mánudagur, 31. maí 2004

Hérna gefur að líta heimasíðuna sem ég gerði fyrir fyrirtækið sem við gáfum okkur út fyrir að vera að stofna í áfanganum stofnun og rekstur á önninni sem er að líða. Ég fer að rífa síðuna og vildi gefa fólki tækifæri fyrst á að sjá hana. Alltof mikil vinna fór í hana til þess að sína hana engum nema nokkrum kennurum.
Á föstudaginn ákvað ég, í stað þess að mæta í partí hjá afar föngulegu kvenfólki í næsta húsi, horfa á bíómynd sem nefnist Terminator 3 eða Ljúkarinn þrjú eins og það yfirfærist.

Myndin fjallar, eins og báðar hinar myndirnar, um vélmenni sem kemur úr framtíðinni til að drepa John nokkurn Connor. Að þessu sinni er það kvenlegt vélmenni sem ég myndi gjarnan vilja láta myrða mig.
Myndin er ágætis skemmtun. Claire Danes er góð í myndinni.

Æ fökk. Nenni ekki að skrifa meira um þessa mynd sem ég verð búinn að gleyma áður en ég klára þessa bloggfærslu. Tvær stjörnur af fjórum, minnir mig.
Ég er við það að missa alla trú á karlkyni Egilsstaða. Ég gerðist bjartsýnn og reyndi að safna í körfubolta í kvöld. Af átta símtölum lýsti einn yfir meiðslum, einn var að fara í matarboð, tveir voru að vinna, tveir voru ekki á svæðinu og tveir voru með númerabirti og svöruðu því ekki. Þið örfáu sem ég hringdi ekki í, ég gafst upp. Gat hvort eð er ekkert talað í símann fyrir ekka.

Mér var nær að hlakka til þess að koma austur til að spila körfubolta í allt sumar. Lexía dagsins; aldrei að hlakka til.

sunnudagur, 30. maí 2004

Þessi dagur hefur verið fullkomlega tilgangslaus. Ég byrjaði á því að gera ekkert eftir að ég vaknaði. Eftir að hafa gert ekkert í ca 90 mínútur ákvað ég að liggja aðeins lengur og svo gera ekkert. Þegar leið á daginn gerði ég meira og meira af engu og rétt fyrir kvöldmat gerði ég ekkert. Ég eldaði svo dýrindis kjötflykki fyrir okkur Björgvin bróðir með salati. Því næst lagðist ég fyrir framan sjónvarpið og gerði ekkert.

Ég er að spá í að gera ekkert í smástund í viðbót og horfa svo á nba leik sem byrjar eftir miðnætti, eftir þennan tilgangslausasta dag ársins.


Finnandi Nemó.


Í gærkvöldi greiddi ég í fyrsta sinn fyrir afnot af bíómynd síðan í janúar þegar ég leigði mér myndina Finding Nemo eða Tilraun til að finna gullfiskinn sem nefndur var Nemó eins og hún heitir á íslensku.
Myndin, sem er tölvugerð þrívíddarteiknimynd, fjallar um tilraun sem gerð er til að finna gullfiskinn sem nefndur var Nemó. Pabbi Nemó stendur fyrir leitinni og hittir hann frábærlega fyndna karaktera á leiðinni. Enn eitt meistaraverkið frá Pixar.

Myndin er vel gerð auðvitað, stórkostlega fyndin og ég veit ekki hvað og hvað. Ég get ekki sagt meira um hana þar sem ég er orðinn of seinn að skila henni á videóleiguna.

Þrjár og hálf stjarna af fjórum.

laugardagur, 29. maí 2004



Yu-gi-oh!


Í nótt dreymdi mig Yu-gi-oh, hvað í helvítinu sem það nú er. Þarmeð hafa orðið þáttaskil í mínu lífi. Ég er loksins búinn að missa vitið.

Þá vitið svarið við spurningunni "ætli þeir sem eru búnir að missa vitið viti af því að þeir séu búnir að missa vitið?"
Sláttur dagsins gekk vel og lauk ég verkinu á fimm tímum rúmum. Þá er innifalinn sá tími sem tók að taka bensín og koma vélinni af stað, ein kaffipása og smá verkfall sem heilinn fór í þar sem ég virtist ekki geta náð rás 2 á vasaútvarpið og neyddist því að hlusta á viðbjóðsútvarpsstöðina Bylgjuna. Ég lærði að aðeins ástfangið (og þarmeð órökrétt og óþolandi) fólk eða ofsakátir einstaklingar á þunglyndistöflum geta hlustað á þessa stöð með góðu móti og ég er hvorugt.

Við tekur æsispennandi dagskrá dagsins en hún felur í sér að blogga einu sinni í viðbót og jafnvel skreppa í sturtu.

föstudagur, 28. maí 2004

Í dag fékk ég síðustu einkunnina á vorönn í HR og get ég því birt mínar einkunnir hér loksins. Þær eru eftirfarandi:

Þjóðhagfræði 7,0
Fjármál fyrirtækja 7,5
Upplýsingatækni 8,5
Rekstrarbókhald og skattskil einstaklinga 8,5
Stofnun og rekstur 9,5
----
Meðaltal 8,2

Ég er talsvert sáttur við þetta. Fyrir áramót var ég með meðaleinkunnina 7,4 og var í sjöunda himni yfir henni. Þetta er eins og glöggir lesendur geta lesið 0,8 hærra og vil ég þakka kærustu minni, Medion Gunnarsson, fyrir framförina en hana keypti ég í febrúar af fyrirtæki sem sérhæfir sig í samböndum manna og tölva; BT.
Á morgun, laugardaginn 28. maí 2004, mun ég slá grasið í garði skattstofunnar. Slíkt er mikilvægi mitt að ég fæ mín eigin hlífðargleraugu og hanska, sem mér ber þó að skila eftir sláttur.

En það er meira sem gerist á morgun. Á svarthvítu hetjunni, skemmtistað Fellabæjar, mun enginn annar en Snorri Hergill, næstfyndnasti íslendingur landsins, mæta og skemmta sauðdrukknum mannskapnum. Mæli með því að fólk mæti þangað og hlægi þar til það ælir.

fimmtudagur, 27. maí 2004

Þá er komið að fjórförum vikunnar. Að þessu sinni er það ég sjálfur sem verð fyrir barðinu á mér en eins og einhverjir vita þá hef ég verið með vini, kunningja eða einhverja fræga í fjórförum undanfarið.

Sjálfur get ég þó ekki valið fjórfarana en fæ þess í stað heimasíðu til að finna þá.

Hér eru fyrri fjórfararnir mínir.

Hér eru þeir seinni.

Persónulega finnst mér enginn svipur með okkur en ef tölvan segir þetta þá er þetta heilagur sannleikur.
Ég er hræddur um að ég hafi stokkið upp á nef mér í gær þegar ég tilkynnti tannpínu. Í fyrsta lagi hringdi tannlæknastofan og bauð mér tíma í dag sem hafði verið afboðaður. Að sjálfsögðu þáði ég það enda taldi ég mig verulega þjáðan.
Í öðru lagi kom í ljós hjá tannlækninum að allt var í himnalagi, tannlæknirinn fann ekkert að og ég útskrifaðist án peningalegs skaða. Það hafði að öllum líkindum brotnað lítið brot úr jaxli hjá mér, ekkert alvarlegt að sögn.

Það er fátt vandræðalegra en að muna ekki hvar sársaukinn var þegar komið er í tannlæknastólinn eftir hafa lýst því yfir að sársaukinn væri yfirþyrmandi, sem hann var daginn áður.
Síðan ég kom til Egilsstaða, fyrir ca tveimur vikum síðan, hefur eftirfarandi gerst í umferðinni og á gangi:

* Mér hefur verið veifað þrisvar sinnum af einhverjum á gangi sem ég kannaðist ekki við eða sá ekki almennilega.
* Sjö sinnum hefur bifreið sem ég mætti á minni bifreið flautað á mig. Ég tók ekki eftir hver það var.
* Fjórum sinnum hefur mér verið veifað úr bíl. Ég veifaði til baka í eitt skiptanna.

Annað hvort líkist ég einhverjum mjög mikið eða ég er að upplifa hámark vinsælda minna.

Ég biðst velvirðingar ef einhver lesandi hefur veifað eða flautað án þess að fá viðbrögð. Ég sé illa og fylgist lítið með því sem er að gerast í kringum mig.

miðvikudagur, 26. maí 2004

Á körfuboltaæfingu í kvöld mættu þrír manns á ca 2.000 manna svæði. Ef við reiknum með að um 50% af þeirri tölu sé of gamall eða of ungur, 50% af þeirri tölu séu stelpur, 70% af þeirri tölu kunni ekki handtak í körfubolta og 10% af þeirri tölu sé að vinna á þessum tíma má segja að um 2,2% mætingu hafi verið að ræða.

Það iðar allt af körfuboltaáhuga á Egilsstöðum um þessar mundir.
Dýrð sé drottni. Loksins, loksins hef ég náð að næla mér í tannpínu. Það atvikaðist þannig að ég gerði þau mistök að fá mér samloku og að bíta aðeins of fast niður svo fylling hrökk úr. Þetta er þó í himnalagi því tannlæknastofan var svo vinsamleg að gefa mér tíma 9. júní næstkomandi, eftir aðeins tvær vikur.

Þið getið búist við því að ég verði í vondu skapi þangað til.

þriðjudagur, 25. maí 2004

Það lítur út fyrir að tilraun blogger.com til að breyta viðmóti sínu og um leið einhverju sem virkaði mjög vel áður, hafi misheppnast hrapalega. Ég og flestir sem ég þekki (og blogga) geta illa opnað bloggsíðurnar sínar eða annarra. Í kjölfarið er aðsóknin á þessa síðu í algjöru lágmarki sem ég kýs að kenna blogger.com um frekar en leiðindum mínum.

Þessi bloggfærsla er gott dæmi um það hversu djúp geðveiki mín er varðandi blogg þetta en ég er, samkvæmt því sem hér er skrifað, að skrifa blogg sem ekki nokkur maður getur lesið.
Ég veit ekki hvort að randaflugurnar á austurlandi séu að stækka eða hvort ég og allur minn heimur er að minnka en áðan reyndi dauðadrukkin randafluga að komast inn um herbergisgluggann hjá mér og passaði ekki.
Ég ætla að segja núna, þegar klukkan er orðin alltof margt, eitthvað sem ég hef þráð segja frá því ég sá það í bíómynd 5 ára gamall;

Ég verð að drífa mig að sofa núna, mikilvægur fundur í fyrramálið.

Og ævintýrið heldur áfram.

mánudagur, 24. maí 2004

Einn óhugnalegasti viðburður ævi minnar átti sér stað í kvöld þegar ég horfði á CSI þátt í góðum gír, með popppoka í annari hendi og kókflösku í hinni. Í miðjum þætti var mér litið niður þar sem ég sé hreyfingarlausa albínóakónguló sem á vantaði fæturnar og ýmislegt annað. Ég hélt þó ró minni, hugsaði bara að þetta væri poppkorn og henti henni af mér og stappaði á henni með útiskónnum mínum sem fara nú nýlega urðu 4ra ára gamlir.

Þegar því var lokið tók ég eftir að á borðinu var hreyfingarlaus stærðarinnar snakkpokalaga randafluga með enga vængi eða fætur. Það var þá sem ég "missti kúlið", lagði kókflöskuna varlega frá mér og hljóp öskrandi upp í herbergi þar sem tölvan beið mín með bros á vör og eitt ástríðufullt faðmlag.
Þau undur og stórmerki áttu sér stað í dag að ég stundaði hreyfingu frá 16:00 (nánast um leið og ég steig út af skattstofunni) til klukkan 21:00. Hér er dagskrá dagsins:

07:30 - Vakna.
07:55 - Fara í vinnu.
08:00 - Vinna.
16:00 - Fara úr vinnu.
16:20 - Spilaði útkörfubolta með Davíð, Gylfa og Hjálmari.
17:40 - Fór í sund. Synti einhvern spöl og slappaði svo örstutt af í heita pottinum.
19:30 - Mætti á körfuboltaæfingu.
21:00 - Körfuboltaæfingu lokið.
21:10 - Eitthvað minna áhugavert átti sér stað, ef það er hægt.

Þið skiljið því bloggleysi dagsins, vonandi.

sunnudagur, 23. maí 2004

Hér kemur tilkynning:

ftg at simnet.is netfangið mitt er óvirkt hérmeð. Ég virðist lífsins ómögulega getað opnað það lengur. Við tekur finnurtg at gmail.com. Þangað er hægt að senda fyrirspurnir og ábendingar ýmiskonar.

Ástæðan fyrir því að ég skrifa 'at' í stað '@' er einfaldlega til að koma í veg fyrir að glæpafyrirtæki á netinu leiti uppi nýja netfangið á síðunni og fylli það af typpastækkunartilboðum. Þau virka ekki.
Daginn hef ég notað til að vera á Borgarfirði Eystri hjá pabba í góðu yfirlæti. Pabbi eldaði hörkumáltíð eins og alltaf og við kíktum á rúntinn ásamt því að spjalla um daginn og veginn. Á rúntinum sáum við stærðarinnar flökkufugl sem eitthvað hefur villst af leið og ber nafnið grá...eitthvað. Ég virðist vera búinn að gleyma nafni hans en hann líktist storki í útliti og hreyfingum.

Gaman að segja frá því að þetta er í fyrsta sinn sem ég gleymi einhverju síðan ég gleymdi hvað hjólbörur hétu þegar ég stjórnaði unglingavinnunni um árið með Braga Þorsteins, sælla minninga.

Ef ég hef gleymt einhverju í millitíðinni þá man ég ekki eftir því.

laugardagur, 22. maí 2004

Ég óska hér með opinberlega öllum þeim sem eru að útskrifast úr Menntaskóla Egilsstaða og öðrum skólum til hamingju með áfangann en í dag var útskrift ME. Í kjölfarið hélt undirritaður í útskriftarveislu Bergvins sem haldin var á Urriðavatni. Ég þekkti fáa, var einn og eins og fáráður þannig að ég lét mig hverfa fljótlega.

Þá er það bara spurning hvort maður fari á útskriftarball í kvöld. Einföld spurning og við henni er til einfalt svar; nei. Ástæðan er öllu flóknari og fer ég ekki nánar út í hana að svo stöddu.
Í nótt dreymdi mig allt og alla gerandi allt með öllum. Til að gera langa og ósmekklega sögu stutta þá.

föstudagur, 21. maí 2004

Þetta er með því áhugaverðasta afþreyingarefni sem ég hef séð síðan tímaflakkarinn John Titor var, er, verður, hét, heitir og mun heita.

Ég veit þó innst inni að þarna er einmanna sál á ferð sem vill bara fá athygli samfélagsins. Andy Kaufman er að öllum líkindum dáinn í alvöru.
Þá er ég loksins kominn á bílinn minn. Ekki tók það langan tíma eða mikinn pening. Aðeins 5 daga viðgerð og litlar 60.000 krónur sem fóru í viðgerðir, skoðanir og eitthvað smáræði í viðbót. Þetta er að sjálfsögðu þess virði þar sem ég keypti bílinn á 15.000 krónur fyrir 16 mánuðum síðan.

fimmtudagur, 20. maí 2004

Ég er rétt búinn að búa á Helgafelli í viku þegar þetta er ritað og nú þegar hef ég lent í hörku ævintýri. Þannig er mál með vexti að í morgun þegar ég vaknaði uppgötvaði ég að í lokaða arninum var fastur fugl sem hafði flogið inn um skorsteininn og fest sig þar inni. Ég ákvað, eftir langa umhugsun, að opna arininn og taka hann með poka yfir höndunum. Það tókst eftir langa baráttu og ég henti honum út þar sem hann flögraði út í óvissuna.
Hann slapp ómeiddur en ég skaddaðist illa á sálinni.
Eyddi gærkvöldinu og nóttinni í að horfa á NBA leik milli Minnesota Timberwolves og Sacramento Kings sem var býsna góður. Allavega, hugmynd kviknaði við áhorfið:

Þá er komið að fjórförum vikunnar. Þeir eru að þessu sinni ekki alltof líkir en meira þróun frá ljótu yfir í fegurðina.



Einhver náungi af netinu. Býsna ófríður.


Sam Cassell, einn sá ljótasti í körfuboltanum.


Ronaldinho, einn sá ljótasti í fótboltanum.


Adriana Lima, ein sú fegursta í fyrirsætubransanum.

miðvikudagur, 19. maí 2004

Þegar undirritaður ákveður að fara austur á land, hvað gerist? Auðvitað það sem hefur margsannað sig; allt sem getur farið úrskeiðis fer úrskeiðis. Nokkur dæmi:

Ég sendi bílinn minn í smáviðgerð þar sem þurfti að skipta um spindil og eitthvað smáræði í viðbót. Hvað gerist? Auðvitað finnur bifvélavirkinn ca 2ja gramma stykki í öxlinum sem þarf að skipta um og auðvitað finnst ekkert annað þannig stykki á austurlandinu. Bíllinn er búinn að vera þrjá daga í viðgerð.

Ég ætla að fara á internetið í fartölvunni. Það gengur ekki og eftir umtalsverð vandræði tekst mér loksins, eftir rúma fimm daga, að koma því inn. Hvað gerist þá? Tölvan frýs og virðist, þegar þetta er ritað, vera handónýt.

Ég ætla að spila körfubolta eins og geðsjúklingur. Ekki hægt fyrstu vikuna þar sem íþróttahúsið er lokað. Það skiptir engu máli þar sem bíllinn minn er í viðgerð og ég bý í Fellabæ sem aftur skiptir engu máli því enginn í þessu helvítis bæjarfélagi virðist hafa áhuga á því að spila körfubolta. Svona er þetta víst þegar strákar komast yfir tvítugt og byrja að hugsa með tittlingnum. Ég hef eitthvað farið á mis við þessar kenndir greinilega.

Þetta hefur aðeins kennt mér eitt í gegnum tíðina; aldrei að reyna nokkurn skapaðan hlut. Ég plana að eyða restinni af minni ævi í að horfa á helvítis sjónvarpið.

þriðjudagur, 18. maí 2004

Þessi dagur hefur verið með þeim verri sem ég hef upplifað. Ég fer ekki nánar út í það að svo stöddu. Ekkert alvarlegt þó, bara hvert smáslysið á fætur öðru. Náði meðal annars að reka höfuðið í báðar járnhlussurnar sem hanga í kringum ljósið í herberginu mínu nýja áður en ég komst í tannburstun. Þarf ekki að segja meira um þennan dag. Þið skiljið vonandi ekki hvað ég á við.
Síðustu þrjár vikur mínar í háskólanum einkenndust af verkefnavinnu til ca 16:00 og allt að 20:00 á kvöldin. Þannig skapaðist svigrúm til að sinna áhugamálunum. Ég notfærði mér það þó ekki heldur lagðist í sófa á tunguveginum og horfði á sjónvarpið, í flestum tilvikum á tónlistarmyndbönd á VH1 eða popp tíví. Hér kemur því listinn yfir mín uppáhalds myndbönd á þessu tímabili en topp 5 listinn inniheldur að þessu sinni 7 myndbönd, aðallega vegna verðbólgu.

7. Feels like the first time - The Rasmus
6. Hey ya - Outcast
5. Can't stop - Red Hot Chili Peppers
4. Fell in love with a girl - The White Stripes
3. Hate to say I told you so - The Hives
2. Seven nation army - The White Stripes
1. Voice inside my head - Blink 182

Til gamans má geta þess að ég hef dálæti á öllum þessum lögum, þó mismikið. Einnig má nefna að Blink 182 hefur ætíð verið á dauðalistanum mínum, þangað til ég heyrði þetta lag með þeim.

mánudagur, 17. maí 2004

Ég vildi ekki viðurkenna það fyrir nokkrum dögum en blákaldur sannleikurinn verður að koma í ljós. Ég sakna, mest af öllu, Háskólans í Reykjavík þessa dagana. Tilhugsunin um að geta farið nánast þegar ég vil og hlustað á fyrirlestra, lært heima eða bara unnið í verkefnavinnu með hópnum mínum er mjög ljúf.

Mér líkar samt vel hérna og í vinnunni sem byrjar innan skamms en svona er þetta þegar maður eyðir milli 12 og 16 tímum á dag í skólanum og er svo rifinn upp með rótum, nánast fyrirvaralaust, til að troða manni í vinnu yfir sumartímann og gefa manni "frí".
Það er ýmislegt sem ég gerði til að spara peninginn sem nemi í Reykjavík. Hér eru helstu sparnaðarleiðir:

* Var með frelsi og keypti alls innistæðu fyrir um 2.000 krónur á níu mánuðum. Sparaði mér þar um 16.000 krónur (500 krónur á viku í 9 mánuði mínus 2.000 krónur).
* Skildi bílinn eftir heima og tók strætó. Sparaði þannig ca 144.000 krónur í bensín (kr 4.000 á viku). Strætógjaldið gengur upp í viðhald og annað.
* Drakk ekki áfengan dropa allan tímann. Sparaði þannig ca 81.000 krónur gróflega áætlað (4.500 krónur á 2ja vikna fresti).
* Fór einu sinni í klippingu. Sparaði mér þarmeð 16.000 krónur (2.000 krónur klippingin á mánaðarfresti).
* Niðurhlóð myndum í stað þess að leigja mér spólur eftir áramót. Þannig spöruðust kr 7.200 (450 krónur á viku fresti).
* Fór aldrei til læknis eða tannlæknis. Hélt tönnum hreinum og lifði af veikindin og aðra kvilla. Sparaði mér þannig gróflega áætlað kr 40.000. Tannlæknar eru dýr dýr.
* Keypti mér aldrei föt nema undir lokin. Sparaði mér þar kr 28.000 (5.000 krónur á mánuði mínus 17.000 króna leðurjakki).
* Verslaði í bónus. Sparaði mér þarmeð um 9.000 krónur (500 krónur sparnaður við hverja verslunarferð, tvisvar í mánuði í níu mánuði).

Þannig reiknast mér til að ég hafi sparað mér kr 341.200 með því að lifa eins og fátæklingur.

En ekki lengur.

sunnudagur, 16. maí 2004

Nú þegar ég er kominn austur má búast við nokkrum yfirlitum yfir veturinn. Það fyrsta er stutt og laggott:

Tölfræði dagsins: Ég fór sjö sinnum í jakkafötin mín í vetur.

1x fyrir markaðsfræðiáfanga.
3x fyrir jarðarför.
3x fyrir stofnun og rekstur kynningar.


Hingað til hafði ég bara klætt mig í þau fimm sinnum.

1x fyrir útskriftina mína úr ME.
1x fyrir útskrift Björgvins úr ME.
1x fyrir jarðarför.
2x fyrir ónefndar eða gleymdar athafnir.

Ekki slæm nýting fyrir 15.000 krónur fyrir rúmlega 5 árum síðan.
Gærkvöldin var notað til að sanna að ég er orðinn of gamall fyrir drykkju. Einhverjum var boðið í teiti í mitt nýja húsnæði og það eina sem ég hugsaði um allan tímann var að ekkert myndi skemmast eða að ekki yrði hellt niður. Eftir að allir fóru kíkti Helgi bróðir í heimsókn, ég steikti kjötstykki fyrir okkur og við spjölluðum við Gylfa meðleigjanda. Ég reyndist þó nokkuð sannspár varðandi Eurovisionlagið og vann veðbankann.

Hörkufjör á Helgafelli semsagt.

laugardagur, 15. maí 2004

Eurovision keppnin að byrja eftir hálftíma. Sjaldan hef ég verið í jafnlitlu stuði til að drekka áfengi við þá keppni. Ástæðan er sennilega sú að ég er farinn að gleyma hvernig á að drekka áfengi þar sem ég drakk síðast í ágúst eða fyrir níu mánuðum síðan.

Allavega, ég spái íslenska laginu 20. sæti. Mér finnst þó lagið frekar gott, róleg lög eiga bara ekki upp á pallborðið hjá fólki sem er að heyra þetta, í flestum tilvikum býst ég við, í fyrsta skipti.
Hetja dagsins eða ölluheldur ársins er Steingrímur Joð fyrir að láta hinn heilaga Davíð sjálfstæðismanna heyra það, svo vægt sé til orða tekið. Það sannast hér með að Steingrímur Joð er einn mesti snillingur samtímans.

Hlustið á herlegheitin hér. Mæli sterklega með því!
Fyrsti körfubolti sumarsins að baki. Eins og við var að búast saug ég rassgat í honum en það batnar vonandi með aukinni hreyfingu. Ég þarf þó ekki og mun ekki sitja amk 12 tíma á dag að læra hérna á austurlandinu.

Allavega, nóg um það. Eftirfarandi er tæmandi listi yfir það sem ég sakna úr Reykjavíkinni:

KFC Zinger Twister.

Ég hlýt að komast yfir söknuðinn á endanum.

föstudagur, 14. maí 2004

Býsna andlega erfiður dagur kominn að kveldi. Nokkrar ástæður fyrir erfiðleikunum:

Ég er..

..bíllaus
..peningalaus
..internetlaus (skrifa þetta úr tölvu Gylfa)
..getulaus
..vitlaus

og ég var að uppgötva rétt í þessu að ég finn ekki gemsann minn þannig að ég er líka gemsalaus.

Byrjunarörðuleikar á austurlandinu. Leiðin liggur aðeins upp á við.

fimmtudagur, 13. maí 2004

Þá er ég mættur austur á Egilsstaði. Íbúðin sem ég mun búa í í sumar er helvíti mögnuð og meðleigendurnir jafnvel meira magnaðir. Vorum ca sex og hálfan tíma á leiðinni sem telst gott, eða slæmt. Fer eftir því á hvernig það er litið.

Lokafyrirlesturinn í stofnun og rekstri í morgun gekk einnig framar vonum. Segi ekki meira um það fyrr en ég fæ beinharða einkunn.

Allavega, ég tek daginn í dag í að afpakka og spjalla við fjölskylduna. Morgundagurinn fer í viðgerð á bílnum og helst að koma honum á götuma og vonandi öll helgin í að spila körfubolta.

Afsakið hvað þetta er þurrt og leiðinlegt. Er frekar þreyttur eftir nánast svefnlausa nótt.
Þegar hingað er komið við sögu er klukkan 02:15 aðfaranótt fyrirlestrardags míns sem byrjar nú eftir ca 7 tíma. Ég er að taka til í herberginu mínu og skemmti mér konunglega. Upp rifjast fjöldinn allur af eftirminnilegum verkefnum sem ég hef unnið fyrir hina og þessa áfanga (og ribbaldanemendur). Ó hvað ég á eftir að sakna skólans. Nú tekur bara við vinna á skattinum þar sem engin heimavinna verður á kvöldin og bölvaðir peningar að þvælast fyrir um hver mánaðarmót.

Allavega, ég þakka fyrir mig. Þetta er síðasta færslan á þessu bloggi sem skrifuð er í Reykjavík fram í ágúst, hvar sem ég verð staðsettur þá. Ég hlakka til að sjá Egilsstaði og að blogga þaðan.

Vertu sæl Reykjavík.

miðvikudagur, 12. maí 2004

Síðasti dagur minn í Reykjavík í bili og ég eyði honum í að skipuleggja fyrirlestur sem fer fram á morgun, rétt áður en ég legg af stað keyrandi austur með Markúsi nokkrum.

Það fer því lítið blogg fram í dag. Þið getið þó huggað ykkur við það að mér líður talsvert illa vegna þreytu og vegna þess að hausinn á mér er við það að springa.

Ætla að reyna að koma amk einni færslu að á morgun.

þriðjudagur, 11. maí 2004

Ég veit ekki hvað er að koma fyrir mig. Í gær keypti ég mér jakka fyrir gríðarháa upphæð án þess að hugsa mig tvisvar um. Í dag keypti ég mér HR peysu fyrir um 2.400 krónur án þess að velta því fyrir mér lengur en í ca fjórar sekúndur.
Og núna, þegar þetta er ritað er ég á leið niður í bæ í heimsókn til ömmu, ekki einu sinni vitandi hvort hún sé við eða upptekin þar sem hún svarar ekki í síma. Ótrúlegt hvað ég er klikkaður.
Eftir að hafa skilað inn rúmlega 110 blaðsíðna verkefni í gær missti ég stjórnina á visa kortinu og verslaði mér leðurjakka upp á 17.000 krónur. Þar var ég óvenjufljótur að taka við mér og versla yfirhöfn þegar mig hefur vantað eina slíka í ca fimm ár. Úlpan bláa (vörumerki mitt orðið) fær því að fjúka innan skamms. Hana hef ég átt frá því ég var 19 ára eða frá árinu 1997.

Þessi jakki kemst beint í fjórða sæti á top tólf lista yfir mínar verðmætustu eignir.

Hér er listinn yfir mínar dýrmætustu eignir, sú dýrasta efst:

1. Fartölvan Ellert.
2. Bifreiðin mín, Lancer 1987 árgerð.
3. Borðtölvan mín, Hreggviður (sem er til sölu).
4. Leðurjakinn sem ég var að kaupa.
5. Rúmið mitt, chess að nafni, sem ég fékk í útskriftargjöf.
6. Sjónvarpið mitt, ca 11 ára gamalt.
7. Vinir mínir.
8. Vídeótækið mitt, ca 10 ára gamalt.
9. Skákborðið mitt.
10. Stafræna myndavélin mín, ca 2ja ára hlunkur.
11. Farsíminn minn, metinn á 12 krónur.
12. Fötin mín, samanlögð.

Hér er ríkur maður á ferð.
Það er komið nýtt viðmót á blogger.com með ýmsum nýungum. Meðal þess sem ég get séð núna er heildarfjöldi bloggfærsla sem ég hef skrifað frá upphafi á þessari síðu en hún hóf göngu sína í október 2002. Það vill svo stórkostlega skemmtilega til að þessi færsla er einmitt númer 1.201 frá upphafi! (fyrsta upphrópunarmerkið frá upphafi líka þarna)
Þetta gefur mér að að meðaltali hef ég bloggað 19 sinnum á viku, sem gera rúmlega 2,7 sinnum á dag, 0,7 oftar en ég ætlaði mér en fyrir allnokkru síðan lofaði ég að blogga tvisvar á dag. Þetta er rúmlega 36% meiri virkni en ég ætlaði mér.

Ég biðst velvirðingar að standa ekki við orð mín og fyrir að eiga mér minna líf en ég gerði ráð fyrir.

mánudagur, 10. maí 2004

Þið sem eruð með fortíðarþrá á háu stigi eins og ég, smellið hér og hlustið á he-man upphafsstefið (erlent niðurhlað, ca 1,5 mb í mesta lagi).

Þið hin ráðið ykkur sjálf.
Nýlega rifjaðist upp fyrir mér að ég þekki aðeins einn Palla. Í framhaldi af því fór ég að velta því fyrir mér hvar allir Pallar landsins héldu sig eða af hverju það eru svona fáir til á landinu.
Í dag sá ég svo bækling frá Laugum (nýja world class) þar sem auglýstir voru allskyns möguleikar í líkamsrækt og öðru. Þar sá ég, svart á hvítu, eitt það ógeðfeldasta sem ég hef séð í marga klukkutíma. Á Laugum er stunduð Pallabrennsla einu sinni á dag. Það er ekki nema von að Pallinn sem ég þekki er frekar hlédrægur og lítið fyrir að fara í borgina.
Ótrúlegt hvað fólk gengur langt í skjóli líkamsræktar. Skammist ykkar Laugar.

sunnudagur, 9. maí 2004

Daginn eftir að hafa séð slagsmálaóskapnaðinn Van Helsing í bíó gerði ég mér lítið fyrir og lenti í hörkuslagsmálum við randaflugu sem gerði sig reiðubúna til að ráðast inn á Tunguveginn. Ég sá hana við innganginn þegar ég vaknaði og var ekki lengi að rjúka til og hóta henni öllu illu ef hún færi ekki heim til sín. Það kom berlega í ljós að hún var ekki með öllum mjalla þegar hún sagðist ekki ætla að fara. Ég skvetti því á hana talsverðu magni af vatni, stökk svo á hana og sló hana endurtekið í andlitið með steyttum hnefa. Hún rotaðist loksins eftir rúmlega 10-15 högg en þá dró ég hana út yfir lóðarmörkin þar sem hún gat sofið úr sér.

Stórhættulegar svona bíómyndir. Venjulega beiti ég diplómatískum aðferðum en þarna greip ég til ofbeldis, fyrir tilstilli Van Helsing. Þetta fór þó vel að þessu sinni en hver veit hvað gerist næst.
Í gær var hálfgerður kveðjudagur hjá mér hérna í Reykjavíkinni. Ég fór í körfubolta í síðasta sinn á Álftarnesi í bili og eftir þá lífreynslu, beint út að borða á TGI Friday með Óla og hans frú sem ber nafnið Anna. Ég fékk mér gestaþrautina Rif að borða með kóki og súpu í forrétt. Ég hefði getað sagt mér það sjálfur að það þýðir lítið fyrir mig að fara út að borða þar sem allt í lífi mínu sem getur farið úrskeiðis fer úrskeiðis. Ég brenndi mig býsna harkalega á súpunni og fékk magakveisu um kvöldið eftir matinn auk þess sem þjónustustúlkan var ekki nógu smeðjuleg fyrir minn smekk.

En þetta var þó ódýrt, aðeins um 3.000 krónur sem Visa var nógu vinsamlegt að lána mér fyrir. Takk Visa.

Ég semsagt kvaddi körfuboltahópinn, Óla og frú og löngunina að fara á TGI Friday.

laugardagur, 8. maí 2004

Ég vil minna á spjallborðið fyrir þá sem vilja koma einhverju á framfæri. Ég hef orðið var við pirring hérna hjá hinum og þessum varðandi skrif mín. Þá er um að gera að skrifa á spjallborðið og skapa líflegt vefumhverfi fyrir málefnalega umræðu, nú eða bara að tuða.

Smellið hér til að komast á spjallið.


Ofurtöffarinn Van Helsing.


Í gærkvöldi fór ég í bíó aldrei þessu vant á myndina Van Helsing. Eitthvar ræddi bíóföruneytið um að þetta væri heimsfrumsýning en ég sel það ekki dýrara en ég keypti.
Hér er nokkrir punktar varðandi myndina:

* Myndin fjallar um einfarann Van Helsing sem sér um að slátra óvættum allskonar. Hugh Jackman leikur manninn og er hann í yngri kanntinum þar sem hinn upprunalegi Van Helsins í Drakúla ævintýrinu var gamall og klaufalegur maður. Þessi er allt annað en klaufalegur. Allt fyrir töffarakynslóðina býst ég við.
* Handritið er með þeim verri sem ég hef orðið vitni að.
* Leikurinn er slappur svo ekki sé minna sagt.
* Það er meira leikið af mönnum í Toy Story en þessari. Tæknibrellurnar eru allsráðandi, sem í þessu tilviki er galli.
* Það virðist engin hugsun vera í neinu sem fram fer í þessari mynd. Það t.d. kviknar í þaki á hestvagni þegar varúlfur stekkur á það. Bara eitt af fjölmörgum dæmum.
* Versta nýting brandara í bíómynd sem ég hef séð. Hlegið að ca tveimur bröndurum aula aukaleikarans af rúmlega 50. Það gerir 4 prósent nýtingu.
* Sætin í háskólabíó eru þau verstu í hinum siðmenntaða heimi.

Hálf stjarna af fjórum.

föstudagur, 7. maí 2004

Snorri nokkur Ásmundsson, forsetaframbjóðandi sat í strætó í gær þegar ég tók hann heim (strætóinn!). Magnað hvað hann leggur á sig til að ná til fólksins. Leiðinlegt þó hvað hann virtist einmanna og dapur þegar hann hallaði sér að rúðunni og horfði út í spillingu borgarinnar.

Bara fyrir þetta fær hann atkvæði mitt.
Nýlega frétti ég hvernig síðasti vinaþátturinn endar. Þarmeð hef ég eignast óbrigðult tól til að ráðskast með kvenfólk en ca 97% allra Íslenskra kvenna fylgist með þessum þáttum af áfergju. Verið því góðar við mig stelpur eða forðist mig. Ég mæli samt með hinu fyrrnefnda.
Það er betra að taka það fram fyrir kvenkyns gesti og gangandi að mestmegnis er þetta blogg verulega ósmekkleg tilraun mín til að vera fyndinn, nema þegar um pólitík er að ræða. Örlað hefur á sárindum hjá þeim og er það miður.

Ég biðst því velvirðingar til allra kvenna sem hafa átt leið hérna framhjá. Þeim er, eins og öllum öðrum, velkomið að hætta að lesa síðuna hvenær sem er og tek ég þeirri ákvörðun þeirra fagnandi.

Í flestum tilvikum er þó sannleikskorn í skrifum mínum, að mér finnst, en oft má satt kyrrt liggja. Ég hef hingað til verið fullhreinskilinn og rúmlega það.

fimmtudagur, 6. maí 2004

Ef hver og einn friendsþáttur í nýjustu seríunni væri djúsglas þá væri blandan ca 1 dropi af appelsínuþykkni gegn ca 255 lítrum af vatni, ef appelsínuþykknin táknar húmor. Vægast sagt útþynnt og ömurlegt sem skilur bara furðulegt bragð eftir í kjaftinum, ef þá eitthvað.

Þessu líkur þó öllu, loksins, í kvöld í bandaríkjunum.
Þegar humor.is klúðrið er loksins að klárast tekur annað við. Í morgun var vitnað í þessa síðu í austfirðingablaðinu Austurglugginn án minnar vitundar, nánar tiltekið þessa færslu. Þetta er þó skömminni skárra en humor.is ruglið því í þetta skiptið mun sennilega fólk á öllum aldri frá austfjörðum hrannast inn á síðuna í stað 10-15 ára krakkafífla frá Reykjavík sem fylgja humor.is en sænskir vísindamenn hafa margoft sannað að fólk frá austfjörðum er mun siðaðra en fólk úr borginni. Ég vona nú bara að það hagi sér vel, ef það kemur á síðuna á annað borð.

miðvikudagur, 5. maí 2004

Það er stórskemmtilegur liður í þrusuþættinum Popppunktur sem gengur út á að giska á rétt diskahulstur á meðan mynd af því birtist smám saman. Ástæðan fyrir því að mér finnst þessi liður stórskemmtilegur er einfaldlega sú að mér hefur í tveimur síðustu þáttum tekist að giska á rétt hulstur eftir fyrsta kubbinn sem birtist. Hulstrin voru Frískur og fjörugur með Hemma Gunn og Fat of the land með Prodigy.

Og ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér er einfaldlega sú að strákarnir á Tunguvegi 18 eru orðnir býsna þreyttir á því að ég minnist ekki á neitt annað. Mér ber þá að pirra restina af heiminum í gegnum vefsíðuna með því eina sem ég get verið stoltur af.
Ég hef loksins, eftir áralanga leit, fundið Nick Knatterton, einkaspæjarateiknimyndahetjuna sem olli því að ég varð alsæll í liðlega korter, 18. nóvember 1985, í Trékyllisvík. Öllu góðu fylgir þó alltaf eitthvað slæmt og er þessi fundur minn engin undantekning. Nick Knatterton og allt efni með honum er á þýsku en það er eitt af u.þ.b. 2.498 tungumálum sem ég kann ekki eða illa, ef alls eru um 2.500 tungumál í heiminum.

Allavega, hér er Nick Knatterton loksins.
Ég er búinn að tala við fimm stelpur í dag og átta tímar eftir af honum. Geri aðrir betur!

þriðjudagur, 4. maí 2004

Ég lenti í smá bobba í dag þegar hraðbanki skólans gleypti visa kortið mitt á nákvæmlega sama tíma og ég fattaði að ég hafði týnt debet kortinu mínu. Ég var svangur og þreyttur, átti 24 krónur í vasanum og strætókortið að renna út. Eftirtaldir möguleikar voru í stöðunni:

1. Hringja í númer sem gefið er upp á hraðbankanum og fá kortið aftur. Gekk ekki, kortið útrunnið.
2. Fá nýtt visakort sem á að bíða mín í næsta banka. Gekk ekki, heimabankinn á Egilsstöðum, ég í Reykjavík.
3. Ganga í næsta banka og taka út með því að fylla út úttektarseðil með þar til gerðu leyninúmeri. Gekk ekki, mundi ekki númerið.
4. Ganga í næsta banka og taka út með því að fylla út úttektarseðil með því að sýna nafnskírteini. Gekk ekki, kortin voru nafnskírteinin mín. Týndi líka ökuskírteininu fyrir fjórum árum.
5. Selja sálu mína djöflinum fyrir nokkra þúsund kalla. Gekk ekki, djöfullinn ekki til og sálin mín ekki svo verðmæt.
6. Finna debetkortið. Gekk upp, fann það í verslun sem ég hafði verslað við daginn áður.

Til gamans má geta þess að sjötti möguleikinn var sá allra síðasti í stöðunni. Alls ekki kemur til greina að fá pening lánaðan hjá vinum. Ég hef aldrei gert það og mun vonandi aldrei þurfa þess.

2.400 krónur á debetkortinu og ég í góðum gír út mánuðinn.
Hér er meira frá pyntingum óþverrana í bandaríkjunum og bretlandi á Írökum. Þetta er alls ekki við hæfi yngri en 18 ára og þeirra sem ekki kusu núverandi stjórn. Þið sem kusuð stjórnina sem bendlaði Ísland við þetta, verði ykkur að góðu.
Ég hef bætt við fimm myndum hérna uppi í hægra hornið. Gangi ykkur vel að finna þær. Fyrir ykkur sem ekki þekkja til þá hleðst ný mynd við hvert endurhlað á síðunni (ódýr leið til að fá teljarann til að hækka).

mánudagur, 3. maí 2004

Ég fór yfir diskasafnið mitt nýlega sem spannar hátt í 200 vandlega valda diska og það kom mér virkilega á óvart að ég á aðeins 2 diska með kvenkyns tónlistarmanni í aðalhlutverki. Þeir diskar eru með Natalie Imbruglia og Alanis Morrisette. Ég held meira að segja að það séu einu kvenmennirnir á diskunum mínum ef undan eru taldar Diddú á Spilverk þjóðanna disknunum mínum (bakraddir aðallega) og fyrrverandi kona Jack White úr The White stripes en hún spilar á trommur, ótrúlegt nokk.

Það má draga aðra af eftirfarandi ályktunum af þessari rannsókn minni:

1. Kvenhatur mitt á sér djúpar rætur og langa, bitra sögu.
2. Kvenmenn eru afskaplega leiðinlegir tónlistarmenn.

Ég hallast að því síðarnefnda og þarmeð hinu fyrrnefnda.
Eins og áður hefur komið fram slasaði ég mig lítillega á munni við að spila körfubolta síðasta laugardag og er því blár í vinstra munnviki. Í verkefnavinnunni í morgun í skólanum bentu svo allnokkrir mér á að ég var með bláberjabláma við munninn. Ég laug skýrt og greinilega ýmist að ég hafi verið í slagsmálum, slasað mig í ástundun jaðaríþróttar eða að kettlingurinn minn hefði bitið mig í vörina, allt eftir útliti og áhugamálum stelpunnar sem spurði. Fólk átti þó erfitt með að trúa útskýringum mínum mér til mikillar armæðu.

Nokkrum tímum síðar, þegar ég skrapp til að þvo mér um hendurnar var mér litið í spegilinn og viti menn, stærðarinnar og frekar óheppilegur bláberjablettur var rétt fyrir neðan munninn eftir morgunmatinn.

sunnudagur, 2. maí 2004

Merkilegt með hann Bach, hvernig hann veigraði sér ekki við að stela frá öðrum. Í dag hefði þetta bara talist ritstuldur en...

Nóg um það.

Þarna bjargaði ég mér, enn eina ferðina, naumt frá því að brjóta 2ja-færslu-á-dag-regluna.

Það lítur út fyrir að ég sé að verða búinn með allt sem mér fannst ég þurfa að segja heiminum þegar ég byrjaði á þessu bloggi í október 2002. Spyrjum að leikslokum.
Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn; smellið hér og skoðið það sem Ísland átti hlut að fyrir ykkar tilstilli. Skora á ykkur að lesa þetta til enda, sem ég stórefast um að þið gerið enda viljið þið ekki láta bendla ykkur við þetta.

Í annað tengt. Útlendingafrumvarpið náði í gegn, þrátt fyrir augljósa andstöðu þjóðarinnar gegn því. En svona er þetta, fólk kýs skepnurnar á þing sem svo koma með fáránlegar ákvarðanir (útlendingafrumvarpið og stuðningur við Íraksfjöldamorðin, sem fór ekki einu sinni í gegnum þingið!) og fólk mótmælir og er hunsað af þingmönnum en þegar kemur að kosningum, hvað gerir snarheimska fólk landsins? Það kýs sömu fíflið yfir sig og okkur hin.

laugardagur, 1. maí 2004

Þessi æsifrétt var að berast:

Í dag klukkan ca 18:30 fékk ég haus í munninn í æsispennandi körfuboltaleik. Það olli því að vörin þrýstist í tennur sem aftur olli því að vörin rifnaði að innanverðu og rauðleitur vökvi seitlaði um munn og andlit mitt. Ég bar mig þó karlmannlega, lagðist í jörðina og orgaði í ca 15 mínútur eða þangað til ég áttaði mig á að meiðslin voru ekki svo alvarleg. Ég ber þó líkamleg einkenni þess að hafa fengið haus í andlitið.

Ég hlakka bara til að segja stelpum skólans að ég hafi lent í brjáluðum barslagsmálum, eftir að hafa haldið tónleika um kettlinga og grætt milljónir á þeim.
Til að koma í veg fyrir allan misskilning þá þekki ég þessa Silju sem skrifaði í gestabókina og bað mig að taka sig á Húsarvíkurfjall ekki neitt enda hún eflaust helmingi yngri en ég.

Við þessi orð efast ég ekki um að fólk kíki í gestabókina í kílóbætatali. Hvernig væri þá að nota tækifærið og skrifa nokkur orð? Það þarf ekki einu sinni að skrifa undir réttu nafni. Ég hef endanlega gefist upp á því að fá fólk til að tjá sig undir nafni.