sunnudagur, 28. nóvember 2010

Finnur.is viðtal

Í blaðinu Finnur.is, sem kemur út á fimmtudögum með Morgunblaðinu, birtist vikulega grein sem nefnist Óskalistinn. Í þessari grein eru frægustu Íslendingar sögunnar spurðir ýmissa spurninga sem tengjast neyslu.

Við lestur á síðasta blaði tók ég eftir að þar var ekkert viðtal við mig, eins og næstum alltaf. Ég held því áfram að svara spurningum blaða, án þess að vera spurður, hér á síðunni.

Svona myndi ég svara spurningunum:

Mögulega fallegasta hönnun sögunnar: Subaru Justy.
Hvað er draumastarfið?
Ég væri til í að vinna við rannsóknir og greiningu á öllu mögulegu. Gera kannanir og greina þær niður í frumeindir, rannsaka fylgni milli allskonar atriða og skila af mér skýrslum til kaupenda, sem myndu alltaf hrópa uppyfir sig af ánægju. Það, eða að vinna sem sérstakur Excel aðstoðarmaður Scarlett Johansson.

Hvað er versta starf sem þú hefur unnið?
Ég vann einu sinni fyrir löngu við þurrkun á þorskhausum en það felur m.a. í sér að brjóta hausana aftur og leggja á bretti. Það hefði verið fínt ef ég hefði ekki stungið mig reglulega á oddhvössum fiskbeinum og stundum fengið sýkingu í puttana í kjölfarið. Svo þekkti ég engan á vinnustaðnum og fór í gegnum heilu dagana án þess að segja orð, sem var án efa þægilegt fyrir samstarfsfólkið mitt.

Hver er draumabíllinn?
Mamma átti Subaru Justy þegar ég var í Menntaskólanum á Egilsstöðum og ég fékk að nota hann. Hann var lítill, sparsamur, fjórhjóladrifinn og gullfallega hannaður. Eins og hugur manns. Ég væri til í að eiga þann bíl, hvar sem hann er núna.

Hvaða hluti vantar þig á heimilið?
1. Gestir kvarta alltaf yfir skóhornsleysi þegar þeir fara frá mér, sem fyllir mig samviskubiti, svo ég væri til í nýjustu týpuna af skóhorni.

2. Ég væri líka til í nýja ryksugu, þar sem sú gamla sprakk fyrir nokkrum vikum, ósælla minninga.

3. Svo veit ég ekki hvað ég á að gera við alla peningana mína. Ég þarf einhvern skáp undir þá, til dæmis peningaskáp. Þeir kosta bara svo mikið að hann stæði tómur ef ég keypti hann.

Hvaða hluti langar þig í sérstaklega?
1. Mér er yfirleitt kalt á tánum og hvergi annarsstaðar, svo ég væri til í inniskó. Ég hef flogið of oft á hausinn í ullarsokkunum.

2. Peugeot-inn minn er detta í sundur, bókstaflega. Væri til í ófranskan bíl.

3. Brauðgerðarvél myndi spara mér tugi þúsunda á mánuði. Þá vantaði mig bara smjör- og áleggsgerðarvélar og ég yrði á grænni grein.

Hver er þinn eftirlætisstaður á heimilinu?
Stofusófinn. Ég sofna alltaf þegar ég sest í hann.

Svo léti ég þessa mynd af mér fylgja með:

Dæmigert föstudagskvöld hjá mér.

föstudagur, 26. nóvember 2010

Heimsókn

Um daginn fór ég í heimsókn til Björgvins bróður og konu hans Svetlönu. Þau eignuðust nýlega barn sem ber heitið Valería Dögg.

Allavega, [eitthvað merkilegt svo það sé ekki jafn augljóst að ég sé bara að skrifa þessa færslu til að birta tvær myndir af gullfallegu frænku minni]. Ótrúlegt en satt.

Svo tók ég nokkrar myndir af Valeríu Dögg. Hér eru þær:

Farin að taka á sig mynd.
Blue Steel svipurinn kominn.

miðvikudagur, 24. nóvember 2010

Á tali hjá Helga Gunn

Helgi bróðir hefur snúið aftur í bloggheima á nýrri síðu! Lesið hana hér og bætið við í RSS lesara ykkar.

Heimur batnandi fer.

mánudagur, 22. nóvember 2010

Slembihnappur

Það gleður mig að tilkynna að ég hef bætt við slembihnappi hér að ofan (við hliðina á "Hafa samband" hnappinum).

Þegar smellt er á slembihnappinn hleðst færsla af handahófi sem skrifuð hefur verið á þessari síðu frá október 2002 til þess dags sem á hann er smellt.

Mér finnst rétt að vara fólk við færslum sem gætu birst, því þó ég hljómi oft hrokafullur, öfgafullur og óskrifandi dags daglega, þá er það lítið miðað við hvernig ég var fyrir nokkrum árum.

Smellið því varlega og takið skrifunum með fyrirvara. Ég hef uppfært nánast allar skoðanir mínar sem koma fram á þessari síðu á árinu 2007 og lengra aftur í tímann.

sunnudagur, 21. nóvember 2010

Kæfa á Facebook

Ég get ekki orða bundist yfir nýjasta æðinu á Facebook. Þangað hafa fyrirtæki troðið sér inn og þar sem auðvelt er að blokka fyrirtæki sem spamma mikið, hafa þau tekið upp á því að fá fólk til að spamma fyrir sig.

Hvernig fara fyrirtækin að þessu? Með því að bjóða nánast ekkert fyrir. Hér er dæmi:

Happdrætti Háskóla Íslands segir að þeir sem gerist aðdáendur og deili auglýsingu frá þeim til allra vina sinna, fari í pott sem dregið verður úr. Þeir tíu sem dregnir verði út fari í annan pott, sem dregið verður úr um jólin og möguleiki er á að vinna 75 milljónir króna.

Þannig að ef þú spammar vini þína og ert fullkomlega óþolandi, áttu möguleika á að eiga möguleika á að vinna 75 milljónir.

Ég hefði haldið að fólk seldi sig (eða geðheilsu vina sinna) ekki svona ódýrt. En jú, þegar þetta er ritað hafa yfir 3.000 manns sent þessa auglýsingu á vini sína.

Það eru semsagt 0,29% líkur á að þú verðir dreginn út og komist í annan pott, þar sem líkurnar eru enn minni á að vinna 75 milljónir, ef þú bara spammar vini þína.

Ótrúlegt.

Ég hef frestað því um óákveðinn tíma að versla við þau fyrirtæki sem þetta stunda og hef ákveðið að líta þá vini mína á Facebook sem taka þátt, hornauga.

Svo má auðvitað ekki gleyma því að það er engin leið fyrir fyrirtækin að komast að því hvort litlu verkfærin þeirra hafi í raun sent auglýsinguna út á alla vini sína. En fólk hugsar auðvitað ekkert út í það.

föstudagur, 19. nóvember 2010

Hlaupaleiðir

Það er orðið býsna vinsælt að láta GSM símann skrá niður hlaupaleiðir sínar og birta fyrir alla að sjá á internetinu. Þá er leiðin sýnd á loftmynd og allir gapa í forundran yfir tækninni í dag, sérstaklega ég.

Ég get ekki verið minni maður en þessir tæknivæddu aðilar. Reyndar get ég það, og er það líklega, en ég vil ekki vera það. Ég á reyndar ekki GSM síma sem rekur leiðir mínar, né peninga til að kaupa þannig síma, svo ég þurfti að grípa til nýstárlegri aðferða.

Hér er mín hlaupaleið frá því í gær:


Leyndarmálið er að notast við hlaupabretti í World Class til að einfalda leiðina og handteikna hana svo inn á kort, andskotinn hafi það.

fimmtudagur, 18. nóvember 2010

Uppfylling

Ég hef ekki tíma til að skrifa stórbrotna tímamótafærslu núna. Þess í stað eru hér tvenns konar video klippur.

Annars vegar einhver mesta snilld sem ratað hefur í kvikmynd:



Atriði úr mynd Woody Allen, Deconstructing Harry frá árinu 1997, þar sem náungi vaknar einn daginn úr fókus.

Hinsvegar, fyrir þá sem klára aðalréttinn hér að ofan, er tvöfaldur eftirréttur!

Nýjasta æðið á mínu heimili er tónlistarstefnan Dubstep. Hér eru tvö slík lög:





Giant með slagarann Drumstick. Eða öfugt.





Að lokum eru hér skilaboð frá Dub&Run sem leita að Ricky í laginu Ricky.

Og með þessum seiðandi tónum fer ég að sofa.

þriðjudagur, 16. nóvember 2010

Gærkvöldið

Í gærkvöldi fór ég í ræktina og horfði á heilan þátt af 60 mínútum, á meðan ég hjólaði í tæpan klukkutíma, eins og fínn maður. Það áhugaverðasta við þetta var að einglyrnið og pípuhatturinn duttu aldrei af mér á meðan.

Þegar ég svo kom heim úr ræktinni leið mér ekki nógu illa, skiljanlega, svo ég borðaði heilan 25 stykkja pakka af creamy puffs. Ef eitthvað fær mann til að hata sjálfan sig þá er það creamy puffs og það var akkúrat það sem ég gerði það sem eftir lifði kvölds.

sunnudagur, 14. nóvember 2010

Sparnaðareyðsla

Fyrir rúmum þremur vikum hætti ég að drekka gos í tilraunaskyni. Það gekk nokkuð vel en eftir 16 daga féll ég, þegar ég sá reikninginn fyrir viðgerðum á bílnum mínum upp á 77 þúsund krónur. Ég þurfti að drekkja peningaáhyggjum mínum í gosi.

Þegar ég svo tók saman sparnaðinn sem hlaust af því að drekka ekkert gos í þessa 16 daga, fékk ég út að ég hafði sparað rúmar 77 þúsund krónur og var, þannig séð, á grænni grein.

Ég átti meira að segja 450 krónur afgangs, fyrir einni lítilli dós af Kóki í 10-11.

laugardagur, 13. nóvember 2010

Ég dansa eins og mér líður



Þetta lag heyrði ég á leið í vinnuna í vikunni og áður en það kláraðist var ég farinn að syngja grátandi með. Lagið heitir "Dance the way I feel" eða "Dansa eins og mér líður", sem er einmitt mitt lífsmottó. Þar sem mér líður aldrei þá dansa ég aldrei.

En lagið er ótrúlega grípandi og skemmtilegt. Það er þó ekki allt.

20. ágúst síðastliðinn spilaði þessi hljómsveit, Ou Est Le Swimming Pool, á tónleikum í Belgíu. Í lok einhvers lagsins stökk söngvari sveitarinnar, Charles Haddon, fram af sviðinu í þeirri von að áhorfendur myndu grípa hann. Þeir viku sér undan og hann lenti á ungri stelpu, sem slasaðist, að því er talið var í fyrstu, alvarlega.

Tónleikunum var frestað og Haddon augljóslega í rusli yfir meiðslum stelpunnar, að sögn viðstaddra. Nokkrum tímum síðar klifraði hann upp í 20 metra fjarskiptamastur fyrir aftan sviðið og lét sig gossa. Hann var 22ja ára. Pínu súrt.

Stelpan náði svo fullum bata.

föstudagur, 12. nóvember 2010

Fréttir af mér

Fólk spyr mig oft hvað sé að frétta. Til að spara tíma, þá opinbera ég hér með að nýlega birtist grein um mig í þekktu dagblaði hérlendis, sem svarar þessari algengu spurningu.

Ég ætlaði að þegja yfir þessari óvæntu heimsfrægð minni, en finn mig knúinn til að birta hana, svo ég fái frið frá þessari spurningu, þó ekki verði nema bara yfir helgina: hér er greinin.

Nokkrar leiðréttingar á greininni:

1. Ég er ekki athafnamaður.
2. Svo virðist sem blaðamaður hafi stafsett "Gunnarsson" vitlaust.
3. Ég er ekki fyrrverandi viðskiptaráðherra.
4. Ég er ekki fyrrverandi seðlabankastjóri.
5. Ég sagði aldrei neitt af þessu.
6. Myndin sem fylgir greininni er góð, en ekki af mér.

Að öðru leyti er ég mjög sáttur við hana.

Hrottaborð

Í morgun rak ég upp stór augu þegar ég sá fyrirsögn forsíðugreinar Fréttablaðsins:

Helvítis hrottaborð út um allt.
Ég velti lengi fyrir mér hver það er sem þarf að líða þetta andlega ofbeldi frá borði, af öllum hlutum, og ákvað svo að nenna ekki að lesa lengra en fyrirsögnina.

En ég er hneykslaður á ástandinu! Einhver þarf að gera eitthvað!

miðvikudagur, 10. nóvember 2010

Klikkaðir götuprestar

Alltaf þegar ég held að Manic Street Preachers séu bara 72 hit wonder hljómsveit þá koma þeir með enn einn smellinn.

Þetta er lagið It's not war, just the end of love eða Allt er hey í harðindum eins og það myndi heita ef spilað á RÚV.



Myndböndin hjá þeim eru alltaf góð. Í þetta skiptið er það bæði gott og fræðandi.

Ég hef teflt á einhverjum mótum í gegnum tíðina og hafði ekki hugmynd um þessa varnartaktík. Ef ég hefði vitað að af henni... hefði það ekki breytt neinu.

Tvífari Becks

Í kvöld, á meðan ég horfði á mynd með Michael Cera og hlustaði á lag með Beck, samtímis, hugsaði ég með mér: "Djöfull eru rödd Becks og útlit Michael Cera lík". Ekki nóg með það, heldur eru þeir einnig líkir útlitslega, komst ég að eftir smá rúnt á Google bílnum:

Beck að gæla við myndavélina.
Michael Cera að gæla við myndavélina.
Nú vantar mig bara tvo í viðbót fyrir fjórfara og tuttugu og átta í viðbót fyrir þrátíufara, sem ég hef verið að gæla við að byrja á, af því lífið er ekki nógu erfitt.

laugardagur, 6. nóvember 2010

Uppáhaldsveður

Ég á tvö uppáhaldsveður:

1. Hlýtt (12-18 stiga hiti), skýjað, volgt hvassviðri. Fullkomið sumarveður.
2. Kalt, logn, sólríkt og snjór yfir öllu. Fullkomið vetrarveður.

Seinni aðstæðurnar sköpuðust í gær þegar hitinn náði mínus tíu gráðum í blankalogni og lágu sólskini, eftir snjókomu síðustu daga. Þannig að ég fór í Laugardalinn og tók m.a. þessa mynd:

Smellið á mynd fyrir stærra eintak í nýjum glugga.
Því næst fór ég heim og þýddi á mér fingurnar öskrandi, sem voru orðnir svartir af kulda.

föstudagur, 5. nóvember 2010

Goshaft

Þegar þetta er ritað hef ég hvorki drukkið Kók né Pepsí í tvær vikur. Líðanin er ágæt og löngunin í þessa drykki horfin í bili.

Það eina sem vantar er að venja mig af því að sofa 15 tíma á dag, og hef ég þá vanið mig alveg af þessum óþverra. Ég hlakka til að nota peningana sem sparast í eitthvað gáfulegra, eins og að kaupa skútu eða litla eyju.

þriðjudagur, 2. nóvember 2010

Nýi Fellabær

Í nafnaveislu helgarinnar, sem haldin var heima hjá Björgvini bróðir í Kópavogi, hitti ég Bergvin, æskuvin frá Fellabæ. Hann sagðist búa rétt hjá Gylfa, öðrum æskuvini mínum frá Fellabæ, í Kópavogi.

Ég bý líka í Kópavogi. Svo virðist sem flestir fyrrum Fellbæingar búi á afmörkuðu svæði innan Kópavogs, eins og sjá má á myndinni:

Fellabæjarsvæðið í miðjum Kópavogi
Þetta er fín byrjun. Nú er bara að fylla þetta svæði af fyrrum Fellbæingum, eigna sér svæðið og nefna það Nýja Fellabæ.

Því næst tæki auðvitað við að reisa rándýran fótboltavöll fyrir okkur, þó við séum ekki með fótboltalið og rífa alla körfuboltavelli, af því bara. Áfram Fellabær!

Nafngift

Í gær, sunnudag, var ég viðstaddur nafngift á nýjasta meðlimi Gunnarsson fjölskyldunnar, dóttur Björgvins bróður og Svetlönu, konu hans.

Athöfnin fór fram á heimili þeirra hjúa og var einstaklega vel heppnuð. Maður frá Siðmennt hélt smá tölu og ræða Björgvins varðandi nafnið var bæði fyndin og skemmtileg.

Stelpan fékk nafnið Valería Dögg.

Um leið og það var tilkynnt fór þetta lag að spilast í huganum:




Gullfallegt nafn á gullfallega frænku mína.