miðvikudagur, 28. desember 2011

Jólafrí - fyrsti hluti

Ógeðslegasta staðreynd jólafrísins hingað til: Ég hef einu sinni sett á mig svitalyktaeyði síðan ég kom til Fellabæjar í jólafrí fyrir 6 dögum.


Ömurlegasta staðreyndin: Af þeim tæpu 150 klukkutímum sem ég hef verið hérna hef ég verið með flensuna í um 135 klukkustundir og skipst á að skjálfa úr hita, svitna úr kulda og bæði skjálfa og svitna úr sjálfsvorkunn. Svo hef ég líka lesið.


Batnandi manni er best að lifa. Samkvæmt því kemst enginn með tærnar þar sem ég er með hælanna þegar kemur að vera að lifa. Held ég. Ég get erfiðlega hugsað fyrir stíflunum í andlitinu.


Published with Blogger-droid v2.0.2

föstudagur, 23. desember 2011

Jólafrí

Í gær keyrði ég yfir landið með bróðir mínum og er nú staddur í Fellabæ við Egilsstaði. Ég mundi eftir að taka óteljandi smáhluti með mér (t.d. tannbursta, tannþráð, jólagjafir og risahraun) en gleymdi þá stærri hlutum (eins og vinnufartölvu, til að vinna og leika mér í Excel yfir jólin og vélsleða, til að komast á milli staða hér í vetrarríkinu), náttúrulega.


Þar sem ég er tölvulaus, er þessi færsla skrifuð á símann minn. Þegar hingað er komið við sögu hafa þessi skrif tekið um þrjátíu mínútur, svo stóra þumla hef ég.


Mér finnst því líklegt að ég bloggi jafnvel enn sjaldnar en áður það sem eftir lifir árs. Ég óska lesendum síðunnar til hamingju með jólin eða eitthvað.


Það fólk sem ekki les þessa síðu...drulliði ykkur út.


Published with Blogger-droid v2.0.2

þriðjudagur, 20. desember 2011

Jólaannríki

Í kvöld tók ég mér tannstöngul í hönd og hófst handa við að losa risahraun úr tönnunum. Eftir nokkrar sekúndur fattaði ég að ég hafði tekið tvo tannstöngla, en ekki einn, eins og ég ætlaði mér í upphafi.

Allavega, ég henti öðrum þeirra í ruslið og notaði hinn áfram, með viðunandi árangri.

Þar með lauk enn einum ævintýradeginum. Þetta er það eina sem er að frétta.

laugardagur, 17. desember 2011

Ekki minn dagur

Ég veit ekki hvað heimsmetið í því að vera utan við sig er, en það er hugsanlegt að ég hafi bætt það í dag.

Ég passaði Valeríu Dögg, 15 mánaða frænku mína í dag. Eftir pössunina fór ég í bílinn og var að leggja af stað heim þegar ég fattaði að ég gleymdi að skila barnabílstólnum. Svo ég snéri til baka og skilaði honum.

Þegar ég var svo hálfnaður á leiðinni heim furðaði ég mig á því að ég sæi ekki neitt, sama hvað ég skóf rúðuna. Þá tók ég eftir að ég var ekki með gleraugun á nefinu, þar sem ég hafði gleymt þeim í pössuninni. Svo ég snéri við og sótti þau.

Þegar ég kom heim skipti ég um föt, þar sem Valería Dögg hafði borðað skyr og þurrkað sér fimlega í fötin mín, áður en ég fór í vinnuna að klára nokkrar skýrslur.

Þegar ég var hálfnaður í vinnuna fattaði ég að ég hafði gleymt aðgangskortinu að vinnunni. Svo ég snéri við og sótti það.

Þegar ég var svo kominn í vinnuna fattaði ég að ég hafði gleymt að borða þennan daginn þegar ég fékk einn þungasta hungurhausverk sem ég hef fengið lengi. Svo ég kláraði vinnuna, borðaði og fór heim að leggja mig.

Heima gleymdi ég svo að stilla vekjarann, svo ég svaf yfir mig í ræktina.

Ef ég væri ekki svona utan við mig væri ég sennilega á öðrum stað í lífinu.

fimmtudagur, 15. desember 2011

Gúrkufréttir

Í fréttum er þetta helst:

1. Ég viðist bara komast um 350 kílómetra á einum tanki á bílnum mínum þessar vikurnar. Áður komst ég um 450 kílómetra á sama magni. Þetta ýtir undir þá kenningu mína að ég sé líklega að spóla um 100 kílómetra á milli áfyllinga. Sem gerir mig töff, jafnvel þó kenningin sé ekki byggð á neinum rökum. Sem gerir mig meira töff, að því er virðist.

2. Ég passa rúmlega ársgamla frænku mína, Valeríu Dögg, eins oft og ég mögulega get. Eitt það algengasta sem hún segir er "Ba ba" sem ég hélt að þýddi "pabbi" og "banani" en henni finnst fátt betra að borða en bananar.

Mér brá því skiljanlega þegar ég sá nýlega þátt um enska boltann og að í liði Newcastle sé leikmaður sem ber heitið Ba. Ekki aðeins er hún þá að ákalla fótboltamann heldur tvisvar í senn.

3. Á þaki bíls míns hefur nú verið snjóskafl síðustu þrjár vikurnar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mínar til að losa mig við hann (með því að keyra á miklum hraða). Samkvæmt hugdettu minni eru þrjár vikur nægur tími fyrir snjóskafl að vera kallaður jökull. Ég nefni því jökulinn Kópavogsjökul. Það verður gaman að slá í gegn með hann á bílnum í sumar.

4. Í dag á kvefið í andlitinu á mér tveggja vikna afmæli. Þegar kvef nær tveggja vikna afmæli hættir það að vera kvef og breytist í karaktereinkenni. Þið skuluð því ekki móðgast ef ég hnerra framan í ykkur, ég er bara eins og ég er.

mánudagur, 12. desember 2011

Granat epli




Um helgina fékk ég þá snilldarhugmynd að kaupa mér granat epli og flá það lifandi. Atgangurinn, öskrin og sóðaskapurinn við þetta gerði mig afhuga granat eplum fyrir lífstíð og næstum afhuga öllum mat.

Þeir sem kannast við þessa aðgerð, að rífa granat "berin" úr ávöxtinum, vita að það er álíka hreinlegt og skemmtilegt og að afhausa naggrís með teskeið. Tveimur dögum síðar er ég enn að finna safaslettur á sjálfum mér, í fötum og á eldhús- og stofuinnréttingum.

Aldrei aftur.

laugardagur, 10. desember 2011

Te fyrir nammi

Síðustu fimm daga hef ég drukkið fleiri tebolla en alla ævina hingað til (eða þar til fyrir fimm dögum). Fyrri bollann drakk ég fyrir fimm dögum og þann seinni í kvöld, í þeirri von að losna við þetta, að því er virðist, króníska kvef. Á sama tímabili hef ég sjaldan borðað jafn lítið nammi og farið snemma að sofa öll kvöld.

Það er eins gott að þetta séu ekki þroskamerki. Ef svo er þá... fæ ég mér bara annan tebolla og hugsa um pólitík.

miðvikudagur, 7. desember 2011

Sjöundi tólfti

Dagurinn byrjaði frekar illa. Ég vaknaði í nótt í hóstakasti sem hélt á mér hita í hálftíma.

Löngu síðar vaknaði ég alltof seinn í vinnuna. Á leiðinni út sá ég miða á hurðinni sem tilkynnti mér að það er mín vika að þrífa sameignina. Frábært. Ég fór því niður í ruslageymslu til að skipta um ruslafötu áður en ég fór í vinnuna. Þar hrundi hurðin í sundur og ég varð að tjasla henni saman í ofurkulda, öskrandi.

Þegar því var lokið eyddi ég góðu korteri í að reyna að skafa bílinn að innan og utan. Frostið á rúðunum neitaði að skafast, svo þykkt var það. Tárin bræddu frostið að lokum.

Á leiðinni í vinnuna sá ég nokkra fugla á götunni að borða póstburðarmann sem hafði orðið út um morguninn. Ég er á nýlegum rennisléttum sumardekkjum svo ég rann fimlega yfir þá mér til hryllings.

Þegar í vinnuna var komið sá ég að númeraplatan framan á bílnum er það nýjasta til að hverfa af bílnum. Ég þarf því að panta nýja.

Í vinnunni hnerraði ég svo kröftuglega að ég fékk blóðnasir og hef haft í allan dag.

Ef þetta væri rómantísk gamanmynd kæmi hér kafli sem réttlætti alla þessa eymd. En þessi dagur var meira í ætt við eina leiðinlegustu mynd allra tíma, Greenberg.

mánudagur, 5. desember 2011

Hunangsát

Það er líklega betra að þið heyrið þetta frá mér, frekar en einhverju fólki úti í bæ eða í fréttum einhversstaðar:

Í gær smakkaði ég hunang í fyrsta skipti á ævinni. Ég veit ekki af hverju ég hef ekki smakkað það fyrr. Ég man að mér fannst tilhugsunin um að borða eitthvað sem "pöddur" búa til ógeðsleg síðast þegar ég hugsaði um það, þá þriggja ára gamall. Hef lítið spáð í það síðan.

Ég vona að þetta hafi verið atriðið sem vantaði upp á svo líf mitt verði fullkomið. Hver veit, kannski opnar þetta mér dyr að einhverju stórkostulegu, eins og aðild í félagi þeirra sem hafa bragðað hunang um ævina (FÞSHBHUÆ).

föstudagur, 2. desember 2011

Veikindi - Part 2




Eins og sést á línuritinu hér að ofan er ég veikur og hef verið það síðustu daga. Svo virðist sem þetta kvef ætli engan enda að taka. Helgin fer líklega í hósta, snýtingar og sjálfsvorkunn.

Hlutirnir gætu þó verið verri. Horið í andlitinu á mér gæti t.d. verið olía og Bandaríkin að undirbúa innrás. Þannig að ég er sáttur.