föstudagur, 31. ágúst 2012

Sjálfsviðtal númer 73

Það er löngu kominn tími á sjálfsviðtal á þessari síðu, samkvæmt æstum e-mailum sem ég hef fengið undanfarið engum.

Í tímaritinu "Lífið" sem fylgir Fréttablaðinu í dag er viðtal við Lindu Pétursdóttir, með spurningalista og "dagur í lífi Lindu" lið. Á hún virkilega skilið svona viðtal frekar en ég, þó hún sé að gera eitthvað við líf sitt og að ég hafi ekki unnið fegursta kona heims (ennþá)?

Já, reyndar. En mig langar að svara þessum spurningum, svo hér eru mín svör:

Starf? Greinir (Ens. analyst) hjá 365.
Aldur? 34 ár.
Hjúskaparstaða? Góð.
Börn? Núll.
Upphafssíðan? Gmail.
Tímaritið? Lifandi vísindi.
Fyrirmyndir þínar? Jeff "The Dude" Lebowski.
Áhugamál? Körfubolti, hreyfing, leðuriðja, kvikmyndir og nammiát.
Uppáhaldshönnuður? Markus Dressmann.
Uppáhaldsmatur? Kjúklingur og/eða soðin ýsa með Risahrauni.

Dagur í lífi Lindu Finns
08:45 Vakna við vekjarann. Snooza í 45 mínútur.
09:30 Rogast á fætur og fer í vinnu.
12:30 Fer í mötuneytið og gríp með mér samloku og 500 krónum af nammi til að borða við skrifborðið.
18:00 Drattast heim.
18:05 Heima. Fæ mér morgunkorn. Legg mig.
21:00 Rumska, tveimum tímum seinna en ég ætlaði mér.
21:30 Fer í ræktina.
23:30 Kominn heim aftur. Fæ mér örbylgjupizzu. Horfi á mynd, þátt eða eitthvað á Youtube.
00:30 Geri mig tilbúinn að fara að sofa.
02:00 Fer að sofa.

Þar hafiði það. Örlítið brot úr stórbrotnu lífi mínu. Nú á ég mér engin leyndarmál lengur.

þriðjudagur, 28. ágúst 2012

Nýmóðins SMS skrif

Nokkur atriði sem þarf að vekja athygli á áður en ég fer lengra:

  1. Ég á snjallsíma.
  2. Ég sótti mér smáforritið Swiftkey til að vera sneggri að skrifa sms, þar sem ég fyrirlít sms skrif.
  3. Swiftkey virkar þannig að forritið skoðar allt sem ég hef sagt á allskonar síðum og í fyrri sms-um og giskar á hvaða orð kemur næst, miðað við sögu mína.

Þegar ég opna nýtt sms form og nota bara ágiskanir forritsins kemur eftirfarandi setning í ljós:

„Ég held að það afsanni að þeir sem nota má til dæmis í nýjum glugga.“

Þetta er klassísk setning frá mér. Ég er að hugsa um að svara öllum sms-um hér eftir með þessari setningu. Þeir sem ekki skilja hana þekkja mig bara ekki nógu vel.

mánudagur, 27. ágúst 2012

Excel æði ungra kvenna

Þessa stuttu og snaggaralegu frétt las ég brosandi eyrnanna á milli. Fréttin segir frá því að Justin Timberlake sé alveg eins og ég: að hann komist ekki í gegnum daginn án þess að nota Microsoft Excel skjöl.

Brosið breyttist þó fljótt í skeifu þegar ég googlaði Justin Timberlake og Excel, og fann þessa glænýju frétt.

Þarna kemur fram að unnusta Justin Timberlake segir hann "excela" (ísl. að skara fram úr) í öllu sem hann taki sér fyrir hendur.

Skeifan breyttist svo í hrossahlátur þegar ég áttaði mig á þessari fáránlegu þýðingarvillu hjá Mogganum.

Viðbót: Fréttin var fjarlægð, skiljanlega. Hér að neðan er skjáskot af deilingu minni á fréttinni á Facebook, þegar ég var hættur að mestu að skjálfa yfir Excel blæti Justin Timberlake. Þarna sést allur textinn um Excel notkun hans.


Annars er mannlegt að gera mistök sem þessi. Sjálfur hef ég lagað innsláttarvillur ca 20 sinnum síðan ég skrifaði þessa færslu.

Viðbót 2: Komin er ný frétt í stað þeirrar sem var eytt fyrr í dag. Sjá hana hér. Mogginn viðurkennir auðvitað mistökin eins og allir alvöru miðlar gera og býður upp á Excel námskeið fyrir einn heppinn lesanda til að toppa allt saman. Vel gert. Meira svona.

laugardagur, 25. ágúst 2012

Yumyum


Í gærkvöldi prófaði ég núðluréttinn YumYum með kjötbragði. Aldrei á ævinni hef ég komist í tæri við jafn hræðilegt gervibragð og af viðbjóðskjöthlaupinu sem fylgdi með. En ég kláraði það samt, þar sem ég átti ekkert annað að borða.

Um leið og ég hafði lokið við réttinn fór ég á klósetið og reyndi að kasta honum upp, slík var ógleðin. Það tókst ekki þar sem ég er orðinn ryðgaður í búlemíuleiknum.

Eftir að hafa tannburstað mig í korter til að losna við óbragðið reyndi ég að sofna. Það gekk erfiðlega þar sem líkami minn virtist vera að neita þessari máltíð. Þegar ég svo loksins sofnaði dreymdi mig stökkbreyttar hrossaflugur að ráðast á mig.

Í morgun vaknaði ég of seinn í vinnuna og með hárið í allar áttir, þökk sé núðlunum. Í vinnunni náði ég ekki að klára frekar stórt skjal, þar sem ég þurfti að koma við í apóteki áður en ég færi heim. Takk núðlur.

Í apótekinu sá sæta afgreiðslustelpan mig ekki, þrátt fyrir að ég stæði uppréttur í ca 10 metra fjarlægð og hugsaði mjög fallega til hennar, þökk sé núðlunum.

Nú, sólarhringi síðar er ég enn að sjá afleiðingar núðluátsins, þar sem ég rak tánna í kommóðu áðan. Það var ekki svo vont. En samt.

Ég kvíði mikið fyrir næstu körfuboltaæfingu á mánudaginn. Ef ég stend mig illa þá eru áhrif núðlanna enn í líkama mínum. Ég er allavega löglega afsakaður.

þriðjudagur, 21. ágúst 2012

Undarlegur draumur

Nýlega dreymdi mig að ég lá í sófanum heima í Fellabæ og horfði á sjónvarpið þegar málverk á veggnum færðist allt í einu á hlið án þess að neinn ýtti við því. Ég spurði alla viðkomandi hvort þeir hefðu séð þetta gerast. Enginn hafði gert það.

Ég vaknaði skömmu síðar heima í Kópavogi og fór að spá í merkingu draumsins. Hvort undirmeðvitund mín væri að benda mér að líf mitt væri að fara á hlið án þess að ég gæti nokkru við ráðið og þegar að ég nefndi það við fólk þá kannaðist enginn við vandamál in sem væru að hrjá mig.

Því næst reif ég mig á fætur, enda orðinn hálftíma of seinn í vinnuna, klæddi mig í gamla fatalarfa sem ég hef ætlað að endurnýja í tvö ár, bara til að sjá að eina málverkið mitt, sem hangir í stofunni, er komið á hlið, einhverra hluta vegna.

Undirmeðvitund mín var semsagt að benda mér á að ég þyrfti að laga eina málverkið mitt. Takk undirmeðvitund. Ég laga hana einhverntíman í næstu viku, ef ég nenni.

miðvikudagur, 15. ágúst 2012

Kjörþyngd

Eftir áralanga baráttu við ókílóin (andstæða aukakílóa) hef ég náð að festa mig í kjörþyngd, 90 kílóum. Lengst af var ég á milli 75 og 85 kílóa.

En hvað er ég þá að borða mikið af kalórium á dag? Og hvað myndi ég vera þungur ef ég minnkaði hreyfingu mína eða yki (það er orð) hana?

Hvað ef ég þróaði með mér áráttu- og þráhyggjuröskun og vildi í framhaldinu bara borða nákvæmlega 3.000 kalóríur á dag, hvað ætti þá að vera þungur?

Þetta þurfti ég að setja í Excel skjal, eftir að hafa fundið formúlur um þetta á intervefnum. Hér er niðurstaðan:


Smellið á mynd fyrir stærra eintak og farið hingað ef þið viljið slá inn ykkar upplýsingar í Excel skjalið.

sunnudagur, 12. ágúst 2012

Instagram innreið

Ég hef hafið innreið mína á Instragram síðuna. Instagram er símavefsvæði sem heldur utan um myndir sem teknar eru í símum og sendar inn. Ekki ósvipað þeim 250 myndasíðum sem ég hef búið til og lokað í gegnum tíðina.

Hér eru fyrstu fimm myndirnar sem ég sendi inn í vikunni, í réttri röð:

1. Bústaður með pabba.



Skrapp með pabba um síðustu helgi í bústað við Laugarvatn til að vökva plöntur, sem voru að þorna upp í tryllingslegum hita síðustu vikna. Tók þessa mynd til að prófa myndavélina.

2. Valería Dögg frænka.



Í einni af fjölmörgum heimsóknum mínum til Björgvins bróðir, Svetlönu konu hans og Valeríu Daggar, dóttur þeirra í síðustu viku, tók ég þessa mynd þegar Valería sótti mig í stofuna, þar sem ég átti að koma í eldhúsið. Eitt fallegasta og skemmtilegasta barn allra tíma.

3. John Stockton, plasti klæddur.



Þessa fígúru fékk ég gefins fyrir nokkru síðan. Hún stendur á skrifborðinu mínu og starir á mig þegar ég skoða myndir af öðrum körfuboltamönnum. Fyrirgefðu, John Stockton.

4. Annar fallegur dagur að hefjast í Reykjavík.



Ég tók þessa sjálfsmynd einn morguninn, nývaknaður og nokkuð óhress með að þurfa í vinnuna.

5. Allsberar kóngulær í brjáluðum sleik. Rómantíkin verður ekki mikið meiri en þetta.



Rakst á þetta fallega par fyrir utan íbúðina mína, tók mynd, klappaði þeim og óskaði þeim góðs gengis.

Notendanafn mitt á Instagram er finnurtg, bætið mér við ef þið viljið fylgjast áfram með. Annars má líka fylgjast með hér.

mánudagur, 6. ágúst 2012

Bjórlán

Nýlega lánaði ég bróðir mínum fimm bjóra, sem hann gaf svo tengdaforeldrum sínum sem voru í heimsókn. Átta dögum síðar skilaði hann mér sex bjórum til baka. Ég reyndi að skila honum aukabjórnum en hann vék sér fimlega undan.

Ég ávaxtaði semsagt fimm bjóra um einn, sem gerir 20 prósent vöxt lánsins á átta dögum. Það gera 913% ávöxtun á ári, þeas ef hann hefði skilað mér bjórnum ári síðar hefði hann greitt mér 50,6 bjóra.

Þetta eru hærri vextir en hjá smálánafyrirtækjunum. Eini munurinn er að ég vildi ekki ávöxtunina og smálánafyrirtækin þjösnast á fjárhagslega vangefnu fólki.

fimmtudagur, 2. ágúst 2012

Kvikmyndarýni

Eftirfarandi myndir hef ég séð síðustu vikurnar eða svo:

1. The Amazing Spiderman (Ísl.: Hinn stórbrotni Kóngulóarmaður)
Ungur njörður er bitinn af kónguló og fær ofurhæfileika. Hann þarf að berjast gegn risastórri eðlu og fanga ást vinkonu sinnar með hinni hendinni.

Endurgerð ca 10 ára myndar um Spiderman. Algjör óþarfi. Samt fín. Aðeins of væmin fyrir minn smekk.

Ein og hálf stjarna af fjórum.

2. Take the Money and Run (Ísl.: Tak peninga yðar og gakk)
Farið yfir glæpaferil Virgil Starkwell, sem er einn lélegasti glæpamaður sögunnar.

Önnur mynd í leikstjórn Woody Allen. Merkilega góð miðað við hversu gömul hún er. Mörg atriði fengu mig til að hlæja upphátt. Mæli með henni.

Þrjár stjörnur af fjórum.

3. Ted (Ísl.: Ærslabelgurinn)
Bangsi stráks lifnar við. Hann elst upp með bangsanum og bangsinn spilar stóra rullu í lífi hans, þangað til hann fær sér kærustu sem skemmir samband þeirra.

Fyrsta bíómynd í leikstjórn Seth MacFarlane, sem gerir Family Guy þættina. Skemmtilegir leikarar, gróft grín og fínar tæknibrellur gera þessa mynd að fínni skemmtun. Drullufínni jafnvel.

Þrjár stjörnur af fjórum.

4. The Dark Knight Rises (Ísl.: Maður klæddur sem leðurblaka rís)
Maður klæddur sem leðurblaka hefur dregið sig í hlé þegar beljaki með ofbeldisblæti gerir vart við sig í Gotham borg. Leðurblökumaðurinn tekur til sinna ráða.

Líklega besti kvikmyndaþríleikur sem gerður hefur verið (Batman Begins, The Dark Knight og The Dark Knight Rises). Þessi mynd er líklega lélegust af þeim þremur og sennilega ein versta mynd leikstjórans, Christopher Nolan. Samt er þetta frábær mynd.

Þrjár og hálf stjarna af fjórum.


5. Wanderlust (Ísl.: Ferðagirnd)
Ungt par flýr stórborgina og fjárhagsáhyggjur sínar og sest að í kommúnu þar sem frjálsar ástir lifa og allt er yndislegt... á yfirborðinu (spennuhljóð).

Gamanmynd frá leikstjóranum David Wain, sem er með eina fyndnustu vefseríu sem ég hef séð, Wainy Days. Þessi mynd kemst þó ekki í hálfkvisti við netþættina hans. Hún á sína spretti en er yfirleitt frekar dauf og með óvenjulegan húmör.

Tvær stjörnur af fjórum.