fimmtudagur, 17. desember 2015

Núll

Í gær fór ég til tannlæknis. Þegar ég steig úr stólnum sá ég smáskilaboð frá bankanum mínum, sem tilkynnti mér að ég hafði fengið 15.000 krónur greiddar inn á reikninginn minn fyrir aukavinnu sem ég tók að mér. Ég var við það að missa stjórnina á brosvöðvum þegar afgreiðslukona tannlæknastofunnar rétti fram reikninginn fyrir tannlæknatímann: 15.060 krónur.

Í um 30 sekúndur átti ég 15.000 krónur inn á bankareikningnum mínum sem voru ólofaðar. Ég mun alltaf muna þann tíma og ilja mér við tilhugsunina.

þriðjudagur, 17. nóvember 2015

Draumfarir

Í nótt dreymdi mig að ég væri kartafla. Ég átti son sem var líka kartafla. Í draumnum hafði ég miklar áhyggjur af því að finna maka fyrir son minn, svo hann gæti eignast sinar eigin kartöflur.

laugardagur, 24. október 2015

Kapteinn Rútína

Ég hef alltaf haldið því fram að ég sé einhver minnst spennandi karakter alheimsins. Ég elska rútínu, að leggja mig (í að lágmarki tvo tíma) og mesta spenna sem ég upplifi er þegar ég fer í bíó.

Í vikunni sem leið átti þetta samtal sér stað eftir tveggja tíma lúr eftir vinnu:

Gabriela (kærastan): Dreymdi þig eitthvað?
Ég: Já, mig dreymdi ég væri að vinna og að þú sendir mér skilaboð um að þú værir fyrir utan á bílnum. Ég svaraði að ég væri á leiðinni, stimplaði mig út og fór út í bíl.
Gabriela: Þig dreymdi semsagt nákvæmlega það sem gerðist þegar ég sótti þig í vinnuna áðan?
Ég: Já.

Þegar ég fór svo að sofa síðar um kvöldið dreymdi mig að ég væri að velja nokkra dálka í Excel skjali til að afrita og setja í nýtt skjal.


fimmtudagur, 19. mars 2015

Bílafréttir

Leikur
Það er komið að hinum reglulega þætti síðunnar "Hvað í fjandanum datt undan bílnum mínum?", sem ég hef haldið úti á Instagram undanfarið.

Í þætti númer sjötíu er það þessi hlutur, sem í fljótu bragði virðist ekki hafa áhrif á gang bílsins:

Vísbending: Þetta minnkaði virði bílsins um 10% eða 127 krónur.

Sigurvegari fær forkaupsréttindi á þessum bíl, með eða án þessa aukabúnaðar, hvort sem honum líkar betur eða verr.

Svarið í þætti 69 var: Pústið í heild sinni.

Bensíntaka
Í kvöld tók ég bensín hjá Atlantsolíu án allrar afsláttar. Ég beið eins og ég gat eftir tilboðsdegi, þegar fyrirtækið auglýsir 10-15 króna aukaafslátt af lítranum, en tók bugaðist þegar bensínnálin vísaði nánast beint niður.

Þetta þýðir bara eitt: Á morgun verður 10-15 króna afsláttur á bensínlítranum hjá Atlantsolíu. Og ég verð gnístandi tönnum í vinnunni þegar ég sé auglýsinguna.

Vetrarhörkur
Ég braut enn eina rúðusköfuna í vikunni. Í kjölfarið hóf ég leit að nýrri og betri rúðusköfu. Hún skal vera sterkbyggð, endingargóð og má ekki kosta undir 500.000 krónur. Mér finnst sjálfsagt að eyða góðri upphæð í eitthvað sem við íslendingar eyðum þriðjungi ævi okkar í.

Ef einhver veit um slíka rúðusköfu, láttu mig vita með því að skafa upplýsingarnar á rúðuna á bílnum mínum í skjóli nætur.

mánudagur, 9. mars 2015

Hættur leynast víða

Á morgnana geng ég framhjá stóru útivistarsvæði grunnskóla til að komast í vinnu. Í morgun voru nokkrir 6-7 ára krakkar að hnoða snjóbolta þegar ég gekk framhjá.

Krakki: Hey! Þú! Megum við kasta í þig? Þú mátt kasta í okkur.
Ég: Nei, ekki núna.
Krakki: Allt í lagi. Láttu okkur vita ef þú vilt það.
Ég: Já, takk fyrir að spyrja.

Ég hringdi skömmu síðar í lögregluna og tilkynnti einbeittan brotavilja hjá viðkomandi gengi. Mikið væri gaman ef fólk gæti tekið þessa glæpamenn til fyrirmyndar.

sunnudagur, 30. mars 2014

Dressmann verðbólga

Dressmann, sú verslun sem hingað til hefur skaffað mér nærbuxur á góðu verði, hækkaði verðið svo mikið nýlega að ég get ekki með góðri samvisku keypt þær lengur.

Verðið á stökum nærbuxum hækkaði um 11%, sem er svosem ekki hræðilegt. Það sem er hræðilegt er að "kauptu þrjár, borgaðu fyrir tvær" tilboðið er ekki lengur til staðar. Þess í stað er viðskiptavinum boðið að kaupa þrjú pör á "aðeins 4.990 krónur".

Hér er tafla sem sýnir þetta betur:


Þarna sést að verðið á þremur nærbuxum fer úr 3.580 krónum yfir í 4.990 krónur, sem er 39% hækkun. Afslátturinn sem gefinn er af þremur í einu lækkar þannig úr 33% í 16%, um leið og verðið á stökum nærbuxum hækkar um 11%.

Ennfremur hefur allt verðlag í verslununum snarhækkað sýnist mér, en erfitt er að gera samanburð þar sem vörurnar breytast frá ári til árs.

Leitt, því ég hef verslað öll (undir)föt hjá Dressmann í mörg ár. Nú panta ég þau einhversstaðar ódýrara á netinu. Eða læt loks verða af því að gerast strípalingur.

fimmtudagur, 13. mars 2014

Símastuldur í World Class Laugum

Fyrir um það bil tveimur vikum skrapp ég í ræktina (World Class Laugum) um miðjan dag. Á meðan á stjórnlausum lyftingum stóð var símanum mínum stolið úr fataskápnum.

Síminn er af tegundinni IPhone 5s. Ég átti enga mynd af honum svo hér er hann teiknaður eftir minni:

Ef þú hefur séð hann eða séð einhvern með einhvernveginn svona síma, láttu mig vita í finnurtg@gmail.com eða hringdu í lögregluna.

Ef þú stalst honum þá vinsamlegast skilaðu honum í afgreiðslu World Class Laugum. Ef þú vilt ekki skila honum, vinsamlegast fáðu krabbamein í eistun.

Viðbót: Lesendur hafa verið að kvarta undan ekki nógu góðri mynd af símanum. Fyrir þá vil ég benda á að hægt er að smella á myndina fyrir stærra einstak.

miðvikudagur, 12. mars 2014

Samtal í matvöruverslun

Fyrr í kvöld fór ég í matvöruverslun og lenti fyrir aftan stúlku sem leit svona út:

Þegar kom að henni á kassanum tók við henni þessi afgreiðslustelpa:

Hún virtist ósátt við eitthvað. Þá tóku við þeirra samskipti.

Afgreiðslustelpan: "Var það eitthvað fleira?"
Viðskiptavinur: "Nei."
A: "Kannastu við ennið á mér?"
V: "Ha? Kannast ég við ennið á þér?"
A: "Já, þú ættir að gera það. Þú lamdir mig í ennið á [framhaldsskóli] ballinu um helgina!"
V: "Ó, varst það þú?"
A: "Já!"
V: "Ah ok. Hvað heitirðu?"
A: "[Nafn]!"
V: "Já ok. Ég var svo full að ég man ekkert."
A: "Já, þú komst af klósetinu og barðir mig!"
V: "Einmitt það já. Heyrðu talaðu við mig á Facebook eða eitthvað."

Ég, hugsandi: "Heimurinn þarf að vita af þessu samtali!"

Og nú gerir hann það.

ATH. Þetta eru ekki ljósmyndir af viðkomandi aðilum heldur túlkun undirritaðs á þeim.

sunnudagur, 12. janúar 2014

Ljósmyndaannáll 2013

Á síðasta ári var ég óvenju skotglaður á símamyndavélinni minni. Það er því rökrétt að hafa smá ljósmyndaannál, þó myndirnar séu í hræðilegum gæðum.

fimmtudagur, 9. janúar 2014

Veðurannáll 2013

Ég er oft spurður þriggja spurninga:

1. Hvenær ætlarðu að blogga aftur?
2. Hvenær ætlarðu að skrifa um árið 2013, þar sem ýmislegt fróðlegt gerðist í þínu lífi?
3. Hvenær ætlarðu að hætta að vera svona sjálfhverfur?

af sjálfum mér. Svarið er: núna.

mánudagur, 14. október 2013

Úti er ævintýri

Í gærkvöldi fór ég út að labba í Laugardalnum, mér til heilsubótar en ekki til að versla fíkniefni. Að því loknu fór ég í verslunina Víðir og keypti mér nokkur kíló af ávöxtum. Mér fannst ég vera mjög heilbrigður og reyndi eftir bestu getu að brosa vinalega til annarra viðskiptavina og starfsmanna, en ekki óhugnarlega.

Það tókst ekki betur en svo að fólk leit undan og vildi helst ekkert með mig hafa. Ég skrifaði hjá mér að æfa brosið heima fyrir næstu verslunarferð.

Þegar ég kom heim sá ég að ég hafði fengið blóðnasir í göngutúrnum og blóðið storknað á efri vörinni, sem útskýrir viðmót allra sem mættu mér. Þá er ekkert annað að gera en að læra af þessari reynslu og hugsa sig tvisvar um áður en farið er út úr húsi hér eftir.

föstudagur, 11. október 2013

Afsláttur á Dominos pizzum

Pizzafyrirtækið Dominos er með útibú hérlendis. Á heimasíðu Dominos má sjá allskonar tilboð hjá þeim en hvergi er hægt að sjá raunverulegan afslátt. Ég varð forvitinn og ákvað að reikna hann út á öllum uppgefnum tilboðum.

Hér eru öll grunntilboðin sett saman í töflu:

Smellið á töfluna fyrir stærra eintak.

Tvennutilboðið er erfiðara að reikna út, þar sem tilboðið fer eftir stærð pizzu og fjölda áleggstegunda. Hér er tvennutilboðið í sér töflu:


Ég reiknaði með dýrustu gerðum af áleggjum í öllum tilvikum.

Ekkert grunsamlegt hérna. Mjög góður afsláttur af uppgefnu verði. Þá get ég sofið rótt.

ATH. Ég hef engin tengsl við Dominos önnur en þau að ég panta mér reglulega pizzu þaðan, þar sem ég kann ekki að elda og hef ekki heilabú í að læra það. Ennfremur er ég of latur til að leggja mig fram við að læra það. En nóg um mig.