mánudagur, 31. júlí 2006

Ef einhver sem les þetta hefur verið að reyna að komast á Arhúrssíðuna, sem fyrir leiðinlega tilviljun á afmæli á morgun, þá er hér tilkynning:

Arthúrssíðan liggur niðri vegna þess að vefhýsir okkar er hóra.
Kíkið á þetta myndband.

Fox byggir klárlega allt á rökhugsunum og þessi prófessor veit greinilega ekkert. Not.
Hér eru afmæli sumarsins:

* 19. júní: Soffía mín.
* 24. júlí: Karl Malone.
* 28. júlí: Ég.
* 1. ágúst: Arthúr eins árs.
* 1. ágúst: tvær vikur síðan ég rakaði mig.

Fleira þarf ég ekki að vita um afmælisdaga sumarsins.

föstudagur, 28. júlí 2006

Í dag á ég afmæli og í afmælisgjöf fékk ég endanlega staðfestingu á því að Soffía mín er hin fullkomna kærasta þegar hún bakaði tvær tertur, klæddi sig upp og gaf mér svo afmælismáltíð (með tengdó) í hádeginu ásamt pakka sem innihélt bakpoka og göngubuxur sem ég hyggst nota óspart það sem eftir lifir ævi minnar.

Ég fékk ennfremur staðfestingu á því að tengdaforeldrar mínir, hjá hverjum ég bý þetta sumarið, eru þeir bestu sem nokkur getur ímyndað sér þar sem þau elda alltaf ofan í okkur Soffíu og sjá okkur fyrir andlegri skemmtan með því einu að tala við okkur en þau gáfu mér mjög flotta peysu.

Á körfuboltaæfingu fékk ég svo endanlega staðfest að hægri fóturinn á mér er ónýtur og þarfnast uppskurðar, sem ég pantaði mér í morgun og fer í í lok næsta mánaðar.

Ég hélt ég myndi aldrei segja þetta án þess að vera að grínast en það er svo sannarlega hörkufjör á heimavist þessa dagana.

fimmtudagur, 27. júlí 2006

Ég er með góðar fréttir og slæmar.

Fyrst góðu fréttirnar:
* Árið 1978 gaf einn besti tónlistarmaður sögunnar (ath. mitt mat), Cat Stevens, út sína síðustu poppplötu að sögn. Hann laug. Í haust mun koma út poppplata með honum í fyrsta sinn í 28 ár. Dýrð sé drottni.

* Rambo IV kemur út á næsta ári. Þar mun Sylvester Stallone sprengja allt í tætlur til að bjarga dóttir sinni sem hefur verið rænt.

Slæmu fréttirnar:
* Ég er lygari þar sem ég er ekki með neinar slæmar fréttir.

miðvikudagur, 26. júlí 2006

Á körfuboltaæfingunni í gær fékk ég bylmingsolnbogaskot í andlitið, í ennið nánar tiltekið, frá kauða sem ætlaði að ná sér í gómsætt frákast.

Til að gera langa sögu stutta þá náði hann frákastinu auðveldlega og ég nældi mér í heilaskemmd þar sem ég virðist ekki lengur getað skrifað eftirfarandi setningu:

þriðjudagur, 25. júlí 2006

Í fréttum er þetta helst:

* Í nótt dreymdi mig að ég væri gyðingur á nasistahóteli. Ég talaði fullkomna þýsku og þegar ég náðist, við að skoða skúffuköku í eldhúsinu, neitaði ég því að vera gyðingur. Possurnar mínar klöguðu mig.

* Líkur eru á því að íbúð sé fundin í Reykjavík þar sem við Soffía munum búa í vetur. Ég hef þó enn ekki fundið vinnu.

* Ég hef náð 80 kílóa múrnum, er 81,5 kg nánar tiltekið. Þarmeð hef ég þyngst um 8 kíló í sumar en takmarkið er að þyngjast um ca 4-5 í viðbót.

* Um helgina sá ég helleiðinlegu myndina Seperate Lies. Myndin fjallar um að keyrt er á mann á hjóli. Hann deyr. Svo er kona lögfræðingsins að halda framhjá. Ótrúlegt. Hræðileg mynd.

* NÝTT! Ég var að draga úr mér lengsta augabrúnahár sem ég hef séð. Það mælist 2,5 cm. Ég er þá aftur farinn undir 80 kílóin.

mánudagur, 24. júlí 2006

Þegar þessi úrskurður er lesinn af venjulegu fólki: "Ákærðu eru gefin að sök brot á ákvæðum almennra hegningarlaga, laga um bók­hald og hlutafélög á árunum 1998 til 2002..."

...gerist þetta venjulega í hausnum á því:
"Ákærðu eru gefin að sök brot á ákvæðum almennra hegningarlaga, laga um bók­hald og hlutafélög á árunum 1998 til 2002...(ah. ég skil)"

Þetta gerist hinsvegar hjá mér:
"Ákærðu eru (shit hvað mér leiðist). Ákærðu eru gefin að sök (Hver eru aftur þessi ákærðu?). ...gefin að sök brot á ákvæðum almennra hegningarlaga (þetta er ótrúlega leiðinlegt. Ég hlakka til að vera búinn að lesa þetta), laga um bók­hald og hlutafélög (ég get ekki meira. Ég mun deyja við að lesa þetta). ...laga um bókhald og hlutafélög á árunum 1998 til (Nóg komið! Nú drep ég mig) 2002... (Hvað gerði ég aftur við sögina mína?)"

Eftirfarandi ályktun er dregin:
Lögfræði = Viðbjóður
Viðbjóður = Barnaníðingar
Lögfræði = Barnaníðingar
Barnaníðingar = Bannaðir með lögum

Þannig færst að Lögfræði ætti að vera bönnuð með lögum.

Einfalt.

föstudagur, 21. júlí 2006

* Religion easily—has the best bullshit story of all time. Think about it. Religion has convinced people that there's an invisible man...living in the sky. Who watches everything you do every minute of every day. And the invisible man has a list of ten specific things he doesn't want you to do. And if you do any of these things, he will send you to a special place, of burning and fire and smoke and torture and anguish for you to live forever, and suffer, and burn, and scream, until the end of time. But he loves you. He loves you. He loves you and he needs money (Hlustið á þetta hér).

* Catholic - which I was until I reached the age of reason.

-George Carlin

Þetta eru sennilega með betri línum frá grínista sem ég hef séð. Samt eru þær ekki fyndnar.
Viðvörun: ef þú hefur ekki bloggað í mánuð þá muntu þurrkast úr hlekkjunum á þessari síðu næstu daga.

Allavega, Stefán Bogi hefur opnað nýja og nokkuð smekklega, græna heimasíðu. Þar sem allt vænt er grænt þá fannst mér rétt að bæði gefa honum hlekk hér til hægri og í þessari færslu. Hlekkurinn er hér.

fimmtudagur, 20. júlí 2006

Í hverri einustu ferð minni í sundlaug Egilsstaða gerist eftirfarandi:

* Ég vel mér afvikinn krók til að hengja allt mitt.
* Í klefanum eru amk tvö hlaupandi og öskrandi krakkaógeð.
* Í sturtunni er amk eitt grenjandi/öskrandi krakkaógeð.
* Ég hugsa "ef ég eignast einhverntíman barn þá drep ég mig"
* Þegar ég kem til baka stendur ALLTAF nakinn maður við fötin mín svo erfitt er að klæða sig í friði.
* Ég dey smá innra með mér.

þriðjudagur, 18. júlí 2006

Ég taldi í gær að ég ætti 31 bol og 25 nærbuxur. Auk þessa á ég 3 gallabuxur og 3 hlaupabuxur. Ennfremur á ég 7 peysur.

Ef ég yrði að vera í einum nærbuxum, einum bol, einni peysu og einum buxum þá get ég farið í 32.550 mismunandi samsetningar á fötum. Þá tel ég ekki sokkana með en ég á um 40 pör af sokkum.

Og ég er með valkvíða. Mjög gott.

mánudagur, 17. júlí 2006

Mér hefur tekist að finna nýja 'leiðinlegasta aðgerð í heimi' aðgerð. Áður var það að raka mig (enda hef ég bara rakað mig einu sinni síðan í byrjun júní) en að bóna bíl er það langleiðinlegasta sem ég hef nokkurntíman þurft að gera. Héðan í frá læt ég bónstöðvar sjá um þetta, sama hvað það kostar þar sem ég met geðheilsu mína meira en peninga.

Það er meira að segja svo leiðinlegt að bóna að núna er uppáhaldsaðgerðin mín að bóna ekki, sem þýðir að ég er alltaf í sjöunda himni, svo lengi sem ég er ekki að bóna bíl.

laugardagur, 15. júlí 2006

Ég hef ekki séð mikið af 24 sem fjallar víst um ofurhetjuna Jack Bauer en þættirnir eiga að gerast á rauntíma, 24ra klukkustunda tímabili. Einn sólarhringur hjá Jack Bauer tekur 24 vikur úr lífi almennings. Allavega, ég er að hugsa um að láta gera svona þætti um mig. Svona yrði t.d. dagurinn í dag:

00:00 - 01:00: Ligg andvaka og hugsa um daginn sem mun koma. Gæti verið spennandi þáttur þar sem vonir og þrár fyrir morgundaginn koma í ljós.
01:00 - 02:00: Ligg sofandi en tala stundum upp úr svefni. Eflaust fyndinn þáttur.
02:00 - 03:00: -||-
03:00 - 04:00: Rumska og sest upp. Veit ekkert í ca 10 mínútur. Leggst svo aftur niður og sofna.
04:00 - 05:00: Ligg sofandi en tala stundum upp úr svefni.
05:00 - 06:00: -||-
06:00 - 07:00: -||-
07:00 - 08:00: Ligg sofandi alveg þar til í blálokin á þættinum þegar ég vakna við vekjarann en snúsa og sef til ca 7:55 þegar ég hleyp á fætur. Þátturinn myndi enda á spennandi hátt á meðan ég tannbursta mig.
08:00 - 09:00: Mæti aðeins of seint í vinnuna eftir að hafa skutlað Soffíu í vinnuna. Áhorfendur fá mögulega kveðjukoss (áhorfsmet bætt). Í vinnunni fer ég yfir endurgreiðslulista skattstofunnar. Skoða Wikipedia smá.
09:00 - 10:00: Held áfram að vinna. Smá kaffipása. Söguhetjan kemst að því að öll blöð skattstofunnar eru úrelt og ólesanlegt. Ég raula því lítið lag á meðan ég drekk vatnsglas (óskarssena).
10:00 - 11:00: Ég íhuga að hætta í vinnunni snemma til að þrífa bílinn þar sem hann er óhreinn. Þátturinn endar á þessari vangaveltu svo fólk horfi á næsta þátt.
11:00 - 12:00: Ákvörðun tekin; vinna áfram til hádegis og fara svo í hádegismat. Þátturinn endar þegar hádegismaturinn er að byrja. Vel hefur gengið að fara yfir listann á skattstofunni.
12:00 - 13:00: Keyrt yfir í Fellabæ í hádegismat. Annað aukahlutverk þáttanna kynnt en það er Helgi bróðir minn. Hann er spaugilegur afgreiðslumaður sem er alltaf með sprell á reiðum höndum. Kortersspjall við hann er nóg til að auka áhorfið talsvert. Næst eru brauð smurð og étin.
13:00 - 14:00: Óvænt twist: Soffía hringir því það er kominn matur. Ég sæki hana. Áhorfið margfaldast þar sem fegurðardís er mætt. Soffía fær sér smurt brauð að borða gegn spádómum spjallborða internetsins. Eftir mat er lagst út í garð og spjallað saman. Umræðuefni; verslunarmannahelgin. Allt verður vitlaust yfir umsögn mína um útlendinga hérlendis.
14:00 - 15:00: Ákveðið að þrífa bílinn eftir að hafa skutlað Soffíu aftur í vinnuna. Það gengur illa að þrífa bílinn því vatnssnúran beyglast alltaf. Ég verð pirraður. Hörkuspennandi þáttur. Góður tími tekinn í þessa aðgerð til að halda fólki spenntu yfir hvað skuli gert næst.
15:00 - 16:00: Farið á skattstofuna aftur til að slá garðinn. Stórhætta: vantar bensín á vélina. Svaðilför í Hraðbúðina að taka bensín. Spennan er byggð upp en ekkert hættulegt gerist þó, sem betur fer. Byrjað að slá garðinn.
16:00 - 17:00: Garðurinn sleginn áfram. Þegar því er lokið hugsa ég mig um hvort ég eigi að raka garðinn einnig. Þátturinn endar.
17:00 - 18:00: Ákvörðun tekin: ekki nennt að raka garðinn. Því frestað til morguns. Ég fer heim, tek saman íþróttadót og fer í ræktina. Endasena: Ég opna hurðina á ræktinni og geng inn. Hurðin lokast á eftir. DAMM! 24.
18:00 - 19:00: Í ræktinni er enginn að lyfta (sparar líka launagreiðslur til leikara). Ég lyfti þríhöfða og fætur. Þegar 15 mínútur eru eftir af þættinum fer ég í sturtu. Þá er klippt yfir til Soffíu þar sem hún er að vinna. Túristar vilja vita hvernig best sé að komast upp á Kárahnjúka. Soffía gefur góðar leiðbeiningar, brosandi.
19:00 - 20:00: Klippt aftur yfir á mig þar sem ég er að greiða mér. Ég prófa nýja hárgreiðslu til að auka áhorfið en hætti svo við. Fer yfir í Fellabæ, horfi á sjónvarpið í 40 mínútur. Spjalla við mömmu. Geri mig að lokum tilbúinn til að ná í Soffíu í vinnuna.
20:00 - 21:00: Serían er slegin af. Talið er að 40 mínútna senan af mér að horfa á sjónvarpið í síðasta þætti hafi verið áhrifaþáttur.
21:00 - 22:00: -Frestað-
22:00 - 23:00: -Frestað-
23:00 - 24:00: -Frestað-

föstudagur, 14. júlí 2006

Hér er lína sem getur gert hvern sem er þunglyndan:

„Do you realise that everyone you know someday will die?“

Þetta er allavega nóg til að ég risti strik í handleggina á mér til að minnka andlegan sársauka. Takk Flaming lips!
Lag mánaðarins er: Tear you apart.
Með hljómsveitinni: She wants revenge.
Texti lagsins: hér.

Góða skemmtun.

fimmtudagur, 13. júlí 2006

Blaðsíða í einhverri orðabók:

Gott dæmi um slæman hárdag.Bad hair day (ísl. Slæmur hárdagur)
Á við um þann dag þegar útlit einhvers, sérstaklega hár viðkomandi, er ekki aðlaðandi.
Dæmi: „Hvað gerði ég til að koma Bárði í vont skap, ef utan er talið að keyra ítrekað yfir gæludýrið hans? Ekkert, hann á bara slæman hárdag.„
Í upphafi var þetta hugtak notað í gríntilgangi en breiddist fljótlega út í þá meiningu að eiga slæman dag, þ.e.a.s. dag þar sem ekkert gengur upp.

Heimildaskrá:
Answers.com
Myndasafn Morgunblaðsins
Tilboð dagsins: Ég býð Stuðmönnum 500 krónur ef þeir lofa að hætta að semja tónlist.

Tilboðið kemur í framhaldi af því að hafa heyrt nýjasta lag Stuðmanna sem heitir Á röltinu og er ömurlegt.

miðvikudagur, 12. júlí 2006

Í dag gerði Glitnir heiðarlega tilraun til að kaupa mig yfir til þeirra með nafnspjaldaveski og 10 nafnspjöldum með nafninu mínu á ásamt viðskiptafræðingstitlinum. Þeir geta afskrifað þessar 100 krónur sem eytt var í að reyna að fá mig yfir.

Kemur.

þriðjudagur, 11. júlí 2006

Í dag þarf ég að gera eftirfarandi:

1. Fá tvær hugmyndir fyrir Arthúr.
2. Fá amk eina blogghugmynd.
3. Sækja um húsnæði í Reykjavík í haust.
4. Pissa.
5. Vinna.
6. Mæta á körfuboltaæfingu.
7. Þrífa skattstofuna.
8. Laga peningamálin mín hjá Landsbankanum.

Annars er ekkert að gera. Jæja, bloggfærslan búin.

Næst á dagskrá: Sameina lið 4. og 8.

mánudagur, 10. júlí 2006

Í ferðalagi okkar Soffíu til Ítalíu byrjaði ég á bókinni Angels and Demons eftir Dan Brown. Í gærkvöldi uppgötvaði ég að bókin er hálfnuð. Alls hef ég lesið 275 blaðsíður hingað til.

Á hverri blaðsíðu eru um 30 línur með ca 15 orðum í hverri línu sem gera um 450 orð á blaðsíðu. Ég hef því lesið 123.750 orð á ca tveimur mánuðum. Það gera 2.029 orð á dag fyrir mig. Þar sem ég hef lesið í korter á dag að meðaltali má segja að ég lesi um 135 orð á mínútu eða 2,25 á sekúndu.

Þ.e.a.s. það mætti segja þetta ef ég sleppti ekki öðru hverju orði til að flýta fyrir lestrinum sem gengur annars vonum framar; hálf bók á tveimur mánuðum. Ég hef ekki hugmynd um hvað bókin fjallar.

fimmtudagur, 6. júlí 2006

Ég var að enda við að setja inn myndir frá ferðalagi okkar Soffíu til Svíþjóðar þar sem við heimsóttum Styrmi bróðir minn, Lourdes konu hans og Kristján og Gabríel syni þeirra.

Kíkið á myndirnar hér*.

* Hafa ber í huga að með því að smella á mynd birtist texti við hana. Einnig er hægt að gefa einkunn á hverja mynd.
George W. Bush, núverandi forseti bandaríkjanna hefur sagt margt fyndið um ævina. Enginn hefur þó mismælt sig jafn illa og á jafn fyndinn hátt og pabbi hans sem heitir því frumlega nafni George Bush:

"A word about the President. For seven and a half years I've worked alongside him, and I am proud to have been his partner. We've had triumphs. We made some mistakes. We've had some sex ... uh ... setbacks."
-George Bush eldri um samstarf sitt með Ronald Reagan á meðan hann var varaforseti.

miðvikudagur, 5. júlí 2006

Rúntarar eru skepnur sem fara óstjórnlega í taugarnar á mér. Ekki af því þeir virðast vera haldnir þeirri fáránlegu hugmynd að þeir séu skíturinn heldur vegna þess að þeir tefja umferðina mikið að ástæðulausu. Ég ákvað að gamni mínu að reikna kostnaðinn við að hafa þessi dýr í umferðinni:

Samkvæmt Hagstofunni voru 25.574 manns á rúntaldrinum 17-22ja ára í árslok 2005. Ef ég reikna með að 90% þeirra séu með bílpróf og 50% þeirra sem eru með bílpróf rúnti amk 1x í viku þá fæ ég út að á Íslandi eru um 11.508 rúntarar.

Ég gef mér ýmislegt í þessum útreikningi þar sem þetta er ekki (ennþá) virt vísindaveftímarit. Ég gef mér t.d. að hver rúntari fari að meðaltali tvisvar að rúnta á viku, að hver rúntur varir í eina klukkustund og að á þeim tíma nái rúntarinn að tefja átta bíla að meðaltali um að meðaltali tvær mínútur hvern. Ég reikna enn fremur með því að í hverjum bíl sem er tafður í umferðinni séu tvær manneskjur að meðaltali.

Þetta gefur okkur að hver rúntari tefji fólk um 96 mínútur alls í umferðinni á viku. Alls tefja þá allir rúntarar fólk um 1.104.797 mínútur á viku og 57.646.719 á ári. Þetta gera 960.779 klukkustundir á ári.

Í lok árs 2004 (launatölur fyrir árið 2005 ekki til á hagstofunni) voru meðallaun fólks um kr. 272.400 á öllu landinu. Ef hver mánuður er 21,73 vinnudagar og hver vinnudagur 8 klukkustundir má fá út að meðaltímakaup fólks eru kr. 1.567. Ég geri ráð fyrir að fólk meti frítíma sinn jafnt tímakaupi sínu og að fólk tefjist aðallega á kvöldin þegar það er í fríi.

Samkvæmt þessu eru rúntarar að kosta þjóðfélagsþegna kr. 1.505.540.138 á ári eða rúmlega 1,5 milljarða króna, bara ef talinn er tíminn sem þeir taka frá okkur. Þetta gera um kr. 5.020 á hvern íbúa landsins (í árslok 2005) eða kr. 7.748 á hvern þann sem er með bílpróf (ef 90% allra á bílprófsaldri eru með bílpróf).

Rúntarar eru semsagt að pirra mig að verðmæti kr. 7.748 á ári.

Mér líður betur núna.

mánudagur, 3. júlí 2006

Enn eina ferðina er skrifuð grein um Arthúr. Í þetta sinn er það hvorki DVMorgunblaðið heldur stærsta fréttarit landsins; Fréttablaðið sem skrifar greinina.

Lesið hana, eða gerið það sem þið viljið við hana, hér.

Frekar ömurlegt annars að frétta í gegnum fréttablaðið að bærinn sem maður hefur búið í frá unga aldri heitir Fjallabær.

laugardagur, 1. júlí 2006

Í fyrradag flaug ég til Reykjavíkur bæði til að taka því rólega með Soffíu í Reykjavík og til að ná í bílinn minn sem er af gerðinni Peugeot Présence 206, ber heitið Lalli og er ljón.

Allavega, í gær var Lalli keyrður norðurleiðina með fullan bíl af dóti sem flytja þurfti austur auk mín og Soffíu. Hér er það merkilega: Lalli komst yfir allt landið á aðeins 40 lítrum af bensíni.

Gamli bíllinn minn tók ca 70 lítra í svona ferð. Þá reiknum við:

70 lítrar - 40 lítrar = 30 lítrar í sparnað.
30 lítrar * 124 krónur lítrinn = 3.720 króna sparnaður í einni ferð yfir landið.

Mér reiknast enn fremur að ég þurfi ekki að keyra nema um 81 hringi í kringum landið til að það borgi sig fyrir mig að hafa keypt þennan nýja bíl.

Síðastliðið ár hef ég keyrt 5 sinnum í kringum landið. Eftir 16 ár verður því bíllinn búinn að borga sig, ef aðeins er litið til aksturs í kringum landið og ef ég tek 5 hringi á ári að meðaltali. Lalli, þú ert hetja!
Hrós dagsins fær stelpan með hundaandlitið; Paris Hilton fyrir að sanna það í eitt skipti fyrir öll að hver sem er getur gefið út tónlist. Ennfremur hefur hún sýnt fram á að peningar geta keypt manneskju hvað sem er og þar með ítrekað galla kapítalísks kerfis sem við lifum öll í, því miður.

Hlustið á lagið hér. Varúð: lagið markar tímamót hvað raddbeitingu varðar.