miðvikudagur, 28. ágúst 2013

Ráð viðskiptafræðingsins

Það er langt síðan ég hef gefið góð ráð varðandi allt mögulegt, hvort sem það tengist viðskiptum eður ei. En ég er viðskiptafræðingur, eins og, skiljanlega, oft hefur komið fram og því heitir þessi partur bloggsins þessu nafni. Þegiði og hlustið á góð ráð!

1. Bíllinn lyktar of vel.
Stundum lykta bílar of vel. Svo vel að fólk heldur að eigandi hans sé of góður með sig til að láta hann lykta illa. Það er auðvelt að breyta þessu. Að gleyma íþróttatösku með notuðum íþróttafötum í bílnum yfir nótt ætti að setja þig á sama stall og vinir þínir hvað lykt varðar. Ég reyndi þetta í nótt með góðum árangri.

2. Of mikill lífsvilji.
Oft er lífsviljinn of mikill hjá fólki, sem verður þá of hresst og mengar allt af ógeðslegri jákvæðni. Ég vil síður verða þannig, svo ég prófaði fyrir næstum tveimur vikum að hætta að borða nammi. Lífsviljinn snarféll og ég er nánast alltaf í vondu skapi í kjölfarið, öllum til mikillar gleði.
Ath. Aukaverkanir gætu orðið betri líkamleg heilsa, hreinni tennur og batnandi fjárhagsstaða.

3. Þig langar að herma (ens.: simulate) tímabilið 2013-2014 í öllum deildum enska fótboltans, eins oft og þú vilt og með möguleika á að breyta styrkleika og nöfnum liða. Helst í Excelskjali.
Þetta er grunsamlega mikil tilviljun: Um daginn setti ég þannig Excel skjal hér, inn á excel.is.

Notið þessi ráð varlega. Það er ekki allra að lifa lífi viðskiptafræðings.

þriðjudagur, 20. ágúst 2013

Snapchat

Ég sá grein í Monitor tímariti Moggans nýlega sem bar heitið „Ert þú með Snapchat?“ og velti fyrir mér af hverju ég hafi aldrei verið spurður að þessu í tímaritum eða sjónvarpsfréttum. Svarið liggur í augum uppi og er svo einfalt að ég skil ekki að ég hafi ekki áttað mig á því fyrr: ég veit það ekki.

Allavega, ég hef ákveðið að svara umtalaðri fyrirsögn á þessari vefsíðu í mótmælaskyni.

Ert þú með Snapchat?
Nei.

mánudagur, 12. ágúst 2013

Mörk mín

Síðan hrun Íslands hófst fyrir nokkrum árum hefur ýmislegt verið látið ganga yfir landann. Ég hef þó náð að halda ró minni.

Ég hélt t.d. ró minni yfir hækkandi verðlagi, jafnvel þó ég hafi fengið kauplækkun. Ég var sallarólegur yfir því að geta verið rekinn hvenær sem er vegna erfiðs árferðis fyrirtækja eða einhvers. Ég er meira að segja frekar rólegur yfir því að leiguverð er komið fram úr villtustu fantasíum fégráðugra Íslendinga (sennilega vegna þess að ég er að leigja á mjög sanngjörnu verði, ótrúlegt nokk).

En svo fór ég í mötuneytið og keypti mér tebollu. Svona leit hún út:


Þetta á að vera tebolla með helming hennar hulinn súkkulaði.

  1. Hún var í mesta lagi með þriðjung hulinn.
  2. Súkkulaðið var þunnt og illa setta á hana.
  3. Undir bollunni var ekkert súkkulaði. Lesið þetta aftur til að átta ykkur betur á stöðunni. Ekkert súkkulaði undir!

Þarna dreg ég mörkin. Ég mæti í næstu mótmæli. Líklega þessi beri að ofan sem er að missa röddina af öskrum.

föstudagur, 9. ágúst 2013

Ég á netinu

Þessar vikurnar hef ég haft um mikið að hugsa. Eða lítið. Hvort sem er betri afsökun fyrir fátíðum skrifum hérna.

Ég er þó ekki hættur. Ég lifi góðu lífi á öðrum síðum á netinu og er að vinna í að sameina þessa virkni alla á eina síðu, þessa. En þangað til, þeas ef það gerist einhverntíman, eru hér þær síður sem ég stunda reglulega:

Facebook
Hægt er að velja "follow" á reikningi mínum ef þú vilt fá uppfærslur frá mér, þeas ef þú þekkir mig ekki nægilega persónulega til að vera vinur.

Instagram
Myndasíða úr daglegu lífi mínu, sem er afskaplega óspennandi.

Twitter
Ég nota þetta lítið þessa stundina en stefni á að vera virkari í framtíðinni.

LinkedIN
Þetta er stafræna ferilskráin mín. Ekki mjög spennandi.

Pinterest
Hér pósta ég myndum sem ég finn á netinu og mér finnst mikið til koma. Engin nekt, enda bíð ég ekki syndinni í kaffi.

Spotify
Hér er tónlistin sem ég hlusta á.

Google+
Þetta nota ég ekkert. En það er aldrei að vita hvað gerist í framtíðinni.

About Me
Almennt um mig.

Excel.is
Skrif um Excel og aðstoð veitt með Excel tengd vandamál og ástarsorgir.

Við Rætur Hugans
Þetta blogg. Ef þið bætið þessu urli í rss lesara getiði fengið tilkynningu um nýjar færslur um leið og þær eru komnar á netið.