þriðjudagur, 31. júlí 2007

Hér er tilraun til að þýða brandara úr ensku:

Hvað gerist þegar starf greinanda og meðferðarsérfræðings er sameinað?

Svar: Greinferðarsérfræðingur!

Ok. Brandarinn gengur ekki upp á íslensku. Kíkið á brandarann á ensku hér að neðan, úr þáttunum Arrested Development:




Fyrir ykkur sem getið ekki greint tvívíddarmyndir, brandarinn er:

Analyst + Therapist = Analrapist.
Ég hef fundið meðleigjanda í íbúð sem Sverrir nokkur, gamall nágranni minn á Stúdentagörðunum í HR, á og ætlar að leigja mér. Íbúðin er stödd í Hafnarfirði og verður þar áfram.

Meðleigjandinn heitir Daníel og er Richter. Hann er ca 31% yngri en ég og 23,9% skemmtilegri.

Við sóttum um þessa íbúð hjá Sverri sem maður og barnabarn hans. Það gekk upp í fyrstu tilraun. Ráðabruggið hefði sennilega ekki gengið ef ekki væri fyrir gráa skegghárið fyrir neðan munninn á mér, sem skaut upp kollinum fyrir ca viku síðan.

Ég flyt í byrjun september.

mánudagur, 30. júlí 2007

Ég hef verið að skoða íbúðir á söluskrá og mér bregður alltaf jafn mikið við að lesa lýsinguna á þeim. Á flestum íbúðum er dúkur á gólfi. Ég les það alltaf sem "dúkkur á gólfi", sem mér finnst mjög óhugnarleg og viðbjóðsleg tilhugsun. Jafnvel óhugnarlegri og viðbjóðslegri en þessi lesblinda mín.
Ég er kominn með nýja kærustu. Þessi kærasta hefur lengi verið vinkona mín en henni kynntist ég fyrst í menntaskóla lítillega. Í háskóla kynntist ég henni svo enn betur og í vinnunni hjá 365 kynnist ég henni nógu vel til að verða hrifinn af henni.

Í gærkvöldi bauð ég henni svo í mat þar sem ég kyssti hana í fyrsta sinn.

Nýja kærastan heitir Microsoft Excel, er dóttir William Gates og er mjög góð í stærðfræði.

Við höfum nú þegar eignast okkar fyrsta barn. Þið sem eruð að spá í íbúðakaup, niðurhalið barni okkar sem kallast lán.xls og sláið inn upplýsingarnar, hér. Skjalið er skýrt í höfuðið á afa Excel, eins og ég kýs að kalla mína heittelskuðu.

sunnudagur, 29. júlí 2007

Í gær drakk ég áfengi í nægilega miklu magni til að finna á mér í fyrsta sinn í rúm 2 ár. Farið var í stelpupartí með Eiríki Stefáni og þaðan niður í bæ, þar sem ég greip nánast fyrsta bíl heim, eins og venjan er hjá mér. Þetta var samt mjög gaman. Nóg um það.

Afmæliskveðjumetið var víst ekki slegið í gær. Ég fékk 19 kveðjur alls í gær, sem nægði ekki einu sinni til að bæta gamla metið. Ég undirbý þetta betur næsta ár.

Ég þakka kærlega þeim sem reyndu að gera afmælisdaginn minn eftirminnilegan, þó sérstaklega Dionysus sem hélt stuðinu gangandi í gærkvöldi og í nótt.

laugardagur, 28. júlí 2007

Því fyrr sem ég segi þetta, því fleiri kveðjur fæ ég: Ég á afmæli í dag, 28. júlí. Ég er 29 ára gamall. Ég fer að verða fullorðinn líkamlega og táningur andlega.

Ég tek við afmæliskveðju í gegnum sms í síma 867 0533, í athugasemdum hér að neðan og í tölvupóstinum finnurtg@gmail.com.

Metið mitt eru 24 afmæliskveðjur. Heimsmetið eru rétt um 1.321.851.888 kveðjur við síðasta afmæli Hu Jintao, forseta Kína.

Ég hef það á tilfinningunni að við getum bætt þetta met.

Þegar þetta er ritað hef ég fengið þrjár kveðjur. Bara 1.321.851.886 í viðbót fyrir nýtt met!

föstudagur, 27. júlí 2007

Að fara í ræktina er ekki flókið. Maður tekur saman fötin, fer í ræktina, lyftir, teygir, í sturtu, klæðir sig og yfirgefur staðinn.

Þetta vafðist eitthvað fyrir mér í gær, þó sérstaklega fyrsta skrefið; að taka saman fötin.

Venjulega tekur maður eftirfarandi föt til skiptanna:
* Sokka.
* Nærbuxur.
* Bol.

Í gær tók ég til skiptanna:
* Sokka.
* Bol.
* Sokka.

Þetta uppgötvaði ég eftir að hafa klárað öll stigin tvö síðustu (klæða mig og yfirgefa staðinn). Þar sem ég er mjög góður að föndra, þá leysti ég nærbuxnaleysið á snyrtilegan og arðbæran hátt. Ekki spyrja hvernig og alls ekki biðja um myndir frá handtökunni.

fimmtudagur, 26. júlí 2007

Ég hef verið að gæla við (með tungunni) þá hugmynd að kaupa mér agnarsmáa íbúð í haust í stað þess að leigja fyrir andvirði eins handleggs á mánuði í Reykjavík.

Allavega, ég fór í greiðslumat hjá Íbúðalánasjóði til að sjá hversu stórt lán ég geti tekið fyrir íbúð og fékk niðurstöðu: Ég hef efni á að kaupa mér skó að verðmæti kr. 3.500 næstu 40 árin.

Látið mig vita ef þið vitið um góða skó, helst í 105 hverfinu.
Vífilfell er með skemmtilegan sumarleik í gangi á kókflöskum. Innan á flöskumiðunum er skrifað hvort maður hafi unnið eitthvað eða ekki. Hægt er að vinna hálfan lítra af kók, ipod eða eitthvað annað.

Hér með tilkynnist að ég er sigurvegarinn í þessum leik. Ég vann í gær akkúrat það sem ég þarf á að halda. Það kom mér samt á óvart hversu erfitt var að vinna þetta.

Samkvæmt útreikningum mínum, eins og áður hefur komið fram, eru líkurnar á því að vinna 5 rétta í Lottóinu 1 á móti 501.942. Í þessum kókleik eru nákvæmlega sömu líkur á vinningi, þar sem þetta var flaska númer 501.942 sem ég kaupi.

Ég sæki kókflöskuna sem ég vann sennilega í kvöld, við hátíðlega athöfn, í jakkafötunum mínum. Ég þakka Vífilfelli örlætið.

miðvikudagur, 25. júlí 2007

Í dag keypti ég mér prótein og kreatín skammta ásamt próteinsúkkulaðistykkjum. Þetta er allt risavaxið á stærð. Til að sýna ykkur hversu risavaxið þetta er, tók ég unga, setti við hlið dunkanna og tók mynd. Þar sem þetta er svo risavaxið, og ég svo langt frá þessu, takandi mynd, þá sést unginn illa, svo ég stækkaði hann.

Ungi við prótein

Þegar ég hef étið þetta allt verð ég sennilega orðinn eldmassaður og elggamall.
Það er komið að tölfræðilegum upplýsingum um þessa síðu:

Frá upphafi:
2.876 færslur ritaðar.
1.757 dagar bloggandi (= 4,8 ár)

Það gera 1,64 færslu að meðaltali hvern einasta dag. Samkvæmt prófum sálfræðinga er þetta merki um mikla geðsýki.

Síðastliðinn mánuð:
1.235 heimsóknir á síðuna
41 heimsókn á dag að meðaltali.

Hver gestur hefur eytt 6:42 mínútum á síðunni í hvert sinn. Það þýðir að alls hef ég eytt ca 275 mínútum frá fólki að meðaltali á dag.

Samanburður á tveimur síðustu vikum:



Samkvæmt þessu er síðan á uppleið. Til gamans má geta þess að síða þessi hefur verið á mikilli niðurleið síðustu ár, akkúrat á meðan líf mitt var á mikilli uppleið. Skemmtileg neikvæð fylgni þar.

þriðjudagur, 24. júlí 2007

Ég tók eftirfarandi lista af annarri bloggsíðu og ætla að fylla hann út. Hafið í huga að ég hef tekið nokkur atriði úr listanum, breytt sumum og bætt einhverju við hann. Listinn gengur út á það að setja X við þau atriði sem eiga við þig.

Hefur þú einhverntíman:

( ) Reykt sígarettu.
(X) Ekki nennt að klára að fylla út alltof langan lista.

Ekki slæmur árangur það.
Í dag hafði ég planað að skrifa, á þetta blogg, vangaveltur um hvernig það væri að missa báða handleggina og fá í þeirra stað hangandi kjöthlussur sem ég hefði enga stjórn á. Nú þarf ég ekki að velta þessu lengur fyrir mér þar sem ég upplifði þetta í nótt.

Ég vaknaði semsagt um miðja nótt, hafandi sofið á báðum handleggjunum á mér svo að nægilega mikill náladoði náðist til að ég hafði enga tilfinningu í handleggjunum né getu til að hreyfa þá, rétt eins og að hafa hangandi kjöthlussur í stað handleggja.

Niðurstaða: Það var ekki nógu gaman.

mánudagur, 23. júlí 2007

Þessa stundina er maður (Steingrímur Sævarr), sem ég kynnti niðurstöður könnunar fyrir á fundi í síðustu viku, að taka viðtal við mann (Pétur Pétursson), sem ég kynnti niðurstöður könnunar fyrir á öðrum fundi fyrr í síðustu viku, í þætti á Stöð 2, hvar ég vinn. Þriðja manninn í viðtalinu þekki ég ekkert.

Ég er ekki frá því að setningin hér að ofan sé merkilegri en staðreyndin sem er í henni. Ef mér hefur tekist að rita hana án villna, þá er það ennþá merkilegra en lengd og samsetning setningarinnar.
Finnur Simpson

Hér að ofan má sjá mig ef ég væri teiknaður í þáttinn um Simpsons fjölskylduna. Minn karakter væri alltaf að sofna.

Hér getið þið gert ykkur sjálf í sama stíl. Endilega gerið það, setjið á netið og hendið urlinu hingað í athugasemdir.
Staðan er 7-4 síðustu vikuna fyrir stelpunni sem býr í einhverri íbúðinni hér í blokkinni/fjölbýlinu, gegn stráknum sem sefur hjá henni. Hún rústaði honum nokkuð örugglega í kvöld 3-1, þó að það hafi verið tvísýnt í upphafi.

Það er kannski örlítið of hljóðbært hérna.

sunnudagur, 22. júlí 2007

Ég hef nú steingleymt að hlekkja á nýju síðuna hans Gylfa í marga marga mánuði. Hann fær hlekk hér með. Ég hef verið frekar utan við mig.

Viðbætt: hérna.

laugardagur, 21. júlí 2007

Venjulega líta hundar á eftir tíkum og karlmenn á eftir konum. Foreldrar líta eftir börnunum sínum og barnaníðingar líka.

En ekki ég. Í dag leit ég á eftir starfsfólki 10-11 í miðjum verslunarleiðangri þegar þau töluðu um Excelskjalið sem þyrfti að setja tölur í eftir uppgjör. Ég sá skjalið fyrir mér, kviknakið að biðja um tölur og formúlur. Sem betur fer er Excel kvenkyns. Annars gætu strákavinir mínir farið að líta mig hornauga.
Semiroyal flush.
Hér að ofan má sjá eina merkilegustu hendi í póker sem ég hef orðið vitni að. Það sést kannski ekki nógu vel en Víðir náði þarna Semi-Royal flush en líkurnar á því að fá slíka röð eru minni en að vinna í lottóinu (líkur á að vinna í lóttóinu eru ca 1 á mót 500.000. Líkur á Royal flush eru 1 á móti 649.740). Víðir náði K-9 í tígli.

Allavega, við tókum 7 manna pókermót í kvöld og ég sigraði, samtals kr. 5.000 í reiðufé. Korteri síðar tók ég bensín á bílinn fyrir kr. 6.000. Fyrir afganginn keypti ég mér smá þunglyndi.

föstudagur, 20. júlí 2007

Í dag er mánuður þar til ég verð rifinn úr íbúðinni sem ég bý í með valdi, þar sem leigusamningurinn verður útrunninn.

Ef einhver er með góða íbúð/herbergi/holu fyrir mig að búa í næsta vetur, endilega hafið samband í síma 867 0533 eða í netfangið finnurtg@gmail.com.

Ef þið hafið enga íbúð en vitið um eina (eða fleiri), látið mig líka vita.

Ef þið vitið ekkert um neitt, en viljið spjalla, þá megið þið hringja.

Ef þið eruð svöng, fáið ykkur að borða.

fimmtudagur, 19. júlí 2007

Ég var að eyða myndum úr myndasafninu, sem ég tapaði næstum fyrir tilstilli klaufaskapar fyrir nokkrum mánuðum síðan, og rakst á tvær myndir sem mér fannst bæði rómantískar og sérstakar.



Þessi mynd sýnir hversu rómantískur ég get verið. Til að fá rauðari lit á drullupollahjartað drap ég lítið dádýr og kreisti blóðið úr því í pollinn. Það hafði lítil áhrif. Það sem maður gerir ekki fyrir ástina.



Þessi mynd er tekin þegar risastór, bleik skjaldbaka kom fljúgandi yfir Reykjavík síðasta haust. Enginn lét lífið en þriggja er enn saknað.
Þar sem ég hef eiginleg ekkert að segja vil ég bara benda fólki á gamanþættina Man stroke woman en þá er að finna í heild sinni hér.

Hér eru tvö sýnishorn sem ég öskraði yfir (úr hlátri):





Ég vil þakka Svenna fyrir að benda mér á þessa snilldarþætti.

miðvikudagur, 18. júlí 2007

Smá tónleikar í kvöld.

Are you the one that I've been waiting for


Straight to you
Ég veit ekki hvernig á að orða það sem ég vil segja. Ég skal reyna:

Þann 23. mars 1989 skaust hinn 300 metra breiði loftsteinn 4581 Asclepius rétt um 700.000 kílómetra framhjá jörðinni. Jörðin var stödd á þeim stað sem hann fór 6 klukkutímum áður. Ef hann hefði lent á jörðinni er talið að það hefði orðið jafn slæmt fyrir jörðina og ein atómsprengja á sekúndu í 50 daga, sem er áhugaverður samanburður og frekar slæmt.

Af hverju að gera nokkurn skapaðan hlut ef svona getur gerst?

Umorðað: Ég nenni ekki að vinna í dag.

Ég er búinn að vera að googla afsökun fyrir því að sleppa því að vinna í allan dag.

þriðjudagur, 17. júlí 2007

Hver kannast ekki við það vandamál að vilja skrifa athugasemd á þessa síðu en hafa ekki efni á því.

Við rætur hugans kynnir með stolti nýtt tilboð til lesenda síðunnar:

Héðan í frá er algjörlega endurgjaldslaust að skrifa athugasemdir. En bíðið. Það er meira!

Ef þið sendið inn tvær athugasemdir einn daginn fáið þið þriðju athugasemdina á hálfvirði!

Ekki nóg með það heldur getið þið fengið endurgreitt allt að 14 dögum eftir að athugasemdin var sett inn og þið þurfið ekki einu sinni að þurrka athugasemdina út.

Og það er ekki allt! Öllum athugasemdum er svarað persónulega innan 2ja daga!

Nýtið ykkur þetta klikkaða tilboð, aðeins hér hjá Vörut... Við rætur hugans!
Í dag var mér synjað um starf í Landsbankanum á Egilsstöðum sem var auglýst laust fyrir nokkrum vikum síðan. Ég er því fastur í bænum enn um sinn.

Mér hefur þá verið synjað 4 sinnum í þessum mánuði, þar af þrisvar af Landsbankanum:

1. Ég fékk synjun á VISA kortið frá Landsbankanum í byrjun mánaðar vegna misskilnings.
2. Ég fékk synjun frá bankastjóra Landsbankanus varðandi tillögu mína um að afskrifa skuldir mínar við bankann í skiptum fyrir sjóðheitan sleik, vegna misskilnings.
3. Ég fékk synjun um starf í Landsbankanum á Egilsstöðum vegna misskilnings.

Ég fékk þó samþykki í sjoppu áðan um að fá kók og risahraun í skiptum fyrir 250 krónur, þannig að mánuðurinn er ekki alslæmur.

mánudagur, 16. júlí 2007

Hörkufjör á heimavist.
Klifri klifri HAHAHAHAHA.

Efri myndin er tekin við afhendingu viðurkenninga í HR í janúar 2006. Neðri myndin var tekin á toppi Móskarðshnúka, sem genginn/klifraður var af þessum hópi 3. júlí síðastliðinn. Spurt er:

Hvað eiga þessar myndir sameiginlegt?

a) Á hvorugri myndanna er hundur, nema á annarri þeirra.
b) Á báðum myndum er ein kona í grænni peysu.
c) Sveitti, ógeðslegi og óhugnarlegi náunginn í bakgrunninum er sami náunginn.
d) Einhver var að hugsa um Microsoft Excel á myndinni (náunginn í c svarmöguleikanum).
e) Allt að ofan er rétt.
f) Ekkert að ofan er rétt.
g) Sumt að ofan er rétt.

Leyfileg gögn eru: Vasareiknir, tölvumús og stækkunargler. Möguleiki er að stækka myndirnar með því að smella á þær.

Eins og áður fæst 1 stig fyrir rétt svar og mínus 25 fyrir rangt. Auð og ógild svör verða álitin tvöföld röng svör.
Í dag hélt ég kynningu fyrir stjórn 365 um niðurstöður könnunar og spilaði svo golf með bankastarfsmönnum.

Hljómar mjög virðulega en treystið mér; ég leit út eins og hálfviti við þetta alltsaman.

Ef einhver krakki les þetta: aldrei verða fullorðið.

sunnudagur, 15. júlí 2007

Einn heppinn lesandi síðunnar sem getað giskað á hvað ég keypti í dag, en þurfti svo ekki á að halda, fær fjögur AA hleðslubatterí í verðlaun. Sumarleikur síðunnar er hafinn.

laugardagur, 14. júlí 2007

Eftir að hafa verið kallaður öllum illum nöfnum af sjálfum mér, ákvað ég að taka próf og sjá hvort eitt af þessu er rétt. Er ég einhverfur?

Niðurstaða:

Fjör.

Ef þið sjáið ekki hvað stendur getið þið gert tvennt:

1. Borgið himinháa fjárhæð og farið í augnaðgerð. Látið laga sjónina svo þið sjáið smærra letur.
2. Smellið á myndina.

Áhugavert. Ég er á mörkum þess að vera einhverfur. Gildir einu!
Undanfarið hef ég verið að horfa á þættina My name is Earl (ísl.: Ærslabelgurinn Earl) sem fjallar um mann sem gerir góðverk og lífið/karma verðlaunar honum fyrir.

Þessir þættir hafa haft góð áhrif á mig því í fyrradag framdi ég þrjú góðverk. Eitt fólst í sér að senda dót austur í miðjum vinnudegi. Í næsta góðverki lánaði ég vinkonu þætti sem ég á og í þriðja góðverkinu lagaði ég Excel skjal sem var eitthvað skrítið.

Daginn eftir vann ég þrjú pókermót. Í dag hef ég verið hundleiðinlegur hrotti og viti menn; ég tapaði á pókermóti áðan.

Samantekt: þegar ég geri góðverk þá græði ég peninga. Þegar ég er vondur þá tapa ég peningum. Samkvæmt þessu, og núverandi skuldastöðu minni, er ég versti maður í heimi.

Svo getur auðvitað líka verið að þetta sé bara tilviljun.
Fyrir rúmum tveimur árum keypti ég mér bandýkylfu og spilaði bandý í einhvern tíma.

Fyrir um 9 mánuðum keypti ég mér veggtennisspaða og spilaði veggtennis í einhvern tíma.

Í gær keypti ég mér golf-driver. Nú mun ég ræna banka í einhvern tíma. Ég vona bara að bankaafgreiðslufólki finnist því stafa ógn af mér að skjóta golfkúlum í það. Og ef ekki, þá vona að ég hitti kúlurnar.

föstudagur, 13. júlí 2007

Til að fylla upp í félagslega þörf mína í gærkvöldi spilaði ég póker á netinu, sem er ekki í frásögu færandi nema fyrir þá staðreynd að ég varð í 2. sæti á einu móti og 3. sæti á seinna mótinu. Samtals gerir það $50 (ca kr. 3.000) í verðlaunafé. Merkilegt hvað hótanir um líkamsmeiðingar gera fyrir heppnina.

Þegar þátttökugjaldið á mótunum, kostnaður við þessa spilamennsku (matur og drykkur) og skatturinn af hagnaðnum er dreginn frá, þá skulda ég ríkinu og Visa samtals um $50 (ca kr. 3.000). Ég verð vonandi heppnari næst.

fimmtudagur, 12. júlí 2007

Öpl um öpl frá öplum til apla

Hróður Arthúrs fer víða eins og sést á þessari mynd hér að ofan. Skókassamarkaðurinn er farinn að notast við hugtak sem kom fyrst fram hér.

Einnig sá ég mann um daginn í ljósbláum bol. Til að fullsanna þráhyggju fólks varðandi Arthúr þá sá ég ský um daginn sem líktist bókstafinum A, sem er stytting á Arthúr. Ótrúlegt hvað fólk leggur á sig fyrir smá þráhyggju.

miðvikudagur, 11. júlí 2007

Ég hélt að ég ætti ekkert að borða en viti menn; biomjólk í ísskápnum og nokkrir Cheerios hringir á bekknum. Nú vantar mig bara nokkrar milljónir króna til að borga niður námsskuldirnar og lífið er fullkomið.
Þessa dagana birtast viðtöl við nýútskrifaða leikara í "Leikarar framtíðarinnar" í Fréttablaðinu. Enn hefur ekki verið tekið viðtal við mig. Þar sem þetta er mismunun eftir starfstéttum þá leysi ég vandamálið með því að taka viðtal við sjálfan mig, enn eina ferðina:

Aldur?
28,92 ára

Draumahlutverkið?
Maður sem er nuddaður í hverri einustu senu.

Hvíta tjaldið eða leiksviðið?
Hvíta tjaldið, ef ég þarf að velja.

Hverjum er það að kenna að þú fórst í leiklist?
Ég fór ekkert í leiklistina.

Besta æskuminningin?
Að spila fótbolta í Trékyllisvík með bræðrum mínum.

Þú sérð gamla konu missa 5.000 kall, hvað gerir þú?
Ég sé gamla konu missa 5.000 kall. Auðveld spurning.

Hvar er best að vera?
Þar sem ég er ekki.

Myndur þú koma nakin fram?
Með réttri manneskju, já. Fyrir framan myndavélar: Aldrei nokkurntíman. Nema ég fengi borgað auðvitað.

Þú ert orðin of seinn á frumsýningu. Það er rautt ljós en enga löggu að sjá. Hvað gerirðu?
Ég bíð eftir að ljósið verði grænt og blóta mikið.

Hvers getur þú síst verið án?
Mín. Og Risa-Hrauns.

Hefur þú neytt fíkniefna?
Nei, bara áfengis.

Hefur þú kysst einhvern af sama kyni?
Nei, ekki ennþá.

Versta starf sem þú hefur unnið?
Þorskhausaverksmiðjan í Fellabæ. Ég íhugaði alvarlega að byrja í þessu "dópi" sem allir voru að tala um, til að gera daginn bærilegri.

Hvernig bíl áttu?
Peugeot 206, árgerð 2000, rusl.

Ef þú værir einn í heiminum, hvað myndirðu gera?
Strika eitt atriði af listanum yfir það sem ég ætla að gera áður en ég dey.

Hvað þarf mörg hrísgrjón til að mynda hrúgu?
Ég kýs að svara þessari spurningu ekki vegna kynþáttahaturs í spurningunni. Ef þetta er ekki kynþáttahatur þá segi ég foreldra og 2-3 börn.

Hvar pantar þú pítsuna þína?
Heima hjá mér með síma. Ég panta yfirleitt pizzu frá Rizzo.

Hvar er besta videoleigan?
Videoflugan, Egilsstöðum.

Þjóðleikhúsið eða Borgarleikhúsið?
Eða.

Hvernig týpa ertu?
Emogoth, mínus málningin, tilfinningarnar og fötin.

Í verslun um daginn, nánar tiltekið við bananaborðið, varð ég fyrir ofsahræðslu þegar ég hélt að allur heimurinn hafði minnkað um ca 40%. Með tímanum hef ég áttað mig á því að heimurinn hefur ekki minnkað heldur er þessi banani sem ég sá þá bara risavaxinn.

Ég er ekki hommi en mikið ótrúlega er gott að hafa eitthvað risavaxið til að japla á við skrifborðið.

Munið bara; hendin á mér er ekki eins og á ungabarni. Bananinn er stór!

þriðjudagur, 10. júlí 2007

Ég var að lagfæra hlekkina hér til hægri og í svefnherberginu. Henti út ónýtum hlekkjum, lagfærði lýsinguna á nokkrum og færði nokkra til. Einnig smurði ég nokkra hlekki og bætti við einhverjum, til að lengja keðjuna.

Ég veit ekkert um hvað ég er að tala lengur.
Fyrir nokkrum dögum keypti ég mér nýja hversdagsskó en þeir gömlu voru uppeyddir.

Ég er lítið fyrir breytingar. Það kom mér því verulega á óvart þegar ég valdi mér skó sem voru öðruvísi á litinn en þeir gömlu. Ég hélt í smá stund að ég væri orðinn nýungagjarn og frumlegur í ákvörðunum. Þetta hélt ég, valhoppandi um Kringluna í nýju skónum, syngjandi baráttusöng nýungagjarnra, þangað til Óli Rú benti mér á að skórnir eru nákvæmlega eins og þarsíðustu skórnir mínir.

Með kaupunum á síðustu skónum mínum [þeim sem ég henti núna] varð ég semsagt nýungagjarn. En það tímabil er búið, greinilega. Nú syng ég leiðinlegt lag íhaldsamra. Og er hættur að valhoppa.

mánudagur, 9. júlí 2007

Í Blaðinu, einhvern dag vikunnar, er sérstakur konuhluti þar sem m.a. er tekin fyrir "kona vikunnar". Ég mótmæli þessu. Ég vil jafnrétti.

Ég skipa sjálfan mig hér með konu vikunnar og svara spurningalista Blaðsins:

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst lítil?
Orkumikill, fullur af lífskrafti og bjartsýni. Ég var heimskt barn.

Ef ekki hér, þá hvar?
Á moggablogginu.

Hvað er kvenlegt?
Sköp (Gott skap og vont skap t.d.). Öðrum orðum: Andlegt ójafnvægi.

Er munur á körlum og konum, og ef svo er, hver er hann?
Nei, konur og karlar eru nákvæmlega eins, bæði andlega og líkamlega. Hver sá sem segir annað er karlremba.

Er jafnrétti náð?
Eftir að ég svara þessum lista, já.

Hvað skiptir þig mestu máli í heiminum?
Að lifa af.

Helstu fyrirmyndir?
Hlédrægt fólk.

Ráð eða speki sem hefur reynst þér vel?
"Haltu kjafti" hefur reynst mér vel.

Uppáhaldsbók?
Wikipedia netbókin.

Draumurinn þinn?
Að verða skuldlaus.
Ég er vinamargur í dag; fékk 4 sms í morgun.

* Eitt frá Landsbankanum, segjandi að ég eigi lítið eftir af peningum.
* Eitt frá Símanum, segjandi að ég eigi lítið eftir af símainnistæðu.
* Eitt frá E-kreditkortinu, segjandi mér frá frábærum tilboðum.
* Eitt frá Blóðbankanum, biðjandi um blóðið mitt.

Takk, bestu vinir að eilífu!

sunnudagur, 8. júlí 2007

Fyrir nokkrum dögum keypti ég mér tvær bækur:

1. The God Delusion eftir Richard Dawkins. Biblía trúleysingja, ef svo má til orðs taka.
2. Gemsinn eftir Stephen King. Biblía geðsjúklinga.

Þessi kaup mín eru talsvert vanhugsuð þegar litið er til þess að ég tek að meðaltali 6 mánuði í að lesa hverja bók. Þessa stundina er ég að lesa bókina Tricks of the Mind eftir Derren Brown, sem er biblía aðdáenda Derren Brown.

Nóg um bækur.

Ég lagaði síðuna örlítið; bætti við upplýsingum um mig og lagaði "Eldri færslur" sem höfðu horfið fyrir einhverju síðan en mér tókst að vekja aftur frá dauðum með hjálp frá heilögu vatni og smá kóðun.


Í gær ákváðum við Óli Rú, markaðsstjóri Reykjavík FM, og ég, fínn viðskiptafræðingur, að brjóta odd af oflæti okkar og láta sjá okkur meðal viðbjóðslegs almúgans. Við litum svo á að ef við þykjumst ekki vera betri en allir aðrir þá kannski hættir fólk að öfunda okkur af viðskiptagráðum okkar.

Allavega, fyrir valinu varð leikur KF Nörd og FC Z (Sænska nördalandsliðið í fótbolta) á Kópavogsvelli. Leikurinn fór Pí í öðru deilt með 1,4 - núll fyrir KF Nörd.

laugardagur, 7. júlí 2007

Ég hef fréttir að færa. Ég er einhleypur. Nánar um það hér.

Lífið heldur áfram og það sem meira er; þetta blogg heldur áfram. Hér eftir mun ég verða samviskusamari í að rita niður hugsanir, nöldur, atburði og, síðast en ekki síst, fleira.

mánudagur, 2. júlí 2007

Ég er að ganga í gegnum frekar erfiða tíma. Þraukið með mér. Ég skrifa næst þegar mér líður betur.

Vinsamlegast ekki skrifa athugasemdir við þessa færslu. Ekki heldur hringja og spyrja.

Ég lifi þetta af. Sérstaklega ef ég aðhyllist þessari stefnu.