laugardagur, 23. febrúar 2013

Svört kaup

Í gærkvöldi gekk ég inn í anddyri blokkarinnar sem ég bý í og rakst utan í sölumann dauðans. Eftirfarandi samtal átti sér stað þegar sölumaðurinn hafði snúið sér undan og ætlaði að ganga í burtu:

Ég: Ertu að selja?
Sölumaður: Já.
Ég: Er fyrsti pokinn nokkuð frír?
Sölumaður: ehh... nei.
Ég: Hvað kostar?
Sölumaður: Eina kúlu pokinn.
Ég: *Ég leita í vösum að reiðufé* Úff, mig vantar 50 upp á.
Sölumaður: Það er í lagi.
Ég: Glæsilegt! Kvöldinu bjargað.
Sölumaður: Viltu lakkrís eða hlaup?
Ég: Lakkrís, takk.

Eftir það kvaddi ég 13 ára stelpuna og hún fór með kassan næstum fullan af nammipokum til mömmu sinnar sem beið í bílnum.

Ég eyddi svo nóttinni í nammivímu.

sunnudagur, 17. febrúar 2013

Hversdagsleg ævintýri

Nokkur ævintýri úr hversdagslegu lífi mínu:

1. Teygja um úlnlið
Ég geng með teygju um hægri úlnlið af gömlum vana og til að hafa eitthvað í mínu munúðarfulla og alltof óklippta hári þegar ég hleyp í ræktinni eða spila körfubolta. Einn morgunn í vikunni hafði teygjan færst yfir á vinstri úlnlið og kona í vinnunni, sem við skulum kalla Hróðný, tók eftir því.

Hróðný: Ertu hættur að ganga með teyju um úlnliðinn eftir samtal okkar um daginn?
Ég: Nei alls ekki. Ég er meira að segja farinn að búa þær til heima eftir Kínverskri aðferð.
Hróðný: Hahahahaha, góður.

Það er skemmst að segja að mér sárnaði að hún héldi að ég væri ekki nógu handlaginn til að gera það og ákvað að gefa henni ljótasta nafn sem ég gæti hugsað í bloggfærslu.

2. Nýtt rúm
Ég keypti mér nýtt rúm í nýliðinni viku. Þetta er annað rúmið sem ég kaupi fyrir meira en 100.000 krónur á sex árum. Ástæðan er þríþætt.

Í fyrsta lagi er mjög erfitt að gera mér til geðs þegar kemur að rúmum. Og það er erfitt að skila rúmum ef mér líst illa á þau eftir ákveðinn tíma. Svo ég gef það og kaupi mér nýtt.

Í öðru lagi er mér frekar illa við peninga og vil helst ekki hafa þá tengda við nafn mitt.

Og í þriðja lagi þarf ég að viðhalda orðspori viðskiptafræðingsins sem ég er og læt því sjá mig reglulega í rúmverslunum svo fólk geti sagt sín á milli "Aha, þarna er Finnur Viðskiptafræðingur. Ég sé að hann hefur það nógu gott til að vera að leita sér að nýju rúmi, enda viðskiptafræðingur."

3. Kína
Fyrir rúmri viku sá kona í vinnunni, sem við skulum kalla Hróðný, að ég geng með teygju um úlnliðinn og spurði hvort hún mætti fá hana lánaða. Ég samþykkti það. Þegar hún skilaði henni svo síðar sagði hún mér að hárteygjur væru yfirleitt gerðar í Kína úr notuðum smokkum. Við hlógum að þessum fróðleiksmola, þó undir niðri væri að vakna hjá mér viðskiptahugmynd.

mánudagur, 11. febrúar 2013

Eitt leiðir að öðru

Í dag (og á morgun) er ég í fríi vegna þess að ég á allt sumarfríið mitt eftir frá í fyrra og þarf að klára það fyrir 1. maí næstkomandi.

Ég vaknaði upp úr hádegi og þurfti að pissa. Svo ég fór á klósetið.
Úr því ég var komin á fætur gat ég alveg eins klætt mig og tannburstað.
Úr því ég var kominn í föt gat ég alveg eins farið út.
Úr því ég var kominn út gat ég alveg eins keypt mér nýtt rúm.
Úr því ég var búinn að kaupa mér nýtt rúm gat ég alveg eins farið heim.
Úr því ég var kominn heim gat ég alveg eins lagt mig.
Úr því ég var sofnaður gat ég allt eins byrjað að dreyma.
Úr því mig var farið að dreyma gat ég alveg eins dreymt að leikarinn William Fichtner segði að ég væri í ljótum gallabuxum, svo ég sagði að hann er með ljótt hár en tók það til baka þegar ég sá hvað honum sárnaði.

Fínn dagur.

miðvikudagur, 6. febrúar 2013

Afturendi við andlit lögmálið (AVAL)

Ég hef loks fullklárað kenningu um nýtt lögmál sem ég hef unnið að í sturtuklefa ræktarinnar síðustu átta ár. Lögmálið er náskyld Lögmáli Murphy's sem hljómar svo (tekið af íslensku Wikipedia síðunni um LM):
Lögmál Murphys er mjög almennt lögmál sem segir að ef að nokkur möguleiki sé til staðar á því að eitthvað fari illa, þá muni það fara illa

Lögmálið mitt er mun nákvæmara:
Ef þú velur þér skáp í World Class Laugum á háannatíma við hliðina á öðrum skápi í notkun, mun andlit þitt lenda í metra fjarlægð frá kviknöktum afturenda, á næstu fimm mínútum, hvort sem þér líkar það betur eða verr.
Hér eru valdarnir að þessari kenningu:

1. Alltaf þegar ég notast við skáp við hliðina á öðrum skáp í notkun kemur viðkomandi notandi á meðan ég er að klæða mig í íþróttafötin og beygir sig og teygir við hliðina á mér. Sértu á milli tveggja skápa í notkun munu tveir naktir aðilar koma á meðan þú klæðir þig. Þeir eru aldrei að flýta sér í föt.

2. Enginn virðist vera með ca 500 metra radíus í personal space (ísl.: einkapláss) lágmark eins og ég sem hækkar upp í 2,5 km radíus þegar nekt á í hlut.

3. Enginn virðist hafa tíma til að hugsa út í svona tilgangslausa og óþarfa hluti eins og ég.

sunnudagur, 3. febrúar 2013

Þitt og hetta

1. Áfengissýki
Í morgun lauk ég við mína fyrstu flösku af dönskum brjóstdropum, sem ég keypti fyrir sex vikum og hef drukkið eins og stjórnlaus alkóhólisti kvölds og morgna til að losna við, að því er virðist, krónískt kvef. Ekki nóg með að þetta áfengisævintýri mitt hafi rústað á mér bragðlaukunum svo illa að ég borðaði Risa Hraun með hálfum hug í morgun (og í hádeginu og kvöldmat), heldur fékk ég áfengistremma og verk í lifrina þegar ég fékk ekki skammtinn minn af dropunum í kvöld. Á móti kemur að ég hef náð að minnka horrennsli um 3%. Vel þess virði.

2. Nafn á nýjan frænda
Kolla systir og Árni Már, spúsi hennar, skírðu son sinn í dag og varð nafnið Valmundur Pétur fyrir valinu, sem gerir barnið að alnafna afa síns. Ég mætti ekki í skírnina, sem fram fór á Akureyri, vegna ólæknandi kvefs (sjá að ofan) og vegna fregna um að ekkert Risa hraun yrði á boðstólnum í veislunni. Ég lofa að taka mér frí einhverntíman fljótlega og bæta þeim þetta upp.

3. Samtal við Valeríu Dögg
Nýlega passaði ég Valeríu Dögg, rúmlega 2ja ára bróðurdóttir mína þegar við heyrðum í flugeldum. Þar sem hún er mikill aðdáandi flugelda hoppuðum við út í glugga, þar sem við hvorki sáum né heyrðum í flugeldum:

Ég: Eigum við að prófa að kalla á flugeldana? Athuga hvort þeir komi ekki?
Valería: Já!
Ég: Flugeldar! Hvar eruði?
Valería með mjög skrækri röddu, að þykjast vera flugeldur: Við erum hérna.
Ég: Ætliði ekki að koma að springa?
Valería: Jú, við erum alveg að koma.
Ég: Hvað eruði að gera?
Valería: Bara... að vaska upp.

Ég held ég hafi aldrei hlegið jafn mikið að einhverju sem barn hefur sagt, hvað þá rúmlega 2ja ára gamalt barn.