laugardagur, 30. desember 2006

Í nýjasta DV helgarblaðinu er listi lagður fyrir fræga og fallega fólkið um árið 2006, af því fræga og fallega fólkið er það eina sem skiptir máli. Allavega, þar sem ég er frægur og næstum fallegur þá fannst mér rétt að ég ætti að fylla þennan lista út. Ykkur er líka velkomið að fylla hann út sjálf í athugasemdum. Hér kemur listinn:

1. Nafn, starf og stjörnumerki?
Finnur Torfi Gunnarsson, starfsmaður rannsóknardeildar 365.

2. Hvernig var árið 2006?
Undurgott.

3. Hvað var fyrirsjáanlegast á árinu?
Að ég myndi flytja til Reykjavíkur.

4. Hvað kom mest á óvart?
Að útgefandi hafi fengist til að gefa út Arthúr í bókaformi.

5. Hvað breytti lífi þínu á árinu?
Að fá vinnu hjá 365. Að hefja sambúð með Soffíu. Að kaupa nýjan bíl.

6. Hver var skandall ársins 2006?
Árni Johnsen og sjálfstæðisflokkurinn.

7. Hvert var flopp ársins?
Búbbarnir, verstu þættir sem ég hef nokkurntíman séð.

8. Hver var maður ársins?
Ómar Ragnarsson.

9. Hver var skúrkur ársins?
Sjálfstæðisflokkurinn.

10. Hvað mun breytast á árinu 2007?
Vonandi sem minnst.

miðvikudagur, 27. desember 2006

Jólin í lauslegri tölfræði:

Peningalegur hagnaður: -200 krónur nettó.
Líkamlegur hagnaður: -1 kg
Andlegur hagnaður: + 250.000.000 hamingjustig (bara fyrir að fá að sofa út nokkrum sinnum).

Jólin eru því að skila ágætis hagnaði fyrir mig og vonandi fyrir sem flesta.

þriðjudagur, 26. desember 2006

Þar sem ég er net- og áhugalaus um þessi jól munu færslur minnka á þessari síðu, eins og þið hafið orðið vör við, þangað til 2. janúar þegar ég sný aftur til Reykjavíkur.

Þessi færsla er skrifuð með hugarorkunni í gegnum einhvern grunlausan náunga.

föstudagur, 22. desember 2006

Ég er farinn austur í 10 daga jólafrí, nema

...það verði ekki flogið.
...það verði ófært á bíl.
...ég verði úti gangandi.

Gleðileg jól.
Viðbúin...
Tilbúin....

NÚ!

fimmtudagur, 21. desember 2006

Í dag gat ég ekki stuðlað að manndrápi þar sem ég hafði ekki tólin í það, þó ég glaður hefði viljað. Ekki nóg með það heldur sagði ég manninum það, sem brást vel við og þakkaði fyrir.

Svona var samtalið:
Kappi: "Finnur, ekki reykirðu?"
Finnur: "Nei, það geri ég svo sannarlega ekki"
Kappi: "Ah, þannig að þú átt ekki sígarettu til að lána mér?"
Finnur: "Nei... því miður"
Kappi: "Allt í lagi. Takk samt."
Í Fréttablaðinu í dag er lítil útskýringagrein um snúning jarðar til að upplýsa okkur vitleysingana.

Þar er m.a. sagt orðrétt: "Jörðin snýst 365,2477 sinnum í kringum sólina á ári hverju..."

Sennilega innsláttarvilla. Auðvelt að ruglast á 'einu sinni' og '365,2477 sinnum'.

Að öllu gamni slepptu; ROFL!

miðvikudagur, 20. desember 2006

Það gerðist ýmislegt í vinnunni í gær:

* Tvær stelpur komu upp að mér og gáfu mér mynd sem þær höfðu teiknað. Stelpurnar komu með mömmu sinni í vinnuna. Ég þekki enga þeirra neitt. Betra er að taka fram að stelpurnar eru, á að giska, 6-7 ára gamlar.

* Við skoðun á aðsóknartölum þessarar síðu kom í ljós að í júlí 2005 komu 2.807 gestir inn á síðuna mína. Afmælisdagur minn er 28.07.

* Það blæddi úr handarbakinu á mér vegna þurrks.

* Það blæddi úr maganum á mér sökum stress.

* Svo vann ég aðeins.
Ég var að teikna mína aðra Arthúrstrípu. Hugmyndin að henni fæddist í dag í vinnunni þegar ég var að lesa mig til um sáðfrumur á Wikipedia. Strípan birtist hér klukkan 6 (eftir nokkra tíma).

Efast um að fólk fatti þessa aumu strípu mína. Ég á það til að vera frekar blindur á mína eigin brandara. Til dæmis horfir Soffía yfirleitt bara á mig þegar brandaranum lýkur og þrífur svo upp eftir mig.

þriðjudagur, 19. desember 2006

Ég las það í fréttablaðinu í morgun að grænmetisætur eru með að meðaltali 106 í greindarvísitölu á meðan aðrir eru með 100. Ef ég væri ekki grænmetisæta væri meðalgreindarvísitala grænmetisætna 110. Þetta var sérstaklega tekið fram í greininni.
Ný útvarpsstöð er komin í loftið. Hún er mjög sérstök. Fyrir það fyrsta heitir hún því stórkostlega nafni "Kaninn". Merki stöðvarinnar, eins og það birtist í blaðaauglýsingum, inniheldur bandaríska fánann eingöngu.

Þetta eitt og sér er ekki svo vitlaust, það er eflaust nóg af kanamellum hérlendis sem elska svona markaðssetningu en hér kemur rúsínan í pysluendanum; stöðin spilar eingöngu íslenska tónlist. Mjög sérkennileg samsetning útvarpsstöðvar.

En þetta er þó ekkert. Gamalt fólk fær bjúg! Ég vona að það hafi allt sloppið við Bjúgnakræki sem kom nýlega til byggða.

mánudagur, 18. desember 2006

Tölfræðin hefur kennt mér ótrúlegustu hluti. Það nýjasta er að ef ég sé gamla konu með mikinn farða og í loðfeldi þá tek ég stóran sveig framhjá henni. Ástæðan er sú að um 97% fylgni er milli þess að vera gömul kona í loðfeldi með mikinn farða og þess að vera með sjúklega sterkt ilmvatn sem lætur mig oftar en ekki fá blóðnasir og tárug augu.

Takk Kapteinn Tölfræði!
Í gærkvöldi var fjallað um Guðmund Jónsson, forstöðumann Byrgisins sem sér um að koma dópistum og öðrum vímuefnafíklum á rétta braut. Í þættinum var fjallað um BDSM fíkn Guðmundar, eða Gumma eins og hann er kallaður af hans nánustu, og hvernig hann, að sögn, hefur tælt fíklana til BDSM kynmaka við sig. Betra er að taka fram að Guðmundur segir guð lækna í gegnum sig. Ennfremur skal hafa í huga að Guðmundur er saklaus þar til sekt er sönnuð. Hér er frétt um málið.

Þetta eru skelfilegar fréttir fyrir Byrgið, ef þær eru sannar. Ekki bara vegna misnotkunar forstöðumanns á stöðu sinni eða að þessi guð, sem tugir manna hérlendis halda að sé til, hefur "valið" BDSM fíkil til að lækna fólk af vímuefnum, heldur líka vegna þess að nú munu allir kynlífsfíklar landsins byrja í dópi til að komast inn í Byrginu.

sunnudagur, 17. desember 2006

Vika í aðfangadaginn.
5 dagar í að ég fljúgi heim.
2 dagar í það eru 3 dagar í að það eru 2 dagar í að jólin byrji.

0 jólagjafir keyptar (af 10).
0 jólakort skrifuð (af 5).
0 jólakort send (af 3).
0 jólaskap fundið (af 1).

Ég hef reynt að hækka síðustu 4 tölurnar án árangurs vegna leti og áhugaleysi.
Í nótt dreymdi mig Excel. Microsoft Excel, nánar tiltekið. Ég var að taka umtalsvert magn af tölfræðigögnum og kópera á milli skjala. Svo fékk ég sms, vaknaði og las það, svaraði og lagðist svo aftur á koddann. Þegar ég sofnaði aftur opnaði ég hitt skjalið og peistaði gögnunum í draumnum.

Þetta er ekk einsdæmi. Mig er farið að dreyma Excel í auknu mæli. Ekkert óeðlilegt fyrir ungan mann að dreyma kynferðislega drauma.

laugardagur, 16. desember 2006

Ég var að horfa á lokaþáttinn af The Biggest Loser, annari seríu þar sem fólk grenntist samtals um ca. 200 metra fjall. Aldrei áður hefur mig langað til að vera akfeitur, bara til að geta grennt mig aftur og fundið þessa hamingju þeirra.

Allavega, svo ég skemmi ekkert fyrir neinum sem fylgjast með þessum þáttum þá er fyrsta og þriðja sætið gift í dag. Ekki spyrja mig hvernig ég veit það. Ef einhver segir að ég hafi vitað það þá neita ég því.

föstudagur, 15. desember 2006

Það er ótrúlegt hvað sumir leggja á sig fyrir smá sprell. Eins og fólk hafi ekkert betra við sinn tíma en að sprella í mér. Nú hefur einhver gengið aðeins of langt.

Einhver vitleysingur er búinn að rugla dagsetningunni á símanum mínum, vinnutölvunni, heimatölvunni, sjónvarpsstöðvunum og jafnvel öllum rafrænum dagsetningarskiltum um allan bæ, bara fyrir smá hlátur. Viðkomandi hefur skráð á alla þessa staði að í dag sé 15. desember! Eins og tíminn hafi bara flogið áfram um mánuð eða svo á nokkrum dögum.

Þessi sprelligosi fær plús fyrir að leggja þetta allt á sig en stóran mínus fyrir lélegan húmor.

fimmtudagur, 14. desember 2006

Í gær sá ég stjörnuhrap í fyrsta sinn. Það munaði ca sentimetra að ég hefði fengið heilablóðfall af spennu. Spennan minnkaði ekki þegar ég frétti að ég mætti óska mér og að óskin myndi rætast ef ég segði engum frá henni.

Ég óskaði þess að ég gæti fengið frí frá bloggskrifum í dag. Ég hlakka til að sjá hvort hún rætist.

miðvikudagur, 13. desember 2006

Ég hef bloggað síðan 3. október árið 2002. Það gera 1.532 daga, 219 vikur, rúmlega 53 mánuði eða 4,19 ár.

Alls hef ég skráð 2.637 færslur með þessari. Það gera 1,72 færslur á dag, 12,05 færslur á viku, 52,39 á mánuði eða 628,70 á ári.

Samkvæmt nýjum stöðlum (mínum) þarf maður að blogga oftar en 630 sinnum á ári til að vera nörd.

Fjúkk!
Ég drekk kók. Ég viðurkenni það, þó ég skammist mín talsvert fyrir það. Ég er þó að vinna í þeim málum. Ekki að vinna í að hætta að drekka kók heldur í að minnka kostnaðinn við drykkjuna.

Ég hef í gegnum tíðina drukkið kók í þremur umbúðum:
0,33 lítra = kr. 100
0,5 lítra = kr. 160
2 lítra = kr. 260

Þegar ég var í HR var ég yfirleitt allan daginn og allt kvöldið (og stundum alla nóttina) í skólanum. Þar drakk ég venjulega tvær 0,33 lítra dollur á dag, nema ca. þrisvar í viku þegar ég borðaði í mötuneytinu og skipti út einni 0,33 lítra dollu fyrir eina 0,5 lítra flösku.

Þetta gerði kostnað upp á kr. 77.320 fyrir 250,76 lítra af kóki á ári eða kr. 308 á lítrann.

Núna, þegar ég er kominn í vinnu, á ísskáp og lán til að niðurgreiða verð ég að grípa til örþrifaráða. Nú kaupi ég bara kók úr tveggja lítra flöskum og reyni að klára hálfan lítra á dag, sem tekst sjaldnast. Ég kaupi tvær 2 lítra flöskur og slysast að meðaltali til að kaupa eina 0,5 lítra flösku á viku.

Kostnaðurinn við þessa nýju neysluhegðun er kr. 35.360 á ári fyrir 234 lítra á ári eða kr. 151 á lítrann.

Þarna spara ég mér kr. 41.960 og 16,76 lítra af kóki á ári.

Fyrir þessan rúmlega 42 þúsund króna sparnað kaupi ég mér svo Risahraun fyrir kr. 150.000 á ári.

þriðjudagur, 12. desember 2006

Þar sem Jónas er staddur á internetlausri Akureyri og enginn Arthúr til á lager hef ég ákveðið að teikna Arthúr morgunsins, sem birtist núna eftir rúmlega átta og hálfan tíma.

Ég er í miðjum klíðum að troða honum saman. Þetta verður skrautlegt. Kíkið á hann hér á morgun.
Nýlega setti ég athugasemdirnar aftur inn eftir ca 9 mánaða pásu frá þeim.

Í kjölfarið fór ég að efast um að fólk kynni að meta athugasemdirnar og var að hugsa um að henda þeim út aftur. Ég hugsaði fram og aftur um það hvernig hægt sé að mæla hversu vel fólk kynni að meta þessa breytingu en mér datt ekkert í hug.

Einn daginn, í morgun nánar tiltekið, lá ég í rúminu og hugsaði hvernig ég gæti komist að þessu þegar Kapteinn Tölfræði kom inn um gluggann hjá mér. Hann var með lausn! Hún er ofureinföld en skilvirk:

Janúar 2006 (síðasti fulli athugasemdamánuður)
Athugasemdir skráðar: 190
Athugasemdir á dag: 6,13

Desember 2006 (fyrstu 12 dagarnir)
Athugasemdir skráðar: 74
Athugasemdir á dag: 6,17

Niðurstaða: Athugasemdafjöldi á dag hefur haldist óbreyttur. Fólk kann því að meta breytinguna.

Takk Kapteinn Tölfræði!

mánudagur, 11. desember 2006

Þessi frétt er háalvarleg. Hvernig náði maðurinn að fá svona stóra rauða bólu á hausinn? Og hvernig dettur honum til hugar að láta sjá sig opinberlega svona til fara?

Ég legg til að hann verði kosinn hugrakkasti maður landsins 2006.

sunnudagur, 10. desember 2006

Ef ég horfði á America's Next Top Model, sem ég geri ekki þar sem þetta er þáttur fyrir konur er mér sagt, þá færi Tyra Banks óstjórnlega í taugarnar á mér þar sem hún er alveg eins og Zoolander, nema ekki að grínast. Þættirnir fjalla um hana. Allir aðrir eru í aukahlutverki.

Þetta myndi ég allt vita ef ég horfði á þættina, sem ég geri auðvitað ekki þar sem ég er mikið karlmenni. Frænka mín sagði mér þetta.

laugardagur, 9. desember 2006

Hér er brandari. Látið vita í athugasemdum ef þið fattið hann.

Siggi var nýkominn frá Spáni og vinir hans voru að tala um hvað hann væri orðinn brúnn. Þá sagði Siggi: "Já, ég náði mér í smá sin/cos".

Ég held ég hendi einu "LOL" á þetta. Gólfið hérna er svo skítugt að ég legg ekki í "ROFL".
Þetta er skrifað með teygju í hárinu, rétt eins og stelpa. Þetta er gert af því tilefni að í dag er ruglaður laugardagur hjá mér. Einnig er þetta gert svo ég sjái eitthvað fyrir hári.

En fyrst og fremst er þetta til að getað bloggað um eitthvað.

föstudagur, 8. desember 2006

Í Blaðinu í dag og eflaust á fleiri stöðum er auglýsing frá Task, sem er tölvuverslun. Í auglýsingunni er m.a. mynd af tveimur tækjum sem bera heitin Rapsody RSK-100 og Rapsody RSH-300.

Við mynd af þessum tækjum eru ýmsar upplýsingar eins og hvaða skráarform þessi tæki styðja, hvernig tengi eru á þessu, þyngd, stærð og fleira. Neðst í auglýsingunni er svo tekið fram hvað þessi tæki kosta (tugir þúsunda króna) og að þetta sé "ómissandi á hverju heimili".

Eftir að hafa lesið þessa auglýsingu aftur og aftur er ég engu nær um hvað þetta tæki gerir.
Arthúrstrípa númer 200 kom út í dag. Hvern hefði órað fyrir því að 200 stykki litu dagsins ljós fyrir ca. einu og hálfu ári síðan þegar Jónas spurði mig kæruleysislega hvort ég væri til í að semja með honum teiknimyndasögur.

Allavega, í dag hef ég lifað 10.360 daga. Samkvæmt Hagstofu Ísland er meðalævilengd karla 78,9 ár. Ég á því 18.458 daga eftir, ef ég dey 78,9 ára, eða fimmtíu og hálft ár.

Ef við Jónas höldum áfram að gefa út þrjár strípur á viku á ég eftir að gefa út 7.910 strípur þangað til ég dey. Jónas mun svo halda áfram að semja einn, þar sem hann verður ,gróflega áætlað, 35 ára þegar ég dey. 200 strípur eru því ekkert (ca 2,53% af heildinni)!

Ef meðalævilengd karla helst óbreytt mun ég deyja þann 21. júní 2057 í flugbílslysi.

fimmtudagur, 7. desember 2006

Góð vísbending um að ég sé að vinna of mikið er þegar Soffía vaknar um hánótt við það að ég er það þilja talnarunur upp úr svefni. Þetta gerðist einmitt um daginn (eða nóttina).

Góð vísbending um að ég sé snældugeðveikur er þegar Soffía vaknar um hánótt við það að ég bendi upp í loftið og segi henni að passa sig án þess að muna eftir því. Þetta gerðist einmitt í nótt.

Soffía hefur ekki depplað augunum síðan.

miðvikudagur, 6. desember 2006

Elfar heitir einn gáfaðasti maður í heimi. Hann er með blogg. Bloggið er hér. Bloggið er líka skemmtilegt þó oft sé erfitt fyrir mig að skilja það, sökum djöfullegra gáfna höfundar.
Ég mæli sterklega með nýjum teiknimyndasögum frá Soffíu Sveins, svarins keppinautar Arthúrs.

Kíkið á nýjustu strípuna hennar hér.
Frábært! Forritið sem ég var að vinna á í vinnunni fraus með öllum gögnunum. Kortersvinna töpuð. Ef það er ekki góð afsökun fyrir því að fá sér kók þá veit ég ekki hvað.

Ég trúi þessu ekki! Gat á sokkunum mínum. Ég fæ mér Risahraun með kókinu til að bæta upp fyrir þetta.

Og nú klæjar mig í handarbakið. Ömurlegur dagur! Ég á skilið að fá mér tyggjó, annað súkkulaði og kannski nýja tölvu.

þriðjudagur, 5. desember 2006

Ótrúlegt hversu vel tölva getur greint fólk sem er líkt manni. Hér eru niðurstöður tölvunnar Lalla en hana má finna á síðunni sem opnast ef þið smellið á myndina hér að neðan:

Úff. Ég ligg hérna andvaka, sem væri ekki í frásögu færandi ef ég væri ekki í vinnunni ennþá. Ég hata að vinna frameftir.
Ég ætla, eins og allir íslenskir bloggarar alheimsins, að mæla með nýjasta lagi og myndbandi Baggalúts.

Ekki nóg með að textinn sé fyndinn, lagið grípandi, flutningur með afbrigðum góður og myndbandið með þeim skemmtilegustu heldur hef ég hitt trommarann í þessu lagi í persónu fyrir utan Kringlubíó.

En þetta blogg er ekki um mig, fjandinn hafi það. Kíkið á lagið og myndbandið hér.

mánudagur, 4. desember 2006

Ég er ekki enn kominn í jólaskap og aðeins um 20 dagar í neysluveislu. Það gladdi mig því ólýsanlega þegar líkami minn tjáði mér að hann sé kominn í jólaskap með þurrkubletti á handarbakinu í formi jólatrés, meira að segja með jólastjörnu efst.

Ég hef nú þegar rist útlínurnar með rakvélablaði, til að gera jólastemninguna skýrari.
Enginn í öllum heiminum kvartar jafn mikið undan útlitsdýrkun samfélagsins og ég. Sjálfur hugsa ég ekkert um útlitið, fyrir utan að fara í klippingu þegar fólk er farið að taka sitt eigið líf sökum hársíddar minnar.

Allavega, í gærkvöldi, þegar ég grét mig í svefn yfir þessu stærsta vandamáli landsins, fattaði ég loksins af hverju þetta er svona.

Til er orðatiltæki sem hljómar svona: "Beauty is pain" eða "Fegurð er sársauki". Fyrir tölfræðisjúklinga má orða þetta "Fegurð = sársauki".

Til er annað orðatiltæki sem er svona: "No pain, no gain" en það þýðir "Enginn sársauki, enginn hagnaður" eða, fyrir tölfræðinörda "Sársauki*hagnaður" þar sem sársauki er annað hvort 0 eða 1 (dummy breyta) sem þýðir að ef það er enginn sársauki (0) þá verður enginn hagnaður.

Íslendingar hugsa þetta því svona:

Fegurð = Sársauki
Sársauki*hagnaður


Og þar sem íslendingar eru með gráðugustu þjóðum heims, verandi með hægri stjórn og allt það, þá leiða þeir þetta svona út:

Fegurð*hagnaður.

Einfalt er að túlka þessa niðurstöðu. Ef fegurð er til staðar (fegurð = 1) þá er hagnaðurinn sá sem við er búist (1*hagnaður = hagnaður). Ef fegurðin er hinsvegar engin, þá er hagnaðurinn enginn (0*hagnaður=0).

Þetta þýðir einnig að ef hagnaðurinn er enginn, þá er óþarfi að vera fallegur (1*0=0) sem kannski útskýrir afstöðu mína en það er önnur saga.

Þessi einfalda formúla ætti að útskýra útlitsdýrkun íslendinga fullkomlega.

sunnudagur, 3. desember 2006

Mig dreymdi stórskemmtilega um daginn. Mig dreymdi að ég drap biskup ísland og matreiddi fyrir trúaða sem samankomnir voru til að hlusta á erindi hans einhversstaðar.

Ef þig svitnið við að lesa þetta þá getið þið margfaldað líðan ykkar með fjórum, sett svo í hálfta veldi, dregið þrjá frá, bætt fyrstu tölunni í símanúmeri ykkar framan við töluna og deilt með aldri ykkar. Þá vitið þið hvernig mér leið þegar ég vaknaði.

laugardagur, 2. desember 2006

Ég steingleymdi að blogga um eitt merkilegasta og mikilvægasta atvik lífs míns síðasta mánuðinn eða svo en það gerðist fyrir um 18 dögum síðan. Og tveimur tímum... og 17 mínútum.

Ég sá Hemma Gunn í 11-11 verslun og hann leit í augun á mér.

Þetta atvik hefur haft gríðarlega mótandi áhrif á mig. Ég neita að segja á hvaða hátt nákvæmlega.
Ég hef ákveðið að gerast svertingi. Hingað til gengur það ágætlega eins og sjá má á þessari mynd, amk hvað útlit varðar.

föstudagur, 1. desember 2006

Ég var að komast að enn einum ofurhæfileika mínum. Þessir ofurhæfileikar mínir eiga það sameiginlegt að vera algjörlega gagnslausir þegar barist er gegn glæpum.

Að neðan er listi yfir ofurhæfileika mína:

* Ég get tekið eftir ofursmáum atriðum í útliti fólks og gagnrýnt þau óspart, til að láta mig líta betur út.

* Ég get gleymt einföldustu hlutum á ofurstuttum tíma.

* Ég framleiði ekki táfýlu. Ég er því ofurlaus við táfýlu.

* Nýjast: Ég get og hef saknað kærustunnar minnar ofurmikið.
Ég mæli sterklega með lestri á menningarritinu DV.

Nánar tiltekið mæli ég sterklega með lestri á blaði dagsins í dag á menningarritinu DV.

Nánar tiltekið mæli ég með lestri á íþróttahluta menningarritsins DV í dag.

Nánast tiltekið mæli ég, mjög fast, með blaðsíðu 64 og 65 íþróttahluta menningarritsins DV í dag eftir Baldur Beck, um Utah Jazz sem ber heitir "Það jafnast ekkert á við Jazz".

Einnig mæli ég með því, fyrir fólk sem hefur lítið að segja á blogginu sínu en vill koma með frekar langar færslur, að orðlengja allt sem það hefur að segja, svo færslurnar verði millilangar, jafnvel mjög langar.