Smartland Mörtu Maríu heldur því fram að ég sé ekki nógu merkilegur til að svara nokkrum spurningum varðandi útlit mitt.
Helgi Seljan er nógu merkilegur.
Ég neita að láta koma svona fram við mig. Hér svara ég því þessum spurningum, óaðspurður:
Hvað gerir þú til að halda þér í formi?
Fer í ræktina, út að hlaupa eða labba og eyði miklum tíma í svefn (tíma sem annars færi í að borða nammi).
Er einhver matur sem þú borðar ekki eða fer illa í þig?
Skyr og skyrdrykkir. En sem betur fer bragðst skyrvörur ógeðslega.
Og jú, allt djúpsteikt. Mér líður alltaf eins og ég hafi orðið valdur að þjóðarmorði, líkamlega, eftir ferð á KFC.
Ertu hættur að borða eitthvað sem þú borðaðir áður?
Nei, ég held ég borði meira af öllu en áður. Nema kannski rækjur. Get ekki fengið mig til að stinga þeim upp í mig.
Hvað gerir þú til að líta betur út?
Ýmislegt. T.d. að sofa mikið, raka mig ca vikulega, fara í klippingu á 3ja mánaða fresti, setja gel í hárið.
Ég geri þó talsvert meira til að líta verr út. T.d. ganga með ógeðsleg gleraugu, raka mig ca vikulega, naga á mér neglurnar, láta stundum líða yfir 9 mánuði á milli klippinga og svo framvegis.
Lumar þú á einhverjum leynitrixum varðandi útlitið?
Að þvo sér ekki of oft um hárið. Ég lít t.d. út eins og aukaleikari í erótískri gamanmynd frá 1981 ef ég þvæ mér of mikið um hárið.
Hvaða snyrtivöru gætir þú ekki lifað án?
Svitalyktaeyði, geli, raksápu, varasalva, rakakremi, tannkremi og svo framvegis og svo framvegis.
Prentið þetta!