þriðjudagur, 31. mars 2009

Fyrir rúmri viku fékk ég gefins vikuaðgang í baðstofu Lauga í gegnum vinnuna hjá 365. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er baðstofan fínni og dýrari aðgangur að Laugum en almenningum má venjast. Svona eins og VIP í bíó.

Allavega, nú er þessari viku lokið og ég þarf að klæða mig í og úr fötunum með sótsvörtum og ógeðslegum almúganum aftur. Hér er listi yfir muninn á skiptiklefunum:

* Skáparnir eru ca 50% stærri í Baðstofunni.
* 50% fleiri krókar eru í skápunum í Baðstofunni.
* Starfsfólkið gengur ekki um og skellir opnum skápahurðum í Baðstofunni.
* Starfsfólkið ryksugar ekki á milli lappanna á manni þegar maður er að klæða sig í Baðstofunni.
* Maður þarf ekki að burðast með handklæði í Baðstofuna, þar sem þau bíða manns við sturtuna.
* Skilrúm er í sturtunni, svo maður þarf ekki að fara í sturtu með fólki í Baðstofunni.
* Fríir eyrnapinnar eru í Baðstofunni.
* Róandi tónlist spilast í Baðstofunni, ólíkt öskrunum, látunum og slagsmálunum hinum megin.
* 250.000.000% fleiri eru í almenna aðganginum en Baðstofunni.
* Drykkjarvatnið er 30% volgara í Baðstofunni.

Ég legg mikla áherslu á að fá kalt vatn þegar ég afklæðist, svo ég er nokkuð feginn því að þessi vika sé búin.

mánudagur, 30. mars 2009

Örsaga í upptalningauppsetningu:
1. Töff 14 ára bolurinn minn fékk á sig feiti um daginn sem náðist ekki úr.
2. Ég var ekki töff á meðan.
3. Ég prófaði að setja uppþvottalög á blettinn og þvoði aftur.
4. Það virkaði.
5. Ég er kominn aftur með töff 14 ára bolinn.
6. Nettó töffaraskapur minn minnkaði þó um 35% við að finna upp heimilisráð.
7. Ég sé eftir að hafa ekki hent bolnum á meðan ég gat.

sunnudagur, 29. mars 2009

Um daginn fékk ég í fyrsta sinn greitt fyrir að hjálpa með tölfræði- og Excelvinnslu. Ég reyndi að afþakka en það er erfitt þegar greiðslan er skúffukaka.

Þetta gjörbreytir gjaldskrá minni en hingað til hefur hún verið 0 krónur/klst. Hér eftir verður verðið 100 grömm skúffukaka/klst. Nema auðvitað að vinkomandi vilji/geti ekki borgað, þá gildir gamla gjaldskráin.

föstudagur, 27. mars 2009

Ég hef loksins fjárfest í nýrri sæng sem er 10% lengri en sú gamla. Það ætti að koma í veg fyrir að ég frysti af mér tærnar eða fái hryggskekkju á því að vera í fósturstellingunni undir sænginni, hágrátandi úr kulda.

Ekki nóg með þetta því ég keypti mér verkjatöflur í dag. Næsti VISA reikningur mun líklega buga mig.

En þá að aðalefni pistilsins; gamla sængin mín fæst gefins, gegn því að afhendingargjald sé greitt, 25.000 krónur. Áhugasamir hafi samband með öllum tiltækum ráðum.

fimmtudagur, 26. mars 2009

Það er komið að þeim bloggfærslum sem aldrei rata inn á síðuna af ýmsum ástæðum:

* Ég bloggaði um það þegar mér tókst að lyfta 100 kg í bekkpressu fyrir einhverju síðan. Um daginn tók ég bekkpressu og reyndi við 100 kg. Mér tókst ekki að ná þeim upp og tognaði næstum í lærvöðva í leiðinni. Um það mun ég aldrei blogga!

* Ég skrifa aldrei um tiltektir hjá mér. Góð ástæða fyrir því.

* Ég spila póker á netinu og stundum vinn ég. Þá skrifa ég langar og ítarlegar færslur með myndum. Jafn oft tapa ég. Þá kýli ég í vegg öskrandi.

* Ég átti mjög góðan dag um daginn, sem innihélt rækt, heitan pott, ljósatíma (?!) og út að borða með vinkonu. Ekkert fór úrskeiðis, góðar máltíðir og snemma að sofa. Því var engin ástæða til að skrifa um það.

* Pet Shop Boys er að gefa út nýja plötu. Fyrsta lagið af plötunni hefur verið gefið út. Það heitir Love Etc og er nokkuð grípandi. En þetta eru Pet Shop Boys, svo ég myndi líklega aldrei deila laginu á þessari síðu:

miðvikudagur, 25. mars 2009

Hér er það helsta í fréttum:

* Ég tók mér frí fyrir hádegi í dag til að kaupa mér nýja sæng og fleira. Ég náði að sofa yfir mig í vinnuna og keypti ekkert. Besta frí sem ég hef tekið.

* Eftir rúm 10 ár af því að sofa með fæturnar undan sænginni minni hef ég ákveðið að kaupa stærri sæng. Framtakssemin væri gríðarleg, ef ég hefði ekki sofið yfir mig í morgun.

* Áður en ég sofnaði í gærkvöldi skrifaði ég nokkur minnisatriði í lófann á mér. Þegar ég vaknaði svo í morgun voru atriðin komin á ennið á mér, eftir að ég hafði sofnað með lófann á enninu.

* Ég hef eignast nýjan uppáhaldsgrínista. Hann heitir Louis CK og á meðal annars þetta uppistand og þennan rándýra skets:

þriðjudagur, 24. mars 2009

Ég var að koma af myndinni Last Chance Harvey (Ísl.: Síðustustundar-Sigtryggur) sem sýnd var í Háskólabíói.

Þessi bíóferð var stórmerkileg fyrir margar sakir. Þó aðallega eftirfarandi sakir:

* Aldrei áður hef ég farið í bíóferð þar sem gestirnir öskruðu á tjaldið þegar eitthvað var að gerast, reynandi að sannfæra leikarana um að gera eitthvað annað (fyrir utan eina Rambó sýningu).

* Aldrei áður hef ég farið í bíósal sem hefur aðeins innihaldið gullfallegt og skemmtilegt fólk. Mér fannst, á tímabili, eins og ég væri staddur í fegurðarsamkeppni.

* Bíógestir voru takandi myndir eins og fífl, sem reyndar truflaði mig ekki.

* Ég tók þátt í standandi lófataki eftir myndina, eins og allir aðrir gestir. Svo góð var stemningin. Gott ef einhver blístraði ekki líka.

* Ég var 33% allra gesta sýningarinnar. Nei, ég hef ekki fitnað eða stækkað. Við vorum þrjú. Ég, Björgvin og Svetlana.

Hér eru nokkrar myndir úr myndasessioninu:

Björgvin nokkuð ánægður með myndina.

Gestir sýningarinnar frá vinstri: Ég, Björgvin og Svetlana.

Björgvin og Svetlana eftir að Björgvin kastaði kókglasinu í tjaldið.

Ég held að myndin hafi fjallað um einhverskonar skúffukökur. 2,5 stjörnur af 4.

mánudagur, 23. mars 2009

Sebastien Tellier hefur gefið út annað myndband. Í þetta sinn við lagið Kilometer, sem er eitt af mínum uppáhalds:


Og nú er þetta eitt af mínum uppáhaldsmyndböndum. Sérstaklega pylsuhlutinn.

Akkúrat svona hafði ég ímyndað mér partíin með honum.

laugardagur, 21. mars 2009

Í dag lærði ég að ég vil öllum vel. Í dag vildi ég t.d. að náungi sem ég þekki ekkert kynni varalestur. Nánar tiltekið þegar ég beið á gatnamótum og hann beygði án þess að gefa stefnuljós. Hann leit á mig og um leið og ég öskraði "Gefðu stefnuljós, hálfvitinn þinn!".

Ég er betur innrættur en ég hélt.
Enn ein vinnuvikan að klárast og ég lifi enn. Hér er upptalning yfir þá sem eiga þakkir skyldar fyrir vikuna sem er að líða:

1. Sverrir leigusali fyrir að lækka leiguna um 35% og koma þannig í veg fyrir að ég þurfi að selja mig (kynferðislega) til að greiða leiguna, þar sem ég leigi nú einn.

2. Magga fyrir að nenna með mér í ræktina og fyrir að bjóða upp á súpu eftir rækt.

3. Björgvin bróðir og Heiðdís fyrir að nenna með mér í rækt og fyrir að koma með mér í bíó.

4. Þóra Elísabet fyrir að bjóða í íspartí þar sem hamingja í ísformi var á boðstólnum; Risahraunís!

5. Samkaup fyrir að hætta að selja Bertolli smjörið. Ég var orðinn óþarflega háður því.

6. Klippikonan á Kristu í Kringlunni fyrir að klippa mig eins og herramann í dag fyrir aðeins kr. 4.000.

7. Vinnan mín fyrir að reka mig ekki.

Ef ég er að gleyma einhverjum; hættu að tala við mig. Öðruvísi læri ég ekki. Til þeirra sem eru á listanum; takk!

fimmtudagur, 19. mars 2009

Nokkur kvót úr mínu daglega lífi:

Ónefndur karlmaður: "Ég fékk mér fiskinn í mötuneytinu áðan og þurfti að skera úr mér magann á eftir svo ég dræpist ekki úr ógeði."

Ónefndur karlmaður: "Guðrún. Ég og þú. Ein og hálf mínúta."
Guðrún: "Ertu svona snöggur?"
Ónefndur karlmaður: "Ég eyði ekki meiri tíma í konu eins og þig."

Ónefndur karlmaður: [Við hóp af fólki] "Guðrún er mesta naðra sem ég þekki!"
Guðrún: "Ég var ekkert að stela af þér!"
Ónefndur karlmaður: "Ef ég væri maðurinn þinn myndi ég berja þig."

Guðrún gengur inn í fullt herbergi af fólki.
Ónefndur karlmaður: "Guðrún, ég hugsa að ég myndi alveg taka hring á þér."
Guðrún: "VÚHÚ!"

Öll raunveruleg nöfn eru tekin út og skálduð sett í staðinn. Ég er ekki þessi ónefndi aðili. Ég er náunginn sem hlær í 5 mínútur eftir hvert atriði.

Og þetta er alltaf sagt í góðu sprelli, svo það sé á hreinu.

miðvikudagur, 18. mars 2009

Það er löglegt að heita Hraunar og Rist á Íslandi. Af hverju hlær fólk að mér þegar ég sting upp á nafninu Risa Hraun við fólk sem er nýbúið að eignast börn? Mjög svipuð nöfn.

þriðjudagur, 17. mars 2009


Síðustu tvö kvöld hef ég farið í bíó til að bæta upp fyrir umtalsvert metnaðarleysi í bíóferðum síðasta mánuðinn.

Í gærkvöldi sá ég myndina Marley and me sem fjallar um fjölskyldu og hvernig hún vex.

Í kvöld sá ég myndina Watchmen, sem er ofurhetjumynd og ég er ekki alveg viss um hvað er.

Þessar tvær myndir, þó á yfirborðinu virðist ólíkar, eiga eitt veigamikið atriði sameiginlegt; í hvorri mynd fyrir sig er eitt atriði sem truflar myndina, svo ekki sé meira sagt.

Í Marley and me er einhver helvítis hundur alltaf truflandi söguþráðinn svo erfitt er að hafa gaman af henni. Reyndar ekki séns að hafa gaman af jafn daufri og leiðinlegri fjölskyldumynd, nema maður hafi gaman af óþolandi hundum.

Í Watchmen er það typpi. Ein aðalpersónan gengur um á typpinu allan tímann. Og það er ekkert falið. Ég er ekki kveif, bara óvanur því að sjá typpi í einhverju sem ég hélt að ætti að vera rómantísk ofurhetjugamanmynd.

Marley and me: 1 stjarna af 4.
Watchmen: 2 stjarna af 4.

mánudagur, 16. mars 2009

Hér er viðvörun til allra vina minna. Sá orðrómur er í gangi að maður þurfi maka og að stofna fjölskyldu með makanum til að verða hamingjusamur. Það er vitleysa!

Í kvöld smakkaði ég skúffuköku með kókoskurli frá Myllunni í fyrsta skipti. Og ég varð hamingjusamur, slík var alsælan.

Lærdómur: Ekki eignast maka og börn! Fáið ykkur skúffuköku með kókoskurli frá Myllunni í staðinn, til að vera hamingjusöm.

Ég má ekki við því að missa fleiri ræktar- og bíófélaga.

sunnudagur, 15. mars 2009

Nýlega fékk ég senda ávísun frá Sjóvá. Hún var send mér þar sem ég var slysalaus á síðasta ári og fékk því endurgreiðslu.

Til að sýna fram á að ég sé ekki háður auðvaldssvínunum þá gerði ég þetta:


Eftir það fór ég beint inn á Sjóvá.is og millifærði inneigninni á reikning hjá mér, eins og leiðbeiningar sem fylgdu ávísuninni sögðu hvernig átti að gera.

laugardagur, 14. mars 2009

Ég hef orðið uppvís að því að uppfært uppáhalds upphafssíðuna mína sem upphaflega átti að nota í að upphlaða myndum og öðru drasli. Ég upplýstist þó nýlega þegar ég uppgötvaði betri uppsetningu á síðunni og breytti henni því.

Hér má sjá nýju síðuna rassgat.org.

föstudagur, 13. mars 2009

Dúxinn og ræktarfélagi minn, Rebekka Líf, hefur hafið bloggskrif á ný, eftir 3ja ára kaffipásu. Hér má finna blogg hennar.

Hún fær einnig 4% allra blogghlekkja hér til hægri.
Áður en meira er búið af deginum koma hér nokkrar FAQ (algengar spurningar), svo síminn minn hætti að hringja og vinnufriður fáist. Ég byrja á þremur spurningum frá mér:

1. Af hverju heita vörur, sem ekki er hægt að vera atvinnumaður í að nota, Professional? Dæmi: Tannburstar (Colgate Professional), tyggjó (Extra Professional).
Svar óskast.

2. Af hverju kaupi ég alltaf vörur sem heita Professional?
Svar óskast.

3. Af hverju líður mér alltaf rosalega vel við að nota vörur sem heita Professional, eins og ég sé merkilegur, jafnvel atvinnumaður?
Svar óskast.

4. Ertu...
Nei, ég er ekki með svipuför í framan. Ég gjörtapaði ekki heldur í slagsmálum í nótt. Ég svaf á andlitinu.

5. Þú lítur út fyrir að vera gáfaðri í dag en í gær, stemmir það?
Já, ég kláraði bók í gær. Bók sem ég hef verið að lesa frá jólum. Hún heitir Sólkross eftir Óttar M. Norðfjörð.
Bókadómur: Hress bók. 2,5 stjörnur af 4.

Ef lesendur hafa fleiri spurningar, hnoðið þeim í athugasemdir.

fimmtudagur, 12. mars 2009

Hér eru nokkrar skilgreiningar á flóknum hugtökum, algjörlega ótengdar þeim ósköpum sem gerast daglega í mínu lífi:

Skilgreiningin á þroska:
Að geta ekki beðið eftir að komast úr verslun til að prófa nýja mýkingarefnið sem var að koma í búðir.

Skilgreining á því að vera sorglegur:
Að skrifa reynslusögu á bloggið sitt um að vera orðinn miðaldra, viðurkenna ekki að þessi saga eigi við um hann og segja það merki um þroska.

Skilgreining á depurð:
Að fatta í miðjum bloggfærsluskrifum, að viðkomandi sé orðinn miðaldra.

miðvikudagur, 11. mars 2009

Í kvöld átti sér stað aulahrollur allra aulahrolla. Svo mikill var aulahrollurinn að þessi dagur, 11. mars, verður hér eftir þekktur sem aulahrollsdagurinn, þegar Reykjavík fékk flogakast úr aulahrolli.

Sjá nánar hér.

Svo mikill var aulahrollurinn að ég kastaði upp úr aulahrollinum í kvöld, þegar ég fattaði að þetta væri byrjað.
Ég tók mér frí til hádegis í dag, af því bara. Þegar ég mætti í vinnuna biðu mín svo mörg verkefni að ég verð að vinna til 20:00 í kvöld.

Það mistókst semsagt að taka frí í dag.

Í dag fékk ég svo e-mail frá yfirmanni mínum þar sem hann hvetur mig til að taka út sumarfríið frá 2008, sem ég á enn inni, áður en það rennur út og hverfur í hyldýpi minninganna. Vantar einhvern frídaga? Fást ódýrt.

þriðjudagur, 10. mars 2009

Aldrei hefur teiknimyndasaga náð að fanga minn innri mann jafn vel og Pondus á laugardaginn (smellið á myndina fyrir stærra eintak):


Ég væri þá þessi í gula bolnum, stelpan væri röddin í hausnum á mér og Nonnabáturinn ca allt sem ég geri.
Nokkrir hlutir koma mér í vont skap. Þeir eru eftirfarandi:

* Að vera klæddur í þröngar buxur.
* Að vera mjög þreyttur.
* Að hlusta á U2 og Sálina hans Jóns míns.
* Að finnast eins og ég sé að verða veikur.
* Ótillitsemi annarra.
* Hægfara vitleysingar í umferðinni.
* Að kýla í vegg þar til blæðir úr hnefanum.

Svo skemmtilega vill til að öll þessi atriði hafa komið fyrir mig í morgun, nema það síðasta. Ef fer fram sem horfir verður það komið áður en ég næ að klára þe

sunnudagur, 8. mars 2009

Í tónlistarfréttum er þetta helst:

Sebastien Tellier hefur gefið út myndband við lagið Roche af disknum Sexuality. Myndbandið er sérstakt svo ekki sé meira sagt og lagið stórgott, sem er gefið þegar Tellier á í hlut.

Ég er sérstaklega ánægður með senuna þegar hann liggur í sandinum með risastóran hvítan bolta á sér í hálfa sekúndu (1:24). Myndbandið er hér að neðan:



Nýlega heyrði ég lag í útvarpinu sem mér fannst áhugavert. Svo áhugavert að ég varð að eignast það.

Nú, 3 dögum síðar á ég erfitt að hemja mig frá því að rífa mig úr að ofan þegar ég heyri það. Líklega eitt af lögum ársins hjá mér.

Lagið heitir Quicksand og er með bresku popp/electro sveitinni La Roux:



Skemmtileg tilviljun að bæði myndböndin byrja nánast eins. Andlit í sjónum við sólsetur/sólarupprás.

laugardagur, 7. mars 2009

Ég áttaði mig nýlega á því, til mikillar skelfingar, að vegabréfið mitt er útrunnið. Ég hata reyndar ferðalög erlendis meira en syndina en ég hata þó ennþá meira að vera óviðbúinn. Svo ég hyggst endurnýja vegabréfið.

Ég fæ að velja mynd í vegabréfið. Ég er gríðarlega valkvíðinn en hef þó náð að fækka valmöguleikunum niður í tvær myndir. Ég bið lesendur hérmeð um að hjálpa mér að velja.

Fyrri myndin er tekin í partíi fyrir tveimur árum. Ég er mjög sáttur við hana þar sem hún fangar minn innri mann nokkuð vel:


Margir kvörtuðu þó yfir því að ég væri of alvarlegur á henni, að mitt stórbrotna bros væri falið á bakvið þessar munúðarlegu varir.

Fyrir nokkrum kvöldum bætti ég úr því og brosti fallega fyrir myndavélina. Ég viðurkenni að ég var eiginlega búinn að gleyma hvernig ætti að brosa, en ég reyndi þó mitt besta. Hér er niðurstaðan:


Hvað segja lesendur; bros eða brosleysi?

fimmtudagur, 5. mars 2009

Ég spilaði póker (Texas hold'em) gegn náunga á netinu í gær sem ber heitið 7Russian7.

Þetta gerðist í upphafi leiksins:


Ég vann spilið en mér finnst þó eins og ég hafi tapað.
Í gærdag hafði ég ekki farið í bíó í 18 daga, sem er nóg til að gera mig lauslátan í bíóferðamálum.

Í gærkvöldi fór ég svo í bíó. Aldrei þessu vant valdi ég góða mynd í lauslæti mínu og skemmtilegan bíófélaga; Stuðmund 2500.

Myndin var The International sem fjallar um fjöldamorðingjabanka og tilraunir til að stoppa hann. Góð mynd, þrátt fyrir að Naomi Watts viti ekki hvernig hún eigi að vera í henni. Þrjár stjörnur af fjórum.

Allavega, Clive Owen leikur aðalhlutverkið en hann lék einmitt aðalhlutverkið í myndinni Shoot'em up sem ég sá fyrir nokkrum árum. Ég ákvað því, eftir bíóferðina, að horfa á Shoot'em up og uppgötvaði að þar er á ferðinni epískt meistaraverk!

Hér er myndbrot, sem er fullkomlega lýsandi fyrir alla myndina:



1. Hann drepur mann með gulrót.
2. Hann kemur með besta pun (ísl.: orðaleikur) kvikmyndasögunnar.
3. Hann bjargar lífi.

Ég get erfiðlega mælt nógu mikið með henni.

þriðjudagur, 3. mars 2009

Þegar ég millifæri peninga á aðra í gegnum heimabankann velti ég því stundum fyrir mér hvort einhver muni hakka heimabankann einhverntíman.

Og ef svo er, hvort viðkomandi myndi fletta mér upp og mínum færslum. Og þá hvort um væri að ræða stelpuhakkara. Nánar tiltekið skemmtilegt og gullfallegt módel.

Þannig að ég enda alltaf á því skrifa rangar útskýringar á millifærslunum, í þeirri von að heilla viðkomandi stelputölvuþrjót. Nokkur dæmi:

[Smellið á mynd fyrir stærra eintak]
.

Eins og sjá má í töflunni hef ég fengið vin til að hjálpa mér með þetta verkefni gegn vægu gjaldi. Hann segir mig örvæntingafullan. Ég segi mig nýungagjarnan.
Ég fer að verða úrkula vonar um að geta vaknað á morgnanna. Nýlega fékk ég mér útvarp sem kveikir á sér þegar ég á að vakna. Hljómar mjög áhrifaríkt en hugur minn nær að sneiða framhjá því.

Í morgun dreymdi mig gullævintýri í Afríku með Guðna Ágústssyni þar sem ótrúlegt magn upplýsinga kom fram um gull og demanta.

Þegar ég svo rumskaði hafði útvarpið verið í gangi í ca hálftíma og morgunútvarp Rásar 2 að kveðja. Það hafði tekið viðtal við gull- og demantasérfræðing, hvers rödd var mjög lík rödd Guðna Ágústssonar.

Ég fékk þetta staðfest á netinu með því að hlusta á upptöku þáttarins hér (þegar ca 93% er búið af þættinum). Ótrúlegt að geta hlustað á drauminn sinn.

Á morgun stefni ég á að vakna við lýsingar ofurhetju á því hvernig það sé að fljúga (mögulega í gegnum tíma og rúm).

mánudagur, 2. mars 2009

Á föstudaginn spilaði ég póker með pókerklúbbnum Fljúgðu Haukur [ekki spyrja út í nafnið]. Alls vorum við 11. En það er ekki fréttnæmt.

Það sem er hinsvegar fréttnæmt er að ég fór tvisvar sinnum all-in (veðjaði öllum peningunum mínum) þegar ég átti 365 chips eftir. Ég vinn hjá 365. Og ég vann í bæði skiptin með 365 chips, nema í annað þeirra.

Ég lenti í 7. sæti, sem er 600% verri árangur en 1. sætið. Og nú eru liðnir 365 dagar frá því ég vann pókerkvöld síðast! Ótrúlegt.

sunnudagur, 1. mars 2009


Þennan bíl lét Avant mig fá, gegn því að ég greiddi hann niður smámsaman. Frá og með þessari mínútu á ég hann, loksins.

Verst að núna á LÍN mig og þarmeð bílinn.