þriðjudagur, 23. júlí 2013

Bros

Á sunnudaginn gerði ég mér lítið fyrir og fór út að labba í Laugardalnum, þrátt fyrir að það hafi nánast verið maður við mann túristaástand þar.

Í upphafi göngutúrsins mætti ég stelpu á hjóli sem í fyrstu var alvarleg á svipinn en þegar hún leit til mín brosti hún eyrnanna á milli. Það er ekkert eðlilegt við það, svo ég fór að velta fyrir mér mögulegum ástæðum.

Ég hélt í fyrstu að ég væri með mjólkurskegg (eða kók- og/eða súkkulaðiskegg) og hóf að þrífa mig í framan, án þess að vera með spegil á mér. Þegar því var lokið læddist sá grunur að mér að hárið á mér væri eins og á Charles Manson á slæmum degi.

Þegar ég hafði greitt það með fingrum annarar handar ítrekað, kaldsvitnaði ég því ég var viss um að ég væri með opna buxnaklauf. Það reyndist ekki vera. Þá hélt ég að ég væri með eitthvað óhreint/ósmekklegt á peysunni sem ég var íklæddur. Það reyndist ekki vera.

Ég reyndi að spotta viðbrögð annarra sem ég gekk framhjá og sjá hvert þau horfðu þegar þau mættu mér. Ekkert kom úr þeirri rannsókn, nema að fólk er frekar hrætt við örvæntingarfullar augngotur.

Þegar hingað var komið við sögu var göngutúrnum nánast lokið og ég farinn að örvænta. Ég gekk því nokkuð hratt restina af leiðinni, í bílinn, beint heim og í sturtu áður en ég lagði mig, enn í nagandi óvissu.

Ef þú lest þetta, hjólastelpa: takk fyrir að eyðileggja göngutúrinn daginn fyrir mér, tillitslausa fíflið þitt.

mánudagur, 15. júlí 2013

Góður sunnudagur

Eftir að hafa horft á þetta myndbrot rétt eftir að ég vaknaði í gær, stökk ég á fætur og hélt því fram að dagurinn yrði góður.

Ég stökk af stað í innkaupaferð. Fyrsta stopp var Kostur, sem sérhæfir sig í amerískum vörum, þar sem ég ætlaði að kaupa mér mjólk en endaði á að kaupa mér eitt og hálft kíló af súkkulaði.

Ég lét ekki óheppilega byrjun hafa áhrif á áætlun mína heldur fór næst í Sports Direct íþróttavöruverslunina og keypti mér íþróttatreyju. Við kassann sagðist ég hafa góða tilfinningu fyrir þessum viðskiptum og afþakkaði því kvittunina.

Aldrei hef ég haft jafn rangt fyrir mér, því við að ganga út fór þjófavarnarkerfið af stað. Þar sem ég hafði ekki kvittunina var ég vinsamlegast beðinn um að fylgja öryggisverði að afgreiðslunni, þar sem afgreiðslustúlkan baðst afsökunnar á að hafa gleymt að fjarlægja þjófavörnina. Ég hló og sagði ekkert mál, um leið og ég þurrkaði svitastrauminn af enninu.

Þegar út í bíl var komið brotnaði ég svo saman og fór heim að borða súkkulaði. Óvenju góður sunnudagur.

föstudagur, 12. júlí 2013

Monitor viðtal

Ég bý einn og tala oft við sjálfan mig, þó ég sé frekar leiðinlegur. Af hverju ætti ég þá ekki að mega viðtala sjálfan mig?

Í Monitor blaði Morgunblaðsins er iðulega viðtal við einhvern í miðju blaðsins. En aldrei við mig. Ég ætla samt að svara þessum spurningum.

Finnur Torfi á 30 sekúndum

Fyrstu sex
280778

Það sem fékk mig helst til að nenna fram úr rúminu í morgun
Ég þurfti að mæta á fund kl 9:00. Og ég þurfti að pissa.

Það sem veldur mér helst hugarangri þessa stundina
Ég þarf að pissa.

Það fyndnasta sem ég hef séð á netinu
Það er síbreytilegt. Líklega eitthvað sem ég hef heyrt. Þá sennilega smásagan IBrain eftir Brett Gelman.

Æskuátrúnaðargoðið
Skeletor.

KVIKMYNDIR

Myndin sem ég get horft á aftur og aftur
Seven, Memento, Matrix og Contact.

Myndin sem ég væli yfir
Ég get ekki grátið. Ekki opinberlega amk.

Myndin sem ég grenja úr hlátri yfir
Ég hef einu sinni hlegið allan tímann yfir mynd og það var fyrsta myndin af Austin Powers fyrir ca 15 árum síðan.

Uppáhaldsmyndin mín í æsku
The Never Ending Story, þó ég hafi bara séð hana einu sinni og skildi varla neitt í henni.

Versta mynd sem ég hef séð
Greenberg. Því minna sem ég segi um þann viðbjóð, því betra.

TÓNLIST

Lagið í uppáhaldi þessa stundina
Silent Shout með The Knife og Miss it so much með Röyksopp.

Lagið sem kemur mér alltaf í gott skap
Det snurrar i min skalle með Familjen. Sérstaklega myndbandið.

Lagið sem ég fíla í laumi
Þau eru mörg. M.a. Lights með Ellie Goulding.

Lagið sem ég syng í karókí
Ég myndi frekar éta á mér andlitið en að syngja fyrir framan aðra. En ef ég væri ekki félagslega vanskapaður þá myndi ég líklega velja Get off með Dandy Warhols.

Nostalgíulagið
Veridis Quo með Daft Punk.

ANNAÐ

Uppáhaldsmatur
Soðin ýsa með rúgbrauði og feiti.

Maturinn sem ég fæ mér þegar ég ætla að taka mig á
Cheerios.

Versti matur sem ég hef smakkað
Íslenskur þorramatur. Og rækjur.

Líkamsræktin mín
Ræktin 4-5 sinnum í viku. Karfa 1-2 sinnum í viku. Ofbeldisfullt sjálfshatur 7 sinnum í viku.

Stoltasta augnablikið á íþróttaferlinum mínum
Skoraði hvorki fleiri né færri en 14 stig tvisvar með Álftanesi og náði hátt í 7-8 fráköstum í leiðinni. Og svo auðvitað annað sæti í bringusundi í mínum riðli á fámennu sundmóti í Bjarnarfirði þegar ég var ca 12 ára.

fimmtudagur, 11. júlí 2013

Ræktarmisskilningur

Hér er áríðandi tilkynning til þeirra sem sáu til mín í ræktinni í kvöld:

Ég er með MP3 spilara sem er bundinn í reimina á stuttbuxunum mínum, þar sem ég hef engan annan stað til að geyma hann á. Spilarinn er svo tengdur við heyrnartól sem fara undir hlaupapeysu sem ég er yfirleitt í og í eyrun á mér. Þetta veldur því að spilarinn hangir fyrir ofan klofið á mér alla jafna, innan á stuttbuxunum mínum.

Í kvöld þegar heyrnartólin duttu úr sambandi við spilarann í miðri teygjuæfingu, akkúrat þegar nokkrar hressar ungar stelpur komu að teygja við hliðina á mér, var ég að reyna að tengja spilarann við heyrnartólin blint í gegnum stuttbuxurnar með báðum höndum á meðan ég starði blint út í loftið.

Það var ekki fyrr en ég tók eftir að stelpurnar voru í þessu lofti sem ég var að horfa á, og að þær voru fullar af viðbjóði, að ég áttaði mig á hversu óviðeigandi þessi aðgerð var.

Ég vil því koma því áleiðis að ég er ekki viðbjóður. Eða amk ekki svona mikill viðbjóður.