mánudagur, 30. apríl 2007

Hagnaður minn þennan mánuðinn af fjárhættuspilum eru kr. 10.500, fyrir og eftir skatt. Fyrra skiptið var pókerkvöld hjá Víði þar sem ég lenti í fyrsta og öðru sæti á tveimur smá mótum. Seinna skiptið giskaði ég rétt á úrslit leiks í fótbolta.

Í hvorugt skiptið ætlaði ég mér að græða pening heldur að blanda geði við fólk, án árangurs. Þessi peningur mun verða settur í fjárhættuspilasjóð barnanna minna, sem enn eru ekki fædd, né eru á leiðinni.

föstudagur, 27. apríl 2007

Ný gerð skepna hefur numið land. Þetta nýja dýr lætur lítið fyrir sér fara venjulega en ræðst svo á mannverur upp úr þurru með það í huga að sjúga úr þeim peninga eða taka upp tíma.

Skepnan gengur venjulega í jakkafötum og er að finna á fjölförnum stöðum eins og Kringlunni og Smáralind, í þeirri von að veiða fólk í viðbótarsparnað. Það er yfirleitt milli 170 og 190 cm á hæð og ca 60-90 kíló. Tegundin stendur á afturfótunum.

Fólk er vinsamlegast beðið um að forðast augnsamband við þessa tegund, nema það vilji spara peninga. Þá þarf bara að líta örstutt í átt til þeirra og sálin þín er þeirra.

miðvikudagur, 25. apríl 2007

Það fór fram ágiskunarleikur í gær í vinnunni þar sem giska þurfti á leiki AC Milan og Manchester United annars vegar og Chelsea og Liverpool hinsvegar. Til að sýna að ég er ekki skrímsli ákvað ég að taka þátt, þrátt fyrir að það kostaði krónur 500 hvor leikurinn (alls kr. 1.000) og ég veit rúmlega ekkert um fótbolta.

Ég giskaði á fyrstu tölurnar sem poppuðu upp í huga mér. 3-2 fyrir Manchester gegn Milan var fyrri ágiskunin. Hún reyndist rétt og var ég einn um fyrri pottinn.

Þetta eru skelfilegar fréttir þar sem núna fer fólk að spjalla við mig um fótbolta, haldandi að ég viti eitthvað um hann. Ekki þori ég að viðurkenna að ég viti ekkert um fótbolta, þar sem það gæti fokið í fótboltabullurnar sem höfðu rangt fyrir sér.

Allavega, ég vona að ég hafi ekki rétt í seinni leiknum (Chelsea - Liverpool, í kvöld) en ég giskaði á pí - mínus 1. Ef það gengur eftir þá segi ég upp.

 Nóg af aulahúmor. Meira af emó.

Ég hef hent út lögunum hér til hægri sem innihéldu raftónlist ýmiskonar og sett þess í stað mitt uppáhaldslag með Nirvana, Lounge Act (ísl.: Allt vitlaust á kaffihúsinu).

Hér að neðan er svo einn af mínum uppáhaldstónlistarmönnum, Cat Stevens, með eitt fallegasta lag sem ég hef heyrt, séð og étið. Myndbandið er svolítið sérstakt en nógu gott fyrir mig. Lagið er Sad Lisa (ísl.: Dapri Lúðvík).

Ég ætla að fara að gráta og skera mig í handleggina, til að útiloka andlegan sársauka.

mánudagur, 23. apríl 2007

Ég var fluttur á milli borða hjá 365 í dag. Núna vinn ég með þremur við sama borð að tölfræðigreiningarvinnu. Fyrsta borðið var ágætt. Endakallinn var frekar erfiður.

sunnudagur, 22. apríl 2007

Í gærkvöldi hafði ég verið virk grænmetisæta í 444 daga. Það breyttist í kvöld þegar ég féll í kjötbindindinu og bragðaði væna sneið af kjöti.

Það gerðist reyndar gegn mínum vilja, þegar ég beit bylmingsfast í tunguna á mér. Ég hef aldrei öskrað jafn hátt og lengi, fyrir utan þegar ég fattaði að Soffía hafði borðað Risahraunið mitt fyrir ca viku síðu.

Tungubitinn var ágætur. Bragðaðist eins og kjúklingur.

laugardagur, 21. apríl 2007

Stórfrétt! Talið er að mynd af Christina Aguilera, án málningu, hafi fundist á háalofti ömmu hennar. Svona lítur frú Aguilera út venjulega:

aguilera

 Þetta er svo myndin umdeilda; Aguilera, að sögn, nakin og án málningar:

strigi

Það kemur á óvart hvað hún er mjó. Nánast ekkert nema skinn og bein.

föstudagur, 20. apríl 2007

Ég hef vanrækt kvikmyndagagnrýni mína undanfarið. Ég hef séð talsvert um bíómyndir síðan síðast, svo margar að ég man ekki eftir öllum. Hér er þó dómur um fjórar myndir, í frumlegri uppsetningu.

Takið eftir litavalinu:

kvikmyndir
Hæsta einkunn er 10.

miðvikudagur, 18. apríl 2007

Bloggfærsla gærdagsins kom í Blað dagsins. Mér brá svo við að sjá hana á prenti að ég pissaði smá á mig og heilmikið á alla nærstadda. Löng saga.

Allavega. Þetta hljómaði fyndnara í hausnum á mér. Fyrirgefið.

þriðjudagur, 17. apríl 2007

Geðsýki + Yfirvaraskegg + Hitler + Nasismi = Fjöldamorð
Einstein + Yfirvaraskegg + Hugsanir + Útfærsla = Atómsprengjan
Yfirvaraskegg + Kúrekahattur + Gítar = Kántrí tónlist
Glæsilegt yfirvaraskegg + Allir nema ég + Aðdáun samfélagsins = Mont og hroki

Er ekki löngu kominn tími á að banna yfirvaraskegg?

sunnudagur, 15. apríl 2007

Nýir fjórfarar eru fæddir. Þakkir til Víðis fyrir að stinga upp á þeim og til Soffíu fyrir að redda mér myndum.

Þannig að ég gerði eiginlega ekki neitt.

En allavega, hér eru fjórfararnir.

Gærdagurinn var planaður frá upphafi til enda. Planið gekk upp og ég var býsna ánægður.

Svona var planið:
15:00 Körfuboltaæfing.
18:00 Út að borða einhversstaðar.
20:00 Spila póker með karlaklúbbinum Fljúgðu Haukur (minnir mig að hann heitir).
00:00 Baða mig í peningum, öskrandi úr hamingju.

Svona varð þó dagurinn:
14:00 Vaknaði og borðaði morgunmat/kvöldmat.
15:00 Körfuboltaæfing sem var mjög skemmtileg.
18:00 Út að borða á Pizza Hut í Smáralind með Víði Þórarins.
20:10 Pókerspilun með Guggi, Magga Tóka, Víði og Gutta. Mjög skemmtilegt. Vann 500 króna mótið og lenti í 2. sæti í 1.000 króna mótinu. Maggi Tóka vann það.
01:00 Fór í 10-11 að versla mér nasl (fyndið orð). Rakst þar á Björgvin bróðir.
02:00 Reyni að baða mig úr peningum en of fáir seðlar. Öskraði samt úr hamingju á ósannfærandi hátt.

Magnaður dagur að baki.

föstudagur, 13. apríl 2007

Það getur verið að trúarnöttar fordæmi mig í eilífa loga helvítis fyrir að birta eftirfarandi mynd en mér er sama. Myndin er svo fyndin að það væri þess virði, ef helvíti væri til.

Hér er myndin:

YMCA

Getur verið að Jésú hafi verið talsvert á undan sinni samtíð í danstöktum við hommalög?

fimmtudagur, 12. apríl 2007

Sjaldan hafa jafn fá orð haft jafn mikla meiningu og þessi frétt.

Allavega, Hrafnkell Daníelsson segir á bloggsíðu sinni að ef flogið er til þessarar plánetu á ljóshraða (300.000 km á sekúndu eða rúmlega milljarð kílómetra hraða á klukkustund) þá muni það taka 150 ár að komast alla leið.  Áhugavert.

Þetta segir mér að 1.420.092.000.000.000 kílómetrar (rúmlega 1,42 milljónir milljarða km) eru til þessarar plánetu. Til að komast þangað á einni klukkustund þyrftum við að ferðast á 1,42 milljónir milljarða km/klst hraða eða 1.314.900 földum ljóshraða. Leitað er að flugvél sem kemst svo hratt.

Ég hef mest farið upp í 150 km hraða á klukkustund á bílnum mínum(ég er að grínast ef löggan les þetta). Ef ég myndi fara á bílnum mínum til plánetunnar á 150 km/klst meðalhraða myndi það taka mig rúmlega 9.467 milljarða klukkutíma eða ca 1 milljarð ára.

Ég held ég sleppi því. Yrði bensínlaus eftir 500 km og þá væri illa farið fyrir mér.

miðvikudagur, 11. apríl 2007

Skrítið númer hringdi í mig í morgun og skellti á þegar ég gerði tilraun til að svara. Þar sem ég kannaðist ekki við númerið fór ég á netið og komst að því að númerið kemur frá Ratsjárstofnuninni á Stokksnesi við Höfn í Hornafirði.

Ég velti vöngum yfir ástæðu þess að ratsjárstofnun hringdi í mig, lengi og vel. Eina niðurstaðan sem ég fékk var að Soffía, sem á að vera stödd á Egilsstöðum, hefur verið í göngutúr og gengið of langt. Svo langur hefur þessi göngutúr verið að síminn hennar hefur orðið rafmagnslaus svo hún hefur bankað upp á hjá Ratsjárstofnuninni á Stokksnesi og fengið að hringja. Til að spara þeim pening hefur hún ákveðið að skella á áður en ég svara, til að ég myndi hringi til baka. Það gerði ég þó ekki, þar sem ég er nískur.

Skömmu síðar hringdi Soffía í mig úr farsímanum og sagðist ekkert kannast við göngutúrinn. Óhugnarlegt! Hvernig gat hún gleymt honum svona fljótt? Og hvar hlóð hún símann?? Ég á ekki eftir að sofa mikið í nótt.

þriðjudagur, 10. apríl 2007

Þetta er sérkennilegt. Var þessi glyðra ekki nýbúin að raka af sér allt hár?

Hún er semsagt stífmáluð í framan og með hárkollu. Eitthvað fleira sem er gervi?  Þetta fer að minna á atriði úr I'm gonna git you sucka þar sem manneskjan klæddi sig úr mestöllum líkamanum í skyndikynnum. Greyið Luke Walton.

mánudagur, 9. apríl 2007

Ég hef snúið aftur í borgina eftir 5 daga í Egilsstaðasælunni. Þar gerði ég bókstaflega ekkert, nema að fara á uppistandskvöld sem Jónas Reynir og fleiri snjallir stóðu fyrir. Kvöldið var til fyrirmyndar, svo ekki sé sterkara til orða tekið. Þetta var, fyrir utan stórkostlega skemmtilegt, í fyrsta skiptið á Íslandi sem skemmtun er framkvæmd án endurgjalds og án vonar um gróða á einhvern hátt.

Algjörlega til fyrirmyndar.

Annars gleymdi ég tannþræðinum í Reykjavík. Fimm dagar án tannþráðar er eitthvað sem ég vil helst ekki upplifa aftur. Amk ekki án þess að fá vælubílinn í heimsókn.

föstudagur, 6. apríl 2007

Ég er staddur á austurlandi þegar þetta er ritað, í páskafríi. Hér er ég í mjög góðu netsambandi en ekki með tölvu til að nýta mér þetta net. Það er því gott að vera með fínan viljastyrk og senda þessa færslu í gegn með því að öskra í innstungu.

Ég fer aftur í vinnuna á þriðjudaginn og þá mun ég skrifa eitthvað lengra.

Ég ætla ekki að biðjats afsökunnar á fáum færslum þar sem þið biðjist ekki afsökunnar á færri athugasemdum.

þriðjudagur, 3. apríl 2007

Í hádeginu horfði ég, í beinni útsendingu, á raunveruleikaþáttinn Nágrannar. Þar hafði stelpa ein opnað blogg og sagðist hafa fengið athugasemd á bloggið frá Íslandi. Athugasemdin sagði að kærasti stelpunnar væri "hot" eða funheitur. Það er svosem ekkert merkilegt við það. Ég hló bara að stelpunni, ekki vitandi að við erum að horfa á þau með hjálp falinna myndavéla.

Hláturinn breyttist fljótt í talsverða reiði þegar ég fór að gruna Soffíu um að hafa skrifað þessa athugasemd á síðu hennar. Hún neitaði í fyrstu en með hjálp Bandarískra yfirheyrsluaðferða komst ég að því að hún hafði skrifað þessa athugasemd, lent á tunglinu og drepið JFK.

mánudagur, 2. apríl 2007

Bergvin hætti að blogga um daginn.

Bergvin byrjaði svo aftur að blogga nýlega á nýrri síðu með spúsu sinni henni Söndru. Ég mæli með því að fólk kíki á bloggið þeirra hérna.
Ég spilaði póker um helgina. Slík var heppnin að ég get illa líst því með orðum. Ég vann mót og lenti í verðlaunasæti í nokkur skipti. Það segir þó ekkert til hversu heppinn ég var. Hér er tilraun til að fanga heppnina með orðum:

Ef karma er eitthvað sem er til, þá var heppnin svo mikil að ég er viss um að ég muni lenda í bílslysum, flugslysum og fá eldingar í hausinn (samtímis) á næstu dögum til að vega upp á móti þessari heppni.

Það er spurning hvort ég fari ekki að hætta að spila póker til að deyja ekki úr karma.

sunnudagur, 1. apríl 2007

Í gær keypti ég mér ekki flakkara (utanáliggjandi harðan disk) upp á kr. 9.990 í Tölvutek. Diskurinn er ekki 320 gb að stærð og er alls ekki þægilegur, þar sem ég keypti hann ekki. Núna get ég ekki tekið afrit af öllum mínum gögnum og er mjög langt frá því að sofa rólegur á nóttunni fyrir tölvuþrjótum. Ennfremur get ég ekki eignað mér efni annarra með því að kíkja í heimsókn til þeirra og tengja þennan flakkara við tölvuna þeirra.

1. APRÍLGABB!! Djöfull voruði tekin.