sunnudagur, 31. október 2004





Nick Cave hefur sannað í eitt skipti fyrir öll að hann er besti tónlistarmaður heimsins með nýja tvöfalda disk sínum, Abattoir Blues / The lyre of Orpheus. Það eina sem ég finn að þessum diskum er nafnið, en ég get ómögulega munað það.
Ég mæli sérstaklega með lögunum Nature boy, There she goes my beautiful world, Let the bells ring og Supernaturally.

Með betri diskum Cave, og þá er gríðarlega mikið sagt.
Ef það er eitthvað sem ég hef lært í vetur þá er það að ég þarf að ganga á nákvæmlega sex kílómetra hraða frá grænu gönguljósunum á kringlumýrarbraut ef ég ætla akkúrat að ná næstu grænu gönguljósunum við gatnamót HR. Það og að PDSA ferlið er grunnur allra stjórnskipulegra breytinga innan stærri fyrirtækja.

laugardagur, 30. október 2004

Í gærkvöldi sannaðist í eitt skipti fyrir öll að ég er góðhjartaðasti maður í heimi. Á hurðina mína bankaði piltungur aðframkominn af áfengisleysi og spurði hvort ég ætti eitthvað til að selja sér. Sagðist hann eiga heilar 400 krónur og sagði ég honum að taka allt áfengið mitt, að verðmæti um kr. 2.200, gegn því að borga það einhverntíman.

Það er gott að styrkja verðugt málefni og ég efast ekki um að þegar þessi vodkadrekkandi náungi verður orðinn forseti sameinuðu þjóðanna mun hann endurgjalda mér greiðann með vöxtum.

föstudagur, 29. október 2004

Ég hef tekið mína fyrstu skyndiákvörðun um ævina og til að gera allt endanlega vitlaust tók ég aðra í kjölfarið. Um klukkan 13:00 að staðartíma ákvað ég að fara í klippingu undir eins án þess að vera búinn að hugsa nánar út í það. Ég fékk reyndar ekki tíma fyrr en seinna í dag en það er geðsjúkur hugurinn sem gildir.
Síðari skyndiákvörðun mín var sú að hlusta á nýja diskinn með Nick Cave, rétt si svona eins og ekkert væri sjálfsagðara. Diskurinn er með þeim betri. Kaupið hann hér eða hér.

Svo er bara að bíða og sjá hvort svona fljótfærni borgi sig til lengri tíma litið.
Þar sem síðasta könnun gengur svona vel (62 búnir að taka þátt(!)) þá hef ég ákveðið að taka upp þennan lið aftur og birta reglulega kannanir ykkur til gleði og yndisauka.

Önnur könnunin sem ég set af stað tengist kosningu á nýjum führer í nýja nasistaríki heimsins:


fimmtudagur, 28. október 2004

Hér er listi yfir ólíklegustu hluti sem geta gerst á Íslandi þessa dagana:

Vinna í lottói
1 á móti 501.942.
Röðin kostar 75 krónur.
Vinningur: frá kr. 1.000.000 - 30.000.000.

Vinna 12 rétta í 1x2
1 á móti 531.441.
Röðin kostar 10 krónur.
Vinningur: frá kr. 500.000 - 20.000.000.

Að ég fái 10 í tölfræðiprófi
1 á móti 977.993
Önnin kostar 99.000 krónur.
Vinningur: Ánægjan.

Að ég finni fjársjóð
1 á móti 2.202.664
Kostar: ekkert.
Vinningur: Endalausir peningar.

Vinna jackpot í spilakössum landsins
Engar líkur.
Kostar: Konu og börn.
Vinningur: kr. 500.000 - 1.000.000.

Auðvitað þurfti ég að vinna það sem hefur ekkert með pening að gera. Mín heppni.
Kringlan er búin að setja upp jólaskrautið og aðeins tveir mánuðir til jóla. Þá getur jesús loksins farið að snúa sér í gröfinni og ég bloggað um eitthvað ásamt því að komast í jólaskapið alltof snemma. Svo hef ég líka eitthvað til að nöldra yfir í hvert einasta skipti sem ég kem í kringluna, öllum til dásemdar. Dýrð sé drottni.

miðvikudagur, 27. október 2004

Þið sem hafið ekki séð þessa könnun ennþá, kjósið núna ellegar verðið litin hornauga.
Þar sem ég á að vera að skrifa ritgerð og virðist algjörlega andlaus varðandi ritgerðarefnið þá hef ég ekki samvisku í að blogga eitthvað gáfulegt eða sniðugt. Þess í stað ætla ég að leyfa ykkur að njóta einhvers sem ég nýlega uppgötvaði í gegnum Esther, kennara á Fáskrúðsfirði en hún fékk þetta hjá bróðir sínum sem aftur fékk þetta hjá einhverjum kunningjum sínum á netinu:

Skjár 1 á netinu!

Njótið.

viðbót: Hlekkurinn hefur verið lagaður eftir byrjunarörðuleika.
Fjórfarar vikunnar eru allir upplognir karakterar og/eða teiknimyndahetjur.



Reynir Svavar, lögfræðinemi í HR.




Emil, strákskratti í Kattholti.




Calvin, vinur Hobbes.




Steini Sterki, hlédrægur ofurhetjustrákur.

þriðjudagur, 26. október 2004

Ég vil þakka þeim rúmlega 40 manns sem hafa tekið þátt í kynkönnuninni hér að neðan. Það er ekki of seint að taka þátt.

Talandi um könnunina, ég auglýsi hérmeð eftir:

1. Píanósmið sem smíðar píanó (í fleirtölu) fyrir auglýsingu á síðunni.
2. Vinnu í jólafríinu.
3. Geðheilsu þar sem það stefnir allt í að ég tapi minni innan skamms.
4. Reiðinnar býsn af peningum.
5. Tíma til að blogga eitthvað sniðugt.
Eftir leiðinlegasta og óskiljanlegasta tíma frá upphafi nútímamannsins í tölfræði, þar sem smiðsfíflin, sem eru að minnka lærdómsaðstöðuna á fjórðu hæð HR, negldu allan tímann í vegginn svo illa heyrðist í kennaranum, fór ég í bónus í kringlunni þar sem allir heimsins öryrkjar voru mættir til að gera góð kaup, einu sinni sem oftar. Eftir að hafa stigið ofan á 12 börn og fengið ca 15 börn hlaupandi í lappirnar á mér náði ég út án þess að drepa mann.
Þá tók við að klára heimildaritgerð í stjórnun um breytingar innan fyrirtækja en viti menn, netið er dottið út hérna í HR eins og svo oft áður. Þannig get ég illa safnað að mér heimildum en hey, ég borgaði bara 99.000 krónur fyrir önnina. Hvað er ég að kvarta, ég er með stól og borð til að læra við, eitthvað sem er alls ekki gefið þegar kemur að helvítis háskóla djöfulsins reykjavíkur.

Ef ég get póstað þessu hefur netið náð að tolla nógu lengi inni (kemur og fer á ca hálftímafresti).

Þetta er síðasta færsla um ömurlega aðstöðu HR, í bili.

mánudagur, 25. október 2004

Það eru..

..tæplega 50 ár í dauða minn, gróflega áætlað.
..hérumbil 24 ár í fimmtugsafmæli mitt.
..átta mánuðir í afmæli mitt.
..tveir mánuðir til jóla.
..fimm vikur í jólafrí.
..fjórar vikur í að ég verð milljarðamæringur af auglýsingum á þessari síðu.
..sjö dagar í mestu lærdómstörn vetrarins.
..tíu mínútur eftir af nýja disknum með Quarashi sem ég er að hlusta á.
..ca þrjár mínútur í að ég æli yfir mig allan og tölvuna af viðbjóði yfir þessum fáránlega hópi sem er að öskrast á um idolið á föstudaginn, hérna í þessari litlu lærdómsaðstöðu sem við nemendur HR neyðumst til að nota saman. Sumt fólk heldur að það sé það mikilvægasta í heiminum og ber enga virðingu fyrir öðrum eða bloggþörf... lærdómsþörfum þeirra.
Það er orðið býsna langt síðan ég varð forvitinn um aðsókn á þessa síðu og þar sem priceless ruglið er að skekkja allar vísindalegar mælingar þá hendi ég einni gríðarlega flókinni könnun hér upp. Vinsamlegast svarið af hreinskilni og aðeins einu sinni. Það er aldrei of seint að taka þátt. Ef þið getið ekki fylgt þessum einföldu leikreglum þá ekki taka þátt.




Einn heppinn þátttakandi fær ekkert í verðlaun. Hinir fá píanó.

sunnudagur, 24. október 2004

Í gærkvöldi leigði ég mér myndina Big Fish og gleymdi henni á videoleigunni. Hún var þó sótt skömmu seinna, býsna vandræðalega.
Myndin var ágæt fyrir utan þá staðreynd að ég sofnaði áður en ég gat séð hana. Þegar ég svo vaknaði hljóp ég af stað í skólann, með það að markmiði að læra fram á kvöld þannig að ég skilaði henni, óáhorfðri.

Þetta er versti DVDleiguárangurinn minn hingað til. Ég vona að ég eigi ekki eftir að bæta þetta býsna slappa met.
Eftir næstum eitt og hálft ár hérna í HR hef ég náð að kynnast einum sem ég þekkti ekki fyrir og eignast ca sex kunningja sem ég heilsa. Í HR eru um 1.400 manns sem gerir 0,5% árangur, sem auðvitað er fall í persónutöframálum. Ég verð að standa mig betur í framtíðinni.

Eitt af því fáu sem ég hef lært hérna er einmitt að það er tvennt sem fær mann til að kynnast fólki hérna. Annars vegar áfengi, sem fær mann til að spjalla við annað fólk af einskæru kæruleysi og hinsvegar stress en undir þannig áhrifum fær hræðslan um fall mann til að spyrja ókunnuga um lærdóm og annað.

Næsta törn í kynningarmálum er eftir mánuð liðlega þegar jólaprófin byrja. Ég ætla því að tvöfalda möguleika mína á því að kynnast fólki hérna með því að mæta dauðadrukkinn í próflærdóminn.

laugardagur, 23. október 2004

Ég hef sennilega skrifað um þetta áður en á drykkjarskyr.isdollunum, og eflaust fleiri mjólkurafurðum, stendur að þær innihaldi "lifandi gerla". Er maður ekki á nógu miklum bömmer yfir því að vera að drekka gerla, svo ekki sé talað um að þeir séu lifandi? Ef mjólkursamsalan bætir við t.d. "ungir, lifandi gerlar með drauma og þrár rétt eins og ég og þú" í innihaldslýsinguna þá hætti ég að drekka drykkjarskyr.is, í einhvern tíma amk.

föstudagur, 22. október 2004





Orð fá ekki lýst aðdáun minni á þessum sjálfboðaliðum húmors landsins. Allir að kíkja á baggalút.
Hér eru nokkrar ráðleggingar til stelpna sem er kalt (allra stelpna, alltaf):

* Klæðið ykkur betur en í magaboli.
* Hækkið á ofnum.
* Færið ykkur frá opnum gluggum.
* Farið úr herberginu.

Í versta falli:
* Bætið á ykkur fituforða.
* Drekkið ykkur blindfullar.

Hvað sem þið gerið, alls ekki loka gluggunum! Frá opnum gluggum kemur súrefni sem, að því er virðist, aðeins við strákarnir þurfum.
Í nótt bætti ég Evrópumetið í að vakna oft áður en ég ætlaði mér, orsakað af stressi yfir því að vera að sofa yfir mig. Alls vaknaði ég um 15 sinnum, fyrst eftir rúman klukkutímasvefn þegar ég stökk á fætur og byrjaði að klæða mig í, skiljandi ekkert í því af hverju vekjarinn hringdi ekki.

Í dag er ég svo á mörkum þess að bæta Evrópumetið í þreytu þar sem komandi stjórnunartími mun gera útslagið.

Ég er þá amk bestur í Evrópu í einhverju.

fimmtudagur, 21. október 2004

Ef einhver sem er skráður í vísindaferð morgundagsins les þetta; vinsamlegast afskráðu þig svo ég komist með þar sem ég er númer sjö á biðlista. Áhuginn hjá mér á þessari vísindaferð virðist hafa stóraukist þegar kom í ljós að uppselt var í hana. Merkilegt hvað ég vil alltaf hluti sem ég get ómögulega fengið.

Undantekning varð þó á þessari reglu minni í gærkvöldi þegar ég fjárfesti í þessum MP3 spilara á ebay. Ég hélt ég væri að sleppa vel með því að versla hann á rúmlega sjö pund (um þúsund krónur) en í ljós kom, um leið og ég hafði unnið, að það kostar 22 pund (um 3000 krónur) að fá þetta sent. Ekkert er svo með öllu gott að ei boði illt.
Kæruleysi mitt náði hámarki í gær þegar ég ákvað að mæta ekkert í skólann en þess í stað sofa út, versla inn og heimsækja ömmu mína. Þetta markar tímamót því þetta er í fyrsta sinn frá upphafi sem ég mæti ekkert í skólann á virkum degi. Þegar þessar fréttir bárust nemendum skólans varð uppi fótur og fit, fólk fór á taugum og sumir misstu stjórn á sér. Í dag eru sjö manns taldir af og fimm er enn saknað en hey, ég náði að hvíla mig.

miðvikudagur, 20. október 2004

Það er allt að fara til helvítis. Ekki nóg með að það stefni allt í að Hitler samtímans muni sigra kosningar í Bandaríkjunum gegn John Kerry, allt sé að springa í loft upp í austurlöndum fjær og að regnskógar séu óðum að hverfa heldur er Karl Kennedy úr nágrönnum nú orðin alki.

Þegar maður heldur hægt sé að forða sér frá öllum sínum vandamálum með nokkrum mínútum með nágrönnum okkar og vinum í Ástralíu þá þarf Karl að gera eitthvað svona og eyðileggja upplifunina.

þriðjudagur, 19. október 2004

Þarna datt ég í lukkupottinn. Þessa dagana er ég að kljást við eftirfarandi langanir:

* Detta í það.
* Drepast við pylsusölubás.
* Biðja um nágrannalagið í óskalag hjá hljómsveit sem dýrkar nágranna.
* Ganga við hlið sótsvarts almúgans eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Komandi helgi er þetta víst allt hægt því þá koma Keane til landsins til að spila á Airwaves, vísindaferð verður farið frá HR á föstudaginn, ég á heljarinnar áfengismagn í ísskápnum heima og á og við Laugarveginn er bæði allt fullt af sótsvörtum almúga og pylsuvögnum.

Fylgist með fréttunum á sunnudagsmorgun, nánar tiltekið fréttina um skammarlegt framferði háskólanema í miðbænum.
Nýlega gerði veftímarit þetta annan auglýsingasamning. Í þetta skiptið var það adengage sem hafði samband við mig og því er aukaborðinn hér að ofan staðreynd. Það kemur á óvart hvað það er miklu auðveldara að selja sálu sína í annað skiptið.

Allavega, þessi borði er öðruvísi að því leiti að þú, lesandi góður, getur auglýst á þessari síðu með því að smella á "See your link here" (eða hérna) og greiða litlar 1.500 krónur fyrir vikuna. Hægt er að semja um verðið auðvitað.

mánudagur, 18. október 2004

Áætlun um 20 tíma svefn stóðst ekki. Ég nota því tækifærið og geri ekkert til að vinna upp ekkertið sem ég hef sleppt að gera síðustu daga vegna lærdóms.

Þessa stundina er stórmyndin The Hours á stöð 2. Ég nenni ekki að fylgjast með henni en ég tek samt eftir því að Nicole Kidman er einstaklega ófríð í henni. Henni hefur einhvernveginn tekist að grenna sig alla nema nefið á sér, allt til þess gert að láta nefið sýnast risavaxið eins og sést hér. Ótrúlegt hvað leikarar leggja á sig. Þetta eru hetjur.
Mér gekk vonum framar í tölfræðiprófinu. Svo vonum framar að restin af deginum hlýtur að klúðrast einhvernveginn. Ég ætla þó að koma í veg fyrir að klúðra þessum degi frekar og fara heim að sofa upp úr hádeginu, ef ég vaki þennan fjármálamarkaðstíma af, og mun ég sofa fram á morgun. Lifið heil.
Þá er sunnudagurinn liðinn og ég get örugglega sagt að þessi dagur hafi verið uppriðinn. Eftir vægast sagt hræðilegan laugardag, þar sem ég m.a. tapaði öllum mínum leikjum á körfuboltaæfingu og trylltist, ákvað ég að reyna að einbeita mér að náminu í dag og jafnvel hlusta á einhverja tónlist.

Eftir daginn hef ég náð að lesa einn og hálfan kafla fyrir tölfræðiprófið og hlustað á þetta lag (textinn við það) tuttugu og einu sinni eftir að hafa uppgötvað það upp úr hádegisbilinu. Ég hef þó engar áhyggjur þar sem það eru rúmir fjórir tímar eftir af nóttinni og ég get örugglega hlustað á það tíu sinnum í viðbót
ÞAÐ SÉST KANNSKI EKKI Á MÉR EÐA Á ÞESSUM SKRIFUM EN ÉG VAR RÉTT Í ÞESSU AÐ KLÁRA FJÖGUR KÍLÓ AF SYKRI, ALLT Í ÞÁGU GÓÐS NÁMSÁRANGURS ÞVÍ ÉG VAKI ALLA ÞESSA NÓTT TIL AÐ LÆRA FYRIR TÖLFRÆÐIPRÓFIÐ SEM ER Í FYRRAMÁLIÐ!! ÞAÐ ER EKKI LAUST VIÐ SMÁ SPENNU!!

sunnudagur, 17. október 2004

Á forsíðu fréttablaðsins í dag var sagt frá því að 18 manns hefðu verið teknir með dóp á sér á tónleikum Prodigy á föstudagskvöldið. Ég nennti ekki að lesa fréttina en mér finnst það ansi slæmt að 15 manns af ca 4.000 áhorfendum skuli vera í dópi. Eru ekki annars örugglega bara þrír meðlimir í Prodigy?
Hér er hugmynd fyrir kringluna sem ég myndi kíkja á. Ég er meira að segja búinn að semja auglýsinguna fyrir kringlueigendur sem þeir mega nota án þess að greiða mér fyrir:

"Krakkalausir dagar í Kringlunni alla sunnudaga
Á sunnudögum héreftir eru krakkafífl bönnuð í kringlunni svo hægt sé fyrir fullorðna fólkið að komast á milli staða án þess að stórslasa sig eða litlu ófétin. Þeir sem mæta með börn er umsvifalaust vísað á dyr.
Þessi ákvörðun var tekin í ljósi þess að drengur einn úr HR missti stjórn á skapi sínu og lét reiði sína bitna á barnahóp einum og foreldrum þeirra eftir að litlu kvikindin þvældust ítrekað fyrir honum."

Reykvískir foreldrar hafa misst alla stjórn á afkvæmum sínum.

laugardagur, 16. október 2004

Nýr lesandi kom á síðuna nýlega, skrifaði ummæli um hvað hangilostakústur er í raun og veru og að hún væri stolt af því að vera komin í hópinn. Þannig fær hún hlekk, en ekki hvað. Til gamans má geta þess að ég veit nákvæmlega ekkert um þessa stelpu nema að hún er sjúk, að eigin sögn.

Velkomin í hlekkjaflóruna, sickgirl.
Í morgun, milli klukkan 6 og 7, hrökk ég ca fimm sinnum upp, glaðvakandi, við sms hljóð í símanum mínum en hann gefur frá sér eitt lágt píp við sms skilaboð. Ég hélt þó áfram að sofa þar sem ég ætlaði að ekki að vakna fyrr en eftir þrjá tíma.
Ég steinsvaf svo yfir mig þegar mínir fjórir háværu vekjarar hringdu í kór rétt upp úr klukkan 10. Svona er mannslíkaminn frábært fyrirbæri.
Í dag ætla ég að fría mig frá því að skrá færslu á þessa síðu og þess í stað bjóða upp á fleiri myndir af Kristjáni Frey frænda, syni Styrmis bróðir og Lourdes konu hans.

Hér eru þær:
1
2
3
4
5

Næsta færsla er áætluð næst þegar mér dettur eitthvað í hug, þegar ég hef tíma eða kemst á netið.

föstudagur, 15. október 2004

Þegar 11 dagar eru liðnir af auglýsingastarfseminni minni hérna á síðunni (sjáið, og helst smellið á, auglýsinguna hérna fyrir ofan) hafa þrír smellt á auglýsinguna sem gera 0,84 dollara fyrir mig. Þetta eru góðar fréttir þar sem þetta gefur til kynna að ég muni fá greidda eina milljón dollara eftir nákvæmlega 35.852,81 ár eða í ágúst árið 37857.
Framundan er tölfræðiveisla þar sem ég fer í tölfræðipróf á mánudaginn. Helgin verður því helguð undraheimum tölfræðinnar og alsælunni sem henni fylgir. Ekki vaka eftir mér.

fimmtudagur, 14. október 2004

Ég var að fá tölvupóst frá sænskum vísindamönnum sem hafa verið að rannsaka mig. Hér eru niðurstöðurnar:

Ef þú, að öllu óbreyttu, sérð mig þessa dagana eru...

..26,04% líkur á því að ég sé sofandi.
.. 2,78% líkur á því að ég sé að labba úr eða í skólann.
.. 3,03% líkur á því að ég sé ekki að gera neitt heima.
.. 4,17% líkur á því að ég sé að spila körfubolta.
.. 3,75% líkur á því að ég sé að blogga.
..11,82% líkur á því að ég sé að læra í skólanum.
..48,41% líkur á því að ég sé að að stara upp í loftið.

..71,49% líkur á því að ég hafi sofið yfir mig um morguninn.
..97,31% líkur á því að ég muni fara seint að sofa um nóttina.
.. 2,33% líkur á því að ég sé saddur.
.. 0,05% líkur á því að ég tala í símann.
..95,23% líkur á því að mér dauðleiðist.
Ég rakst á nokkuð skondið erindi í lagi Þursaflokksins, Sigtryggur vann:

Sigtryggur í svefni vær
sendir frá sér pústur.
Hjá honum liggur haukleg mær
og hangilostakústur.


Ef einhver getur sagt mér hvað hangilostakústur er fær sá hinn sami/sú hin sama hangilostakúst í verðlaun.
Fjórfarar vikunnar eru allir heimsþekktir tónlistarmenn, þó misheimsþekktir og mismiklir tónlistarmenn.



Ingó Starr, bassafantur Atómstöðvarinnar




Brian May, gítarleikari Queen sálugu




Slash Bárðarson, gítarleikari Velvet Revolver




Weird Al Yankovic, gamanleikari lífsins

miðvikudagur, 13. október 2004



Ninja from Norge!


Ég hef nú hafið innreið mína í teiknimyndasögurnar eftir að hafa bloggað í rúm tvö ár. Hér getið þið séð fyrstu afurðina. Ég er þó enn sem komið er aðeins lausapenni en Grafíkmeistarinn Jónas Reynir teiknar eins og honum einum er lagið. Betra er að taka fram að Ninjan frá Noregi er algjörlega hans hugarsmíð.
Stjórnunarpróf á morgun og þá er ekkert betra en að gera sér playlista og spila á meðan lesið er. Hér er listinn sem er í gangi hjá mér í dag:

1. Vera mátt góður - Þursaflokkurinn
2. I miss you - Blink 182
3. Get free - The Vines
4. Engin orð - Dikta
5. Ava Adore - Smashing Pumpkins
6. Fell in love with a girl - White stripes
7. Why does my heart feel so bad - Moby
8. Christina the astonishing - Nick Cave
9. Even Flow - Pearl Jam
10. Aerodynamic - Daft Punk
11. F.K.O. - Subtle
12. Ocean Spray - Manic Street Preachers
13. Girls - Prodigy

Auk diskanna
Fat of the land - Prodigy
Murder Ballads - Nick Cave
Best of - Cat Stevens

Andleysið er að drepa mig.

þriðjudagur, 12. október 2004

Alltaf finnst mér það jafn stórkostlega hlægilegt þegar fólk í sama herbergi og ég á þriðju hæð háskóla Reykjavíkur biður mig um að líta eftir tölvunum sínum á meðan það skreppur í burtu. Ég ákvað, að gamni mínu, að reikna út bjartsýnustu líkur á því að einhver reyndi að stela tölvu úr þessi herbergi á þriðju hæð.
Ég læt Reykjavík vera yfirfulla af þjófum þar sem annan hvern dag einhver komist inn og reyni að stela tölvu. Þjófurinn kemst einnig inn um allar læstar dyr þar sem þarf lykilkort til að komast inn. Einnig læt ég þjófinn vera tilviljunakenndan í ákvörðunartöku, sem á oftar en ekki við þar sem umræddur er jú snarheimskur þjófur, og þannig eru jafnar líkur á öllum ákvörðunum:

Líkur á því að þjófurinn mæti í dag: 1:2
Líkur á því að hann fari vinstra megin í anddyrinu: 1:2
Líkur á því að hann fari í lyftu: 1:5
Líkur á því að hann velji 3ju hæð: 1:5
Líkur á því að hann fari hægra megin þegar úr lyftu er komið: 1:4
Líkur á því að hann rambi á þessa stofu: 1:11
Hér eru líkurnar komnar upp í 1:4400 eða 0,023%.

Líkurnar á því að enginn sé í sömu stofu: 1:5 þar sem það er frekar þröngt í þessum skóla.
Líkurnar á því að myndavélar skólans hefðu misst af honum: 1:20 (Gróflega áætlað á bjartsýnan hátt fyrr þjófinn).
Líkurnar á því að hann komist út með tölvuna óáreittur: 1:2 (Gróflega áætlað).

Með áætluðum líkindareikningi má segja að líkurnar á því að tölvu sé stolið úr herbergi af þriðju hæð og að ræningi komist upp með það í þjófóðri borg séu: 1:880.000 eða 0,00011% líkur.

Til gamans má geta þess að líkurnar á því að vinna 5 rétta í lottói eru 1:501.942.
Það rekur hver lægðin aðra í mínu lífi. Í gærkvöldi áttaði ég mig á því að þrjár lægðir eru yfir mér þessa dagana. Þær eru eftirfarandi:

1. Körfuboltalægð eftir að hafa beðið afhroð á körfuboltaæfingu gærkvöldsins.
2. Blogghugmyndalægð. Veit sjaldnast hvað ég á að skrifa um þessa dagana.
3. Djúp og viðvarandi námslægð sem sannaðist með fimmunni sem ég sagði frá í gær.

Venjulegt fólk færi í aukalægð sem kennd er við geðheilsuna við þessar raðlægðir en ekki ég. Ég lít svo á að í kjölfar þessara lægða mun koma mikil hæð í kvennamálum með smá skúrum og hvassviðri.

mánudagur, 11. október 2004

Skemmtileg kaldhæðni að ég skuli vera að veslast upp af skjás eins leysi þegar skjár einn er í næsta húsi við mig. Ennþá skemmtilegri tilviljun er að mitt herbergi er, að því er virðist, eina herbergið á görðunum sem nær þeirri stöð ekki.

Hingað til hef ég ýmist bara hangið í skólanum eins og ég mögulega get til að forðast að drepast úr leiðindum á görðunum, dundað mér í tölvunni eða horft á stöð tvö sem er, ótrúlega nokk, bara með leiðinlega þætti á dagskrá hjá sér utan Nágranna sem ég missi hvort eð er alltaf af.

Hér átti svo að koma eitthvað fyndið í endann sem undirstrikar mál mitt en ég er ekki alveg viss hvað ég er að fara með þessari færslu þannig að ég enda hana bara svona.
Ég er loksins, eftir rúma fimm tíma bið, kominn með einkunnina í Gerð og greiningu ársreikninga prófinu sem ég var að vola yfir um daginn. Ég fékk mína lægstu einkunn frá upphafi háskóla(Reykjavíkur)göngu minnar eða 5 af 10. Ég féll þó ekki og í ljósi þess að meðaleinkunnin var 4,5 er ég ekki kominn með blettaskalla af óánægju. Við nemendurnir höfum þó ákveðið að taka okkur saman og gera eitthvað andstyggilegt við kennarann í næsta tíma. Ég veit ekki alveg hvað það verður en ég á allavega að mæta með tjöruna sem ég geymi í tunnu í herberginu mínu.

sunnudagur, 10. október 2004

Jónas Reynir Gunnarsson, bróðir Ásdísar Ránar ofurmódels, er einstakur snillingur. Hann hefur verið að vinna í framleiðslu á teiknimyndasögum sem fá sterkustu magavöðva til að rifna úr hlátri eða amk að fá hressilegt kviðslit en hún fjallar um ninja frá noregi sem rekst á skrautlega karaktera, meðal annars fáránlegasta karakter Jónasar hingað til. Ber hann nafnið Finnur.tk og getið þið séð hann hér að neðan. Mér finnst ég eitthvað kannast við útlitið á honum og jafnvel nafn en ég þori ekkert að nefna við Jónas án þess að hafa pottþéttar áþreifanlegar sannanir.

Ég mun birta eitthvað af Ninjunni í framtíðinni ef Jónas gefur mér leyfi. Þangað til, skoðið Elg og Barða.


Undur og stórmerki hafa átt sér stað. Í gær, laugardaginn 9. október 2004, var internetlaus dagur hjá undirrituðum. Ákvörðunin um internetlausan dag var, ólíkt síðasta internetlausa degi (sem átti sér stað í ágúst 2002), ekki tekin á stjórnarfundi veftímaritsins heldur bara alls ekki tekin. Svona varð svo gærdagurinn:

12:00 Vaknaður.
13:30 Á Laugarveginum með Björgvini bróðir sem var í bænum um helgina.
15:00 Í Kringlunni með Björgvini og Kollu.
17:00 Körfuboltaæfing.
20:30 Kominn heim af æfingu.
21:00 Steinlá við sjónvarpið í góðum gír.
23:59 Hugsaði "Æ fökk! Bloggið!"

Þannig að ég er löglega afsakaður. Ég biðst samt afsökunnar, þó sérstaklega til Jóns Bónda, sem er dyggasti lesandi veftímaritsins.

föstudagur, 8. október 2004

Vitleysingarnir hlekkjuðu nýlega hérna á þessa "skrítlu" mína og í kjölfarið fæddust þessi ummæli frá, eftir því sem ég best veit, þessum manni. Ég hef þá fundið mann sem telur mig vera ógeð, sem er gott þar sem ógeð eru inni í dag, sb. strákahljómsveitir. Markaðsdeild veftímaritsins vinnur nú dag og nótt í að finna leið til að nýta sér þetta til nýrrar markaðssetningar á síðunni.
Eftir ca klukkutíma fer ég í próf í Gerð og greining ársreikninga, sem væri ekki í frásögu færandi nema fyrir það að ég er svo innilega kolfallinn á því. Ég get þó huggað mig við það að það gildir aðeins til hækkunar um 10%. Þetta verður í fyrsta sinn sem ég fell í prófi hér í skólanum og finnst mér það býsna skítt þar sem ég hef lesið eins og geðsjúklingur síðasta rúmlega sólarhring, bara vitlaust efni. Mistökin eru til að læra af þeim, andskotinn hafi það.
Fyrir fimm dögum síðan, 3. október síðastliðinn, átti þessi síða tveggja ára afmæli. Svosem ekkert meira um það að segja nema ég er alvarlega að hugsa um að fara að leggja henni. Spyrjum að leikslokum.

fimmtudagur, 7. október 2004

Ég var rétt í þessu að græða klukkutíma þar sem klukkan í tölvunni minni hafði flýtt sér um klukkutíma án þess að ég hafði hugmynd um það, fyrr en nú. Auðvitað nýti ég þennan tíma í að blogga um þessa stórfrétt og skoða blogg vina minna enn eina ferðina. Svo verð ég að drífa mig að læra fyrir prófið á morgun, nema ég græði annan klukkutíma auðvitað.
Upp hefur komið vandamál á stúdentagörðunum. Ég virðist engan veginn getað vaknað á morgnanna til að mæta í tíma, ekki munandi eftir því að hafa vaknað við þá fjóra vekjara sem eiga að sjá um það einfalda hlutverk að vekja mig. Ég hef tekið saman allar staðreyndir vandamálsins og hér er tæmandi listi yfir mögulegar lausnir á málinu (sú líklegasta efst og svo framvegis):

1. Sá/sú sem lagði á mig vekjaraklukkubölvunina aflétti álögunum.
2. Geimverurnar sem ræna mér á hverri nóttu og setja mig í djúpsvefn hætti því.
3. Skólinn seinki tímum um ca fjóra tíma hvern dag.
4. Skipt verði um rúm á stúdentagörðunum svo ég sofi ekki svona vel.

Einn möguleiki kemur alls ekki til greina, því þetta er allra annarra vandamál og ekki mitt, en hann fær samt að fljóta með:

5. Ég fari fyrr að sofa og drulli mér á lappir á réttum tíma.

miðvikudagur, 6. október 2004

Fjórfarar vikunnar að þessu sinni eiga það allir sameiginlegt að vera kvennagull og að líta út fyrir að kunna að spila körfubolta. Þeir eru eftirfarandi:



Stebbi, körfuboltagúrú.




Fez úr That 70s show.




Eamon sem hefur brennt sig á kellingunum.




Carlos Arroyo, Utah Jazz leikmaður og kvennagull.
Sveinn Elmar kastar fram athyglisverðri spurningu hérna, rétt áður en hann stofnar nýjan stjórnmálaflokk. Ég þangað! Og þið líka, ef þið vitið hvað er hollt fyrir ykkur.
Ég var að koma úr prófi í fjármálamörkuðum. Þetta var í fyrsta skipti sem mig verkjaði ekki í tennurnar af stressi fyrir prófið um leið og ég hélt ég vissi ekkert. Þetta er öfug virkni líkama míns og í framhaldinu fer maður að hugsa hvort hann sé eitthvað að bila. Mér gekk þó nokkuð vel á prófinu, þrátt fyrir að kennarinn hafi reynt að flækja spurningarnar eins og hann mögulega gat.

En allavega, í eitthvað allt annað. Fallegasta barn jarðarinnar á bróðir minn, Styrmir. Hér er nýleg mynd af frænda mínum honum Kristjáni Frey sem mér barst í fyrradag.

þriðjudagur, 5. október 2004

Ef það mætti skrópa í allt væri ég hvergi í dag.

Próf á morgun, ekki fleiri færslur í dag.

Eitt enn; vinsamlegast ekki skrifa ummæli við færslurnar ef þið getið ekki fylgt einföldum mannasiðum. Einnig er minnsta mál að rekja IP tölur ef hellisbúinn ákveður að skrifa undir leyninafni.


Dodgeball / Ísl: Undanbragðsbolti


Á síðastliðinn föstudag fór ég í bíó með Markúsi nokkrum á myndina Dodgeball en hennar hefur lengi verið beðið af ungum landsmönnum. Í aðalhlutverkum eru Vince Vaughn og Ben Stiller svo einhverjir séu nefndir. Hún fjallar um lélega líkamsræktarstöð sem fellur í skuggann á stærri stöð sem er hinum megin við götuna. Til að bjarga sér frá gjaldþroti ákveða steríótýpur búllunnar að stofna undanbragðsboltalið og þannig reyna að vinna reiðinnar býsn af peningum.
Þarna er á ferðinni mynd sem fylgir hollywoodformúlunni fullkomlega. Myndin er því algjörlega ófrumleg, húmorinn oft mjög barnalegur og söguþráðurinn eflaust upphugsaður af ófrumlegasta manni jarðkringlunnar. Ben Stiller á þó nokkur góð atriði en án hans væri þessi mynd sennilega með verri myndum sem ég hef séð.
Hún er það ófrumleg að þú veist sennilega hvernig hún endar áður en auglýsingarnar í bíóhúsinu eru búnar.
Ein stjarna af fjórum. Meira ætlað fyrir aldurshópinn 8-20 ára.

mánudagur, 4. október 2004

Ég hef nú gengið þrisvar sinnum niður fjórar hæðir HR í örvæntingarfullri leit að herbergi til að læra í (tók lyftuna upp) þar sem miðannaprófin standa sem hæst, án árangurs af því allt er fullkomlega yfirfullt. Þá dettur mér í hug gáta:

Hver er munurinn á 15 ára stelpuskjátu og Háskóla Reykjavíkur?
Svar: Það er þrengra í HR.

Skólayfirvöld eru svo að gjörsamlega úti að aka að það er grátlegt. Regla númer 1 til skólayfirvalda: Þegar skólagjöld eru hækkuð um 10% á ári, ekki fjölga nemendum um helming samtímis.
Ætli það sé merki um námsleiða að reyna að slasa sig til að sleppa við að mæta í stjórnunartíma eða flokkast það bara undir leti? Ef námsleiði á við þá held ég að hann sé að hrella mig. Ef leti passar betur við þessa lýsingu þá þjáist frændi minn af henni og þið gleymið því að ég hafi skrifað þetta.
Á göngu minni í skólann velti ég því fyrir mér hvort ég væri að neyta nægjanlegs magns fosfórs. Þegar ég svo skoðaði umbúðir drykkjarjógúrtsins sem ég hafði nýlega klárað í tölfræðitíma morgunsins sá ég að þá strax, klukkan 09:23 að staðartíma, hafði ég neytt 92 mg af fosfóri eða um 11,5% af ráðlögðum dagskammti.

Þarmeð get ég strikað þær áhyggjur í burtu og farið að stressa mig yfir náminu, nú eða hvort ég borði nóg af kalki.

sunnudagur, 3. október 2004

Á tækniöld eru alltaf að opnast nýjar heimasíður og þar sem ég þekki aðeins mjög gáfað fólk og tæknivætt þá er ekki óalgengt að skrifa um vini sem hafa verið að búa til síður. Hér eru þrjár:

Elgur og Barði
Teiknimyndasögur eftir snillinginn Jónas Reyni sem er á kaf í dópi, eins og sést. Þó ekki ólöglegu dópi. Útúrsýrðar sögur.

Iðjur
Iðjuþjálfaranemar á Akureyri hafa opnað netdagbók. Einn af stofnendum er einmitt Gulla en hún er engum karlmanni háð, rétt eins og allir iðjuþjálfar á Akureyri, að sögn.

Hlynur Gauti
Þessi ótrúlega hamingjusami maður opnaði nýlega dagbók fyrir gesti og vafrandi að lesa. Fyndinn maður sem er alltaf í góðu skapi.
Gærdagurinn var merkilegur fyrir margar sakir. Í fyrsta lagi boðaði hann upphaf körfuboltavetursins þar sem við fórum í körfubolta á Álftanesi í fyrsta sinn í vetur. Þar sigruðum við Óli, pjakkana Gísla Sig, Ragga Arinbjarnar og Flóka með aðstoð rapparans KJ. Með körfuboltatímunum á mánudögum og miðvikudögum auk útihlaups ca 1-2 í viku er ég kominn með alla þá hreyfingu sem ég þarf í vetur.

Annað sem var merkilegt við þennan dag var að ég borðaði kjöt og nóg af því. Fékk mér Zinger Tower Twister á KFC og ekki nóg með það heldur var það eina sem ég borðaði þann daginn.

Það þriðja, og sennilega það fáránlegasta við þennan dag, var að ég mætti ekki í stúdentagarðspartíið sem var fyrir utan hurðina mína án þess að hafa aðra ástæðu fyrir nema þreytu, ekki einu sinni eftir að hr stelpa bankaði þrisvar til að fá mig á djammið. Sennilega með verri ákvörðunum sem ég hef tekið um ævina en einhverntíman verður maður að uppgötva hversu geðveikur maður er.

laugardagur, 2. október 2004

Þá hef ég lokið við tvö af þremur skilaverkefnum í hagnýtri tölfræði áfanganum hérna í HR. Ég tók þann pól í hæðina að; í fyrsta lagi læra orðatiltækið "að taka þann pól í hæðina" og í öðru lagi að setja þessi tölfræðiverkefni upp í æsifréttastíl og svo jafnvel selja þau hæstbjóðenda þegar þeim öllum er lokið. Hér að neðan eru forsíðurnar:

Skilaverkefni 1: Á hálum ís. 10 blaðsíður.
Skilaverkefni 2: Hörkufjör á heimavist. 8 blaðsíður.
Skilaverkefni 3: Allt vitlaust á kaffihúsinu. Útgefin eftir rúmlega 3 vikur.

Sérfræðingar, sem hafa séð forsíðurnar, segja þetta vera næstu Hringadróttinssögu, nema bara með tölum.

föstudagur, 1. október 2004

Minn helsti keppninautur hefur einhvernveginn náð auglýsingasamningum víðsvegar þannig að erfiðlega gengur að lesa bloggið hans. Mér finnst ég ekki vera minni maður og því hef ég gert minn fyrsta opinbera auglýsingasamning upp á grjótharða peninga.

Auglýsingarnar birtast fyrir ofan bloggið og munu gera mig að þúsundamæringi ef allar áætlanir standast. Ef þær hinsvegar standast ekki mun ég fleygja þeim í sama haug og spjallborðið, chatboxið, gömlu gestabókina og nokkrum óviðeigandi og/eða leiðinlegum ummælum.
Ég hef tekið eftir því að eftir hvern hlekk sem kemur á mig á B2.is eða jafnvel í Austurglugganum, sem eykur aðsókn fólks á þessa síðu, fer ég lítillega á taugum, orðaforðinn minnkar til mikilla muna og ég skrifa bara eitthvað leiðinlegt. Nýlega tók ég saman gögn varðandi þetta og sendi til Svíþjóðar þar sem vísindaakademían vann úr þeim. Hér að neðan eru niðurstöðurnar.



Skemmtanagildið gefur hæst 100, lægst 0




Þessi mynd sýnir að fyrir hverja 10 gesti sem bætast við lækkar skemmtanagildið umtalsvert!



Eins og sjá má er talsverð fylgni á milli fjölda daglegra lesenda og skemmtanagildi þessarar síðu. Því fleiri sem koma og lesa, því leiðinlegri verð ég og ófrumlegri.

Fólk hættir að lesa síðuna ef hún er leiðinlegri sem gerir hana skemmtilegri, sem dregur fólk á síðuna sem svo aftur gerir hana leiðinlegri og svo framvegis. Einhvern daginn mun myndast jafnvægi á þessum markaði eða að ég myndi með mér meira taugaþol og verði ónæmur fyrir fólksfjölda. Þá verð ég þó löngu hættur að blogga.