þriðjudagur, 31. ágúst 2010

Excelskjal yfir lán og Futurama

Futurama²
Þessa vikuna fæddi ég tvö Excel skjöl sem ég hyggst deila:

1. Lánaskjal [Niðurhalið hér]
Þetta skjal reiknar út allar upplýsingar sem þarf við uppsetningu á allt að tveimur lánum. Mest hugsað fyrir húsnæðiskaup en virkar líka fyrir minni lán.

Það eina sem þarf að gera er að fylla í reitina þar sem örvarnar benda og samantekt afborganna birtist á aðalsíðunni. Nánari greiðsluáætlun birtist svo í "Lán 1", "Lán 2" (hafirðu fyllt í reiti fyrir lán 2) og "Summa lána".

Hægt er að velja um tvær gerðir lána; lán með jöfnum afborgunum og jafngreiðslulán. Hafið samband við mig í finnurtg@gmail.com eða athugasemdum ef eitthvað er óljóst.

Ath. Þetta skjal er aðeins hægt að keyra í Excel 2007+ fyrir PC tölvur.

2. Random nafn á Futurama þáttum [Niðurhalið hér]
Þetta agnarsmáa skjal birtir tilviljunakennt nafn á þætti af Futurama við það eitt að velja "Já, takk". Það hjálpar forföllnum aðdáendum Futurama að velja þætti til að horfa á í sjötugasta skipti.

Skjalið virkar fyrir Excel 2003+.

Þessu skjali hefur verið bætt við á þjónustusíðuna.

föstudagur, 27. ágúst 2010

Síðdegissvengd

Akkúrat svona hugsaði ég. Nema ég er með blá augu. Og færri augabrúnir.
Í gær klukkan 14:00 fann ég fyrir svengd, sem er „óvanalegt þar sem ég er nýbúinn að borða hádegismat“, hugsaði ég. Ég hélt að kannski hefði ég borðað of lítið í hádeginu og fór að hugsa hvað ég hefði fengið mér en gat ekki munað það.

Svo ég leitaði í ruslinu að umbúðum, án þess að finna neitt matartengt. "Ég hlýt þá að hafa borðað í mötuneytinu" hugsaði ég þá.

Ég spurði því samstarfskonu mína hvað hefði verið í matinn í mötuneytinu, sem hún sagði mér. Ég mundi ekki eftir að hafa borðað fisk. Þá spurði ég hana hvort ég hefði farið í mat. Hún svaraði neitandi.

Takk fyrir ekkert, minni, þú gagnlausa drasl, fyrir að reyna að svelta mig.

fimmtudagur, 26. ágúst 2010

Rúm til sölu

Rúmið mitt ægifagra.
Ég hef ákveðið að selja rúmið mitt, sem ég keypti glansandi nýtt fyrir næstum þremur árum [sjá færslu hér] í Betra Bak.

Rúmið er Queen size og af gerðinni Tempur. Nýtt kostar það um 270.000 krónur hjá Betra Bak [Sjá hér] en ég set á það kr. 120.000. Það má svo alltaf prútta.

Rúmið er mjög vel með farið, hreint og fínt.

Áhugasamir hafi samband við mig í e-mailið finnurtg@gmail.com eða í síma 867 0533.

Óáhugasamir hafi samband við einhvern annan en mig, vinsamlegast.

þriðjudagur, 24. ágúst 2010

Jákvæðnin

Eftir síðustu færslu ákvað ég að hefja nýtt tímabil í lífi mínu; öld jákvæðninnar!

Það byrjaði á spjallforritinu MSN en þar spjallaði ég við Sibba vin minn um körfubolta:

Sibbi
ég á ekki eftir að standa mig vel á æfingu í kvöld

Finnur
láttu ekki svona
brostu!


Sibbi
hahahaha
þú að segja brostu er eitthvað það fyndnasta sem ég veit um



Þar með lauk öld jákvæðninnar. Hún entist í 37 sekúndur.

Ranghugmyndir háskólaáranna

Þegar ég var í Háskóla Reykjavíkur að læra Viðskiptafræði lét ég mig dreyma um að vera búinn í námi og lifa góða lífinu. Eftirfarandi draumar voru í aðalhlutverki:

1. Fundir
Ég hlakkaði til að láta til mín taka í atvinnulífinu með allskonar fundasetu og ráðstefnum ýmiskonar.

2. Peningar
Að námi loknu ætlaði ég aldrei aftur að borða núðlur og svelta mig heilu dagana vegna peningaleysis en LÍN rétt skaffar lán fyrir leigu og klósetpappír. Ég ætlaði að lifa lífinu, kaupa mér bíl, íbúð og kellingar.

3. Sumarfrí
Um leið og prófin kláruðust á vorin var farið að vinna og unnið framyfir fyrsta skóladag. Ég upplifði því aldrei almennilegt sumarfrí þegar ég var í námi. Ég gat ekki beðið eftir að fá heilar fimm vikur af sumarfríi sem ég gat ráðstafað eins og ég vildi.

Nú eru rúm fjögur ár síðan ég útskrifaðist sem viðskiptafræðingur. Ég fékk strax góða vinnu og hef haldið henni, ótrúlegt nokk.

Hér er sannleikurinn um þessi draumaatriði:

1. Fundir
Ekkert er jafn andstyggilegt og jafn mikil tímaeyðsla og fundir. Ég forðast þá eins og klamidíu. Þeirra í stað reyni ég að koma sem mestu í verk og notast við e-mail samskipti sé eitthvað óljóst.

2. Peningar
Þegar námi er lokið tekur við að greiða niður skuldir námsins. Það, ásamt snarhækkuðu verðlagi, veldur því að ég borða enn núðlur í hvert mál og svelti mig þess á milli. Ég á þó fyrir leigu og klósetpappír. Ég mæli með því að fólk vinni með skóla.

3. Sumarfrí
Hvað hef ég, einhleypur, barnlaus og peningalitli maðurinn við sumarfrí að gera? Ekkert. Þess utan er nóg að gera í vinnunni svo erfitt getur verið að taka lengri frí. Ég tek kannski hálfan dag í frí annað slagið til að ná upp svefni. Það er feikinóg.

sunnudagur, 22. ágúst 2010

Minnispunktur

Í gærkvöldi skrifaði ég stikkorð í minnisstílabókina sem ég hef alltaf nálægt, yfir eitthvað sem ég ætlaði að gera í dag, sunnudag.

Í morgun dag þegar ég vaknaði var ég búinn að gleyma að ég þurfti að gera eitthvað en sá stikkorðið í stílabókinni, sem ég hafði lagt þannig að ég myndi sjá þegar ég fór á fætur.

Hér er stikkorðið:
Amersleg?
Ég hef ekki minnstu hugmynd um hvað á að standa þarna og þar með ekki hvað ég átti að gera í dag. Ég vona að það snúist ekki um líf og dauða.

Viðbót: Ég var að fatta hvað á að standa. "Awards". Excelskjal sem ég ætlaði að búa til í dag.

fimmtudagur, 19. ágúst 2010

Listi yfir fimm hryllilegustu atvik lífs míns

Í gærkvöldi upplifði ég eitthvað sem kemst auðveldlega á topp 5 lista yfir hryllilegustu atvik lífs míns. Hér eru þau:

5. Hrossaflug flaug í áttina að mér
Í gærkvöldi valhoppaði ég inn í herbergi, aðeins til þess að snúa við og hlaupa út öskrandi eftir að hafa séð eina stærstu hrossaflugu landsins fljúga í átt að mér með hnefann á lofti. [Sjá mynd eða neðan]

4. Raka sig án raksápu
Ég rakaði mig einu sinni án raksápu og var nokkrum mínútum frá því að blæða út.

3. Ástarsorg
Tilhugalífið í heild sinni finnst mér hryllingur. Þess vegna reyni ég að forðast það, með grunsamlega góðum árangri.

2. Kvef
Í hvert sinn sem ég kvefast verð ég fyrir svo miklum vonbrigum að ég leggst í þunglyndi.

1. Fæðing
Ég hef auðvitað aldrei upplifað fæðingu, en mér var einu sinni sagt frá einni slíkri. Það var skelfileg upplifun.

Skýringamynd fyrir atriði #5. Hrossafluga stendur á herbergishurðinni minni með morðglampa í augunum.
Glöggir lesendur gætu haldið að flugan hafi verið með átta lappir. Það er rangt. Hún er með sex lappir og tvær hendur.

miðvikudagur, 18. ágúst 2010

Breyting Smáralindar

Smáralindin í öllu sínu veldi.
Þetta er Smáralindin. Hún er eins og reður í laginu, eins og allir vita. Ég leggst ekki svo lágt að gera grín að því.

Þetta vita færri:

Framkvæmdir við Smáralind.
Það er verið að bæta við bílastæðahúsi þar sem rauðu örvarnar benda. Eigendurnir virðast vera að breyta lagi byggingarinnar, svo hún líti ekki lengur út eins og reður. Vel gert.

Hér að neðan er mín tillaga að liti og lögun bílastæðahússins. Ég vona að arkitektinn velji mína tillögu!

mánudagur, 16. ágúst 2010

Ekkertið

Ég gerði ekkert á laugardaginn, eins og ég hamraði á hér. Samt var dagurinn þéttbókaður. Hvernig? Með því að bóka ekkertið!

Svona var dagurinn:
Uppskriftin að fullkomnum laugardegi.
Og hvernig bloggar maður þegar ekkert gerist? Með því að blogga um ekkertið! Ítrekað.

sunnudagur, 15. ágúst 2010

Lykill að hamingju

Þessari helgi hef ég eytt í helling af svefni, körfubolta og bíóferðir. Það vill svo skemmtilega til að þetta eru þrjú helstu áhugamál mín, svo helgin hefur verið nálægt fullkomnun.

Á meðan flestir safna peningum, reyna að finna tíma eða bíða eftir góðu veðri til að stunda áhugamálin sín (t.d. ferðalög, áfengisdrykkja, útivist), stunda ég mín áhugamál hverja einustu helgi og næ þannig að verða hamingjusamur á örskammri stundu.  Lykilatriðið er að miða nógu lágt.

föstudagur, 13. ágúst 2010

Enska úrvalsdeildin í Excel skjali

Geisp.
Mér skilst að enski boltinn byrji aftur á morgun. Ég hef því útbúið Excel skjal yfir alla leikina tímabili 2010-2011 og stöðuna í deildinni.

Það eina sem þarf að gera er að niðurhala skjalinu, opna það og fylla út úrslitin; og taflan yfir stöðuna raðast sjálfkrafa.

[Hér er Excel 2007 útgáfan]
[Hér er Excel 2003 útgáfan]

Mér finnst rétt að taka fram að ég hef engan áhuga á enska boltanum né öðrum fótbolta. En ég ber virðingu fyrir áhugamálum annarra, sama hversu heimskuleg eða ömurleg þau eru. Þannig rúlla ég.

Þessu skjali hefur verið bætt við á þjónustusíðuna.

miðvikudagur, 11. ágúst 2010

Rafmagnsleysi síma

Í dag lærði ég að skíthæll hannaði GSM símann minn.

Ég fattaði í morgun að ég hafði gleymt að hlaða símann um nóttina svo hann var rafmagnslítill. Ég tók hann samt með mér í vinnuna í þeirri von að rafhlaðan myndi endast út vinnudaginn ef ég sparaði hann eins og ég gæti.

Þegar ekkert rafmagnsstrik var svo eftir heyrði ég skrítið hljóð í símanum og ljós kviknaði á honum með skilaboðunum "Viðvörun! Lítið eftir á rafhlöðu".

Ég hugsaði hve fallegt þetta hafði verið af símanum, að láta mig vita. Tveimur mínútum síðar gerðist þetta aftur. Og aftur eftir aðrar tvær mínútur. Síminn eyðir þannig því litla sem eftir er af rafhlöðunni í að láta mig vita að rafhlaðan sé að verða tóm.

Ég hugsaði með mér að auðvelt væri að komast hjá þessu og tók hljóðið af símanum.

Tveimur mínútum síðar skalf hann allur og nötraði og ljós kviknuðu með sömu skilaboðum. Síminn sættir sig semsagt ekki við að vera hljóðlaus heldur kveikir hann á víbrara, sem eyðir líklega talsvert meira rafmagni en hljóðið gerir, svo ég viti örugglega af rafmagnsleysinu.

Ég var því neyddur til að horfa upp á símann minn deyja smámsaman í vinnunni í dag. Hvers á ég að gjalda.

þriðjudagur, 10. ágúst 2010

Pepsi deildin í Excel skjali

Nú í Excel formi.
Þegar ég var yngri lék ég mér tímunum saman daglega við að halda uppi gervi fótboltadeild með spili sem ég bjó til. Ég setti upp leikskrá ársins og lét öll liðin spila hvort við annað með spilinu. Eftir tímabilið lét ég svo tvö lið falla og tvö ný komast upp.

Eftir hverja umferð gerði ég töflu yfir stöðuna og skoðaði vel stigastöðuna, markatöluna og þróunina. Fátt fannst mér skemmtilegra. Í þetta eyddi ég að minnsta kosti klukkutíma daglega öll sumur og eitthvað yfir veturinn.

Ef svo vill til að einhver stundi þetta í dag eða eitthvað svipað, hef ég útbúið Excel skjal sem hjálpar. Í skjalinu þarf aðeins að skrá úrslit leikja og taflan uppfærist jafn óðum.

[Hér er Excel 2007 útgáfan]
[Hér er Excel 2003 útgáfan]

Þetta er semsagt tímabilið 2010 í Pepsi deildinni.

Þessu skjali hefur verið bætt við á þjónustusíðuna.

sunnudagur, 8. ágúst 2010

Úr einni í aðra

Eins og flestir vita þá lýkur Hinsegin Dögum á miðnætti í kvöld, en þeir hafa verið í gangi frá því á miðvikudaginn. Á Hinsegin Dögum er samkynhneigð tekin fyrir og henni fagnað, réttilega.

Allskonar skemmtiatriði fóru fram á þessari hátíð og náði hún hámarki í gær með skrúðgöngu í miðbæ Reykjavíkur og orgíu niðri í bæ um kvöldið og nóttina, eins og næstum öll önnur laugardagskvöld ársins.

Það vita það færri að strax á morgun hefst önnur, ekki minni hátíð; svokallaðir "Svona Dagar". Sú hátíð stendur yfir til 4. ágúst 2011 og felur ekki í sér neina sérstaka dagskrá. Bara daglegt líf og grámyglu.

Allavega, gleðilega Svona Daga!

Lærdómur dagsins

Í dag lærði ég að þetta:

Johnny Depp og Vinona Ryder
er ekki þessi maður:

Jónína Benediktsdóttir og Skeet Ulrich
Heldur eru þetta tveir mismunandi, óskyldir menn; Johnny Depp og Skeet Ulrich.

Sem betur fer hafði ég ekki byggt líf mitt upp á þessum ranghugmyndum nema að litlum hluta.

föstudagur, 6. ágúst 2010

Ýmsar fréttir

Í fréttum er þetta helst:

1. Nýtt á þjónustusíðunni
Ég hef bætt við möguleikanum að senda inn beiðni um Excelskjal í formi athugasemdar á þjónustusíðunni. Hvet alla sem vantar handhægt Excel skjal að nýta sér þetta tilboð.

2. Heimsókn
Helgi bróðir er í heimsókn hjá mér yfir helgina. Við stefnum á að fara á gay pride gönguna sem fer fram á morgun. Ég er búinn að kaupa mér spreybrúsa og málningarúllur svo ég líti ágætlega út og Helgi var að versla mini pils.

Eini gallinn er að ég verð staddur á körfuboltaæfingu þegar skrúðgangan fer fram. Það stoppar mig þó ekki frá því að mæta í dragi og standa mig fabulously á æfingunni.

3. Sumarfrí
Ég tók mér sumarfrí í gær frá 15:00-17:00. Það er nauðsynlegt að taka sér sumarfrí annað slagið og slappa af, sem ég og gerði með því að leggja mig í klukkutíma. Mig dreymdi að ég væri á sólarströnd.

miðvikudagur, 4. ágúst 2010

Lækning vanlíðunnar

Þegar mér líður undir veðrinu finnst mér gott að skoða grafið að neðan og velja mér afþreyingu til að láta mér líða betur:

Smellið á það fyrir stærra eintak í nýjum glugga.
Ástæðan fyrir vanlíðaninni er nánast undantekningalaust hreyfingarleysi, svo það er auðvelt að lækna. Ég get ekki mælt nógu mikið með hreyfingu. Hún læknar nánast allt andlegt og margt líkamlegt, í það minnsta í mínu tilviki.

Allavega, ég fór í ræktina í gær og í MP3 spilaranum komu þrjú mín uppáhaldsræktarlög í röð:

1. FNZ - Waterslide


Þetta lag er gert af ungum íslenskum pilti sem ég kynntist nýlega. Frábært að hlaupa við þetta lag.


2. Benny Benassi - Finger food


Er talsvert lengi að byrja en þegar hápunkti er náð er ég yfirleitt öskrandi með.


3. The Chemical Brothers - Music: Response


Ef Excel gæti samið tónlist þá myndi hún hljóma svona.

mánudagur, 2. ágúst 2010

Kenning Einstein næstum sönnuð

Einstein í góðum gír.
Einstein kom með sína djörfustu kenningu rétt fyrir andlát sitt árið 1955. Kenningin hefur þó aldrei verið sönnuð með óyggjandi hætti.

Þau undur og stórmerki áttu sér svo stað í gær að ég varð vitni að einhverju sem hefði getað sannað þessa umræddu kenningu, ef ég hefði verið með myndavél á mér.

Ég var keyrandi á Nýbýlavegi þegar atvikið átti sér stað. Svo undrandi varð ég að ég stoppaði bílinn, fór út og benti öskrandi. Skömmu síðar stoppuðu aðrir bílar og bílstjórar stigu út, gapandi í forundran. Hið ómögulega hafði gerst.

Eftir nokkrar mínútur af faðmlögum og óendanlegri hamingju yfir þessari vísbendingu um að mannkynið sé ekki dauðadæmt, settumst við, vitnin, í bílana og ókum af stað með hamingjutárin í augunum.

Kenning Einstein, ef ég man rétt, var eitthvað á þessa leið:

„Jeppabílstjórar geta og munu einn daginn gefa stefnuljós í hringtorgum eins og venjulegt fólk.“

Jeppinn sem gaf stefnuljós í hringtorgi á Nýbýlaveginum er beðinn um að hafa samband við Alþjóðleg samtök vísindamanna í Sviss.