miðvikudagur, 31. ágúst 2005

Í þriggja tíma viðskiptalögfræðitíma í dag ákvað ég að hunsa allt sem kennarinn sagði, annars vegar til að verða ekki hundleiður á lögfræðitali og hins vegar til að setja upp nýja undirsíðu rassgatsins. Á síðunni munu koma allir fjórfarar vikunnar vefsíðunnar sögunnar, en þó aðeins einn á dag næsta mánuðinn ca. Eftir það munu fjórfarar birtast ca vikulega.

Allavega, farið hingað fyrir fyrstu fjórfarana (í stafrófsröð).
Í dag lærði ég að tæknilega séð er "athyglisvert" rangt þar sem orðið 'athygli' beygist aldrei í 'athyglis'. Essið er semsagt sett þarna til að tengja saman orðin. Réttara er því að segja "athyglivert". Þetta breytir öllu trúarkerfi mínu. Núna er réttara að segja "keppnimaður", "keppnigrein", "athygligáfa", "ruslfata", "ruslkeppur" og svo margt fleira.

Ég tek því 15 mínútna pásu frá þessu bloggi til að jafna mig.

þriðjudagur, 30. ágúst 2005

Ég er að missa vitið aftur.

Ég mætti of seint í tíma í dag í fyrsta sinn á minni háskólagöngu. Það er þó ekki ástæðan.

Ég lenti á rauðu ljósi á hverjum einustu gatnamótum á leiðinni í skólann sem olli því að ég varð brjálaður á síðustu ljósunum, öskraði eins hátt og ég mögulega gat og barði í stýrið nágrannabílstjóra mínum til óttablandinnar skemmtunar. Það er þó ekki vísbending um að ég sé að missa vitið.

Þá byrjuðu umferðarljósin að tala við mig og sögðu mér að keyra af stað, að ljósin skiptu eiginlega engu máli. Mér var brugðið því ég áleit umferðarljós alltaf góð og ljúf. En það er ekki ástæðan fyrir geðveiki minni í þetta skiptið.

Ástæðan fyrir því að ég er að missa vitið er þetta fjandans hátíðnihljóð sem kemur úr skjávarpanum í þessum bölvaða tíma.

mánudagur, 29. ágúst 2005

Í mötuneytinu í dag gekk ég með köku og kókómjólk framhjá borði sem innihélt sex manns. Þegar framhjá þeim var komið og ég sestur sagði einhver á næsta borði eitthvað sem ég heyrði ekki hvað var, í framhaldinu litu allir til baka á mig, aftur fram og hlógu af öllum kröftum þeirra veiklulegu tölvufræðilíkama.

Ef ég hefði ekki verið í fínu, þröngu leðurbuxunum mínum með leðurgrímuna sem ég saumaði um síðustu helgina hefði ég gengið upp að þeim og spurt hvað væri svona fyndið áður en ég hefði hent þeim út um gluggann.
Skólinn er kominn á fullt og því er nóg að gera þessa dagana. Hér er listi yfir aðgerðir sem ég þarf að framkvæma í dag eða næstu daga:

* Skrifa undir leigusamning og vinna í að fá húsaleigubætur.
* Fara í bíó.
* Gera sérsíðu undir fjórfara fortíðar, nútíðar og framtíðar.
* Gera rassgat.org að betri síðu.
* Klára að lesa bókina Contact eftir Carl Sagan.
* Stunda líkamsrækt af miklum móð.
* Rista í handlegginn á mér Nágrannamerkið með naglaklippum.
* Afgreiða á skiptibókamarkaði HR.
* Kaupa skólabækur fyrir HR.

Svo mun ég sennilega mæta í nokkra tíma líka.

sunnudagur, 28. ágúst 2005

Ég hef loksins fengið staðfestingu á því að starfsfólk Norðurljósa sé verulega illa innrætt. Fyrst var Snorri Sturluson, einn besti íþróttalýsir Íslandssögunnar, látinn hætta og svo í dag, 28. ágúst 2005, láta þeir Nágranna vera í opinni dagskrá þangað til rétt undir blálokin þegar líf manneskju, sem er mér mjög kær, er í húfi.

Það þýðir þó ekki að láta þetta á sig fá, þerra bara tárin og halda áfram að skrifa aðdáendabréf til Ian Smith.
Það er eitthvað vesen í kringum að virkja rassgat.org síðuna sem ég keypti nýlega. Þegar myndirnar hérna uppi í hægra horni birtast aftur getið þið smellt hér fyrir bráðabirgðasíðu rassgatsins.

Allavega, nóg að gera í gær. Partí, svefn, átferðir, innkaup, netvera og bíóferð. Ég keyri ennþá út um allt í Reykjavík á bifreið minni og það gengur betur en gáfuðustu, karlkyns sérfræðingar þorðu að vona. Öðrum orðum; ekkert að frétta.

Ég hef það þó skemmtilega á tilfinningunni að þessi sunnudagur verði stórkostlegur.

laugardagur, 27. ágúst 2005

Það má vera að konur séu samviskusamari en við karlarnir. Það getur líka verið að þær séu fallegri, fínlegri, duglegri og að þær höndli pressu betur en karlmenn en við erum gáfaðri að meðaltali.

Þetta get ég sagt og vitnað í rannsókn. Ég vitna í rannsókn máli mínu til stuðnings af því ég er karlmaður og gáfaðri en hitt kynið, sem mun án efa notast við tilfinningahita máli sínu til stuðnings hér í ummælunum.

Hér er fréttin um rannsóknina.

Ég spái því að 80% stelpna sem þetta les springi í loft upp úr bræði.

föstudagur, 26. ágúst 2005

Ég hef ákveðið að taka fyrir allar bíómyndir sem ég hef séð frá ca miðjum mars mánuði þessa árs í eina bloggfærslu vegna þess hversu óvinsælar bíómyndagagnrýnisfærslur eru. ATH. Færið músarbendilinn yfir titilinn á myndinni fyrir gagnrýnina.

Be Cool
Paparazzi
Downfall
Saw
In Good Company
The Jacket
Finding Neverland
The Island
Mean Creek
Ég hef fjárfest í léninu rassgat.org. Einhvern daginn mun ég opna eitthvað sérstaklega sniðugt á því léni en það fyrsta sem ég stefni á er að koma þessari og öðrum síðum í rétt horf með því að setja myndir upp aftur. Ég bíð þó enn eftir staðfestingu á greiðslunni.

Ég hef hent út ónýtum hlekkjum hér til hægri og hyggst endurskipuleggja þetta alltsaman næstu daga. Þið sem hafið ekki skrifað bloggfærslu í einhvern tíma, gerið það nú eða rotnið í tímalausu helvíti internetsins, þar sem ég hyggst eyða ykkur út og setja nýja, virkari bloggara inn.

fimmtudagur, 25. ágúst 2005

Ég er staddur í fyrsta tímanum í Hagnýtri Tölfræði II og ég er strax orðinn kynferðislega æstur. Þetta námskeið mun enda með ósköpum.
Í verulega gölluðu umferðarkerfi:

* Tekur það um 20 mínútur að keyra 2 km leið.
* Keyrir maður að meðaltali á 6 km/klst.
* Þarf maður oft að bíða lengur en 10 mínútur á rauðu ljósi.
* Öskrar fólk mjög hátt og lemur í stýrið á rauðu ljósi.

Þetta kom allt fyrir mig í morgun á leið minni í skólann. Ég mætti því ekki í fyrsta tíma dagsins. Þetta er fjórði dagur annarinnar og þar af hef ég mætt í einn stuttan tíma. Ekki góð byrjun. Allt umferðinni að kenna og ekki hræðilegri tímasetningu minni.

miðvikudagur, 24. ágúst 2005

Fyrsti skóladagurinn að baki og það eina sem ég hugsaði um var hvað ég ætti að vera að gera samkvæmt áætlun austurlandsins. Enn sem komið er geri ég lítið alla daga þar sem föst áætlun hefur ekki verið gerð fyrir hvern og einn dag hér í Reykjavík. Þegar það hefur verið framkvæmt mun ég væntanlega snúa aftur austur þar sem engin dagsáætlun er í gangi. Þegar ég flyt sjaldnar en fjórum sinnum á ári kemst ég í andlegt jafnvægi.
Í dag lét ég segulómskoða á mér hné. Þar upplifði ég mína verstu martröð; þurfti að sitja í 45 mínútur án þess að hreyfa fótinn neitt. Þetta er mun erfiðara en það hljómar. Ég fékk útvarp svo ég yrði ekki geðveikur en rafhlöðurnar kláruðust um svipað leyti og allir hjúkrunarfræðingarnir fóru í matarhlé.

Í dag kann ég mun betur að meta að mega hreyfa á mér fæturnar. Ég mæli með því að þið gerið það líka.

þriðjudagur, 23. ágúst 2005

Ég er mættur til Reykjavíkur eftir leiðinlegustu átta tíma ferð ævi minnar. Ég fór ferðina einn á vínrauða fáknum. Ýmislegt gerðist. Hér er það helsta:

* Þrjú matarstopp voru framkvæmd á leiðinni.

* Sjö lögreglubílar voru að vakta vegina á leiðinni. Ég var aldrei tekinn enda festist ég alltaf á eftir einhverjum fjölskylduvitleysingi sem keyrði á löglegum hraða.

* Undir lokin var ég farinn að tala við og syngjast á við sjálfan mig með nokkuð góðum árangri.

* Þegar ég var kominn í bæinn og byrjaður að týna farangur inn gómaði ég miðaldra mann við að skoða bílinn minn að innan. Hann reyndist vera að spá í að kaupa sér svona bíl (Mitzubichi Lancer árg. 1987!!) og vildi fá upplýsingar um þessa skepnu. Það skipti engum togum, ég rotaði hann og stakk honum í skottið.

Allavega, fyrsti skóladagurinn minn á morgun og ég á eftir að strauja ofurhetjubúninginn. Meira á morgun.

mánudagur, 22. ágúst 2005

Síðasti dagur minn á Egilsstöðum er að kvöldi kominn. Hann notaði ég í að þrífa íbúðina sem ég skila af mér á morgun, fara í sund þar sem ég prófaði rennibrautina ítrekað og að láta fara yfir bílinn minn, á hverjum ég ætla að keyra til Reykjavíkur á morgun, aleinn.

Eftirfarandi þakka ég fyrir sumarið;

Fjölskyldunni minni fyrir að létta lundu mína.
Soffíu fyrir að vera frábær og alltaf með mér í ræktinni.
Jónasi fyrir að vera 75% af Arthúr.
Hetti fyrir að leyfa mér að spila körfu með sér, þrátt fyrir að ég sé svertingi.
Starfsfólki skattstofunnar fyrir að vera líflegt og skemmtilegt.
Öllum sem kíktu á þessa síðu í sumar.

Þetta er að sjálfsögðu fyllilega tæmandi listi. Ef einhvern vantar á hann þá er það bara gert af illgirni.

Sjáumst í Reykjavík.

sunnudagur, 21. ágúst 2005

Leitin að hinu fullkomna léni gengur hægt. Hér eru þó nokkur lén sem eru laus:

www.mynameisfinnur.com
www.rassgat.org
www.finnur.org
www.finnurhansen.com
www.andskotinn.com
www.aumingi.com

Gefið ykkar álit eða fáið hornauga gefins frá mér.
Ástæðan fyrir slæmu útliti síðunnar er aumingjaskapur þessa fyrirtækis. Ég mæli með því að fólk greiði skatt hinna heimsku (Lottó) frekar en að versla við þetta fyrirtæki.

Allavega, ég hef kosið að kaupa þjónustu þessa fyrirtækis í staðinn og fæ þar ókeypis lén (dæmi um lén: www.fjandinn.com, www.mbl.is). Því spyr ég; vitið þið um eitthvað sniðugt lén, sem endar á .com, .biz, .org, .info eða .net?

Í verðlaun fyrir bestu hugmyndina er ókeypis aðgangur á þessa síðu í 2 vikur.
Ef einhver ykkar vill kasta hvítri, stutthærðri, ljóshærðri, fáklæddri stelpu fram af klettum, ekki gera það. Kastið þessari í staðinn, án afleiðinga en með jafnmikilli alsælutilfinningu.

laugardagur, 20. ágúst 2005

Nýlega brá ég á það ráð að eyða aðeins hluta af smáskilaboðum sem mér berst eða um tveimur á dag í stað allra, alltaf. Í dag sá ég svo að síminn er orðinn sneisafullur af skilaboðum, með 50 stykki sem ég þarf að minnka svo ég geti tekið við fleiri skilaboðum. Síðast tæmdi ég símann 1. ágúst.

Á 20 dögum hef ég því fengið 50 skilaboð, plús hef eytt að meðaltali tveimur smáskilaboðum á dag þannig að ég hef fengið, gróflega áætlað, um 90 sms á 20 dögum. Það gera 4,5 smáskilaboð á dag, sem er ca 750% aukning frá ári síðan þegar ég kvartaði sem mest yfir vinaleysi.

Sjálfur sendi ég út um 25 smáskilaboð að meðaltali á dag til að viðhalda vinsældunum.

föstudagur, 19. ágúst 2005

Ég var að enda við að bæta Salóme við í hlekkjalistann hér til hægri og mjög sniðugu tóli sem sýnir síðustu 10 athugasemdirnar (sjá ofarlega til hægri, aðeins fyrir neðan myndina efst). Þannig að nú getur þú, lesandi góður, komist á forsíðu Veftímaritsins með því einu að skrifa athugasemd við einhverja færsluna.

Mundu bara refsinguna við dónaskap; skammir frá mér auk eilífðar í logum helvítis að lífi loknu.
Ég biðst velvirðingar á slæmu útliti síðunnar þessa dagana. Einhverra hluta vegna hefur reikningi mínum verið lokað hjá msspro, þar sem ég vista allt sem ég geymi á netinu. Ég er að vinna í að fá hann opnaðann. Ef það gengur ekki þá mun ég kveikja í mér í mótmælaskyni einhversstaðar þar sem þið eigið síst von á því.

Allavega, þetta ýtir kannski loksins undir að breyta útliti síðunnar. Hvað segið þið, sótsvartur almúginn, um það?


Sumrinu á skattstofunni að ljúka. Auðvitað fer ég yfir hvað mér hefur tekist að gera hér á skattstofunni í þessa þrjá mánuði sem ég hef starfað hér í sumar:

* Fara yfir rúmlega 1.500 framtöl.
* Skrifa um 500 bréf.
* Svara yfir 250 fyrirspurnum.
* Borða um 5,5 kökur.
* Slá garðinn 5 sinnum.
* Þrífa skattstofuna í rúmlega 6 vikur.
* Vinna yfir 800 tíma.
* Fá 12 ný grá hár.
* Eldast um 3 mánuði.

Ég kveð skattstofuna í dag klukkan 16 með tár í auga. Ég vona að ég komi aftur.

fimmtudagur, 18. ágúst 2005

Fyrri hluta kveðjuhátíðar á skattstofunni var að ljúka en á morgun er síðasti vinnudagur minn hérna í bili. Í kaffinu voru hvorki fleiri né færri en þrjár kökur auk 2,5 osta með kexi og sultu. Það gera um 0,6 köku og 0,5 ost á mann þar sem aðeins 5 starfsmenn eru að vinna í dag. Ég borðaði ekki nema 0,12 köku og 0,23 osta sem eykur magn hinna í 0,72 köku á mann og 0,5675 ost á mann. Verður það að teljast góðverk dagsins þar sem ég er of saddur til að gera fleiri góðverk í dag.
Þegar litið er til baka eru minningarnar yfirleitt betri en það sem maður upplifir þann daginn. Ástæðan er einföld, litlu atriðin gleymast. Hér eru því nokkur atriði sem ég mun ekki muna þegar ég lít til baka á þessa dagsetningu og öskra úr sorg yfir, að ég held, fullkomnum degi:

* Ég er sjúklega svangur.
* Ég hef sjaldan verið jafn líkamlega þreyttur og í dag.
* Mig klæjar endalaust í vinstra auga og hægra eyra.
* Ég hef áhyggjur af peningum.
* Ég kvíði því að fara til Reykjavíkur.
* Ég er ósáttur við hversu slöpp þessi færsla er.
* Latexofurhetjubúningurinn, sem ég er alltaf í innanundir, er orðinn svolítið þröngur og það skapar óþægindi.
* Ég þjáist af leti.

Þetta skal ég svo lesa yfir þegar ég sakna þessa tíma og velti fyrir mér af hverju ég naut lífsins ekki meira.

miðvikudagur, 17. ágúst 2005

Í gær skipti ég snöggt yfir á útvarpsþátt Þórhalls miðils þar sem hann var að tala við manneskju og segja henni að einhver draugur vissi allt um viðkomandi; bakverkinn, fjölskyldumál, gæludýr og ýmislegt fleira. Undir lokin sagði svo Þórhallur orðrétt: "Ertu sátt við mig?" og fékk svarið "Sátt? Ég er karlmaður!"

Draugurinn átti þá ekki að vita kynferðið á aumingja manninum, sem hélt að draugurinn væri frændi sinn. Maðurinn var ekki sáttur og ég gat ekki hætt að hlæja.
Hér eru nokkrar tilkynningar:

Karólína Bandýsjúklingur hefur nýlega bætt mér við í hlekkjasafn sitt. Ég get ekki verið minni maður heldur hlekkja á hana tvisvar. Bæði hér og hér. Og svo líka hér til hægri. Geri aðrir betur.

Bryngeir Daði Baldursson, drykkjumeistari og verðandi hótelstjóri, eignaðist í gær dreng. Að hugsa með sér. Veftímaritið óskar honum og kellu hans, Bylgju, til hamingju með frumburðinn og stingur upp á nöfnunum Finnur, Torfi, Téká og Ögmundur fyrir þetta afkvæmi og/eða næstu sem fylgja á eftir.

Ég hyggst keyra til Reykjavíkur á þriðjudaginn næsta þar sem ég mun klára Háskóla Reykjavíkur. Þarmeð líkur einu besta sumri sem ég hef upplifað, þrátt fyrir slæma byrjun. Ef einhver skemmtilegur þarf far, hafið samband. Ef einhver leiðinlegur þarf hinsvegar far, smelli hann hér.

Ég var að ljúka við að fá mér viðbótarsparnað í Landsbankanum. Þið sem hélduð að ég myndi deyja í sárri fátækt skjátlast illilega. Ég mun deyja moldríkur.

Ég má annars ekki vera að þessu. Ég þarf að drífa mig á fund.

þriðjudagur, 16. ágúst 2005

Vegna þess að ég ljóma allur af góðsemi hef ég ákveðið að benda ykkur á þrusu myndaforrit sem er ókeypis og algjörlega hálfvitahelt. Picasa heitir það og er gefið út af google. Skoðið það nánar hér.

Ég hef ekki sagt ykkur frá þessu forriti fyrr en nú af því ég hef verið illa fyrir kallaður.
Hreyfimyndin á síðu Simma, sem má sjá hér, olli því að mig dreymdi mjög blóðugan draum í nótt þar sem ég var laminn í poll eftir að hafa gefið einhverjum náunga kjaftshögg. Gott ef það var ekki esk- eða norðfirðingur. Mjög óþægilegur draumur. Eftir þessa lífsreynslu kann ég þó að meta miltað í mér betur, eins og öll önnur líffæri og ætla því að eyða deginum í að vera góður við líkama minn, jafn viðbjóðslegt og það hljómar.

mánudagur, 15. ágúst 2005

Í dag greiddi ég námsgjöld HR, leigu á nemendagörðunum og nemendafélagsgjald HR vetrarins. Upphæðin er slík að mig svimar, þó aðallega eftir fyrstu blóðælu vetrarins vegna peningaskorts.

Ég fer frá austurlandinu eftir viku. Ömurlegt.

Ég get þó huggað mig við að það er ný Arthúr strípa komin hér.
Ég er eiginlega farinn að hlakka til þess þegar það kemur í ljós að það er ekkert internet til og að ég sitji hvern dag fyrir framan pappakassa, ekki vitandi að ég er súrrandi geðveikur, pikkandi inn bloggfærslur sem enginn sér nema ég, skoðandi fréttir sem eru ekki til og spjallandi við fólk sem er allt í hausnum á mér.

En þangað til held ég þessu áfram.

sunnudagur, 14. ágúst 2005

Síðasta ball sumarsins var í gærkvöldi. Helvítis magn af fólki mætti, sjúkt stuð og allt vitlaust á kaffihúsinu. Skítamórall stóð sig vel, eins og svo oft og allir dönsuðu eins og villidýr.

Ég surfaði hinsvegar bara netið og las mig til um ballið en þetta er fyrsta sumarið í langan tíma sem ég sleppi öllum dansiböllum. Það helst að öllum líkindum í hendur við að hafa aldrei verið í jafngóðu líkamlegu formi og nú.

laugardagur, 13. ágúst 2005

Það er komin tími á að fara yfir markmið sumarsins og árangur hingað til:

* Vinna þar til ég brotna saman: 100% árangur.
* Borga skuldir alveg: 15% árangur.
* Bæta á mig 10 kg: 80% árangur.
* Borða lítið nammi: 0% árangur.
* Horfa ekkert á sjónvarp: 98% árangur.
* Ferðast um landið: 30% árangur.
* Kaupa stafræna myndavél: 100% árangur.
* Taka stafrænar myndir: 2% árangur.
* Spila mjög mikinn körfubolta: 10% árangur.
* Verða heimsins besti bloggari: 1203% árangur.
* Læra að það er ekki hægt að fara yfir 100% árangur: 532% árangur.

Mjög viðunandi árangur. Ef ég næ að þyngja mig um tvö kíló í viðbót verð ég sáttur, sérstaklega í ljósi þess að fituhlutfall mitt mældist 8% ca. Sú fita er öll í hauskúpunni á mér.

föstudagur, 12. ágúst 2005

Samkvæmt mjög áreiðanlegri fréttaheimild, sem ég greini ekki frá hver er af ótta við samkeppni, fannst nýlega áður óbirt mynd af Einstein þar sem hann var nýbúinn að komast að sinni ægilegu E=mc^2 formúlu. En þegar rýnt er betur í þessa mynd af kauða kemur í ljós að það eru mikilvægari niðurstöður á sömu töflu!

Kíkið hér á myndina. Þetta kemur í fréttir sjónvarpsstöðvanna í kvöld.
Enn eitt meistarastykkið af Sigurðarsonaættinni er komið í ljós. Fyrir þekkti ég Dassa og Björgvin Luther en nú hefur sá elsti af þeim bræðrum bæst við; Gísli Sig. Ekki nóg með að hann sé drengur góður og að það sé hrein unun að spila með eða á móti honum körfubolta heldur er nú komið í ljós að hann er einnig hnellinn á blaði.

Kíkið á síðuna hans hér.
Oft sér maður og heyrir slæmar hugmyndir að auglýsingum. Hér eru nokkrar sem ég hjó eftir:

* Staur súkkulaði auglýsingin er góð í sjónvarpi, þar sem fegurðardrottning ýmist keyrir eða hleypur á staura. Þessi auglýsing er þó jafn spiluð í útvarpi og þannig er hún óskiljanleg þar sem hún hljómar svona "Hæææ! UHHH! Staur, stendur upp úr".

* 11-11 er með fasta heilsíðuauglýsingu í Dagskrá vikunnar en það tímarit er aðeins gefið út á austurlandi. Í auglýsingunni eru matartilboð vikunnar rakin. Þetta er mesta peningaeyðsla sem ég hef heyrt um lengi þar sem 11-11 er ekki með verslun á austurlandi.

* Eitthvað sjampófyrirtækið tók upp á því að auglýsa í leikhléum á fótboltaleikjum um árið. Rándýrt auglýsingapláss og gagnlaust með öllu þar sem villimenn þvo sér ekki, hvað þá um hárið og allra síst með sjampói.

Auglýsingarnar eru þó ekki verri en svo að ég tók eftir þeim og skrifa um þær hér, sem framlengir lífi þeirra og eykur athygli. Öll athygli er betri en engin býst ég við.

fimmtudagur, 11. ágúst 2005

Í dag hefur hugmyndarflug mitt mælst í sögulegu lágmarki. Takið því tillit til aðstæðna þegar þið lesið eftirfarandi færslu:

Í gær fór ég í vinnuna. Þar vann ég til klukkan 16. Í hádeginu fékk ég mér að borða. Eftir vinnu fór ég á körfuboltaæfingu. Svo að borða. Að þessu loknu fór ég að sofa.

Ég vona að þið lærið að meta hugmyndarflug mitt betur hér eftir.
Í gær gleymdi ég eftirfarandi:

* Gleraugunum heima.
* Lyklunum að íbúðinni í vinnunni.
* Lyftingarplaninu heima, þriðja daginn í röð.
* Að það væri miðvikudagur en ekki þriðjudagur.
* Að hringja nokkur símtöl í vinnunni.
* Að versla ýmsar nauðsynjar.
* Að setja í þvottavél.
* Að taka úr þvottavél.

Svo lengi sem ég gleymi ekki hvernig á að tala eða labba þá er ég sáttur.

miðvikudagur, 10. ágúst 2005

Þá er nýja nafnið á nýja windowskerfinu komið í ljós en það kemur út eftir nokkur ár. Nafnið sem varð fyrir valinu er Vista. Windows Vista.

Þá get ég sofið rólegur. Ég hef haft þá skelfilegu tilfinningu að nýja Windows kerfið myndi heita "Tittlingur", "sveittur pungur" eða eitthvað álíka vandræðalegt fyrir íslenska tungu. Ég vil síður vera að vinna á "Windows Tittling" þegar ég spjalla við dömurnar. Fjúkk.
Hér er listi yfir það sem ég þarf að gera fyrir fæturnar á mér þessa dagana og vikurnar:

* Spila körfubolta með teygjudrasl á vinstri rist.
* Spila körfubolta með einhverskonar hnéhlíf á hægra hné.
* Kaupa og taka inn rándýr bólgueyðandi lyf vegna hægri hnés.
* Skreppa í uppskurð á hægri fótlegg vegna einhverra íþróttameiðsla.
* Skreppa í segulómun á hægra hné vegna bólgu.
* Saga af mér lappirnar til að losna við meiðslin.

Spennandi tímar!

þriðjudagur, 9. ágúst 2005

Hér er viðbótartölfræði við þessa færslu en hún tengist ferðalagi mínu um landið 4.-7. ágúst síðastliðinn:

Ferðir í bíó að sjá The Island: 1
Fjöldi skipta sem myndin fær 3 stjörnur af fjórum: 1x

Stöðvaður af löggunni á Selfossi fyrir að keyra of hratt: 0x
Stöðvaður af löggunni á Selfossi fyrir að vera of fallegur: 0x
Stöðvaður af löggunni á Selfossi útaf engu og sleppt strax: 1x

Hlutum týnt í ferðinni: 253
Hlutir fundnir aftur skömmu síðar: 253

Sigurvegari í 'hver er maðurinn' leiknum á leiðinni: 2x
Tapari í 'hver er maðurinn' leiknum á leiðinni: 29x

Ég get ekki beðið eftir að taka annað svona ferðalag.
Eins og áður hefur komið fram fjárfesti ég í nýrri stafrænni myndavél nýlega í för minni um landið. Þetta er fjórða stafræna myndavélin sem ég eignast og fyrsta góða vélin en ein þeirra varð úrelt, önnur reyndist vera drasl og sú þriðja enn meira drasl. Þetta þýðir aðeins eitt; myndasíðan alræmda mun lifna við á næstunni ef fer fram sem horfir. Það vantar þó eitt núna og það er myndefnið. Til að redda því hef ég ákveðið að fremja eftirfarandi atburði á næstunni:

* Gönguferðir víðsvegar í fríðu föruneyti
* Áfengispartý í sjúskuðu föruneyti
* Kynlífspartý í úthaldsgóðu föruneyti
* Spilapartý í skemmtilegu föruneyti
* Lærdómspartý í gáfuðu föruneyti
* Ferðalög víðsvegar um landið í frábæru föruneyti

Fleiri tillögur eru vel þegnar. Færri tillögur eru hinsvegar illa þegnar.
Í dag eru 60 ár frá síðari kjarnorkuárás Bandaríkjamanna á Japan en þá voru borgirnar Hiroshima og Nagasaki sprengdar í tætlur. Hér er smá tölfræði:

Ár/Borg/Mannfall/Árásaraðili
1941/Oahu, Hawaii (Pearl Harbor)/2.403 manns/Japan
1945/Hiroshima/237.062 manns/Bandaríkin
1945/Nagasaki/um 150.000 manns/Bandaríkin
2001/New York/2.752 manns/Óvíst

Betra að taka það fram að þessi listi er tæmandi yfir árásir á Bandaríkin síðustu 70 ár en alls ekki tæmandi yfir lönd sem Bandaríkin hefur sprengt í tætlur á sama tíma.

Greyið Bandaríkjamennirnir.

mánudagur, 8. ágúst 2005

Ég geri fjögra daga roadtrippið, sem var að ljúka nýlega, upp í gegnum tölfræðiupplýsingar, en ekki hvað:

Gistinætur á gistiheimili: 1
Gistinætur á tjaldstæði í Vaglaskógi: 1

Gönguferðir um Dimmuborgir: 1
Sundferðir á Illugastöðum: 1

Fjöldi keyptra stafrænna myndavéla: 1
Fjöldi keyptra nærbuxna: 2
Fjöldi of mikilla upplýsinga hér að ofan: 1

Tekinn fjöldi mynda: 20 stk.
Birtur fjöldi mynda á gsmbloggið: 10 stk.

Laugarvegurinn genginn með Óla Rú klukkutíma fyrir Gay Pride dótið: 1x
Fjöldi "eruði að koma úr skápnum saman?" spurninga á Laugarveginum: 2x
Skipti sem ég öskraði "NEI!" eins hátt og ég gat við spurningunni að ofan: 37x

Fjöldi kílóa af mat borðaður í ferðinni: 1,5
Fjöldi kílóa af nammi borðaður í ferðinni: 23

Fjöldi tíma í bíl: 20
Fjöldi tíma sofandi: 17
Fjöldi tíma borðandi: 2
Fjöldi tíma í sund/gönguferð: 4
Fjöldi tíma í annað: 51,5
Lengd ferðar í tímum: 94,5

Niðurstaða: Þrjár og hálf stjarna af fjórum. Hefðum mátt eyða meiri tíma í náttúrunni. Það er aðeins eitt við því að gera; fara fljótlega aftur í svona ferð.
Kirkjan í Dimmuborgum skoðuð í gær, sunnudag.
Ég hef snúið aftur til skrifa eftir fjögra daga frí frá lífinu og þriggja daga frí frá veftímaritinu en þetta frí fól í sér að ferðast um landið á glæsibifreiðinni Hannibal með Soffíu og Sigrúni Önnu. Ég vann þó 20% vinnu á veftímaritinu við að taka myndir og senda inn á gsmbloggið, sem þið getið séð hér.

Allavega, ferðasagan verður rakin bráðum. Þangað til; skoðið teiknimyndasögu okkar Jónasar sem ber heitið Arthúr og er að finna hér. Ný saga í dag eða alla mánudaga og fimmtudaga.

Ég er að vinna í því að finna eitthvað fyndið að segja. Sú vinna gengur hægt.

fimmtudagur, 4. ágúst 2005

Þá er komið að enn einu fríinu á veftímaritinu. Ritnefnd 'Við rætur hugans' hefur fengið frí á morgun á skattstofunni og stefnir á roadtrip um landið með Soffíu. Ótrúlegt hvað bíllinn hennar rúmar.

Ritnefndin biður ykkur því vel að lifa fram á sunnu- eða mánudag, þá getið þið farið að lifa illa aftur.

Ef ykkur þyrstir í fréttir þá kíkið á gsmbloggið hér, sem ritnefndin hyggst uppfæra með símanum sínum, hvar sem hún verður, eins oft og hún mögulega getur.

Góða helgi og gott frí frá þessari síðu.
Ég er ekki frá því að ég hafi komist í kynni við annað hvort heimskasta eða ótillitssamasta mann Skandinavíu í ræktinni í gær, en þó sennilega bæði. Það voru ca 10-12 manns að lyfta í lyftingarsal Egilsstaða í gær, hlustandi á tónlistarstöð, þegar inn gekk miðaldra badmintonspilari. Hann gerði sér lítið fyrir og skipti yfir á umræðuþátt á rás 1 og sagðist ekki trúa að fólk vilji í alvöru hlusta á þessa tónlist.

Í hausnum á mér réðust allir viðstaddir á manninn og lömdu í blóðmör en í raunveruleikanum gekk steraþrútin stúlka að tækinu og skipti aftur yfir á tónlistina. Þetta blöskraði fíflinu svo að hann gekk út við mikinn fögnuð viðstaddra. Ef ég hefði haft á mér riffil hefði ég skotið upp í loftið og öskrað eitthvað óskiljanlegt, slík var gleðin.

miðvikudagur, 3. ágúst 2005

Ég komst nálægt meti mínu hvað íþróttir varðar þegar ég stundaði stanslaus átök frá klukkan 18:00 til 23:00 eða í 5 tíma í gær. Lyftingar í tvo tíma og bandý í þrjá. Í dag ber líkami minn þess bersýnilega merki þar sem ég á erfitt með gang og í ljósi þess að ég elska sársauka, brosi ég allan hringinn eða því sem næst.

Í dag er svo áætlað að lenda í slagsmálum við móturhjólaribbalda og jafnvel æsta innhringjendur á skattstofuna um leið og ég hlusta á sálina hans jóns míns og geng í alltof þröngum nærbuxum.
Hér er tæmandi listi yfir það sem ég gerði um verslunarmannahelgina 2005 (meira endurminningar fyrir mig að nota í ævisögu mína seinna meir en nokkurntíman skemmtilestur):

Laugardagurinn 30. júlí:
Þriðji frídagurinn minn í sumar.
Ég nýtti hann í sund og í að gera alls ekki neitt.

Sunnudagurinn 31. júlí:
Fjórði frídagur sumarsins.
Sló skattstofugarðinn eins og maður.
Lyfti lóðum eins og simpansi.
Synti eins og górilla.
Göngutúraði um Egilsstaðaskóg með Soffíu.

Mánudagurinn 1. ágúst:
Fimmti frídagur sumarsins.
Borðaði.
Skokkaði með Soffíu um Egilsstaðaskóg.
Afslappaði um kvöldið.

Þar hafið þið það. Hættið svo að spyrja!
Hver ætli refsingin sé í Portúgal fyrir að vera yfirvaraskeggslaus karlmaður eftir fertugt? Ég sá 5-6 portúgali saman á röltinu í gær og þeir voru allir með aðdáunarvert yfirvaraskegg. Spurning hvort ég byrji að safna núna svo ég verði kominn með viðunandi yfirvaraskegg þegar og ef ég næ fertugsaldri.

þriðjudagur, 2. ágúst 2005

Það er vægast sagt erfitt að vera ég. Hver ákvörðun er gríðarlegt ferli eins og ég mun sýna fram á með eftirfarandi formúlu. Aðgerð er hrint í framkvæmd ef:

A + B*(X + Y) + C*(U + X) < D*(U + X) + E

A = Letistuðull
B = Þreytustuðull
X = Andlegur þáttur
Y = Líkamlegur þáttur
C = (1-D) = Ágóði á að gera viðkomandi aðgerð ekki
D = (1-C) = Ágóði á að gera viðkomandi aðgerð
U = Fjárhagslegur þáttur
E = Stig sem ég fæ hjá stelpum fyrir að gera viðkomandi aðgerð

Á mannamáli: Ef letin, þreytan og ágóðinn af því að gera eitthvað ekki er minni en fjárhagslegur og andlegur ágóði auk stiga sem ég skora hjá stelpunum fyrir að gera umrædda aðgerð, þá geri ég hana. Annars ekki.

Hver einasta ákvörðun dagsins fer í gegnum þessa formúlu mína. Lífið er erfitt en líf mitt er sérstaklega erfitt.

mánudagur, 1. ágúst 2005


Þá er komið að því. Myndasögur okkar Jónasar eru tilbúnar og nú hefur síða verið gerð undir herlegheitin. Myndasagan ber nafnið Arthúr og fjallar um kjarna lífsins.

Kíkið á Arthúr hér. Það kemur ný myndasaga alla mánudaga og fimmtudaga. Njótið.

Mér þætti einnig vænt um ef þið sæuð ykkur fært að hlekkja á afkvæmið.