þriðjudagur, 30. september 2008

Í dag fer ég til Laugarvatns að spila æfingaleik gegn Laugvetningum í körfubolta.

Þið vitið hvað það þýðir; nýjir fjórfarar og samhengislaus bloggfærsla!

mánudagur, 29. september 2008

Síðastliðinn sólarhring hafa þrjár manneskjur sagt mig "góðan mann", "yndislegan einstakling" og "góðhjartaðan strák", bæði í hæðni og í alvöru.

Fyrir utan hversu vel þetta sýnir að þessir aðilar þekkja mig ekki neitt þá er þetta eitt það versta sem einhleypur maður fær að heyra, þar sem góðu náungarnir klára alltaf síðast (sem ég hélt að væri gott fyrir hinn aðilann).

Ég launaði þeim ummælin með faðmlagi, sem voru kannski ekki bestu viðbrögðin hvað langtímataktík varðar.

Allavega, ég hef ákveðið að breyta um stíl. Í hvert sinn sem einhver segir eða gefur til kynna að ég sé góður einstaklingur fær sá hinn sami að kenna á extra sterku faðmlagi. Einnig mun ég drepa kettling.

sunnudagur, 28. september 2008

Við að horfa á King Kong í gærkvöldi áttaði ég mig á því að ég er alveg eins og King Kong; ég hef bara verið með ljóshærðum stelpum.

föstudagur, 26. september 2008

Ég veit ekki hvað er verið að auglýsa hér en ég hef allavega pantað 10 stykki af því.

fimmtudagur, 25. september 2008

Um daginn bað ung dama mig um að koma í sund með sér. Ég þáði en spurði svo, hugsunarlaust: "ertu synd?" sem hún svaraði játandi.

Þá rifjuðust orð Gunnars nokkurs, vinar míns, upp. Nákvæmlega þetta hljóðbrot kom í huga minn (hér fyrir þá sem geta ekki opnað hinn hlekkinn). Hér er svo skrifleg útgáfa af því sem ég heyrði í hausnum á mér.

Þannig að ég afþakkaði sundferðina. Eina leiðin. Eina leiðin.

miðvikudagur, 24. september 2008

Nýlega sagði fyrrverandi vinur minn að ég væri of mikið í Excel og að fíknin væri að eyðileggja samskiptahæfileika mína. Ég svaraði:

=iferror(if(Þú="ha?";"Fokking fáviti, fáðu þér Excel 2007";if(Þú="Fyrirgefðu, ég meinti þetta ekki";"Allt í góðu, svo lengi sem þetta gerist aldrei aftur";"Haltu kjafti og farðu að leika þér við þetta svokallaða alvörufólk sem ég hef lesið um."));"Ó, mér heyrðist þú segja eitthvað annað").

Hann: "Ha?"
Ég: "Fokking fáviti, fáðu þér Excel 2007."

*Asnalegur nördahlátur hér*

þriðjudagur, 23. september 2008

Á föstudaginn síðasta fór ég í keilu með frænda mínum, frænda frænda míns og konu frænda frænda míns.

Ferðin var í frásögu færandi fyrir tvær sakir:

Sök 1:
Á næstu braut við okkur var ungt par, á bilinu 12-54 ára. Eftir hverja ferð á brautina, þar sem þeim gekk misvel, þurftu þau að taka á móti hvoru öðru með kossi og faðmlagi. Nú spyr ég; af hverju ætti ég ekki að mega slá til þeirra?

Tekið úr uppkasti að varnarræðu minni fyrir dómstólum í næsta mánuði.

Sök 2:
Svona varð skor mitt:

Leikur 1: 87 stig - 3. sæti.
Leikur 2: 110 stig - 2. sæti.
Leikur 3: 187 stig - 1. sæti.

Ég bætti mig um tæplega 115% prósent frá fyrsta leik til þess síðasta. Sem, þegar ég hugsa út í það, gefur meira til kynna hversu rosalega lélegur fyrsti leikurinn hjá mér var. Sem gerir þessa sök 2 ógilda, þar sem ég segi ekki frá slæmum árangri mínum.

mánudagur, 22. september 2008

Í síðustu viku voru liðin 7 ár síðan ég hóf að berjast gegn "Finnur finnur" bröndurum. Hér eru nokkur dæmi um slíka gæðabrandara:

Sagt daglega í vinnunni þegar þarf að finna gögn: "Finnur þú þetta ekki bara Finnur?"
Sagt þegar sparkað er í mig liggjandi: "Finnur, finnur þú til?"
Sagt af heimsku fólki: "Fannstu fyrir skjálftanum Finnur? hahaha"

Ég var farinn að sjá verulega góðan árangur í síðasta mánuði, þar sem bröndurum hafði fækkað um 4% á milli ára. Þá fór allt í rugl aftur og ég sé ekki fyrir endann á brandaraflóðinu sem mætir mér hvert sem ég fer.

Í dag komst ég að því hvað veldur. RÚV hálfvitarnir keyptu inn barnaþáttinn "Finn op" og þýddu sem "Finnur finnur upp".

Takk RÚV.

sunnudagur, 21. september 2008


Myndina hér að ofan sá ég fyrir ca hálfu ári síðan án þess að fá útskýringu hvað þetta væri. Þið getið séð stærra eintak ef þið smellið á hana. Eftirfarandi spurningar vöknuðu:

1. Af hverju heldur maður konu á meðan annar maður hellir yfir hana mjólk?
2. Af hverju er einn náunginn ber að ofan?
3. Af hverju eru þau í sturtuklefa eða í flísalögðu herbergi?
4. Af hverju er mjólkurhellarinn öskrandi?
5. Hver á hvaða hendi?
6. Hvaða bleyta er þetta á gula bolnum?

Ég held það hafi ekki verið fleiri spurningar.

Jú, kannski ein eða tvær:

7. HVAÐA SKRÍMSLI ER ÞETTA Á MYNDINNI?!
8. Af hverju er því haldið niðri á meðan mjólk er hellt yfir konu?
9. Hvaða svipur er þetta á því?
10. Af hverju er það alsbert?
11. Af hverju pissaði ég á mig við að sjá þessa mynd?

Núna, rúmu hálfu ári síðar hef ég komist að niðurstöðu.

Skrímslið heitir Joshua og er hann aðalhlutverk ljósmyndasýningar Charlie White, Understanding Joshua (Ísl.: Baldni folinn), sem fjallar um óöryggi karlmanna. Þessi mynd, sem heitir Getting Linsay Linton (Ísl.: Náun Linsay Linton) táknar semsagt óöryggi karlmanna. Það svarar öllum spurningunum hér að ofan.

Joshua er brúða og Charlie White er svokallaður geðsjúklingur.

Hér eru fleiri myndir úr sömu seríu:

Coctail party.
Fantasy.
Her place.
Ken's Basement.
Sherri's living room.

Sofið vel.

föstudagur, 19. september 2008

Getraun dagsins:

Hvernig drepurðu 50 flugur í einu höggi?

Svar: Með því að berja Sómalískt barn í andlitið með skóflu.

Ég biðst afsökunnar ef einhver móðgast. Það gerir þetta þó ekkert minna satt.
Þessa dagana mæli ég með:

* Sbarro. Ég fór þangað í hræðilegu veðri um daginn með vini mínum. Við fengum einstaklega persónulega þjónustu og góðan og ódýran mat. Þetta er í annað sinn sem ég mæli með þessum skyndibitastað, sem er heimsmet (miðað við höfðatölu).

* Pizza hut Smáralind. Venjulega er þar frekar hæg þjónusta og dauf stemning en um daginn lentum við vinkona mín á einum skemmtilegasta þjóni landsins. Hann var að sjálfsögðu útlenskur. Hann var líka hress, brosti, gríntist og hló á víxl sem olli því að ég mundi næstum hvað hann heitir.

* Eftirfarandi stuðlögum:
1. M.I.A. - Paper planes: Heyrði þetta lag í kynningu á myndinni Pineapple Express og trylltist næstum úr stuði. Mjög öðruvísi lag sem lætur mig langa til að kaupa mér byssu, bara til að geta sungið með viðlaginu.

2. Jean Elan - Where's your head at remix: Passið ykkur að vera ekki á stálbita í 50 metra hæð við að byggja skýjakljúf þegar þið hlustið á þetta lag. Flestir sem hlusta á þetta lag missa jafnvægið úr stuði.

3. Eric Prydz - Pjanoo: Ég skil gremju Eric Prydz þegar hann skrifar Piano viljandi vitlaust, þegar ekki nokkur maður nær að skrifa nafn hans rétt. Allavega, stuðlag. Mjög líklega ástæða þess að píanónemendur hafa sexfaldast síðustu vikurnar [lygi].

4. Duffy - Warwick Avenue: Ef þið viljið bæði í senn gráta og vera í stuði þá er þetta lagið. Svo er þetta fínt lokalag til að róa fólk niður, svo það verði ekki í of miklu stuði við að lesa síðuna.

fimmtudagur, 18. september 2008

Þegar þetta er ritað hef ég ekki bloggað í rúma 49 klukkutíma. Ég hef ákveðið að verðlauna mig með nýjum bíl ef mér tekst að rita enga færslu í 60 klukkutíma, þar sem það væri næstum einsdæmi.

Ég er strax byrjaður að skoða bíla. Þetta verður ekkert mál.

þriðjudagur, 16. september 2008

Þetta lærði ég í dag:

* Ég get ekki lengur skrifað 36 án þess að bæta við 5 fyrir aftan (365) ósjálfrátt. Líklega af því ég skrifa 365 ca 365 sinnum á dag, verandi að vinna hjá 365. Þegar ég hugsa út í það þá er fáránlegt að skrifa 36 og sleppa 5.

* Körfuboltalið mitt í 2. deildinni, UMFÁ, mun spila tvo útileiki gegn ÍBV í vetur. Sem þýðir tvær ferðir með Herjólfi til Eyja. Sem þýðir samtals á milli 6-7 tímar af stanslausri ælu fyrir mig, að því gefnu að ég komist í liðið og fótbrotna ekki óvart fyrir tilstilli hafnaboltakylfu áður. Ég get ekki beðið eftir því.

* Það mun rigna tryllingslega í kvöld um leið og markaðir heims hrynja. Mín spá: gríðarlegt magn af jakkafataklæddum mönnum fara út að labba í kvöld. Það er mjög þægilegt að gráta í rigningu, að sögn.

sunnudagur, 14. september 2008

Hér er stutt atriði úr þáttunum Tom goes to the mayor.

Í atriðinu hittir borgarstjórinn gamlan vin sinn Michael. Þeir ræða málin og borgarstjórinn kynnir Michael fyrir Tom, starfsmanni skrifstofunnar.

Ég hef horft á þetta ca 20 sinnum yfir helgina og hlæ alltaf jafn mikið, sem er líklega vísbending um bágborið ástand andlegu hliðar minnar. Allavega, hér má sjá handritið að þessu atriði. Eftir nokkra daga verður hægt að lesa það af bakinu á mér í varanlegu letri.

Ég þakka Jónasi fyrir að eyðileggja þessa helgi fyrir mér með því að benda mér á þetta.

laugardagur, 13. september 2008

Nú fer hver að verða síðastur að eignast börn. Þó aðallega ég, þar sem ég nálgast sextugt með hverjum deginum.

Þá er gott að hugsa um svar við spurningunni; erfðamengi hvaða aðila vil ég spilla með mínu?

Þetta hef ég hugsað í kvöld.

Ég er búinn að fækka möguleikunum í þrjá. Ég bið ykkur, lesendur góðir, að hjálpa mér við valið. Hér eru myndir af væntanlegum afkvæmum:


Barn okkar Scarlett Johannsson; Excel Finnsdóttir.



Barn okkar Sienna Miller; Risahraun Finnsdóttir.



Barn okkar William Shatner; Batman Williamsson.

föstudagur, 12. september 2008

Í gærkvöldi spilaði UMFÁ, körfuboltalið mitt, vináttuleik gegn Laugvetningum sem komust upp úr 2. deild á síðasta vetri og munu því spila í 1. deildinni í vetur.

Lauvetningar unnu með rúmlega 20 stiga mun. Ef tekið er tillit til þess að í lið okkar vantaði nokkra lykil leikmenn og að það var lægð yfir landinu þá fást þau úrslit að við sigruðum með 3ja stiga skoti á lokasekúndu.

En nóg um leikinn. Meira um mig.

Ég stóð mig illa. Svo illa stóð ég mig að ef leikur minn væri erótísk spennumynd þá væri ég í hlutverki aðilans sem sleikir hringvöðvann. Nóg um það, að eilífu.

fimmtudagur, 11. september 2008

Í gærkvöldi ætlaði ég að vera hetja og skipta um dekk á Renault bifreið einni.

Löng saga stutt: það byrjaði fljótlega að blæða úr höndunum á mér og ég braut felgulykil eiganda bílsins. Ekki nóg með það heldur braut ég líka minn eigin felgulykil skömmu síðar. Þá ákvað ég að gefast upp, með tárin í augunum.

Þessi atburður ætti að útskýra fyrir fólki dapra grímuklædda náungann í fjólubláa latex samfestingnum, haldandi á brotnum felglulyklum, útataður í blóði á gangi i Hafnarfirði í gærkvöldi.

Ein versta hetjuför mín þessa vikuna.

miðvikudagur, 10. september 2008

Þessi heimsendir sem nokkrar húsmæður á Barnalandi ályktuðu að ætti að eiga sér stað þegar kveikt yrði á öreindahraðlinum hjá CERN í morgun, en nokkur þúsund vísindamenn sögðu að myndi ekki eiga sér stað, er loksins yfirstaðinn. Gott að vera búinn að koma honum frá. Ég er ekki frá því að hann hafi ruglað hárgreiðslunni minni, fjandinn hafi það.

Og með þessum orðum kynni ég bestu bloggfærslu sem ég hef séð. Hún er hér að ofan.

Næstbesta bloggfærslan er hér.

þriðjudagur, 9. september 2008

Í gærkvöldi tók ég ákvörðun sem fól í sér að ég gerði eitthvað með minna en mínútu umhugsun. Skyndiákvörðun svokölluð, er mér sagt að þetta kallist.

Þetta er í fyrsta sinn í yfir 10 ár sem ég tek skyndiákvörðun og í þetta sinn brenndi ég ekki af mér augabrúnirnar né skildi einhvern meðvitundalausan eftir í sökkvandi skipi.

Klukkan 22:20 í gærkvöldi var ég semsagt beðinn um að mæta í bíó kl 22:30 af ungri dömu. Ég þáði, ók öskrandi á staðinn og skemmti mér konunglega.

Það hefur þá verið sannað fyrir mér að skyndiákvarðanir geta verið góðar. Ekki láta koma ykkur á óvart ef ég kýli ykkur bylmingsfast í magann eða segi eitthvað óvenjulegt í næstu samskiptum okkar á milli. Ég er stjórnlaus eftir þessa lífsreynslu.

mánudagur, 8. september 2008

Í gær náði ég þeim árangri að mæta á ættarmót í fyrsta sinn um ævina. Það eitt og sér er ekki svo erfitt, jafnvel skemmtilegt að hitta fullt af ættingjum sem maður hefur ekki hitt áður. Ég ákvað því að gera þetta áhugavert.

Ég fór í jakkafötum sem ég keypti mér fyrir 2 árum og 15 kílóum síðan, þeas þegar ég var 75 kíló. Eins og alþjóð veit er ég 90 kíló núna, þökk sé hreyfingu, heilbrigðum lífstíl og helling af sterum.

Til að gera langa sögu stutta þá varð úr eitt sprenghlægilegasta ættarmót sem haldið hefur verið, allt vegna þröngu jakkafatanna.

sunnudagur, 7. september 2008

Ég á við vandamál að stríða. Ég leita til lesenda síðunnar með þau.

1. Engir körfuboltaskór fást í Reykjavík nema maður vilji borga 20.000 krónur fyrir nafn á NBA leikmanni á skónum auk áföstum ca 2 kg af skartgripum.

Ef einhver getur bent mér á verslun í Reykjavík sem selur venjulega körfuboltaskó þá er ég til í að greiða 10% af verði skónna til viðkomandi. Intersport og Útilíf teljast ekki með þar sem simpansar virðast versla inn skó þar (sjá ástæðu fyrir ofan).

2. Ég pissa að meðaltali 7 sinnum eftir hverja ferð í ræktina. Þetta er orðið talsvert pirrandi vandamál þar sem ég kem eiginlega engu öðru í verk eftir ræktina.

Ef einhver getur bent mér á aðferð til að þurfa aldrei aftur að pissa, þá er ég til í að greiða 10% af ágóða hugmyndarinnar til viðkomandi.

3. Ég get ekki farið snemma að sofa. Ef einhver getur platað mig í rúmið snemma með öllum tiltækum ráðum þá fæ sú hin sama 500 krónur en bara ef ástarmök eru innifalin.

4. Ég get ekki hætt að grína. Ef einhver getur hunsað síðustu 3 atriðin í þessari færslu þá væri það vel þegið.

föstudagur, 5. september 2008


Ég hef lagt það í vana minn síðustu vikur að leggja áherslu á staðhæfingar mínar með orðunum "4 realz", sem þýðist sem "í alvöru". Fyrir aftan þetta set ég svo upphrópunarmerki til að undirstrika alvarleikann. Dæmi um setningu:

Ég er alvarlega að spá í að gerast ofurhetja, 4 realz!

Nýlega sá ég að verðbólgan mælist 14,5% á ári. Það segir mér að á þessum tíma eftir ár yrði ég að segja "4,58 realz!" og eftir 2 ár, ef verðbólgan helst óbreytt (sem hún vonandi gerir) þá væri setningin mín komin upp í "5,24 realz!", sem er glatað.

Ég hef því ákveðið að skipta "4 realz!" út fyrir "í alvöru!" til að koma í veg fyrir misskilning. Takk Davíð Oddsson! 4 realz!

fimmtudagur, 4. september 2008

Björk er, samkvæmt þessari frétt, í fyrsta sæti í kosningu MTV á besta myndbandi allra tíma með myndbandinu við lagið All is full of love.

Myndbandið er gott. En nóg um það. Meira um lagið sjálft.

Fyrir þá sem nenna ekki að hlusta á lagið heldur vilja bara vita hver boðskapur þess er þá hef ég unnið að smá greiningu á laginu. Hér er niðurstaðan:



Hér eru svo gögnin á bakvið rannsóknina:


Samkvæmt Björk er allt fullt af ást.

Heimild:
All is full of love á Youtube.

Næst ætla ég mér að rannsaka hvort þessi fullyrðing Bjarkar standist. Í rannsóknina mun ég nota ca 100 mismunandi hluti, risastóran hamar og hlífðargleraugu.

miðvikudagur, 3. september 2008

Það er komið að því að fara yfir myndir bíóhúsanna!

Tropic thunder
Hef ekki séð hana. Sé hana vonandi í vikunni.

Make it happen
Hef ekki séð þessa, ekki frekar en aðrir gagnkynhneigðir karlmenn.

Mamma mia
Hef ekki séð þessa, ekki frekar en aðrir gagnkynhneigðir karlmenn.

The Rocker
Trommara er bolað úr hljómsveit sem svo verður heimsfræg. 20 árum síðar fær hann uppreisn ælu (rofl?). Þráinn Wilsson er pirrandi til að byrja með en venst fljótt. Fínasta mynd ef maður kemst í gegnum byrjunina. 2 stjörnur af 4.

Get smart
Allt verður vitlaust á kaffihúsinu einn daginn og leyniþjónusta einhver er á hálum ís. Baldni folinn kemur til bjargar. Þetta er sögð vera gamanmynd með hasarívafi en því er öfugt farið. Þetta er vafamynd í gamanhasar. Fín afþreying. 2,5 stjörnur af 4.

Sveitabrúðkaup
Hef ekki séð hana.

The Dark Knight
Maður klæddur í einhverskonar búning sem líkist leðurblöku, Leðurblökumaður ef þið viljið, kemst í klandur þegar geðsjúkur trúðamálaður einstaklingur leikur á alls oddi við að valda stjórnleysi í Gotham City. Hef séð þessa tvisvar og hún varð aðeins betri í seinna skiptið. Samtals 8 stjörnur af 8. 4 stjörnur af 4 að meðaltali.

Star wars - Clone wars
Hef ekki séð hana.

Wall·E
Jörðin hefur verið yfirgefin árið ca 3000 vegna mengunar. Eftir er vélmennið Wall-E. Stórkostleg mynd! Sjáið hana bara og haldiði kjafti. 4 stjörnur af 4.

The Mummy: tomb of the dragon emperor
Hef ekki séð hana.

Skrapp út
Hef ekki séð hana en hef heyrt skelfilegar sögur.

The X-files: I want to believe
Hef ekki séð hana.

The Strangers
Hef ekki séð hana, enda ekki geðsjúklingur.


Mjög dapur bíóárangur að þessu sinni vegna annríkis. Ég hyggst bæta úr því á næstunni.

þriðjudagur, 2. september 2008

Ég tek hádegismat yfirleitt um kl 13 á virkum dögum. Þannig slæ ég tvær flugur í einu höggi:

* Klukkan 13:00 er fámennt í mötuneyti 365. Ég hata fólk.
* Ég get horft á hádegisfréttir Stöðvar 2 á Stöð 2 plús (sem sýnir þá dagskránna klukkutíma síðar).

Allavega, í dag fór ég í mötuneytið kl 13, keypti mér eitthvað að borða og settist niður til að horfa á fréttirnar. Ég heyrði samt ekkert í fréttunum af því einhverjir töluðu saman mjög hátt bakvið mig.

Þegar ég leit við sá ég að þarna voru fréttamennirnir sem voru á skjánum að tala saman. Þannig að ég heyrði ekkert í fréttunum fyrir fréttamönnunum sem voru að lesa fréttirnar. Það munaði engu að ég hefði sagt "Væruði til í að þegja! Ég heyri ekkert hvað þið eruð að segja.". Það hefði farið beint í skemmtisögubókina mína.

mánudagur, 1. september 2008

Þá er helgin að baki. Ég hef tekið saman topp 5 lista yfir þær setningar sem ég sagði oftast:

5. „Andskotinn“. Það fyrsta sem ég segi þegar ég vakna.
4. „Takk“. Ég er með þakklátari mönnum landsins. Þakka að meðaltali þrisvar sinnum fyrir mig við hver viðskipti.
3. „Jó jó“. Svona svara ég í símann. Dæmigert símasvar fyrir okkur rapparana.
2. „GEFÐU STEFNULJÓS HÓRAN ÞÍN!“ Í umferðinni, ræðandi málin við aðra bílstjóra sem heyra ekki í mér.
1. „Ekki segja Gísla að ég hafi borðað þetta“. Ég má ekki borða óhollustu fyrir körfuboltann, samkvæmt Gísla þjálfara. Vel á minnst, ekki segja Gísla að ég hafi skrifað þetta.