fimmtudagur, 31. mars 2011

Google hjálp

Takk Google fyrir góða tillögu, en ég held ég ráði við þetta.


Þeir sem skilja ekki myndina: Ég reyndi að leita að skírdegi 2010 (til að fá dagsetningu hans) en Google leiðrétti mig og leitaði að öskudegi 2010 í staðinn.

Sprenghlægilegt.

Ok, ég játa ritstíflu.

miðvikudagur, 30. mars 2011

Fjórfarar sársins

Á sokkabandsárum mínum, þegar ég sagði frá hvaða stórbrotnu viðburðir hefðu á daga mína drifið, var mér iðulega tjáð að ég ýkti sögurnar of mikið, af minni fyrrum kærustu brosandi hlæjandi öskrandi berjandi, áður en hún barði mig til svefns með skiptilykli.

Síðan þá hef ég blessunarlega losað mig við þennan leiðinda ávana, enda fólk hætt að trúa orði sem ég segi. Ég vona þó að fólk horfi framhjá vafasamri fortíð minni þegar það skoðar fjórfara vikunnar, sem sýnir hversu rosalegt sár ég er með á handarbakinu, eftir körfuboltaæfingu frá í síðustu viku.

Fjórfarana má sjá hér.

þriðjudagur, 29. mars 2011

Auknar vinsældir mínar

Ég hef löngum hreykt mér af því að fá símtöl annað slagið. Í lok mars mánaðar, eins og núna, gapi ég svo yfir vinsældum mínum (sem mældar eru í fjölda símtala frá vinum), aðeins til að verða fyrir vonbrigðum með restina af árinu.

Svo fer ég að hugsa. Þetta var ekki svona áður en ég vann á skattstofu Austurlands (2001-2006 ca.) við yfirferð skattaframtala.

Svona var þetta þá:


Eftir að ég byrjaði (og hætti) á skattstofunni hefur jafnvægi símtala eftir mánuðum raskast talsvert. Það tengist mögulega því að skattaframtölin eru send út í febrúar og skilafresturinn er í lok mars.

Það sem ég er að reyna að segja: Loðnutímabili mínu í vinamálum fer að ljúka og við taka störukeppnir við símann og sleikir við Excel langt fram eftir nóttu.

Ég kvarta ekki, ég hef hreina unun af því að hjálpi fólki í neyð með framtölin, þó ég sé bara giskandi út í loftið. Jafnvel sérstaklega þá.

mánudagur, 28. mars 2011

Ekkert saumadót keypt

Í gær keypti ég mér ekki saumadót í IKEA, af því ég er meira karlmenni en það. Ef ég hefði keypt mér þannig í gær, þá væri það vegna þess að ég þarf að setja tölu á gamlar buxur sem ég var að finna, en ég gerði það ekki, svo það er allt í lagi með buxurnar.

Sem útskýrir af hverju ég er í þessum buxum núna. Það vantaði aldrei tölu í þær og ég keypti mér aldrei saumadót í gær og notaði kvöldið í að sauma.

Haldiði svo kjafti.

fimmtudagur, 24. mars 2011

Körfuboltaóhapp

Tvífarar dagsins eru sami aðili, á tveimur mismunandi tímapunktum og frá tveimur mismunandi sjónarhornum.

Hér er vinstri hendin á mér eftir baráttu um frákast á körfuboltaæfingu fyrir rúmu ári síðan:


Hér er svo sama höndin í gærkvöldi, eftir að ég mætti á mína fyrstu körfuboltaæfingu í meira en hálft ár. Gerist, aftur, í baráttu um frákast.

Í kjölfarið hef ég stungið upp á því að banna annað hvort hnífa eða fráköst á æfingum.

miðvikudagur, 23. mars 2011

Plögg

Það er komið að hinni árlegu plöggfærslu, þar sem ég læt lesendur vita af nýjungum á netinu.

Hér er það nýjasta, frá því í mars í fyrra:

1. Helgi bróðir tekur þátt í myndakeppni á facebooksíðu menn.is, þar sem fólk setur inn myndir af sjálfum sér með frægum einstaklingi. Þeir sem fá flest "like" við myndirnar, vinna einhverja vinninga. Hér er myndin sem Helgi notar: með Steingrími Joð, leiðtoga Íslands á dansiballi. Sennilega besta mynd sem ég hef séð, fyrir utan Memento og Seven.

2. Jónas Reynir, fyrrum samstarfsmaður minn og Hjálmar Kakali hafa hafið nýja síðu þar sem Jónas birtir m.a. strípurnar "Pólítíks ádeila" og "Háskóla-Hilmar" og Hjálmar birtir pistla og annað áhugavert. Síðan heitir því ósmekklega og móðgandi nafni Fjandinn.com og er hnossgæti, þrátt fyrir allt.

3. Esther Ösp hefur hafið nýja síðu í samstarfi við helling af fólki, undir nafninu Austurblokkin. Ekki aðeins er nafnið á síðunni snjallt heldur er uppsetningin á henni til fyrirmyndar. Innihaldið er svo nánast bónus. Kíkið á síðuna hér.

4. Ég er að opna nýjar síður á næstunni. Meira um það í næstu plöggfærslu, sem skrifuð verður innan tveggja ára.

Excel booty call

Í gær átti ég notalegt spjall við tæknigúru hjá Microsoft varðandi Excel 2010 sem ég keypti nýlega og hvers kóða ég hef ekki getað virkjað, sama hversu fast ég lem lyklaborðið.

Hér er hluti úr samtalinu:

Ég: Ok kóðinn er E eins og í...eh......eins og í einhverju.
Kona: Já, einmitt. E eins og í Einar.
Ég: Já. Svo er það 10. Og H eins og í...uhh...
Kona: Helgi.
Ég: Akkúrat. Svo kemur 3, 4 og 7. Svo Tvöfallt vaff eins og í..eh...engu.
Kona: Einmitt. Erfitt að finna orð fyrir það.
Ég: Svo er það X eins og í Xylitol.
Kona: hahahahaha

Ég þori ekki fara með það en mér heyrðist hún mumbla "fokking fáviti" eftir mesta hláturinn.

Alltaf gaman að fá fólk til að hlæja án þess að reyna það.

þriðjudagur, 22. mars 2011

Skattframtalið: skák

Þá hef ég loksins lokið við að fylla út skattframtalið og senda inn. Það tók mig sjö sekúndur í ár, ca korteri minni tíma en fór í að greiða niður augabrúnina mína í morgun.

Skemmtileg tilviljun: það tók 7 sekúndur að skrifa þessa færslu.

mánudagur, 21. mars 2011

Vinnan mín

Ég er aldrei spurður hvað ég geri "eiginlega" í vinnunni og af hverju.

Ég hef alltaf svarað því með þögninni og léttri en óhugnalegri störu, þangað til í dag. Það er löngu kominn tími til að svara þessari óspurðu spurningu, í myndaformi.

Hér er yfirlit yfir það sem ég geri í vinnunni, en einhverra hluta vegna heldur Outlook forritið utan um það:


Hver grænn kubbur á myndinni táknar Excel skjal sem ég hef unnið og sent út til samstarfsfólks míns.

Stutt svar: Án Excel væri ég sennilega bæjarfíflið.

sunnudagur, 20. mars 2011

Konungleg litaröð

Ég spila Texas Hold'em póker annað slagið á netinu með misslæmum árangri. Í nótt náði ég loksins, í fyrsta sinn, að fá allra bestu hönd sem hægt er að fá, svokallaða Konunglega litaröð (Royal flush), sem er hæsta mögulega röðin í sömu sort en líkur á að fá hana eru einn á móti tæplega 650.000.

Til samanburðar má geta þess að líkurnar á því að ég borði ekki nammi heilan sólarhring eru einn á móti 500.000, svo þetta er gríðarlega ólíklegt.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð, því ég var ekki sá eini sem fékk Royal Flush í þessu spili. Andstæðingur minn var líka með hæstu mögulega litaröð.

Hvernig má það vera? Svona:


Öll röðin kom upp í borðið. Ég er því einn af fáum í heiminum sem hefur fengið litaröð án þess að vera einn um að vinna pottinn.

Ég veit að ég ætti ekki að vera stoltur af því, en ég er það samt.

föstudagur, 18. mars 2011

Minnisleysi - 239. hluti

Nýlega tókst mér að gleyma að taka gleraugun af mér áður en ég sofnaði og vakna svo, sjö tímum síðar, liggjandi ofan á þeim. Sem betur fer er ég mjög léttur eða gleraugun mjög sterk, svo eina sjáanlega karaktereinkenni mitt beið ekki hnekki.

Sama morgunn gleymdi ég að tannbursta mig áður en ég fór í vinnuna, sem hefur aldrei gerst áður. Sem betur fer átti ég 150 krónur til að eyða út mánuðinn, svo ég keypti mér Extra jórturleður og tuggði hann allan fram að hádegi í vinnunni, við óttablandna virðingu samstarfsfólks.

Einhver tilgangur átti að vera með þessari bloggfærslu, en þar sem ég man hann ekki þá er hér uppáhalds tónlistarmyndband mitt: Knights of Cydonia með Muse.

Myndbandið fjallar um mjög fyndinn framtíðarkúreka sem lendir í bobba í litlum bæ, eftir að hafa átt í stuttu ástarsambandi við frillu lögreglustjórans. Ekki skemmir fyrir að lagið er eitt af mínum uppáhalds.
Hér er svo gerð myndbandsins.

miðvikudagur, 16. mars 2011

Íslenskt drive-by

Fyrr í dag upplifði ég svokallað drive-by (ísl.: keyra-framhjá-og-skjóta-á-kyrrstæða) á rauði ljósi. Og eins og í Bandaríkjunum, þá var það rappari sem stóð fyrir þessu brjálæði, eins og búast mátti við.

Íslenska gerðin af drive-by-um er þó með talsvert öðru sniði en þau bandarísku, þó þau hafi sömu sálrænu áhrifin. Svona var atburðarásin:

1. Ég stoppaði á rauðu ljósi. Við hliðina á mér stoppaði sparneytinn fólksbíll.
2. Ég var að dást að fegurð augabrúninnar minnar í baksýnisspeglinum þegar bíllinn við hliðina á mér truflaði einbeitinguna með flauti.
3. Ég leit í átt til hans. Ökumaðurinn renndi þá niður rúðunni og gaf til kynna að ég ætti að gera það sama.
4. Ég kannast við manninn. Íslenskur rappari. Ég renndi því niður rúðunni og heilsaði.
5. Rapparinn kallaði þá óvænt "Ég fucking elska bloggið þitt!" og spólaði í burtu.
6. Ég lokaði glugganum, ringlaður og öskra á næsta bíl að hringja á lögregluna með brostinni röddu.

Lögreglan sagðist ætla að lýsa eftir viðkomandi í öllum miðlum í aukafréttatíma á öllum sjónvarps- og útvarpsstöðvum í kvöld. Mér finnst ólíklegt að það beri árangur.

Ég stefni því á að kalla eitthvað jákvætt og uppbyggjandi fyrir utan húsið hans á næstunni, áður en ég hleyp í burtu flissandi. Hefndin verður sæt.

mánudagur, 14. mars 2011

Tvífarar

Í morgun lærði ég að þessi:


og þessi:


Eru tvær manneskjur, en ekki ein, eins og ég hélt áður. Þær heita Emily Blunt og Gabrielle Anwar og eru báðar leikkonur, eða eitthvað.

Það er óhætt að segja að þetta kollvarpar öllum mínum hugmyndum um manneskepnuna og hvernig hún virkar. Ég hugsa að ég þurfi í framhaldinu að fara snemma heim úr vinnunni og leggja mig. Þarf bara að redda mér vottorði fyrst.

sunnudagur, 13. mars 2011

Vikuörfréttir

Nokkrar örsögur úr nýliðinni viku:

1. Ný uppskrift
Ég komst að því í gær að ef þú tyggur spearmint extra tyggjó í nokkrar mínútur áður en þú drekkur orkudrykk frá Euroshopper, þá mun drykkurinn bragðast eins og uppþvottalögur, sem er ekki jafn gott og það hljómar.

2. Fjör á fjölbraut
Síðastliðna nótt upplifði ég skelfingu í sínu hreinasta formi þegar ljósapera hvellsprakk, um það leiti sem ég ætlaði að fara að sofa. Þegar ég var búinn að hreinsa upp líkamsvessa mína, krossaði ég hreina skelfingu af listanum yfir það sem ég ætla að upplifa fyrir andlát mitt.

3. Kalóríutölfræði vikunnar
Í vikunni sem leið fór ég fimm sinnum í ræktina og brenndi samtals um 3.500 kalóríum. Í sömu viku borðaði ég nammi 192 sinnum, að andvirði 16.000 kalóríum. Ég þarf sem sagt að auka ræktarferðir mínar fimmfalt til að lifa heilbrigðu lífi.

4. Siriusmo
Á fimmtudagskvöldið tók ég andköf þegar ég heyrði tvö lög í röð með Siriusmo á Xinu en síðustu þrjú ár hef ég verið að troða honum í kokið á lesendum síðunnar, öllum til ánægju. Til að halda upp á þennan múr sem brotinn hefur verið í íslensku útvarpi, er hér allur nýji og fyrsti diskurinn hans, Mosaik, sem kom út 25. febrúar síðastliðinn.

föstudagur, 11. mars 2011

Að muna götuheiti

Í gær lærði ég hvar stærsta gata Reykjavíkur, Miklabrautin, er staðsett. Þá hef ég lært átta götunöfn í Reykjavík og nágrenni, frá því ég flutti hingað 2003, eða um eitt götunafn á ári að meðaltali.

Hér eru götunöfnin sem ég þekki, í þeirri röð sem ég lærði þau:

Túngata (18)
Bjó þar í eitt ár með fjórum piltum, sem drukku ótæpilega og voru glaðir, á meðan við vorum allir í námi.

Skipholt
Bjó þar á stúdentagörðum í tvo vetur í agnarsmáum herbergjum.

Kringlumýrarbraut
Valhoppaði þessa götu í skólann, úr Skipholtinu, oftar en ekki trallandi lítinn lagstúf.

Kristnibraut
Bjó þar í stúdentaíbúð með spúsu. Staðsett einhversstaðar uppi í fjalli, fjarri allri siðmenningu.

Skaftahlíð (24)
Fékk vinnu þar eftir útskrift. Ef ég ynni ekki þar enn þá væri ég löngu búinn að gleyma þessu götuheiti.

Laugarvegur
Hélt alltaf að hann væri hjá Ingólfstorgi niðri í bæ. En það er víst önnur gata, sem ég man ekki hvað heitir.

Sæbraut
Hef ekki hugmynd af hverju ég veit hvar þessi gata er. Kannski af því sær kemur fram í nafninu og hún liggur við sjóinn, held ég.

Miklabraut
Sá nafnið á skilti þegar ég ók í vinnuna í gær og hugsaði "ah, þarna er þá þessi andskotans Miklabraut". Verð mögulega búinn að gleyma því seinna í dag.

Götunöfn sem ég stefni á að læra á næstunni:

Gatan sem pabbi býr í
Ég get ekki munað hvað hún heitir, þó það séu fjögur ár síðan hann flutti þangað.

Gatan sem ég bý í
...og hef búið í síðasta árið. Hefur boðið upp á býsna vandræðalegar stundir í afgreiðslum þegar ég þarf að gefa upp heimilisfang.

Ég verð svo búinn að læra öll götuheitin á höfuðborgarsvæðinu eftir um 1.200 ár, að því gefnu að ég lifi svo lengi og engar götur bætist við.

miðvikudagur, 9. mars 2011

Hvernig græða á 500.000 krónur

Hér er auðveld leið til að eignast hálfa milljón, skattfrálst:

1. Kauptu þér Peugeot.
2. Opnaðu skattframtalið þitt á netinu nokkrum árum síðar, til að telja fram.
3. Reiknaðu með að Peugeot draslið sé metið á neikvæðar 459.687 krónur.
4. Sjáðu að Peugeot draslið er metið á jákvæðar 40.313 krónur.
5. Pantaðu pizzu, 500.000 krónum skattfrjálst ríkari en í gær.
6. Fáðu hana heimsenda af því þú treystir ekki Peugeot bifreið þinni í ferðina.
7. Reyndu að halda andliti þegar einhver spyr hvernig bíl þú eigir.

Stig 7 er valkvæmt.

8. mars 2011

Hér er listi yfir það sem ég ætlaði að gera í dag:

 • Vakna
 • Mæta í vinnuna
 • Borða baunasúpu í vinnunni
 • Klára helling af verkefnum sem bíða mín í vinnunni
 • Fara á kostum í kaffihléinu og hrífa alla upp úr skónum
 • Leggja mig eftir vinnu
 • Fara í ræktina eftir leggj
 • Skrifa stórkostlega bloggfærslu eftir rækt

Hér er listi yfir það sem ég gerði í dag:
 • Fékk mígreniskast snemma í morgun
 • Vaknaði síðdegis
 • Lagði mig eftir að ég vaknaði
 • Fór í ræktina eftir leggj
 • Skrifaði fyrirsjáanlega upptalningabloggfærslu eftir rækt
Með afkastaminnstu dögum sem ég hef upplifað.

mánudagur, 7. mars 2011

Undraheimar mannslíkamans

Svo mikið svitnaði ég í ræktinni í gærkvöldi að ég hélt á tímabili að ég hefði pissað á mig, grínlaust. Hver einasta arða sem ég klæddist var gegnblaut af svita.

Þar með er ekki öll sagan sögð, því á leiðinni heim, eftir sturtu og snyrtingu, tók ég eftir að ég var enn svitnandi.

Ekki nóg með það, heldur tók ég eftir, í hádeginu í dag, þegar sæt stelpa talaði við mig, að ég var enn svitnandi, rúmum 14 tímum eftir að ræktarferðinni lauk!

Ótrúlegur þessi líkami.

sunnudagur, 6. mars 2011

Sviðsljós Séð og Heyrt

Baldur nokkur Beck benti mér á nýlega að ég hef aldrei verið spurður út í Sviðsljóshluta tímaritsins Séð og Heyrt, mér til brjálæðis. Er ég ekki nógu frægur eða merkilegur?

Hér eru svörin, Séð og Heyrt. Látið mig vita hvenær þið birtið þau.

1. Hver er statusinn þinn á Facebook núna?
Síðasti status er frá 26. febrúar: varð flökurt eftir að hafa borðað Sóma hamborgara. Er sennilega með ofnæmi fyrir pappír. Eða viðbjóði.

2. Hver er skrítnasti matur sem þú hefur smakkað?
Rækjur.

3. Hvað er turn on og off fyrir þér?
Turn on: Sleikur. Og íþróttaföt.
Turn off: Hósti og allt tengt sígarettum.

4. Hvenær vissirðu að þú værir ástfangin og af hverju?
Ég vissi ekki að ég væri ástfanginn. Er ég það? Ef svo er, þá núna. Og af því þú sagðir mér það.

5. Hvernig krakki varstu?
Ljóshærður, ofvirkur og óþolandi. Dæmigerður krakkaviðbjóður.

6. Hvað reiðir þig?
Téin þrjú. Tillitsleysi, tilætlunarsemi og töffarastælar.

7. Hver væri titill ævisögu þinnar og hver myndi leika þig í bíómyndinni?
Titill: Hugans rætur og ævintýr.
Leikari: Clint Howard.

8. Hvaða frægu persónu myndirðu vilja…
A) eiga einnar nætur gaman með
Helen Mirren.

B) giftast
Mila Kunis.

C) kynna fyrir mömmu
Scarlett Johansson.

9. Hver er mikilvægasta lexían sem þú hefur lært?
Aldrei, undir neinum kringumstæðum, kaupa Peugeot.

10. Hvaða söngvari fer mest í taugarnar á þér?
Á erfitt með að gera upp á milli Lady Gaga og Nicole Scherzinger.

11. Við hvað ertu hræddur?
Dauða skyldmenna.

12. Hvað gerirðu til að dekra við þig?
Sef.

13. Hver er besta ákvörðun sem þú hefur tekið?
Að fara í Háskóla Reykjavíkur 2003.

14. Hvaða ilmvatn notarðu?
Hugo Boss.

15. Hver er þín leynda fantasía?
Að fara í sleik á tónleikum með Ratatat á Broadway.

föstudagur, 4. mars 2011

Facebook vinir

Þetta rakst ég á á vafri mínu um Facebook í kvöld.
Einmitt Facebook. Af því lífið er svona gott.

Svo ég svari spurningunni: Nei, Facebook. Ég er ekki Dolph Lundgren.

fimmtudagur, 3. mars 2011

Mataræði fyrir rækt

Fólk spyr mig oft aldrei hvað sé best að borða fyrir ræktina. Ég er langt í frá því að vera sérfræðingur en ég reyni þó að hjálpa.

Ég beiti útilokunaraðferðinni. Í gærkvöldi lærði ég t.d., með þessari aðferð, að það er ekki gott að borða hálfa skúffuköku, Risa hraun og snakk fyrir ræktarferð, nema þú viljir verða máttlaus í miðri æfingu og kasta næstum upp í sturtuklefanum.

Í kvöld ætla ég að komast að því hvað af þessu þrennu hafði þessi áhrif, með því að beita útilokunaraðferðinni og borða bara skúffuköku og Risa Hraun áður en ég legg af stað.

Með þessari aðferð hef ég m.a. lært að borða sem minnst af sultu, núðlum, uppþvottalegi og kókosbollum, fyrir ræktarferð.

Dæmigert miðvikudagskvöld

Eftir nýjustu atburði í mínu lífi og samkvæmt allskonar kenningum, er ég einn sætasti maður í heimi* þessa stundina, jafnframt því að vera einn sá ógeðslegasti**.

Ég hafði ekki hugmynd að sætu fólki liði svona illa í maganum.

* Sé gengið út frá því að við erum það sem við borðum. Ég var að klára um 3 kíló af hreinum sykri.
** Sé gengið út frá því að spegillinn ljúgi ekki.

þriðjudagur, 1. mars 2011

Útborgunardagur

Í dag er loksins runninn upp útborgunardagur. Það er varla til betri tilfinning en að eiga peninga á milli handanna og hafa ekki eina áhyggju. Klukkan níu í morgun leið mér þannig.

Korteri síðar var ég búinn að borga leiguna, hita, rafmagn, LÍN afborgun, vexti, vaxtavexti, símareikninga og aðra reikninga ásamt VISA.

Ég var áhyggjulaus í korter. Óvenju langur tími.