þriðjudagur, 31. janúar 2006

Það er tímabært að ég fari að einbeita mér að mikilvægari hlutum en þessari síðu. Kannski byrja ég aftur síðar. Við sjáum til.

Verið sæl að sinni. Takk fyrir lesturinn í gegnum árin.

mánudagur, 30. janúar 2006

Síðustu daga hef ég verið á austurlandi að njóta lífsins. Ég keyrði svo grátlegu afsökuninni fyrir bifreið til Reykjavíkur með mjög slæmum árangri. Meira um það síðar. Minna af bloggi í bili.

fimmtudagur, 26. janúar 2006

Fyrir nokkrum dögum var ég klóraður í kinnbeinið af manni sem hefur unnið að því hörðum höndum að brjóta mig niður andlega í mörg ár. Þetta er ekki í frásögu færandi nema fyrir það að í gærkvöldi náði ég fram hefndum þegar ég klóraði hann til blóðs á hægri fæti um leið og ég kallaði hann öllum illum nöfnum.

Núna er ég semsagt með sár á kinnbeininu og hægri fæti og þessu er hvergi nærri lokið.

miðvikudagur, 25. janúar 2006

Ég var varla lentur á Egilsstöðum í dag þegar mér var tilkynnt að ég er orðinn atvinnunörd. Ég fékk um kr. 99.000 greiddar fyrir að fylla öll eftirtalin skilyrði:

* Vera á viðskiptabraut.
* Vera á 3ja ári í Háskóla Reykjavíkur.
* Eiga mér lítið líf utan námsins og spúsunnar.
* Vera með hæstu meðaleinkunnina á síðustu önn.
* Vera geðsjúkur nörd.

Mjög súrrealískt. Ég vakna sennilega bráðum af þessum fáránlega draumi.

þriðjudagur, 24. janúar 2006

Þetta er að frétta:

* Við Jónas tókum nýlega tilboði um að gera Arthúr einnig á ensku. Sú síða mun opna innan tíðar.

* Ég fer austur á land á morgun, fyrst og fremst til að hitta Soffíu en einnig til að fara í smá ferðalag um landið með henni og koma bílhræinu mínu til Reykjavíkur. Ég býst við því að koma aftur á mánudaginn.

* Mér bauðst nýlega að taka að mér aukakennslu í Hagnýtri Tölfræði I Í HR. Þetta er mikill heiður fyrir mig, jafnvel mestur heiður (núvirt).

* Ég var talinn útlendingur um daginn í 10-11 af tveimur íslenskum ungmennum. Ástæðan er sennilega tignarlegur hýjungur sem var framan í mér. Ég kinkaði bara kolli við því sem þeir sögðu mér til að komast hjá vandræðalegri þögn.

* Ég drap mann um daginn. Með "drepa" á ég auðvitað við að "drekka" og með "mann" á ég auðvitað við "kók".
Margir hafa spurt mig; hversu mörgum myndum sem teknar eru á myndavélarnar þínar, af heildarfjölda mynda þinna, ertu að deila á netinu (í myndaalbúminu) með gestum og vafrandi?

Ég fagna þessari spurningu því þetta gefur mér ástæðu til að koma með smá tölfræði:




Niðurstaða: Ég deili nánast engu með ykkur og minnka myndirnar niður í ca 19% af heildarstærðinni. Sem þýðir í stuttu máli að það er ótrúlegt að þetta blogg sé yfir höfuð til.

mánudagur, 23. janúar 2006

Þá er komið að smá keppni hérna á síðunni. Keppnin felst í því að fara á þessa síðu og skrá sig. Sendið því næst tölvupóst á ph@expekt.com með "CP" í subject línunni. Í bréfinu takiði fram að þið viljið fá 500 króna innistæðu, sem fæst skömmu síðar.

Þá tekur við leikurinn. Veðjið fyrir þessar ókeypis 500 krónur á hvaða leiki sem er og á föstudaginn skrifa allir í athugasemd hvað þeir/þau/þær hafa grætt mikinn pening.

Ég mæli annars ekki með fjárhættuspilum. Þetta er meira skemmtun með "ókeypis peninga".

Góða skemmtun og passið að missa ekki stjórn á ykkur.

p.s. Það er maður með svo mikinn plömmer á næsta borði við mig að mér er óglatt. En það er önnur saga.
Ég má til með að deila fleiru fyndnu með ykkur. Þetta video er með því fyndnara sem finnst á netinu. Það munaði engu að ég hefði fengið blóðnasir af hlátri yfir því. En næringarskorturinn varð á undan í að valda þeim.

sunnudagur, 22. janúar 2006

Olnbogi í öxlina, högg á vitlausa beinið, bolti í augað, misstig á báðum fótum, tognun á þumalputtanum og verkur í hnjánum.

En nóg um körfuboltaæfinguna í gær.
Top 3 lögin á XFM vinsældalistanum frá 18. janúar er eftirfarandi:

1. Richard Ashcroft - Break the night with color
2. Dikta - Breaking the waves
3. Turin Brakes - Breaking the girl

Ef þið viljið semja lag sem slær í gegn, látið eitthvað brotna í því.
Stundum langar mann ekki að gera neitt nema gráta. Stundum langar mann ekki heldur að gera neitt nema hlæja. Ég er í þannig skapi núna.

Kíkið á þetta. Ég öskraði úr hlátri.

laugardagur, 21. janúar 2006

Í dag bjargaði náttúran mér frá bráðum dauða. Planið var að fara í fyrsta sinn á snjóbretti í dag upp í Bláfjöll með Óla og Önnu hans. Þar sem ekki hefur hætt að rigna síðasta sólarhringinn ákváðum við að fresta dauða mínum um ca viku.

föstudagur, 20. janúar 2006

Ég hef kynnt þetta áður en ég má til með að gera það aftur. Dömur mínar og herrar; besta lag í heimi er Red Rain með White Stripes.

Lagið fjallar í stuttu máli um mann sem kemst að því að spúsa hans hefur haldið framhjá honum. Í framhaldinu fer hann og misþyrmir viðhaldinu, fer því næst fyrir utan gluggann hjá kellunni og syngur um hvað hann hefur gert. Snjallt.

Aldrei áður hef ég öskrað með lagi en það gerðist á leið minni úr skólanum í gærnótt, hlustandi á Red Rain.

Smellið hér til að hlusta á það og smellið hér til að lesa textann.

fimmtudagur, 19. janúar 2006

Ég hef bætt við myndum frá nóvember og desember. Aðallega eru þetta myndir frá jólafríinu á Egilsstöðum. Ég vara ykkur þó við; engar myndir eru teknar á skattstofunni (þar sem ég vann í jólafríinu) þannig að þetta er sennilega ekkert spennandi.

Kíkið á myndirnar hér. Munið; þeir sem skrifa athugasemdir við myndirnar fá kannski verðlaun (og kannski ekki).
Ef einhver fyllir þessi skilyrði, hafðu samband við mig:

* Viltu komast til Reykjavíkur einhverntíman á tímabilinu núna - fimmtudaginn 26. janúar næstkomandi?

* Viltu spara þér pening með því að keyra þessa vegalengd?

* Vantar þig bíl til að keyra?

* Viltu keyra bílinn minn frá Egilsstöðum til Reykjavíkur?

* Viltu fá kærar þakkir frá mér, persónulega þegar komið er til Reykjavíkur?

* Viltu jafnvel taka með þér farþega; fallegustu manneskju í öllum heiminum sem er einmitt kærasta mín?

Ef einhver fyllir þessi skilyrði; hafið samband við mig í athugasemdum hér að neðan eða í síma 867-0533 (ath. þetta er ekki sprellfærsla).

miðvikudagur, 18. janúar 2006

Þar sem ég er ekki á bíl í Reykjavíkinni núna fjárfesti ég í gönguskóm. Nú get ég ekki blotnað í fæturnar lengur. Þeir sem þurfa far eitthvað, látið vita. Ég tek í mesta lagi tvo á hestbak í einu.
Halló...

...Reykjavík.
...námsleiði.
...nýjir fjórfarar.
...nýr Arthúr.
...fyrsta þrenna Andrei Kirilenko, hjá Utah Jazz.
...annar sigurleikur Hattar í úrvalsdeildinni.
...bílleysi.
...einsemd.
...söknuður.
...riffill.
...skelfingu lostið fólk.

þriðjudagur, 17. janúar 2006

Þetta er líklega síðasta færslan fyrir ferð mína til Reykjavíkur. Hér, á Egilsstöðum, hef ég nú dvalið í mánuð. Aldrei hef ég haft það jafn gott í jólafríi og nú. En allavega, hér er listi yfir það sem ég hyggst gera í Reykjavík til að drepa tímann næstu dagana:

* Bæta við fjórförum vikunnar.
* Bæta við myndum frá jólafríinu.
* Skrifa mun fleiri bloggfærslur en undanfarið.
* Horfa á þá dvd diska sem ég fékk í jólagjöf.
* Ganga í skólann, alla daga og öll kvöld.
* Ef tími gefst til; læra.

Takk fyrir mig Egilsstaðir og íbúar þeirra. Sjáumst í sumar.
Ég hef gefist upp á því að bíða eftir að veðrið skáni svo ég komist til Reykjavíkur á bíl. Ég hef pantað flug suður á morgun. Hér er því ný spá fyrir morgundaginn:

Allur snjór hverfur af landinu og 20 stiga hiti og sól ríkir um allt land nema í Reykjavík þar sem mun geysa óveður, í ljósi þess að ég er bíllaus.

mánudagur, 16. janúar 2006

Svona er staðan:
* Skólinn er löngu byrjaður hjá mér og ég er að missa talsvert úr náminu.
* Ég þarf að komast til Reykjavíkur undir eins.
* Það er ófært yfir þetta viðbjóðslega land fyrir bifreiðar.
* Einokunarfyrirtækið Flugfélag Íslands selur flugfar á 12.000 krónur frá Egilsstöðum til Reykjavíkur.
* Ég er að missa vitið af pirringi.

Möguleikar og mögulegar afleiðingar:
a) Reyna að keyra þrátt fyrir spánna. Festast og drepast.
b) Fljúga og vera bíllaus í Reykjavíkinni. Fljúga svo stuttu síðar austur og ná í bílinn ef það verður einhverntíman aftur fært yfir landið. Lýsa yfir gjaldþroti eftir ævintýrið.
c) Bíða eftir að færðin lagist til getað komist á bílnum. Falla í öllu og útskrifast aldrei. Enda sem róni á Hlemmi, ef það verður einhverntíman fært aftur til Reykjavíkur.
d) Skrifa bloggfærslu um þessar hremmingar. Ekkert gerist.

Niðurstaða: d).
Ég átti að byrja í skólanum á mánudaginn fyrir viku (9. janúar) en ákvað að fórna fyrstu vikunni fyrir vinnu og annað merkilegra en skóla.

Ég ætlaði svo að keyra af stað í gærmorgun en þá var allt orðið fullt af snjó, í fyrsta sinn í öllu jólafríinu.

Þá ætlaði ég að leggja af stað núna í morgun en þá er óveður á norðurlandinu og ófært á suðurlandinu.

Þá ætlaði ég að fljúga en þá er ekki flogið milli Egilsstaða og Reykjavíkur vegna veður.

Þannig að ég neyðist til að segja mig úr skólanum og vinna hérna á Egilsstöðum, amk þangað til veðrið verður skárra.

föstudagur, 13. janúar 2006

Einkunnir eru komnar úr prófinu. Hér eru helstu niðurstöðurnar:


Dreifing einkunna




Þið sem fenguð undir 50 stig félluð. Þið sem svindluðuð félluð líka.

fimmtudagur, 12. janúar 2006

Svona er ég í tölum:

100%
Hvítur
Karlkyns
Ástfanginn
Vinstri

97%
Dökkhærður

85%
Ánægður

73%
Syfjaður

54%
Egilsstaðabúi (14,5 ár af 27 í Fellabæ/á Egilsstöðum)

50%
Höfundur Arthúrs
Ekki höfundur Arthúrs

33%
Minnisgeta miðað við heilbrigt minni

19%
Trékyllingur (5 ár af 27 í Trékyllisvík)

15%
Óánægður(af því ég er að fara til Reykjavíkur á sunnudaginn)
Eskfirðingur (4 ár af 27 á Eskifirði)

9%
Reykvíkingur (2,5 ár af 27 í Reykjavík)

3%
Gráhærður
Kvefaður
Hallormsstaðabúi (Tæplega 1 ár af af 27 á Hallormsstöðum)

0%
Svertingi
Einhentur

Ef þið, lesendur góðir, eruð með fleiri prósentur sem vanta í þennan lista; skrifið þær í athugasemdir og ég mun bæta þeim við.

miðvikudagur, 11. janúar 2006

Nú fer hver að verða síðastur að taka sjúkraskyndiprófið í þessari síðu. Lesefni fyrir prófið; þessi síða. Gjörið svo vel að taka prófið hér. Í lagi er að skrifa undir dulnefni, svo lengi sem reglunum hér að neðan er fylgt.

ATH. Aðeins má taka þetta próf einu sinni. Bannað er að svindla! Þeir sem brjóta þessar ofureinföldu reglur eru einnig að samþykkja að láta smyrja sig í tjöru og hylja sig með fjöðrum.

Svona er staðan hingað til.
Í nótt dreymdi mig ótrúlega margt og eflaust merkilegt. Ég get þó ekki vitað hvað fór fram í draumunum þar sem mig dreymdi umfram allt að ég var ekki með gleraugun mín og því sá ég ekkert í alla nótt.

Þetta er úrslitaatkvæði í þeirri ákvörðun að fá mér linsur.
Gaman að segja frá því að þessi færsla er númer 2.361. Ég hef bloggað í 39 mánuði sem gera um 60 færslur á mánuði eða tvær á dag. Það er samt ekki ástæðan fyrir því að þetta er merkilegt.

Þetta er merkilegt af því 2+3+6+1 = 12 og 1+2 = 3.

Og það var einmitt í þriðja bekk grunnskólans sem mér datt fyrst í hug að skrifa dagbók. Ótrúlegt.

þriðjudagur, 10. janúar 2006

Í gær fór ég í klippingu. Ég veit ekki hvernig á að orða þetta öðruvísi en að í stólnum hafi ég verið gróflega misnotaður. Ráðist var gegn karlmennsku minni á mjög grófan hátt og gert lítið úr mér svo allir sáu til. Sú gríðarmikla vinna við að gera sjálfan mig að því karlmenni sem ég taldi mig vera er fyrir bí. Aldrei aftur mun ég líta sjálfan mig sömu augum. Aldrei aftur mun ég getað greitt fallega hárinu mínu án þess að hugsa um þetta atvik.

Hárgreiðsludaman notaði sléttujárn í hárið á mér!

Ég ætla að halda áfram að kasta upp.

mánudagur, 9. janúar 2006

Gleðifréttir fyrir samkynhneigða karlmenn og gagnkynhneigðar konur, vondar fréttir fyrir gagnkynhneigða karlmenn og skelfilegar fréttir fyrir lesbíur;

Á venjulegum degi kemst maður í snert við 15 getnaðarlimi með því að koma við hurðarhúna. (Munnleg heimild: Brynjar Már, FM957 09/01/06)

Algjörlega ótengt þessu; ég er hættur að opna hurðir. Ég trúi ekki á það lengur. Einnig mun ég búa í plastblöðru hér eftir.
Áramótaheitið mitt í ár er að brjóta ekki áramótaheitið í ár og hafa meiri trú á sjálfum mér. Það verður erfitt en ég hef trú á því að ég nái því.

sunnudagur, 8. janúar 2006

Það er löngu kominn tími á skyndipróf úr þessari síðu. Gjörið svo vel að taka prófið hér.

Þeir sem ekki mæta í prófið næstu tvo sólarhringa falla án miskunnar. Prófið gildir 10% af lokaeinkunn, sem gefin verður upp þegar síðunni verður lokað.

ATH. Bannað er að svindla. Þeir sem það gera verða ásakaðir um aumingjaskap.
Það er helst að frétta að:

* Ég kynnti pabba fyrir tengdadóttir sinni, Soffíu minni í gær í matarboði á heimsmælikvarða hjá honum.
* Ég rakaði mig í gær í fyrsta sinn síðan á aðfangadag við mikinn fögnuð viðstaddra.
* Viðgerðinni á bílnum mínum er lokið. Hún var svo ódýr, sem segir mér að Lancerinn minn er það ódýr í rekstri að ég get frestað jeppakaupum um önnur 20 ár.
* Ég hef annars ekkert annað gert fyrir utan að sofa og fara í íþróttahúsið að lyfta lóðum, rétt eins og frummaður.

Ég lofa að skrifa eitthvað fyndið þegar eitthvað fyndið gerist eða ég hugsa það. Þangað til; blákaldur raunveruleiki.

föstudagur, 6. janúar 2006

Ég ætla að gefa öllum byrjunarbloggurum holl ráð, þar sem ég hef bloggað í rúm þrjú ár. Ég vildi að ég væri stoltur af því. En allavega, hér eru ráðin:


* Aldrei blogga um fótbolta. Það gerist ekki leiðinlegra.
* Aldrei koma með ráðleggingar um það hvernig aðrir eigi að blogga. Þú verður bara óvinsæl(l).
* Aldrei, undir neinum kringumstæðum, hlusta á ráðleggingar annarra um það hvernig eigi að blogga.

Ef þið farið eftir þessum ráðleggingum ættuð þið að geta haldið úti fínasta bloggi.

fimmtudagur, 5. janúar 2006

Kommentaspurningalistar tröllríða öllu og öllum um þessar mundir. Þar sem ég er mikið fyrir að niðra sjálfan mig hef ég ákveðið að breyta nýjasta listanum örlítið. Vinsamlegast fyllið eftirfarandi út í athugasemdum og ég skal gera það sama við ykkur.

1. Hvenær hittumst við fyrst og hvernig?
2. Hver er minn helsti ókostur?
3. Líkar þér illa við mig?
4. Langar þig að slá mig?
5. Láttu mig hafa niðrandi gælunafn og útskýrðu afhverju þú valdir það!
6. Lýstu mér í einu orði!
7. Hvenær sástu mig síðast?

Ég fyrirgef ef enginn fyllir þetta út.

miðvikudagur, 4. janúar 2006

Í dag tók ég 40,12 lítra af bensíni á bílinn minn. Bíllinn minn er með 40 lítra tank. Þetta þýðir eitthvað af eftirfarandi;

* Essó hefur ruglað lítrateljarann hjá sér til að græða meiri pening.

* Tankurinn hjá mér hefur stækkað og þroskast í gegnum tíðina upp í 50 lítra tank.

* Bíllinn hefur löngu verið orðinn bensínlaus. Ég fattaði það bara ekki.

* Bíllinn eyðir bensíni þegar slökkt er á honum og var þegar búinn að eyða rúmum 0,12 lítrum við dælinguna.

* Ég er geðveikur og þetta gerðist aldrei.
Í ljósi jólafrís, sem felur í sér 8 tíma vinnudag á skattstofunni og daglegar lyftingar auk þess sem ég er að einbeita mér að öðru mikilvægara, hef ég ákveðið að notast við sérstök neyðarlög Veftímaritsins en þau fela í sér, á meðan lögunum er beitt;

* Að ég skrifa aðeins eina færslu á dag í stað tveggja.
* Færslur sem rata hingað þurfa ekki að vera fyndnar eða áhugaverðar.
* Lesendur síðunnar hafa engin mannréttindi lengur.
* Skjóta fyrst, spyrja seinna eða aldrei.
* Þeir sem ekki samþykkja þessi lög eru föðurlandssvikarar og skulu þeir fordæmdir af samfélaginu.

Talið er að þessi lög verði ekki lengur við lýði um miðjan janúar. Því miður.

þriðjudagur, 3. janúar 2006

Í gær gaf allt til kynna að ég væri töffari. Hér eru nokkur dæmi:

* Ég var með hárið allt upp í loft.
* Ég var með tvær skrámur í andliti. Annars vegar þvert yfir aðra kinnina og hinsvegar á neðri vörinni.
* Það blæddi úr hendinni á mér.
* Ég snarhemlaði á bíl mínum án þess að vera að keyra á neitt og skapaði þannig mikinn hávaða.
* Ég blótaði hátt og snjallt svo margir heyrðu.
* Ég meig yfir útigangsmann Egilsstaða.

Hér eru þó ástæðurnar fyrir þessum töffarastælum:

* Ég fór að sofa án hárgels í hausnum og vaknaði of seint í vinnuna = hár upp í loft.
* Ég klóraði mig ekki einu sinni heldur tvisvar í framan með nögl, sem fékk að fjúka skömmu síðar.
* Við naglaklippingu klippti ég of nálægt húðinni = blæddi úr hendinni á mér.
* Bíllinn minn ákvað sjálfur að snarhemla á leið í vinnuna og telst hann núna bilaður og ógangfær. Ónýtir bremsuborðar að sögn sérfræðinga.
* Ég blótaði þegar ég komst að því að bíllinn var óökufær.
* Ég þurfti að pissa og mér er illa við útigangsmann Egilsstaða.

Þannig að það er rökrétt útskýring fyrir öllu. Það vita allir að ég er álíka töff og tepoki.

mánudagur, 2. janúar 2006

Hér er það helsta sem gerðist hjá mér á árinu 2005:

Janúar
* Fékk nýja úlpu. Oki bláu úlpunnar lokið.
* Missti disk í mötuneyti HR. Mjög vandræðalegt.
* Fékk tryllta ælupest sem entist í tvo og hálfan dag og kostaði mig 5 kg.
* Stofnaði gsmbloggsíðuna.
* Ritaði minn fyrsta pistil í Austurgluggann.

Febrúar
* Skipti yfir í Vodafone símafyrirtækið.

Mars
* Annar pistill fyrir Austurgluggann saminn og birtur.
* Hundleiðinlegur mánuður.

Apríl
* Kenndi fólki bjarna- og bolabreiðu fyrir próf í HR (minn fyrsti 'dæmatími')
* Pantaði mér ný gleraugu.

Maí
* Þriðji og síðasti pistill skrifaður fyrir Austurgluggann og birtur.
* Fór austur að vinna á Skattstofu Austurlands.

Júní
* Leigði með Esther Ösp á Egilsstöðum.
* Hóf lyftingar. Fyrst með Guggi og síðar með Soffíu.
* Hóf bandýspilun.
* Yfir 250 tímar unnir á skattstofunni.
* Keypti prótein og annað tengt fyrir kr. 17.000.

Júlí
* Eins dags frí á vinnubrjálæðinu. 42 vinnudagar í röð komnir.
* Keppti í austurlandsmóti í bandý. Lenti í öðru sæti með Soffíu og Karólínu í liði.
* Átti minn besta afmælisdag hingað til.

Ágúst
* Eignaðist kærustu og það enga venjulega; Soffíu Sveins.
* Stofnaði Arthúr myndasögurnar með Jónasi.
* Fór í ferð um landið með Soffíu og Sigrúnu Önnu.
* Verslaði mér nýja myndavél.
* Verslaði mér lénið rassgat.org
* Yfirgaf austurlandið fyrir Reykjavík, 8 kílóum þyngri og nánast skuldlaus.
* Keyrði í fyrsta sinn í Reykjavík á vínrauðu þrumunni.

September (Nördamánuðurinn)
* Stofnaði nýja myndasíðu.
* Stofnaði nýtt spjallborð.
* Stofnaði nýja fjórfarasíðu.
* Skráði mig í skákklúbb HR.
* Grein um okkur Jónas birtist í DV, vegna Arthúrs.
* Skipti yfir í símafyrirtækið Síminn hvað gsm þjónustu varðar.
* Keppti með UÍA á Íslandsmeistaramótinu í Bandý. Við lentum í 4. sæti.
* Ritaði smá sprell pistil um launajafnrétti kynjanna við góðar undirtektir kvenna.

Október
* Styrmir bróðir eignast sitt annað barn með Lourdes, konu sinni.
* Opnaði tónlistarsíðu með Garðari. Þarfnast uppfæringar.
* Lært!

Nóvember
* Fór á White Stripes tónleika með Soffíu. Bestu tónleikar sem ég hef farið á.
* Ég, ásamt ca 45 öðrum, hélt ráðstefnu í HR með góðum árangri.
* Endanlegur tvífari minn finnst.
* Byrjaði að keppa í utandeild Breiðabliks í körfubolta með Forsetanum, liði Álftarnes.

Desember
* Keypti mitt fyrsta belti. Eitthvað sem ég hef þurft í, á að giska, 94 milljónir sekúnda.
* Fór austur á land. Vann á skattstofunni í fríinu.
* Fékk mína hæstu meðaleinkunn; 8,8 fyrir önnina.
* Átti mín bestu jól frá upphafi fyrir tilstilli Soffíu.

Í grófum dráttum;

Ég hef aldrei...
...unnið jafn mikið á jafn stuttum tíma og í sumar.
...lyft jafn mikið af lóðum.
...verið jafn upptekinn á einu ári.
...verið tekinn jafn oft af lögreglunni fyrir of hraðan akstur.
...verið jafn gamall og ég er núna.
...fengið jafn háa meðaleinkunn.
...áður verið fullkomlega ánægður með lífið.

sunnudagur, 1. janúar 2006

Ég þakka öllum fyrir árið sem nú er ný liðið. 2005 var mitt besta ár hingað til. Ég vona samt að nýja verði betra, enda er ég þekktur fyrir að vera oboðslega gráðugur.

Til hamingju með nýja árið.

Á morgun birti ég lista yfir það sem gerðist á árinu hjá mér í aðalatriðum.