föstudagur, 30. apríl 2010

Peugeot losti

Peugeot og Peugeot. Myndin er ekki sviðsett.
Ég er ekki mikið fyrir bíla, ekki frekar en hryllingsmyndir eða allt annað en nammi, en þetta sá ég fyrir utan heimili mitt í morgun og skríkti eins og smástelpa. Gott ef ég hoppaði ekki smá líka.

Ég á auðvitað ekki við rauðhærða Peugeot ruslið mitt sem tróð sér á myndina heldur bláa... ég vil segja bíl en hann líkist meira geimskutlu.

Ef ég ætti fjölskyldu myndi ég líklega versla mér svona bíl og rústa þar með fjárhagi fjölskyldunnar, þar sem þetta er Peugeot en þeir eiga það til að bila á mánaðarfresti. Kannski eins gott að ég eigi ekki fjölskyldu.

Allavega. Flottur bíll. Það var allt.

miðvikudagur, 28. apríl 2010

Viðbætur og Excel

Þessi síða er og verður alltaf í þróun. Ég tek alltaf við vinalegum ábendingum og hætti ekki fyrr en hún lítur út fyrir að vera úr nútímanum.

Í dag bætti ég tvennu við síðuna. Annars vegar setti ég "Like" í lok hverrar færslu (fyrir ofan athugasemdarhlekkinn). Þannig getur fólk smellt á like hnappinn ef því líkar eitthvað. Þessi hnappur tengist Facebook, svo það mun koma lítilsháttar tilkynning á prófílinn ykkar, en ekki á aðalsíðuna.

Seinni viðbótin er titill á hverja færslu. Þessi færsla heitir "Viðbætur og Excel". Af hverju heitir hún Excel? Það kemur í ljós eftir auglýsingar. Ekki fara langt (smelltu á 'lesa meira' hér fyrir neðan).

Nýir fjórfarar

Einn fjórfari vikunnar. Átt hefur verið við myndina í myndforriti.
Ég hef bætt við nýjum fjórförum vikunnar. Í þetta sinn eiga allir fjórir það sameiginlegt að vera bæði leikarar og nákvæmlega eins.

Sjáið fjórfarana hér.

mánudagur, 26. apríl 2010

Kolla systir, Árni Már mágur og dóttir þeirra, Anna María, komu í bæinn yfir helgina.

Ég stakk upp á hittingi á Pizza Hut í Smáralindinni á föstudaginn, ekki vitandi að þar er á ferðinni einn dýrasti matsölustaður landsins, rétt á eftir Hótel Holt. Stór pizza á Pizza Hut selst á rúmar 6.000 krónur. Ég held ég kaupi mér frekar buxur eða borgi inn á íbúð og haldi mig fjarri þessum stórkostlega dýra stað. Spá: Staðurinn mun loka innan árs.

Allavega, ég náði loksins að spyrja Önnu Maríu spurningu sem fólk hefur verið að spyrja mig um; hvað er Anna María stór? Svarið lá í augum uppi, eftir að ég sá það:

Hún er greinilega stærri en hún lítur út fyrir að vera.

sunnudagur, 25. apríl 2010

Indælt.
Ég dáist að fólki sem getur fundið leiðir til að tjá tilfinningar sínar og álit, hvar og hvenær sem er.

Listamaðurinn sem framdi þetta verk við grunnskólann á Álftanesi virðist hafa byrjað á strumpalistaverkinu, en ekki geta hamið sig undir lokin og látið undan tjáningarþörfinni. Vel gert, býst ég við.

laugardagur, 24. apríl 2010

Ofbeldis-Olgeir
Aðalhlutverk: Aaron JohnsonMark StrongNicolas Cage og Chloe Moretz.
Bíó og tímasetning: Kringlubíó, salur 3, fimmtudagskvöld klukkan 22:40.
Félagsskapur: Sibbi og troðfullur, pínulítill salur.
Saga myndar: Stráklingur reynir að vera ofurhetja og slær í gegn á netinu fyrir heppni. Í kjölfarið fær hann hrós fyrir hluti sem alvöru, hlédrægari ofurhetjur gera. Upphefst ævintýri.
Fín saga, þó á köflum hún sé vísindaskálsöguleg (t.d. stelpumál hans og hvernig þau leysast. Einnig Hit-girl). 
Leikur: Leikurinn er viðunandi hjá öllum nema Mark Strong (vondi kallinn) og Chloe Moretz (Hit-girl). Þau fá fullt hús stiga.
Svo fangaði þessi stúlka athygli mína. Ekki fyrir leik samt.
Annað varðandi mynd: Myndin er ekki ósvipuð Spiderman myndunum, nema meira ofbeldi og fleiri 11 ára stelpur að stunda fjöldamorð í þessari.
Fróðleikur: Í miðri bíóferð tók einhver hellisbúi fyrir aftan mig upp á því að hnerra aftan á hálsinn á mér. Skemmdi bíóferðina talsvert.
Stjörnugjöf: Ofbeldi, kynlíf, morð, blóð og meira ofbeldi. Virkilega fín mynd, þó það hafi vantað smá blóð og ofbeldi.
3 stjörnur af 4.
Ég hef bætt við:

Smá "um síðuna"
Síðustu 5 athugasemdum neðst á síðunni
Þessari bloggfærslu
Sturlað hjarta
Aðalhlutverk: Jeff Bridges og Maggie Gyllenhaal.
Bíó og tímasetning: Regnboginn, þriðjudaginn 20. apríl kl. 20:00.
Félagsskapur: Pabbi og troðfullur salur 3, sem er pínulítill.
Saga myndar: Fylgst er með gömlum köntrí söngvara sem man sinn fífil fegurri. Hann drekkur of mikið og verður hrifinn af yngri konu.
Leikur: Jeff Bridges sýnir stórleik. Það er hrein unun að fylgjast með honum í þessari mynd. Maggie Gyllenhal er hinsvegar eins og pappír á að horfa, bæði hvað leik og útlit varðar. Engin útgeislun heldur.
Annað varðandi mynd: Jeff Bridges syngur öll lögin sjálfur. Og þau eru mjög vel sungin og nokkuð góð, þrátt fyrir að vera köntrí.
Fróðleikur: Fyrsta lína myndarinnar er "Not another bowling alley" sögð af Jeff Bridges og er líklega vísun í The Big Lebowski, sem er líklega hans frægasta mynd, skiljanlega.
Stjörnugjöf: Sagan er frekar dauf en leikur Jeff Bridges og söngur bætir það upp og vel það. 3 stjörnur af 4. 

fimmtudagur, 22. apríl 2010

Flóki og Sibbi stilla sér upp við Peugeot ruslið mitt. Og gosið, auðvitað.
Ég hef bætt 29 myndum frá síðastliðinni helgi við myndaalbúmið, hér.

miðvikudagur, 21. apríl 2010

Í dag er þrifdagur hjá vinnunni minni þar sem létt þrif eru framkvæmd og allir mæta í búningum í vinnuna, þar á meðal ég.

Ég fór sem andfélagslegur starfsmaður sem tekur ekki þátt í svona kjaftæði. Ég held að enginn fatti það.

þriðjudagur, 20. apríl 2010

Körfuboltalið mitt (UMFÁ) tók þátt í úrslitakeppni 2. deildar síðastliðna helgi með góðum árangri. Liðið varð í 2. sæti í milliriðli og komst því í fjögurra liða umspil.

Liðið lauk tímabilinu í þriðja sæti, af yfir 15 liðum. Ég mun fjalla um þetta nánar fljótlega.

Mínum hluta í þessari úrslitakeppni var stillt í lágmark. Ég spilaði lítið og sjaldan. Það er aukaatriði. En þó það sé aukaatriði finnst mér rétt að sýna tölfræði mína í vetur:
15 leikir spilaðir.
280 mínútur leiknar.
66 fráköst tekin, 26 sóknar og 40 varnar.
16 stoðsendingar gefnar.
13 stolnir boltar.
10 varin skot.
21 tapaður bolti.
22 villur.
59 stig skoruð.
19/28 skot ofan í = 67,9% nýting.
18/24 vítaskotum ofan í = 75% nýting.
1/1 þriggja stiga skotum ofan í = 100% nýting.
Skemmtilegar staðreyndir
  • Ég tók aldrei 3ja stiga skot. En þannig var sniðskot mitt skráð á skýrslunni. Svo ég er í raun með eitt af engu þriggja stiga skoti ofan í, sem reiknast ∞% nýting!
  • Ég léttist um 16 kíló í vetur, úr 96 kg í 80 kg. Ástæðan er sennilega pása í lyftum sem ég tók eftir áramót. Vond ákvörðun.
  • Ég er líklega versta skytta liðsins. Ekki af því ég hitti aldrei, heldur af því ég tek aldrei skot. Rola er sennilega nákvæmari lýsing.

mánudagur, 19. apríl 2010

Þessi síða var gúgluð nýlega fyrir "vegið meðaltal í Excel". Mér finnst ólíklegt að viðkomandi leitandi hafi fundið svar við spurningu sinni. Þangað til núna!

Að reikna venjulegt meðaltal í Excel er auðvelt. Þú skrifar =average([cellur]) og ýtir á enter. Að reikna vegið meðaltal er örlítið flóknara.

Segjum sem svo að þú sért með þrjú gildi sem hafa öll mismunandi vægi (sjá mynd 1). Þú vilt reikna meðaltalið út frá væginu, svokallað vegið meðaltal.

Mynd 1
Í þessu tilviki er notast við fallið sumproduct, sem tekur tvær talnarunur, margfaldar og leggur svo niðurstöðurnar saman.

Mynd 2
Við veljum B2-B4 með músinni, höldum CTRL takkanum niðri og veljum C2-C4, lokum sviganum og ýtum á enter (sjá mynd 2).

Mynd 3
Vegið meðaltalið reiknast 6,3 og allir eru sáttir.

Önnur leið væri að slá þetta inn handvirkt. Formúlan í C5 myndi líta þá svona út: =(B2*C2+B3*C3+B4*C4), en þetta er það sem sumproduct gerir án þess að sýna útreikninga.

Það er svo hægt að nota sumproduct á allt annan og skemmtilegri hátt. Mögulega meira um það síðar.

sunnudagur, 18. apríl 2010

Helginni eyddi ég á Selfossi að spila körfubolta og sofa í bústað með 11 öðrum karlmönnum. Það var skemmtilegra en það hljómar. Meira um það síðar.

Í síðustu viku fékk ég mér nýja hlaupaskó í fyrsta sinn í 10 ár, en þá urðu Adidas Response fyrir valinu í annars góðu úrvali Skóga á Egilsstöðum. Mig minnir að þeir hafi kostað um 5.000 krónur.

Bestu skór í heimi, ca.
Eins og sést voru þeir komnir á aldur fyrir 5 árum síðan.

Nýju skónna pantaði ég af Eastbay [sjá hér] eftir að hafa leitað hérlendis að mannsæmandi skóm á undir kr. 25.000, án árangurs. Svona brotnaði reikningurinn niður:


Þetta segir þó ekki nema hálfa söguna. Hér er seinni hlutinn:


Með því að eyða rúmum tuttugu þúsund krónum var ég í raun að spara mér tæplega fjórtán þúsund krónur. Töfrabragð. Ég hef því miður ekki efni á að endurtaka það fyrir þá sem voru ekki að fylgjast með.

Nýju skórnir keisarans. Nema ekki keisarans.

föstudagur, 16. apríl 2010

Eins og áður hefur komið fram bý ég nú einn í Kópavoginum og líkar það mjög vel, hingað til. Hér er fjölskylduvænt umhverfi og rólegir nágrannar. Íbúðin smellpassar utan um mig og ég hæstánægður með allt.

Eitt vekur þó sérstaka hamingju hjá mér. Þessi náungi stendur alltaf við rúmið mitt og býður mér góðan daginn þegar ég vakna á morgnanna:


Hann heitir Skúli Skápur og er atvinnulaus vörubílsstjóri, að sögn. Hann heldur alltaf í góða skapið sama hvað bjátar á. Hann talar stundum um að ég sé geðveikur og heyri raddir, en ég veit að hann er bara að grínast til að sýna mér að honum þykir vænt um mig.

Þannig gerum við strákarnir það. Sem minnir mig á það, kominn tími til að kýla í öxlina á honum og kalla hann fávita, glottandi.
Fríinu er hér með lokið. Síðan ég skrifaði síðast hef ég breytt útliti þessarar síðu í annað sinn frá því ég byrjaði í október 2002 og í þetta sinn er hún færð til nútímans. Einnig hef ég rakað mig einu sinni, grátið tvisvar og hlegið sjö sinnum.

Helstu breytingar:

  • Síðan tilheyrir nú version 2 af blogger viðmótinu. Ég hef þrjóskast við version 1 í alltof langan tíma. Version 2 studdi ekki lengur útlitið á gömlu síðunni, sem betur fer.
  • Ég skipti um athugasemdakerfi. Haloscan athugasemdakerfið hætti að vera ókeypis. Ég tók því allar athugasemdirnar mínar þaðan og notast nú við blogger athugasemdakerfið, sem er frumstæðara en Haloscan, en vel nothæft.
  • Ég hef skipt um letur á síðunni og stækkað.
  • Ég hef hent út slatta af hlekkjum. En hyggst bæta umtalsverðu magni við á næstunni.
  • Nú er hægt að hafa samband við mig í gegnum síðuna í stikunni fyrir ofan (eða hér). Í framtíðinni verður svo líka hægt að lesa nánar um síðuna í sömu stiku (eða hér).
  • Ég hyggst bæta við skrifefni á þessa síðu. Til dæmis skrifa Excel greinar og svara spurningum varðandi Excel, ef einhverjar eru.
  • Auðvelt er að gerast RSS áskrifandi með því að smella á RSS merkið efst hægra megin á síðunni (eða hér).
  • Allar tillögur varðandi efni eða útlit eru vel þegnar.
  • Ef einhver er enn að lesa; til hamingju! Þú hefur klárað færsluna og færð verðlaun! Þú mátt vígja nýja athugasemdakerfið!

Allavega, velkomin á nýju síðuna mína.

þriðjudagur, 6. apríl 2010

Ég hef ákveðið að taka mér tímabundið frí frá þessari síðu frá og með...

...núna!

föstudagur, 2. apríl 2010

Eins og kom fram nýlega er ég fluttur í Kópavoginn eftir að hafa stoppað stutt við í Skipholtinu.

Hér er listi yfir þá staði sem ég hef búið á í Reykjavík:

1. Eiríksgata 2001. Bjó þar í 6 mánuði með Björgvini Lúther og Aðalsteini Inga.

2. Tunguvegur 2003-2004. Bjó þar í 9 mánuði með Óla Rúnari, Guggi, Víði og Gústa. Fyrsta árið mitt í Háskólanum.

3. Skipholt - Höfði stúdentagarðar 2004-2006. Tveir vetur, einn í herbergi. Kláraði námið þar. Mjög þægilegt.

4. Kristnibraut 2006-2007. Eitt ár með spúsu. Helst til of langt frá öllu fyrir minn smekk.

5. Hafnarfjörður 2007-2009. Tvö ár. Leigði fyrst með Danna. Svo einn í hálft ár.

6. Skipholt 2009-2010. 8 mánuðir. Leigði með Óla og syni hans. Flutti út þar sem íbúðin innihélt rakaskemmdir.

7. Kópavogur 2010. 5 dagar hingað til. Leigi einn. Þægileg tilfinning.

Og hér er svo kortið:

[Smelltu á mynd fyrir stærra eintak]


Sjáiði ekki þróunina? Hún blasir við. Sláandi þróun. Mynstrið sýnir skýrt og greinilega að ég veit ekkert hvar ég á að búa.

fimmtudagur, 1. apríl 2010

Dagurinn í dag var dæmigerður. Vaknaði of seint í vinnuna þar sem ég vann dæmigerð verkefni til kl 17:45, þegar ég fór í léttan mat til pabba og Laufeyjar áður en ég skrapp á dæmigerða körfuboltaæfingu í tvo tíma. Eftir það fékk ég mér dæmigerðan mat að borða, horfði á dæmigerðar fréttirnar endursýndar og hálfsofandi hugsaði "Hmm, langt síðan ég hef bloggað."

Með hryggð í hjarta fattaði ég að ekkert nógu merkilegt hefur gerst til að réttlæta skrif.

En ég gleymdi einu. Ég gleymdi trompinu mínu, því sem ég get alltaf reitt mig á þegar harðnar á blogghugmyndadalnum. Bíllinn minn!

Peugeotinn minn er bilaður! Það kemur amk sterk bensínlykt þegar ég keyri hann. Svo er lásinn á bílstjórahurðinni endanlega dottinn af, sem veldur því að ég get ekki læst honum. Húrra!

Ég var farinn að hafa áhyggjur. Hann hafði ekki bilað í sex vikur.

Takk Peugeot! Þú bjargar mér alltaf frá andleysi. Ég elska að hata þig af öllu hjarta.