þriðjudagur, 28. júní 2011

Hatur

Ég reyni mitt besta að hata sem allra minnst. En það er erfitt. Listinn yfir hluti/fólk sem ég hata stækkaði um eitt atriði í gær þegar ég gafst endanlega upp á handklæði sem ég keypti fyrir hálfu ári síðan. Meira um það síðar. Hér er listinn yfir það sem ég hata:

1. Fólk sem gefur ekki stefnuljós
Það er annað hvort of heimskt til að kunna á stefnuljós eða svo troðfullt af sjálfu sér að það getur ekki sýnt öðrum þá kurteisi og tillitssemi að gefa stefnuljós.

Hér er videó sem lýsir hug mínum til þessara fávita:

Úr einni af minni uppáhaldsmyndum, Shoot'em up.

2. Þrívíddar bíómyndir
Tilgangslaus viðbót sem krefst þess að maður horfi á myndina með fáránleg gleraugu, eins og hálfviti, þegar ég nota gleraugu fyrir (eins og hálfviti). Ekki nóg með það heldur kostar meira á þessar fáránlegu myndir. Í bónus virðast svo bara sms sendandi krakkafífl hafa gaman af þrívíddinni. Og þar sem enginn nema ég virðist ætla að berjast gegn offjölgun í heiminum, þá er nóg af þeim þarna úti.

3. Að vakna snemma
Snemma í mínum huga er fyrir hádegi.

4. Handklæðið mitt
Fyrir hálfu ári keypti ég handklæði sem var það mýksta sem ég hef komist í kynni við. Eini gallinn var að ca 10% af handklæðinu varð eftir á líkama mínum eftir notkun. Ég hef þvegið það vikulega síðan, stundum á suðu og oftar en ekki án mýkingarefnis, þar sem mér var bent á að það myndi laga það. Í dag er það ekki lengur mjúkt en skilur enn eftir sig ummerki eftir notkun. Í gær áttaði ég svo á mig að ég hata handklæðið.

Og nei, ég ætla ekki að kaupa mér þurrkara til að geta notað þetta eina andskotans handklæði.

mánudagur, 27. júní 2011

Sjálfsuppgötvanir

Rétt í þessu lærði ég merkilega staðreynd um sjálfan mig: því minna sem er í síðustu mjólkurfernunni sem ég á, því hægar helli ég úr henni, í þeirri von að það færi mér meira magn. Ég verð svo alltaf fyrir jafn miklum vonbrigðum þegar glasið fyllist ekki.

Í vikunni lærði ég líka hvernig ég get strítt sjálfum mér með því að taka VISA kortið úr rassvasanum og setja í hliðarvasann á buxunum þegar ég stend í biðröð við kassa, þar sem ég ætla að versla. Þegar kemur að mér í röðinni finn ég ekki kortið í rassvasanum og panikka í nokkrar sekúndur, áður en ég finn það á síðasta staðnum sem ég leita.

Þetta kom þrisvar sinnum fyrir mig í síðustu viku og í öll skiptin blótaði ég fortíðar-mér harkalega fyrir að vera skíthæll.

laugardagur, 25. júní 2011

Aðgerðalisti sumarsins

Hér er tékklistinn fyrir sumarið, bæði kláruð og ókláruð atriði:

  • Taka amk viku sumarfrí
  • Heimsækja Trékyllisvík í fyrsta sinn síðan 1996
  • Fara til Egilsstaða
  • Byrja að spila körfubolta aftur
  • Hlæja að náunga sem sagðist hafa séð heilan Glee þátt
  • Viðurkenna að ég horfi annað slagið á Glee og hef gaman af
  • Fá mér nýja klippingu
  • Klóra mig óvart til blóðs með tánöglum
  • Klippa á mér táneglurnar
  • Lesa amk eina blaðsíðu af þeim sex bókum sem ég keypti mér fyrir hálfu ári
  • Kaupa nýjan GSM síma
  • Kaupa nýja tölvu
  • Kaupa hjól
  • Kaupa nýjan skrifstofustól
  • Borga niður skuldir
  • Fá yfirdrátt
  • Reka olnboga í andlit í sniðskoti í körfubolta svo skurður myndist
  • Reka olnboga aftur í andlit í sniðskoti í körfubolta
  • Vera að drepast í olnboganum í þrjár vikur á eftir
  • Drekka áfengi
  • Blogga meira en venjulega
  • Fara í sólbað

Sumarið er rétt að byrja og ég búinn með rúmlega þriðjung þess sem ég ætlaði mér. Ekki slæmt.

miðvikudagur, 22. júní 2011

Excel færsla

Eftirfarandi Excel tengd atvik hafa átt sér stað síðustu daga og nætur:

1. Excel endalok
Í gær tókst mér að gera svo flókið Excel skjal að, þó það virki fullkomlega þangað til ég loka því, þá neitar Excel að opna það eftir að ég loka því, af því það skilur það ekki alveg.

Það eru til ca fimm leitarniðurstöður á Google að þessari villu, engin þeirra skilar niðurstöðu. Ég hef því unnið þennan Excel tölvuleik. Endakallinn olli vonbrigðum.

2. Tímaferðalag
Í gærnótt dreymdi mig að ég hefði farið aftur í tímann um ca 22-23 ár og hitt sjálfan mig, þar sem ég var að leika mér að skrifa í stærðfræðistílabókina mína tölur og keppnir ýmiskonar.

Ég sagði sjálfum mér frá Excel og að ég yrði að vinna í því alla daga við að slá inn tölur og annað, þegar ég yrði eldri. Ég hef sjaldan séð jafn hamingjusamt barn. Þá vaknaði ég og þurfti að fara í helvítis vinnuna.

3. Magic 8-ball
Ég var ekki viss hvort ég ætti að gera Excel skjal sem virkaði alveg eins og Magic 8-ball, þeas maður spyr já eða nei spurninga og skjalið myndi svara og þannig hjálpa við að taka ákvarðanir.

Svo ég gerði Magic 8-ball skjal og spurði það. Sem betur fer sagði það já. Náið í skjalið hér.

sunnudagur, 19. júní 2011

Laugardagskvöld

Í gærkvöldi var ég spá í að drekka tvo lítra af Vodka sem ég eignaðist nýlega, fara í partí, slá í gegn með frábærum gamansögum, fara svo niður í bæ, dansa mig í blackout og vakna svo á ókunnugum stað.

En svo fattaði ég á að ég hafði keypt popp fyrr um daginn. Svo ég borðaði það og horfði á myndina Source Code með Jake Gyllenhaal í aðalhlutverki.

Í stuttu máli er myndin blanda af Groundhog Day, Quantum Leap þáttunum, Matrix og Avatar. Í löngu máli er hún um mann sem þarf að afla upplýsinga um hryðjuverk sem framið er um borð í lest, með því að fara í huga eins farþegans í átta mínútur í senn. Áhugaverð hugmynd.

Myndin er mjög skemmtileg og spennandi á köflum, þó að hún sé full mikið kjaftæði fyrir minn smekk. Það er þó eitthvað við hana sem heldur manni gangandi.

Þrjár stjörnur af fjórum.

föstudagur, 17. júní 2011

Kvikmyndagagnrýni síðustu 10 daga

Þau undur og stórmerki hafa átt sér stað síðustu 10 daga að ég hef farið í bíó fjórum sinnum. Alls hef ég því farið um átta sinnum í bíó á árinu.

Hér eru myndirnar fjórar og dómar mínir um þá:

The Hangover II
Um: (The Hangover I/Las Vegas)*Tæland.
Dómur: Sjá Hangover I.
Stjörnugjöf: Þrjár stjörnur af fjórum.

X-men: First class
Um: Farið er yfir sögu tveggja aðal stökkbrigðanna úr fyrri X-men myndunum, ásamt baráttu þeirra gegn þriðju heimstyrjöldinni 1962.
Dómur: Myndin er skemmtileg og vel gerð. Kevin Bacon stelur senunni sem fyrrum nasisti sem vill. January Jones stelur líka senunni með hræðilegum leik.
Stjörnugjöf: Þrjár stjörnur af fjórum.

Bridesmaids
Um: Erfið spurning. Ef myndin fjallar um eitthvað þá er það stjórnlaus afbrýðisemi aðalkaraktersins og löngun hennar í takmarkalaust drama, þegar besta vinkona hennar þiggur boð Tim Heidecker um giftast.
Dómur: Þessi mynd er vonandi ekki góð lýsing á sambandi kvenna, því tilgangslaust dramað keyrir um þverbak. Myndin á þó sína spretti, þó hún sé full vælin fyrir minn spekk.
Stjörnugjöf: Ein og hálf stjarna af fjórum.

Super 8
Um: Nokkrir krakkar verða vitni að lestarslysi við heimabæ þeirra. Eitthvað var í lestinni sem veldur miklu tjóni á bænum og íbúendum hans.
Dómur: Skemmtileg mynd af gamla skólanum. Hæfilegt magn af gríni, drama og spennu.
Stjörnugjöf: Þrjár stjörnur af fjórum.

miðvikudagur, 15. júní 2011

Ræktarævintýri CXCV

Í ræktinni í kvöld sá ég, að ég hélt, glæsilegan kvenmann lyfta lóðum í gegnum tvo eða þrjá spegla, þar sem ég var staðsettur í hálfgerðum speglasal.

Ég var gleraugna- og linsulaus og sá því frekar illa en ég sá þó að við hliðina á henni var langur og klunnalegur náungi, svo ég hugsaði "Aha! Hún er smekklaus. Ég hlýt að eiga séns. (Þó ég muni auðvitað ekkert gera í því (já, ég hugsa í svigum))".

Einhverra hluta vegna fór ég að velta fyrir mér hvar hún væri í salnum, þar sem ég hafði bara séð hana í spegli í spegli (í spegli), í talsverðri fjarlægð.

Þá varð mér litið til hliðar og þar var hún. Við hliðina á hávaxna og tignarlega mér.

föstudagur, 10. júní 2011

Útvarpsstöðvagreining

Eitt af fáu sem aldrei hefur bilað í bílnum mínum er útvarpið. Á því er hægt að vista sex útvarpsstöðvar, sem ég sveifla mér oft á milli eins og Tarzan, þegar leiðinleg lög, pólitískir spjallþættir eða auglýsingar eru á dagskrá.

[Einhver saga sem útskýrir af hverju ég gerði það sem eftir fer].

Þannig að ég ákvað að greina þessar sex stöðvar niður á hversu vel þær eiga við mig, tónlistarlega.

Hér er grafið. Smellið á það fyrir stærra eintak í nýjum glugga.

Stöðvarnar raðast frá vinstri, sú besta fyrst.

Samkvæmt þessu er Xið mín uppáhaldsstöð. Þrátt fyrir að Rás 2 spili meira af frábærum lögum en Gullbylgjan þá er hún með mun meira af ömurlegum lögum. Gullbylgjan er því stöðugri í lagavali og því betri til þess fallin að hlusta á.

Óstöðugustar eru svo FM957 og Flass, sem ég stoppa vanalega á í 2 sekúndur í senn.

Ath. Þetta er aðeins út frá mínum tónlistarsmekki. Smekkur manna er misjanft. Nema þeirra sem hlusta á Lady Gaga og Eagles. Þeirra smekkur er ömurlegur.

fimmtudagur, 9. júní 2011

Tvöfaldir tvífarar í Fréttablaðinu

Ég rak upp stór augu þegar ég sá heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu í morgun. Þar voru staddir fimm aðilar á einni mynd, þar af tveir tvífarar.

Það er ekki oft sem tvöfaldir tvífarar sjást saman á mynd, hvað þá að vera saman í hljómsveit!

Hér er auglýsingin.


Hér má hlusta á nýju plötuna þeirra Arabian Horse (Ísl.: Sænskur hestur).

miðvikudagur, 8. júní 2011

Getraun dagsins

Getraun: Hver er munurinn á svefnvenjum mínum og krakka í rólu sem vill alltaf fara hærra og hærra þar til hann er næstum farinn í heilan hring í rólunni, þegar hann stoppar á efsta punkti og lendir á járnstönginni sem heldur rólunni uppi?

Svar: Enginn.

Í nótt fór ég að sofa kl 6:30. Þeir lesendur sem ekki þekkja mig: Já, er í 9-17 vinnu.

þriðjudagur, 7. júní 2011

Trékyllisvíkurdraumar

Það er eitthvað stórkostlegt í gangi með draumfarir mínar. Þá sjaldan mig dreymir eitthvað þá er það yfirleitt um körfubolta, sem áður var fótbolti (þegar ég spilaði hann). Síðustu vikur og mánuði hefur mig dreym nánast eingöngu um Trékyllisvík (þar sem ég bjó á árunum 1984-1989 og hef ekki heimsótt síðan 1996).

Þessir draumar eru svo stórkostlega flóknir, ítarlegir, tilfinningasamir og eftirminnilegir að ég vakna yfirleitt mjög ringlaður.

En nóg um innihald draumanna. Meira um tölfræðina:


Smellið á myndina fyrir stærra eintak í nýjum glugga.

mánudagur, 6. júní 2011

Nýjir ræktarfélagar

Ég hef fundið nýja ræktarfélaga: gömul hjón sem ákváðu að koma sér í form. Ég fór fyrstu ferðina með þeim um helgina. Að því tilefni var eftirfarandi mynd af þeim tekin:

föstudagur, 3. júní 2011

Hvernig snúa á við sólarhringnum

Ég heyri fólk oft kvarta yfir því að erfitt sé að snúa sólarhringnum við. Þetta finnst mér alltaf jafn skrítið að heyra og ásaka yfirleitt viðkomandi um tepruskap.

Hér eru nokkur ráð til að snúa sólarhringnum við:

1. Ef þú ert í 9-17 vinnu, vaknaðu á venjulegum tíma og mættu í vinnu.
2. Þegar vinnudegi er lokið, leggðu þig og sofðu í mesta lagi fjóra tíma.
3. Þegar þú vaknar ertu yfirleitt alveg úthvíld(ur) og munt ekki sofna fyrr en seint um nóttina.
4. Þegar þú loksins sofnar um nóttina/morgunn, sofðu eins lengi og þú vilt og getur, óháð vinnu.
5. Valkvæmt: Öskraðu úr hlátri þegar vinir þínir segjast vera farnir að sofa í kringum miðnætti.

Þegar þessum stigum hefur verið framfylgt hefurðu náð að snúa sólarhringnum við: Hættur að vaka á daginn eins og geðsjúklingur og vakir þess í stað allar nætur án þess að geispa.

fimmtudagur, 2. júní 2011

Handhæg heimilisráð

Það hljóta að vera einhverjir þarna úti sem vilja gjarnan að íbúðin sín lykti af kæstum harðfiski vikum saman. Það er mun auðveldara en þig grunar. Svona er það gert í átta auðveldum skrefum:

1. Kauptu harðfisk.
2. Opnaðu umbúðirnar.
3. Valkvæmt: Borðaðu hluta af harðfiskinum.
4. Setti harðfiskinn á disk og inn í ísskáp, af því þú heldur að kuldinn muni halda þessari hroðalegu lykt í skefjum.
5. Geymdu hann þar í amk sólarhring.
6. Kláraðu hann eða hentu honum.
7. Reyndu að þrífa ísskápinn þar til þú ælir, án árangurs.
8. Gráttu þig í svefn allar nætur.

Þetta veldur því, einhverra hluta vegna, að lyktin festist í öllu í helvítis ísskápnum í þrjár djöfulsins vikur og gýs alltaf upp þegar þú opnar hann.

Persónulega er ég ekki mikið fyrir þessa lykt, svo ég kaupi mér þennan viðbjóð aldrei aftur. Nema auðvitað ég hætti alveg að kæra mig um almenningsálitið, sem ég reyndar nálgast óðfluga.