laugardagur, 30. apríl 2011

Punktablogg

* Ég hef búið til nýja síðu. Í þetta sinn hálfgert nafnspjald á netinu um mig og mínar síður. Hana má sjá hér.

* Ég hef útbúið nýtt Excel skjal yfir Pepsi deildina í fótbolta, sem byrjar á morgun 1. maí. Skjalið má finna á excel.is eða hér.

* Ég held áfram að setja inn myndir af Valeríu Dögg, bróðurdóttur minni, í þættinum "Barnið þitt er forljótt miðað við frændsystkini mín".

Ekkert persónulegt.

fimmtudagur, 28. apríl 2011

Fólk sem ég væri til í að hitta

Hér er fullkomlega tæmandi listi yfir það fólk sem ég væri mjög til í að hitta undir eins:

1. Manninn sem hannaði viskustykkið mitt
Þetta töfra viskustykki er þeim eiginleika gætt að þurrka ekki neitt heldur bara ýta bleytunni til á yfirborðinu. Ég myndi reyna mitt besta að berja hann ekki í andlitið með hamri.

2. Scarlett Johansson
Ég myndi reyna mitt besta að berja hana ekki ítrekað í andlitið með vörunum á mér.

3. Ungan mig
Ég myndi vara sjálfan mig við því að kaupa Peugeot, því hatrið sem ég ber í brjósti í garð bíls míns er farið að hafa varanleg áhrif á heilsu mína.

4. Gamlan mig
Ég myndi spyrja mig um hvað ég bloggaði árin eftir að ég eyðilagði Peugeotinn minn með eldvörpu sumarið 2011.

mánudagur, 25. apríl 2011

Pókertekjur

Það vita það ekki margir en ég vinn á kvöldin og nóttunni heima við að spila póker á netinu. Síðustu tvö kvöld hef ég keppt á nokkrum mótum og orðið í 3. og 4. sæti á tveimur 90 manna mótum.

Þetta hefur skilað mér um 20 dollurum, eða rúmlega 2.200 krónum nettó í tekjur, sem er ágætis aukapeningur.

Mér reiknast þá til að ég sé með um... 250 krónur á tímann við að spila póker þessi síðustu tvö kvöld. Ég er svo með tæplega ekkert á tímann þegar illa gengur.

Mér þætti vænt um ef þið gætuð látið sem þið hafið ekki séð síðustu fjórar setningar þessarar færslu. Takk.

sunnudagur, 24. apríl 2011

Sparsamur líkami

Í dag náði ég að klára fimm tíma af flutningum hjá Gylfa vini mínum og tvo tíma af körfuboltaiðkunn á aðeins tveimur banönum, einni ostasneið og fimm tíma svefni síðustu nótt.

Mér reiknast þá til að ég hafi náð að keyra líkama minn á 34 kalóríum á klukkustund á meðan á þessu stóð, sem verður að teljast með sparneytnari farartækjum.

Ég bætti auðvitað upp fyrir sparnaðinn með um sjö þúsund kalóríum af nammi á tæpum hálftíma í kvöld.

föstudagur, 22. apríl 2011

Aðsóknin á Excel.is

Í vikunni tilkynnti ég opnun á nýrri síðu, Excel.is, sem ég og kunningi minn höldum úti. Rétt í þessu voru fyrstu aðsóknartölur að koma í hús.

Þær eru nokkuð góðar miðað við Íslenskar síður en þó talsverð vonbrigði, þar sem okkar aðal samkeppnisvefur er enn með forskot.

Smelltu á "Lesa meira" fyrir graf sem sýnir hvernig leikar standa á netinu.

fimmtudagur, 21. apríl 2011

Kennarinn ég

Sennilega eitt fallegasta barn allra tíma. Í fyrsta sæti með öllum hinum frændsystkinum mínum.
Ég hef afsannað þá furðulegu kenningu einhvers að einhleypir og barnlausir séu gagnlausir samfélaginu, því í gær kenndi ég bróðurdóttur minni, Valeríu Dögg, hvernig taka á gleraugun af fólki (eða amk mér) og kasta þeim í burtu, í tilefni sjö mánaða afmælis hennar.

Þetta getur komið sér vel t.d. ef Björgvin bróðir og Svetlana eru á göngu með Valeríu Dögg og gleraugnaður ræningi stendur of nálægt þeim. Þegar ræninginn nær svo gleraugunum aftur eru þau svo kámug að hann sér ekkert og fjölskyldan er á bak og burt.

þriðjudagur, 19. apríl 2011

Topp fimm: Öskur í umferðinni

Hér er topp 5 listi yfir það sem ég öskra þegar ég keyri í Reykjavík og nágrenni. Lögregluembætti Reykjavíkurborgar bað mig um að vara fólk við þessum lista, þar sem hann gæti sært blygðunarkennd verstu fjöldamorðingja.

5. "Ekki séns að ég hleypi þér, jeppafíflið þitt!"
Æpi þetta þegar jeppar reyna að troða sér fyrir framan mig eftir að hafa svindlað á akreinum.

4. "Deyðu í eldi!"
Öskraði þetta óvænt í síðustu viku og kom sjálfum mér á óvart í frumleika. Man ekki tilefnið.

3. "Drullaðu þér áfram djöfulsins fáráður! Ég hata þig!"
Öskra þetta ítrekað þegar einhver ekur löturhægt á vinstri akrein (sem á að vera hraðaakgrein).

2. "Gefðu stefnuljós, helvítis mellan þín!"
Öskrað ca 70 sinnum á dag. Yfirleitt í hringtorgum.

1. "Shit! Fyrirgefðu!"
Jóðla þetta þegar ég geri mistök í umferðinni.

Ég er opinn fyrir tillögum að nýjum öskrum, þar sem ég er að verða býsna þreyttur á nokkrum þeirra. Nú, eða geðhjálp.

sunnudagur, 17. apríl 2011

Excel.is og önnur ævintýri

Ég átti bæði mína gleðilegustu og sorglegustu stund ævi minnar um þessa helgi.

Gleðilegasta stundin var í dag þegar ég loksins opnaði síðuna excel.is með kunningja mínum. Á síðuna munum við setja leiðbeiningar fyrir þetta yndislega forrit sem Excel er, ásamt allskonar gagnlegum skjölum. Endilega komið með hugmyndir að skjölum eða fyrirspurnir á excel@excel.is.

Sorglegasta stundin átti sér stað í gær í Bónus þegar ég reyndi að ganga í augun á sætri stelpu með því að lesa utan á Chicago Town örbylgjupizzu umbúðum, eins og ég hefði aldrei séð þessa gerð matar áður og væri til að prófa hana einu sinni, þegar ég borða þetta í raun í annað hvert mál. Ég sá ekki betur en að þetta virkaði á hana því hún hljóp ekki í burtu öskrandi. Ég notaði því tækifærið og fór heim án þess að yrða á hana.

laugardagur, 16. apríl 2011

Limitless og Unknown

Þar sem ég hef ekkert merkilegt að segja kemur hér uppfyllingarefni, eins og svo oft áður.

Ég hef ákveðið að slá öllum færslum á frest, þrátt fyrir að hafa gnægð færslna að skrifa, fyrir eftirfarandi tilkynningu:

Ég hef þrisvar sinnum farið í bíó á þessu ári, þar af tvisvar sinnum í síðustu viku! Hér er gagnrýni mín á þær:

Unknown
Fjallar um mann sem missir minnið og tekur því ekki nógu vel. Skemmtilegur sálfræðitryllir með dass af ofbeldi og ást. Fínasta afþreying og Liam Neeson alltaf góður. 2,5 stjörnur af 4.

Limitless
Fjallar um mann sem fær aukið minn og tekur því ekki nógu vel. Vel heppnuð mynd, sé litið framhjá staðreyndavillunni sem myndin er byggð á. Tæknibrellur eru góðar og Bradley Cooper heldur sama hraða á leið sinni að frægasta leikara heims. 3 stjörnur af 4.

fimmtudagur, 14. apríl 2011

Letilíf

Svona lýkur öllum virkum dögum hjá mér:

17:00
Aðgerð: Vinnudegi lokið.
Hugsun: Ekki séns að ég nenni að keyra heim í mestu síðdegistraffíkinni. Vinn bara áfram.

18:30
Aðgerð: Kvöldmatur.
Hugsun: Ég sleppi matnum, þar sem ég er á leið í ræktina. Nenni ekki að vera eins og satt fífl þar. Saddir einstaklingar eru ekki líklegir til afreka.

19:00
Aðgerð: Ræktarferð.
Hugsun: Æ, ég nenni ekki að umgangast allt fólkið í ræktinni. Ég fer seinna í kvöld þegar mjög fáir eru að lyfta.

19:05
Aðgerð: Drulla mér heim.
Hugsun: Ekki séns að ég nenni að standa upp. Vinn aðeins lengur. Nóg af verkefnum.

19:30
Aðgerð: Samstarfsmaður sér mig og hrósar mér fyrir að vera duglegur að vinna frameftir.
Hugsun: Já. Einmitt. Duglegur.
Ég: „Maður gerir það sem maður getur. En ég er bara einn maður. Einn maður með óbilandi...“
Aðgerð: Samstarfsmaður gengur í burtu.

Framhaldið er yfirleitt þannig að ég fer heim skömmu síðar og sofna við að reyna að horfa á einhvern þátt. Vakna svo rétt fyrir kl 22 og næ klukkutíma í rækt, áður en ég byrja þann hluta lífs míns sem flokkast undir félagslíf.

Þar með hef ég látið mitt síðasta leyndarmál flakka. Nú vita harðir lesendur síðunnar hvert einasta smáatriði um mig. Síðasta leyndarmálið var: Ég er duglegur í vinnunni af því ég er fáránlega latur í öllu öðru. Ánægð?

þriðjudagur, 12. apríl 2011

Happadagur

Í dag varð ég fyrir miklu happi þegar ég náði loksins að sanna að það borgar sig að vera frá austurlandi, fyrir tilstilli ungrar stúlku.

Af ótta við að valda viðkomandi stúlku persónulegum eða atvinnutengdum skaða, þá nafngreini ég hana ekki né heldur það sem um ræðir.

Forsaga: Ég þarf að [A] [B] mitt og til þess þarf ég [C] sem fylgir alla jafna með [B]. Þar sem ég hef flutt ca 250 sinnum síðan ég keypti [B] þá hafði ég auðvitað týnt [C]. Svo ég lagði leið mína í [D], sem seldi mér [B] fyrir [X] árum.

Samtal!

Ég: Góðan dag. Ég keypti hérna [B] fyrir [X] mörgum árum og þarf að...
Stúlka: ...[A][B]?
Ég: Já akkúrat. En ég týndi...
Stúlka: ..[C] sem fylgdi með [B]?
Ég: Já! Ég var að spá...
Stúlka: Ekkert mál. Gjörðu svo vel. Í boði hússins *réttir mér nýtt [C]*
Ég: Ok...takk. Þarf ég ekki að sanna að ég hafi keypt [B] hérna?
Stúlka: Nei nei, ertu ekki að austan?
Ég: Jú.
Stúlka: [E] Torfi, er það ekki?
Ég: Jú! Hvað í...
Stúlka: Enginn austfirðingur fer að ljúga að mér. Ég treysti þér.
Ég: Vá. Takk. *dansa út úr verslunni*

Þess má geta að nýr [C] kostar yfir [Y] krónur, svo ég var skiljanlega [F], þó ég hafi haft sönnun fyrir því að hafa keypt [B] í [D].

mánudagur, 11. apríl 2011

FAQ nr 57

Það er kominn tími á að svara tveimur spurningum sem ég fæ oft.

1. Af hverju ferðu alltaf svona seint í ræktina? Nú komumst við ekki í bíó!
Svarið er einfalt:
Leiðbeiningar:
Línurnar tákna mannfjölda í ræktinni, eftir virkum dögum, laugardögum og sunnudögum.
Þar sem línurnar enda lokar ræktin.
Ljósrauða fyllta svæðið táknar þann tíma sem ég er í vinnunni og/eða sofandi (um helgar aðallega).
Gráa fyllta svæðið táknar þann mannfjölda sem ég höndla ekki.

Niðurstaða: Venjulega kæmist ég í ræktina eftir kl 17 alla daga vikunnar en aðeins þar sem ég er ekki mikið fyrir mannmergð þá kemst ég ekki fyrr en kl 21:30 virka daga (sjá bláa ör), kl 18:45 á laugardögum og kl 18:00 á sunnudögum.

Vona að þetta svari þessari spurningu í eitt skipti fyrir öll.

2. Er Palli heima?
Það býr enginn Palli hérna.

föstudagur, 8. apríl 2011

Peugeot draumur

Í nótt dreymdi mig að lögreglan stöðvaði mig og 4-5 glæsilegar lögreglukonur stigu út og skoðuðu Peugeot-inn minn. Þær komust svo að þeirri niðurstöðu að dempararnir væru að gefa sig og að ég ætti að henda bílnum.

Meira að segja í mínum villtustu draumum er Peugeot-inn minn drasl.

fimmtudagur, 7. apríl 2011

Sparnaðarráð Viðskiptafræðingsins IV

Sem viðskiptafræðingur finnst mér annars vegar rétt að hamra á því að ég sé viðskiptafræðingur og hins vegar gaman að ráðleggja fólki hvernig hægt er að spara peninga. Ekki að ég þurfi á því að halda, þar sem ég er moldríkur viðskiptafræðingur.

Hér kemur eitt slíkt ráð. Áður en lengra er haldið þá finnst mér rétt að ítreka að ég er háttvirtur viðskiptafræðingur og þar með sérfræðingur í öllum málum sem koma að peningum og viðskiptum. Ekki reyna þetta heima, nema þið séuð með háskólagráðu í viðskiptum. Eins og ég. Viðskiptafræðingurinn.

Sparnaðarráðið er í nokkrum skrefum, en það lærði ég í síðustu viku:

1. Leggðu kolólöglega.
2. Fáðu sekt upp á kr. 5.000 frá lágtvirtum stöðumælaverði.
3. Greiddu sektina innan 3ja daga og borgaðu aðeins 3.900 krónur.
4. Kauptu þér eitthvað fallegt fyrir 1.000 krónur.

Þar með hefurðu sparað 100 krónur án þess að lyfta fingri. Eins og viðskiptafræðingur.

miðvikudagur, 6. apríl 2011

Hvernig pissa skal á almannafæri

Ég var að frétta að ég á eftir að taka út 18 sumarleyfisdaga fyrir 1. maí næstkomandi. Það er ekki að fara að gerast. Ég kenni sjálfum mér um, þar sem ég kann ekki að vera í fríi. Ég ætla þó að taka mér frí frá þessu bloggi í dag, þriðjudag.

Mín í stað er hér meistari Gavin McInnes sem ætlar að kenna okkur karlmönnunum að pissa á almannafæri og komast upp með það. Algjör nauðsyn að læra.Fun fact: Ég pissaði á mig úr hlátri við að horfa á þetta myndband í tólfta skiptið, eins og í hin ellefu skiptin.

þriðjudagur, 5. apríl 2011

Lærdómur dagsins

Í dag lærði ég tvennt:

1. Það er fátt vandræðalegra en að fikra sig áfram í hálf fullum sturtuklefa í World class í svarta myrkri eftir að rafmagninu slær út.

2. Nasahár geta (og munu verða) lengri en sentimetri að lengd.

Af ótta við að valda ímynd minni skaða sleppi ég að taka fram hvernig ég lærði þetta.

sunnudagur, 3. apríl 2011

Hárið

Í vikunni sem leið fann ég hvernig hryllingurinn helltist yfir mig við að lesa Fréttablaðið. Ég áttaði mig ekki á því hvað hræddi mig, fyrr en ég tók eftir auglýsingunni fyrir söngleikinn Hárið, sem skartar einum besta söngvara landsins, Magna, í aðalhlutverki:


Magni er reyndar ljúfur sem lamb og myndin er ekki svo óhugnarleg... nema þú hafir spilað tölvuleikinn S.t.a.l.k.e.r. en coverið á honum er svona:


Ég entist í þrjár mínútur að spila hann á sínum tíma, áður en ég kastaði upp úr hræðslu.

Allavega, svipuð auglýsingaskilti. Það er nóg til að undirmeðvitund mín fyllir mig af skelfingu.