sunnudagur, 31. október 2010

Snjallræði helgarinnar

Snjallræði helgarinnar var að skrifa niður lista yfir það sem ég ætlaði að versla inn, af því ég gleymi alltaf öllu, og gleyma svo innkaupalistanum heima, þegar ég fór að versla.

Þannig að ég eyddi talsverðum tíma um helgina í að skrifa innkaupalista og keypti svo tæplega helminginn af því sem mig vantaði.

Vel gert.

föstudagur, 29. október 2010

Ódýrt markaðsplott

Kannist þið við eitthvað?
Ég rak upp stór augu síðasta fimmtudagsmorgunn þegar nýtt blað (sjá mynd) barst mér. Þetta er nýja atvinnu- og fasteignaauglýsingablað Morgunblaðsins sem ber það ófrumlega heiti Finnur.is.

Fyrir dygga lesendur er rétt að taka fram að blaðið er ekki á mínum vegum. Eins og alþjóð veit geng ég m.a. undir nafninu Finnur.tk, en ekki Finnur.is, og ég er ekki farinn í atvinnu- og fasteignaauglýsingabransann!.

Alltaf sorglegt þegar stóru blöð landsins reyna að afla vinsælda með því að nefna viku- eða dagblöð svipuðum nöfnum og mínu.

fimmtudagur, 28. október 2010

Hégómastrok

Í morgun vaknaði ég við hugsunina "hvernig get ég orðið meira sjálfhverfur og grunnhygginn og um leið strokið hégómagirnd minni?"

Eftir talsverða leit á netinu fann ég þessa síðu og setti inn skýrustu myndina af mér sem ég á. Niðurstaðan er vægast sagt einkennileg, en ánægjuleg:

Takk internet!
Samkvæmt síðunni á andlitið á mér við talsverð vandamál að stríða, þar á meðal of stóran munn miðað við nef og of langt andlit. Ég reyni að vinna í því.

En niðurstaðan er samt góð, svo ég hef prentað þessa niðurstöðu út, plastað og hyggst sýna þeim kvenmönnum sem afþakka góð en óhugnarleg boð mín hér eftir (sem hingað til). Ekki lýgur internetið.

mánudagur, 25. október 2010

Ný þekking

Í fyrradag áttaði ég mig á því að bíllinn minn hefur bilað á allan mögulegan hátt, en samt hefur aldrei sprungið á honum.

Í morgun lærði ég að í bílnum eru tvö varadekk en enginn tjakkur, þegar ég sá að það var sprungið á bílnum.

Í dag lærði ég að franskir bílar eru mjög sérstakir þegar kemur að dekkjafestingum. Svo sérstakir að ég brjálaðist ekki við að skipta um dekk, heldur ákvað að birgja reiðina inni fyrir einhvern góðan dag.

Í kvöld lærði ég hvernig dekkjafestingaskítur/olía bragðast þegar ég rak putta í hurð og svo upp í mig, þegar ég hugðist þvo mér um hendurnar.

Uppgötvanir síðustu viku

Síðasta vika var viðburðamikil hjá mér. Ég vann frá morgni til kvölds alla dagana vegna gríðarlegs magns verkefna á milli þess sem ég skrapp í rækt og fór seint að sofa. En á milli gerði ég stórkostlegar uppgötvanir.

Hér eru þrjár þeirra:

1. Fegursta andlit sem ég hef augum litið

Andlitsfallið...
Ég rakst á þessa ungu dömu á vafri um Reddit. Meira veit ég ekki um hana, né heldur vil ég vita um hana. En andlitið er sem greipt í huga minn. Allar aukaupplýsingar geta bara skemmt fyrir.

2. Rosalegt hár

Mig vantar orð
Þessi kappi heitir Jim Jarmusch og hann er leikstjóri. Hann kom hingað til lands um daginn og þá sá ég þessa hárgreiðslu. Hún er fullkomin. Nú get ég ekki beðið eftir að verða gráhærður og greiða hárið á mér svona. Svalasta hárgreiðsla í heimi.

3. Dansvænt lag





Ef eitthvað lag gæti fengið mig til að dansa án þess að vera ofurölvi eða snargeðveikur, þá væri það þetta lag. Þetta er einfalt remix af lagi The Knife, Silent shout þar sem allur söngur er klipptur út svo lagið flæði betur. Og það flæðir betur. Stórkostlegt lag.

Í næstu viku stefni ég á að umgangast fólk. Það verður spennandi að sjá hvernig það endar.

föstudagur, 22. október 2010

22. október 2010

Þessi dagur hefur ekki gengið nógu vel hingað til.

Í morgun ætlaði ég að mæta klukkan tíu í vinnuna, af því ég vann til klukkan tíu í gærkvöldi, en svaf yfir mig til hálf ellefu.

Í hádeginu ætlaði ég að skrifa bloggfærslu en kaffærðist í verkefnum í vinnunni, svo ég gaf mér of lítinn tíma í hádegismat til að koma frá mér færslu.

Eftir vinnu ætlaði ég í bíó á The Social Network (Ísl.: Facebook) en það seldist upp á hana þegar kom að okkur Björgvini bróðir í afgreiðslunni.

Þá ákvað ég að horfa á Back to the Future III heima, sem var á Stöðvar 2 í kvöld en sofnaði innan fimm mínútna frá því hún byrjaði.

Þessi færsla er síðasti möguleiki minn til að takast eitthvað í dag. Eina krafa mín til hennar er að eitthvað fyndið komi í lokin.

miðvikudagur, 20. október 2010

Varðandi trúboð í skólum

Ég tek venjulega ekki afstöðu eða gef upp skoðun mína á málum sem ganga yfir múgæsingaþyrsta þjóðina en ég get erfiðlega orða bundist þegar kemur að umræðunni um trúboð í grunn- og leikskólum.

Ég vitna heldur ekki oft í sjálfan mig en vil gjarnan sýna þessa færslu aftur, sem skrifuð var fyrir tæpum tveimur árum.

Ég held að færslan ætti að útskýra mitt viðhorf gagnvart trúboði í grunn- og leikskólum, en ef ekki þá er hér setning úr Simpson fjölskyldunni sem ætti að nægja:

„Prayer has no place in the public schools, just like facts have no place in organized religion.“
-Superintendent Chalmers

þriðjudagur, 19. október 2010

Dexter og ég

Smellið á stærra eintak í nýjum glugga.
Eftir þriggja tíma ónotatilfinningu í vinnunni í morgun fattaði ég loksins hvað var að angra mig. Mynd var frosin á sjónvarpstæki á vegg nálægt og Dexter fjöldamorðingi hafði starað á mig allan morguninn, eins og sést á myndinni.

Ég pissaði umsvifalaust á mig, en á góðan hátt.

mánudagur, 18. október 2010

Mistök

Í gærkvöldi tók ég eftir að poki af kleinuhringjum sem ég keypti nýlega var alveg að renna út, svo ég borðaði þá alla í einu, rétt fyrir svefn.

Ég held ég hafi aldrei gert jafn stór mistök á ævi minni. Og ekki í fyrsta skipti. Ég lá andvaka hálfa nóttina í kjölfarið.

Ég bið því lesendur síðunnar um að vinsamlegast berja mig í andlitið með skóflu, sjái þeir mig versla eða borða kleinuhringi einhverntíman í framtíðinni. Öðruvísi læri ég ekki. Takk.

sunnudagur, 17. október 2010

Excel skjal fyrir Iceland Express deildina

Svona líður mér innanbrjósts.
Nýlega byrjaði Iceland Express deild karla í körfubolta á ný. Mér fannst því við hæfi að gera Excel skjal þar sem einungis þarf að slá inn úrslit leikja til að sjá töflu yfir unna og tapaða leiki ásamt heildar- og meðalstigafjölda í leik. Ennfremur má finna í skjalinu töflu yfir aðeins leikna heima- og útileiki.

Það er betra að taka fram að skjalið er unnið í Excel 2003. Því er möguleiki á að litirnir séu ekki tilvaldir.

Skjalið fyrir tímabilið 2010-2011 í Iceland Express deild karla í körfubolta er að finna hér.

Bónus:
UMFÁ, mitt gamla körfuboltafélag, hóf leik á ný í 2. deildinni. Ég útbjó því skjal fyrir 2. deildina líka.

Skjalið fyrir tímabilið 2010-2011 í 2.deild karla í körfubolta er að finna hér.

Ég minni á Excelsíðuna, hafi fólk áhuga á einhverjum sérstökum skjölum. Einnig má hafa samband við mig í netfanginu finnurtg@gmail.com með fyrirspurnir eða beiðnir. Ekkert skjal er of lítið eða stórt.

fimmtudagur, 14. október 2010

Rækt og líðan

Líðanin er á skalanum 0-100, þar sem 100 táknar óendanlega alsælu tilfinningu, auðvitað.
Hér er línurit yfir líðan mína síðustu sex vikurnar og áhrif ræktarferða á hana. Gráu línurnar merkja ferð í rækt þann dag.

Þegar þetta er ritað hef ég ekki komist í rækt í næstum fjóra sólarhringa og líðanin eftir því.

Það virðist einnig vera fylgni milli góðrar líðan og að skrifa eitthvað áhugavert á þessa síðu.

þriðjudagur, 12. október 2010

Svefnlausar hugsanir

Síðastliðna nótt lærði ég að ef sofið er frá 19:00 til miðnættis, má búast við að sofa ekkert þar til mætt er í vinnuna morguninn eftir. Þetta lærði ég verklega.

Á meðan ég lá og reyndi að sofna í nótt, fór ég að hugsa um American Style og hversu mikið ég væri til í að fá mér kjúklingabringu hjá þeim fljótlega. Þaðan barst hugsunin til salatsins sem American Style ber fram með kjúklingabringunum og hvernig það er uppbyggt. Og þá fæddist þetta:

Takið eftir litavalinu. Fagmannlegt.
Það eina sem ég borða ekki af þessu er kál. Restin er stórbrotin.

Mæli annars með American Style. Þægileg stemning, góð og hröð þjónusta og góður matur. Fyrir utan salatið.

sunnudagur, 10. október 2010

Kvikmyndagagnrýni

Ég náði þeim undarlega árangri í nýliðinni viku að fara á tvær leiðinlegustu myndir allra tíma í bíó. Hér koma smá umsagnir um þær:

Dinner for Schmucks
Einn leiðinlegasti karakter kvikmyndasögunnar (Steve Carrell sem Barry) lítur hér dagsins ljós. Um leið og hann birtist fór myndin í hundana. Þegar ég hélt að myndin gæti svo ekki orðið verri, upphófst einhver ömurlegasta sena sem ég hef séð í bíómynd (matarboðið). Ég hélt ég myndi kasta upp.

Sorglegt, þar sem í myndinni eru nánast allir leikararnir fyndnir, alla jafna. Bara ekki í þessari mynd.

Engin stjarna af fjórum.

Greenberg
Þessi mynd fjallar um ekkert, sem gerist fyrir engan á milli þess sem ekkert merkilegt er sagt um neinn eða neitt. Hápunktur myndarinnar er sennilega þegar dautt dýr finnst í sundlaug og ekkert er gert við það. Ég efast um að það sé hægt að gera leiðinlegri og tilgangslausari mynd.

Ég verð eiginlega reiður þegar ég hugsa um þessa mynd. Þvílíkt tilgangsleysi.

Engin stjarna af fjórum.

Mér finnst rétt að taka fram að þessi bloggfærsla er umsókn mín til allra stærri dagblaða landsins, sem kvikmyndagagnrýnandi.

laugardagur, 9. október 2010

Teiknun


Á spjallþræði á minni uppáhaldssíðu, Reddit, bauðst maður til að teikna hvað sem er. Þar sem ég er einn sjálfhverfasti maður sem ég þekki bað ég hann að teikna þessa mynd af mér. Svo fór ég að sofa.

Í morgun beið mín þessi mynd:

Ég á enga bleika peysu, svo það sé á hreinu.
Ásamt athugasemdinni "That's some amazing hair bro" frá ókunnugum aðila, sem þýðist "Þetta er stórbrotið hár, bróðir".

Ég gæti erfiðlega verið sáttari við niðurstöðuna og er ansi hræddur um að ég sé ástfanginn af Reddit í kjölfarið.

miðvikudagur, 6. október 2010

Fylgimiðar Hummel

Ég og treyjan mín. Ath. á mig vantar hausinn vegna skorti á myndatökuhæfileikum.
Í gær keypti ég fyrstu hvítu íþróttatreyjuna mína. Ástæðan er einföld: enginn annar litur var til á þessum uppáhalds ræktartreyjum mínum frá Hummel.

En það var ekki ástæðan fyrir þessari færslu. Ástæðan er miðinn sem hékk á peysunni. Hann var dæmigerður að öllu leyti nema einu. Alls fylgdu fjórir miðar með treyjunni:

1. Efni treyjunnar útskýrt. Frábært efni, að sögn.
2. Mynd af einhverjum að spila fótbolta í svipaðri treyju.
3. Mynd af einhverjum að spila fótbolta í svipaðri treyju.
4. Uppskrift að 24-30 stykkjum af Danish (Vínarbrauði).

Af hverju? Ég sleppti ræktinni í kvöld og bakaði skrifaði þess í stað vínarbrauð þessa bloggfærslu. Takk Hummel.

mánudagur, 4. október 2010

Nafnavél

Ókeypis sýnishorn úr Nafnavélinni™.
Svo gaman hef ég af því þegar fólk velur öðruvísi, hipp og nýmóðins nöfn á afkvæmin sín, að ég hrópa oftar en ekki úr hlátri.

Það gerist bara svo sjaldan (og ég er byrjaður að fá samviskubit yfir óförum barnanna) að ég neyddist til að gera Excel skjal í dag sem býr til random lögleg, Íslensk stráka- og stelpunöfn.

Skjalið gefur kost á því að gera stráka- eða stelpunöfn og leyfir eitt, tvö eða þrjú nöfn. Nöfnin eru fengin af lista yfir Íslensk mannanöfn á Wikipedia.

Ég mæli með skjalinu fyrir nýbakaða foreldra sem vantar öðruvísi nafn eða fólk sem vill fá sér nýtt krúttnafn.

Skjalið má nálgast hér og nefnist það Nafnavél.

Vinsamlegast látið vita í athugasemdum eða með pósti á finnurtg@gmail.com ef skjalið virkar ekki á einhvern hátt.

Sparnaður

Ríkisstjórnin og Kobbi Kviðrista eru ekki þau einu sem geta skorið niður. Í síðasta mánuði tók ég mig til og skar niður almenna neyslu með stórkostlegum árangri:

Ég náði að minnka útgjöld um 42,2% milli mánaða. Ef hlustað er vel má heyra skelfingaröskur þúsunda nammiframleiðenda í fjarska.

laugardagur, 2. október 2010

Uppáhalds II

Í síðustu færslu fjallaði ég um uppáhaldslögin mín í gegnum tíðina. Ég gleymdi að nefna tvö lög, sem voru/eru líka í uppáhaldi hjá mér:

1. Daft Punk - Veridis Quo (2001 - )


Ég vil ekki vera væminn, þess vegna ætla ég ekki að segja þetta eitt fallegasta lag sem ég hef heyrt. Titilinn á laginu má bera fram eins og Very Disco en nafnið á plötunni Discovery = Disco Very. Stórkostlegt? Það finnst mér.

2. Blink 182 - I Miss You (2004-2007)


Blink 182 gefa venjulega út rusl/háskólarokk en brutu svo odd af oflæti sínu fyrir þetta emó rokk. Magnað lag og jafnvel magnaðra myndband.

Nú hef ég talið upp öll mín uppáhaldslög. Lofa.

föstudagur, 1. október 2010

Uppáhalds

Hér er listi yfir öll þau lög sem ég hef getað staðið upp á kassa og tilkynnt að séu uppáhaldslögin mín, án þess að roðna (mikið):

1. Limahl - The never ending story (1985-1990)



Ég heyrði þetta lag fyrst í Trékyllisvík í lok minnar uppáhaldsmyndar á þeim tíma, The never ending story (1985 ca) og kannski fjórum sinnum eftir það til 1990, þegar ég gleymdi því.

2. The Dandy Warhols - Get off (2002-2004)



Ég heyrði þetta lag tveimur árum eftir að ég heyrði það fyrst (2002) og fattaði að ég elskaði það. Í kvöld hélt ég að ástin hefði kulnað, en mér skjátlaðist. Ennþá magnað lag, þó ekki uppáhalds lengur.

3. Familjen - Det snurrar i min skalle (2010-)



Þetta lag heyrði ég í morgun, rúmum þremur árum eftir að ég heyrði það fyrst og mér finnst það enn jafn magnað og þá. Svo magnað að ég öskraði með, án þessa að kunna stakt orð í sænsku (fyrir utan jutte bra).

Það er allt gott við þetta lag. Takturinn, laglínan, rafhlutinn, söngurinn, tungumálið, textinn, uppbygging og ekki síst myndbandið. Líklega uppáhalds myndbandið mitt líka.