sunnudagur, 29. febrúar 2004

Í körfuboltanum í gær fékk ég mitt annað glóðarauga um ævina þegar ég renndi mér eftir bolta sem ég hafði slegið úr höndum sóknarmanns, hvers nafn fylgir ekki sögunni. Glóðaraugað sem ég fékk í gærkvöldi væri ekki í frásögu færandi nema fyrir að það er staðsett á framhandleggnum á mér, ótrúlegt nokk.
Myndir voru teknar af glóðarauganu en í framköllum kom í ljós að þær eru yfirlýstar og því ónothæfar á jafn virðulega síðu sem þessa.
Í gærkvöldi sá ég frönsku myndina Irréversible með gyðjunni Monica Bellucci í aðalhlutverki. Myndin er mjög sérstök fyrir margar sakir, þó sérstaklega ótrúlega gróft ofbeldi og furðulega myndatöku fyrstu ca 30 mínúturnar. Ég get eiginlega ekki sagt um hvað myndin er því hún er aftur á bak eins og Memento, þó svo að það hafi verið meiri tilgangur með því að hafa Memento aftur á bak.
Þessi mynd kallaði á fjöldamörg viðbrögð hjá mér, m.a. ógleði, hrylling og skelfingu en líka mikla hamingju því Monica Bellucci kemur fram nakin í henni. Einnig var talsvert um vonbrigði þar sem frú Bellucci reyndist vera með gríðarstóran rass en það er önnur saga.
Mjög fín mynd sem ég mæli með fyrir fólk sem þjáist af krónískri fíkn í fáránlega mikið ofbeldi, sem ég reyndar þjáist alls ekki af. 3 stjörnur af fjórum.

Þið sem viljið vita hvað gerist í henni lesið áfram. Þið hin, hættið að lesa núna.
Í myndinni var eitt ógeðslegasta atriði í sögu bíómyndanna en þar er andlit manns barið í mauk með slökkvitæki og það er sýnt í nærmynd, högg eftir högg rétt á eftir að handleggur á manni er brotinn með hjálp hnés. Þetta gerist fyrsta hálftímann og mér varð hálfóglatt. Síðar kom í ljós að fyrsta hálftímann af myndinni hafi leikstjórahelvítið sett hljóð sem heyrist varla en veldur ógleði hjá mönnum og dýrum.

laugardagur, 28. febrúar 2004

Eftirtalið hef ég aldrei gert og mun aldrei gera um mína stórkostulegu ævi:

1. Kaupa jeppa.
2. Drepa mann (veit ekki með konu).
3. Stunda kynmök með karlmanni.
4. Kaupa smokka í Bónus.
5. Kaupa reykskynjara í Bónus
6. Reykja.
7. Drekka útrunna mjólk meðvitað.
8. Raka gegn skeggrótinni.
9. Lenda í slagsmálum.
10. Aflita á mér hárið.

Þetta er að sjálfsögðu fullkomlega tæmandi listi. Allt annað kemur sterklega til greina.

föstudagur, 27. febrúar 2004

Í kvöld býsnaðist ég yfir því hversu illa hnífur heimilisins bítur á hráu kjöti en ég var í þann mund að afbeina steikarbita sem síðar endaði í skolti mínum. Þegar ég hafði þvegið hnífinn lagði ég hann, ómeðvitað, blautan í hólf á bekknum svo hann stóð beint upp í loftið. Það kom sér vel að hann skar hrátt kjöt illa því ég ætlaði mér að sækja glasið mitt á svipað svæði stuttu seinna þegar ég rak hendina í hnífinn. Bitið var þó nægilega gott svo að hnífurinn stakkst á kaf í litla fingur og er ég slasaður maður í dag. Ég hrósa þó happi að hafa ekki verið að ná í eitthvað með munninum því þá væri ég sennilega eineygður núna.
Ef einhver getur sagt með tvennt þá skal sá hinn sami verða verðlaunaður í bak og fyrir.

1. Af hverju er ég með lagið "all is full of love" með Björk í hausnum á mér þegar ég man ekki eftir að hafa heyrt lagið nema ca einu sinni um mína stórbrotnu ævi.

2. Hvernig í fjandanum geri ég músarborðið óvirkt á þessari fartölvu? Ég rek þumalputtann ótrúlega oft í þetta sem veldur því að ég birtist einhversstaðar annarsstaðar í skjalinu. Þetta er mjög leiðinlegt þegar kemur að verkefnavinnu en síðustu 4 sólarhringa hef ég búið í skólanum, vinnandi verkefni með þennan óþolandi galla.

Þessi vika allavega að vera búin og ég er að hugsa um að slappa af um helgina. Þetta verður þá fyrsta helgarfríið mitt frá því ég kom hingað til Reykjavíkur í ágúst 2003.
Nýji broskallaleikur Vífilfells er áhugaverður svo ekki sé meira sagt. Í honum á maður að safna fimm gulum broskallatöppum af kók og skila þeim inn á bensínstöð til að fá hálfan lítra af kók ókeypis. Þegar ég sá þetta vöknuðu upp tvær áleitnar spurningar:

1. Fer Icelandair ekki í bullandi mál við Vífilfell þar sem þeir fóru í mál við Iceland Express fyrir að nota broskall í auglýsingu fyrir stuttu síðan. Þeir eiga jú einkaréttinn á brosköllum.

2. Verður ekki allt vitlaust í endurvinnslustöð Stólpa þar sem allar kókflöskur verða tappalausar til 1. maí 2004 en þá lýkur þessum leik? Það fer sennilega allt á flot eftir að hálftómum kókflöskum er hent, tappalausum og vinnuskilyrði þarmeð orðin ansi erfið svo ekki sé meira sagt.

Markaðsfræðingar Vífilfells hefðu betur hringt í mig áður en þeir komu með þessa hugmynd. Ég hefði t.d. komið með þá hugmynd að hækka verðið á kók um helming til að tvöfalda tekjur félagsins þar sem fólk virðist vera ömurlega ánetjað þessu sykursulli. Ég er að sjálfsögðu engin undantekning, andskotinn hafi það.

fimmtudagur, 26. febrúar 2004

Ég vann til klukkan 2 í nótt til að klára ca 25 blaðsíðna skýrslu fyrir rekstrarbókhaldsáfangann. Þegar því var lokið náðist mynd af mér en eins og sést á henni var ég býsna þreyttur og búinn að sitja aðeins of lengi við tölvuna eða um 14 tíma þann daginn enda verkefnið unnið á excel að mestu.
Allavega, hér er myndin. Ekki láta ykkur bregða.

miðvikudagur, 25. febrúar 2004

Þegar ég loksins kom heim í gærkvöldi til að dvelja yfir nóttina hafði skóladagurinn náð að spanna 36 klukkutíma. Ég er mikill tölfræðiáhugamaður og því kemur hér smá tölfræði yfir þennan umtalaða skóladag:

2 tímar fóru í að tefla
3 tímar í að þvælast á netinu
0,5 tími í klósetferðir
1 tími í að borða
1 tími í pásu heima
2 tímar í afslöppun eftir próf
1 tími alls í MSN spjöll
1 tími alls í að stara út í loftið
4 tímar að mæta í tíma
0,1 tími í símtöl
----------
15,6 tímar alls.

og því:

20,4 tímar alls í heimadæmi.

Gaman af því.

þriðjudagur, 24. febrúar 2004

Ef þú ætlar að gefa tveimur eða fleiri stelpum sem heita Anna gjöf saman skrifaru þá ekki "Til Anna" á gjöfina (eða "Til Annanna" ef þú vil hafa greini en það er önnur saga)? Það má því segja að ef margar Önnur valda einhverjum atburði þá er atburðurinn "vegna Anna", rétt? Er þá verið að meina að fullt af stelpum komi í veg fyrir för þegar einhver kemst ekki eitthvað sökum Anna?
Eða þýðir þetta bara að ég hef ekki sofið nema hálftíma síðustu þrjátíu tíma rúmlega?
Í morgun klukkan 9:30 lauk tuttugu og fjögurra tíma veru minni hérna í skólanum þegar ég fór heim á tungveginn eftir próf í rekstrarbókhaldi. Hafði ég þá verið hérna frá 9:30 í gærmorgun að læra fyrir þetta umtalaða próf. Prófið var þó með þeim auðveldari sem ég hef tekið þátt í. Allavega, ég stoppaði stutt við heima, sofnaði í ca þrjátíu mínútur eða þar til tími var kominn til að fara í næsta tíma. Nú tekur við verkefnavinna en uppgjör mitt í rekstrarhagfræðiverkefninu stemmdi ekki og er það miður. Haldið áfram að kíkja hingað, fleiri fréttir af þessu æsispennandi verkefni á leiðinni!

mánudagur, 23. febrúar 2004

Ég var að fá skráningu mína í bloggaraskránna staðfesta. Skoðið mig endilega í skránni.
Síðasta föstudag skilaði ég inn verkefni í upplýsingatækni sem ég hafði unnið síðustu rúmlegu vikuna. Í dag er ég að vinna skilaverkefni fyrir rekstrarbókhald og á morgun er lokapróf í þeim áfanga sem ég mun læra fyrir í nótt, eftir að hafa unnið eins og ég mögulega get í verkefninu í dag og kvöld. Á miðvikudaginn er svo smápróf í fjármálum fyrirtækja sem ég mun læra fyrir á morgun og á föstudaginn á ég að skila inn stórum verkefnum fyrir þjóðhagfræði og fjármálum fyrirtækja auk áðurnefnds rekstrarbókhaldsverkefnis.
Fyrir utan þetta hef ég alls ekki neitt að gera.
Valli tvíburi og frændi minn er í heimsókn á Tunguvegi 18. Ég hitti hann stutt í gærkvöldi eftir að hafa eytt deginum í skólanum að læra og tókum við tvær skákir. Við tefldum upp á hlekk á blogg hvors annars og ís upp á kr. 700. Til að gera leiðinlega sögu stutta þá notast Valli við Norðfjarðarmottóið í skák, "ef ekkert er að gerast, dreptu þá næsta (skák)mann" sem er frekar slæmt skákviðhorf (en þrusu lífsviðhorf) og tapaði hann því báðum skákum. Ég át því ís, slepp við að gefa honum hlekk og fæ þar að auki hlekk frá honum.

sunnudagur, 22. febrúar 2004Hér er stjórnandi þáttarins; Jórunn Möller.


Hér eru nokkur tækniatriði sem ég vil fara í gegnum með ykkur í hinum vikulega þætti veftímaritsins: nýjustu vísindi og tækni:

1. Þegar þið skráið athugasemdir (comment) við hverja færslu og eruð með heimasíðu, munið að hafa 'http://' fyrir framan www.síðunaþína.com því öðruvísi tenglast hún ekki.

2. Þið sem eruð með hlekk á síðuna mína af ykkar sem http://www.finnur.tk, vinsamlegast breytið honum í http://finnurtg.blogspot.com. Þetta auðveldar mér að sjá hverjir eru með hlekki á mig svo ég geti launað greiðann.

3. Ég fór með vitleysu um daginn þegar ég útskýrði fyrir ykkur hvernig eigi að tengla á færslur hérna. Það rétta er að þið þurfið að fá ykkur haloscan trackback, smella á tilvísunarhlekkinn (á síðunni minni), kópera hlekkinn þar, skrá hann í manage trackbacks á haloscan reikningnum og voilá, þið fáið talsvert af heimsóknum af síðunni minni. Einfalt? Ég fékk mígreniskast við að læra þetta og kastaði einu sinni upp blóði. Þið getið líka bara skrifað í commentin hjá mér að þið hafið bætt við hlekk á mig og ég get skráð þetta fyrir ykkur.

Fleira var það ekki í nýjastu vísindum og tækni að sinni. Veriði sæl.
Ég, í samráði við sænska vísindamenn, er kominn með nýja ályktun. Hún er eitthvað á þá leið að það sé hægt að mæla fegurð eða skemmtilegheit hvers og eins með einfaldri aðferð. Telja skal smsin sem viðkomandi fær að meðaltali á dag, nettó (þeas þau sms sem þú færð mínus þau sem þú sendir) og fara svo eftir töflunni hér að neðan (ATH. þessi ályktun er enn á framleiðslustigi):Tafla unnin af félagi áhyggjufullra vísindamanna.


Þeir sem ekki eiga gemsa eru fyrir neðan núllið, eða giftir.

*Breytt í kjölfar athugasemda frá vísindamanninum Hjalta Jóni*
Ég vil gjarnan óska öllum kvenmönnum til hamingju með daginn en í dag er konudagur. Sjálfur umgengst ég ekki konur daglega þannig að ég verð að óska þeim til hamingju í gegnum þessa forlátu síðu.

laugardagur, 21. febrúar 2004

Upp á síðkastið hefur mér fundist ég vera að gleyma einhverju en ekki alveg náð að festa fingur á hvað það er. Það var svo í dag, eftir að Maríkó brosti næstum því til mín í skólanum, að ég fattaði hvað það var. Ég var að þvo mér um hendurnar þegar mér var litið upp og sá þar hellisbúa. Við nánari eftirgrenslan og nokkrar fyrirspurnir komst ég að því að þessi hellisbúi var ég sjálfur, holdi klæddur. Þegar ég svo kannaði málið enn frekar kom í ljós að ég hef ekki rakað mig í næstum tvær vikur og ekki farið í almennilega klippingu síðan í ágúst 2003. Ég kýs að nota þetta sem afsökun fyrir skorti á kvenhylli það sem af er ári. Ég mun þó hvorki skerða hár mitt né skegg fyrr en það er farið að valda öðrum skaða, líkamlegum eða andlegum.
Ekki óttast þó að það standi tilvísanir (og líklega 0 í sviga á eftir) fyrir neðan hverja færslu héreftir. Ég var nefnilega að fá mér tilvísunarkerfi fyrir þessa síðu sem segir mér hvaða heimasíður eru að vísa í hvaða færslur, ef einhverjar.
Ég vona að þetta rugli engan í ríminu, þið smellið áfram í athugasemdatakkann og skrifið allt sem ykkur dettur í hug.

Ef þið hinsvegar eruð með heimasíðu og viljið hlekkja á einhverja færsluna hérna smellið þið einfaldlega á tímann (vinstra megin við athugasemdasmelluna) og fjölfaldið svo urlið sem kemur efst í gluggann. Urlið setjið þið svo á síðuna ykkar. Þannig fæ ég fleiri heimsóknir og þið líka, því ykkar heimasíða mun birtast í tilvísunarkerfið. Flókið? Ef þér finnst það ertu ekki gáfum gædd(ur). En þið hin; Etum, drekkum og vísum í síður hvors annars!

föstudagur, 20. febrúar 2004

Ég tók verstu ákvörðun ævi minnar í dag. Hún var að fara í bónus að versla um klukkan 17:00, á þessum föstudegi. Planið var að versla hressilega inn og lifa eins og kóngur en ég hætti snarlega við það þegar ég varð vitni að hópslagsmálum í versluninni. Ég slapp þó út með head and shoulders risabrúsa, hárnæringu (með 50% ókeypis viðauka), tvö súkkulaðistykki, hárlokk og blóðnasir.
Í dag á ekki ómerkari maður en Björgvin Gunnarsson, skáld og bróðir minn, afmæli. Til hamingju með afmælið. Þið sem lesið þetta getið óskað honum til hamingju með daginn hérna eða bara farið hingað og skrifað eitthvað sniðugt.

Alveg eins og í fyrra þá finnst mér rétt að taka það fram að Kurt Cobain hefði líka átt afmæli í dag ef hann hefði lifað af morðið á sér. Hann hefði orðið 37 ára.

fimmtudagur, 19. febrúar 2004

Ég spurði mig rétt í þessu "Hvernig getur kaffilykt verið svona góð þegar kaffi bragðast vægast sagt illa?" og klóraði mér í fyndnu skeggrótinni minni. Stuttu seinna kom önnur spurning askvaðandi í hausinn á mér; "hvernig getur hársápa lyktað svona vel en bragðast svona illa?" og stuttu seinna kom þriðja spurningin; "Af hverju blogga ég ekki um þetta?".
Það var þá sem ég áttaði mig á því að það myndi vanta eitthvað fyndið í endann ef ég ætlaði að blogga um þetta. Ennfremur áttaði ég mig á því að ég hafði verið búinn að stara á sömu setninguna í skólabókinni í rúmar 25 mínútur.
Enn eina ferðina er komið að fjórförum vikunnar. Að þessu sinni eru það allt drottningar internetsins sem urðu fyrir valinu. Þær eru eftirfarandi:
Bylgja nokkur Borgþórsdóttir (þessi til hægri).
Pamela Anderson.
Óþekkt drottning í Reykjavík síðustu helgi.
Bleik átta, á hlið... og með geirvörtur.


Þetta er *brjóst* alls ekki *brjóst* illa meint færsla. *brjóst*Það vill bara *brjóst*svo leiðinlega til að við *brjóst*strákarnir getum ekki gert*brjóst* að því hvað við*brjóst* hugsum. *brjóst**brjóst**brjóst*.

*brjóst*.

miðvikudagur, 18. febrúar 2004

Nýlega fékk ég tölvupóst frá höfundi þessarar síðu þar sem hann þakkar kærlega fyrir hlekkinn á síðuna sína. Hann vildi gjarnan lesa mína síðu sem ég lái honum ekki en þar sem hann er frá Bretlandi og talar bara bretlensku þá ákvað ég að þýða þessa síðu mína á hans, ef eflaust margra annarra, tungumál. Ekki nóg með það heldur fannst mér frekar fyndið að þýða þessa síðu líka á finnsku og gerði ég það því.

Héðan í frá mun ég þýða allar mínar færslur á bæði finnsku og ensku. Ég vara ykkur þó við, ég er ekki mjög góður í enskunni. Ég er þeim mun betri í finnskunni og skora ég á ykkur að afsanna það. Það er þó betra að segja frá því strax að ég svindla smá og nota glænýja orðabók við ensku síðuna.

Hér getið þið lesið síðuna á ensku.
Hér getið þið lesið síðuna á finnsku.

ATH. Verið þolinmóð á þessa hlekki. Þeir hlaðast ekki alltaf í fyrstu tilraun. Veljið refresh ef tilkynning birtist um að aðsóknin í síðuna sé of mikill.
Í ljósi þess að ég hef sofið helst til of lengi síðustu tvo morgna ákvað ég í gærkvöldi að setja sjö vekjara í gemsann minn svo ég myndi örugglega vakna á réttum tíma. Til að gera langa sögu stutta þá þrýsti ég alls 14 sinnum á snooze takkann sem er persónulegt met. Ég vaknaði samt í tæka tíð fyrir skólann og gaf mér meira að segja sjö mínútur til að lesa fréttablaðið.

Að öðru ekki svo óskyldu; ég held mér líði aldrei verr en þegar ég hleyp á eftir strætó, af öllum hlutum.
Það er ágætis merki um að þú hafir það nokkuð gott þegar þú þarft að taka tvær fartölvutöskur með fartölvum í úr tölvusætinu svo hægt sé að komast í borðtölvuna, sem er ADSL tengd, þráðlaust eins og fimm fartölvur hússins.

Þetta kom einmitt fyrir mig í gær og ég er "fátækur" nemi.

þriðjudagur, 17. febrúar 2004

Af hverju eru ártöl ekki skrifuð með þúsundarpunkti? Við skrifum 2004 en ekki 2.004. Skrítið.. eða var það skrýtið?
Á föstudaginn síðasta, eftir að hafa eytt kvöldinu í að þvo þvott, komst ég að því þegar ég braut saman þvottinn og sorteraði að síðustu þrír (alltaf oddatala!) gráu sokkarnir mínir voru komnir með gat. Þarmeð líkur gráa sokkatímabilinu sem staðið hefur yfir frá því í september 2000 þegar ég keypti 10 stk. gráa sokka í kaupfélaginu á rúmar 890 krónur. Tímabilið hefur einkennst af furðulegum drykkjuávörðunum, kvenmannsleysi og gráum sokkum.
Við tekur svart sokkatímabil sem mun vonandi verða allt sem gráa sokkatímabilið var ekki.

mánudagur, 16. febrúar 2004

Síðustu daga, í lærdómspásum, hef ég verið að dunda mér við að fikta í myndum af skyldmennum og sjálfum mér. Hér getið þið séð afraksturinn:

Björgvin bróðir

Tom Cruise frændi

Eiki frændi - óbreytt mynd

Helgi bróðir

Ég

Ég hef svosem ekkert meira um þetta að segja.
Lífi mínu utan skólans er lokið þar sem spóla flæktist um daginn í videotækinu mínu. Þetta umrædda videotæki, sem er Samsung gerðar, hefur haldið mér á lífi síðustu mánuði þar sem ég hef notað það á hverju kvöldi áður en ég fer að sofa. Tilhugsunin ein um að leigja mér spólu á föstu- eða laugardagskvöldum hefur hingað til einnig haldið mér gangandi á meðan ég vinn ofsalega leiðinleg verkefni í skólanum en ekki lengur. Ó vei mér! Hvers á ég, saklaus sveitastrákurinn, að gjalda?

sunnudagur, 15. febrúar 2004

Eftirtaldir atburðir hafa átt sér stað í dag eða munu eiga sér stað í kvöld:

- Heilsuátak hófst
- Drakk 2,5 lítra af vatni með lærdómnum
- Borðaði ekkert nema döðlur í dag og nóg af þeim
- Kláraði skilaverkefni að mestu
- Fékk í bakið ofanvert
- Heilsuátaki líkur
- Fer á American Style að borða

Ég er ekki frá því að þetta heilsuátak hafi gert mér gott.
Ég hef haft lítinn tíma til að skrá niður hugsanir mínar að undanförnu eins og lesendur geta séð á færslum síðustu daga en þar er mikið um hlekki og annað ómerkilegt. Ástæðan er einföld, skólinn er að drepa mig og þráðlausa netið heima er ekki að virka sem skildi. Þar sem ég er staddur í skólanum eins og er, vinnandi skilaverkefni í upplýsingatækni þannig að lítill tími gefst til að skrá eitthvað af viti þá ætla ég að hlaupa hratt yfir sögu síðustu daga.

Á föstudaginn var ég í skólanum til ca 9 um kvöldið þegar ég fór heim og eldaði mér dýrindis máltíð. Ef það fyrsta sem ykkur datt í hug var spaghettí og hakk þá hafið þið rétt fyrir ykkur. Eftir mat voru heimsins vandamál rædd við Markús, Víði og hans frillu, Evu.

Á laugardaginn ókum við Guggur galvaskir á Álftanes til að spila körfubolta en þurftum að snúa til baka þar sem NBA leikmaður var að nota salinn til að skrá nafn sitt á blað fyrir krakka. Þetta olli því að ég var frekar stúrinn það sem eftir var dags en reyndi þó að fara í skólann og læra. Eftir ca klukkutíma í skólanum var farið að fara í keilu með Guggi, Kristjáni bróðir hans og Markúsi. Markús vann kippupottinn.

Í dag er ég að vinna skilaverkefni eins og áður segir og verð að því langt fram á kvöld.

Ég biðst afsökunnar á þessari geðveikislega leiðinlegu færslu.

laugardagur, 14. febrúar 2004

Þá er komið að enn einum top 5 listanum mínum, en þeir lifðu góðu lífi fyrir rúmu ári síðan þegar ég birti lista yfir ca allt. Að þessu sinni eru það 5 uppáhalds gamanmyndirnar mínar, þ.e.a.s. myndir sem ég get hlegið endalaust að, ekki bara einu sinni. Þær eru eftirfarandi (og ég tel niður):

5. UHF - Hélt að hún myndi eldast illa. Mér skjátlaðist.
4. Dumb and dumber - Klassísk.
3. Austin Powers 1 - Ég grét úr hlátri í fyrsta sinn sem ég sá hana og geri enn.
2. Office Space - Hittir gjörsamlega naglann á höfuðið.
1. The Big Lebowski - Hef séð hana oftar en nokkra aðra mynd að seven, contact og the trumanshow.

Þetta er eins og margir sjá allt bandarískar myndir sem er mjög furðulegt þar sem ég hélt að mér þætti breskur húmor mun betri.

föstudagur, 13. febrúar 2004

Ég hef oft heyrt um að í ýmsum lögum sé djöfladýrkendaboðskapur eða eitthvað þaðan af verra ef þau eru spiluð aftur á bak og í hvert einasta skipti hef ég slegið viðkomandi rógbera beint í andlitið.
Ég neyðist til að biðja fjöldan allan afsökunnar á framferði mínu þar sem ég var að finna þessa síðu en þar er hægt að greina djöfladýrkun í lagi Led Zeppelin, sé það spilað aftur á bak. Eitt það magnaðasta sem ég hef séð og heyrt síðustu ár.
Þá er komið að fjórförum vikunnar. Að þessu sinni er um að ræða tvo fræga karaktera og tvö stykki hross.
Meistari FM hátíðarinnar: Jónsi úr svörtum fötum.
Meistari alheimsins: He-man.
Meistari brokksins: Merin Stjarna frá Bakka.
Meistari Fellabæjar: Helgi Gun.


Sennilega betra að segja að þetta er bara létt spaug og alls ekki illa meint. Ekki vil ég að he-man komi og ræði við mig rólega um skaðsemi svona fjórfara. Ennfremur vil ég benda fólki á að hafa samband ef það hefur hugmyndir um fjórfara en kann ekki að koma því í framkvæmd, nú eða ef það vill segja mig líkan einhverjum, einhverri eða einhverju.

fimmtudagur, 12. febrúar 2004

Ég vil gjarnan benda vinum og vandamönnum að ef það vill mynd af sér í snatri þá mæli ég með því að slá inn finnur.tk í myndaleit google.com síðan smella á að endurtaka leit með síðum sem sleppt var og sjá; reiðinnar býsn af myndum frá austurlandi.
Það var fyrir einskæra tilviljun að ég gerði mig ekki að fífli um daginn þegar ég tók strætó númer 6, eins og venjulega, í skólann. Hópurinn minn átti að halda smá kynningu á fyrirtæki sem við hyggjumst gera markaðsáætlun fyrir á önninni og því var ég í jakkafötum þarna í strætó. Það kom mér skemmtilega á óvart að í strætónum var jakkafatadagur þennan daginn þar sem þær fáu hræður sem voru fyrir í strætóbifreiðinni voru líka í jakkafötum. Ekki nóg með það því á næstu tveimur stoppistöðvum bættust við fjórir jakkafataklæddir menn. Ég var nokkuð ánægður með mína sjaldgæfu heppni að þessu sinni en ég veit þó að eitthvað slæmt mun gerast næstu daga til að vera upp á móti þessu.

miðvikudagur, 11. febrúar 2004

Í einni af mínum fjölmörgu lærdómspásum í dag fann ég þessa síðu. Ég hef sjaldan hlegið jafn hátt eða snjallt og þegar ég sá þessa frétt t.d.
Ég mæli með því að fólk taki sér góða pásu og lesi allar fréttirnar á síðunni sem ber nafnið "The New London Journal".
Þá er tilveran.is dauð. Löngu tímabært þar sem hún átti sinn þátt í að gera mig að internetsjúklingi, sem ég er enn þann dag í dag.

þriðjudagur, 10. febrúar 2004

Ég komst að því í morgun að það er til eitthvað meira pirrandi en að glata margra blaðsíðna ritgerð eða tölvupósti þegar tölva frýs. Þannig er mál með vexti að ég lærði í allan gærdag og til klukkan 5 í nótt fyrir próf sem var í morgun í Þjóðhagfræði. Ég var þó svo fársjúkur þegar ég vaknaði að ég varð að sitja heima með sárt ennið þar sem hóstinn minn hefði gert alla snargeðveika í prófinu. Ég örvænti þó ekki þar sem það eru tvö próf á önninni og aðeins það hærra gildir 15% og hitt ógildist. Ég lærði líka slatta á þessari rispu og tel mig nokkuð vel upplýstan. Í verstu svartsýnisköstunum hugsa ég svo bara út í að við erum bara viðbjóðslegar örverur á risa drullukúlu sem kallast jörð og okkar smáu vandamál eru ekkert til að hafa áhyggjur af.
Eftir að hafa gleymt að hringja á skattstofu austurlands í 12 daga í röð (ekki helgardagar taldir með) þá sótti ég loksins um vinnu þar í dag, þrjár mínútur í lokun. Ég er nokkuð bjartsýnn á sumrið. Nú þarf ég bara að redda mér íbúð á Egilsstöðum og skúffuköku svo sumarið verði fullkomið.
Þá er próftaflan komin og þar kemur í ljós að ég er búinn í skólanum 19. apríl sem er býsna snemmt. Þegar síðasta prófinu er lokið mun ég hinsvegar fara í verkefnavinnu í nokkrar vikur og býst við því að koma austur um 15. maí næstkomandi til að vinna. Ég hlakka svo til. Ég hlakka alltaf svo til.
Ég hef nú eytt rúmum sjö mínútum af mínum dýrmæta tíma í að troða 500 króna seðli í skiptimyntajárnrusl sem er hérna í háskólanum í þeirri fjarstæðu von að hann geti skipt honum í fimm hundrað krónu myntir svo ég geti keypt mér forlátan kaffibolla af því kaffivélin tekur ekki við tveimur af mínum tíu tíköllum en kaffibollinn kostar 90 krónur, auðvitað. Til að gera langa sögu stutta þá neitar vélin að skipta fimmhundruð kallinum.

mánudagur, 9. febrúar 2004

Í kjölfar kaupum mínum á fartölvunni hef ég byrjað að fá lánaða þætti og bíómyndir víðsvegar að (fer ekki nánar í það að svo stöddu hvaðan ég hef fengið þetta). Hingað til hef ég fengið eftirfarandi þætti:

Quantum Leap Sería 1
The office sería 1
Monk tveir þættir úr seríu 1
Derren Brown DVD diskur

og eftirfarandi myndir:

Eyes on Mars
City of god
Lost in Translation

Ég hef þó aðeins gefið mér tíma til að horfa á einn þátt af þessu öllu og er hann um dáleiðarann Derren Brown. Ekki nóg með það heldur er þungi námsins orðinn svo mikill að ég sé ekki fram á að geta horft á eitthvað af þessu fyrr en um næstu helgi. Að sjálfsögðu hef ég skrifað formlegt kvörtunarbréf til skólastýrunnar en hún er líka bílstýra utan skólans... sem kemur þessu máli ekkert við.

sunnudagur, 8. febrúar 2004Vinalegt umhverfi.

Myndina að ofan tók ég nótt eina nýlega þegar ég átti erfitt með að sofna. Ótrúlegt nokk þá gat ég ekki kennt glugganum ógurlega um svefnleysið heldur gríðarlegu hóstakasti mínu sem lauk um klukkan 4 þegar ákvað að hætta að anda svo svefnfriður næðist.
Það er aðeins til ein tilfinning í heiminum sem er verri en að finna óvænt stærðarinnar bólu á bakinu eða á nefinu og það er að sitja í mötuneyti Háskólans í Reykjavík þegar fimm háværar stelpur byrja að lýsa því fyrir hvorri annarri hvernig blóðugir túrar þeirra ganga venjulega fyrir sig.
Það var því með tár í auga að ég hljóp út úr mötuneytinu, þegar þetta kom fyrir mig fyrir ca tveimur tímum síðan, og á bókasafnið þar sem ég las fréttablaðið í annað sinn á meðan umræðan kláraðist.

laugardagur, 7. febrúar 2004

Ætli ég haldi ekki bara áfram með hlekkina þennan kalda laugardag þar sem mér dettur ekkert annað í hug en hér er stórmerkileg frétt. Ég veit ekki til þess að þetta hafi nokkurntíman komið fyrir áður.
Það er allt að verða vitlaust á Egilsstöðum eins og sjá má hér og hér. Í nótt gekk gríðarlegt óveður yfir Egilsstaði sem lét nánast alla sem fóru út úr húsi í gærkvöldi verða veðurtepta. Það væri dásamlegt að vera staddur á þarna núna.

föstudagur, 6. febrúar 2004

Jæja, ég var að bæta við þessum skratta hér til hægri:


Besta einkunninNokkuð góð einkunnAllt í lagiNokkuð slæm einkunnVersta einkunnin


Verið væn og gefið einkunn ef þið eruð vel til kölluð.


Þessi mynd náðist af mér við rannsóknir dagsins


Ég sit hérna í mötuneyti HR að lesa þjóðhagfræðiglósur (það er ekki jafn skemmtilegt og það hljómar) og það er verið að mála einn besta vin minn í gegnum tíðina; norðurvegginn innanverðan gráan en hann hefur verið blár hingað til.

Ég veit ekki hvort að málningargufurnar hafa þessi áhrif eður ei en ég tók eftir orðinu 'vitaskuld' í samtali á MSN rétt í þessu. Eftir að hafa hlegið dágóða stund yfir fyndileika orðsins ákvað ég að bera saman vinsældir orðsins við orðið 'auðvitað' með vísindalegum hætti. Rannsóknin fer þannig fram að fyrst slæ ég inn orðið 'vitaskuld' í google leitarvélina og skrifa niður hversu mörgum niðurstöðum hún skilar. Því næst slæ ég inn 'auðvitað' og svo framvegis.

Niðurstaða:
Auðvitað: u.þ.b. 87.100 niðurstöður
Vitaskuld: u.þ.b. 5.010 niðurstöður

Ég dreg því þá rökréttu ályktun að í hvers skipti sem 'vitaskuld' er sagt í daglegu máli er 'auðvitað' sagt 17,4 sinnum. Magnað.
Það er frekar súrt að segja frá því að tíðni sms skeyta sem mér berast dags daglega hefur minnkað um 90% á síðustu tveimur vikum.

Gemsinn minn er sennilega bara bilaður, nú eða helvítis símafyrirtækið.
Í dæmatíma í dag sat ég á næsta borði við eina fegurstu stúlku skólans og þótt víðar væri leitað. Þegar nokkuð var liðið af tímanum geyspaði ég sem aldrei fyrr og ca fimm sekúndum seinna geyspaði stelpan. Það hefur oft verið talað um að geyspi sé smitandi og dreg ég þá ályktun að ég hafi smitað stúlkuna. Þetta er þarmeð orðið mitt nánasta samband sem ég hef átt við stelpu í marga mánuði og tek ég því fagnandi. Hver veit, kannski færi ég mig upp skaftið og tala við hana bráðum. Ég lofa þó engu.

fimmtudagur, 5. febrúar 2004

Ný könnun hefur litið dagsins ljós. Fékk mér nýjan reikning undir spurningarnar þar sem hinn reikningurinn lét þessa síðu eftir í rjúkandi rústum.
Ég byrja rólega í könnununum (merkilegt orð) að þessu sinni:


Finnur.tk spurningin


Smellið á hlekkinn til að taka þátt, nefapar.
Í letikasti fyrir nokkrum dögum síðan gerði ég tilraun til að horfa á myndina Bless the child sem sýnd var á bíóstöðinni. Fyrst varð ég var við ótrúlega leiðinlegan söguþráð, þá tók ég eftir því að versta leikkona samtímans, Kim Basinger, leikur aðalhlutverkið en þegar nunna í myndinni gekk með giftingarhring ákvað ég að slökkva á sjónvarpinu og fara snemma að sofa. Mér tekst kannski að horfa á hana næst.

miðvikudagur, 4. febrúar 2004

Í morgun lærði ég í tólfta sinn um ævina að það margborgar sig að leggja pening til hliðar fyrir elliárin því eftir þónokkur ár margfaldast féið á örskömmum tíma. Ég fer ekki í stærðfræðihliðina á málinu að svo stöddu en þetta er heilagur sannleikur.

Það fyrsta sem mér datt í hug í morgun þegar mér var sagt frá dæmi um gamlan karl sem ákvað að tvöfalda ellilífeyrinn sinn með því að vinna 5 ár í viðbót var "Djöfull hlýtur hálendingurinn að hafa það gott". Ég ákvað þó að viðra ekki þessa vangaveltu mína í þessum umrædda tíma eftir að ég rétti upp hendina, heldur sagði bara "ee...má ég fara á klósettið?".
Þetta veftímarit mitt hefur náð sögulegum hæðum (eða lægðum, fer eftir því hvernig á það er litið) í ljósi þess að Esther nokkur Ösp hefur ákveðið að gera tveggja blaðsíðna verkefni um það fyrir skólann sinn sem er á háskólastigi. Ég veit ekki hvernig verkefni þetta eða hvort það fær góða eða slæma útreið þannig að ég læt tilkynningu þessari lokið hérmeð.

þriðjudagur, 3. febrúar 2004

Til að lífga upp á þessa síðu eilítið þá býð ég upp á enn eitt lagið hérmeð.

Lagið er langsamlega fallegasta lag sem ég hef um ævina heyrt. Það var notað í lag Sweetbox, Everythings gonna be alright hér um árið sem og einnig í bíómyndinni Seven.

Lagið heitir Air og er eftir Bach. Niðurhlaðið því hér eða í hlekkjunum hægra megin á síðunni.
Loksins loksins, eftir rúmlega fimm mánaða dvöl í Reykjavík hef náð að næla mér í kvef. Eins og flestir vita fékk ég kvef á tveggja vikna fresti þegar ég var búsettur á Egilsstöðum síðasta vetur og því engin tilviljun að ég fékk kvefið þegar hálf fjölskyldan mín var í heimsókn um helgina.
Ég er þó ekki stúrinn heldur brosi framan í óhamingjuna og vona að ég haldi áfram að hnerra þriggja kílóa hlussum með morgunkaffinu.

mánudagur, 2. febrúar 2004

Fjórfarar vikunnar eru að þessu sinni bæði gríðarlega vinsælir og talsvert óvinsælir um þessar mundir. Þeir eru eftirfarandi:Charlie Reid úr The Proclaimers.
Guðmundur Guðmundsson verðandi fyrrverandi landsliðsþjálfari í handbolta.
Jón Bóndi úr The Proclaimers.
Craig Reid úr The Proclaimers.


Kvikmyndadögum veftímaritsins er lokið í bili með för á myndina Mystic River á laugardagskvöldið. Þar vorum við Björgvin, Helgi og pabbi mættir til að sjá stórgóða óskarsverðlaunamynd. Ferðin byrjaði ekki vel þar sem bíógestum var stýrt eins og rollum í rétti fyrir sýningu en það er önnur saga (Bíóið var háskólabíó fyrir þau sem hafa gaman af því að láta fara með sig eins og rollur).
Mystic River fjallar um mann sem missir dóttir sína þegar hún er myrt. Reiðinnar býsn af frægum leikurum eru í þessari mynd auk þess sem Clint Eastwood leikstýrir henni. Mér fannst myndin afskaplega barnaleg, ofleikin, bjánaleg og á köflum þreytandi. Söguþráðurinn er vægast sagt gloppóttur og endirinn gjörsamlega út í hött.
Þegar ég hugsa út í það þá er lítill munur á Mystic River og dæmigerðri Colombo mynd. Eini munurinn sem ég tek eftir er að mig hefur aldrei langað til að sofna horfandi á Colombo mynd enda eru þær rökréttar og skilja eitthvað eftir sig.
Hálf stjarna af fjórum fyrir Tim Robbins og Sean Penn sem þó eru langt frá sínu besta. Þeir eru þó báðir miklir friðarsinnar.
Fjósamaðurinn Þorkell hefur sannað enn eina ferðina hversu athugull hann er í raun og veru með nýjustu færslu sinni. Þar veitir hann mínu öðru sjálfi æðsta heiður internetsins með titlinum 'Ötulasti bloggari 2003'. Takk kærlega fyrir það Fjósamaður.

sunnudagur, 1. febrúar 2004

Í dag kom að enn einum tímamótunum í mínu lífi þegar ég fór með Óla Rúnari og frú í Intersport og verslaði mér tvö höfuðbönd fyrir körfuboltann. Þeir sem kunna að leggja tvo og tvo saman fá það út að ég er kominn með býsna mikið hár.
Loksins hef ég bætt við myndum á myndasíðuna. Endilega skoðið þær hér og skráið athugasemdir, ellegar ég tryllist.