laugardagur, 29. september 2007

Frá árinu 2003 hef ég búið á 5 stöðum í Reykjavík. Ekki af því ég borga aldrei leiguna, þó það sé vissulega vandamál, heldur vegna þess að ég hef verið í námi og öðru rugli.

Ég prófaði, mér til skemmtunar á föstudagskvöldi, að merkja við alla staðina sem ég hef búið á. Niðurstaðan er þessi:

(Smellið á myndina fyrir stærra eintak)

1. Tunguvegur 18, 108 Reykjavík. Bjó þarna í 9 mánuði (veturinn 2003-2004). Leigði með 4 strákum sem sváfu á staðnum og ca 75 manns sem mættu bara í partíin. Við vorum því um 80 manns þarna. Skemmtilegur tími, þó ég hafi ekki drukkið áfengisdropa allan veturinn.
2. Skipholt - Stúdentagarðar, 105 Reykjavík. Bjó einn á tveimur herbergjum tvo vetur (2004-2006). Ódýrt og þægilegt. Kláraði námið meðan ég bjó þarna.
3. Kristnibraut, 113 Reykjavík. Bjó þar í 1 ár (2006-2007) með spúsu. Fín íbúð og ódýr. Vann hjá 365.
4. Brekkulækur, 105 Reykjavík. Fékk að búa hjá pabba núna í sumar í 3 vikur á meðan ég beið eftir íbúð í Hafnarfirði. Mjög fínt að búa hjá honum.
5. Laufvangur, 220 Hafnarfirði. Bý nú með vini mínum í stærðarinnar íbúð í Hafnarfirðinum. Mjög góð íbúð á góðum stað. Veturinn byrjar vel.

Allavega, svo fór ég að velta fyrir mér; er undirmeðvitundin eitthvað að reyna að segja mér með þessum staðsetningum á búsetu?

Ég dró línu milli allra þeirra staða sem ég hef búið og viti menn, ég fékk uggvekjandi niðurstöðu. Ég sá hvað undirmeðvitundin vildi að ég safnaði! Óhugnarlegt hvernig undirmeðvitundin nær að tala til manns!

Smellið hér til að sjá hvað mér er ætlað í þessu lífi.

föstudagur, 28. september 2007

Ég vil ekki monta mig en ég á þvottavél núna. En þó ég eigi þvottavél, þýðir ekki að ég verði haldandi þvottavélapartí alla daga og öll kvöld. Maður þarf að vera skynsamlegur með þvottavélina. Ég spái því að heimsóknum til mín muni fjölga núna, þegar ég á glæsilega þvottavél. Fólk er svo grunnhyggið.

Vel á minnst; þetta er mín fyrsta þvottavél. Ég á sennilega margt eftir ólært í þvottavélabransanum en mér finnst þessi samt sú besta sem ég hef notað.

fimmtudagur, 27. september 2007


Eftir að hafa keypt flóknasta ósamsetta skrifborð á landinu og beðið í 3 daga með að setja það saman, bretti ég upp ermar og réðst í þetta krefjandi verkefni.

Það kom mér á óvart hvað þetta var einfalt og auðvelt. Næstum því aldrei reyndi ég að fleygja skrifborðinu út um gluggann sökum pirrings og eiginlega ekki alltaf varð ég ekki vondur í mjóbakinu við að burðast með þetta fram og aftur. Svo hraustur er ég, held ég.

Allavega, það munar ekki miklu að þessir 12 tímar hafi verið skemmtilegir.
Í morgun þegar ég mætti til vinnu höfðu mér borist hvorki fleiri né færri en 15 tölvupóstar, þar af 4 vinnutengdir. 11 persónulegir póstar á einum sólarhringi er sennilega Evrópumet í vinsældum.

Nú fer ég í það erfiða og tímafreka ferli að svara bréfum, panta viagra og gefa upp bankanúmer/kreditkortanúmer. Svo mikill tími fer í þetta að ég efast um að mér gefist tími til að svara vinnutengdu bréfunum, sem fjalla öll um að ég eyði of miklum vinnutíma í að lesa og skrifa bréf.

miðvikudagur, 26. september 2007

Það er ekki oft sem ég bið um aðstoð. Ég bað til dæmis ekki um aðstoð þegar það kviknaði í hárinu á mér eða í eitthvert þeirra milljóna skipta sem bíllinn minn hefur bilað. En nú ætla ég að brjóta odd af oflæti mínu og grátbiðja.

Í ágústmánuði voru ritaðar 88 athugasemdir á þessa síðu. Ritnefndin setti sér það markmið að ná 10% aukningu í athugasemdum í september, eða um 96,8 = 97 athugasemdum. Þegar þetta er ritað hafa verið skráðar 76 athugasemdir það sem af er september.

Það vantar því enn 21 athugasemd ef markmiðið á að nást og aðeins rúmlega 4 dagar til stefnu. Það gera 5,25 athugasemdir á dag.

Nú skulum við öll hjálpast að við að ná þessu markmiði ritnefndarinnar! Ég er meira að segja til í að leggjast í forina með ykkur, sótsvörtum almúganum, og skrifa nokkrar athugasemdir sjálfur til að ná þessu. Það sem meira er; ég er til í að leggjast svo lágt að hafa innsláttarvillu í þessari fræslu fyrir ykkur að leiðrétta í athugasemdum. Ömurleg komment eru líka komment.

Núna tekur við löng setja við tölvuna þar sem ég sit og stari á tölvuskjáinn í von um atugasemdir. Skrifið!

þriðjudagur, 25. september 2007

Stórsnjöll auglýsing.
Þessi auglýsing blasti við mér í dag þegar ég las Blaðið (blaðsíðu 10, nánar tiltekið). Pmt virðist hafa tekist að koma einhverju örfínu í auglýsinguna sem á að valda því að fólk keppist við að lesa hana og jafnvel blogga um hana. Þetta sérstaka eitthvað, sem er í auglýsingunni, er svo fínlegt að það er alveg ómögulegt að greina hvað það er. Mig grunar að það sé letrið og smekkleg litasamsetning.

Ég tilnefni hana merkilegustu auglýsingu ársins.
Dóra nýfædd.

Fólk á sennilega eftir að halda að ég sé geðveikur að auglýsa eftir derhúfunni minni en hér kemur það samt:

Derhúfan mín er týnd (sjá mynd). Hún hlýðir nafninu Dóra Derhúfa. Ég sá hana síðast þegar hún strunsaði út og skellti á eftir sér í Hafnarfirði eftir býsna harkalegt rifrildi um flösu. Ef einhver hefur séð hana, látið mig vita í síma 867 0533, eða segið henni bara að koma heim.

mánudagur, 24. september 2007

Á laugardaginn spilaði Meistaraflokkur körfuknattleiksdeildar ungmennafélags Álftaness æfingaleik gegn Glóa. Úrslitin voru vafasöm; tap með ca 2-6 stiga mun (illa staðið að stigatalningu). En ég á erfitt með að segja ekki frá árangri mínum, öskrandi úr hlátri:


Þetta er án nokkurs vafa minn besti árangur hingað til. Ég ætla að njóta hans og það skuluð þið líka gera!


Ég hef fjárfest í nýju rúmi. Það kostaði jafnvirði lífi mínu.

Rúmið er af stærðinni Queen og ber heitið Thórarinn Tempor, kallaður Tralli. Dýnan er þannig að eftir stutta legu hefur hún nánast faðmað viðkomandi liggjara.

Ég sef semsagt núna hjá Tralla sem er talsvert stór og ástleitinn. Ég hlakka til að sjá DV fyrirsagnirnar.

laugardagur, 22. september 2007

Í gær var bakkað á mig í annað skipti á undir tveimur vikum. Ég var að bíða á ljósum, sallarólegur, öskrandi með einhverju lagi þegar sendiferðabíllinn fyrir framan mig tók upp á því snjallræði að bakka bílnum af engri ástæðu.

Ég hef aldrei verið góður í að gera tvennt í einu, sérstaklega ekki undir pressu. Ég reyndi að finna bakkgírinn og flautuna samtímis. Fann bara útvarpið. Það gerði ekkert gagn og sendibíllinn bakkaði á mig.

Sem betur fer var hann með dráttarkrók sem stoppaði á númerplötunni og bíllinn beyglaðist ekkert. Ég bognaði samt talsvert andlega.

föstudagur, 21. september 2007

Það er ekki á hverjum degi sem maður getur klætt sig úr öllum fötunum, makað á sig tómatsósu og smá appelsínusafa og hlaupið um götur borgarinnar öskrandi í geðshræringu yfir því að þekkja einhvern á forsíðu mbl.is, en í dag er það hægt. Amk fyrir mig.

Ég þekki nefnilega Eirík Stefán, löggumann (sem ranglega er talinn vera amfetamín í textanum undir myndinni) á þriðju myndinni í þessari frétt, sem einmitt var á forsíðu mbl.is fyrr í dag.
Fyrir ykkur sem ætlið að skemmta ykkur um helgina með dansitöktum; hér að neðan er upphitunarlag fyrir ykkur. Myndbandið gæti líka kennt ykkur einhverja takta til að slá í gegn.

Þið sem ætlið að horfa á spaugstofuna og/eða spila Counter strike: Látið lagið vera!

Lagið heitir Beggin og er með Rickie Valli (remix). Og það er djöfulsins snilld.




Hér er lengri útgáfan.

fimmtudagur, 20. september 2007

Ótrúlega spennandi saga: Ég týndi mjög mikilvægum minnismiða sem ég hafði fyrir framan mig við skrifborðið í vinnunni í dag. Ca hálftíma síðar fann ég hann undir mér. Ég hafði tekið minnismiðann og sett undir rassinn á mér í stólnum, án þess að standa upp og án þess að hafa ástæðu fyrir því.

Stórmerkileg hegðun. Svo merkileg að ég er farinn að hallast að því ég hafi fengið heilablóðfall fyrr í dag. Það, að ég skrifa um þetta nauðaómerkilega atvik, ýtir undir þær grunsemdir mínar.
Partíið sem ég ætlaði að halda um helgina fellur niður af óviðráðanlegum orsökum.

miðvikudagur, 19. september 2007

Stórfréttir!

Á síðustu körfuboltaæfingu var ég skipaður Forstöðumaður Samskiptasviðs Meistaraflokks Körfuknattleiksdeildar Álftaness (FSMKÁ) af Forseta og þjálfara Meistaraflokks Körfuknattleiksdeildar Álftaness (FÞMKÁ), Ragga.

Mitt fyrsta verk var að senda póst og sms á meðlimalista liðsins, minnandi þá á æfingu í kvöld.

Það er reyndar mitt eina starf undir þessum titli, fyrir utan að finna upp titilinn yfir þetta starf.
Ég er að upplifa eitthvað alveg nýtt þessa dagana. Ég er í buxum sem eru þröngar. Einkennilegt.

Ég hef ekki hugmynd hvað veldur þessu. Kannski er það eitthvað sem ég borðaði. Það er þó ómögulegt að vita hvað það gæti verið, þar sem ég hef borðað svo mikið undanfarið. Buxurnar (og restin af heiminum) hljóta bara að hafa minnkað í þvotti.

þriðjudagur, 18. september 2007

Ég lagði af stað í vinnuna klukkan 7:50 úr Hafnarfirðinum, þar sem ég nú bý. Samkvæmt útreikningum mínum eru 9 km í vinnuna. Excel segir mér þá að ég eigi að vera 9 mínútur á leið í vinnuna, aki ég á 60 km meðalhraða (ljósin hægja á mér). Ég gef mér svo eina mínútu í að ganga úr bílnum á skrifstofuna. Þannig að ég á að vera mættur á slaginu klukkan 8:00.

Áætlunin breyttist lítillega þegar kom í ljós að það var biðröð frá ca miðbæ Reykjavíkur upp í Hafnarfjörð (og sennilega langleiðina til Keflavíkur ef ekki lengra) þegar ég lagði af stað. Ég ók þessa 9 kílómetra á 27 mínútum, sem gera 20 km hraða á klukkustund. Hræðilegt!

Þetta gæti svo sem verið verra. Trukkur gæti misst stjórn á sér og kramið mig í bílnum mínum hægt og rólega rétt eftir að hann rekur sig í útvarpið og skiptir yfir á Léttbylgjuna þar sem Celiné Dion myndi syngja lög eftir Shania Twain. Og þó.

Héðan í frá fer ég að sofa rétt eftir hádegi, svo ég vakni nógu snemma til að sleppa við þessa umferð.
Eftirfarandi lag er með þeim betri sem ég hef heyrt síðustu vikuna.

Til að spila lagið, þrýstið þéttingsfastfast á þríhyrninginn sem táknar spilun (e.: play). Athugið að lagið tekur ef til vill smá stund að hlaðast, áður en spilun hefst.

Lagið heitir Well thought out twinkles og er með Silversun Pickups. Textinn við lagið er jafn óskiljanlegur og nafnið á laginu og hljómsveitinni.



mánudagur, 17. september 2007

Í kvöld spilaði körfuboltalið mitt æfingaleik við Laugvetninga á Álftanesi. Leikurinn var ójafn til að byrja með en varð svo ójafnari, þar til honum lauk. Þá var hann ójafnastur. Við töpuðum og sáum að það mátti bæta ýmislegt. Mig minnir að leikurinn hafi farið ca 50-30 (klukkan aldrei stoppuð í 4x10 mínútna leik). Annars var ég svo fullur að ég man varla neitt.

En þá að því sem skiptir mestu máli; gengi mínu í leiknum:

Það var slæmt. Eiginlega verra en það. Ég skoraði lítið og hitti illa. Ég frákastaði þó nokkuð vel og blokkaði 4 skot. Ég missti boltann, á að giska, 750 sinnum.

Ég kýs þó að líta á björtu hliðarnar; gömul fótameiðsl hafa tekið sig upp aftur hjá mér sem gerir mér erfitt fyrir. Það er bjarta hliðin á kvöldinu, svo slæm var frammistaðan.
Í dag ætla ég að gera eitthvað sem aldrei hefur verið reynt áður, samkvæmt Hagstofu Íslands, af karlmanni. Ég ætla að fara í IKEA þriðja daginn í röð!

Ástæðan er bland af valkvíða og minnisleysi, en ég get ýmist ómögulega valið mér eina gerð af húsgagni eða man ekki hvað ég ætlaði að kaupa. Einnig er ástæðan almenn ævintýramennskja og áhættufíkn.

Ef ég blogga aldrei aftur þá hef ég ekki komist í gegn og bý í netlausri gerviíbúð í IKEA.

sunnudagur, 16. september 2007

Áður en lengra er haldið í þessari færslu, smellið hér og skoðið myndina, sem opnast í nýjum glugga, vel.

Þegar því er lokið, lesið eftirfarandi helst upphátt, að næstu greinarskilum:

„Þessi færsla er sú besta sem ég hef lesið. Hún er allt í senn; fyndin, skemmtileg, fræðandi og áhugaverð. Hún lætur mér líða vel. Ég ætla að skrifa athugasemd við hana, segjandi að hún sé allt þetta og meira. Einnig ætla ég að skrifa eitthvað aukalega.“

Lokið svo glugganum sem opnaðist og haldið áfram með líf ykkar.

laugardagur, 15. september 2007

Ég er orðinn svo gamall að ég sagði eftirfarandi setningu í dag:

„Mikið ótrúlega keypti ég mér flott hnífaparasett í dag í IKEA. Ég er mjög sáttur!“

Einnig fór ég í fýlu þegar ég komst að því að það var ekki til dökkblátt sturtuhengi í IKEA, sem hefði passað fullkomlega við dökkbláa þemað á salerninu. Ég fann þó dökkbláa göngugrind sem passar við öll mín föt.
Í fyrradag bakkaði ungur maður á mig. Sem betur fer vorum við báðir í bílnum þegar þetta gerðist, ég að horfa á hann bakka á mig, leitandi að flautunni. Ég fann hana rétt eftir að hann var lentur í hliðinni, sem hjálpaði lítið. Hér má sjá skemmdirnar:

Ég kýs að líta á björtu hliðarnar; ég mun fá bílaleigubíl án endurgjalds á meðan Lalli ljón fer til læknis. Sem þýðir að ég get sleppt því að hafa áhyggjur af því að bíllinn springi í loft upp í nokkra daga.

Allavega, þetta er ekki allt.

Í morgun sá ég að einhvernveginn hafði MP3 spilarinn minn brotnað, sem er gott. Ég kaskótryggði hann á sínum tíma, sem þýðir að ég fæ nýjan spilara innan skamms.

Þetta er ekki heldur allt.

Í dag hafa líkamlegu meiðsl mín vegna árekstursins komið í ljós þar sem ég er kominn með kvef í fyrsta sinn í langan tíma. Ónæmiskerfið hefur þannig fallið niður við slysið. Í myndbandinu að neðan má sjá ástand mitt:



Aumingja ég. Karlmannskvef er ekkert til að grínast með.

föstudagur, 14. september 2007

Ég hef fundið hina fullkomnu aðferð til að spara peninga. Einfalt: fara eldsnemma að sofa. Helst um leið og komið er úr vinnu og sofa til morguns. Þannig bæði sparar maður orku*, svo maður þarf síður að borða, og eyðir engum peningi*.

* Á ekki við um svefngengla.

fimmtudagur, 13. september 2007

Gylfi og Björgvin, þeir kunn' að lif' og leika.
Eins og sést á myndinni að ofan eru flutningar mínir í Hafnarfjörðinn afstaðnir. Reyndar sést ýmislegt annað á myndinni en að flutningar séu afstaðnir. Eitt atriði af eftirfarandi á við hana:

* Á henni eru aðstoðarmenn mínir í flutningunum; Gylfi og Björgvin að þykjast ekki hafa verið nýbúnir að kyssast. Vandræðalegt.

* Björgvin kvartaði yfir því að þurfa að halda á ísskápnum einn í íbúðina, þannig að Gylfi tók Björgvin og ísskápinn, eins og sést á myndinni. Á myndina vantar ísskápinn.

* Ég bað Gylfa um að taka lítið borð í íbúðina en honum fannst ég segja "taka Björgvin í íbúðina" og því fór sem fór.

Ef þið eruð með eitthvað að segja um þessa mynd; tjáið ykkur í athugasemdum.

miðvikudagur, 12. september 2007

Í dag stendur ritnefnd í flutningum í annað sinn á 3 vikum. Að þessu sinni flytur hún (ritnefndin) í Hafnarfjörðinn. Það er því enginn við bloggskrifstörf í dag. Á morgun kemur betri tíð með blogg í haga.

þriðjudagur, 11. september 2007

Nýlega sagði nýjasta fórnarlamb mitt mér að fá mér líf. Ég tók vísbendingunni og byrjaði leitina. Í síðustu viku fann ég svo líf, niðurhól því ætlaði að horfa á í kvöld en þá var það bara gamall ástralskur vestri.

Leitin heldur áfram en þetta bölvaða internet virðist ekkert finna, í fyrsta sinn. Ég hætti ekki leitinni á internetinu fyrr en líf finnst! Og þá ætla ég að fá mér það.
Ætli það sé hægt að fara í meðferð vegna kókfíknar? Ef svo er, þarf ég nauðsynlega á því að halda.

Ég hef ekki hugsað um annað en kók síðan klukkan 10 í morgun. Svo fékk ég mér kók og mér leið betur.

Núna get ég ekki hætt að hugsa um Coca Cola. Ætli það sé til meðferð við því líka?

mánudagur, 10. september 2007

Allur gærdagurinn fór í stórskemmtilega golfferð á Þorlákshöfn í góðum félagsskap. Ekkert meira um það að segja, nema ég tók ca 10,7 högg á hverja holu, ekki teljandi týnda bolta, vindhögg eða skot lengt lengst lengst út úr brautinni.

Bætti semsagt golfmetið mitt um rúmlega helming.
Í hádeginu í dag var vænn skammtur af vonbrigðum í matinn:

1. Ég skoðaði rétti dagsins í mötuneyti 365 og ályktaði, réttilega, að þeir hentuðu mér ekki.
2. Fékk mér samloku í staðinn og bað um kók.
3. Kókið var búið. Örvænting greip um sig. Fékk mér 7up í staðinn.
4. Bað um Risahraun og í ca 300. skipti í röð var það ekki til. Smávægilegt taugaáfall átti sér stað. Þegar ég hafði verið vakinn af viðstöddum bað ég um Lion í staðinn.
5. Settist við borð og ætlaði að horfa á beina útsendingu frá Ástralíu (nágrannar). Þeir voru búnir og í staðinn byrjaður einhver miðaldra konuþáttur. Hann var ágætur.

Stundum veit ég ekki af hverju ég er að mæta í vinnuna yfir höfuð.

sunnudagur, 9. september 2007

Ritað mál sökkar. Hér eru fleiri klippur úr hinum stórskemmtilegu þáttum Man Stroke Woman (Ísl.: Menn lúberja konur):

Hvað konur vilja:



Allt vitlaust á kaffihúsinu:

laugardagur, 8. september 2007

Á körfuboltaæfingu í dag gerðist eftirfarandi í fyrsta skipti:

* Lamið var í hausinn á mér, andlitið og báða handleggina í einu, þegar ég reyndi skot. Á meðan á þessu stóð náði ég að bæði öskra og gráta smá. Ekki slæmt. Ég hitti samt ekki úr skotinu.

* Sniðskot mitt var ekki varið í klessu af Óla Rúnari, eins og síðustu æfingu.

* Ég varði skot svo fast að bæði ég og fórnarlambið hrundum í jörðina eftir áreksturinn, slík var höggbylgjan.

* Ég grét í sturtunni, þar sem enginn sá til, af því ég hitti frekar illa.

föstudagur, 7. september 2007

Ég les oft um verstu eða heimskulegustu kaup einhverra náunga í Fréttablaðinu og það fékk mig til að hugsa tvennt:

a) Hver ætli séu mín verstu kaup?
b) Af hverju eyði ég tíma mínum í að lesa eitthvað sem mér finnst ekki gaman að lesa?

Hér eru svörin:

a) Hér er listi yfir topp 3 yfir mín verstu/heimskulegustu kaup:

1. Þegar ég var 13 ára þráði ég ekkert heitar en að eiga heftara. Það var það fyrsta sem ég keypti mér við fyrstu útborgun í unglingavinnunni. Með honum keypti ég ekki einn pakka af heftum heldur tvo. Í dag, ca 70 árum síðar er ég hálfnaður með fyrri pakkann. Seinni pakkinn er því mín heimskulegustu kaup.

2. Í febrúar 2006 keypti ég Peugeot 206, árgerð 2000 fyrir kr 600.000. Ári síðar hafði hann bilað fyrir kr. 200.000 samtals og það heldur áfram að telja. Mér býður við sjálfum mér fyrir að hafa keypt þennan bíl. Hann er, vel á minnst, til sölu ef einhver hefur áhuga.

3. Fyrir 3 dögum keypti ég mér kókdollu þegar mig langaði ekki í kók. Ég var ekki einu sinni þyrstur.

b) Af því bara.

fimmtudagur, 6. september 2007

Ég fór í sund í gær í góðum félagsskap ...í Laugardalslaug í góðum gír í sundskýlu. Það sem var merkilegt við þessa sundferð er tölfræðin. Hún er eftirfarandi:

* Ég synti rúmlega 850 þúsund millimetra í lauginni.
* Þetta 850.000 mm sund tók mig ekki nema 0,021 sólarhring.
* Eftir sundið fór ég í gufubað og svo í heitu pottana. Þar var ég samtals í 540.000 (540 þúsund) sekúndubrot, sem var, eftir á að hyggja, kannski full mikið.
* Eftir þetta allt saman rakaði ég á mér andlitið. Það tók óvenju skamman tíma, eða aðeins 0,00285% úr ári.

miðvikudagur, 5. september 2007



Ég hef ákveðið að setja fram tilboð á bílnum mínum, þar sem kominn er tími á skoðun og ég nenni ekki að punga út mörg hundruð þúsund milljón krónum í viðgerðir og annað tengt.

Allavega, tilboðið hljómar svona:

Peugeot 206 Présence árgerð 2000, ekinn 75.000 kílómetra, með nýlegt púst, nýtt drasl í vélinni (m.a. ný headpakkning og vatnstankur) og fallega áferð, fæst nánast gefins!

Aðeins 469 kr.* á mánuði vaxtalaust!**.

Staðgreitt fæst hann á kr. 450.000.

* Meðalgreiðsla miðað við 95% útborgun.
** í 48 mánuði.

þriðjudagur, 4. september 2007

Það er komin ný útgáfa af mér. Sú útgáfa er miklu betri en sú fyrri, þó að einhverjir gallar hafi komið í ljós við prufukeyrslur.

Ég gef ykkur... Finnur version 2.03:



Aðalbreytingin er sú að Finnur version 2.03 er komin í föt sem eru einhvernveginn á litinn. Finnur version 1.72 var svarthvít útgáfa. Ennfremur fer þessi útgáfa meira í ræktina og spila talsvert meiri körfubolta en sú fyrri.

Það er enn verið að beta testa þessa útgáfu. Ýmsir gallar hafa komið í ljós, eins og leti við rakstur, skapstærð í körfubolta og ónákvæmni í myndatöku. Búist er við uppfærslu innan tíðar (version 2.04).

mánudagur, 3. september 2007

Það þarf ekki mikið til að gleðja mig. Þessa dagana held ég mér mjög hamingjusömum með því einu að breyta öllum effum (F) í pé (p) ef þau birtast í miðju orði.

Þannig verður hin sorglega og ömurlega setning:

„Torfi hefur farið aftur að lyfta eftir dauða afa síns.“

Að hinni stórskemmtilegu og upplípgandi setningu:

„Torpi hepur farið aptur að lypta eptir dauða apa síns.“


Ótrúlega skemmtilegt.
Ég var í þann mund að fara að sofa í hausinn á mér þegar ég mundi svolítið í heilann á mér og ákvað að blogga smá í puttana á mér.

Svo virðist sem ég hafi fengið 152 stig í keilu í kvöld. Þetta er minn lang næstbesti árangur.

En nóg um það. Ég ætla að tannbursta mig í tennurnar á mér, þar sem ég er nýbúinn að borða umtalsvert magn af vöfflum í andlitið á mér.

laugardagur, 1. september 2007

Aukaleikari Íslands er loksins kominn með síðu á Kvikmyndasíðu alheimsins, imdb. Kíkið á prófílinn hans hér. Fyrir smá extra, kíkið á "Board".
Á fundi fjármálaráðgjafa vefsíðunnar Við Rætur Hugans var tekinn fyrir VISA reikningur sem barst ritstjóranum í vikunni. VISA reikningurinn er svo hár að ráðstafanir þurfti að taka.

Héðan í frá geri ég aðeins hluti sem eru ókeypis. Hér er fullkomlega tæmandi listi yfir allt sem er ókeypis í þessu überkapítalista hagkerfi:

* Ég er ekki með neinn kynsjúkdóm. Ekki einu sinni alnæmi, sem kemur þægilega á óvart. Það er ókeypis að fara í kynsjúkdómatékk.

* Það er ókeypis að taka hvaða vöru sem er úr verslunum, svo lengi sem öryggisverðir ná þér ekki. Mæli alls ekki með þessu, enda hef ég aldrei stolið neinu úr verslunum nema hjörtum afgreiðslumanna (og næstum stundum kvenna).

* Að tala við sjálfan sig er ókeypis. Ég hef kynnst sjálfum mér mjög vel undanfarið. Kemur á óvart hvað ég er andfúll.

* Að spila póker á netinu er ókeypis, ef maður er heppinn. Í gær vann ég 66 dollara nettó.