mánudagur, 31. október 2005

Arthúrssíða okkar Jónasar hefur dregið að sér í kringum 40.000 heimsóknir í októbermánuði. Þetta segir okkur eftirfarandi:

* Ef hver heimsókn varir í 15 sekúndur höfum við tafið Íslenskt atvinnu-, skóla- og öryrkjalíf um 10.000 mínútur sem gera 166,67 klukkustundir eða næstum 7 sólarhringa eða rúmlega heilt starf á mánuði. Af þessu er ég sérstaklega stoltur.

* Ef hver heimsókn leiðir af sér bros í þriðja hvert skipti og hvert bros leiðir af sér tvö gleðistig (það þarf 100 gleðistig til að finna til hamingju) þá höfum við framleitt 26.667 gleðistig og þarmeð gert um 267 manns hamingjusama.

* Ef einn af hverjum þúsund gestum ákveður að fremja ofbeldisverk í kjölfar heimsóknar á síðuna höfum við framleitt 40 ribbalda.

* Ef hundraðasti hver gestur kíkir á "um höfunda" og annar hver af þeim kíkir á síðuna mína og annar hver af þeim kíkir á hver ég er þá þekkja mig 100 manns í gegnum Arthúr... sem er minna merkileg niðurstaða en ég hélt.
Sem svar við þessari færslu þeirra Hörpu og Guðjóns kem ég með gagnárás.

Veðrið á Íslandi er mun betra en fólk heldur. Hér má sjá rannsóknargögnin.
Í gær kíkti ég á beina útsendingu frá Melbourne í Ástralíu, nánar tiltekið Ramsey stræti í Erinsboroughhverfi. Þar gerðist margt slæmt en þó aðallega að barinn hans Lou, Lou's Place og kaffistofa Harold, Coffee Shop, brunnu til grunna. Það vill svo skemmtilega til að ég sá hver gerði þetta og hef ég gefið mig fram við lögreglu til að lýsa viðkomandi. Lögreglan í Reykjavík ætlaði að hafa samband þegar þeir væru tilbúnir fyrir vitnisburð minn.

Minningarstund!Brent, maður Beth sem síðar tók upp nafnið Natalie Imbruglia á Lou's Place.Harold Bishop og Charlene á Lou's Place.Lou og fyrrum hjónin Susan og Karl Kennedy á The Coffee Shop.Allt brann til kaldra kola í gær. Grátur og gnístan tanna.Öll mín samúð fer til þessa manna, eigenda verslunanna í fjöldan allan af árum;


Lou Carpenter.Harold Bishop.

sunnudagur, 30. október 2005

Jahérna. Simpansar hafa nýlega verið greindir sem hægri menn. Þið sem trúið mér ekki, kíkið hingað.

Smá helgarsprell í tilefni af "gerið grín að hægri mönnum" deginum sem var í dag, degi eftir hinum alþjóðlega "Psoriasis" deginum, skiljanlega.

föstudagur, 28. október 2005

Dagurinn byrjaði á eftirfarandi dagskrá:

11:00 Vaknaði alltof seint eftir verkefnavinnu til 3 í nótt. Var of seinn á fund.
11:05 Hringdi í alla sem ég þekki í HR til að tilkynna seinkun mína. Enginn svaraði.
11:10 Ætlaði á netið til að tilkynna seinkun. Netið var úti í fyrsta sinn í vetur.
11:15 Ætlaði á Laugarvatn seinna í dag. Leit út um gluggann, snjór út um allt og ófært þangað.
11:17 Tannburstaði mig. Rak tannburstann full harkalega í holdið. Það blæddi.
11:22 Á leiðinni úr herberginu rak ég tánna bylmingsfast í hurðina.

Hér er svo gróf áætlun fyrir restina af deginum, ef fer fram sem horfir:

15:00 Ætla að fá mér köku en hitti ekki og borða af mér hendina.
17:00 Heimurinn ferst.

Við áætlun þess var notast við eftirfarandi forrit:
Eviews
Excel
Crystal Ball
Civilization III Conquests
Flokkur Davíðs Oddssonar setti í árslok 2003 á lög sem fólu í sér að fyrrum ráðherrar geti þegið stælt eftirlaun strax eftir starfsemi sína, óháð því hvort þeir fái aðra betri borgaða vinnu eftir á. Margir voru ósáttir við þessi lög.

Nýlega tilkynni svo Davíð Oddsson að hann ætlaði ekki að þiggja þessi eftirlaun þrátt fyrir að vera kominn á seðlabankastjóralaun. Og fólk puttaði sig í rassgatið yfir góðsemd hans.

Þetta er svipað og ef flokkur Davíðs hefði sett á nauðgunarlög sem leyfði ráðherrum að nauðga hverjum sem er, hvenær sem er án afleiðinga og að Davíð segðist svo ekki ætla að nauðga neinum á meðan hann væri giftur.

Ég veit ekki með ykkur en rassaputtun er ekki það fyrsta sem mér dettur í hug við þessar fréttir.

fimmtudagur, 27. október 2005

Samkvæmt upplýsingum af netinu sigraði ég í einni mestu keppni lífs míns fyrir rúmlega 28 árum síðan. Þá sigraði ég um 500.000.000 (500 milljónir) manns í sundkeppni upp á líf og dauða. Semsagt; ég sigraði á meðan um 499.999.999 töpuðu og létu lífið. Djöfull er ég ótrúlegur.

Tilvitnun: "Það eru um 500 milljón sæðisfrumur í 5 ml af sæði, en einungis 500 sæðisfrumur komast að egginu."
Nýjir fjórfarar eru komnir hingað.

Ekkert nýtt er hinsvegar komið hingað.
Í morgun hef ég fengið eftirfarandi dót gefins í kynningu hjá Samskipum og kynningu á e*trade Landsbankans í skólanum:

* Kókdolla.
* Tebolli.
* Samloka.
* Tveir pennar.
* Tveir bæklingar.
* Vatnsflaska.
* Illt auga fyrir að hvíslast á í fyrirlestri.

Ef gróft er áætlað mun nám mitt í HR borga sig upp, ef þetta verður svona hvern einasta dag, rúmum þremur korterum fyrr en áætlað var eða klukkan 14:13 þann 3. september 2034 í stað klukkan 14:58 þann 3. september 2034.

miðvikudagur, 26. október 2005

Ég hef nú setið í allan dag og hugsað góða færslu til að setja hérna. Árangur er slæmur.

Til að koma í veg fyrir að svona andleysi gerist aftur hef ég ákveðið að refsa sjálfum mér með því að neita sjálfum mér um tómatsósu og flatbrauð næstu tvo daga.

Það ætti að kenna mér lexíu.

þriðjudagur, 25. október 2005

Mér hefur í fyrsta sinn á ævinni borist svokallað aðdáendalistaverk eða "fan-art" frá stráki. Það má sjá hér:

Smelltu á hana til að sjá hana í sér glugga.

Það sér það hver heilvita maður að hér er á ferðinni sprellmynd af þessari hér:

Smelltu á hana til að sjá hana í sér glugga.

Eftirtaldar upplýsingar var hægt að fá um höfundinn með svo skömmum fyrirvara:
Nafn: Daníel Richter.
Aldur: Menntaskólaaldur.
Áhugamál: Útivera, lestur góðra bóka og að vera austurlandsmeistari í bandý.

Veftímaritið þakkar kærlega fyrir myndina og vonar að fleiri berist.
Vissir þú...

...að fátt fer meira í taugarnar á mér en peningavandamál.
...að peningavandamál hrjá mig í dag.
...að í tölfræði er runa eða vigur svokallað Heteroskedasticity ef slembibreytan í rununni eða vigrinum getur tekið við mismunandi breytum.
...ég er að drukkna í verkefnavinnu í skólanum, bókstaflega.
...að ég er við það að fá heilablóðfall af pirringi þegar þetta er ritað.

mánudagur, 24. október 2005

Ég klippti fingraneglur mínar í gær sem voru orðnar ömurlega langar. Svo virðist sem, við nánari athugun í dag, að ég hafi gleymt að klippa neglur hægri handar.

Enn einn ævintýradagurinn í lífi Finns.tk að baki.
Skyndilega eru allar konur horfnar úr skólanum. Ég hef ákveðið að spyrja einskis heldur njóta þessa þöglu stunda.

Að öllu gamni slepptu; gangi fólki vel í mótmælum í dag. Ég kemst ekki frá sökum Anna (nokkrar brjálaðar Önnur halda mér niðri).
Ný síða er fædd. Jónas Reynir, Theódór og Pétur eru:

100% grallarar.
67% körfuboltaleikmenn.
33% fyrrverandi körfuboltaleikmenn.
100% grínistar framtíðarinnar.
7% leðurnærbuxnablætarar.
94% bloggarar.

Þetta er í fimmta sinn sem Jónas Reynir reynir að halda úti bloggi. Veftímaritið óskar honum góðs gengis (Khan).

Kíkið á síðuna þeirra hér.

sunnudagur, 23. október 2005

Í dag átti ég samtal við Styrmi bróðir sem býr í Svíþjóð. Það sem gerir þetta samtal sérstakt var að ég talaði við hann í gegnum tölvuna (hann talaði, ég skrifaði þar sem ég á ekki hljóðnema) um leið og ég sá hann á skjánum, hreyfast eins og hann sæti á móti mér með nýjasta barnið sitt steinsofandi.

Ég man að ég sá eitthvað svipað atriði í bíómynd fyrir ca 20 árum og hélt að þetta myndi aldrei gerast, hvað þá að ég myndi eiga svona samtal. Að hugsa með sér. Ég hélt að framtíðin myndi ekki koma svona fljótt.
Detroitíski rokkdúettinn The White Stripes halda tónleika hérlendis 20. nóvember næstkomandi. Þetta táknar eftirfarandi fyrir mig:

* Tónleikarnir eru á prófatíma = ég mun falla á einhverju prófi í ár.
* Mig vantar styrktaraðila til að mæta á tónleikana.
* Ég finn hvergi buxurnar mínar eftir geðshræringuna sem greip um sig við að fá þessar fréttir í gær, sem einnig útskýrir bloggleysið.

Spurning um að fjölmenna á þetta dansiball.

föstudagur, 21. október 2005

Keila í gær með Garðari, Bergvini og Óla.

Til að gera langa sögu stutta.
Í gær kynnti ég til leiks tónlistarsíðu okkar Garðars en setti rangan hlekk í færsluna. Hér er réttur hlekkur.

Þangað til ég læri að setja inn greinar á þessa síðu birti ég útskýringu á lagavalinu mínu sem er að finna á síðunni:

1. Turin Brakes - Pain Killer
Langt frá því að vera besta lag þessa dúetts en það er fyndið ef þið hlustið á textann. Ég veit ekki betur en að textinn fjalli um munnmök; "Summer rain, dripping down your face again".

2. The Chemical Brothers - Music Response
Chemical brothers bregst ekki bogalistin frekar en vanalega. Þetta er óvenjulegt lag eins og þið heyrið og magnað að hlaupa við finnst mér.

3. The White Stripes - Red Rain
Að mínu mati besta lagið á nýju plötu þeirra; Get behind me satan sem er annars ótrúlega góð. Lagið fjallar um mann sem kemst að framhjáhaldi kellu sinnar, drepur viðhaldið eina nóttina og kemur svo fyrir utan gluggann hennar og syngur um það í rigningunni.

4. Kasabian - Cutt Off
Eitt besta lag plötu Kasabian sem sló óvænt í gegn fyrr á þessu ári. Fær mig til að sveflast um, rétt eins og í litlu flogakasti.

5. Nick Cave - Brompton Oratory
Það má ekki gleyma að hafa Nick Cave á listanum. Eitt fallegasta lag sem samið hefur verið, nokkurntíman. Af plötunni Boatmans Call.

Farið nú inn á tónlistarsíðuna og hlustið ókeypis. ATH. Þið getið ekki niðurhalað þessum lögum á síðunni, bara hlustað.

Þessum lista verður svo skipt út fyrir 5 ný lög einhverntíman fljótlega.

fimmtudagur, 20. október 2005

Frá og með núinu hef ég hafið sjöundu síðuna mína. Í þetta sinn er það tónlistarsíða í samstarfi við Garðar Eyjólfsson, grafískan meistara. Hér er þá listi yfir síðurnar í minni eigu:

Arthúr
Teiknimyndasögur í samstarfi með Jónasi Reyni. Hann semur og teiknar. Ég sem og sé að einhverju leyti um útlit síðunnar. Jónas á mest í þessari.

Við rætur hugans
Þessi síða. Dagbókarskrif mín. Virkasta síðan.

Fjórfarar
Set inn fjórfara hér þegar ég hef tíma eða hugmyndir. Ágætis safn fjórfara.

GSMbloggið
Útrunnin síða sem ég fer að loka bráðum. Fínt að skoða gamlar myndir þarna samt.

Albúmið
Myndasíðan. Þessi mun stækka eitthvað í framtíðinni ef ég fer einhverntíman aftur í partí með myndavélina.

Spjallborðið
Þessi er eiginlega fyrir alla að sjá um. Ég hef þó umsjón með henni, amk til að byrja með.

Og nú:
Tónlistarsíðan
Síða sem við Garðar Eyjólfs sjáum um. Þarna er og verður hægt að hlusta á tónlist sem er í uppáhaldi hjá okkur ásamt því að fá ábendingar frá okkur um góðar plötur. Djöfull eruð þið heppin. Sennilega besta síða alheimsins. (Smellið á listann hægra megin til að heyra tónlist).

Shit. Ég var að átta mig á því hversu mikill nörd ég er.
Ef marka má viðbrögð líkama míns við að tala fyrir framan fjölmenni má draga eftirfarandi ályktun:

Númer fyrirlesturs sem er haldinn af mér / viðbrögð líkama míns.

1 = Roði í andliti, svitamyndun víðsvegar, óreglulegur hjartsláttur, sorti fyrir augum og uppgangur.

2 = Skjálfti í höndum, fótum og öðrum útlimum, blóðflæði úr augum og eyrum, varanlegur heilaskaði og flogaköst.

3 = Líkami minn springur í loft upp.

Og það vill svo skemmtilega til að ég mun halda þrjá fyrirlestra næstu vikuna, sá fyrsti á eftir. Þetta gerir manni bara gott.
Uppáhaldsgrínistinn minn hefur hafið ritstörf mér til svo mikillar ánægju að ég kýldi í vegg.

Kíkið á Davíð Þór hér (og í hlekkjum hægra megin).

miðvikudagur, 19. október 2005

Á gangi um daginn um bílastæði Háskóla Reykjavíkur tók ég eftir þremur bílum í röð með OX í númeraplötu. Þar sem það eru aðeins notaðir enskir stafir í íslenskum númeraplötum og í enska stafrófinu eru 26 stafir eru líkurnar á þessu eftirfarandi:

Líkurnar á því að OX sé í númeraplötu: 1:26^2 = 1:676
Sem þýðir að ef það eru 100.000 bílar á Íslandi þá eru um 148 bílar með OX númeraplötur.

Líkurnar á því að OX sé á þremur bílum í röð: 1:676^3 = 1:308.915.776
Sem gera um 0,000000324% líkur.

Til samanburðar má nefna að:

Líkurnar á því að vinna 1. vinning í lottóinu: 1:(38!/(38-5)!)/5! = 1:501.942
Sem segir að í 501.942 skipti sem þið kaupið línu í lottóinu þá vinnið þið.

Það eru því ótrúlegt hversu rosalega heppinn ég er.

þriðjudagur, 18. október 2005

Þetta er fyrsta bloggfærslan nokkurntíman sem er gerð af manni í dökkri peysu, með svarta derhúfu, í svörtum buxum og er skrifuð með tánnum.
Ég er í tölfræðiáfanga þar sem ég þarf að gera lokaverkefni sem felur í sér rannsókn. Í morgun fékk ég smjörþefinn af því sem aðrir eru að gera þegar fyrri hluti hópsins hélt kynningu á rannsóknum sínum. Hér eru nokkur dæmi:

* Áhrif olíuverðs á hlutabréfaverð víðsvegar.
* Fylgni einkunna og heimalærdóms.
* Áhrif ölmusugjafar á hagnaðartölur viðskiptafyrirtækja.

Og fleira viðskiptalegs eðlis.

Ég mun svo halda kynningu á fimmtudaginn á mínu verkefni sem er, vægast sagt, út úr kú:

* Áhrif kynþáttar, samningslengdar, gengi liðs og flr. á tölfræði leikmanna í NBA.

Ég er að hugsa um að mæta í trúðsbúningi til að draga athyglina frá því hversu ekkert tengt viðskiptum eða viðskiptafræði þetta er. Fínt væri að fá sjálfboðaliða með mér í þetta þar sem það er neikvæð fylgni milli fjölda trúða í fyrirlestri og fjölda skamma fyrir lélegt efni fyrirlestursins (þeas, því fleiri trúðar, því minni skammir og öfugt).

mánudagur, 17. október 2005

Ég hef uppfært kröfur mínar til kvenfólks sem mér finnst girnilegt.

Áður voru kröfur mínar eftirfarandi:

* Kvenkyns.
* Mennsk.
* Með hjartslátt.

Þessar kröfur voru of miklar greinilega þar sem árangurinn var vægast sagt slappur. Þar sem ég gat ekki minnkað þær ákvað ég að auka þær talsvert. Núna eru kröfur mínar þær að kvenmaðurinn verður að vera...

* kvenkyns mannvera með hjartslátt.
* reyklaus.
* ljóshærð.
* með blá augu.
* fyndin, skemmtileg og góð.
* gullfalleg.
* eiga skemmtilega fjölskyldu.
* vera einu ári yngri en ég.
* finnast seven góð mynd.
* í íþróttaháskóla.
* frá Egilsstöðum.
* vera íþróttasjúk.
* með gráðu í íslensku við HÍ.
* fædd 19. júní.
* eiga hvítan bíl og kalla hann Hannibal.

Ég vona að þetta gangi betur.
Stebbi vöðvabolti bætti mér nýlega við í hlekki hjá sér. Ég launa alla hlekki með hlekk til baka auk smá færslu um viðkomandi. Stebbi er merkilegur fyrir margar sakir en þó aðallega þá sök að hafa selt mér próteindópduft í sumar og þannig bætt á mig 10 kílóum. Hafi hann 17.000 krónur og þakkir fyrir. Hér er hlekkurinn á skrattakollinn.

Björgvin bróðir byrjaði að blogga aftur nýlega. Kíkið endilega á hann hér.

Að lokum bloggaði sonur minn, Arthúr, í morgun. Kíkið á hann hér.

Þetta er svona það áhugaverðasta á netinu í dag.

sunnudagur, 16. október 2005Hér er mynd af frænda mínum; Kristjáni Frey, sem var að eignast bróðir.

Í nótt eignaðist ég annan frænda þegar Styrmir bróðir og Lourdes kona hans eignuðust sitt annað barn. Bæði barni og foreldrum heilsast vel en þó aðallega frænda nýja barnsins; mér.

Til hamingju Styrmir, Lourdes og Kristján! Hlakka til að sjá nýja frændann.
Á sautján klukkustunda tímabili í gær og í dag (19:10 í gærkvöldi til 12:10 í dag) fór ég í tvö matarboð. Það gera næstum 20 matarboð á viku og rúm 1.030 matarboð á ári. Það er, samkvæmt mínum heimildum, heimsmet í matarboðum að meðaltali á mínútu og á ég það aleinn ásamt kannski einni annarri.

Ennfremur lærði ég á þessum sautján tímum 20 ný nöfn, sem gera yfir 10.000 nöfn á ári. Ég verð semsagt að draga úr matarboðunum ef ég á að getað munað eitthvað annað en mannanöfn í framtíðinni.

föstudagur, 14. október 2005

Stórkostlegar framfarir hvað orðanotkun varðar áttu sér stað hjá mér í gær þegar ég ræddi við bróðir minn á netinu. En mynd segir meira en 1.000 orð. Kíkið hér.

Nú er bara að vona að þetta sé rétt íslenska.
Loksins fattaði ég af hverju öll opinber fyrirtæki í Reykjavík eru með póstnúmerið 150. Það er svo maður geti ekki sprengt þau í loft upp þegar maður finnur þau ekki.

Hvar í helvítinu er Sölvhólsgata? Og hvar býr fíflið sem valdi þetta nafn á götuna?

Og fyrst ég er byrjaður að nöldra; hver kom með þessa hugmynd fyrir nýju markaðssetningunni hjá símaskránni á netinu; "já - er svarið"? Ekki nóg með að þetta sé tilgerðalegt þá er þetta líka heimskulegt og ljótt.

Ef það hefur farið framhjá einhverjum þá er ég í einu besta skapi sem ég komist í, þökk sé húsaleigubótaskriffinnsku.

fimmtudagur, 13. október 2005

Kæra dagbók,

ég talaði í tölfræðitíma í dag sem gerist ca þrisvar á ári. Það sem gerir þetta tilvik svona sérstakt var að ég svaraði spurningu rétt í fyrsta skiptið og það mjög erfiðri spurningu. Fólk gapti yfir stórkostlegum gáfum mínum og hamingjusælan var gríðarleg.

Til að karmað mitt komi ekki aftan að mér þá ákvað ég að reka hausinn í gluggasyllu og meiða mig talsvert í hausnum í staðinn. Þá kem ég út á núlli í dag og skulda karmanu mínu ekki nokkurn skapaðan hlut.
Þessi færsla er skrifuð til þess einstaklings sem leitaði að "afmælisdagur Hemma Gunn" á google og komst á þessa síðu:

Hemmi, hættu að drekka og kíktu á ökuskírteinið þitt!
Mig langar að skrifa bloggfærslu núna. Til þess að skrifa færslu þarf eftirfarandi formúla að vera í lagi:

Bloggfærsla = tí * tö(nt * r) * ne * f * g * v * h

tí = Tími
tö = Tölva
nt = Nettenging
r = Rafmagn
np = netpláss/aðgangur að bloggþjónustu
f = Fingur
g = Geðheilsa
v = Vilji
h = Hugmynd

Allar breyturnar eru binary breytur: annað hvort 0 eða 1. Bloggfærsla verður ekki til nema að útkoman sé 1.

Þessa vikuna hefur mikið verið um 0 í tí og v hjá mér ásamt h og biðst ég velvirðingar á því. Í dag vantar h. Ég vona að það muni aldrei vanta f, hvað þá g.

miðvikudagur, 12. október 2005

Mig hefur alltaf langað til að gera "vissir þú..." dálk um þessa síðu. Svo fór ég að hugsa, hvað er að koma í veg fyrir að ég geri það? Ekkert.

Vissir þú...

...að rassgat.org er yfirsíða sex síðna sem ég sé um, þar á meðal þessa bloggs?
...að ég hef þrisvar sinnum ætlað að hætta að blogga síðasta hálfa árið? Meira að segja skrifað kveðjufærslur og póstað en hætt svo við stuttu síðar?
...að síðustu 30 daga hafa verið skráðar 388 athugasemdir á þessa síðu. Það gera 13 athugasemdir á dag og 4.720 athugasemdir á ári?
...að um 75% (gróflega áætlað) blogghugmynda vakna við að spjalla við annað fólk á msn eða í persónu?
...að á þessari síðu er hlekkjað á 60 virk blogg?
...að það hlekkja ekki 60 blogg á þessa síðu?
...að ég les hverja færslu yfir nokkrum sinnum áður og breyti áður en ég pósta henni?
...að á þessa síðu koma á milli 130-200 manns á dag á virkum dögum?
...að það er hægt að auglýsa á þessari síðu fyrir mjög lítinn pening?
...að ég er ekki í neinum nærbuxum þegar þetta er ritað?

Þá vitið þið það. Mér finnst þið betri fyrir vikið. Vona að ykkur finnist það sama.

þriðjudagur, 11. október 2005

Þessi síða mín átti þriggja ára afmæli þann 3. október síðastliðinn og ég áttaði mig ekki á því fyrr en í gærkvöldi á meðan ég var að liðast í sundur við að hlaupa 10 km á hlaupabretti í Laugum. Ég ákvað að fagna afmælinu með því að teygja vel á og stynja svolítið hátt þegar ég tók á lærvöðvunum.

Ég er strax farinn að hlakka til næsta afmælis.
Ég hef nýlega greinst með krónískan hárlokk upp í loftið. Þannig að ef þið ætlið að lesa þessa síðu áfram þá finnst mér rétt að þið vitið af honum. Einnig krefst ég þess að þið sættið ykkur við þennan umtalaða lokk sem vísar út í loft (til hægri frá mér séð) þar sem hann er orðinn býsna stór hluti af lífi mínu.

Ef þið hinsvegar sjáið ykkur ekki fært að lesa þessa síðu lengur með góðri samvisku í ljósi nýrra upplýsinga þá þakka ég lesturinn síðustu ár og vona að svona lokkvandamál hendi ykkur aldrei.

mánudagur, 10. október 2005

Nýjir fjórfarar eru komnir á fjórfarasíðuna eða hér. Góða skemmtun, farið varlega og það var ekkert.
Ég var að sjá fyrstu jólaauglýsinguna í ár. "Grand jólahlaðborð" fær vinninginn "ótímabærasta auglýsing ársins", 75 dögum fyrir jólin eða rúmum tveimur og hálfum mánuði fyrir hátíðirnar.

sunnudagur, 9. október 2005

Það reyndi virkilega á ást mína á Lancernum mínum (sjá síðustu færslu) í dag þegar enskumælandi túristi bauðst til að kaupa hann af mér á meðan ég dældi á hann bensíni.

Hann bauð kr. 15.000 þegar ég sagði að hann væri ca kr. 5.000 virði. Túristinn hækkaði boðið í kr. 20.000 þegar ég sagðist ekki vera til í að selja hann fyrir tuttugufalt virði hans. Ég þverneitaði ítrekað. Hann reyndi að fá mig af þessari skoðun en fattaði loksins hversu alvara mér var þegar ég var kominn úr öllum fötunum og byrjaður að faðma bílinn minn og kyssa, hágrátandi.

Ég er búinn að jafna mig núna en finn þó ekki annan sokkinn minn.

laugardagur, 8. október 2005

Það er komið að því. Ég ætla að vera væminn í fyrsta sinn opinberlega. Þetta skref er tekið til að virðast meira mannlegur.

Bíllinn minn er að standa sig eins og hetja í Reykjavíkinni. Síðustu ár hef ég ýmist tekið strætó eða gengið en í ár kom ég á mínum 18 ára gamla Mitsubichi Lancer og eftir ca 7 vikur í bænum er hann enn í heilu lagi. Ekkert fleira hefur brotnað af honum og engin bilun, fyrir utan bremsuklossa sem kláruðust.

Ég held ég gæti aldrei verið án hans.
Hér er gjaldfrjáls ráðlegging fyrir alla þá sem hafa hugsað sér að fara niður í miðbæ Reykjavíkur á bíl til að fara í eitthvað fyrirtækið: Ekki! Ástæðan er einföld; til að fara í fyrirtækið þarftu að fara úr bílnum og það eru ekki til laus bílastæði niðri í bæ.

Hér er önnur gjaldfrjáls ráðlegging. Í þetta sinn fyrir skipuleggjanda Reykjavíkur; gefið fólki 101 svæðisins ca klukkutíma til að taka allt sitt drasl og yfirgefa svæðið áður en þið valtið yfir það og byrjið upp á nýtt. Þið gætuð t.d. sett nokkur bílastæði, breiðari götur, hagkvæmari húsnæði og svona mætti lengi telja. Þetta mun borga sig til lengri tíma litið.

Það var ekkert.

fimmtudagur, 6. október 2005

Sökum skólaanna hef ég ekki getað gert eftirfarandi síðustu vikur:

* Horft á Sin City sem ég keypti mér nýlega á DVD.
* Horft á Love actually sem frænka mín keypti nýlega. Ok, ég keypti hana.
* Klárað Contact (bókina) eftir Carl Sagan.
* Lesið Heavier than heaven bókina um Kurt Cobain sem nýlega komst í vörslu mína.
* Sótt um húsaleigubætur og allt sem þeim tengist en fresturinn er margútrunninn.
* Sótt um fyrirframgreiddan persónuafslátt þar sem ég er fjárþurfi.
* Farið nógu oft í ræktina.
* Hitt fólk.

Ef það bætast við tvö atriði þá segi ég mig úr skóla og fer að einbeita mér að þessum lista.
Í morgun var ég aðeins 10 mínútur að keyra í skólann og komst þá frá því að vakna og í kennslustund á 15 mínútum alls. Þetta er heimsmet í að vera snar í snúningum eftir því sem ég best veit og annað heimsmetið í röð sem ég bæti. Fyrra heimsmetið má sjá í síðustu færslu.

Næst stefni ég á að bæta heimsmet í sofna ekkert í kennslustundum sem ég er kominn vel á veg með þar sem ég hef ekki sofnað í tímum í tvær vikur núna. Sennilega af því ég hef ekkert mætt vegna prófa.

miðvikudagur, 5. október 2005

Mitt annað próf á þessari önn að baki, í þetta sinn í Viðskiptalögfræði en það er leiðinlegasta grein alheimsins, fyrir utan Limlesting kettlinga sem kennd er í Nasistaskóla Austurríkis.

Allavega, ég bætti heimsmetið í að vera snöggur í prófinu sem átti að standa yfir í tvo tíma. Ég yfirgaf svæðið fyrstur allra eftir 25 mínútur sigri hrósandi og með æluna í kokinu. Ég stóð mig furðulega vel á prófinu.

þriðjudagur, 4. október 2005

Góðmennska/heimska mín á sér engin takmörk. Ef hún á sér takmörk þá þekki ég þau ekki.

Í dag snéri ég aftur í mötuneyti HR og bauðst til að greiða máltíð sem ég hafði valið mér og gengið óvart í burtu með með samþykki afgreiðsludömunnar, án þess greiða fyrir hana. Ekki nóg með það heldur leiðrétti ég upphæðina sem hún rukkaði mig um, bætti kr. 100 við, þar sem ég hafði einnig fengið mér kók.

Næst stefni ég á að láta skattstjóra vita af allri svartri starfsemi minni öll mín unglingsár (ath. ég ber við spéi ef þetta er notað gegn mér) og borga stöðumælasektirnar.

Mér býður við góðu uppeldi mínu.
Nýlega frétti ég af því að það eigi að selja aðgang að NBA TV stöð sem yrði þá hluti af Digital Ísland dótinu. NBA TV mun sýna 170 beinar útsendingar frá NBA deildinni í vetur sem eitt og sér fékk mig til að fá flogakast af hamingju. Ég sendi því fyrirspurn til Digital Ísland. Niðurstaðan er sérstök:

Til að geta horft á NBA TV þarf ég að fá digital myndlykil.
Til að fá myndlykilinn þarf ég að vera í M12.
Til að vera í M12 þarf ég að gera 12 mánaða samning við Digital Ísland.
Til að geta notað myndlykilinn þarf ég örbylgjuloftnet.
Til að fá örbylgjuloftnet þarf ég að greiða kr. 750 (vel sloppið) og láta setja það upp (kr. ?.???).
Til að fá NBA TV í áskrift þarf ég að fá mér sportspakkann (sem innifelur níu stöðvar í viðbót, sem ég hef engan áhuga á).

Einfalt og þægilegt.

mánudagur, 3. október 2005

Það má vera að ég sé latur í skólanum, ofurfeiminn, með lélegt minni, óþolandi smámunasamur, með alvarlegan athyglisbrest, stundum hrokafullur og fordómafullur, fastheldinn, horaður, viðskotaillur þegar ég er þreyttur, með of þykkar augabrúnir, haldinn fortíðarþrá og með allskonar þráhyggjur en...

....nú man ég ekkert hvert ég var að fara með þessu.

Allavega, þetta eru óþolandi fyndnar teiknimyndasögur.
Þau leiðu mistök áttu sér stað í gær á þessari síðu að inn slæddist innsláttarvilla. Ég skrifaði víst "aftur aftur" í staðinn fyrir "aftur eftir" og fengu þessi mistök að vera á síðunni í alla nótt.

Þetta sannar að lífið er aldrei nokkurntíman fullkomið en í morgun þegar ég vaknaði hélt ég að lífið gæti ekki orðið betra. Mér skjátlaðist hraparlega.

Þetta er einmitt þema Arthúrs í dag. Kíkið á hann hér.

sunnudagur, 2. október 2005

Ég er mættur aftur eftir endurnærandi helgarfrí.

Ég er þó ennþá með fjörfiskinn í vinstra augnlokinu sem gerir þá alls sex daga af fjörfiski.

Sex dagar af heilli önn sem eru um 100 dagar sem gera 6% af önninni. Hér er því komin afsökunin ef ég fell í öllum áföngnum þessarar annar:

"Ég var með fjörfisk í vinstra augnlokinu 6% af önninni og gat því ekki einbeitt mér að náminu nema með hægra auganu."

Mér líður amk betur að vera kominn með afsökun. Nú get ég fyrst byrjað að slappa af í náminu.