föstudagur, 31. október 2003

Á laugardagskvöldið síðastliðið tók ég þátt í leik sem Guggur og vinir hans ákváðu að spila á meðan þeir helltu í sig áfengi. Hann gengur út á að skrifa reiðinnar býsn af öllu sem viðkomandi dettur í hug á einni mínútu. Það sem þú mátt skrifa niður er þó skilyrðum háð og sem dæmi má taka skilyrðin að skrifa bíómyndanöfn sem byrja á I en það voru akkúrat skilyrðin sem voru uppsett þegar þessi saga hefst. Einhver ritstífla átti sér stað og ritaði ég þrjár setningar sem mig minnti að væri nöfn á myndum. Fyrst ber að nefna Imodium en það er víst þarmalyf og var ég einhverra hluta vegna stimplaður hommi í kjölfarið. Næst ritaði ég in & out en það er mynd um homma og hlógu strákarnir mikið við þessa tilviljun. Síðast en ekki síst skráði ég Into deep og þarmeð sprakk allt, ég varð vægast sagt vandræðalegur og ákvað að horfa bara á heilbrigða gagnkynhneigða mynd í herberginu mínu, fjarri hlátrasköllunum.
Skrítið hvernig hægt er að vera með ritstíflu einn klukkutímann (sjá síðustu 2 daga) en fá svo andlegan niðurgang þann næsta (sjá kvöldið í kvöld). Ég ætla að finna hvaða efni virkar best sem andleg laxerolía, selja hana, verða ríkur og horfa svo hlæjandi á þegar allur heimurinn byrjar að blogga.
Í kvöld fór ég í göngutúr út í sjoppu, bónus video nánar tiltekið. Ég klæddi mig skemmtilega upp með hanska og húfu vegna þess að nýlega snjóaði, fór svo í nýlegu skónna mína sem munu taka við af hinum þriggja ára sem ég geng ennþá í að staðaldri. Við þetta bætti ég svo ferðageislaspilara sem ég setti í úlpuvasann, stakk Nick Cave disknum The good son í og setti höfuðtólin í eyrun á mér. Ég rölti svo af stað, kem við í Bónus Videó, kaupi mjólk og passa að vera búinn að taka höfuðtólin úr eyrunum á mér áður en inn í verslunina er komið. Ég rölti svo í makindum mínum til baka með höfuðtólin í eyrunum, lúkur fullar af mjólkurfernum og stærðarinnar bros á vör. Þegar ég svo kom að horni Tunguvegs fer ég aðeins að hugsa og átta mig á því að ég hafði steingleymt að ýta á play þegar ég lagði af stað frá Tunguvegi ca 20 mínútum áður. Ég snarstoppaði því, setti diskinn af stað og hlustaði á fimm sekúndur af Foi Na Cruiz áður en ég kom heim, sár og bitur yfir eigin heimsku.

fimmtudagur, 30. október 2003

Sá fátíði atburður átti sér stað í kvöld að dýr í útrýmingarhættu, viljandi ókúl homo sapiens (ég), eldaði hamborgara í hlýrabol og adidas buxum. Myndatökumaður var í startholunum þegar eldamennskan var plönuð en varð slimesoccer að bráð og var því engin mynd tekin. Ég hef þar af leiðandi enga sönnun fyrir þessum atburði þannig að þið verðið bara að taka mig trúanlegan. Heimilislíf og myndatökur fjölskyldunnar á tunguvegi heyra sögunni til fyrir tilstilli helvítis slime leikjanna.
Fjandinn hafi skjá einn og fimmtudagana hjá þeim. Í kvöld ætlaði ég mér mjög margt, m.a. að horfa horfa á videospólu og jafnvel læra smá en það er ekki hægt héðan af. Fimm gamanþættir í röð er of gott til að sleppa. Ég þarf að fara núna, CSI fer að byrja.
Í ljósi þess að engin heilastarfsemi virðist vera í gangi hjá mér þessa dagana hyggst ég fjalla um tvær myndir sem ég nýlega sá en hef ekki haft tíma til að skrá neitt um sökum Anna (fullt af stelpum sem heita Anna hafa haldið mér niðri).

Sú fyrri er gömul sem ég hafði ekki horft á í langan tíma og ber hún nafnið 'The Cutting Edge' eða 'Á hálum ís'. Þegar ég var á gelgjunni (frá 18-22 ára aldrinum, seinþroska) fannst mér þessi mynd vera dásamleg og ein sú besta sem ég hafði séð. Þegar það virkaði ekki á stelpurnar féll hún í gleymsku þar til núna. Myndin fjallar um skautadrottningu sem er leiðindartík. Hana vantar alltaf karlkyns skautara á móti sér þar sem þar sem hún er mjög leiðinleg. Þá kemur fram ægilegur pörupiltur sem tekur hana í gegn og svo framvegis. Myndin er hugljúf og nokkuð vel gerð. Hún er frá 1992 og það sést vel. Leikarar standa sig vel og sagan er fín þrátt fyrir væmni í lokin. Þrjár stjörnur af fjórum.

Seinni myndin er 'Bruce Almighty' með Jim Carrey í aðalhlutverki en hana niðurhlóð af hinu merka forriti DC++ nýverið. Myndin er vella út í gegn og þó að Jim Carrey standi sig vel er sagan bara of væmin og dæmigerð fyrir mig auk þess sem sum atriðin sem eiga að vera svakaleg eru einfaldlega ömurleg. Ein og hálf stjarna af fjórum.
Í nótt hófst NBA tímabilið fyrir alla Utah Jazz aðdáendur. Þeir tóku sig til, smöluðu Trailblazers saman og aflífuðu. Hér getið þið lesið um leikinn og hér séð alla tölfræðina. Ég missti stjórn á gleði minni og tók skemmtilegt footloose dansspor á bókasafninu bara til þess að fá vikubann.

miðvikudagur, 29. október 2003

Ég virðist vera algjörlega laus við að hafa eitthvað að segja í dag. Er að vinna á fullu í fyrirlestri sem haldinn verður eftir viku um innri markaðssetningu fyrirtæ...
...þetta ætti að nægja til að fæla ykkur í burtu.

Komið aftur á morgun.
Elsa Guðný hefur hafið dagbókarskrif á ný hér eftir misheppnaða hættun. Lesum og verum glöð.

þriðjudagur, 28. október 2003

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að fólk er ósammála mér varðandi Matrix reloaded og Kill Bill þannig að hér kemur smá könnun, ykkur til ánægju líklegast. Ég læt hana þó ekki í hliðarrammann hérna til hægri þar sem þetta er bara bráðabirgðakönnun.

Smelltu hér til að taka þátt.
Sunnudagurinn síðastliðni átti að fara í heljarinnar lærdóm með mínum stelpuvædda markaðsfræðihópi (er í 5 manna hópi í markaðsfræði, 4 af þeim eru stelpur og 3 af þeim heita Eva) en sökum veikinda hjá öðrum en mér hélt ég mig heima framan af.
Seinni parturinn var þó mun viðburðaríkari en þá hitti ég pabba, við fórum til ömmu í heimsókn og þaðan á vitabarinn þar sem við átum besta hamborgara bæjarins, að sögn Davíðs Þórs og fleiri vaskra manna. Þaðan lá leiðin í Regnbogann þar sem við horfðum á myndina Kill Bill eða Drepið reikning á Íslensku. Þær sem voru að grenja yfir því hve Matrix Reloaded er ruglingsleg ættuð ekki að fara á þessa. Það sem ég skildi var mjög óáhugavert. Myndin er bland af Matrix Reloaded (þeas bardagasenurnar) og Pókémon. Þar sem ég er talsmaður antikúlista þá gef ég ekki mikið fyrir Tarantino og kúlið hans. Hann virðist þrífst á því að vera kúl. Tónlistin í myndinni er þó afbragðsgóð.
Ein og hálf stjarna af fjórum sem gera hálfa stjörnu fyrir hverja milljón lítra af blóði sem flæddi í þessari mynd.
Laugardaginn 25. október síðastliðinn klukkan 14:23 að staðartíma hófst innrás meðleigenda minna á mitt pláss í ísskáp númer 1, Tunguvegi 18. Hingað til hef ég haft neðstu hillu norðurísskápsins í frið og ró en eftir að ég tók hliðarhillu í hurðinni á ísskápnum undir mjólk varð gremjan mikil og á laugardaginn sauð upp úr. Þeir byrjuðu á því að henda inn skyr.is í neðstu hilluna og bættu svo við tveimur undanrennufernum. Ég raðaði því skyrinu mínu upp á móti, bætti við vatninu sem ég geymi á brúsa og smjörinu sem reyndar er útrunnið en getur barist. Allt kom fyrir ekki því Óli kom þá askvaðandi úr Bónus og yfirtók neðstu hilluna með meira skyri og sardínum á tilboðsverði.
Eins og staðan er núna er ég króaður af í horninu en hyggst koma liðsforingjum andstæðinga minna á óvart með ferð í Bónus í dag.

mánudagur, 27. október 2003

Það gleður mig að tilkynna að í síðustu viku mættu 476 manns á þessa síðu sem er það mesta síðan ég kom hingað suður. Einhverra hluta vegna hrundi aðsóknin eftir brottför mína. Útskýringar eru vel þegnar.
Kolla systir var að setja inn myndir á netið frá Danmörku hérna. Sumar af þessum myndum eru ótrúlega fyndnar. Vantar bara að hægt sé að skrifa ummæli um hverja mynd en allavega, kíkið á dagbók Kollu og myndirnar hennar. NÚNA!
Ég gerði hugsanlega verstu kaup allra tíma um daginn, hvar annarsstaðar en í Bónus! Ég sá tuttugu batterí saman á rétt rúmar 400 krónur sem er ótrúlega vel sloppið hugsaði ég. Venjulega kosta fjögur saman um 400 krónur en þá frá stærra nafni. Á umbúðunum stóð orðrétt "Super extra heavy duty - Powercell" og ég hugsaði ekki nánar um það heldur keypti. Þegar ég svo stakk tveimur stykkjum í geisladiskaspilarann minn og þrjú lög höfðu klárast áttaði ég mig á því að ég hefði keypt köttinn í sekknum. Batteríin voru búin. Samtals dugaði þessi tuttugu battería pakki í að spila þrjá geisladiska. Þegar ég rýndi betur í orðin "super extra heavy duty" fattaði ég að þessi setning þýðir alls ekki neitt.
Það sannast því hið margkveðna; Bónus er mesta ruslverslun á landinu en þetta vill sauðheimskur almúginn.
Á hotmailið mitt (finnurtg@hotmail.com, bætið mér við á MSN hjá ykkur!) komu 34 ruslpóstar í nótt, rétt eftir að ég skráði mig í þetta helvíti. Mæli svo sannarlega ekki með því.

sunnudagur, 26. október 2003

Gærkvöldið fór forgörðum en þá ætlaði ég mér stóra hluti. Hér er listinn sem ég útbjó, yfir það sem ég ætlaði mér um kvöldið:

1. Labba í sjoppu, kaupa mjólk og jafnvel leigja mér spólu.
2. Út að skokka.
3. Þvo þvott.
4. Elda.
5. Blogga um það hversu duglegur ég væri.
6. Snemma að sofa.

Þetta gerði ég:
1. Eldaði (mynd frá herlegheitunum).
2. Fór seint að sofa.

Ég tek mig þó til í dag og geri eitthvað af viti. Það byrjar ekki vel þar sem ég vaknaði klukkan 14:00, ca 4 tímum eftir á eftir áætlun.

laugardagur, 25. október 2003

Í gær og fyrradag náði ég þeim merka árangri að vaka í 39 tíma eða frá klukkan 7:30 fimmtudaginn 23. október til 22:30 föstudaginn 24. október. Undir lokin var ég það illa farinn að ég dottaði fyrir fyrir framan sjónvarpið en það hefur ekki gerst frá 1991 þegar ég gerði heiðarlega tilraun til að horfa á Ryð án árangurs.
Þetta er þó ekki met því ég hef mest vakað í 54 tíma veturinn 2000 þegar ég var sem næturvörður á Hótel Héraði og gleymdi að sofa eftir 2 vaktir. Það var stuttu seinna sem ég svaf yfir mig í vinnuna eftir að hafa sofið frá 8 um morguninn, svaf því stanslaust í 24 tíma rúma.
Í dag er hinn árlegi LSD-dagur hjá strætóbílstjórum borgarinnar. Í morgun þegar ég gekk í stóru gulu rútuna og bjóst við að fá "haltu kjafti" hreitt í mig eftir að hafa boðið góðan daginn varð mér brugðið því bílstjórinn heilsaði mér með bros á vör og bætti svo við "gjörðu svo vel" eftir að ég sýndi honum kortið mitt. Ég ákvað að fylgjast með þessum bílstjóra í ferðinni og tók þá eftir að hann hagaði sér vægast sagt furðulega. Þegar komið var að krossgötum og annar strætó sást á horninu tók bílstjórinn sig til og vinkaði eins og hann ætti lífið að leysa, skælbrosandi og það sama gerði bílstjórinn í hinum strætónum. Ég dró svo áðurnefnda niðurstöðu, að í dag sé hinn árlegi LSD-dagur hjá strætóbílstjórum, þegar þessi umræddi bílstjóri skellihló að einhverju í útvarpinu. Ég þrýsti því strax á takkann, hljóp út öskrandi og gekk síðan væna vegalengd í skólann, tárvotur einu sinni sem oftar.

föstudagur, 24. október 2003

Strax eftir að rekstrarhagfræðiprófið, sem ég vakti í alla síðastliðna nótt til að læra fyrir og gekk mjög vel í, var búið hljóp ég í tölvuver Háskólans til að drepa tímann. Þegar ég hafði lokið við að faðma tölvuna og segjast hafa saknað hennar strunsuðu inn þrjár stelpur, klipptar úr myndinni Clueless, með getnaðarlega stelpuskræki. Þegar ég leit af tölvunni sá ég mér til skelfingar að ein þeirra var Maríkó Margrét, ein safaríkasta kú landsins. Ég er ekki þekktur fyrir að höndla umgengni við fagrar meyjar en í þetta skiptið ákvað ég að gera heiðarlega tilraun til að halda "kúlinu". Ég þóttist ekki sjá hana í fyrstu og þegar ein úr tríóinu spurði hvort prentari virkaði, snéri ég mér lengra frá þeim og þóttist ekki heyra. Hún endurtók spurninguna nokkrum sinnum og ég færði mig sífellt fjær þangað til ég áttaði mig á því að ég var kominn út í horn, liggjandi á gólfinu í fósturstellingunni og byrjaður að gráta. Þær áttuðu sig fljótlega á því að ég tala ekki við hvern sem er heldur þarf fólk að vinna inn virðingu mína áður.
Mér finnst ég hafa komið nokkuð vel frá þessu.

Ég er orðinn það þreyttur núna að ég gæfi sofið hest þannig að ég kveð í bili.
Klukkan er rúmlega 3 að nóttu 24. október 2003 og ég er staddur í skólanum að læra fyrir rekstrarhagfræðipróf sem ég mun að öllum líkindum falla í nema að eftirfarandi spurningar komi:

1. Hvað heitir þú?
2. Hvernig stafar þú rekstrarhagfræði?
3. Hvernig lítur rassinn á Maríkó Margréti út?
4. Hvers son er Steingrímur Hermannsson?

Ég er landsþekktur fyrir að vera frekar svartsýnn fyrir próf þannig að við verðum að sjá til. Ég hyggst ekki sofa fyrir prófið sem hefst stundvíslega klukkan 10:05 í fyrramálið. Lifi svefnleysið!

fimmtudagur, 23. október 2003

Ég var að dunda mér í vasareikninum mínum og komst að eftirfarandi niðurstöðum:

1. Ég hef lifað í 796.466.280 sekúndur sem gera 13.274.438 mínútur sem gera 221.240,63 klukkutíma sem gera 9.218,36 daga sem gera 1.316,91 vikur sem gera 302,86 mánuði sem gera 25,24 ár. Eftir 3.533.720 sekúndur eða 41 dag verð ég 800.000.000 sekúndna gamall sem er stórafmæli. Munið því að óska mér til hamingju 3. desember næstkomandi með áttahundruð milljón sekúndna afmælið mitt.
2. Á þessum líftíma mínum hefði sæði getað verið búið að synda rúmlega 4 kílómetra, ef það gæti lifað svo lengi en ég reikna með því að eitt sæði syndi 3 millímetra á mínútu (samkvæmt rannsóknum mínum).
3. Ef ég hefði aldrei klippt á mér fingurneglurnar um ævina væru þær orðnar ca 64 sentímetrar að lengd og táneglurnar 16 sentímetrar.
4. Um ævina hef ég blikkað augunum rúmlega 133.000.000 (hundraðþrjátíuogþrjár milljónir) sinnum.
5. Um ævina hef ég einu sinni lent í 3ja sæti á sundmóti. Þarmeð get ég reiknað með því að lenda í þriðja sæti á einu sundmóti á 25 ára fresti, sem gefur mér að ég muni 2 í viðbót ná þeim árangri. Ég hlakka til þess.

Þá get ég aftur snúið mér að hinu raunverulega lífi, sem þýðir heimalærdómur.
Ef aðstandendur þessarar keppni hefðu bara komið til mín og spurt hver væri fyndnasti uppistandari Íslands hefði ég bara getað sagt þeim það, í staðinn fyrir að þeir skuli hafa þurft að halda þessa ægilegu keppni sem tekur bara dýrmætan tíma frá keppendum, aðstandendum og ekki síst áhorfendum.
Allavega, það vita það allir gáfum gæddir einstaklingar að Steinn Ármann er sá fyndnasti. Nú vona ég bara að Radíus Bræður komi aftur saman og geri nokkra þætti fyrir sjónvarpið í staðinn fyrir hálfvitana í spaugstofunni sem hættu að vera fyndnir ca 15 mínútum eftir að þeir byrjuðu með þættina sína fyrir ca 20 árum.

miðvikudagur, 22. október 2003

Hvað er rangt við eftirfarandi færslu:

Í morgun vaknaði ég með hárið nákvæmlega eins og í gærkvöldi þegar ég fór að sofa, mætti á réttum tíma í skólann eftir að hafa náð strætó og garnirnar gauluðu ekki yfir alla kennslustofuna upp úr klukkan 11, eins og þær gera venjulega. Í mötuneytinu gekk allt snurðulaust fyrir sig, ég tók matinn og greiddi fyrir eins og ekkert væri sjálfsagðara, hugsandi ekkert um yfirdráttinn og að þessi máltíð kostaði í raun 8,5% meira árlega, reiknað mánaðarlega.

Svarið er fyrir neðan. Krossgátan er til þess að ykkur leiðist ekki á leið ykkar niður. Það vantar orðin en það er óþarfi að láta smáatriði skemma krossgátuna.

Svarið er: allt. Ég missti af strætó í morgun eftir að hafa sofið yfir mig og vaknað með hárið upp í loft (kominn með það mikið hár að ég missti jafnvægið). Gekk því í skólann, mætti of seint og garnirnar gauluðu yfir allan salinn í hljóðum tíma. Borgaði matinn í hádeginu, minnugur þess að ég er með námsmannayfirdrátt, og missti kókdollu í gólfið í leiðinni.
Af þessu að dæma stendur tíminn í stað á Egilsstöðum og er ennþá síðastliðinn laugardagur þar. Þetta hlýtur að vera eitthvað það merkilegasta sem gerst hefur í mannkynssögunni en ennþá hef ég ekkert heyrt um þetta í fréttunum. Atburður þessi getur haft í för með sér frábærar afleiðingar. Ég sé strax í hendi mér þann möguleika að fólk geti lifað að eilífu, engar afskriftir verða af tólum og tækjum í fyrirtækjarekstri og öll kvöld verði laugardagskvöld. Að sjálfsögðu pantaði ég rétt í þessu flug austur síðasta laugardagskvöld.

Það getur líka verið að vefmyndavélin sé biluð en það er miklu leiðinlegri möguleiki þannig að ég læt sem hann sé ekki til.

Með þessari ritgerð minni kæmist ég eflaust í stjórn spiritistaklúbb Íslands.
Síðastliðinn dagur hefur verið slæmur. Í ljós kom í miðjum dæmatíma í stærðfræði að ég hef verið að vinna röng heimadæmi alla þessa viku, sem eyðileggur rúmlega 8 tíma vinnu. Aldrei þessu vant mætti strætóinn á réttum tíma eftir skólann en þá var ég auðvitað rétt ókominn. Sá hann fara í ca 100 metra fjarlægð, hlaupandi. Þá tók ég þá afdrífaríku ákvörðun að fara í Bónus að versla. Það þarf auðvitað ekkert að segja meira um það en fyrir þá sem hafa aldrei stigið þangað inn er það eins og að koma í dýragarð, eftir að öllum hættulegu dýrunum hefur verið hleypt út. Allar húsmæður landsins láta eins og hver vara sé sú síðasta. Ég óska ekki verstu óvinum mínum að versla í þessari verslun.

Eftir svona daga er ég bara feginn að búa ekki í bandaríkjunum þar sem auðvelt væri fyrir mig að ná mér í byssur og taka smá skotæði í skólanum, slíkt var skap mitt undir lokin.

Ég ákvað því að vera góður við sjálfan mig um kvöldið, eldaði spaghettí með nautahakki og meðlæti (tvær afgangs kartöflur sem Guggur ætlaði að henda). Eftir frábæra máltíð settist ég niður og vann í réttu heimadæmunum í stærðfræðinni undir fögrum tónum Nick Cave til klukkan rúmlega 23:00. Ég róaðist þó algjörlega niður eftir að ég niðurhlóð Pottþétt Vitund 1 og hlustaði á, en einhver stal þeim diski úr fórum mínum fyrir nokkrum árum. Ég endurnýjaði kynni mín af þessu meistaraverki og komst í snertingu við mitt innra sjálf, þá á ég við mitt deildaða innra sjálf þar sem ég reiknaði um leið eins og óð fluga.

þriðjudagur, 21. október 2003

Hérna átti að standa eitthvað mjög sniðugt en eftir átta tilraunir ákvað ég bara að skrifa þetta í staðinn og vona að skólatalva þessi frjósi ekki í níunda sinn. Þeir sem hafa séð South Park the movie atriðið þar sem Bill Gates er skotinn í hausinn skilja hvernig mér líður núna.
Hvað færðu þegar þú blandar saman öllum ógeðslegu eiginlegum Austin Powers við búning Ali G ásamt líkama Fat Bastard, slatta af lélegum lögum, slæmri sviðsframkomu og tekur í burt allan húmor? Svarið er að finna fyrir neðan.


Þennan óskapnað færðu; eitthvað sem enginn skilur af hverju varð til.

mánudagur, 20. október 2003

Þetta er athyglivert. Ef þessi síða væri tölvupóstur væruð þið á leið í stofufangelsi.

Þetta
er líka álíka athyglivert. Ef þessi síða væri bjór og þið drykkjuð hann (þið sem eruð orðin 20 ára auðvitað) þá væruð þið að styrkja hjartað.

Gaman að spá í þetta.
*VARÚÐ! Eftirfarandi færsla inniheldur mont og smá sjálfsánægju, jafnvel hroka. Alls ekki við hæfi ungra barna eða viðkvæmra*

Í morgun fékk ég einkunnir úr miðannaprófi og verkefni sem ég vann fyrir 2 vikum síðan. Hef ég þá fengið einkunn úr fimm verkefnum og prófum sem ætti að nægja til að taka meðaltal og meta árangurinn hingað til. Meðaltalið er 7,82, sem mér finnst ágætt þannig séð en ég er þó mjög óhress með 3 einkunnir. Það þýðir ekki að gráta yfir því heldur halda bara áfram og vinna betur og meira fyrir prófin eða verkefnin sem framundan eru.

Þá í algjörlega óskylt efni; Bylgja var að birta myndir á myndasíðunni sinni. Farið þangað, skrifið ummæli, gleðist og minnist þeirra daga þegar ég bætti við myndum á myndasíðuna mína. Ég mun sennilega koma með eitthvað uppfyllingarefni á næstu dögum á mína síðu, hvort sem það verður kynning á Tunguveginum eða afturhvarf til fortíðar.

sunnudagur, 19. október 2003

Þessum veðurblíða sunnudegi var varið ofan í bókunum, lærandi stærðfræði með einni bleikustu stelpu sem stigið hefur inn fyrir dyr Háskóla Reykjavíkur. Öðrum orðum; ég lærði stærðfræði í dag með Bylgju í HR. Inn á milli deildunardæma, stuna, grát og gnístan tanna spjölluðum við saman og lærðum ýmislegt nýtt um þetta líf og viðhorf hvors annars til þess. Ég ákvað, í snarvitlausum galsa, að fá mér minn fjórða kaffibolla um ævina þennan dag, að þessu sinni súkkulaðiblandað cappucino sem reyndist verða fjórða versta kaffið sem ég hef smakkað. Undir lokin fengum við okkur flatböku frá Hróa Hetti, borgandi 1000 krónur fyrir 16 tommu pizzu og bíðandi í röð á undan Pétri H. Blöndal þingmanni sem veigrar sér greinilega ekki við því að bíða í röð með sótsvörtum og ógeðslegum almúganum. Eftir pizzuátið vorum við svo sátt að við tókum skák og viti menn, Bylgja sigraði mig eftir að hafa teflt fram hersveit sinni á sannfærandi hátt. Ég vona bara að enginn frétti af þessu tapi mínu.

Ég drekki sorgum mínum þetta kvöldið með Nick Cave og slæmu sæðunum (illa orðað) en í gær niðurhlóð ég enn einum diski með þeim kumpána, í þetta sinn Henrys Dream. Við fyrstu hlustun er diskurinn með þeim betri.
Eins og svo oft áður sá ég mynd í gærkvöldi af vídeóspólu. Myndin heitir Punch-drunk love og skartar þeim Adam Sandler og Emily Watson í aðalhlutverki. Myndin fjallar um mann sem er haldinn einhverju sem ekki er almennilega útskýrt, vinnur við eitthvað sem ekki er almennilega útskýrt og lendir í fáránlegum vanda sem er hálfglórulaus. Hann verður svo ástfanginn og svo framvegis. Adam Sandler leikur furðulega vel og sömuleiðis Emily Watson.
Myndin er talsvert ruglingsleg, órökrétt og vitlaus á köflum. Ef ég væri artí fartí ógeð með trefil um hálsinn, reykjandi á kaffihúsi þá þætti mér þessi mynd "æðislegt masterpís" en þar sem ég er raunsæismaður þá segi ég eins og er; þessi mynd er slæm. Hún hafði þau áhrif að ég grét mig í svefn og mun líklega gera það aftur í kvöld. Hálf stjarna af fjórum fyrir góðan leik og fyrir að hluti myndarinnar gerist í Utah.

laugardagur, 18. október 2003

Í gærkvöldi sá ég myndina SWAT í Smárabíói með Ölmu Rún. Ég vil koma þessu frá mér sem fyrst enda hef ég verið að byrgja þetta inni frá því í gærkvöldi; myndin er ömurleg. Boðskapurinn í henni er svo uppriðinn og gegnumsýrður af bandarískri hugsjón. Sem dæmi má taka að vondi kallinn er auðvitað Frakki þar sem Frakkar eru á móti því að láta sprengja saklausa Íraka í loft upp án þess að hafa ástæðu og er hann alltaf kallaður "frog" sem er niðrandi umsögn um frakka. Hin almáttuga byssa er dýrkuð í þessari mynd og það fer ekki framhjá neinum. Ofan á þetta er svo smurt bandarískum hroka og töffarastælum til að fylla upp í holurnar.
Einnig var talsvert um mistök í þessari mynd sem ég fer ekki nánar út í að svo stöddu.
Það eina góða við þessa mynd var félagsskapurinn, smárabíósalurinn sem er ótrúlega þægilegur og svo þessi en hún er gott sýnishorn um glæsilegan kvenmann.
Myndin fær núll stjörnu af þúsund.

föstudagur, 17. október 2003

Hún Kolbrún systir var að bæta útlitið á síðunni sinni með smá aðstoð frá Árna Má, kærasta sínum. Síðan er glæsilega hönnuð og er fögur ásýndum. Það er þó alltaf innihaldið sem skiptir mestu máli og er það jafnvel betra en útlit síðunnar í þessu tilviki og er þá mikið sagt. Kíkið á síðuna hennar hér.

Fyrir nokkru síðan hætti Hjalti Jón, körfuboltakappi og hljómsveitameðlimur frá Fellabæ, að skrá dagbókarfærslur sínar sökum anna. Nú hefur hann hafist handa á ný með þessa síðu en þetta er afsprengi hans og Jónasar Reynis (samtals Hjalti Jónas Reynir). Vonum að samruninn gangi upp.
Ég var að skoða haloscan reikninginn minn en þar vista ég ummælin sem fara fyrir neðan hverja færslu. Í ljós kom að síðastliðna fjóra mánuði eða frá 18. júní síðastliðnum hafa verið skráð 1.225 ummæli á þessa síðu og er það aðeins í þriðjung þess tíma sem síða þessi hefur verið starfrækt. Þetta gera 306 ummæli á mánuði og næstum því 11 ummæli á dag. Þannig að ca annan hvern klukkutíma sólarhringsins er einhver að skrifa ummæli á þessa síðu. Dásamlegt.

Ég þakka lesendum og álitsgjöfum kærlega fyrir aðsóknina. Ég met þetta mikils.
Þegar enn einu kvöldinu hefur verið eitt heima án þess að gera nokkurn skapaðan hlut er ég tilneyddur til að líta til baka og sjá að í líf mitt vantar bráðnauðsynlega sjálfrennireið. Eins og svo oft áður ákveð ég því að draga saman kosti og galla viðkomandi umhugsunarefnis, í þessu tilviki því að vera með bifreið í Reykjavík.

Kostir:
1. Ég þyrfti ekki að bíða úti hvern morgun eftir strætó eins og versti reykingarmaður.
2. Ég kæmist til vina minna sem búa hér og þar í Reykjavík/Kópavogi/Hafnarfirði og víðar. Ég einfaldlega rata ekki þangað með strætó.
3. Ég gæti sótt pizzur og sparað mér hellingspening í "sæktuhelvítispizzunasjálfur" tilboðum pizzustaða bæjarins en þannig er hægt að fá pizzur á allt að 1000 krónur, hvaða stærð sem er.
4. Stelpur líta á stráka sem eiga bíl, ekki stráka sem taka strætó, nema þeir séu óþverrar þá eru allar dyr opnar.

Ókostir:
1. Bifreiðagjöld = kr. 5.000 rúmar.
2. Tryggingagjöld = kr. 30.000 rúmar.
3. Bensínkostnaður = amk kr. 15.000 á mánuði.
4. Viðgerðarkostnaður = áætlaður ca kr. 30.000 á ári.
5. Dekkjakostnaður = að meðaltali kr. 10.000 á ári.
6. Kostnaður við að kaupa bílinn.
7. Þurfa að skutla vinum út um allt.
8. Ég rata ekkert í Reykjavík og þess vegna væri bíll óþarfi.

Ég met vini mína, pizzur og það að sleppa við strætó mikils en ekki meira en þessar fjárhæðir. Ég held því áfram að taka strætó, borða skyr og gera ekkert á kvöldin og um helgar, nema læra auðvitað.
Ef ég mætti ráða því hvaða raunhæfa persóna ég væri úr einhverri bíómynd myndi ég hiklaust velja að vera the Dude úr The Big Lebowski, öðru nafni Jeff Lebowski. Það að gera ekki nokkurn skapaðan hlut og stressa sig ekkert á því heillar mig einhverra hluta vegna.
Sá karakter í bíómynd sem er hvað líkastur mér er þó án efa Charlie Kaufman úr hinni sérstöku mynd Adaptation sem ég sá um daginn. Allt í fari þess karakters er eins og hjá mér; stressið, óheppnin, hugsunarhátturinn, kvennamál og annað.

fimmtudagur, 16. október 2003

Ég lenti í skemmtilegri lífsreynslu fyrir nokkrum dögum síðan á meðan ég vann heimavinnu mína í stærðfræði einu sinni sem oftar í lærdómsherbergi einu sem staðsett er í HR. Inn gengu tvær lögulegar stúlkukindur og ilmurinn af þeim var svo yfirþyrmandi og ljúfur að ég tók á rás aftur í tímann, alla leið til 1986 ca þegar ég bjó í Trékyllisvík en þar fann ég þessa dásamlegu lykt síðast. Áður en ég vissi af voru liðnar 20 mínútur og stelpurnar farnar að stara á mig, enda ég standandi fyrir ofan þær, lyktandi af hárinu á þeim, óviljandi auðvitað.
Lísa Hreins er komin með dagbók á netinu. Til gamans má geta þess að mamma hennar á afmæli á sama degi og ég og framtíðar ástkona mín Birgitta Haukdal. Hér getið þið séð dagbók Lísu.


Leiksigur Nicholas Cage


Ég gerðist kærulaus fyrir nokkrum kvöldum og leigði mér myndina Adaptation á myndbandsspólu. Myndin er mjög sérstök og um leið ekkert sérstök. Það sem situr eftir er mjög góður leikur Nicholas Cage (sem kemur mjög á óvart) og það hversu furðuleg þessi mynd er. Fyrir þá sem vilja sjá Nicholas Cage feitan þá er þetta myndin því hann bætti amk 20 kg á sig fyrir þetta og er, þótt ótrúlegt sé, frábær í þessu hlutverki. Adaptation í heild sinni fær þó ekki nema tvær stjörnur hjá mér af fjórum.

miðvikudagur, 15. október 2003

Máni heitir piltungur einn sem á rætur að rekja til Egilsstaða og hefur nýhafið netdagbók. Þessi drengur er körfuboltakappi mikill og hefur löngum þótt líkjast Gary Payton í töktum. Ég býð hann velkominn. Hér getið þið séð síðuna hans, sem og einnig í hlekkjunum hér til hægri undir vinir og kunningjar.

Ég vil nota tækifærið og benda fólki á að senda mér tölvupóst eða bara skrifa eitthvað í commentin ef það vill fá hlekk á sig á síðunni. Verðið er frá kr. 0 til hlekk á mig til baka.
Ég var að koma úr tíma þar sem ég varð vitni að frekar fyndnu atviki. Rauðhærð, síðhærð stelpa sat fyrir framan mig í flíspeysu og þegar vel var liðið á tímann tók hún eftir hári á öxlinni á sér og eyddi nokkrum mínútum í að taka það sem tókst að lokum. Hún áttaði sig ekki á því að það sást varla í bakið á henni fyrir heilu hárlokkunum. Á yfirborðinu hélt ég ró minni, lagði vísifingur hægri handar á hökuna á mér og þóttist velta fyrir mér hvernig eigi að deilda e í exta í öðru en innra með mér grét ég úr hlátri. Mér fannst þetta svo skondið atvik að ég fylltist eldmóði og ákvað í framhaldi af því að ganga upp fjórar hæðir í HR en venjulega tek ég lyftuna. Ég tók mér kaffipásu á þriðju hæð en kláraði svo afrekið og var þetta mesta hreyfing sem ég hef stundað síðan á laugardaginn þegar ég fór í körfubolta (tel ekki með þegar ég klifra upp í strætóinn daglega).
Nýtt æði hefur gripið um sig á Tunguvegi 18 en hingað kemur múgur og margmenni daglega til að taka þátt í Slime sports körfuboltamótunum. Hér getið þið séð leikinn og jafnvel tekið þátt. Hér eru svo fleiri íþróttagreinar sem hægt er að spila með þessum skemmtilegum karakterum. Ég býð spenntur eftir því að geta spilað þennan leik í gegnum símann við annað fólk, víðsvegar um heiminn.

þriðjudagur, 14. október 2003

Enn ein reynslusagan úr Reykjavíkinni.

Í gær gekk ég inn í næstum fullan strætó á eftir róna sem lyktaði skelfilega, var tannlaus og illa til fara auk þess sem hann smjattaði á jórturleðri eins og hann ætti lífið að leysa. Eflaust fínasti náungi samt sem áður. Á eftir mér gekk ægifögur snót, á að giska 20 ára með vöxt sem myndi sæma sér vel í heimildamynd um góða líkamsvexti. Ég settist niður aftarlega í næstsíðasta sætisparið (tvö og tvö sæti saman í strætó fyrir þá sem ekki þekkja til) og róninn hinum megin við ganginn í síðasta sætisparið. Nú lenti fagra snótin í vanda því ef hún ætlaði að setjast þá varð hún að setjast hjá einhverjum. Það var ekki að spyrja að því, hún settist við hliðinni á rónanum, sem er eflaust fínasti náungi. Það er nú samt ekki laust við að brot af sjálfstraustinu hafi horfið þennan dag og mun að öllum líkindum aldrei koma aftur.
Fyrir þremur dögum fór ég snemma úr strætisvagninum á heimleiðinni til að koma við á hamborgarastað og fá eitthvað hamborgaratilboð með mér heim þar sem ég hafði ekkert heitt borðað í marga sólarhringa og dagur að kveldi kominn, en það er aukaatriði. Þegar inn var komið sá ég að það var ca 11 ára stelpa í afgreiðslunni með svuntu og svona klút um hausinn. Hún var semsagt að grilla hamborgara, en það er líka aukaatriði. Hún sagði, eftir að ég hafði beðið í tvær til þrjár mínutur: „Er búið að afgreiða manninn?“ við aðra afgreiðslustúlku sem var eflaust helmingi eldri. Við þetta klökknaði ég því þetta var í fyrsta skipti sem ég hef verið kallaður maður í staðinn fyrir strák eða piltung. Ég tók hamborgarann stuttu síðar, rakst í manninn sem hafði staðið fyrir aftan mig allan tímann (og baðst afsökunnar) og gekk restina af leiðinni heim í rigningunni, vitandi það að ég er loksins orðinn maður.

mánudagur, 13. október 2003

Það er ágætt að setja sér einhver mörk í öllu, bæði lágmark og hámark. Í vetur setti ég mér t.d. það lágmark að ná öllum áföngum í háskólanum og í mesta lagi að ná 8 í hverjum áfanga því ég vil ekki fá nördastimpilinn á mig. Skammtímamörk eru líka mikilvæg. Daglega set ég mér það lágmark að skrá tvær færslur/fréttir inn á þessa dagbók mína og um leið það hámark að hætta umsvifalaust að blogga þann daginn um leið og byrjar að blæða úr augunum. Þetta er því lokafærsla dagsins.
Ég hrökk heldur betur í kút þegar ég gekk fyrir horn og ætlaði mér inn í Háskóla Reykjavíkur í morgun. Fyrir utan útidyrahurðina voru staddir tveir menn, klæddir í hermannastakk, með hermannahúfu og grímu, beinandi að mér byssu. Ég gerði reyndar meira en að hrökkva í kút, ég tók andköf, hrökk til baka og ég er ekki viss en ég held ég hafi hrópað "Detti mér allar dauðar lýs úr höfði" eða eitthvað minna gáfulegt. Þegar ég fékk sjón aftur sá ég að þetta voru aðeins uppklæddir litaboltanyrðir (paintballnerds), auglýsandi litabolta á svæðinu næstu daga.
Viðbrögð mín virtust koma mönnunum á óvart og þegar ég gekk á milli þeirra inn í skólann var einn nægilega vinsamlegur til að heilsa mér með 'hæ'i. Ég hélt "kúlinu" rétt á meðan en þegar inn var komið fór ég beint á salernisaðstöðuna og fékk létt og skemmtilegt taugaáfall.
Ég er ekki þekktur fyrir að stunda jaðarsport af mikilli áfergju en ég ákvað samt að prófa um daginn. Jaðarsportið sem hér um ræðir felur í sér að skokka eins og vitleysingur á hlaupabretti um leið og horft er á sjónvarpið. Við áhorfið er auðvelt að falla og stórslasa sig, sérstaklega þegar hraðinn er mikill. Til að gera þrautina erfiðari er hægt að hafa hljóð með því að stinga höfuðtólum í þartilgert gat sem er við hlaupabrettið. Ég hljóp þarna 6 km, horfandi á nágranna og einhverja gamanþætti án þess að slasa mig alvarlega þó ég hafi nokkrum sinnum hlaupið of hratt með tilheyrandi afleiðingum. Jaðarsport þetta (sem ég kýs að kalla Þorgerður) hefur í för með sér að viðkomandi brennir talsverðu, eykur úthald, bætir jafnvægisskyn og nær að fylgjast með hverfi einu í Ástralíu sem fyrir flesta heitir Ramseystræti en ég kalla "heima".
Reykvíkingar eru furðuleg kvikindi.

Ég varð vitni að hámarki letinnar eða heimskunnar í strætó í morgun þegar strákur með hjól kom í strætóinn. Allt í fínu með það. Hann borgaði 220 krónur fyrir og ca 30 sekúndum seinna ýtir hann á takkann, rúmlega 400 metrum síðar og fer út, sem er svosem í lagi þar sem hjólið gæti verið bilað og hann ekki nennt að leiða það. Þá stígur kappinn á bak og hjólar í burtu. Þegar ég svo fer úr hjá Verslunarskólanum (sem er við hliðinni á Háskóla Reykjavíkur) kemur kappinn hjólandi og fer inn í Versló.

Annað dæmi um furðulega Reykvíkinga; Ég sat í mötuneyti háskólans í gær og lærði fyrir próf (sem ég fór í í morgun og gekk ágætlega) þar sem mötuneytið sjálft var lokað gafst nægilegt næði til að læra í frið og ró. Þangað til þessir álfar komu; þrír ægilegir töffarar með flatböku sín á milli. Þeir töluðu hátt og snjallt og þegar ég var við það að biðja þá um að hafa lægra (hefði sennilega aldrei gert það) sagði einhver þeirra vonlausa reynslusögu af sjálfum sér þar sem hann ýtti við dómara í æfingafótboltaleik fyrr um sumarið. Við þetta hlógu allir digurbarkalega, hrósuðu hetjunni og síðast en ekki síst gáfu honum "hæ fæv" án þess að vera að grínast. Við þetta athæfi hrökk ég aftur, ekki trúandi því sem ég sá og heyrði.

Svona er lífið í Reykjavík.

sunnudagur, 12. október 2003

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að horfa á Matrix Reloaded í gærnótt og í morgun. Ég gerði nokkrar athugasemdir við hana og hér eru þær:

1. Bræðurnir sem leikstýra myndinni hafa eitthvað misst sig í heimspekilegum pælingum við gerð handritsins og myndin fær að gjalda fyrir það.
2. Myndin er sú stærsta sem gerð hefur verið, nokkurntíman.
3. Tæknibrellurnar eru ótrúlegar og vinnan á bakvið þetta alltsaman skuggalega mikil.
4. Bardagaatriðin er svakaleg.
5. 10 mínútna dansatriðið er algjörlega óþarft.
6. Monica Bellucci er gyðja.
7. Tvíburarnir eru svölustu vondu kallar sem ég hef séð síðan John Doe úr Seven.

Kvöldið með Matrix Reloaded var skemmtileg lífsreynsla og gef ég myndinni þrjár og hálfa stjörnu. Hlakka mjög til að sjá framhaldið; Matrix Revolutions sem frumsýnd verður um allan heim 5. nóvember næstkomandi.

laugardagur, 11. október 2003

Dagurinn hjá mér er fullbókaður í dag. Þessa stundina og frá klukkan 10 í morgun hef ég verið að læra með Bylgju í HR og hyggjumst við læra til ca 3 þegar landsleikurinn gegn Þýskalandi hefst. Strax eftir að Ísland hefur beðið afhroð fer ég í körfubolta á Álftarnes til klukkan ca 8. Þá tekur við að horfa á Matrix Reloaded en ég keypti hana í gær eins og ég gaf í skyn hér fyrir neðan. Á morgun mun ég svo eyða deginum í að læra fyrir próf. Þar sem ég gef mér tíma til að horfa á landsleikinn í dag og fara í körfubolta er þetta orðin ein mesta fríhelgi síðan ég man eftir mér (ég man eftir mér ca síðustu þrjár vikur).
Það hlaut að koma að þessu. Ég er loksins ástfanginn. Ég veit reyndar ekki hvað sú lukkulega heitir en hún leikur í myndbandi hjá rappara sem gengur undir nafninu 50 cents eða 37,705 krónur (samkvæmt genginu í dag, 11.10.03). Stúlkan umtalaða tjúttar berbrjósta við undurblíðan söng Snoop Dogg og glottið á 37,705 krónum. Engar myndir eru að finna af henni á netinu þannig að þið þurfið bara að horfa á popp-tíví á nóttunni, allar nætur, alltaf... eins og ég. Lagið heitir PIMP eða Melludólgur eins og það yfirfærist á hina gullfallegu íslensku tungu.

föstudagur, 10. október 2003Matrix Reloaded


Í dag kom út á DVD og VHS stórmyndin Matrix Reloaded. Ég hef ekki enn séð hana þar sem ég missti af henni í bíói sökum þrjósku, en það er saga út af fyrir sig. Ég mun þó ekki láta þetta tækifæri úr greypum mínum ganga og hyggst leigja mér hana seinna í dag eða jafnvel kaupa. Þetta tilboð er til dæmis mjög girnilegt.

Þetta innslag var í boð BT og Eimskipa.
Það er ómetanlegt að hafa þessa síðu hérna til að koma sér í gegnum mestu heimþránna. Ég hef, gróflega áætlað, kíkt á hana um 50 sinnum síðan ég fann hana, fyrir 3 dögum síðan.
Eftirfarandi frétt er byggð á sönnum atburðum:

Sá fáheyrði atburður átti sér stað í morgun að kvenkyns nemandi settist við hlið mér í fyrirlestrunum sem fram fóru í sal 103. Þetta hefur ekki gerst síðan ég var í fjórða bekk grunnskólans en þá settist við hlið mér stúlka af einskærri neyð þar sem öll sætin voru upptekin. Það hefur svo ekki gerst síðan. Viðbrögð mín voru blendin. Annars vegar var þetta skemmtileg lífsreynsla því stelpan var fögur ásýndum og lyktaði vel, hinsvegar er ég hvorgt; fagur ásýndar eða vel lyktandi auk þess sem ég þurfti að sleppa því að leysa vind og segja sitthvað heimskulegt sem oft fær að fjúka þegar strákar eru nálægt. Undir lokin varð spennan of mikil, ég brast í grát og hljóp út.

fimmtudagur, 9. október 2003

Dagurinn í dag, 9. október 2003, er merkilegur fyrir margar sakir. Til að byrja með þá fæddist sonur hans John Lennon þennan dag 1975 ef ég man rétt. Sama dag fæddist bróðir minn, Styrmir Freyr, og óska ég honum til hamingju með daginn og ríflega það.

Í dag á einnig skeggsöfnun Bergvins Blúsara eins árs afmæli en þennan dag mældist skegg hans nægilega langt til að kallast því nafni. Hann rakaði það svo burt stuttu seinna, án þess að gefa útskýringu og hefur ekki lagt í aðra söfnun síðan.

Hér eru nokkrar myndir frá skegginu þegar það var upp á sitt besta:
Skeggið frá skemmtilegu sjónarhorni
Skeggið fór vel með vínrauðum trefli
Skeggið með Angelinu Jolie
Skeggið að hössla.

Skeggið skildi eftir sig einn Bergvin, eina skegggreiðu og 12 reiða aðdáendur.
Þegar skóladeginum lauk í gærnótt, við vorum búnir að ljúka við verkefnið "á hálum ís" og ég hættur að hugsa um að bursta á mér tennurnar þegar við komum heim fór ég að hugsa meira um síðastliðinn sólarhring. Ég hafði mætt klukkan átta í skólann og verið til þrjú um nóttina sem gerir samtals 19 klukkutímaskóladag. Ekki slæmur árangur það miðað við litla leiðindapjakkinn frá Trékyllisvík.
Klukkan er 2:30 aðfaranótt 9. október 2003 og ég var að ljúka við 12 blaðsíðna verkefni fyrir rekstrarhagfræði, sem heitir í höfuðið á aðferðafræðiverkefninu mínu; "Á hálum ís".
Ég er að hugsa um að leggja mig hérna á kennsluborðinu, hlýt að vakna fyrir kennslustund sem byrjar stundvíslega klukkan 8.

miðvikudagur, 8. október 2003

Rétt í þessu var ég að ljúka við setningu sem ég var án efa að segja í fyrsta skipti um ævina. Ég er að vinna verkefni í háskólanum með Óla og vildi hlusta á tónlist. Nýlega hafði ég heyrt diskinn "Sól að morgni" með Bubba og líkaði mjög vel við þrjú laganna. Ég sagði því í fyrsta sinn á ævinni eftirfarandi setningu, eftir að hafa sagt "á hvaða disk ætti ég að hlusta?" og takið nú vel eftir:

„Kannski ég hlusti bara á Bubbadiskinn“
Um helgina upplifði ég eina mestu tilviljun allra tíma. Við Óli pöntuðum okkur pizzu í skólanum á sunnudaginn og tefldum eina skák áður en við sóttum hana (spöruðum okkur þarmeð rúmlega helming í verði). Skákinni lauk með sigri annars okkar og skildum við taflið eftir í þeirri stöðu. Þegar við komum aftur, rúmlega 10 mínútum síðar, með sjóðandi flatbökuna, tókum við eftir því að nákvæmlega sama staða var uppi á borðinu. Þar sem skák er mjög eftirsótt iðja á meðal háskólanema segir það sig sjálft að fólk hefur hlaupið að um leið og losnaði borð og horfið frá borðinu rétt áður en við komum, eftir að hafa teflt skák sem endaði nákvæmlega eins og okkar. Ekki nóg með það heldur höfðu sömu aðlilar skilið stólana eftir í nákvæmlega sömu stöðu og við og ekki hreyft við umbúðaruslinu sem við hentum á skákborðið áður en við fórum að ná í flatbökuna.

Óhugnarlegt svo ekki sé meira sagt!
Þá hefur Jón Arnór Stefánsson spilað sinn fyrsta æfingarleik með Dallas Mavericks í NBA deildinni. Leikurinn var gegn Orlando Magic og sigraði Dallas. Jón stóð sig með stakri ópríði en hann skoraði 2 stig (úr einu af sjö skotum), með 2 fráköst og 3 villur á 18 mínútum. Ég vona að þetta hafi bara verið taugarnar. Hér getið þið skoðað tölfræðina úr leiknum.

Betra að taka það fram að aðdáun mín á Dallas Mavericks er engin heldur aðhyllist ég Utah Jazz ennþá og þangað til dauðinn aðskilur okkur.

Utah Jazz unnu annars Dallas í gær frekar öruggt þar sem Jón spilaði ekkert. Hér er tölfræðin úr þeim leik.
Ef ég gleymi gleraugunum einu sinni enn eftir að ég fer í skólann þá læt ég græða þau í andlitið á mér. Ekki bætir úr skák að dæmatímakennararnir skrifa allir mjög smátt og auðvitað sest ég aftast eins og fífl.

þriðjudagur, 7. október 2003

Undur og stórmerki! Stórmerkið er að undirheimar.net eru opnir í dag en þeir hafa verið opnir að meðaltali einn dag í viku síðasta mánuðinn. Undrið er hinsvegar það að í fyrsta sinn frá því að undirheimar.net opnuðu birtist mynd af mér þar. Hér getið þið séð mig ásamt Jón bónda. Við erum með svo svipuð eyru á myndinni að mér finnst rétt að benda á að ég er þessi til hægri og Jón er þessi til vinstri auðvitað.
Ég var tiltölulega edrú á þessu balli, takandi myndir sjálfur og minnist þess ekki að hafa látið taka mynd af mér. Kannski stóðum við bara svona og vissum ekki af því að það væri verið að taka mynd.
Á sunnudaginn þegar ég var að læra sem allra mest tók ég mér 3ja mínútna pásu til þess að þvo mér um hendurnar og snyrta mig því í sama lærdómsherbergi var gyðja sem ég nafngreini ekki að þessu sinni (fattar nokkur að ég veit ekkert hvað hún heitir?). Allavega, þarna á salerninu týndi ég hár af ullarpeysunni og bleiku íþróttabuxunum mínum, til að gera mig ekki að fífli og tók þá eftir að á hálsi mínum, neðanverðum (verð að tala um ofanverðan og neðanverðan vegna þess hversu langur hann er) stóðu tvö ca 2ja sentímetra löng hár. Ég hafði þá síðustu ca tvær til þrjár vikur safnað þessu myndarlega skeggi án þess að vita af því. Ég ákvað að gera bara gott úr þessu, greiddi bæði hárin upp og spókaði mig fagurlimaður fyrir framan nafnlausu gyðjuna sem fljótlega yfirgaf samkvæmið.
Í gærkvöldi lærði ég til miðnættis fyrir stærðfræðipróf sem ég var svo að koma úr núna. Árangurinn var viðunandi og jafnvel góður. Sætti mig við að fá 7 og verð himinlifandi ef ég fæ 8 eða meira.

Í dag hyggst ég svo vinna skilaverkefni fyrir rekstrarhagfræði og á morgun ætla ég að finna grein fyrir markaðsfræði en í því held ég fyrirlestur eftir 3 vikur. Á mánudaginn er svo próf í bókfærslu og....

...svona gæti ég haldið áfram þar til það blæðir úr fingrunum á mér en ætla þess í stað að kíkja í pósthús og valda ursla eða tveimur.

mánudagur, 6. október 2003

Áttaði mig á því í hádeginu, á meðan ég borðaði sigurmáltíð í tilefni dagsins (búrrító með hrísgrjónum) í mötuneyti HR, að afrekalisti ævi minnar hefur lengst um helming við árangur minn í aðferðafræðinni, sem ég tala um hér að neðan. Núna lítur hann svona út:

Afrekalisti Finns, ævina 1978-????
1987: Varð í þriðja sæti í 100 metra bringusundi á fámennu móti í Bjarnarfirði, nálægt Trékyllisvík.
2003: Fékk 9 í einkunn fyrir aðferðafræðiritgerð um ritstuld í HR.

Núna er spurning hvenær næsta afrek gerist og hvað það verður.

Ég ákvað að lesa þessa umtöluðu ritgerð mína yfir rétt í þessu. Það fyrsta sem ég sá var að ég skýrði ritgerðina "Á hálum ís" í einhverjum ofsafengnum galsa. Hún, Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur, skutla og kennari, hefur líklega ekki áttað sig á djókinum og lesið eitthvað djúpt úr þessu.
Óþolandi montfífl dagsins titilinn fæ ég sjálfur fyrir eftirfarandi færslu:

Ég var að fá einkunn fyrir aðferðafræðiritgerð mína um ritstuld sem ég gerði fyrir ca tveimur vikum, yfir heila helgi. Til að gera langa sögu stutta fékk ég 9 í einkunn og var, að því er virðist, með þriðju til sextándu bestu ritgerðina en alls var skilað inn 112 ritgerðum. Ágætis einkunn miðað við að ég vissi lítið hvað ég var að gera mestmegnið af tímanum og vitnaði meira að segja í sjálfan mig á kafla.

Ég er gríðarlega stoltur af þessum árangri en samkvæmt biblíunni er ég þarmeð réttdræpur, að ég held amk.
Á laugardaginn spilaði ég körfubolta með merkum mönnum á Álftarnesi. Við vorum 10 og spiluðum í ca 2 tíma, sem var akkúrat passlegt fyrir mitt úthald. Allavega, það fyndna var að ég náði að verja fleiri skot en ég náði að skora úr og ég náði aðeins að skora 4 körfur alls sem er mjög lélegt, jafnvel miðað við mig en náði hinsvegar að verja 7 eða 8 skot. Býsna áhugaverð tölfræði það.

sunnudagur, 5. október 2003

Það lítur út fyrir að fólk sé ekki ánægt með þetta útlit á síðunni. Fleiri en helmingur vilja fá gamla útlitið aftur og í eldri könnuninni vildu meira að segja 2 að ég lokaði síðunni. Í þetta skiptið ætla ég að láta almenningsálitið sem vind um eyru þjóta og bæði halda útlitinu og halda áfram að skrá dagbók. Ef ykkur líkar það illa þá verðið þið bara að venjast þessu.
Mér finnst skrítið hvernig vinir geta skotið á mann fyrirvaralaust án þess að ég geri nokkurn skapaðan hlut af mér, held ég amk. Hlutir sem ég hef verið gagnrýndur fyrir síðustu vikuna eru meðal annars fataval mitt, pólitískar skoðanir, tölvunotkun, heimska (rangar skoðanir líklega), þessa síðu og jafnvel hefur fólk lagst svo lágt að gagnrýna á mér hárið án þess að ég hafi svo mikið sem yrt á fólkið og jafnvel hjálpað því við margvísleg vandamál. Ég minnist amk ekki þess að hafa gagnrýnt fólk á þennan hátt, þangað til núna kannski. Ég býst við að ég bjóði upp á þetta en einnig verður að taka í reikninginn skítlegt eðli fólks og hversu illa því hlýtur að líða. Við þessu er aðeins hægt að gera tvennt og það er að umgangast enn færra fólk eða segja eitthvað til baka en það finnst mér ólíklegur kostur.

laugardagur, 4. október 2003

Hef eiginlega ekki tíma til að skrá neitt en ég ætla að reyna.

Vaknaði í morgun eldsnemma við að verkamennirnir sem vinna við húsið byrjuðu að berja á vegginn hjá mér. Eftir að hafa barið á hann í rúmlega 2 tíma fór ég á fætur og í skólann að læra. Þaðan fór ég á smárúnt með Óla niður Laugarveginn og núna erum við á leið í körfubolta. Hann verður búinn um kl 8 í kvöld en þá tekur við lærdómur í skólanum.

Um miðnætti mun ég líklega snúa svo heim aftur og fara snemma að sofa til að geta lært meira á morgun.

föstudagur, 3. október 2003

Ég uppgötvaði í dag handhægt heimilisráð sem getur komið öllum að góðum notum.

Til þess að sjá ofan á hausinn á þér og um leið sjá sjálfan þig horfa í aðra átt en beint í augun á þér, horfðu ofan á kranann á klósetinu á meðan þú stendur beint yfir honum (og þværð þér um hendurnar t.d.). Ef uppstillingin er eðlileg á speglinum og krananum (hann verður að glansa) muntu horfa beint ofan á sjálfan þig horfandi niður. Æðisleg upplifun.
Viðbrögð fólks við nýja útlitinu eru mismunandi og augljóst að fólk hefur mjög skiptar skoðanir á fjólubláa litnum. Margir hafa skotið svo fast á ritnefnd veftímaritsins að í burðarliðnum er að breyta ennfrekar um útlit. Nú spyr ég ykkur: var bláa útlitið betra en það fjólubláa?

Ef viðbrögð ykkar eru blendin þá megið þið velja fleiri en einn möguleika.

Smellið hér til að taka þátt.

Afsakið annars óákveðni mína í útlitsmálum. Ég er að leitast eftir útliti sem allir geta verið sáttir við.
Eins árs afmæli!


Í dag, 3. október, á veftímarit þetta eins árs afmæli. Af því tilefni hef ég breytt útlinu á síðunni. Nú hefur hún, eins og þið sem þekkið litina í sundir sjáið, fjólubláan blæ í stað þess bláa sem áður réði hér ríkjum. Til hamingju með afmælið ritnefnd!

Það má því segja að ég hafi varið næstum því fjórum prósentum af ævi minni í að vera með bloggsíðu eins og það kallast. Að hugsa með sér. Þegar ég byrjaði með þetta að ég hélt að ég myndi hætta þessari vitleysu fljótlega, eins og sjá má hér. Ekki óraði mig fyrir því að auglýsingatekjurnar af síðunni myndu halda mér gangandi ári síðar.

Ekki nóg með að ég setji blöðrur efst og óski sjálfum mér til hamingju með daginn heldur ætla ég að bjóða lesendum hérmeð upp á fyrsta og annað finnur.tk tölvuveggfóðrið (wallpaper). Fyrra veggfóðrið er fyrir þá sem eru svartsýnir að eðlisfari og líta heiminn dökkum augum og það síðara er fyrir þá bjartsýni sem sjá alltaf það góða í öllu. Hægri smellið á aðra myndina (eftir að þið opnið hana auðvitað) og veljið "set at background" og voilá, þið hafið mig í andlitinu á ykkur allan daginn.

Framtíðin er björt, rétt eins og fortíðin.

fimmtudagur, 2. október 2003

Guðmundur Þorkell heitir piltungur einn sem vel er máli farinn og sérlega hnyttinn í daglegu málfari. Hann er með dagbókarsíðu eins og þessa, nema hans er flottari og skemmtilegri. Hér getið þið séð síðuna hans. Henni hefur einnig verið bætt við í hlekkina hérna til hægri.

Ég náði þeim merka áfanga að hringja í símanúmerið "*" (stjarna) sjö sinnum í röð á ca tólf sekúndum á gsm símanum mínum í morgun. Þannig er mál með vexti að til að læsa símanum þarf að ýta á MENU og síðan "*" niðri í hægra horninu. Ég hinsvegar ýtti á "*" og svo á MENU sem olli því að ég hringdi í staðinn og ekki einu sinni heldur eins og áður segir, sjö sinnum í röð. Undir lokin áttaði ég mig á því að ég var of þreyttur til að læsa honum og gafst því upp.

Smá ævintýri í morgunsárið.
Það hefur verið staðfest af internetmiðlinum mbl.is: ég er hættur að horfa á Malcom in the middle. Þátturinn var hátt skrifaður hjá mér á vinsældalistanum en er horfinn þaðan núna.

miðvikudagur, 1. október 2003

Í gærnótt, um klukkan 1:30, áður en ég fór að sofa náði ég að bæta metið mitt í vatnsþambi. Áður fyrr þambanði ég lítra af vatni á tveimur tímum en í þetta skiptið náði ég því á 5 mínútum. Strax á eftir tannburstaði ég mig og stökk í rúmið án þess að hafa hugmynd um hvað ætti eftir að gerast um nóttina. Um klukkan 4 vaknaði ég við að ég gat mig hvergi hreyft þar sem ég hafði einhvernveginn náð að taka undirstoðir úr tréi (ca 5 kg hver) og leggja á bringuna á mér fyrr um nóttina. Ekki nóg með að gjörningur þessi sé algjörlega út í hött og gerður óvitandi þá voru þær undir stafla af fötum sem hafði greinilega verið raðað snyrtilega aftur á flötinn.
Allavega, þegar ég fjarlægi þetta svo af bringunni finn ég að þörfin til að kasta af mér vatni er svo yfirþyrmandi að ég get ekki framkvæmt neinar snöggar hreyfingar. Ég var því ca 5 mínútur á leið á klósettið en þegar þangað kom var sælutilfinningin algjör.

Mæli með að drekka lítra af vatni rétt áður en þið farið að sofa.
Glen Rice til Utah Jazz

Fyrrverandi stórstyrninu Glen Rice (borið fram glenn ræs) var skipt til Utah Jazz, frá Houston Rockets í gær fyrir John Amaechi (borið fram "pís off sjitt plei-er") auk tveggja annarar umferðar valrétti 2004 og 2005. Ekki nóg með að Utah hafi fengið sæmilegasta ellismell í liðið sem getur skotið þriggja stiga (eitthvað sem Utah þarf verulega) þá heldur losuðu þeir sig við mesta rusl leikmann allra tíma, auk þess sem hann gleypti í sig peninginn á brjáluðum launu og Utah fékk ekki einn heldur tvo fyrstu umferðar valrétti næsta ár!

Svo sannarlega skipti ársins.

Þessi færsla er markaðssett fyrir Utah Jazz aðdáendur, en 2 Jazzarar lesa þessa síðu að staðaldri. Annar þeirra er ég.