þriðjudagur, 30. desember 2008

Ef einhver á leið um Egilsstaðasundlaug og rekst þar á linsu í styrkleikanum -2,5, vinsamlegast gerið það rétta og látið mig vita í stað þess að eigna ykkur hana. Ég týndi minni við að stinga mér til sunds í gær.

Það sama gildir um þá sem eiga leið í innilaug Laugardalslaugar, en sú linsa týndist fyrir 34 dögum.

Fundarlaun í boði.

mánudagur, 29. desember 2008

Ég verð auðvitað líka að birta lista yfir verstu/leiðinlegustu myndir sem ég sá á árinu 2008. Hér er listi yfir topp einu myndina. Listinn er, eins og áður, talinn aftur á bak, til að viðhalda spennu:

1. Sweeney Todd: The Demon Barber of Fleet Street.
Andstyggilega leiðinleg söngvamynd! Sagan er hræðileg, lögin ömurleg og ekkert gerist þá 45 tíma sem myndin tekur. Án nokkurs vafa með leiðinlegri myndum sem ég hef séð.

Ég bið alla þá sem sáu myndina með mér í bíó, enn einu sinni afsökunnar á að hafa stungið upp á henni. Ég mun seint fyrirgefa sjálfum mér.
Þar sem þetta ár er næstum búið finnst mér rétt að rifja það upp. Og þá rifja það upp í gegnum bíóferðir mínar. Hér er listi yfir 8 bestu myndirnar sem ég sá á árinu 2008. Ég tel niður, til að hafa spennuna óþægilega:

8. The Bucket list.
Kom sterk inn eftir að hafa séð 10 vondar myndir í röð. Róleg og þægileg mynd með gömlum köllum sem eru að deyja í aðalhlutverki.

7. Kung fu panda.
Ég hló nánast allan tímann á þessari mynd. Þrívíddarteiknimynd.

6. Iron man.
Kom mér mjög á óvart. Frábær ofurhetjumynd.

5. Quantum of Solace.
Það bregst ekki að James Bond klikki ekki. Þessi nýi er draumur.

4. Into the wild.
Mér fannst þessi mynd í besta falli sæmileg á sínum tíma. Hún óx í minninu og er nú með betri myndum ársins, þó hún séð gerð 2007.

3. The Dark knight.
Held að allir viti allt um þessa mynd. Heath Ledger stelur senunni.

2. Forgetting Sarah Marshall.
Marshall úr þáttunum How I met your mother þarf að gleyma Sarah Marshall. Áhugavert. Mæli með henni fyrir alla, nema hórur. Þær fíla þetta líklega ekki.

1. Wall·E.
Drasl vélmenni verður ástfangið af öðru, mun flottara vélmenni. Upphefst stafræn ást. Hljómar ekki mjög vel en er besta myndin sem ég sá á árinu. Héðan í frá fer ég ekki á neina mynd nema hún innihaldi vélmannaást.

laugardagur, 27. desember 2008

Eitt það leiðinlegasta sem ég geri er að halda aftur af mér að tala um sjálfan mig. Ég ætla að sleppa af mér beislinu í þetta sinn, eins og í hinum 356 færslum sem skrifaðar hafa verið á þessu ári.

Getraun dagsins; hvað eiga eftirfarandi aðilar sameiginlegt:

Gianluigi Buffon, markmaður einhverskonar.

Frederick Weller, leikari.

Asni, asni.

Svar: Þeim hefur öllum verið líkt við mig á árinu. Fyrstu tveir voru sagðir líkamlega líkir mér af Simma Bónda og Maggý. Sá síðasti var sagður andlega líkur mér af ónefndri manneskju.

Reyndar var það "Fucking fáviti", en þetta er það næsta sem ég kemst því.

Til upprifjunar þá lít ég svona út líkamlega. Og svona andlega.

fimmtudagur, 25. desember 2008

Ég held ég feti í fótspor Estherar Aspar og segi eitthvað sem ekki má segja.

Það sem ekki má segja #1:
[Á aðeins við á Egilsstöðum] Mér finnst Egilsstaðir jafn ljótir á veturnar og þeir eru fallegir á sumrin. Og mér finnst Egilsstaðir með fallegri stöðum landsins á sumrin.

miðvikudagur, 24. desember 2008

Ég óska lesendum þessarar síðu gleðilegra jóla. Öðrum ekki. Ekki segja þeim það samt.

þriðjudagur, 23. desember 2008

Þeir sem þekkja mig vita að ég á mér aðeins einn draum. Einn holdvotan og æsispennandi draum, sem mun líklega aldrei rætast.

Hann er að fara í vatnsleikjagarð, helst í miklum hita og renna mér niður risavaxnar brekkur, öskrandi.

Nú get ég strikað þann draum af listanum því í gær keyrði ég yfir landið í roki, rigningu og flughálku. Aldrei áður hef ég öskrað jafn mikið.

mánudagur, 22. desember 2008

Gærdeginum eyddi ég í að liggja. Deginum í dag mun ég eyða í að sitja. Í bíl nánar tiltekið, keyrandi til Egilsstaða.

Ef eitthvað er að marka línuritin þá mun ég standa á morgun og hoppa á miðvikudaginn. Hlakka til að sjá hvað veldur því.

sunnudagur, 21. desember 2008


Í gærkvöldi fór fram Jólaglögg UMFÁ. Mætingin hefði mátt vera betri en það kom ekki í veg fyrir stórkostlega skemmtun.

Eftir nokkra klukkutíma af drykkjuleik og ehhmm.. skák, var farið niður í bæ þar sem stoppað var í ca 2 mínútur áður en haldið var á Ratatat tónleika á Broadway.

Með betri tónleikum sem ég hef farið á. FM Belfast og Ratatat fóru á kostum og trylltu lýðinn, vægast sagt.

Svo vel skemmti ég mér að ferð minni austur var frestað um sólarhring svo ég geti einbeitt mér að því að liggja.

föstudagur, 19. desember 2008

Eftirfarandi eru uppáhaldstilvitnanirnar mínar þessa dagana:

„Nothing good ever happens after 2 am“
- Mamma Ted Mosby í How I met your mother.

„Að vitna í fólk er líklega það glataðasta sem hægt er að gera eftir klukkan 2 að nóttu“
- Eitthvað fífl sem veit ekkert um hvað hann er að tala.

fimmtudagur, 18. desember 2008

Ég vil gjarnan minna á Ratatat tónleikana á Broadway á laugardaginn næsta. Hér má kaupa miða.

En þrátt fyrir að vilja það ætla ég ekki að gera það. Þess í stað ætla ég að sýna myndbandið við lag Ratatat, Mirando.

Í myndbandinu er æsispennandi senum úr kvikmyndinni Predator breytt í hörku dansiball. Ég vona að það verði svona gaman á tónleikunum:


Ef ég man rétt þá komst ég síðast í jólaskap þegar ég var 12 ára krakki. Það er áhugavert, sérstaklega í ljósi þess að allir krakkar eru heimskir, nema auðvitað skyldmenni mín (vísindalega sannað. Man ekki hvar ég las það).

Ég skal umorða þetta:

Krakkar + jól = jólaskap
Krakkar = Heimska
Heimska + jól = jólaskap
Ég er mjög feginn að komast aldrei í jólaskap og vera þarmeð ekki snarheimskur.

Í framhaldi af þessu má svo fá út að:

Heimska = jólaskap - jól
Hvað sem það þýðir.

þriðjudagur, 16. desember 2008

Þetta samtal átti sér stað nýlega í vinnunni

Ónefndur: Hvenær byrjaði september?
Ég: 1. september.
Ónefndur: ...u...ok.

Ég er mjög mikilvægur hlekkur í keðjunni.

mánudagur, 15. desember 2008

Ef allt annað en ég er undanskilið, þá finnst mér fátt áhugaverðara en ég sjálfur. Þar sem ég hef ekki neitt að segja þá hef ég ákveðið að taka viðtal við sjálfan mig með spurningum úr einhverju viðtali laugardagsblaðs Fréttablaðsins.

1. Hvenær varstu hamingjusamastur?
Síðast þegar það var plokkfiskur í matinn.

2. Ef þú værir ekki viðskiptafræðingur, hvað værirðu þá?
Tölvunarfræðingur. Eða ónytjungur. Jafnvel bæði.

3. Hvað er það dýrasta sem þú hefur keypt þér?
Bíllinn minn. Kostaði 600.000 krónur. 1.200.000 krónur með viðgerðum.

4. Hvað er það versta sem nokkur hefur sagt við þig?
„Þú ert ekki góður maður“

5. Ef þú byggir ekki í Hafnarfirði, hvar myndirðu búa?
Í Reykjavík líklega. Eða Garðabæ. Eða Kópavogi.

6. Uppáhaldsleikari og af hverju?
Cillian Murphy af því ég pissa á mig úr hræðslu þegar ég sé hann. Ef það er eitthvað sem ég hef gaman af þá er það að pissa á mig.

7. Draumahelgin í einni setningu?
Svefn, rækt, bíó, Risahraun og góður félagsskapur.

8. Hvert er versta starf sem þú hefur nokkurntíman gegnt?
Þorskhausaverkunartæknir í Herði, Fellabæ í 3 eða 4 mánuði. Horror.

9. Uppáhaldsstaðurinn þinn?
Rúmið mitt.

10. Hvers konar tónlist hefur mest áhrif á þig og hvaða lag hlustarðu mest á í dag?
Raftónlist. Veridis Quo með Daft punk og Sexual Sportswear með Sebastien Tellier.

11. Ef þú ættir tímavél, hvert myndirðu fara og af hverju?
Til 1984 og sækja um kennarastarf í Finnbogastaðaskóla, Trékyllisvík. Af því bara.

12. Er eitthvað sem heldur fyrir þér vöku á nóttunni?
Svefnleysi. Annars ekkert.

13. Ef þú gætir breytt einhverju í fortíð þinni, hvað myndi það vera?
Ég myndi eyða öllum mistökum mínum, auðvitað.

14. Hvenær fékkstu síðast hláturskast?
Síðast þegar ég horfði á Kenny vs. Spenny, þetta nánar tiltekið.

15. Áttu þér einhverja leynda nautn?
Ég held ekki. Er þá búinn að gleyma henni.

16. Uppáhaldsbókin þessa stundina?
Facebook.

17. Hvaða núlifandi manneskju lítur þú mest upp til?
Framtíðar Finns, því hann mun gera allt rétt.

18. Hvaða núlifandi manneskju þolirðu ekki?
Dennis Miller.

19. Uppáhaldsorðið þitt?
Eða.

20. Hvaða eitt atriði myndi fullkomna lífsgæði þín?
Hamingja, doj.

21. Hvaða einu lagi verður þú að taka "cover" af áður en þú deyrð?
Straight to you með Nick Cave & the bad seeds.

22. Hvaða hlutverk myndir þú verða að leika áður en þú deyrð?
Rambó.

23. Hver verða þín frægu hinstu orð?
„Hvað ætli þessi takki geri?“

24. Hvað er næst á dagskrá?
Rækt, borða og heim að slá inn körfuboltatölfræði.

Ég þakka sjálfum mér fyrir greinargóð svör.

Ykkur er velkomið að svara sömu spurningum í athugasemdum eða á blogginu ykkar, þó ég efist um að nokkur heilbrigður einstaklingur nenni því.

sunnudagur, 14. desember 2008

Ég hef snúið aftur frá Vestmannaeyjum, reynslunni ríkari þar sem UMFÁ spilaði tvo leiki gegn ÍBV í körfubolta.

Í Vestmannaeyjum gerðist eftirfarandi:

* Ég horfði á heilan fótboltaleik. Minn fyrsta í 13 ár. Bláa liðið vann 1-1.
* Ég reyndi að horfa á annan fótboltaleik síðar um kvöldið en heilinn sagði nei.
* Mér var boðið í 18 ára stelpupartí, sem ég afþakkaði einhverra hluta vegna.
* Liðið spilaði stysta og mögulega versta póker allra tíma á laugardagskvöldið. Hann kláraðist á ca hálftíma.
* Ég tók 26 myndir. Þær eru hér.
* Ég svaf í 2ja hæða koju. Góð stemning.
* Ég skemmti mér konunglega.

Æ já. Við töpuðum báðum leikjunum eftir að hafa verið yfir mestallan tímann.

föstudagur, 12. desember 2008

Það er svo margt að frétta að ég veit eiginlega ekki hvar skal byrja.

Þið getið lesið allt um það á mbl.is.

fimmtudagur, 11. desember 2008

Nýr, daglegur leikur á þessari síðu lítur nú dagsins ljós; meiðsl dagsins.

Fyrstu meiðsl dagsins hlaut ég á körfuboltaæfingunni í gær. Getraunin er; hvar á líkamanum eru þau:


Svarmöguleikar:
[ ] Klofið (rangt svar!!)
[ ] Olnbogi
[ ] Hnéið aftanvert
[ ] Vinstra auga
[ ] Ristin

Hér er svarið.

miðvikudagur, 10. desember 2008

Ég hef unnið stór afrek síðustu daga og vikur. Hér eru þau:

1. Ég borðaði tvo fulla diska af hafragrauti í gær. Troðfulla! Ég hef alltaf hatað hafragraut en hann á að vera eitt það hollasta sem þú getur borðað.
2. Ég mætti 22 daga samfleitt í rækt/körfubolta án hvíldardags.
3. Ég borðaði ekkert nammi í gærkvöldi.
4. Ég útbjó 58 sheeta Excelskjal í vinnunni í gær.

Þessi afrek eiga öll sér myrka hlið:

1. Það var það eina sem ég borðaði þann daginn. Sem er ekki nógu hollt.
2. Að taka ekki einn hvíldardag á viku er eins og að bjóða syndinni í kaffi; viðurstyggð. Fyrir utan að ég hef tekið tvo hvíldardaga þessa vikuna og nú er ég feitur og ógeðslegur.
3. Gerði þetta einfaldlega af því ég átti ekkert nammi. Borðaði lýsistöflur af því mér fannst ég greina örlítið sykurbragð af einni þeirra.
4. Það er ekk....hvern er ég að gabba? Þetta skjal er það besta sem hefur komið fyrir mig!

þriðjudagur, 9. desember 2008

Ég var hjá lækni um daginn varðandi mjög aðkallandi vandamál sem... ehmm... frænka mín á við að etja. Hann benti mér á tónlistarmyndband um þetta sama vandamál. Ég þakkaði honum fyrir aðstoðina, borgaði og fór valhoppandi.

Hér er tónlistarmyndbandið með Incredibad:Ég sé ekki hvernig það hjálpar mér frænku minni, en er þó grunsamlega sáttur.

mánudagur, 8. desember 2008

Í dag var ég spurður hvað ég gerði um helgina sem var að líða. Stuttu síðar var kvartað yfir því að þessi síða, þrátt fyrir góða upplýsingaveitu um líf mitt, sé ekki nógu gagnleg.

Ég slæ því tvær flugur með einni mynd:

1. Niðurbrot á því hvað ég gerði um helgina í einföldu kökuriti.
2. Mynd fyrir lesendur að prenta út, lita og senda inn (finnurtg@gmail.com). Best litaða myndin fær opinbert hrós frá mér á þessari síðu og mögulega inn í listaháskóla, að því gefni að hann/hún sæki um.

Það er komið að þriðja hluta sparnaðarráða Finns Viðskiptafræðings:

1. Keyrðu allt.
Því meira sem þú hreyfir þig, því meira þarftu af orku. Til að fá orku þarftu að borða. Matur er rándýr í óðaverðbólgunni.

Bensín er að snarlækka í verði með hverri mínútunni sem líður, gróflega áætlað. Sparaðu peninginn sem fer í að kaupa mat og verslaðu bensín í staðinn. Keyrðu svo allt sem þú ferð, sama hversu stutt það er.

2. Farðu mjög oft til læknis.
Farðu eins oft til læknis og þú mögulega getur. Eftir talsvert háa upphæð áttu rétt á afsláttarkorti frá Tryggingarstofnun sem dugar út árið. Því fyrr sem þú færð afsláttarkortið, því betra.

Eftir það færðu 50% afslátt af öllum læknaferðum.

3. Hættu að eyða peningum.
Rannsóknir hafa sýnt að því minna sem þú eyðir, því meira spararðu, að öllu óbreyttu. Eyddu því minna og ef þú ert heppin(n) þá muntu spara.

föstudagur, 5. desember 2008

Meðleigjandi minn skrapp frá fram á sunnudag. Ég er því einn í íbúðinni þangað til.

Það er fátt þægilegra en að ganga nakinn um íbúðina án þess að verða fyrir aðkasti grátandi, hnífaotandi meðleigjanda.

fimmtudagur, 4. desember 2008

Nokkrar sannar smásögur úr kolsvörtum hversdagsleikanum:

1. Blóðugur miðvikudagur.
Í gærmorgun vaknaði ég með munninn fullan af blóði. Ég veit ekki hvað olli en mér finnst líklegt að ég hafi bitið frekar fast í tunguna án þess að vakna. Ég var hálfan daginn að losna við blóðbragðið. Fín tilbreyting.

2. Yfirheyrt í vinnunni.
Dama 1: Gerðist eitthvað í grey's í gær? Ekki segja mér samt.
Dama 2: ...
Dama 1: Hvað ætlarðu að gera um helgina?

3. Uppgötvun.
Mig langaði í eitthvað að borða í vinnunni í morgun og fór í mötuneytið. Þar sagðist ég ekki vita hvað ég vildi. Þegar afgreiðslustúlkan stakk upp á skyri kastaði ég smá upp í munninn. Það var þá sem ég áttaði mig á því að ég hata ekkert meira en skyr.

Ég þigg fleiri smásögur úr ykkar lífum í athugasemdum.

Ég hlæ mikið af Chuck Norris bröndurum, þó ég viti innst inni að þetta eru harðar staðreyndir. Ég býst við að hláturinn sé í raun mín leið til að höndla þann kraft sem fylgir öllu tengdu Chuck Norris.

Allavega, eitt sinn spurði vinur minn mig:

„Ert þú ekki Excel aðdáandi? Geta þeir haft gaman af Chuck Norris [staðreyndum]? Hvernig?“

Svörin eru einföld:
1. Já.
2. Já.
3. Með hjálp Excel.

En þá kem ég mér að efninu:

Ég slengi hér með fram kenningu um Chuck Norris, sem þarf að sanna. Hún er svo hljóðandi:

„Chuck Norris override-aði ctrl+z shortcut-ið (undo) í Excel með macro sem peistar special-values, af því Chuck Norris gerir ekki mistök.“

Sá fyrsti til að sanna þetta vísindalega (og þar með bæta þessari kenningu við gríðarlegan fjölda Chuck Norris staðreynda) fær Risahraun í verðlaun, að því gefnu að sá hinn sami nái því úr köldum, dauðum lúkum mínum.

miðvikudagur, 3. desember 2008

Ég hef alltaf verið mjög reiður yfir því hlutskipti mínu að hafa minnstu þvagblöðru landsins. Í kvöld náði pirringurinn hámarki, sem olli heimsmeti.

Ég sagði við vin minn að ég ætlaði að pissa í 250 milljónasta skiptið í kvöld. Það voru ýkjur. Ég var í raun að pissa í 3. skiptið síðan ég kom heim úr vinnunni. Svo miklar reyndust ýkjurnar að ég bætti heimsmetið í ýkjum. Ég hafði ýkt pissuferðirnar rúmlega 83 milljónfalt.

Til að lesendur geri sér almennilega grein fyrir ýkjunum er hér mynd, með lógaryþmískum skala, sem ætti að sýna fram á hversu ótrúlegt þetta met er. Svo ótrúlegt að það verður líklega aldrei slegið.

 
Posted by Picasa

þriðjudagur, 2. desember 2008

Það munaði mjög litlu að bíll hefði keyrt yfir mig í dag þegar ég gekk yfir gangbraut. Til allrar hamingju náði ég að stökkva frá í tæka tíð.

Þetta er í þriðja skiptið í dag sem ég lendi í svona háska.

Í nótt munaði engu að ég hefði ekki vaknað. Ég vaknaði þó klukkan 9:00, mjög feginn því að vera á lífi.

Svo munaði engu að ég hefði misst lappirnir þegar ég handfjatlaði sög um miðjan dag. Ég ákvað þó að leggja hana frá mér án þess að saga lappirnar af.

Svona dagar fá mann til að hugsa hve stutt þetta líf er og viðkvæmt.

mánudagur, 1. desember 2008

Desember er loksins byrjaður! Ég hef þó blendnar tilfinningar. Þá tek ég saman smá greiningarvinnu:

Gallar
Reikningar sem éta upp launin og rúmlega það.
Kaldara en áður.
Dimmara en áður.
Jólagjafakaup sem hrópa á lausafjáreyðslu.

Kostir
Ég fékk hjól í súkkulaðidagatalinu mínu.

Niðurstaða
Með betri mánaðarmótum ársins!