laugardagur, 31. janúar 2004

Ég sá skuggalega frétt í morgunblaðinu í dag. Þar var sagt frá því að 78% kvenna sæju um þvottinn á sínu heimili á meðan aðeins um 8% karla gerðu það sama. Sú staðreynd að kvenfólk skuli vera í miklum meirihluta finnst kannski kvenfólki skuggalegt, en ekki mér. Það sem mér finnst hinsvegar verulega truflandi við þessa frétt er að þetta gera aðeins 86% sem segir mér svo að um 14% þvær ekki föt fyrirleitt. Alls eru því um 40.600 manns á Íslandi sem annað hvort kaupa sér ný föt daglega eða ganga um í verulega óhreinum fötum. Óhugnarlegt.
Í matarboðinu um daginn horfðum við á tvær bíómyndir og í kvöld horfðum við Björgvin, Helgi, Óli Rúnar, Anna hans Óla, Markús, Guggur og Kalli hans Guggs á eina bíómynd í viðbót. Hér koma dómarnir frá þessari alþjóðlegu gamanmyndaveislu:Torrente: Sjúklega tjúllaður karakter.

Torrente, el brazo tonto de la ley
Mjög dökk, spænk gamanmynd með grófum húmor um lögregluþjón, Torrente, sem er býsna skrautlegur. Það er voðalega lítið sem ég get sagt um þessa mynd annað en að hún er þónokkuð fyndin. Húmorinn er ótrúlega grófur og dökkur á köflun en það truflaði mig ekki. Torrente karakterinn er frábær. Ég mæli með þessari mynd fyrir fólk með sjúkan húmor. Tvær og hálfa stjörnu af fjórum.Kjánabangsinn Torrente.

Torrente 2: Misión en Marbella
Framhald fyrri myndarinnar. Sami húmor, sami aðalkarakter og sama tungumál talað. Söguþráðurinn er svipaður og í fyrri myndinni. Torrente villist í eitthvað stærðarinnar glæpamál sem hann vill gjarnan leysa en aðeins til að græða sem mest á því sjálfur. Mjög svipuð hinni myndinni en þessi er þó ögn betri, einhverra hluta vegna. Þrjár stjörnur.Kung-Fu fótbolti eins og hann gerist bestur, og trúverðugastur.

Siu lam juk kau, aka Shaolin Soccer
Afskaplega frumleg gamanmynd frá Hong Kong um gamlan fótboltakappa sem ákveður að stofna Kung-Fu fótboltalið. Þið sem hafið séð teiknimyndirnar um kýklópana hér á árum áður á stöð 2 vitið hvernig þessi mynd er, þeas fótboltasenurnar. Það var glatt á hjalla á Tunguveginum þegar á þessa mynd var horft enda um frábæran húmor að ræða. Tvær og hálfa stjörnu.

föstudagur, 30. janúar 2004

Þá nálgast helgin óðfluga og margir farnir að kvíða því að hafa ekkert að gera. Auðvitað kem ég öllum til bjargar með frábærri þraut. Hún er fullkomlega rökrétt og það er til gott svar við henni þannig að ekki gefast upp strax. Hér er hún:

Kona er 21 ári eldri en barnið sitt. Eftir 6 ár verður hún 5 sinnum eldri en barnið sitt. Hvar er pabbinn?

Þessa þraut sá ég á spjallborði Utah Jazz fyrir nokkru og leysti á ca 5-10 mínútum. Hér getið þið séð spjallþráðinn með svarinu og röksemdunum á bakvið það. Þetta ber þó aðeins að kíkja á ef þú gefst upp, eins og sulta.

fimmtudagur, 29. janúar 2004

Í gærkvöldi fór ég í annað matarboð hjá vinafólki pabba, og nú mínu vinafólki. Þar voru rædd ýmis skemmtileg mál, m.a. bíómyndir, pólitík og list. Ég gerði mig skemmtilega að fífli með því að undra mig á því við eiginmanninn að þau hjónin ættu svona margar myndir eftir hinn merka málara Gunnellu. Ég spurði hann svo hvort hann þekkti hana eitthvað og hann sagðist vera giftur henni. Ég hafði semsagt verið búinn að spjalla lengi við þessa konu án þess að átta mig á því.
Sunnudagurinn síðasti var fullur af ævintýrum. Hann hófst um tvöleitið þegar ég hitti pabba, við gengum heim til ömmu og spjölluðum við hana í góðan klukkutíma. Þaðan lá leiðin svo til vinar pabba þar sem við snæddum og spiluðum Trivial Pursuit með dætrum vinarins en báðar eru þær vægast sagt föngulegar. Eftir matarboðið var farið beint í bíó að sjá myndina 21 grams sem nýlega kom til landsins. Hér kemur því dómur minn um hana:

21 grams er mjög sérkennileg mynd. Söguþráðurinn flakkar fram og aftur í tíma og það undir vilja áhorfandans komið hversu vel hann skilur hana. Þegar myndin er svo hálfnuð fara línurnar að skýrast og eftir situr frekar einföld saga. Leikurinn er stórkostlegur hjá öllum þó að ofleikur sé þarna líka enda um 'Djöfull-ætlum-við-að-fá-óskarinn-mynd' að ræða. Í heildina litið ágætis mynd en lítið meira. Tvær og hálfa stjörnu af fjórum.

Dagurinn í heild sinni fær samt fjórar stjörnur og nóttin sem eftir fylgdi hálfa stjörnu þar sem ég lærði til klukkan 6.

miðvikudagur, 28. janúar 2004

Eitt af mörgum nýársheitum mínum var að vera bjartsýnni eða jákvæðari á nýju ári. Það gengur ótrúlega vel hingað til (jákvæðnin að tala) og mun vonandi halda áfram að gera það (bjartsýnin að tala).

Hér kemur því ein bjartsýnis og jákvæðnisfærsla:

Ó þvílík hamingja sem fylgir því að fara í bónus en þangað fór ég nýlega til að kaupa mér stærðarinnar smokkakassa fyrir helgina. Ég dansaði framhjá stútfullum körfum einstæðra mæðra við fallegt blót þeirra og skemmtilegan barnagrát sem skapaði rólega og afslappandi stemningu.
Þegar ég fékk svo afgreiðslu við kassann eftir að hafa beðið í litlar 15 mínútur í fagurlagaðri biðröðinni brá mér heldur betur í brún. Undurfagra afgreiðslustúlkan tók sig til og brosti örlítið til mín auk þess sem hún talaði við mig að fyrra bragði. Gagnrýnisraddir telja að hún hafi verið að brosa af því að ég missteig mig rétt áður en ég kom að kassanum og því um illsku að ræða en ég kýs að trúa því besta um hana. Ennfremur mun ég aldrei gleyma orðum hennar til mín sem syngja enn í eyrum mér: "Viltu poka?"

þriðjudagur, 27. janúar 2004

Síðustu tveir dagar hafa verið ansi skrautlegir. Á sunnudagskvöldið vann ég til 7 um morguninn í verkefni fyrir einhvern áfanga áður en ég mætti í skólann klukkan 10. Þann daginn var ég í skólanum til rúmlega 6 um morguninn að vinna í öðru skilaverkefni sem ég svo kláraði í dag, rétt fyrir klukkan 5. Alls hef ég því sofið um 6 tíma síðustu tvo sólarhringa.
Ég ligg því hérna núna í stofusófanum með tölvuna í klofinu og með músina á maganum (mistúlkið ef þið viljið), horfandi á áhugaverða fræðsluþætti sem ég niðurhlóð af skólanetinu um helgina á milli þess sem ég vafra á netinu mikla og skrái allt sem ég mögulega hugsa.
Ég mun að öllum líkindum finnast hérna í sófanum eftir akkúrat ár frá þessari færslu, búinn að veslast upp, rétt eins og letifórnarlambið í bestu mynd allra tíma, Seven.
Einu sinni sem oftar lentum við Óli Rúnar, gítarkennari með meiru, á kjaftatörn yfir lærdómnum. Þegar þeirri kjaftatörn var lokið sátum við uppi með ljótustu setningu alheimsins og þá teljum við öll tungumál heimsins með enda annálaðir tungumálamenn. Setningin var eftirfarandi:

„Við tveir gætum klesstst saman, kysstst og við það festst í gardínunni.“

Þessa setningu skal bera fram hátt og snjallt, staf fyrir staf, svo ljótleiki hennar njóti sín sem best.

Það fylgir ekki sögunni hvað við gerðum í þessari tillögu sem annar okkar bar óvænt fram.

mánudagur, 26. janúar 2004

Eftir rúmlega 7 mínútna rannsóknarvinnu hef ég komist að því hvað sé lélegasti brandari í heimi. Það kemur líklega engum á óvart að um ekki einn Íslenskan brandara sé að ræða, heldur fjöldamarga sem allir tengjast kvikindinu Keikó á einhvern hátt. Í fullkomnum heimi væri öllum nákvæmlega sama um þetta dýr og því engir þannig brandarar til.
Ég banna því hverjum þeim sem hafa nokkurntíman sagt brandara um Keikó að lesa þessa síðu í klukkutíma og korter í refsiskyni fyrir hroðalegan húmor.
Eftir alltof langan tveggja tíma svefn og þriggja tíma skóladag er ég mættur í tölvuver skólans, fullur af orku og tilhlökkun að takast á við verkefni dagsins sem eru feikimörg.

Sem minnir mig á það, ég fékk mér kærustu um daginn. Ég hef legið undir ámæli fyrir að tilkynna samband okkar seint en við kynntumst í gegnum BT bækling fyrir ca viku síðan og ég verslaði hana svo á fimmtudaginn síðasta í BT á rétt rúmar 131.000 krónur á vaxtalausum raðgreiðslum. Við göngum núorðið hönd í hönd dags daglega og ég kynni mína bestu vini fyrir henni. Má ég kynna: Medion Gunnarsson (hún fær mitt ættarnafn).
Þá er enn einni skólanóttinni lokið en hún hófst rétt fyrir klukkan 1 í nótt eftir magnaðan sunnudag með pabba. Meira um gærdaginn síðar, þessari nótt er lokið eins og áður segir. Klukkan er rúmlega 5 að morgni, ég þarf að vakna eftir 3 tíma og mæta í skólann. Ætla að drífa mig í háttinn áður en ég ét hest úr þreytu.

sunnudagur, 25. janúar 2004

Fjórfarar vikunnar eru allir þekktir á sínu sviði. Einn þeirra er villingur, annar er heimsþekktur njósnari, sá þriðji landsfrægur gítarleikari og sá fjórði þekktur leikari.

Hér eru þeir:


Wayne Campbell
Austin Powers
Óli Rú í Atómstöðinni
Mike Myers

laugardagur, 24. janúar 2004

Þá er komið að stórum degi í sögu veftímaritsins. Nú loksins, eftir rúmlega 16 mánaða fréttamennsku er hægt að versla ýmsan sérmerktan varning í nafni Finns.tk. Hér getið þið athugað þetta.
Ég er svo óheppinn að þegar ég verð heppinn þá verð ég svo heppinn að ég verð óheppinn. Sönnun:

Um daginn ætlaði ég að hringja úr tíkallasíma í ýmislegt fólk, sækja um vinnur og svo framvegis. Allavega, ég setti hundrað krónur í og hann rann beint í gegn einhverra hluta vegna. Ég ætlaði að taka hann úr hólfinu neðst þegar ég fann að hólfið var fullt af peningum. Hjartað tók kipp og ég hugsaði með mér að ég hafi loksins dottið í lukkupottinn. Málið var að hólfið var fullt af peningum sem olli því að það var ekki hægt að opna það. Hundrað krónurnar trónuðu á toppi þessarar hrúgu og ég þeim fátækari.
Ætli það sé ekki best fyrir alla að ég haldi áfram með þessa síðu. Afsakið mig síðustu daga.

miðvikudagur, 21. janúar 2004

Í ljósi fréttar sem mér barst í dag ætla ég að taka nokkra daga frí frá blogginu. Ég skrifa næst þegar mér finnst það viðeigandi.
Ég komst að því í tíma í dag að í öllum handskrifuðu glósunum mínum hingað til í þessum skóla hef ég skrifað „Spurnig“ í staðinn fyrir „Spurning“. Áhugavert.

þriðjudagur, 20. janúar 2004

Eins og áður segir náði ég þeim merka árangri að missa gemsann minn í gólfið um daginn sem olli því að hann brotnaði þannig að ekki var hægt að nota neðstu takkana af því þeir voru ekki lengur til staðar. Ég dó þó ekki ráðalaus, tók mig til í gærkvöldi og raðaði saman nánast nýjum síma með nokkrum tannstönglum, límbandi og helvítis hellings þolinmæði. Afraksturinn er hægt að sjá:

hér
hér
og hér.

Svona eftir á að hyggja þá skil ég ekkert í mér að hafa ekki farið í verkfræðina.
Ég biðst velvirðingar á því að ummælakerfið virkar illa. Það er auglýst sem ókeypis og því á maður að sætta sig við svona meðferð en þar sem viðskiptavinum þessa fyrirtækis er nauðgað andlega með auglýsingaborðum þá lít ég svo á að þetta sé arfaslök þjónusta. Ég kýs þó, eins og alltaf, að gera ekkert í þessu. Þetta hlýtur að reddast.

Haldið áfram að skrifa komment, þau skila sér að lokum.
Samkvæmt nýjum rannsóknum einhverra vísindamanna hafa fiskar tilfinningar. Þið getið lesið það hér ef þið trúið mér ekki. Þessar niðurstöður kollvarpa kenningum Kurt Cobain í laginu „Something in the way“ en þar segir hann m.a.:

„It’s okay to eat fish
’cause they don’t have any feelings“


Ég efast ekki um að hann hringsnúist í gröfinni þessa dagana.

mánudagur, 19. janúar 2004

Ég var ekki lengi að drífa mig í BT eftir skóla í dag í ljósi þess að síminn minn fór í 12 mola. Hugðist ég kaupa mér nýtt „front“, eins og ungviðið kallar það. Þegar í BT var komið brá mér heldur betur í brún. Ekki nóg með að það fengust bara mjög litrík front, en eins og allir vita þá vil ég hafa símann minn eins og karakterinn minn; svarthvítan, heldur var líka djöfullegt verð á þessum fjanda. Hvert þeirra kostaði amk 1.400 krónur. Ég strunsaði því út sótsvartur af illsku en reiðin rann þó af mér þegar ég hugsaði út í hversu heppinn ég var í raun og veru þegar ég vann eitt stykki front í sms leik á síðasta ári. Sennilega einn stærsti vinningur sem Fellbæingur hefur unnið.


Nói Albínói


Sá hina merkilegu mynd Nói Albínói á fjörugu laugardagskvöldi nýlega. Myndin fjallar um strák sem er sköllóttur og staddur á vestfjörðum um hávetur. Það eitt og sér er efni í Íslenska stórmynd en í þessari mynd er farið meira í sálarlíf piltsins. Margt spaugilegt gerist og annað sorglegra.
Leikurinn er mjög góður, myndatakan einstök en söguþráðurinn frekar daufur. Þetta er þó með betri Íslenskum myndum síðustu ára þannig að hún fær þrjár stjörnur hjá mér af fjórum.

Ísöldinni í herberginu mínu er lokið. Henni lauk í gærkvöldi þegar ég ákvað loksins að hækka hitann á ofninum. Þetta olli því að ég svaf yfir mig í gróðurhúsaloftinu, hljóp af stað og missti af strætó, missti gemsann í gólfið svo hann brotnaði í 12 mola, mætti of seint í skólann og er með hárlokk aftan á hnakkanum sem stendur fullkomlega upp í loftið.
Dagurinn er rétt að byrja.

sunnudagur, 18. janúar 2004

Ef ég hefði vitað, 8 ára gamall í Trékyllisvíkinni, að árið 2004 væri ég að dunda mér við að reikna vísitölu neysluvöruverðs fyrir áfanga í skólanum, hættur að spila fótbolta og hefði ekki lengur áhuga á enska boltanum, búandi í Reykjavík og hættur að ganga í joggingbuxum einum saman þá hefði ég sennilega farið að gráta og neitað að yfirgefa Trékyllisvíkina. Svona breytist nú lífið stórkostlega.

laugardagur, 17. janúar 2004

Mikill bylur skók jörðina í gærkvöldi hér í Reykjavík. Ég var staddur í skólanum þegar hann hófst en lét hann ekki hafa áhrif á heimkomu mína heldur barðist í gegnum óveðrið í átt að mínum ástkæra strætó númer sex. Þegar heim var komið reif ég mig úr að ofan og öskraði út í óveðrið: „Þú munt aldrei ná mér!“ við litla hrifningu vindsins. Þessi mynd var tekin í leiðinni:


Allt vitlaust á kaffihúsinu.


Bækurnar alræmdu

Það var hér fyrir nokkrum dögum að ég fór með þremur piltungum í bíltúr í átt að Iðnú, sem er ritfangaverslun en ekki aðsetur leikfélags eins og bílstjórinn hélt fram og jók þarmeð lengd ferðarinnar um rúmlega 20 mínútur. Allavega, í þessari ritfangaverslun rakst ég á stílabækur sem ég hafði ekki séð frá því ég bjó, sælla minninga, í Trékyllisvík á árunum 1984-1989. Að sjálfsögðu keypti ég fjögur stykki, eina í hverjum lit þrátt fyrir að þær séu talsvert dýrar, með mun færri blöð en aðrar stíla- og stærðfræðibækur og ekki hægt að rífa blöðin úr með góðu móti.

Ómerkileg og leiðinleg saga? Ykkur er nær að koma hingað, skepnurnar ykkar.

föstudagur, 16. janúar 2004Andrei Kirilenko

Í nótt léku Utah Jazz í gömlu góðu vestunum sínum og sigruðu. Ó hve ég sakna gömlu vestanna. Hér eru fleiri myndir af þeim.

Fleira var það ekki.
Mig dreymdi svo margt í nótt að þegar ég vaknaði átti ég erfitt með að greina hver ég var í raun og veru. Var ég meðspilari Marge Simpson í Fußball spili, fréttamaður í Írak, framkvæmdastjóri íþróttaviðburðar einhverskonar eða jafnvel söngvari sem var við það að slá í gegn? Ég velktist í vafa alla leið inn á salerni þar sem ég sá mig í speglinum og áttaði mig á því að ég er bara aumur nemi með of mikið hár og áhugamannaofurhetja í frístundum.

fimmtudagur, 15. janúar 2004

Birkir heitir piltungur sem staddur er erlendis með börn og buru. Hann bjó einu sinni í Fellabæ og heldur skemmtilega dagbók. Fyrir það fær hann hlekk.
Ég veit ekki hvað er að koma fyrir mig en ég virðist sjá tvífara í öllu og öllum. Hérna er þeir nýjustu:Luke Wilson úr The Royal Tenenbaums m.a.Glen Quagmire úr Family guy


Svipaðir kjálkar amk.
Kaflaskipti urðu í lífi mínu í gær þegar ég hóf upp raust mína í dæmatíma í fyrsta sinn. Fagið var þjóðhagfræði, ef einhver var að velta því fyrir sér. Svarið sem ég sagði var orðrétt:

„Þú setur einn komma núll sex fjóra í veldið einn í fimmta veldi.“

Svarið sem ég fékk frá dæmatímakennaranum var, ef ég man rétt:

„Nákvæmlega!“

Talið er að ástæðan fyrir málgleði minni sé sú að í þessum umtalaða tíma eru um 15 glæsilegar stelpur og ég helmingur allra strákanna. Dæmatímakennarinn, sem er kvenkyn, er líka ægifagur, svo ekki sé meira sagt.

Nú er bara að læra vel fyrir næsta þjóðhagfræðidæmatíma svo ég geti slegið í gegn og orðið hvers kvenmanns hugljúfi.

miðvikudagur, 14. janúar 2004

Þá fer að verða óhætt að slökkva aftur á Íslandi þar sem Lord of the Ring ævintýrinu er lokið, Matrix þrennan búin og á föstudaginn klárast Idolið sem allar stelpur landsins horfa á. Við tekur raunverulega lífið sem er vægast sagt óspennandi.

Sá síðasti sem yfirgefur eyjuna slökkvi vinsamlegast á eftir sér.
Ég leyfi mér að vitna í Peter úr Office Space þegar ég lýsi gærkvöldinu:

„I did nothing. I did absolutely nothing and it was everything that I thought it could be.“

þriðjudagur, 13. janúar 2004

Þegar árið 2003 hófst var ég staddur í vinnu á Skattstofu Austurlands, átti bíl og var að leigja í kjallara á Egilsstöðum með Björgvini bróðir og Bingó-Bjössa.
Hér kemur svo fréttaannáll fyrir 2003:

Janúar
Komst inn á Batman.is í fyrsta sinn með andúð minni á Bandaríkjamönnum.
Byrjaði að æfa körfubolta aftur, enn eina ferðina.
Komst að því að ég er ekki John Stamos.
Keypti mér nýjan bíl, Mitsubichi Lancer á krónur 15.000. Magnaður bíll.

Febrúar
Komst aftur á Batman.is, núna fyrir skoðunnarkönnun um stríðið.
Finnur.tk verður til.
Ég set inn þessa auglýsingu á einkamal.is. Fæ lítið af svörum.
Byrjaði aftur að æfa körfubolta.
Birgitta Haukdal sigrar Eurovision á Íslandi þrátt fyrir gríðarlegan fjárstuðning minn við Botnleðju.

Mars
Áttaði mig á því að ég er ekki kúl á neinn hátt.
Komst að því hverjir eru skyldir mér (allir).
Bandaríkjamenn sanna að þeir eru fífl.
Kemst á batman.is fyrir þetta.
Byrjaði að spá í pólitík í fyrsta sinn.
Bandaríkjamenn hefja fjöldamorð í Írak.

Apríl
Björgvin bróðir býður brjáluðum forsetisráðherra byrginn.
Ótrúlegir hlutir gerast í eldhúsinu.
Annars gerðist ekkert.

Maí
John Stockton leggur skónna á hilluna. Amk vika tekin í þunglyndi í kjölfarið.
Ég og Björgvin kjósum Vinstri græna og förum svo á Akureyri yfir daginn. Mögnuð ferð!
Við Björgvin flytjum búferlum frá Tjarnarlöndum í Hjarðarhlíð.
Björgvin gefur út ljóðabókina Svart á Hvítu.
Harpa Vilbergs kemur óvænt aftur frá Bandaríkjunum en stoppar stutt.
Útskrift Björgvins og Eurovision teiti. Magnað djamm. Myndir.

Júní
Bergvin og Garðar flytja inn í partííbúð sumarsins! Myndir.
Tölvulausi dagurinn hjá mér gekk vel.
Kemst inn á batman.is með verðlaust myndirnar mínar tvær.
Styrmir bróðir og Lourdes kona hans eignast sitt fyrsta barn 19. júní. Barnið hlýtur nafnið Kristján Freyr.
Komst inn á tilveran.is í fyrsta sinn fyrir að rífa kjaft við K@rínu @ladóttur.

Júlí
Fékk mitt fyrsta glóðarauga.
Karl Malone yfirgefur Utah Jazz.
Ég drap minn fyrsta fugl, óvart.
Fór á djammið með yfirvaraskegg. Mynd af því.
Ég fagna 25 ára afmæli.
Bylgja og Sigga halda partý heima í tilefni afmælisins (Myndir frá því).

Ágúst
Fór í fyrsta sinn í útilegu um Verslunarmannahelgina. Myndir.
Bætti heimsmetið í drykkju. Hef ekki drukkið síðan.
Ég og Björgvin flytjum úr Hjarðarhlíð.
Ég hætti á skattstofunni.
Ég seldi Toyotuna mína, fyrstu bifreiðina sem ég eignaðist.
Ég flyt á Tunguveg 18, Reykjavík til að stunda nám við HR.
Foo Fighters tónleikar í Laugardalshöll.
Ég kynnist undraheimi strætóbifreiða.

September
Byrjaði í World Class.
Hætti í World Class.
Ég vitna í sjálfan mig í heimildaritgerð og fæ 9 fyrir.

Október
Þessi síða átti eins árs afmæli.
Síðan breytti um lit.

Nóvember
Hárið á hausnum á mér nær sögulegri sídd.
Bæjarstjórn Egilsstaða tók síðuna mína til umræðu.

Desember
Ég átti 800.000.000 sekúndna afmæli.
Kláraði önnina og fékk fínar einkunnir.
Fór austur og vann á heilsugæslunni í jólafríinu.
Eyddi annars jólafríinu í körfubolta, göngutúra, vinnu og spil með vinum.

Þar hafið þið það!

mánudagur, 12. janúar 2004

Það gleður mig að tilkynna að fréttaannáll fyrir árið 2003 er í vinnslu. Þetta er mun meiri vinna en ég gerði ráð fyrir í byrjun þannig að þið verðið að vera þolinmóð, andskotinn hafi það!
Fyrr í dag, þegar ég ræsti tölvu í fyrsta sinn í dag, poppuðu upp hvorki meira né minna en fjórir spjallgluggar. Ég róaði fólkið niður og hélt áfram að ferðast um óravíddir veraldarvefsins þegar tveir í viðbót opnuðust auk þess sem ég opnaði einn sjálfur og bætti svo við tveimur samnemendum mínum úr skólanum. Þarna var ég semsagt byrjaður að spjalla við sjö manneskjur og allt á suðurpunkti. Þegar ég byrjaði svo að notast við minn skítlega karakter sem ég kýs að kalla Böðvar snarminnkaði áhuginn við að spjalla þannig að ég komst í að blogga.

sunnudagur, 11. janúar 2004

Getraun dagsins:

Hvaða tveir nemendur voru staðsettir í mötuneyti Háskólans í Reykjavík, laugardagskvöldið 10. janúar klukkan 23:30, eina mestu djamm helgi ársins, að tefla? Ég held ég þurfi ekki að skrifa svarið.
Ég sá myndina Catch me if you can með Leonardo DiCaprio og Tom Hanks í aðalhlutverkum. Myndin fjallar um pörupilt sem pörupiltast út um allt við litla hrifningu yfirvalda. Fínasta afþreying, ekkert meira og ekkert minna. Mæli með henni fyrir róleg og einmanna laugardagskvöld með kóki, hraunbitum, lakkrís og smá snakki; ekki að ég kannski neitt við þær aðstæður.
Tvær stjörnur af fjórum.

laugardagur, 10. janúar 2004

Ég var að koma af myndinni lotr:trotk eða Lord of the Ring: The Return of the King. Til að gera langa sögu stutta þá er hún ca þrír og hálfur tími að lengd með einni pissupásu. Ég er kominn með ígerð í legusárin en það var þess virði. Sorglegast er þó að LOTR verkinu er lokið en það fékk samtals tólf stjörnur hjá mér sem þýðir að þessi hafi fengið fjórar, eins og hinar.

Smá fróðleikur: Vissuð þið að þessi kappi átti fyrst að leika Aragorn en Peter Jackson hætti við það eftir sex vikna þjálfun og einn dag af leik. Viggo Mortensen kom í stað hans, eins og allir vita.

Allavega, í þessari mynd rakst ég á þriðja manninn í þrífara vikunnar:David Wenham


Thom Yorke í Radiohead


Gísli í Símanum

föstudagur, 9. janúar 2004

Þessi síða fær mig til að kasta upp blóði af hrifningu. Þarna er að finna auglýsingar gegn George Bush. Að hugsa með sér að það séu allar líkur á því að hann verði endurkosinn. Sennilega besta sönnun þess efnis að fólk er fífl.
Gaman að segja frá því að ég svaf yfir mig til klukkan 13:30 í dag. Það er kannski ekki í frásögu færandi nema fyrir það að ég ætlaði að vakna klukkan 8 í mína fyrstu tíma. Það kom svo í ljós að tímar dagsins féllu niður. Heppinn.
Það breytir samt ekki þeirri staðreynd að ég svaf yfir mig um fimm og hálfan tíma. Ágætt að ég sé hættur í bili á Heilsugæslunni.

Það er ekki oft sem heimabær minn Fellabær kemst í fréttirnar en hér er ein frétt tengd honum. Þetta gerist degi eftir að ég hætti á Heilsugæslunni, annars hefði ég sennilega tekið við símtalinu. Ekki er ósennilegt að hjartað í mér hefði sprungið við símtalið þannig að það má segja að Háskóli Reykjavíkur hafi bjargað lífi mínu.

Það er líka gaman að segja frá því í framhaldi af þessari frétt um hálkuna á Egilsstöðum að ég gekk frá Heilsugæslunni í söluskálann (ca 400 metrar) í fljúgandi hálku á miðvikudaginn síðasta án þess að detta og það á aðeins rúmum klukkutíma.
Ég mæli enn og aftur með Vitleysingablogginu. Þeir sönnuðu þó í eitt skipti fyrir öll að þeir eru alls engir vitleysingar með þessari færslu. Takk fyrir það.

Urður nokkur Snædal er með magnaða dagbók. Hún er líka með blogg sem er að finna hér. Urður er einmitt stelpan sem tók þátt í Gettu Betur fyrir hönd ME á sínum tíma. Girl Power.

Auglýsingalestri er lokið.

fimmtudagur, 8. janúar 2004

Ég er kominn til Reykjavíkur þar sem beið mín athyglisverð tölfræði í tölvunni. Ég opnaði póstforritið mitt sem hýsir ftg@simnet.is póstinn og komst að því að alls höfðu borist mér 256 bréf. Þegar ég rýndi betur í þetta sá ég að 185 af þessum bréfum var fjöldadreifður ruslpóstur, 60 stykki var ruslpóstur sem var skráður í mínu nafni og restin, 11 bréf, voru persónuleg bréf sem ég kærði mig um að fá. Ágætis árangurt að fá 10,66 bréf á dag þessa 24 daga sem ég var í burtu og að 4% af þeim sé eitthvað sem ratar ekki beint í ruslið.
Um áramótin strengdi ég heit í fyrsta sinn um ævina. Mér hefur verið sagt margoft að ég sé alltof lokaður. Ég ætla því hérmeð að opna mig meira, jafnvel byrja á bloggi og fara í skóla.
Þá er komið að kveðjustund við austurlandið, enn eina ferðina. Jólafríinu mínu er lokið og fer ég í flug til Reykjavíkur í hádeginu. Ég frestaði ferð minni suður um tvo daga til að geta unnið aðeins lengur. Á móti kemur að ég missti af tveimur dögum í skólanum sem þýðir að ég hafi misst af amk fjórum ferðum í strætó þannig að ég er nokkuð feginn.
Þegar þetta er ritað er vantar aðeins um 135 manns í gest númer 20.000 síðan 4. apríl síðasta. Vill sá gestur vinsamlegast gera vart við sig með ummælum eða skrif í gestabók. Þið getið séð númer hvað þið eruð neðst á síðunni á teljari.is teljaranum.

miðvikudagur, 7. janúar 2004

Hér er fyrsti listinn sem ég geri yfir árið 2003. Þetta er, eins og vel flestir geta séð, listi yfir allar myndirnar sem ég sá 2003 í röð eftir því hve góðar mér fannst þær. Sú besta er efst, sú slakasta neðst. Stjörnugöfin fylgir og gef ég mest fjórar stjörnur. Setjið músarbendilinn yfir nafnið á myndinni til að fá smá umsögn um hana frá mér.

4 stjörnur
1. Memento
2. Love Actually
3. The Pianist
4. LOTR: The two towers
3,5 stjörnur
5. Le Fabuleux destin d'Amélie Poulain
6. Bowling for Columbine
7. Pirates of the Caribbean
8. Matrix: Reloaded
9. X-Men II
10. Matrix: Revolutions
3 stjörnur
11. One hour photo
12. Bend it like Beckham
13. Frailty
14. 8 Mile
15. Swimfan
16. Star Treck: Nemesis
17. Harry Potter & the Chamber of Secrets
2,5 stjörnur
18. 28 days later
19. Signs
20. Wonderland
21. Joy Ride
22. Daredevil
23. Red Planet
24. Die Another Day
2 stjörnur
25. Adaptation
26. The man who wasn't there
27. The Bourne Identity
28. Final Fantasy
29. Confessions of a Dangerous Mind
30. The Time Machine
31. Sum of All Fears
32. Analyze This
33. Hard Rain
34. The Majestic
35. Sorority Boys
36. Anger Management
1,5 stjarna
37. Kill Bill
38. Old School
39. The Guru
40. Scary Movie III
41. Bruce Almighty
1 stjarna
42. American Outlaws
43. Freddy vs. Jason
44. Master of Disguise
45. Human Nature
0,5 stjarna
46. Punch-Drunk Love
47. About Schmidt
48. Joe Somebody
0 stjarna
49. Clockstoppers
50. S.W.A.T.
51. Death to Smoochy
52. Solaris

Alls sá ég því 52 myndir árið 2003 sem gerir eina mynd á viku.

Ef reiknað er með því að ég hafi greitt kr. 450 fyrir myndina (einhverjar sá ég í sjónvarpinu og aðrar sá ég í bíói sem veldur því að ég borgaði að meðaltali um 450 krónur fyrir mynd) þá er hægt að sjá það í hendi sér að ég eyddi kr. 23.400 í bíómyndir árið 2003, gróflega áætlað.
Anna Hlín hefur tekið sig til og hafið dagbókarrekstur á ný. Hér er hlekkur á hana og líka hægra megin. Hún verður þó að standa sig í færslum ellegar ég mun beita „blog of mass destruction“ eins og ég hef gert áður.

þriðjudagur, 6. janúar 2004

Ég er mikið að hugsa þessa dagana um að versla mér eitt stykki fartölvu þar sem mér finnst frekar leiðingjarnt að ganga um með minnisbók og skrá mögulegar bloggfærslur. Með þessu myndi ég auka við færsluflæðið á þessari síðu þar sem ég yrði sítengdur í skólanum auk þess sem ég myndi líta mun betur út með fartölvu við hönd, frekar en minnisblokk, þegar Maríkó gengur framhjá.

Eina vandamálið er peningaleysi og því ólíklegt að af kaupum verði.
Ef þið velkist í vafa um það hvort einhver kona yfir fertugt sé Íslensk eða erlend þá hef ég skothelda aðferð til að komast að því. Líttu á hárið á henni. Ef hún er með litað hár þá er hún Íslensk, annars erlend. Allir Íslenskir kvenmenn lita hárið á sér og hika ekki við það. Hver og einn einasti Íslenski kvenmaður hefur litað hárið á sér þegar tvítugsaldri er náð. Mjög furðulegt, en satt.

Sjálfur hef ég ekki litað eitt einasta hár á líkama mínum, ef undan er talið yfirvaraskegg sem ég safnaði síðastliðið sumar og ég þvoði litinn að mestu úr áður en ég lét sjá mig.
Ef það er eitthvað sem ég hef lært undanfarið þá er það að nota ekki sama rakvélablað oftar en 20 sinnum og að treysta ekki blogger.com eftir að stærsta færsla í sögu minnar þurrkaðist út í gær við lítinn fögnuð viðstaddra. Þá er bara að byrja upp á nýtt, þegar tími gefst til eða tölva.

mánudagur, 5. janúar 2004

Tvífarar mánaðarins eru:Leah Remini úr King of Queens

og


Yasser Arafat, leiðtogi Palestínu


Sláandi lík.

sunnudagur, 4. janúar 2004

Í kvöld náði ég því að vera hamingjusamur, eftir því sem ég best veit, í miðju kanaspili með Jökli, Björgvini og Steinari Inga. Það entist ekki lengi því eftir nákvæmlega 25 sekúndur af hamingju klæjaði mig í bakið.
Ég biðst enn og aftur velvirðingar á færsluleysinu síðasta daginn eða svo. Þannig er mál með vexti að ég hef bæði öngva tölvu til að skrá fréttirnar í auk þess sem ég hef verið í hlutverki blaðasnáps og ekki gefið mér tíma fyrir inniveru sem fylgir innfærslunum.

Í dag fór ég á stúfana, nánar tiltekið á körfuboltaleik á Egilsstöðum þar sem Höttur tapaði gegn Fjölni. Þetta var spennandi leikur þar sem Fjölnismenn voru án Jason (Kanans) og Höttur var kominn með Laverne (Kaninn). Fyrir einhverja einskæra óheppni náðu Hattarar ekki að skora undir lokið sem olli því að Fjölnir vann, eins og áður segir. Menn leiksins voru Laverne og Viðar sem kom sterkur inn með nokkrar þriggja stiga körfur á réttum tíma. Hér getið þið séð einhverja brenglaða tölfræði frá þessum leik.

föstudagur, 2. janúar 2004

Ágætis leið til að gera nýja árið betra er að bæta þessari síðu við í svokallað favorites eða uppáhaldssíðurnar ykkar með því að smella á rauðu stafina hérna til hægri þar sem stendur "Settu síðuna í favorites". Þannig eruð þið ekki aðeins að styrkja ykkar andlega sjálf heldur einnig stuðla að því að þessi síða lifi eitthvað lengur. Einnig munuð þið koma í veg fyrir að þið stiknið í eilífum logum helvítis fyrir að hafa ekki verið búin að bæta síðunni við í favorites fyrr.
Ég held ég sé loksins að komast í jólaskapið.
Í dag fékk ég mitt fyrsta andlitsmar síðan ég rakaði óvart af mér hálft nefið fyrir rúmlega ári síðan. Ég var staddur í vinnunni þegar slysið átti sér stað, nánar tiltekið í póstferð. Ég var orðinn svolítið seinn og var að flýta mér þegar ég stóð upp úr bílnum, beint á ísjaka sem staddur var við bílinn. Við þetta mynduðust tvær blóði drifnar rendur í ennið á mér austanmegin auk stærðarinnar kúlu. Auðvitað hélt ég "kúlinu" og sagði öllum sem mig sáu að ég hefði lent í slagsmálum á nýársballinu, þegar ég í raun mætti ekki á það heldur fór snemma að sofa.

fimmtudagur, 1. janúar 2004

Ég mun rekja árið 2003 í máli og myndum um leið og ég kemst í mína tölvu sem er í Reykjavíkinni en þangað fer ég að öllum líkindum 6. janúar næstkomandi.

Þangað til getið þið lesið lengri útgáfuna af því sem gerst hefur hér:

Janúar
Febrúar
Mars
Apríl
Maí
Júní
Júlí
Ágúst
September
Október
Nóvember
Desember

Þeir sem lesa þetta allt og geta fært sönnur á það fá inneign frá Seglagerð Ægis að verðmæti kr. 2.000.
Afsakið færsluleysið síðasta dag síðasta árs (sem var fyrir næstum þremur tímum). Blogger.com lá niðri samkvæmt áreiðanlegum heimildum.

Ég óska öllum þeim sem þetta les og öðrum löndum til hamingju með nýja árið og takk kærlega fyrir það gamla. Ótrúlegt að það séu nú þegar liðin fjögur ár síðan hinum merka áfanga var náð að lifa af til að sjá árið 2000. Ég man þegar ég var ca 8 ára og var að velta því fyrir mér hvernig staðan yrði hjá fjölskyldunni árið 2000 og ég orðinn 22 ára. Skemmtilegt að segja frá því að ég er enn einhleypur, enn jafn barnalegur í hugsun, enn í skóla, enn í sömu nærbuxum og enn búandi í foreldrahúsum (amk í jólafríinu sem stendur nú yfir, leigi venjulega eins og flestir vita).

Lífið breytist ekkert. Vona samt að 2004 breyti einhverju.

Gleðilegt nýtt ár!