði í vinnunni í dag. Frekar flott lag.

Það heitir "Systir mín hún Rósa" og er með Ian Brown eða Ég en Brúnn.Hér er textinn.
Ég er byrjaður að drekka kaffi! Ég ákvað að byrja það í dag þegar ég sofnaði ofan í klofið á mér í vinnunni, í lyftunni. Til að halda upp á það hef ég verið að dansa um ganga 365 og öskrandi, einhverra hluta vegna.

Viðbót: Ég er hættur að drekka kaffi. Ég ákveð að hætta því í dag þegar ég byrjaði að skjálfa og svitna eftir hálfan bolla. Svo er kaffi viðbjóður á bragðið, þrátt fyrir ca 12 skeiðar af sykri út í.

mánudagur, 17. desember 2007

Myndir frá jólaglöggi helgarinnar eru komnar á netið. Nánar tiltekið hér.

Af virðingu við hjartveika voru nokkrar myndir klipptar til og aðrar prentaðar út og brenndar.
Það virðist sem verulega hæg nettenging hérna heima sé að koma í veg fyrir að ég geti sett inn myndir frá teiti gærkvöldsins. Ég mun finna rót vandamálsins og eyða því með eldvörpu, áður en ég reyni að setja myndirnar aftur inn.

Þangað til verður sögustund að duga:

Í gærkvöldi var jólaglögg UMFÁ haldið í Golfskálanum á Álftanesi. Milli 15-20 manns mættu (30-40 manns í augum Víðis) og var snædd pizza, eins og í öllum hágæða jólahlaðborðum.

Því næst tóku við heimspekilegar umræður annars vegar og hinsvegar drykkjuspil. Til að gera langa sögu stutta þá sigraði Víðir drykkjuspilið á sannfærandi hátt. Í öðru sæti voru allir aðrir sem spiluðu en drápust ekki. Enginn sigraði í umræðunum en Guggur og Gutti unnu luftgítarkeppnina, sem þeir efndu til og dæmdu.

Fljótlega eftir klukkan 2 fóru menn að týnast heim eða niður í bæ. Talið er að miðbærinn hafi aldrei verið jafn þrútinn af kynorku og í nótt, þegar limafagrir körfuknattleiksmenn skriðu um göturnar.

sunnudagur, 16. desember 2007

Í gær kom körfuboltaliðið sem ég æfi með, saman og drakk eitur í talsverðu magni. Líkami minn er að berjast við að losa mig við eitrið með ýmsu móti í dag. Takk líkami!

Myndir frá þessari furðulegu samkomu birtast síðar í dag, ef tími gefst til.

laugardagur, 15. desember 2007

Í dag ætlaði ég að versla mér einhverskonar vopn sem á að hjálpa mér að komast eitthvað áfram í mannmergðinni sem fylgir jólaörtröðinni í verslunum.

Ég fór í Kringluna. Þaðan þurfti ég frá að hverfa vegna þess að mig vantaði vopn til að getað verslað. Hér er því um Catch 22 stöðu að ræða.

Mér hefur dottið til hugar að panta vopnið á netinu en þar sem ég hef pantað mér alltof stórar peysur undanfarið þaðan, vil ég síður notast við netið af ótta við að panta mér óvart dómsdagsvopn í stað lítillar eldvörpu.

föstudagur, 14. desember 2007

Eftirfarandi myndband er hvalreki fyrir mig þegar ég geng í gegnum mína mestu blogglægð síðustu ára. Myndbandið er með Radíusbræðrum og er það fyndnasta sem ég hef séð í grínþáttum hérlendis.

fimmtudagur, 13. desember 2007

Ef einhver sér mig á Peugeot 1.007 týpunni, opnandi og lokandi hurðinni með fjarstýringu eins og latasti eða fatlaðasti maður í heimi þá var enginn annar bíll til útláns hjá Bernhard, þar sem bíllinn minn er í viðgerð.

Ef þið trúið því ekki þá er þetta ekki ég á þessum bíl. Ég fékk annan bíl.

miðvikudagur, 12. desember 2007

Þessa stundina blæðir mér á eftirfarandi stöðum:

* Á neðri vörinni vegna varaþurrks.
* Á löngutöng vinstri handar eftir blaðaskurð.
* Á tá vinstri fótar vegna núnings.

Ef hægt er að blæða á fleiri stöðum, þá vil ég ekki vita af þeim. Þvílík eymd!
Samstarfsvinur minn Jónas keypti sér Toyota á árinu. Um jólin fékk hann svo konfektkassa sendan frá Toyota umboðinu. Út frá þessari staðreynd dreg ég ályktun. Ég geri ráð fyrir því að með meiri pening sem maður eyðir í bíl frá viðkomandi umboði, því merkilegri er gjöfin.

Samkvæmt þessari kenningu á ég von á frumburði forstjóra Peugeot í pósti. Sem betur fer er ég skráður með rangt heimilisfang í þjóðskránni.

þriðjudagur, 11. desember 2007

Í dag fékk ég hnausþykka íþróttapeysu merkta Utah Jazz sem ég hafði pantað mér á Ebay fyrir einhverju síðan.

Til að passa í hana þarf ég bæði að hækka um ca 40 cm og þyngjast um 250 kíló, þar sem hún virðist vera 70 númerum of stór. Ég vissi þetta þó þegar ég pantaði hana.

Það er er nefnilega ekkert þægilegra en að klæðast þykkri og hlýrri peysu á köldum vetrardegi. Svo er líka gott að vera í peysu sem er nokkrum fermetrum of stór og ímynda sér að ég sé 6 ára krakki í meðalstórri peysu, skjálfandi úr grátekka og fortíðarþrá.

mánudagur, 10. desember 2007

Í annað sinn á þessu ári fer ég með bílinn minn í smávægilega viðgerð (fyrra skiptið var það olíuskipti og núna vatnsleki) og í annað sinn á þessu ári er headpakkning farin í þessari sorglegu hugmynd að bíl, sem Peugeotinn minn er.

Þetta er kostnaður upp á ca helming mánaðarlauna minna. Jólagjöfin mín til allra er því eitt högg í peugeotinn með barefni að eigin vali. ATH. Látið mig vita áður þið takið gjöfina út, svo mér bregði ekki.

Ég hef ákveðið að beisla reiðina sem fylgir því að eiga þennan bíl og nota orkuna sem verður til í að smíða flugmóðuskip.
Fyrirsagnir morgundagsins í blöðunum verða:

„Maður í Hafnarfirði reif úr sér augun til að ná linsum úr eftir að hafa reynt í hálftíma að ná þeim úr.“

Ekki spyrja hvernig ég veit þetta.

sunnudagur, 9. desember 2007

Ég hef hent inn myndum frá síðasta leik UMFÁ. Hann var gegn KKF Þóri og fór fram mánudaginn 3. desember síðastliðinn.

Mælt er með því að fólk skoði myndirnar yfir sjóðandi heitu rauðvíni og kasúldnum ostum.

Þær eru hér.

laugardagur, 8. desember 2007

Í dag beit ég mig í tunguna svo úr blæddi lengi. Það er ekki nógu sniðugt að tálga á sér tennurnar.

Allavega þetta hef ég lært í kjölfarið:

* Það er ekki gott að borða blóð í matinn heilan dag.
* Blóð er ekki góður eftirréttur heldur.
* Plástur festist illa á tungu.
* Sársauki minnkar ekki þó maður öskri eins hátt og líkaminn leyfir.

Þó þetta hafi verið óþægilegt og ógeðslegt, þá er ég feginn að þetta gerðist. Ég hef þroskast andlega í dag og lært ýmislegt nýtt.

föstudagur, 7. desember 2007

Mér hefur borist bréf. Í því var kvartað yfir því að of lítið er skrifað um að bréf berist þar sem kvartað er yfir að of lítið er skrifað um að bréf berist.

Þetta hefur hérmeð verið leiðrétt, held ég.

fimmtudagur, 6. desember 2007

Hér eru nokkrir fréttamolar:

* Í dag reynslukeyrði ég Suzuki Liana 2005 árgerð. Það er hugsanlegt að ég kaupi hann á morgun. Þar sem ég er haldinn lífshættulegum valkvíða finnst mér það þó ólíklegt þar sem hann fæst í þremur litum.

* Ég þjáist af vangefnum fótum, þar sem vöðvar eru að kæfa taugar sem ganga í utanverða ristina og fót, sem veldur öllu í senn; máttleysi í fótum, sársauka og doða. Ég þarf í aðgerð en áður þarf ég að fá tíma í nánari skoðun. Svo þarf ég tíma í uppskurð. Svo þarf ég tíma til að jafna mig. Inn á milli þessara viðburða þarf læknir að hafa samband en þeir taka sinn tíma í það. Áætlaður bati: vorið 2017.

* Ég hef keypt fyndnustu bók í heimi. Hún heitir The Trial of Colonel Sweeto and other stories eftir Nicholas Gurewitch. Hún er að sjálfsögðu í myndasöguformi. Annars væri ég búin að lesa hana eftir ca 6 mánuði.

Annars er ekkert að frétta. Ekkert, eins og "að sitja og stara á vegg í nokkrar vikur"-ekkert.

miðvikudagur, 5. desember 2007

Það kom í ljós í körfuboltaleiknum sem fram fór á mánudaginn og ég spilaði í, að ég er haldinn mjög sjaldgæfu afbrigði af hinu stórskemmtilega og sprenghlægilega Tourette heilkenni (smellið á hlekkinn ef þið vitið ekki hvað það er).

Þessi greining átti sér þegar ég stóð á vítalínununni eftir að hafa misnotað mitt fimmta eða sjötta vítaskot. Ef ég man rétt þá öskraði ég "tussastu ofan í helvítis mellan þín" fyrir framan nokkra tugi krakka og foreldra þeirra.

Allavega, þetta heilkenni mitt virðist aðeins fara í gang þegar mér gengur illa. Hér er því um að ræða árangurstengt Tourette heilkenni. Það er ekki jafn skemmtilegt og nafnið gefur til kynna.

Það er því ekki mér að kenna að börn skuli vera að læra ný orð á körfuboltaleikjum UMFÁ. Það er vítanýtingunni minni og heilkenninu mínu að kenna.

þriðjudagur, 4. desember 2007

Gylfi sagði við mig í draumi í nótt að hann ætlaði að hringja í mig eftir smá og að ég ætti að skella á hann þegar það gerðist án þess að svara. Skömmu síðar hringdi vekjarinn og ég skellti á hann og svaf yfir mig.

Takk Gylfi.
UMFÁ 100
KFF Þórir 73

Sigur!

Þetta þýðir fernt:

1. Þrír sigrar í röð.
2. Tveir sigrar í röð síðan fyrsti sigurinn náðist.
3. Einn sigur í röð eftir að tveir sigrar í röð náðust fyrst.
4. Við erum næstum orðnir hrokafullir.

Næsti leikur er eftir rúman mánuð sem þýðir bara tvennt.

1. Ég er á leið í uppskurð á fæti ef ég fæ tíma.
2. Ég er lygari. Þetta þýðir bara þetta eina hér að ofan.

mánudagur, 3. desember 2007

Ég hef náð hámarki græðginnar. Hömluleysið náði algleymi í kvöld þegar ég borðaði flórídabita (hraunbitar útataður í kókosmjöli). Skömmu síðar fór ég að finna fyrir óþægindum í auga. Enn skömmu síðar fann ég kókosmjöl í auganu á mér. Ég mæli ekki með því að berja namminu inn í andlitið.

sunnudagur, 2. desember 2007

Í gær ætlaði ég að skoða bíla sem ég gæti keypt í stað Peugeot ruslsins sem ég á þessa stundina. Þá byrjuðu skrítnir hlutir að gerast.

1. Ég tók eftir að vélin hitnaði óvenju mikið. Ég fór því heim og bætti vatni á hann. Þá varð allt í lagi.
2. Allt í einu var orðið frekar lítið loft í öðru framdekkjanna. Ég fór á bensínstöð og bætti lofti í dekkið.
3. Þegar ég var alveg að koma að bílasölu varð bíllinn skyndilega bensínlítill. Ég snéri við og fyllti á tankinn.

Þá var klukkan orðin of margt og ég orðinn of seinn á körfuboltaæfingu. Ég dáist að útsjónarsemi bílsins.

laugardagur, 1. desember 2007

Næsti leikur UMFÁ fer fram á mánudaginn næstkomandi gegn KKF Þóri. Leikurinn fer fram á Álftanesi og byrjar kl 19:15.

Við hvetjum alla til að mæta og draga ættingja, maka (ft.), samstarfsfólk og/eða gangandi vegfarendur með sér.

Það kostar ekkert á leikinn. Um að gera að nýta sér það. Það er ekki á hverju ári sem eitthvað ókeypis gerist í þessu dýrasta landi heims.