fimmtudagur, 29. júní 2006

Ha??

miðvikudagur, 28. júní 2006

Í gærdag var eitthvað gasslys í sundlaug Eskifjarðar. Ca. 30 manns voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar en betur fór en á horfðist. Enginn er í lífshættu en þó eru nokkrir illa haldnir. Röngu efni hafði verið blandað í klórið og þannig myndaðist eiturský einhverskonar.

Í gærkvöldi fór ég á körfuboltaæfingu í íþróttahúsinu á Egilsstöðum, þar sem einmitt er einnig sundlaug. Venjulega, þegar sólin skín eins og í gær, er sundlaugin fullkomlega troðin af fólki. Í gærkvöldi var hægt að telja sundlaugargesti á fingrum annarar handar. Ég geri ráð fyrir að orsökin hafi verið hræðsla við eitrun, sambærilega Eskifjarðareitruninni.

Gefum okkur að svona eitrun eða sambærileg eitrun gerist í sundlaugum á Íslandi á 30 ára fresti. Á austurlandi eru um 5% þjóðarinnar og þarmeð líklega 5% sundlauga landsins. 30 ár gera um 10.957 daga. Líkurnar á því að þetta gerist í sundlaug á Íslandi: 0,00912%. Líkurnar á því að þetta gerist á austurlandi: 0,00045%. Líkurnar á því að þetta gerist tvisvar sama daginn, í tveimur mismunandi sundlaugum sem báðar eru staddar á austurlandi: Engar.

Fólk er vænisjúkt.

Nema fólk hafi ekki mætt í sund vegna fótboltans en einhver stórleikur var í HM í gær.

þriðjudagur, 27. júní 2006

Í dag er merkilegur dagur. Í dag má nefnilega búa til ástæðu fyrir því að dagurinn er merkilegur. Það er einmitt ástæðan mín fyrir því að þessi dagur er merkilegur fyrir mér.

mánudagur, 26. júní 2006

[Eitthvað trúlegt nafn hér] "klukkaði" mig nýlega og þar sem ég er ekki einmanna sál að skálda þetta þá ber mér að fylla inn í eftirfarandi lista:

1. Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?
Using econometrics : A practical guide, kennslubókin í Almennri Tölfræði II.

2. Hvers konar bækur lestu helst?
Stuttar bækur.

3. Hvaða bók lastu síðast?
Þegar þetta er ritað minnist ég þess ekki hafa lesið bók. Ég er þó að lesa bókina Angels and Demons þessa dagana, vikurnar og mánuðina. Ár ef athyglisbresturinn eldist ekki af mér. Hér er sönnun þess að ég kann að lesa.

Þar hafið þið það. Ég er vonlaus í að lesa bækur. Ánægð? Búin að hafa mig að fífli á internetinu!

Allavega, ég klukka Hannes Hólmstein Gissurarson og Steingrím Joð Sigfússon, öðru nafni Guð.

sunnudagur, 25. júní 2006

Hér eru skilaboð til gáfnaljóssins sem gaf í þegar ég ætlaði að fara fram úr innanbæjar í gær (þar sem hann ók á 15 km hraða), valdandi því að ég þurfti að nauðhemla til að láta hann ekki valda slysi:

Ég vona að þú hafir náð að sofa hjá þessum mellum sem þú varst að rúnta með þar sem þú ert einn mesti töffari sem fyrir finnst, rúntandi á station bíl mömmu þinnar.

föstudagur, 23. júní 2006

Um daginn öskraði stúlka, sem var að tala við bróðir minn, upp yfir sig við að sjá mig. Þá á ég ekki við venjulega upphrópun heldur skerandi öskur eins og í hryllingsmyndunum.

Ég er ekki mikið fyrir að raka mig í framan en þegar liðnir eru 24 dagar frá því að sú aðgerð var síðast framkvæmd og fólk farið að öskra skelfingaröskrum við að sjá mig þá verð ég að grípa til aðgerða. Bæði skegghárin fengu að fjúka í gær og þarmeð hef ég lést um hálft kíló í viðbót.

Allavega, ekkert annað að frétta. Látið það berast.

fimmtudagur, 22. júní 2006

Ef einhver hefði sagt mér fyrir ca þremur árum að ég væri enn bloggandi árið 2006, svitnandi við tilhugsunina um að sleppa úr degi og hugsandi um að hætta öllu nema blogginu, þá myndi ég slá þann sama í rot eða gera heiðarlega tilraun til þess.

Ef einhver hefði hinsvegar sagt fyrir ári síðan að í dag, 22. júní 2006, héti ég Finnur Torfi Guðlaugsson (sjá færslu að neðan), væri orðinn skattendurskoðandi (samkvæmt samningi við skattstofuna), akandi um á Peugeot 206 og væri á föstu með fallegustu og gáfuðustu manneskju landsins þá hefði ég sennilega orðið svo spenntur að ég hefði fengið heilablóðfall.

Hvað ætli gerist næst?

miðvikudagur, 21. júní 2006

Rétt í þessu var ég að fá skjal þess efnis að ég hef lokið námi við Háskóla Reykjavíkur og er þarmeð orðinn viðskiptafræðingur með BSc gráðu. Þetta er fallegt skjal. Fallegast finnst mér þó að sjá nafn mitt efst á skjalinu, skrifað í skrautskrift:

Finnur Torfi Guðlaugsson.

þriðjudagur, 20. júní 2006

Í gær bakaði ég svo góða afmælissúkkulaðiköku fyrir Soffíu, þar sem hún átti afmæli, að mér finnst ég vera verri maður eftir að hafa smakkað hana.

Ekki nóg með að hún sé svo góð að maður efast um tilvistarstig sitt heldur er hún svo óholl að við hverja 30 gramma skeið sem maður borðar af henni þyngist maður um 150 grömm.

Ég varð bara að segja frá þessu eða að öðrum kosti springa í tætlur.

mánudagur, 19. júní 2006

Í dag á mín kærasta kærasta afmæli. Til hamingju með það Soffía.

Ekki nóg með það heldur á minn kærasti frændi afmæli í dag líka. Hann heitir Kristján Freyr og er sonur Styrmis bróðir.

Enn einu sinni eiga kvenréttindi afmæli í dag. Til hamingju með það allar. Vonum að þetta sé í síðasta sinn sem við þurfum að óska þeim til hamingju.

Síðast en ekki síst á Gena Rowlands afmæli í dag. Til hamingju með það Gena.

sunnudagur, 18. júní 2006

Þennan morguninn hef ég verið frekar utan við mig. Dæmi:

* Ég reyndi að opna kókflösku sem þegar var opin, með frekar góðum árangri.

* Ég hlustaði á Valdísi væmnu á Bylgjunni í ca klukkutíma, dæsandi og andvarpandi á víxl yfir sjúkri væmni og viðbjóði, áður en ég áttaði mig á því að ég gat skipt um útvarpsstöð, jafnvel hlustað á mp3 lög.

* Ég finn ekki fleiri atriði en tvö.

* Ég skrifa hér að ofan að aðeins er um að ræða tvö atriði þegar þrjú eru fundin.

* Fjögur núna. Ég hata sjálfan mig meira með hverri setningunni sem ég skrifa.

laugardagur, 17. júní 2006

Loksins hef ég bætt við myndum frá ferðalagi okkar Soffíu til Ítalíu sem hófst fyrir mánuði síðan og lauk í byrjun júní. Hér má sjá myndirnar.

Í nálægri framtíð mun ég svo bæta við myndum frá Svíþjóð en þangað fórum við einnig að heimsækja Styrmi bróðir og fjölskyldu hans.

föstudagur, 16. júní 2006

Og nú; skilaboð frá bílaeigendum Egilsstaða til stjórnar Fljótsdalshéraðs:

LAGIÐ HELVÍTIS VEGINA Á EGILSSTÖÐUM!

Vegirnir á Egilsstöðum eru svo gjörsamlega út í hött lélegir að ég á erfitt með að tjá mig öðruvísi en að nota caps lock takkann. Aldrei áður hef ég spáð meira í að forðast að aka ofan í hyldýpi og holur en að keyra yfir fólk eða á aðra bíla.
Í gær drap ég ógrynni af kettlingum með riffli. Kettlingar sem lifðu af voru teknir af lífi með hnífi. Ég hló allan tímann.

Drap / Tók af lífi = Sló.
Kettlingar = Gras í skattstofugarðinum.
Riffill = Sláttuvél skattstofunnar.
Hnífur = Sláttuorf skattstofunnar.
Hló = Öskraði.

Ég þjáist af 'erfitt að tjá sig um einfaldar aðgerðir'-heilkenninu, sem ég var einmitt að uppgötva rétt í þessu.

Uppgötva = Skálda.

miðvikudagur, 14. júní 2006

Ég veit ekki af hverju ég hló óvenju hátt við að sjá textann á þessari mynd í morgun. Ég skil enn síður í því að ég hlæ ennþá í hvert skipti sem ég lít á hana. Minnst skil ég samt í mér að hafa rist setninguna á myndinni í handlegginn á mér með borðhníf.

þriðjudagur, 13. júní 2006

Í þessari færslu hyggst ég, því miður, afsanna fyrir fullt og allt að hægt verði á minni ævi að ferðast aftur í tímann.

Fyrst yfirlýsing: Ég ætla að eyða ævinni minni í reyna að ferðast aftur í tímann til 12. júní 2006 (í gær), taka mynd af mér með mér og birta hér og í (öðrum) vísindatímaritum.

Og viti menn; ég minnist þess ekki að ég hafi heimsótt sjálfan mig í gær, hvað þá að ég hafi tekið mynd af mér með mér. Ég vona bara að ástæðan fyrir því að ég ferðast ekki aftur í tímann sé sú að ég verði of fátækur til að hafa efni á því.

Allavega, ég er hættur við að eyða ævinni í eitthvað sem mun ekki gerast. Sem veldur því að það er skiljanlegt að ég kom ekki í heimsókn í gær.

sunnudagur, 11. júní 2006

Í gær var ég svo heppinn að útskrifast úr HR sem viðskiptafræðingur. Það eina sem breytist við það er að laun mín hækka, hvert sem ég fer. Jú, og ég mun ganga með pípuhatt og einglyrni hér eftir, þar sem ég er orðinn fínn maður.

Allavega, nafn mitt var kallað upp í útskriftinni, að sögn, en ég var fjarri góðu gamni í sundi á Egilsstöðum með gömlu fjölskyldunni og framtíðar fjölskyldunni (bræðrum mínum, pabba og Soffíu). Ég hélt nú samt upp á þetta með kóki og risahrauni en það var einmitt það eina sem ég borðaði allan minn háskólaferil, ásamt einstaka núðluskammti. Ég mæti á næstu útskrift. Ég lofa.

Ef einhver fyrrum samnemandi minn les þetta; til hamingju með útskriftina.

föstudagur, 9. júní 2006

Ca 40 árum eftir að John Lennon og Paul McCartney sömdu lagið "When I'm 64", þar sem þeir spyrja konur sínar hvort þær muni elska þá þegar þeir verði 64ra ára, fékk Paul McCartney svar frá nýju konu sinni, rétt fyrir 64ra ára afmælið sitt. Nei. Greyið kallinn.
Ég var rétt í þessu að fleygja síðasta jórturleðrinu sem ég keypti á Ítalíu en þessi ákveðna gerð af Extra jórturleðri fæst ekki hérlendis.

Þetta finnst mér næg ástæða fyrir bæði þessari færslu og góðri vinnupásu, til að hugsa um horfin jórturleður fortíðar.

fimmtudagur, 8. júní 2006

Löngum hefur mig langað til að breyta um útlit og auka möguleika þessa bloggs. Fyrir nokkru fann ég ágætis grunn fyrir þessa breytingu og sjá, ég hef búið til nýtt blogg.

Þetta er þó bara grunnurinn. Í framtíðinni mun ég, ef útlitið fær góða dóma, bæta ýmsu dóti við þetta eins og hlekkjum og öðru skemmtilegu/leiðinlegu/frumlegu/áhugaverðu.

Kíkið á útlitið hér og gefið álit ykkar.
Í dag mæli ég með:

* Þessu lagi. Mögulega besta lag í heimi.

Annars er eftirfarandi að frétta af mér:

* Ég vinn á skattstofunni við að fara yfir framtöl.
* Ég lyfti daglega og mæti á Hattaræfingar í körfubolta.
* Ég bý hjá kærustunni minni, Soffíu og nýt hverrar sekúndu.
* Lalli ljón er í Reykjavík að bíða eftir því að ég sæki hann.
* Ég er enn að gera Arthúr með Jónasi snillingi.
* Ég hef tapað blogghæfileika mínum, ef hann var einhverntíman til staðar.
* Mig vantar bara íþróttaskó svo að líf mitt verði fullkomið.

miðvikudagur, 7. júní 2006

Þá er, eins og margoft hefur komið fram, háskólagöngu minni lokið í bili. Þar sem ég er með upprifjunar- og fortíðarblæti þá læt hér fylgja yfirferð yfir skólaárin mín:

Önn 1, haustið 2003:
* Leigði á Tunguvegi 18 í agnarsmáu herbergi.
* Drakk ekki dropa af áfengi.
* Gerði ekkert nema læra og sofa.
* Tók strætó í og úr skólanum.
* Spilaði körfubolta 3x í viku.
* Meðaleinkunn 7,4.

Önn 2, vorið 2004:
* Keypti fartölvu.
* Kynntist mínum fyrsta samnemanda við HR.
* Andlát í fjölskyldunni. Erfiður tími.
* Spilaði körfubolta 3x í viku.
* Meðaleinkunn 8,2.

Önn 3, haustið 2004:
* Leigði á stúdentagörðum í Skipholtinu.
* Gekk í skólann hvern einasta dag, 25 mínútna leið.
* Spilaði körfu 3x í viku.
* Fékk mitt fyrsta taugaáfall við próflestur.
* Meðaleinkunn 7,6.

Önn 4, vorið 2005:
* Hér virðist ekkert hafa gerst.
* Meðaleinkunn 7,8.

Önn 5, haustið 2005:
* Hóf samband með Soffíu Sveins, ofurgellu og gáfnaljósi.
* Gerðist höfundur að Arthúr myndasagna með góðum árangri.
* Keyrði í fyrsta sinn að staðaldri í Reykjavík á hundgömlum bíl.
* Leigði áfram á stúdentagörðunum í Skipholti.
* Komst á forsetalista HR.
* Meðaleinkunn 8,8.

Önn 6, vorið 2006:
* Hætti að blogga. Byrjaði svo aftur án athugasemda.
* Keypti mér nýjan bíl eftir að Arthúr fór að seljast og hundgamli bíllinn dó.
* Var boðin 5 mismunandi störf sem ég þurfti að neita.
* Meðaleinkunn 7,4.

Þá er þessu ævintýri lokið og næsta tekur við. Hvað það verður veit ég fullkomlega. Not.

þriðjudagur, 6. júní 2006

Ég er fyrstur til að viðurkenna að mér mistókst þetta áætlunarverk mitt. Eins gott kannski þar sem ég þurfti hvort eð er að vinna í dag.

Ég reyni bara 7. október á þessu ári aftur. Ef tekst vel þá mun barnið heita Guðfinnur eða Guðmundína og mun bera kennitöluna 070707-7770.

mánudagur, 5. júní 2006

Síðustu fjórfarar vikunnar birtust í janúar og þar sem þessi vika var að klárast ákvað ég að bæta nýjum við. Fjórfarar þessarar viku eru óvenjulegir þar sem ég sjálfur er fjórfarinn. Urðu fjórfararnir til með hjálp Soffíu minnar, Jónasar Reynis og Estherar Aspar.

Allavega, kíkið hérna.

sunnudagur, 4. júní 2006

Ég sit hérna í vinnunni og hlusta á fugl vera að syngja úr sér lungun. Hann hefur nú sungið látlaust í tvo tíma og virðist ekki ætla að hætta á næstunni. Sennilega einn vergjarnasti fugl sem ég hef komist í kynni við.

Fugl: play it cool og þá verða allir stelpufuglarnir vitlausir í þig. Þetta er of mikið.

laugardagur, 3. júní 2006

Ég tek stöðugum breytingum. Frá því í maí hafa eftirfarandi breytingar á mér átt sér stað:

* Ég er ekki lengur háskólanemi heldur viðskipta eitthvað.
* Ég er algjörlega endurnærður (andlega) eftir ferð til útlanda í 16 daga.
* Ég er algjörlega kolsvartur (líkamlega og andlega) eftir ferð til Ítalíu í 9 daga.
* Ég er algjörlega blankur (peningalega og líkamlega) eftir ferð til útlanda í 16 daga.
* Ég hef lést um 5 kg í viðbót eftir hörkufjöruga magakveisu sem fylgdi matareitrun sem ég fékk líklega í Danmörku.
* Líkami minn er í einu versta formi á norðurlöndum eftir litla hreyfingu undanfarið.
* Ég er svangur.

Meira um utanlandsferðina innan skamms ásamt gríðarlegu magni af myndum.

föstudagur, 2. júní 2006

Ég hef snúið aftur til ritstarfa. Hér eftir ætla ég að verða miklu duglegri við að blogga og láta ekkert stoppa m...

..ah. Kominn matur. Meira síðar.