mánudagur, 31. janúar 2005

Ég biðst velvirðingar á því að ég baðst velvirðingar um daginn á því hversu léleg grein mín var sem birtast átti næsta fimmtudag í hinu stórbrotna menningarriti Austurglugganum í ljósi þess að ég dró greinina til baka og lét aðra af hendi. Sú grein er miklu skárri, að mínu mati, enda fjallar hún um kynlíf. Ég vil gjarnan biðjast velvirðingar ef hún fer fyrir brjóstið á einhverjum teprum.

Þið verðið að kaupa Austurgluggann til að sjá greinina, hún verður ekki birt hérna þar sem þetta er fjölskyldusíða.
Síðustu daga hef ég séð...

...þrælfeita konu drekkandi diet kók með risamáltíð. Mjög algeng sjón.

...grátlega bældan, ungan og eldrauðhærðan strák sem hafði klárlega verið lagður í einelti í æsku og jafnvel enn, leggjandi krossgátu við afgreiðslustörf í verslun bæjarins.

...páfann að reyna að koma á friði í heiminum.

...spegilmynd mína, nývaknaður um morgun eftir að górilla kom og skúraði teppalagt gólfið með hausnum á mér.

...tölvunarfræðinema æsa sig yfir fyndinni sögu og öskrað hana sín á milli í staðinn fyrir að tala í venjulegri tónhæð.

...fólk að borða svið, ekki vitandi að þetta er viðbjóður.

...góðvin minn, Lou Carpender, tapa öllum sínum peningum og eiginkonu sinni, Trixie, í Ástralíu í gegnum töfrakassann minn.

...spegilmynd mína eftir að ég gekk í skólann eldsnemma í morgun í sjúku regni.

Allar þessar sýnir mínar eiga það sameiginlegt að ég kenndi í brósti um viðkomandi aðila svo mikið að ég varð klökkur.

sunnudagur, 30. janúar 2005



Ævintýramyndin Hörkufjör á heimavist er fín skemmtun


Fyrir einhverju síðan fór ég í bíó með Óla Rú á myndina National Treasure. Myndin fjallar um mann eltist við ævafornan frímúrarafjársjóð sem falinn er einhversstaðar í Bandaríkjunum. Til að finna hann þarf fylgja vísbendingum sem snúast allar um hvað bandaríkin eru æðisleg.
Nicolas Cage er ágætur í henni og myndin hin besta skemmtun. Það eru þó atriði í henni sem skera í mitt kolsvarta og, að ég hélt, dauða hjarta en þið verðið að sjá hana til að skilja.
Mæli með henni. Þrjár stjörnur af fjórum.
Ein bjartasta von Íslandssögunnar í húmor og grafískri hönnun, Jónas Reynir, hefur nú með miklu snarræði opnað nýtt blogg. Þetta er þriðja tilraun hans til skrifta á netinu en hann hættir alltaf eftir nokkra daga sökum annríkis. Nú er sett gríðarleg pressa á kauða og hann skal því halda sig við þetta og jafnvel gera þetta að stórum hluta í lífi sínu, rétt eins og ég hef gert. Velkominn aftur hr. Jónas.
Kvöldið fór í teiti hjá Bergvini, eins og áður hefur komið fram. Þar þekkti ég varla sálu eftir að Garðar, Markús, Ægir og nokkrir í viðbót fóru, langt fyrir aldur fram. Stuttu síðar fór ég niður í bæ þar sem ég fékk mér pylsu og beinustu leið heim, eins og venjulega.

Allavega, ef svefn væri eldur og ég mótmælandi búddamunkur þá væri ég alelda núna. Góða nótt.

laugardagur, 29. janúar 2005

Í kvöld stefni ég á að mæta í partí hjá Bergvini þar sem aðeins fallega og skemmtilega fólkinu er boðið. Ég læt það þó ekki á mig fá og mæti samt, sauðdrukkinn og með myndavélasímann á lofti. Fylgist með á gsmblogginu, ef ég klára ekki innistæðuna.

föstudagur, 28. janúar 2005

Veftímaritið Við rætur hugans var rétt í þessu að ná samningum við Rokkstigabanka landsins um gagnvirt samstarf. Veftímaritið þarf aðeins að nefna þennan banka einu sinni á ári í færslum sínum gegn því að rokkstigabankinn gefi hverjum þeim sem les þessa síðu á hverjum degi tvö rokkstig. Ekki mjög rökréttur samningur eða hagstæður fyrir Rokkstigabankann en hey, rokkið snýst ekki um rökhugsun! Það snýst um lífstíl!
Afköst mín fyrir pistlastarfið hjá austurglugganum eru með afbrigðum góð, svo ekki sé meira sagt. Ég hef þegar lokið við annan pistil og er með tvo til viðbótar í smíðum. Ég þarf þó ekki að skila inn pistli nema einu sinni í mánuði sem þýðir að ég geti bráðum tekið mér frí frá skrifum til byrjun júní.

Það er stundum mjög gagnlegt að vera haldinn áráttu- og þráhyggjuröskun.
Þá er fyrsti pistillinn fyrir austurgluggann farinn úr húsi. Hann er svo slæmur og út í hött að ég ætla hérmeð að koma á framfæri afsökunarbeiðni til austfirðinga að þurfa að lesa þetta kjaftæði. Mér fannst hugmyndin skondin en þetta snériast allt í höndunum á mér og því fór sem fór. Svo var dómarinn alveg vonlaus og sólin skein beint í augun á mér.

fimmtudagur, 27. janúar 2005


Bíóferð með Bergvini og Garðari!


Í kvöld fórum við piltarnir að ofan í bíó saman. Myndin sem varð fyrir valinu heitir The Aviator en meira um hana seinna. Í þessari, næstum, fjögra tíma ferð gerðist ekkert markvert nema að ég gleymdi að taka hljóðið af símanum. Í hlénu uppgötvaði ég svo þessi mistök en dýrð sé drottni fyrir vinaleysi mitt, því síminn hafði ekkert hringt og því ekki gert mig að fífli fyrir framan virðulega gesti Háskólabíós.
Nýjasta markaðssetningarátak veftímaritsins er farið af stað. Það er einfalt, eins og allt sem ég læt frá mér, þið hlekkið á gsmbloggið mitt og fáið hlekk til baka og jafnvel mynd af ykkur af ég hitti ykkur. Það er ekki allt því að auki fáið þið hlekk á myndasíðuna ykkar, ef þið eigið eina.

Allavega, látið vita með einhverjum hætti ef þið hafið sett hlekk á gsmbloggið. Kærar þakkir.

miðvikudagur, 26. janúar 2005

Það er ákveðin stemning sem fylgir því að vera með hausverk. Dagurinn lengist og viðkomandi verður mjög pirraður, ef ekki viðskotaillur. Það eru þó ekki allir svo heppnir að fá hausverk alla jafna, sérstaklega ekki þegar losna þarf undan kynlífsskuldbindingum eða þörf er fyrir pirraða manneskju og lítið að gera í því nema að skalla vegginn í einhvern tíma en það er leiðinleg lausn. Önnur lausn á þessu hefur verið fundin! Snillingarnir hjá seven-up hafa komið með frábæran valmöguleika; 7-up cherry! Ein 33ml dós og þú færð sjúkan hausverk sem endist alla nóttina, jafnvel fram á næsta dag enda er innihaldið ca 97% sykur, 2% kirsuberjasafi og 1% meiri sykur. Það er þó sennilega ekki sykurinn sem veldur hausverknum heldur ofboðslega vonda bragðið.




Hér má sjá 33,3% mætingar á æfingu kvöldsins sem ber nafnið Kristján Orri. Óli var svo 1/3 og ég restin. Við létum slæma mætingu ekki skemma æfinguna heldur skemmtum okkur konunglega við að spila körfubolta í næstum klukkutíma og að hrósa hvorum öðrum í sturtunni á eftir enda sjúkleg fegurð samankomin í einni sturtu.

Allavega, Sverrir nágranni minn hér á stúdentagörðunum er með heimasíðu sem bætist hérmeð við í hlekkjalistann. Hann er með mjög vel gerða síðu sem er býsna skemmtileg þegar hann tekur sig til og bloggar. Hann er einnig bróðir Ingunnar og þau bæði með mér í HR.
Gróf áætlun fyrir daginn liggur fyrir en hún felur í sér að ég muni láta lífið úr þreytu fyrir miðnætti.

Ég held að ég hafi aldrei nokkurntíman um alla mína ævi verið jafn þreyttur og núna, ef undan eru taldar allar lærdómsnæturnar í skólanum, allar vinnunæturnar án svefns daginn áður á hótel héraði um árið, hvert einasta skipti sem ég er alveg við að sofna og hvert einasta skipti sem ég vakna.

Þannig að ég er eiginlega ekkert þreyttur miðað við venjulega.

þriðjudagur, 25. janúar 2005

Ég finn hvernig svartnættið færist yfir, hvernig kverkatakið þéttist og andadrátturinn verður þyngri og erfiðari. Framtíðin sem var svo björt og fögur er skyndilega orðin að rjúkandi rústum. Rigningin verður blautari, snjórinn þyngri, sólskinið dimmara og allt ómögulegt. Ekkert hefur tilgang lengur, lífið er orðið að þrælavinnu sem hefur engan enda.

5 dagar í jólavisareikninginn.
Dugnaður minn á sér engin takmörk. Ekki nóg með að hafa verið að mestu búinn með verkefni rúmri viku fyrir skil í síðustu viku og lenda svo í ælupest og geta ekki klárað, heldur er ég núna búinn að ljúka öðru skilaverkefni góðum sólarhringi fyrir skil. Ástæðan er, ótrúlegt nokk, sjúklegt óskipulag þar sem ég hélt að það ætti að skila því eftir ca 15 mínútur.

Stundum borgar sig að vera óskipulagður. Nú get ég notað þennan sólarhring í eitthvað skynsamlegra en að læra, eins og að finna strætóbílstjórann sem ók á fullu í poll fyrir framan mig í gær og míga framan í hann. En það er önnur og leiðinlegri saga.

mánudagur, 24. janúar 2005

Á laugardagskvöldið sá ég rómantísku dramamyndina Hulk á stöð 2, eitthvað sem ég legg alla jafna ekki í vana minn, heldur er að skemmta mér á fullu niðri í bæ, ef einhver trúir því. Allavega, myndin er það dauf og leiðinleg að ég nenni ekki að setja upp mynd úr henni hér að ofan.
Hún fjallar um vísindamann sem verður fyrir einhverskonar geislun sem ungabarn og enn meiri geislun þegar hann verður eldri. Þetta veldur mikilli reiði hjá honum og þá verður hann grænn, sem er slæmt.
Fullt af misgóðum frægum leikurum eru þarna en það bætir ekki upp fyrir alltof drungalegt yfirbragð og skort á kynlífssenum. Það eina mjög góða við þessa mynd er tónlistin en hún er býsna óþægileg, sem er gott við svona slæma mynd. Reyndar eru tæknibrellurnar líkar góðar.

Eitt enn; mig minnti alltaf að Hulk væri ofurhetja og sífellt bjargandi fólki. Í þessari mynd er hann bara bandbrálaður af reiði og bjargar ekki nokkrum manni. Úbs, sagði frá endinum.

Ein stjarna af fjórum. Hækka um hálfa stjörnu þar sem ég var að jafna mig af ælupest sem gæti hafa skemmt upplifunina.

sunnudagur, 23. janúar 2005

Þá hef ég hannað nýja síðu undir myndir sem ég sendi inn úr gsm símanum mínum. Lesendur góðir, ég býð ykkur velkomna á "Við rætur augans"!

Njótið og farið vel með. Mér þætti einnig vænt um ef þið, sem eruð með heimasíður, gætuð séð ykkur fært að hlekkja á þessa nýju síðu mína.
Hérna átti að vera meinfyndin tímamótafærsla um svitalyktaeyði en mér finnst þetta orð svo ljótt og alltof langt að ég nenni ekki að klára færsluna, enda hefði hún varla getað endað vel.

laugardagur, 22. janúar 2005



Heima, sæta heima. Tekið klukkan 21:15 í kvöld.


Ég er að vinna í því að hann sér síðu fyrir þessar gsm myndir. Þangað til verður þetta að birtast hér annað slagið.
Í gær, bóndadag, fékk ég eina heila bóndadagskveðju. Þarmeð hafa bóndadagskveðjur til mín aukist um endalausa prósentu þar sem þetta var sú fyrsta. Ég er samt sem áður býsna súr yfir þessu þar sem ég þekki reiðinnar býsn af stelpum og allar verða þær fúlar ef ég óska þeim ekki innilega til hamingju með konudaginn sem er eftir mánuð. Margar hverjar vilja þær meira að segja gjafir, en ég sekk ekki svo djúpt.

Ég mun því í ár aðeins óska einni stelpu til hamingju með daginn eftir mánuð og vona að þið hinar munið eftir þessu næst, annars slít ég öll tengsl við ykkur.

Annars er mér sama um þennan tilbúna blómasöludag. Örugglega hundleiðinlegt að fá fullt af kveðjum hvort eð er.

föstudagur, 21. janúar 2005

Loksins loksins. Tölfræðin varðandi kvikmyndaáhorf mitt á síðasta ári er komin í hús frá Svíþjóð þar sem sænskir vísindamenn verkuðu upplýsingarnar í margmilljón króna forritum til þess eins að gera þær áhugaverðar fyrir ykkur. Allavega, gjörið svo vel;





* Alls áhorfðar myndir: 37
* Myndir að meðaltali á mánuði: 3,1
* Áhorfðar myndir á vorönn: 18 / avr: 4,5
* Áhorfðar myndir á haustönn: 5 / avr: 1,7
* Áhorfðar myndir í sumarfríinu: 10 / avr: 2,5
* Áhorfðar myndir í jólafríi: 4 / avr: 4,0

Út frá þessu má draga þá ályktun að vorönn hafi verið mun auðveldari en haustönn þar sem ég horfði á sárafáar myndir á haustönn. Einnig má til sanns vegar færa að ég hafi verið býsna upptekinn í sumar og aðeins séð 10 myndir á þeim, hér um bil, fjórum mánuðum sumarsins.





Yfirleitt dreg ég þá ályktun að ég sé sjúklega sérstakur og því oftar en ekki erfitt að spá fyrir hvað ég segi um hverja bíómynd. Annað segir Excel þó. Forritið hefur fundið fylgni milli skoðanna minna og skoðanna almennings á kvikmyndavefnum imdb.com. Fylgnin er þannig að fyrir hverja stjörnu sem ég gef má margfalda hana við 0,5659 og bæta 5,9151 við til að fá ca það sem imdb.com notendur gefa, eins og þið sjáið augljóslega að ofan.

Ég hef ekki orku í að skrá fleiri niðurstöður.


Ef allt gengur eftir er mynd hér ad ofan sem tákn um að myndabloggið hafi verið virkt.
Eftir að hafa ekkert borðað í rúmlega 37 tíma, sökum ælupestar, kom ég með sterkan leik og fékk mér tvær mandarínur í morgun. Ég er semsagt allur að koma til og því ætla ég að fagna með því að æla hressilega.

fimmtudagur, 20. janúar 2005

Nýlega fékk ég þá flugu í hausinn að hefja mblog. Mblog er þá myndafærslur sem ég sendi úr gsm símanum mínum og sýnir mitt daglega amstur um leið og það gerist. Þá er bara að gera markaðsrannsókn og sjá hvort áhugi sé fyrir þessu. Gjörið svo vel:



Vegna ótrúlega skæðrar ælupestar sem ég nældi mér í í keilu í gær, þar sem ég vann báða leikina ótrúlegt nokk, verður kvikmyndatölfræðin að bíða enn lengur. Örvæntið ekki, ég hef refsað sjálfum mér fyrir að vera aumingi.

Til gamans má geta þess að ég hef með þessari flensu misst lágmark 5 kg, eitthvað sem ég mátti alls ekki við. Ég lít þó á björtu hliðarnar. Einhverjir krókódílar í rotþróm bæjarins þyngjast um þessi sömu 5 kg.

miðvikudagur, 19. janúar 2005

Kvikmyndatölfræðin, sem ég var búinn að lofa í þessu plássi í gær, frestast um einn dag. Hálfnað verk þá hafið er en keilufíkn mín náði yfirhöndinni áður en ég gat klárað. Þið getið þó huggað ykkur við að þið hafið eitthvað tilhlökkunarefni því tölfræðin kemur á morgun. Verið viðbúin með myndavélarnar, þó að þetta verði auðvitað höfundarréttarvarið.
Dagurinn hefur verið notaður í tilraun sem ber leynilega heitið "Verið í 'Fólk er fífl' bolnum í HR og athugað hvort ég verði stunginn á hol af æstum múginum fyrir vikið" en hún felur í sér að ég klæðist 'Fólk er fífl' bolnum mínum í HR og athuga hvort ég verði stunginn á hol af æstum múginum fyrir vikið. Niðurstöðu er að vænta í lok dags. Ef ekkert verður ritað hér aftur hefur hún farið eins og búist var við.

þriðjudagur, 18. janúar 2005

Í dag verslaði ég vörur, sem ég hef lengi þurft á að halda, fyrir andvirði þjóðarframleiðslu lítillar þjóðar. Með öðrum orðum; ég var að fá LÍN lánið "greitt".

Í öllum þessum kaupum gerði ég bestu kaup allra tíma; steikingarpönnu á 300 krónur í IKEA. Ég er rétt farinn að trúa því að þetta hafi verið rétt verð núna, 5 tímum eftir kaupin, en þegar kaupin áttu sér stað hljóp ég út öskrandi úr hlátri um leið og ég hafði kvittað á debetkortafærsluna.

Á morgun; tölfræði varðandi kvikmyndaáhorft mitt á síðasta ári. Mætið eða verið ferningar.
Ef það er eitthvað sem fær mig til að brosa, svo glitti í tennurnar, þá eru það eftirtalin atriði:

* Að borða skúffuköku
* Áfengisneysla
* Þegar ég held að það sé eitthvað fast í tönnunum á mér
* Að spila körfubolta
* Þegar einhver skrifar eitthvað um mig á sínu bloggi

Nýlega uppgötvaði ég, á meðan ég borðaði skúffuköku með vodkaslettu eftir að hafa spilað körfubolta í allt gærkvöld, að snillingur einn að austan hefur hafið blogg. Ekki nóg með það heldur nefndi hann mig á nafn í síðustu færslu sinni í sjötta sæti sem maður ársins 2004. Allir á kíkja á Inga Val Valgarðsson og hans blogg. Hann fær einnig hlekk hér til hliðar um leið og ég er búinn að losa skúffukökuna sem er föst á milli tannanna á mér.

mánudagur, 17. janúar 2005

Þá er komið að því. Listi yfir 37 bestu myndirnar sem ég sá á árinu 2004 lítur hérmeð dagsins ljós ásamt einhverri tölfræði hvað bíómyndafíkn mína varðar. Nokkur atriði fyrst:

* Ég hef uppfært stjörnugjöfina en margar fengu of háa eða lága einkunn á sínum tíma.
* Ég hef þetta í tvennu lagi. Fyrst kemur listinn, svo allskonar tölfræði.
* Ég er ekki í neinum nærbuxum.
* Færið músina yfir nafnið á myndunum fyrir nánari lýsingu á myndinni.

4 stjörnur
Engin mynd

3,5 stjörnur
1. The Butterfly effect
2. Spiderman 2
3. Lord of the rings: the return of the king
4. American Splendor
5. Fahrenheit 9/11
6. Finding Nemo

3 stjörnur
7. Irréversible
8. Identity
9. Shrek II

2,5 stjörnur
10. Terminator III
11. Anchorman
12. Shaolin Soccer
13. Phone booth
14. Amazon women on the moon
15. Nói Albínói
16. School of rock

2 stjörnur
17. Boondock saints
18. Along came Polly
19. Starsky and Hutch
20. Eternal sunshine of the spotless mind
21. Torrente II
22. Boys don't cry
23. 21 grams
24. Catch me if you can
25. Harry Potter and the Prisoner of Azkaban

1,5 stjörnur
26. Dawn of the dead
27. Torrente

1 stjarna
28. Manchurian candidate
29. Bridget Jones's Diary II
30. Lost in translation
31. Dodgeball

0,5 stjarna
32. Mystic River
33. Intolerable Cruelty
34. Johnny English
35. The Forgotten
36. Van Helsing

0 stjarna
37. Garfield
Þessi dagur byrjar ekki vel. Fyrst ber að nefna þetta samtal í bónus eftir að falleg stúlka var rétt búin að ganga á mig:

Ég: Hvað ertu að gera??
Stúlka: Fyrirgefðu, ég er bara að skoða nammið.
Ég: Ertu að kalla mig nammi?
Ég lét mig hverfa eftir að ég áttaði mig á því að ég var í nammideildinni.

Næst ber að nefna að ég missti disk í mötuneytinu svo diskurinn sprakk í tætlur og afgangssósan fór út um allt við mikla hrifningu geðsjúku afgreiðslukonunnar sem er alltaf á túr.

Og nú var ég að uppgötva, mér til skelfingar, að tyggjóið sem ég tók úr mér í miðri kennslustund í morgun og geymdi, gróflega áætlað, í örskamma stund á tölvunni hefur klemmst þegar ég lokaði fartölvunni eftir tímann.

Allavega, körfuboltaæfing í kvöld þar sem ég mun eflaust nefbrjóta mig.

sunnudagur, 16. janúar 2005

Í gærkvöldi var söfnun á stöð 2, rúv og skjá einum fyrir uppbyggingu eftir Tsunami flóðbylgjuna í asíu á annan í jólum. Mjög falleg hugsun og ótrúlegt hvað allur heimurinn er snöggur að bregðast við þessum hörmungum.

Hér kemur getraun dagsins: Hver er munurinn á Tsunami fljóðbylgjunni og áras bandaríkjamanna, breta, tveggja íslendinga og annara vitleysinga á Írak?

Svar: Tsunami olli ca 150.000 dauðsföllum óbreyttra borgara. Íraksstríðið hafði valdið, í október síðastliðnum, um 100.000 dauðsföllum óbreyttra borgara. Þá eru ótaldir hermenn Íraka og hryðjuverkamenn bandaríkjamanna fyrir utan auðvitað þau fórnarlömb sem bætast við daglega.

Samt eru allir að grenja yfir flóðbylgjunni og enginn safnar peningum fyrir Íraka.

Ekki misskilja mig; flóðbylgjan var hræðilegur atburður og ekkert hægt að gera til að koma í veg fyrir hana. Íraksstríðið er þó hræðilegra af því það hefði verði hægt að koma í veg fyrir það.


Incredible fjölskyldan


Fyrir rúmri viku síðan sá ég myndina The Incredibles með Garðari og Bergvini í Háskólabíói. Myndin er þrívíddarteiknimynd frá Pixar sem fjallar um fjölskyldu þar sem allir aðilar búa yfir ofurhæfileikum á tímum þegar ofurhetjur eru bannaðar vegna þess hversu sjúkir bandaríkjamenn eru í að kæra alla, þó sérstaklega bjargvætti sína enda um siðlaust pakk að ræða.
Allavega, myndin er stórkostleg skemmtun bæði fyrir auga og heila, sérstaklega þar sem augun eru hluti af heilanum.

Þrjár og hálfa stjörnu af fjórum.

laugardagur, 15. janúar 2005

Í kvöld verður árshátíð þessarar síðu haldin á leynilegum stað. Hugsað verður um gamlar og góðar færslur, áhrif síðunnar á veðrið og hvernig hægt er að bæta hana svo veftímaritið geti orðið enn meiri áhrifavaldur innan íslenskra stjórnmála. Ennfremur verður horft á sjónvarpið og ef visa leyfir, keypt snakk og borðað.

Það verður því engin færsla skráð í dag.

föstudagur, 14. janúar 2005

Í gær barst mér símtal frá hinu merka blaði Austurglugganum þar sem ég var beðinn um að rita pistla fyrir blaðið einu sinni í mánuði. Ég yrði þá í fríðu föruneyti Estherar og Björgvins bróðir svo einhverjir séu nefndir. Það fyrsta sem flaug í gegnum hausinn á mér var hvort ég hefði getu til þess þar sem hver pistill á að vera 500 orð og hver færsla hér oftast einkahúmor. Svo fór ég að hugsa:

Skrifuð orð á þessu bloggi: 151.891
Skrifuð orð á ári að meðaltali: 67.571
Skrifuð orð á mánuði að meðaltali: 5.626
Skrifuð orð á viku að meðaltali: 1.298
Skrifuð orð á dag að meðaltali: 185
Skrifuð orð í hverri færslu að meðaltali: 68
Skrifuð orð í þessari færslu: 164

Þetta gaf til kynna að ég væri að skrifa andvirði 2,70 daga af bloggfærslum til Austurgluggans á mánuði og þar sem ég skrifa að meðaltali 2,71 færslu á dag væru þetta 7,317 færslur í einum pistli.

Þannig að ég sagði kannski.
Hér er ábending til allra bílstjóra í Reykjavík. Ekki aka á gangstéttunum Reykjavíkur í dag, þær eru stórkostlega hálar eins og ég fékk að kynnast í morgun við að ganga í skólann á rúmlega 35% meiri tíma en venjulega. Hér er, að því er virðist, notast við Fellbæska stjórnunarháttinn "það liggur ekkert á að bera sand á gangstéttir" sem allir elska. Fellabær reyndar ryður heldur ekki götur fyrr en fer að vora þannig að Reykjavík stendur sig betur hvað það varðar.

En hafið ekki áhyggjur af mér. Ég hef þróað með mér góða aðferð til að fljúga ekki á hausinn. Felur hún í sér að leggjast niður á hálustu köflunum og rúlla mér yfir þá.

fimmtudagur, 13. janúar 2005

Ég hef nú þegar fengið tvær ávísanir fyrir að birta þessar auglýsingar hér að ofan frá einhverju erlendu fyrirtæki. Fyrsta ávísunin hljóðaði upp á 1,13 dollara en hin miklu hærri eða upp á 3,56 dollara. Nú kunnið þið að hugsa að ég hafi selt sálu mína fyrir ca 4,69 dollara á tveimur mánuðum sem gera rúmlega 290 krónur þar sem dollarinn er í 62 krónum en þar skjátlast ykkur. Nú bíð ég einfaldlega eftir því að dollarinn hækki í amk 5.000 krónur og þannig hef ég selt sálu mína fyrir um 23.450 krónur sem gerir þetta allt þess virði.

Þetta fjármálaráð var í boði samtakanna Smiðir gegn klámi.
Þá er talningu atkvæða í kosningu fyrradags lokið og niðurstöður komnar í ljós. Þær eru sláandi svo ekki sé meira sagt. Fólk virðist almennt halda að ég muni ekkert fríkka með árunum heldur standa í stað og jafnvel verða ófríðari.

Svona mun ég þá líta út eftir nokkur ár þegar eftirlaunaaldri er náð:



Finnur.tk morgundagsins


Til að taka af allan vafa hvað útlit mitt varðar þá lít ég svona út í dag:



Finnur.tk nútímans


Sjáiði eftir þessu vali núna, skepnurnar ykkar?
Þá hef ég loksins fengið út úr síðasta prófinu en ég tók veikindapróf í Gerð og greiningu ársreikninga sælla minninga fyrir stuttu síðan. Ég náði, ótrúlegt nokk, með sjö í einkunn og er því með 7,6 í meðaleinkunn fyrir síðustu önn.

Það sem skiptir miklu meira máli er auðvitað að nú fæ ég langþráð 100% lán frá LÍN. Ég býð því öllum upp á drykk og jafnvel drykki ef þú ert gella.

miðvikudagur, 12. janúar 2005

Í ljósi þess að í gær fékk ég rétt rúmlega 36 klukkutíma til að undirbúa 20 mínútna fyrirlestur með félögum mínum í stefnumótun þá hugsa ég að frí verði tekið frá blogginu í dag. Þess vegna kemur hér könnun sem fær að lifa út daginn.

Það vita það allir að ég er ekki ungur maður lengur. Ég get þó orðið eldri, þótt ótrúlegt sé og þá er óhjákvæmilegt að velta fyrir sér hvernig ég muni líta út sem heldri maður. Ég hringdi í sænsku vísindamennina og þeir snöruðu fram fimm spám um það hvernig ég muni eldast. Ég bið ykkur hérmeð að kjósa þá mynd sem rétt lýsir mér í framtíðinni og mun ég keppast að því að líkjast þeirri mynd þegar fram líða stundir. Takk. Smellið á titla myndanna til að sjá þær í nýjum glugga og kjósið svo fyrir neðan.

Mynd númer 1

Mynd númer 2

Mynd númer 3

Mynd númer 4

Mynd númer 5

Kjósið hér (Í þetta skiptið getið þið kosið margar myndir í einu ef þið getið ekki ákveðið ykkur):




þriðjudagur, 11. janúar 2005

Í eftirfarandi staðhæfingu er eitthvað eitt atriði sem ég hef aldrei gert áður. Hver getur giskað á hvað það er?

"Í dag borgaði ég pening fyrir drykkjarvatn í formi Topps."

Í verðlaun er þráðlaust píanó að verðmæti kr. 500.000.
Annar skóldagurinn hálfnaður og ég með 100% mætingu sem þýðir að ég hef ekkert sofið yfir mig ennþá. Samkvæmt frægum, sænskum vísindamönnum má bera þetta saman við líkurnar á því að fá eldingu í hausinn 0,85 sinnum eða vinna fyrsta vinning í lottó 1,19 sinnum. Að hugsa með sér.

mánudagur, 10. janúar 2005

Þá er komið að hinu dásamlega uppfyllingarefni "ég mæli með" færslunni sem allir elska.

Fyrst á dagskrá er BMX leikurinn ógurlegi sem olli því að meðaleinkunn mín féll um tugi prósenta á milli ára. Gefum honum gott klapp.

Doktor Siggi er merkilegur maður. Merkilegur af því hann er sérlega fyndinn og maður af því hann er kominn á og jafnvel yfir kynþroskaaldurinn. Ég mæli með lestri þessarar síðu.

Síðast og mjög síst þá mæli ég með þessari færslu og því lagi sem fylgir henni. Lagið er grátlega grípandi enda eftir karlkyns útgáfuna af Björk; Svein Elmar Magnússon, rafvirkja og athafnamann.
Skólinn er byrjaður og ég að rifna úr stuði þrátt fyrir aðeins um tveggja tíma svefn í nótt. Ástæðan fyrir svefnleysinu var ekki kynlífsmaraþon eins og lesendur hugsa eflaust og ekki heldur amfetamínneysla heldur einfaldlega þreytuleysi. Ég nýtti þó tímann vel, lá í myrkrinu og horfði upp í loftið, hugsandi um horfna daga.

Allavega, aðgerðagreining er held ég uppáhaldsfagið mitt frá upphafi þangað til annað kemur í ljós. Fagið mun vonandi hjálpa mér í framtíðinni við að gera betri bloggfærslur.

sunnudagur, 9. janúar 2005

Í Oprah þætti dagsins, sem vinur minn horfði á og ekki ég, var fjallað um menn sem eru giftir þrátt fyrir að vera sjóðandi hommar. Frábær tilviljun að í öllum tilvikum var kona mannsins óþarflega ófríð og óaðlaðandi.

Allavega, þessi vinur minn hefur ekkert gert í dag nema skrifað þessa færslu enda síðasti frídagur fyrir skólahelvítið sem byrjar á morgun.
Lífið er fullt af hamingjustundum og eru þá hamingjustundirnar yfirleitt óvæntar uppákomur. Í kvöld fékk ég mér hrökkbrauð með osti og mjólk með, fjögur stykki nánar tiltekið og þegar ég hafði lokið við, að ég hélt, helminginn hugsaði ég mér að þetta væri aldeilis gott á bragðið. Ennfremur hugsaði ég að það væri gott að hafa eitt hrökkbrauð í viðbót en það myndi fela í sér ferð í eldhúsið þar sem allt var niðurpakkað. Þegar ég svo leit á diskinn sá ég að þar hafði ég aðeins lokið við eitt stykki og því þrjú eftir. Það var nóg til að ég brosti eyrnanna á milli.

En allavega, ég er hamingjusamur.

laugardagur, 8. janúar 2005

Einn skemmtilegasti bloggari allra tíma er kominn aftur til Reykjavíkur og byrjaður að blogga á ný. Markús heitir pilturinn er og er öðlingur. Mæli enn og aftur með því að þið kíkið á síðuna hans og í þetta skiptið; kjósið rétt.

Þessi færsla tengist á engan hátt því að ég er tilnefndur fyrir bestu bloggsíðuna.

föstudagur, 7. janúar 2005

Einkaminnispunktar sem ekki mega fara á bloggið!

* Aldrei nokkurntíman, undir neinum kringumstæðum, segja frá því þegar þú fórst í klippingu í dag og karlamaður þvoði þér um hárið. Ef upp kemst um atvikið, ljúga einhverju um að ég hafi ælt, brjálast og/eða gengið út.

* Fá mér tattoo til að bæta upp fyrir hárþvottinn.

* Ekki segja fólki frá því hversu illa mér gekk í GARS prófinu, þrátt fyrir gríðarlega lærdómslotu síðustu daga. Gæti skaðað mannorð mitt.

* Ekki skrifa um drauma mína. Það hefur ekki nokkur maður áhuga á því að lesa drauma annara.

* Ekki segja frá þeim sjö gráu hárum sem ég hef fundið á hausnum síðustu daga. Vinsældir mínar hjá stelpunum gæti farið niður fyrir núll.

* Ekki velja 'publish post' eftir að hafa skrifað þetta heldur 'save as draft'!
Það líður að því að ég hafi tíma til að upprifja árið 2004 þar sem ég var að koma úr mínu eina veikindaprófi og gekk bara þónokkuð illa. Allavega, þangað til kemur gælunafnaupprifjun en þegar ég bjó á Tunguvegi 18 í fyrra skapaðist sú sérkennilega hefð að allir fengu viðurnefni einhverskonar. Hér er listinn:

Óli: Óli Rú - S.b. Kalli Lú.
Guggur: Stuðmundur 2500 (- þegar hann var fullur) og Gummi frá Reykjavík ( -þegar hann var að læra).
Víðir: Mars McVíðir - Borðaði mikið af Mars og vinnur á McDonalds.
Gústi: Ágústus Keisari - Hljómaði vel og hann naut mikillar kvenhylli.
Ég: .tk - Þar sem ég er með netfangið finnur.tk.

Gestir:
Kristján Orri: Ko Kid - Skammstöfun + andlegt ástand mannsins.
Markús: Marky Markús - S.b. Marky Mark.

Enn fremur voru öll nafnorð tekin og sett í frummynd sína að viðbættu "ari" og greini ef við átti. Ennfremur var þeim breytt í karlkyn. Dæmi: Taskan varð að taskarinn og borðið varð að borðarinn.

Núna bý ég hinsvegar einn og þar er eina hefðin að ganga um nakinn.

fimmtudagur, 6. janúar 2005

Aldrei áður hefur jafn hatrömm barátta við kvefpestina verið haldin. Ég hef nú gert allt til að losna mig við þessa veiru sem lagðist á mig um leið og ég sté úr flugvélinni, þegar ég kom til Reykjavíkur í alkuli.

Hér er rekstrarreikningurinn:

Tekjur
Andvirði kvefleysis (metið)... kr. 4.000.000
Alls tekjur... kr. 4.000.000

Gjöld
Tebollar... kr. 450
Hálstöflur... kr. 930
Sólhattstöflur... kr. 972
Lýsistvenna... kr. 482
Clarityn ofnæmislyf... kr. 878
Úlpa... kr. 19.985
Alls gjöld... kr. 23.697

Hagnaður fyrir afskriftir og skatta... kr. 3.976.303.

Þar höfum við það. Ég barðist við kvefið og ég vann.


Úlpan í partíi árið 2001


Í jólafríinu, sem nú er nýafstaðið, á austurlandi gerði ég mér lítið fyrir og fékk gefins nýja úlpu. Þarmeð líkur amk átta ára valdatíð bláu úlpunnar en ég fékk hana í jólagjöf frá pabba árið 1996, hvorki meira né minna.

Við tekur svört og alvarleg úlpa af gerðinni ZO-ON. Ég þakka glaumgosaúlpunni bláu fyrir gott samstarf á liðnum árum.

miðvikudagur, 5. janúar 2005

Ég var rétt í þessu að versla í bónus fyrir kr. 3.800 sem samsvarar um 48.000 krónum í Nóatúni. Ég er því með allt til alls og þarf aldrei aftur á nokkrum sköpuðum hlut að halda.
Ef einhver hefur séð Simpsonþátt gærkvöldsins sem sýndur var á stöð 2 þá er sá hinn sami sennilega enn með hjartslátt yfir einni setningunni sem Carl Carlson lét út úr sér þegar ljósastaurar Springfield voru stilltir á of mikinn styrkleika þannig að það var of bjart um hánótt. Hann sagði "This reminds of my Icelandic childhood" sem er lauslega þýtt "Þetta minnir mig á mína stórkostlegu Íslensku æsku".

Hvað höfundum þáttarins stóð til með þessu er mér hulin ráðgáta þar sem sárafáir vita af björtu nóttum Íslands. Allavega, ég gleypti næstum því tunguna af mér við að heyra þetta og hafði gaman af.

þriðjudagur, 4. janúar 2005

Eftir átta mánaða lægð í veikindamálum hefur mér loksins tekist að næla mér í kvef. Það er af sem áður var þegar ég veiktist ca tvisvar í mánuði af kvefi. En það er sama hversu vanur ég er að vera kvefaður, aldrei er það mjög gaman og ég til í að fórna nánast hverju sem er til að sleppa við það. Í þetta skiptið fórna ég ca 1.000 krónum og möguleikanum á því að kyngeta mín skerðist auk þess sem ég gæti fengið útbrot með því að versla mér Sólhatt, gamalt indjánalyf sem enginn hefur sannað að virki.

Svona getur maður verið örvæntingafullur.

mánudagur, 3. janúar 2005

Hingað til hef ég aðeins birt myndir af sjálfum mér sem mér finnst ekki falla í flokkinn "slæmar myndir" þar sem ég vil gjarnan að fólk hugsi það besta um mig. Ekki lengur þó þar sem mér er nú orðið nákvæmlega sama um hvað fólk heldur um mig.

Allavega, hér er mynd af mér frá ballinu á öðrum í jólum. Ég hef sjaldan verið jafn fullur, man ekkert eftir þessari myndatöku og hef aldrei verið með jafn stórt nef. Verði ykkur að góðu.

sunnudagur, 2. janúar 2005

Þessir stafir eru þeir síðustu sem ritaðir verða hér á austurlandi í bili, sennilega alveg fram á sumar nema að annað komi í ljós. Ég þakka höfðinglegar móttökur og skemmtilegt umhverfi.

laugardagur, 1. janúar 2005

Til hamingju með nýja árið, lesendur góðir og þakkir fyrir það sem nú er nýliðið.

Árið 2004 einkenndist, fyrir mig, af háskólanámi, peningastressi, bjartsýni og óvenju lítillar áfengisdrykkju. Ennfremur hef ég aldrei notið jafnmikillar kvenhylli og um leið ekki, staðið mig jafnvel í körfubolta og um leið ekki og verið jafnduglegur og um leið latur.

Áramótaheitið í fyrra stóðst ágætlega en ég stefndi á að verða bjartsýnni en áður hefur sést, heyrst eða lesist. Áramótaheiti fyrir árið sem er framundan er að fá mér meira sjálfstraust, auk þess sem ég mun jafnvel verða enn bjartsýnni. Einnig stefni ég á að leita mér hjálpar varðandi Tourettes syndrome-ið sem ég þjáist af í körfubolta.

Næsta daga mun ég birta ítarlegan annál fyrir árið 2004 og lista yfir allar bíómyndirnar sem ég gagnrýndi á árinu. Í fyrra voru þær 52.