þriðjudagur, 28. september 2010

Ást á þrekhjóli

Eftirfarandi ævintýri átti sér stað í ræktinni á föstudaginn þegar ég notaði þrekhjól í Laugum:
Smelltu á myndina fyrir stærra eintak í nýjum glugga!
Atriði 1: Ein lögulegasta kona allra tíma settist á næsta hjól við mig.

Atriði 2: Ég, haldandi utan um púlsmæli þrekhjólsins, sá að púlsinn hafði snarhækkað frá því hún settist niður. Gæti tengst því að ég áttaði mig á stöðunni; ég var rétt um 50 sentímetra frá því að vera í sleik við hana.

Ég kippti því höndunum af mælinum, svo mikið bar á.

Atriði 3: Þar sem líkami minn leyfir mér ekki að tala við konur af þessari fegurðargráðu, reyndi ég að tjá mig með öðrum hætti. Í þeirri veiku von að hún væri með "Hátt-level-á-þrekhjóli" blæti þegar kemur að karlmönnum, hækkaði ég levelið á hjólinu. Allt kom fyrir ekki.

Atriði 4: Hún lauk upphitun á þrekhjólinu og fór, án þess að vita að hún sæti við hliðina á einhverjum. Ég náði andanum aftur og var feginn að vera laus úr þessu sambandi.

sunnudagur, 26. september 2010

Djöflaterta Finnsdóttir

Ég vil síður gera lítið úr öllum bökurum landsins en hjá því verður ekki komist eftir það sem gerðist í gær. Þá bakaði ég nefnilega köku, eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Það má eiginlega segja að ég hafi notið ásta með vinkonu minni Betty Crocker og sett í ofninn. Útkoman er afkvæmi okkar; Djöflaterta Finnsdóttir Crocker (Betty vildi halda ættarnafninu):


Hún er með minn háralit en vaxtarlag mömmu sinnar.

föstudagur, 24. september 2010

Ræktartölfræði

Það tíðkast víða á netinu að taka fram virkni sína í ræktinni. Ég vil ekki vera útundan. Hér er mín tölfræði úr ræktarferð minni á miðvikudaginn, sælla minninga:

Ég hljóp rúmlega 718 þúsund sentimetra á aðeins 0,0347 dögum, sem gerir tæplega 1,5 milljarða mm/viku meðalhraða eða 0,002393 kílómetra á sekúndu.

Á meðan á þessu stóð svitnaði ég á meðalhraðanum 7.889 lítrar á ári.

Þessi mynd ætti að útskýra betur árangurinn:

Það vantar talsvert upp á úthald mitt.

Ég svitna þó ekki svo mikið.

miðvikudagur, 22. september 2010

Bróðurdóttir mín

Eins og áður kom fram hér eignuðust Björgvin bróðir og Svetlana sitt fyrsta barn (stelpu) á sunnudaginn 19. september síðastliðinn. Hér eru myndir sem ég tók af stelpunni í gær:

Gríðarlega fallegt barn.
Dökkhærð og fíngerð.
Sefur mjög fast.
Þá get ég uppfært fjölskyldutréið mitt (smellið á mynd fyrir lesanlegt eintak í nýjum glugga):

Blátt táknar karlmenni og bleikt kvenmenni.

Fökk

Hér eru nokkur kvót sem ég hef sagt nýlega og mun segja í fjarlægri framtíð:

Að minnsta kosti þrisvar í sumar í vinnunni: "Fökk, klukkan orðin tvö. Ég gleymdi að fara í mat."

Í gær: "Fökk, sumarið er búið. Ég gleymdi að taka sumarfrí."

12. ágúst 2060: "Fökk, lífið er að klárast. Ég gleymdi [eitthvað mikilvægt]."

þriðjudagur, 21. september 2010

Breytingar á síðu

Þessari síðu hefur verið breytt enn eina ferðina. Í þetta sinn sameinaði ég hliðarrennurnar á hvorri hlið síðunnar í eina hliðarrennu hægra megin. Ennfremur færði ég hlekki, Facebookdrasl og annað til.

Fyrir þá sem skilja ekki enn hvernig ég breytti síðunni, skoðið skipulagsskjalið hér að neðan, sem notast var við þegar aðgerð hófst:

Bláprent af breytingunni. Smellið á skjal fyrir stærra eintak í nýjum glugga.

Tillögur að nýjum breytingum eru alltaf velkomnar.

sunnudagur, 19. september 2010

Fjölgun

Í morgun klukkan 8:05 fæddist bróður mínum, Björgvini og spúsu hans, Svetlönu, þeirra fyrsta barn. Dóttir nánar tiltekið. Ég er því orðinn föður- og móðurbróðir í fjórða sinn.

Ég kíkti á stolta foreldra í dag á fæðingardeildina og get staðfest að stelpan er gríðarfögur, bæði fíngerð og glæsileg. Hún er líka með talsvert langar tær; píanótær eins og Björgvin orðaði það.

Ég ætla að leyfa foreldrum að birta fyrst myndir af stelpunni. Myndir koma því síðar.

Innilega til hamingju, Björgvin og Svetlana!

laugardagur, 18. september 2010

Eldunarmont

Ég vil ekki monta mig en ég eldaði máltíð í gær sem krafðist þess að ég notaði 75% allra eldavélahellna hússins, sem er persónulegt met og mögulega íslandsmet.

Máltíðin var ekkert sérstök, en það er aukaatriði.

Myndir:

3/4 hellna í notkun.
Tilbúin máltíð. Einfalt og ekki endilega gott.

fimmtudagur, 16. september 2010

Frábær föstudagur

Á föstudögum kemur út aukablaðið Föstudagur í Fréttablaðinu. Á öftustu síðu þessa aukablaðs er að finna hlutann "Frábær föstudagur" en þar segir einhver frá sinni hugmynd að frábærum föstudegi í fimm skrefum, sjá hér.

Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að ég hafi ekki verið valinn til að lýsa mínum frábæra föstudegi í föstudagsblaðinu á morgun, ekki frekar en hingað til, sem eru talsverð vonbrigði. Sá grunur læðist að mér að ég sé ekki nógu merkilegur. Sá grunur er án nokkurs vafa rangur. Hér er því minn frábæri föstudagur, aðeins fyrir lesendur þessarar síðu:

1. Excel
1. Vakna úthvíldur kl 8:30, eftir að hafa farið snemma að sofa í fyrsta sinn síðan 1993. Fer í vinnuna þar sem ég klára Excel skjal sem veldur straumhvörfum fyrir alla Íslendinga, einhvernveginn.

2. Blogg
2. Fer snemma úr vinnunni. Skrifa stórkostlega bloggfærslu. Svo stórkostlega að netheimurinn logar úr hrifningu. Heil athugasemd er skrifuð við færsluna.

3. Rækt
3. Ég fer í ræktina þar sem ég hleyp og lyfti eins og ég sé troðfullur af orku. Fagra stelpan sem ég þori aldrei að tala við gefur mér auga. Í stað þess að líta undan og verða klökkur úr stressi, fer ég og tala við hana. Kemur í ljós að hún elskar Excel. Sérstaklega breyturnar sumproduct og vlookup.

Eftir rækt fer ég í sund. Þar syndi ég kílómetra í skriðsundi, án þess að drukkna næstum. Að því loknu les ég bók í organdi sól.

4. Fréttirnar
4. Fer svo heim og fylgist með fréttum, þar sem sagt er bæði frá Excelskjalinu mínu og bloggfærslunni. Fagna því með því að skála kóki og Risahrauni. Geng svo upp á eitthvað fjall.

5. Bíó
5. Fer í Smárabíó um kvöldið á einhverja stórmynd í góðum félagsskap. Í bíóinu eru mjög fáir og engir drullusokkar. Að myndinni lokinni held ég heim. Úti er ofurrigning. Ég sofna fljótlega eftir að ég kem heim, við dynjandi rigningartaktinn.

þriðjudagur, 14. september 2010

Meðmæli

Svona líta meðmæli út.
Ég mæli ekki nógu oft með hlutum. Hér koma því nokkur meðmæli:

1. Draugahöfundurinn
Ég fór á eina bestu bíóferð ævi minnar á sunnudagskvöldið klukkan 22:00 í Kringlubíó, á myndina The Ghost Writer.

Allt gekk fullkomlega upp. Ég mætti á réttum tíma, afgreiðslufólkið vinalegt, fáir í bíó (þar af engin krakka- eða unglingafífl og engir drullusokkar (ens.: douchebags)), góð mynd og skemmtilegur félagsskapur.

Myndin sjálf er gerist í þægilegu umhverfi, með þægilegum leikurum og plottið er... þægilegt.

Mæli með tíusýningu á The Ghost Writer í Kringlubíói, ef þú vilt afslappaða og þægilega bíóferð, nema þú sért krakki, unglingafífl eða drullusokkur. Vertu þá heima hjá þér.

2. Stjörnuskoðun
Stjörnuskoðun.is opnaði nýja síðu nýlega. Síðan er þægileg fyrir augað og innihald hennar nánast óendanlega áhugavert (og fer vaxandi).

3. Ný ævintýri gömlu Kristínu
Prófaði að horfa á þátt af The New Adventures of Old Christine um daginn og hló upphátt þrisvar sinnum á rúmum tuttugu mínútum, sem er um 200.000% meira en minn meðalfjöldi hlátra við áhorfa á gamanþáttum.

Þátturinn er troðfullur af skemmtilegum karakterum og skemmtilegum leikurum.

sunnudagur, 12. september 2010

Örgagnrýni á kvikmyndir

Bíó!
Af þeim myndum sem eru í bíóhúsum þessa stundina, hef ég séð 31%. Hér er listi yfir þær og örgagnrýni á hverja mynd, ásamt stjörnugjöf.

The Exendables
Jákvætt
Sprengingar
Fjöldamorð
Þarft ofbeldi
Testósteron
Svalir karakterar
Dolph Lundgren

Neikvætt
Óþarfa væmni

stjörnur
Þrjár stjörnur af fjórum.

_________


Inception
Jákvætt
Góð saga
Spennandi
Skemmtileg
Vel leikin
Frumleg
Góð tónlist
Marion Cotillard

Neikvætt
Of stutt?

stjörnur
Fjórar stjörnur af fjórum.

_________


The Other Guys
Jákvætt
Fyndin

Neikvætt
Hræðilegur söguþráður

stjörnur
Tvær stjörnur af fjórum.

_________


Salt
Jákvætt
Spennandi
Frumleg
Svöl

Neikvætt
Pínu fyrirsjáanleg
Pirrandi endir

stjörnur
Þrjár stjörnur af fjórum.

_________


Scott Pilgrim vs. The World
Jákvætt
Fyndin
Skemmtileg
Frumleg
Mary Elizabeth Winstead
Michael Cera
Svöl

Neikvætt
Of svöl

stjörnur
Þrjár og hálfa stjörnu af fjórum.

föstudagur, 10. september 2010

Misskilningar

Í dag er föstudagur. Oft hef ég haft tónlistarfærslur á föstudögum en ekki lengur. Ég skil óvinsældir þess fyrr en skellur í tönnum.

Þess í stað er hér færsla um ýmsa misskilninga mína síðastliðinn sólarhring.

1. Bruður
Ég hef alltaf keypt mér bruðlur. Þangað til hlegið var að mér í verslun. Nú kaupi ég bruður, niðurbrotinn.

2. Dans
Ég hef öskrað með þessu grípandi lagi þegar ég hef heyrt það í bílnum síðustu vikur:



Ég hef kallað "I love dance" og "I love chance" í viðlaginu, þrátt fyrir að fyrirlíta bæði dans og áhættu.

Ég var því ánægður þegar ég las textann og sá að sagt er "alors on danse" og "alors on chante" sem þýðir "þess vegna dönsum/syngjum við" eða "svo við dönsum/syngjum".

Kannski ekki mikill misskilningur, en ég náði allavega að troða lagi í þessa færslu án þess að neinn tæki eftir.

3. Jack White
Ég hef líka öskrað með eftirfarandi lagi, haldandi að það sé samið og flutt af snillingnum Jack White:



Þegar ég svo fann þetta lag á netinu sá ég mér til hryllings að lagið er með einhverri hljómsveit sem heitir Band of Sculls, af öllum nöfnum, og hefur ekkert með Jack White að gera.

Nú syng ég bara stundarhátt með laginu, á milli þess sem ég andvarpa.

Leiðbeiningar fyrir Google Reader

Ein er sú nýjung sem mér finnst ekki vera að ná nógu miklum vinsældum hérlendis. Það er notkun á RSS fæði síðna. Hér eru því örstuttar leiðbeiningar:

RSS sparar tíma sem annars fer í netflakk, með því að halda öllum/flestum síðum sem þú lest saman á einni síðu, svokölluðum RSS lesara.

1. Fáðu þér Google Reader hér. Hann er ókeypis og þægilegur.
2. Opnaðu Google Reader (sama url og að ofan) og bættu við þeim urlum á síður sem þú fylgist með. Sjá mynd:

Smellið á mynd fyrir stærra eintak í nýjum glugga. Látið vita ef rauða örin er ekki nógu stór.

3. Ef þið notið ekki Google Chrome vafrann, náið í hann hér. Magnaður vafri.
4. Valkvæmt: Fáið ykkur svo í Google Reader Checker hér. Hann fylgist með Google Reader og lætur vita þegar eitthvað nýtt gerist. Sjá mynd:

Smellið á mynd fyrir minna eintak í nýjum glugga.
5. Bætið http://finnurtg.blogspot.com við í readerinn ykkar eða smellið hér!

miðvikudagur, 8. september 2010

Sjálfsgooglun

Á miðnætti í kvöld, þegar ég vaknaði eftir að hafa lagt mig í 10 mínútur, 18 sinnum í röð, datt mér í hug að Googla sjálfan mig og sjá hversu merkilegur ég er.

Það gleður mig að tilkynna að ef Googlað er "Finnur, sem er dökkhærður og fer oft í bíó og á Peugeot" er þessi síða efst í niðurstöðum!

Takmarki mínu er náð. Góð tilfinning.

þriðjudagur, 7. september 2010

Skammdegisráð

Hér eru nokkur ráð fyrir þá sem eiga erfitt með að sætta sig við skammdegisþunglyndið og/eða versnandi veðráttu.

1. Uppvakning
Það getur verið ömurlegt að skríða fram úr rúminu á morgnanna. Það ætti ég að þekkja, norðurlandameistarinn í yfirsvefni (en vinn það alltaf af mér og vel það).

Nýlega uppgötvaði ég aðferð til að stökkva á lappir á morgnanna, glaðvakandi. Ég stilli útvarpsvekjarann einfaldlega á Útvarp Sögu. Þar byrjar þáttur klukkan níu sem snýst um innhringingar fólks sem finnst ekkert skemmtilegra en að tuða yfir pólitík.

Ég er yfirleitt kominn á fætur, klæddur og búinn að slökkva á útvarpinu klukkan 10 sekúndur yfir níu.

2. Frí tónlist
Til að lyfta sér upp er ágætt að hlusta á góða tónlist. Stundum nægir það ekki. Þá er gott að hlusta á ókeypis, góða tónlist. Hægt er að hlusta á nýja disk Röyksopp, Senior, gjaldfrjálst hér.

Að vísu er hlustunin lögleg, sem dregur úr ánægjunni. En það verður að hafa það.

3. Rigningarhlustun
Þegar rignir finnst mér notalegt að slökkva eða lækka í þessari síðu og njóta þess að hlusta á rigninguna á meðan ég plana næsta illvirki.


Af hverju er ég að deila þessum ráðum með lesendum? Af því við erum lið! Og það er ekkert i í lið.

mánudagur, 6. september 2010

Skoðanaskipting

Í síðustu viku breytti ég tveimur veigamiklum atriðum í fari mínu.

Annars vegar hætti ég að halda því fram að viðskiptavinir okurverslunarkeðjunnar 10-11 væru einfaldlega of uppteknir til að versla annarsstaðar. Nú held ég því fram að þar versli bara fólk sem kunni ekki að fara með peninga.

Hinsvegar hætti ég að versla í 10-11, þar sem ég hef nær eingöngu verslað síðustu þrjú árin.

Ég geri ráð fyrir að verða kominn á lista yfir topp 10 ríkustu íslendingana í lok árs, eftir þennan umsnúning.

fimmtudagur, 2. september 2010

Mitt helsta vandamál

Líf mitt í hnotskurn [smelltu á mynd fyrir stærra eintak í nýjum glugga]
Þessi skilaboð komu þegar ég reyndi að hætta í vinnunni í dag. Tölvan þekkir mig of vel.

[Viðbót: Breytti "talvan" í "tölvan" eftir vinalega ábendingu í formi hlekks á mynd]

miðvikudagur, 1. september 2010

Smáfréttir

Hér er það helsta sem er að frétta af mér, eða það sem ég vil gefa upp á internetinu:

1. Stórfrétt úr vinnunni
Penninn sem ég notast við í vinnunni er að klárast. Ég keypti hann fyrir fimm mánuðum, þar sem vinnupennarnir eru fyrir neðan mína virðingu. Í dag sá ég svo að stafirnir eru orðnir daufir. Þeir urðu svo enn daufari eftir að tárin blönduðust þeim.

Penninn skilur eftir sig um 200 minnismiða og blöð, ásamt einu ástarbréfi (til sjálf síns, ritað af mér). Hans verður sárt saknað.

Það fyndna er að samstarfsfólk mitt gengur bara um, grínandi út og suður, ekki vitandi að penninn minn er að deyja. Sjálfhverfing fólks veldur mér hugarangri.

2. Sparnaður
Ég hef náð ótrúlegum árangri í sparnaði það sem af er þessu VISA tímabili. Ég hef aðeins eytt rétt um 20% af því sem ég venjulega eyði á þessum tíma.

Sparnaðurinn felst í að borða ekkert. Restin fer í bensín.

3. Körfubolti
Körfuboltatímabilið er að hefjast á ný hjá UMFÁ, með hverjum ég æfi.

Hér er listi yfir það jákvæða sem ég hef verið að gera á körfuboltaæfingum undanfarið:

  1. Mætt á réttum tíma.