föstudagur, 27. febrúar 2009

Nýlega mældist ég rétt undir 10% feitur. Athygli vakti að öll fita líkamans safnast saman á einn stað; á vinstri ökklann á mér.


Sérstaklega eftir að ég tognaði hressilega á körfuboltaæfingu gærdagsins. Afsakið tærnar.
Ég get því miður ekki skrifað færslu í dag þar sem ég missteig mig á körfuboltaæfingu kvöldsins. Nú vorkenni ég sjálfum mér of mikið til að geta skrifað heilstæða setningu.

Það er því komið að hlekkjafærslu!

* Þeir sem hafa gaman af borðspilinu Ticket to ride geta spilað það á netinu, hér nánar tiltekið! Tonn af skemmtun.

* Þorkell hefur hætt bloggskrifum um daglegt líf og hefur snúið sér alfarið að skrifum um Excel. Ég gef honum hér með stafrænt Excel hoppfæv [=iferror(if("Þorkell"=jump; jump&" - "&highfive;"Einn tveir og...");"Vandræðalegt")] og hlekk á bloggið hérna.

* Fremsti sjávarútvegsvefur landsins, sax.is er að auglýsa á b2.is. Ég tek ofan fyrir tilraun þeirra til að koma sjávarútvegsfréttum í tísku hjá unga fólkinu og bendi fólki á að skoða síðuna hér og flottu línuritin þeirra hér.

* Að lokum er hér mynd af pókerborði á netinu sem hefur fengið mig til að hlæja síðan ég sá hana fyrst, fyrir rúmum 6 mánuðum. Smellið á hana fyrir stærra eintak. Ef þið fattið ekki; skoðið spjallið.

miðvikudagur, 25. febrúar 2009

Flestir hafa langanir og þrár í lífinu. Ég er þar engin undantekning. Það er kominn tími á að rýna í minn innri mann og sjá hvað ég vil fá úr þessu lífi.

Hér er fullkomlega tæmandi listi yfir mínar langanir í dag 25. febrúar 2009. Styrkleiki langananna fylgir en hann er á skalanum 0-10:Framkvæmdamörkin mín eru 5. Allt umfram 5 og ég læt verða af því.

þriðjudagur, 24. febrúar 2009

Nýlega hóf ég notkun á Chrome browsernum frá Google [niðurhalið hér]. Stuttu síðar fór ég að nota lítið annað og líkaði vel. Hann er hraðvikur og... [enginn klárar að lesa þessa setningu hvort eð er].

Löng saga stutt þá fann ég þetta í Task Manager á Chrome:

Þetta er hlekkur á tölfræði vafrans.

Nú nota ég Chrome ekki lengur. Ég nýt ásta með honum.

Já, það er svona lítið að frétta.

mánudagur, 23. febrúar 2009

Í kvöld gerðust þrír stórmerkilegir atburðir við það eitt að poppa:

1. Ég náði að poppa öll poppkornin í örbylgjupopppokanum, nema 9. Hlýtur að vera met.

2. Ég náði að brenna hvert einasta popp sem poppaðist, sem voru öll poppkornin nema 9.

3. Ég ákvað að blogga um þetta hversdaglega stórævintýri án þess að skammast mín fyrir að vera bloggari.

laugardagur, 21. febrúar 2009

Nýlega komst ég yfir tvo diska af undurfögrum hljómum Kátra Pilta. Við hlustun öskraði ég úr hlátri. Einna mest hló ég yfir tveimur lögum.

Það fyrra fjallar um ömurlega upplifun einhverra úr hljómsveitinni:

Kátir Piltar - Feitar konur [Lesið textann við lagið hér]


Það seinna fjallar um örvæntingu manns þegar konan yfirgefur hann/fer í bíó með vinkonum sínum:

Kátir Piltar - Jenný [Lesið textann við lagið hér]
Mögnuð hljómsveit!

Ef einhver úr Kátum Piltum er ósáttur við að ég spili lögin á óravíddum internetsins, lát vita (finnurtg@gmail.com).

föstudagur, 20. febrúar 2009

Í gær hringdi síminn minn aldrei. Ekki einu sinni. Ég man ekki hvenær það gerðist síðast, ef einhverntíman.

Ég næ þó að draga lærdóm af þessu. Ég lærði að það er satt sem fólk segir; ef þú situr horfandi á símann heilan dag og vonar að hann hringi, þá hringir hann ekki. Sérstaklega ekki ef þú grætur, sem ég gerði auðvitað ekki.

fimmtudagur, 19. febrúar 2009

Í fréttum er þetta helst:

Með aldrinum lærir maður að kunna að meta smærri og smærri hluti.

Í dag, þrítugur að aldri, lærði ég að meta getuna að klæða mig í föt, þegar ég klæddi mig þrisvar sinnum í röð öfugt í körfuboltavesti áður en það tókst.

Síðasta tilraunin fól í sér að ég snéri mér öfugt við að klæða mig í vestið. Þá loksins tókst það.

Að lokum er hér lag með nýrri uppáhalds einsmannshljómsveit minni, Siriusmo. Lagið heitir Simple eða Fábrotið, sem myndbandið einmitt er.


Ég mæli með því að fólk stígi nokkur vel valin spor við lagið.

miðvikudagur, 18. febrúar 2009

Hróður þessa bloggs fer víða. Svo víða að næsta íbúð fyrir ofan mína les það greinilega.

Ég hef löngum ritað um vandamál mitt með að vakna á morgnanna. Í morgun brá nágranni minn á það ráð að bora í vegginn hjá sér klukkan 8 um morgun svo herbergið mitt skalf og nötraði í amk hálftíma.

Fyrir vikið neyddist ég til að mæta í vinnuna á ca réttum tíma. Takk, mest pirrandi nágranni í heimi!

þriðjudagur, 17. febrúar 2009

Ég komst að nýjum eiginleika hjá mér í gær þegar ég gerði tilraun til að keyra og halda uppi samræðum við farþega samtímis.

Svo virðist sem ég stillist á sjálfstýringu þegar ég keyri og tala samtímis.

Þrjú dæmi:

1. Þegar ég átti að vera á leið í verslun miðsvæðis í dag reyndi sjálfstýringin að keyra í Laugar, þangað sem ég fer venjulega um þetta leyti. Farþeginn náði að benda mér á þetta og slökkva þannig á sjálfstýringunni. Ég talaði þó ekki meira við farþegann þann daginn.

2. Ég keyrði marga kílómetra úr leið þegar ég átti að fara í Mosfellsbæ í gær. Síminn hringdi og sjálfstýringin stilltist á að keyra heim. Sjá mynd að neðan (smellið á mynd fyrir stærra eintak).


3. Ég gaf mjög mikið í þegar vegfarandi stoppaði alla umferð á Miklubraut með því að ýta á göngubrautartakka. Farþeginn í bílnum mínum, við hvern ég var að spjalla, benti mér á að sjálfstýringin mín væri að reyna að keyra yfir vegfarandann. Ég lét sem ég heyrði það ekki.

Enn einn kosturinn við mitt stórkostlega sjálf.

mánudagur, 16. febrúar 2009

Ekki aðeins er kreppan er gera útaf við jeppaeigendur og fólk sem vill vera í vinnu, heldur einnig bloggara landsins.

Í gær tók ég til í blogghlekkjum í fyrsta sinn eftir að kreppan skall á. Ég eyddi út óvirkum og læstum bloggum. Niðurstaða:

Alls eyddi ég 27 hlekkjum af 51. Eftir standa 24 virk og ólæst blogg. Það gerir um 53% hrun á bloggum þeirra sem ég þekki og/eða hlekkja á þessa síðu.

Ef;

* Þú er ósátt(ur) við að blogginu þínu hafi verið eytt
* Þú telur að bloggið þitt eigi að vera hér í hlekkjum
* Þig langar í Risa hraun (ekki myndlíking). Ég á 7 kassa.
* Þér finnst þú eiga eitthvað vantalað við mig
* Þér finnst þú vanrækt [ekkert (ur)]

...hafðu samband.

Ég hyggst halda áfram í tiltektinni á þessari síðu næstu daga.

laugardagur, 14. febrúar 2009


Þessi leikari heitir upphaflega, hvorki meira né minna en Mahershalalhashbaz Gilmore.

Einhverntíman á lífsleiðinni hefur þetta samtal átt sér stað:

Vinur: Jæja, er ekki kominn tími á að þú skiptir um nafn?
Mahershalalhashbaz Gilmore: Af hverju?
Vinur: Tja... það er svolítið erfitt að muna. Væri ekki betra að stytta það?
Mahershalalhashbaz Gilmore: Af hverju?
Vinur: Svo þú eigir auðveldara með að meika það í Hollywood. Frekar erfitt að muna svona langt nafn.
Mahershalalhashbaz Gilmore: Hmmm það gæti verið rétt hjá þér.

Hann breytti því í Mahershalalhashbaz Ali.

Það virðist þó hafa virkað, því hann landaði nokkuð stóru hlutverki í stórmyndinni The Curious Case of Benjamin Button.
Í fyrsta sinn á ævinni get ég með fullri vissu sagst vera hamingjusamur:

Átta kassa hamingjusamur nánar tiltekið.

fimmtudagur, 12. febrúar 2009

Samtal á Serrano áðan, þar sem ég keypti mér Kessedía:

Afgreiðslukona: Viltu gróft eða fínt brauð?
Ég: gróft er fínt
Afgreiðslukona: ha?

miðvikudagur, 11. febrúar 2009

Hér eru nokkrar tillögur:

1. Hætta að framleiða allan annan brauðost en 28% feitan Gouda svo fólk hætti að taka t.d. 11% feitan Gouda ost í misgripun, en hann er eins og pappír sem hefur verið dýft í smjör.

2. Framleiða hóstasaft með góðu bragði. T.d. jarðaberja- eða risahraunbragði. Ég myndi kaupa það frekar en það sem selt er núna en það er mað lakkrís- og illskubragði.

3. Kenna Excel í grunnskóla samhliða íslensku og stærðfræði. Það er ótrúlega erfitt að finna einhvern sem hefur sannan áhuga á þeim Excelskjölum sem ég vinn dags daglega. Mér líður eins og nördi sem montar sig af góðum árangri í World of Warcraft. Engum á að þurfa að líða þannig!

þriðjudagur, 10. febrúar 2009

Ég er spurður, hvert sem ég fer, hvernig ég hafi það af kvefinu sem ég fékk fyrir síðustu helgi. Og réttilega, þar sem kvef er andstyggilegt, sérstaklega fyrir karlkynið. Stelpur virðast fá veikt afbrigði af því.

Þið sem ekki hafið náð sambandi við mig, varðandi kvefið, ættuð að lesa áfram.

Ég fann fyrir fyrstu einkennum kvefsins fimmtudaginn 5. febrúar síðastliðinn og fór því snemma að sofa það kvöldið. Daginn eftir vaknaði ég nærri dauða en lífi.

Hér er tafla yfir ýmsar mælieiningar kvefsins:

Ég hafði miðvikudaginn með til gamans.

Í töflunni má sjá hvernig líðanin (sem er á skalanum 0-10. 0 verandi dauði og 10 alsæla) hrynur á föstudaginn niður í 1! Það er um svipað leyti og hnerrarnir ná hámarki. Snýtingarnar áttu þó eftir að aukast. Laugardagurinn var tekinn undir legu og sjálfsvorkunn í formi gráts og öskra.

Það virtist virka, því eftir laugardaginn er allt á uppleið. Í dag er ég nærri fullri heilsu eftir leiðinlega helgi. Þetta kvef hafði úr krafsinu 60,8 snýtingar á dag að meðaltali og rúmlega 230 hnerra alls.

Hér er svo kvefið í línuriti/stöplariti:

Smellið á myndina fyrir stærra, útprentanlegt eintak.

Þið sem nennið ekki að lesa tölfræði kvefsins lesið eftir þetta:

Ég hef það fínt.

mánudagur, 9. febrúar 2009

Kolla systir og Árni Már eignuðust sitt fyrsta barn í gær! Dóttur, nánar tiltekið. Til hamingju með það, Kolla og Árni!

Þetta er þriðja barn systkina minna, fjórða ef Excel skjöl eru talin með. Svona lítur þá ættartréið út.

Þá er komið að nafnatillögum. Hér eru nokkrar frá mér:

Finnsína Torfhildur
Þetta er bara fallegt nafn sem ég rakst á í einhverju glanstímariti. Ég man ekki hvaða.

Leopoldína
Langa langa langa langa amma okkar hét Leopoldína. Það væri okkur mikils virði ef héldir uppi minningunni.

Gottfreðlína Emerentíana
Þetta er löglegt nafn, sem er næg ástæða til að nota það.

Guðrún
Fínt nafn.

Veljið rétt, Árni og Kolla!

laugardagur, 7. febrúar 2009

Þessi veikindi mín hafa kostað mig eftirfarandi:

* Þrjár ræktarferðir.
* Dansiball með Familjen.
* Stelpupartí.
* Geðheilsuna.
* 2-3 kg.
* Þrjár bíóferðir á laugardagskvöldið¹.
* Þrjár rúllur af snýtipappír.

Ég hef hinsvegar grætt eftirfarandi á flensunni:

* Ég á helling af áfengi.
* Ég var ekki þunnur í gær. Samt út úr heiminum.
* Helling af svefni.
* 100 krónur sem ég fann í sófanum².
* Tíma til að skrifa þessa færslu.

¹ Var boðið í bíó af þremur einstaklingum. Hefði líklega bara farið einu sinni.
² Þá vantar bara 1.599.999.999.999,3 Evrur í viðbót til að landið sé skuldlaust.

föstudagur, 6. febrúar 2009

Fyrir rúmum mánuði keypti ég miða á Familjen dansiball á Nasa, sem fer fram í kvöld. Eftir kaupin fór ég að safna liði á þessa skemmtan og tilhlökkun var mikil.

Fyrir rúmri viku var mér svo boðið í hálfgert stelpupartí fyrir dansiballið. Tilhlökkunin jókst mjög hratt. Svo hratt að eitthvað hlaut að brotna undan álaginu.

Í gærkvöldi náði svo tilhlökkunin hámarki, enda aðeins sólarhringur í viðburðinn. Þá brast eitthvað í mér og nú ligg ég í flensu. 4 tímar í skemmtun og tilhlökkuninni hefur verið skipt út fyrir gremju og snýtipappír.

Sem betur fer sögðu flestir, sem ég reyndi að safna á Familjen, mér að fara í rassgat.

Svo að eitthvað skemmtanagildi fylgi þessari færslu þá er hér línurit yfir hvernig spennan hefur aukist undanfarið. Og svo hrunið í febrúar 2009.

Smellið á mynd fyrir stærra eintak.

fimmtudagur, 5. febrúar 2009

Með þessu nýja glóðarauga mínu hef ég náð að sanna að samstarfsfólk mitt horfir ekki í augun á mér. Ekk ein manneskja hefur tekið eftir glóðarauganu í vinnunni.

Ástæðan fyrir hræðslunni við að ná augnsambandi við mig er mér hulin ráðgáta. Það gæti þó mögulega tengst þessu samtali sem átti sér stað í vinnunni í gær:

Starfsmaður: Finnur mætti ekki með vélbyssu í vinnuna í dag.
*Ég hætti að kyssa Excel töflu á tölvuskjánum og sest upp*
Ég: Ha?
Starfsmaður: Ó, þú ert þarna. Nei bara. Smá veðmál í gangi.

miðvikudagur, 4. febrúar 2009

Æðsti draumur sérhvers manns rættist hjá mér í annað sinn um ævina á körfuboltaæfingu kvöldsins þegar ég fékk glóðarauga eftir fislétt högg frá mótherja.

Þessi draumur snérist í andhverfu sína þegar í ljós var komið hvernig glóðarauga þetta er.

Næstu daga er ég tvífari Amy Winehouse:

Amy litla lipurtá.


Ég, að berjast við tárin.


Þetta er frekar slæmt í ljósi þess að ég stefni á Familjen tónleika eftir 2 sólarhringa. En það má redda öllu með andlitsfarða.

Ef einhver getur lánað mér fjólubláan augnskugga til að setja á vinstra augað, svo ég sé samhverfur, þá væri það vel þegið. Svo væri flott að fá ca 12 kíló af dópi svo ég nái Amy Winehouse betur.
Ég komst að því með því að skrifa þessa færslu að það er ekkert meira nördalegt en að skrifa bloggfærslu um að maður sé að að komast að einhverju algjörlega gagnslausu, á sama hátt og ég lærði það, að nota "á sama hátt" gerir mig ekkert minna nördalegan.

þriðjudagur, 3. febrúar 2009

Í morgun, á leið í vinnu, svínuðu tveir bíla fyrir mig með ca fimm mínútna millibili svo ég þurfti að nauðhemla. Í öðru tilvikinu notaði ég flautuna á bílnum mínum (sem ég hef átt í 3 ár) í fyrsta sinn. Hún hljómaði vel.

Þetta áfall varð til þess að ég mætti of seint í vinnuna, 107. skiptið í röð. Þetta er líka í 107. skiptið í röð sem ég kem með grjótharða afsökun. Ég held því vinnunni, ennþá.

mánudagur, 2. febrúar 2009

Ég hef uppgötvað nýjan mælikvarða á það að vera asnalegur. Ég hef verið að setja saman þennan kvarða í búningsklefa World Class síðustu 6 mánuði. Eftir ræktarferð kvöldsins er hann fullkláraður!

Mælikvarðinn er eftirfarandi:

Því seinna sem þú klæðir þig í nærbuxur eftir sturtu, því asnalegri ertu.

Dæmi um fullkomlega asnalegan einstakling: Náungi í ræktinni í kvöld klæddi sig fyrst í bol, skyrtu, bindi og sokka áður en honum datt í hug að fara í nærbuxur.

Dæmi um fullkomlega eðlilegan náunga: Náungi klæddi sig fyrst í nærbuxur eftir sturtu, eins og hann hefur gert síðustu 6 mánuðina. Sá aðili var að sjálfsögðu ég sjálfur.

sunnudagur, 1. febrúar 2009

Ein er sú kona sem hræðir mig svo mikið að ég missi þvag. Sú manneskja er tvífari hinnar [að sögn] geysifallegu Cate Blanchett, leikkonu:


Cate Blanchett. Fleiri myndir.

Tvífari hennar heitir Tilda Swinton og er, því miður, líka leikkona. Ástæðan fyrir hræðslu minni er einfaldlega útlit hennar. Mér bregður alltaf jafn mikið við að sjá hana í myndum. Hún er óhugnarleg:


Tilda Swinton. Fleiri myndir.

Ég vildi bara láta vita af þessari hræðslu minni svo að henni verði ekki boðið í t.d. óvænta afmælisveislu mína í sumar (blikk blikk).
Það lítur út fyrir að meðleigjandi minn sé að flytja út. Ég óska því hér með eftir meðleigjanda.

Hér eru helstu atriðin:

* Íbúðin er 85 fm í Hafnfirsku fjölbýli + geymsla (15 fm).
* Tvö svefnherbergi eru m.a. í íbúðinni.
* Sjónvarp (með öllum stöðvum), þvottavél, ísskápur, internet etc. n'shit fylgir.
* Leigan er kr. 50.000 með hita og rafmagni.
* Ég er frekar lítið heima (eini ókosturinn).

Áhugasamir hafi samband í finnurtg@gmail.com eða síma 867 0533.

Óáhugasamir skrifið athugasemdir með ítarlegri greinargerð af hverju þið haldið að þið séuð betri en ég.