miðvikudagur, 30. apríl 2003

Mikið sakna ég þess að vera lítill og ímyndunarveikur krakki. Þá þurfti ekki annað en að gefa manni lítinn matchbox bíl eða nokkra plasthermenn (tindáta eins og við kölluðum þá) og maður gat leikið sér tímunum saman, grenjandi úr hamingju. Það var líka ýmislegt sem ég ætlaði mér að gera þegar ég yrði fullorðinn. Þar á meðal var það verðuga verkefni á dagskrá að hræra mér heila skál af skúffukökusúkkulaðikremi og borða það allt einn. Auðvitað hef ég ekki framkvæmt það ennþá því ég á ekki hrærivél.
Botnlínan er sú að lífið er ömurlegt. Þegar þú ert lítill viltu ekkert heitar en að verða fullorðinn og þegar þú loksins verður fullorðinn er minningin um æskuárin það sem heldur þér gangandi.

Eins og þið sjáið á mér þá tapaði ég leik í championship manager rétt í þessu.
Sjálfsvitund mín er öll að koma til. Nýlega uppgötvaði ég mér til skelfingar að ég er ekki kúl, í kvöld áttaði ég mig svo á því að ég er hálf ósýnilegur, eitthvað sem ég hef alltaf viljað nema kannski á annan hátt.
Ég ber ekki af í neinu, hvorki útliti né afrekum. Ég geng í dökkum fötum, fer örsjaldan á djammið og vinn á skattstofunni við skrifborð og þarf því ekki að afgreiða neinn. Ég keyri venjulegan bíl sem kallar ekki á athygli, versla í hraðbúðinni og aldrei fyrir klukkan 11 á kvöldin, leigi í kjallara sem fáir vita að búið er í og skokka/stunda líkamsrækt á fáförnum slóðum eða á þeim tíma þegar sem fæstir eru á ferli. Það eina sem gefur vísbendingu um að ég sé á lífi er þessi síða mín sem ég reyni að uppfæra sem oftast, en samt ekki því hver sem er gæti verið að skrifa þetta með mínu lykilorði. Í raun hef ég sáralitla þörf fyrir mannleg samskipti, sem betur fer. Ef ég legg saman þennan ofurhæfileika minn að vera ósýnilegur og þá staðreynd að ég er ekkert kúl þá fæ ég út að ég er minnst spennandi maður á landinu og þótt víðar væri leitað. Ekki amalegt það fyrir smástrák frá Trékyllisvík.

þriðjudagur, 29. apríl 2003

Ég er ekki að nenna að skrifa neitt þessa stundina enda hef ég ekkert að segja. En hér koma 2 hlekkir sem ættu að halda ykkur uppteknum eitthvað frameftir kvöldi. Þetta er fyndnustu karakterar sem gerðir hafa verið og í þessari teiknamyndasögu segja þeir hvað er að heiminum í dag.

Múrinn.is er líka helvíti góð síða þar sem stungið er á kýlum nútímans. Þessi grein er mjög góð og segir margt af því sem maður hefur sjálfur hugsað en ekki komið orðum að. Lesið sem flestar greinar þarna, þær eru hver annarri betri.

mánudagur, 28. apríl 2003

Ég biðst velvirðingar til þeirra sem voru að búast við myndum í kvöld. Ég tafðist og komst ekki í að setja þær upp. Mun gera það á morgun, eða þegar tími gefst til. Afsakið mig.

Hetja dagsins er Björgvin nokkur Gunnarsson en hann hengdi upp áróðursskilti víðsvegar um Menntaskólann á Egilsstöðum að því tilefni að Davíð Oddsson kom í heimsókn í hádeginu. Á áróðursskiltunum mátti sjá myndir af fórnarlömbum sprengjuárása villidýranna í bandaríkjunum, börn og gamalmenni, sem Davið og Halldór sögðu að Íslendingar studdu þrátt fyrir að yfir 70% Íslendinga séu á móti þessum viðbjóði. Fyrir ofan myndirnar voru svo frasar á borð við "Takk fyrir að bendla okkur við þetta Davíð", "Taktu dollaramerkin úr augunum, þá sérðu betur!" og "Allt í nafni lýðræðis". Björgvin hefur með þessu sannað að rökrétta hugsun er að finna í Menntaskóla Egilsstaða en ekki bara rollur sem hlýða villuráfandi smala þeirra, Davíð.
Spurning hvort Björgvin verði kallaður á teppið til Davíðs. Vegna tæknilegra örðuleika þá get ég ekki birt áróðurinn hér sem stendur en mun vinna í því að færa ykkur boðskapinn.
Enn eina ferðina ætla ég að bjóða lesendum þessa netmiðils upp á lag, í leyfisleysi. Að þessu sinni er það lagið Veridis Quo með Daft Punk. Þetta lag heyrði ég fyrst fyrir rúmu ári síðan og hef alla tíð frá því haldið því fram að Daft Punk séu vanmetnir. Þetta er einfalt lag en þó gríðarlega flott. Mæli með því að þið hlustið á það með höfuðtól og með 700 skattaskýrslur þér við hlið. Það virkaði allavega á mig.
Hægrismellið hér og veljið 'Save target as...' til að vista lagið og smellið hér til að segja álit ykkar. Haldið opnum huga, enga fordóma á þessa tónlist.
Mér líður ca svona núna. Í dag skal ég skokka, hvað sem það kostar.

Sá American Idol í gærnótt. Byrjunaratriðið vakti ógleði hjá mér því þá voru allir keppendur samankomnir, hvetjandi hermenn bandaríkjanna áfram í slátruninni í Írak sem stóð sem hæst þegar þessi þáttur var tekinn upp. Ég kyngdi ælunni og horfði áfram á. Þá kom að kafla þar sem allir keppendurnir sungu lagið 'What the world need now (is love, sweet love)' eftir Burt Bacharach. Skrítið að bandaríkjamenn skuli vera að syngja þetta lag, hálfgert friðarlag. Ég hugsaði með mér að kannski væri smá rökrétt hugsun í hausnum á þessum keppendum en nei, örstuttu seinna sungu allir lagið 'god bless america', jafn viðbjóðslegt og það hljómar og sumir grétu við að syngja það, sem fékk mig til að draga þá ályktun, enn eina ferðina, að bandaríkjamenn eru órökréttir í hugsun og heimskir með afbrigðum. En nóg um þetta. Þeir eiga ekki skilið þetta pláss sem ég gef þeim hérna í dagbókinni.

sunnudagur, 27. apríl 2003

Góð ferð á Borgarfjörð Eystri að baki þar sem pabbi tók á móti okkur með veitingum, eins og svo oft áður. Alltaf jafn gaman að kíkja til pabba.

En að öðru. Ég veit ekki hvort ég eigi að hlægja eða gráta yfir þessum niðurstöðum. Kannski ég byrji á að hlægja og færi mig svo yfir í gráturinn smám saman. Svo hætti ég því sennilega þegar ég átta mig á því að þetta er bara bull.What Flavour Are You? I taste like Bread. Ég bragðast eins og brauð.


Ég er a uppistaðan í mataræði næstum allra. Vinir eins og ég eru uppfyllingarefni í vináttu annarra. Mér líkar vel við flesta, held mig í bakgrunninum en útvega þó efnið sem annars myndi vanta. Hvaða bragðtegund ert þú?

Í gærkvöldi gerðist ég djarfur og leigði mér spólu. Fyrir valinu varð myndin 'Joe Somebody' með Tim Allen í aðalhlutverki. Ástæðan fyrir vali þessu er sú að ég vildi leigja gamanmynd og þetta var sú eina sem var inni. Að sjálfsögðu var myndin ömurleg og hálf viðbjóðsleg á köflum. Eini plúsinn sem ég sé við þetta var að í henni var spilaður smá körfubolti, ömurlegur að sjálfsögðu en körfubolti samt. Sýnt var frá NBA og meira að segja úr höllinni sem ég fór í á sínum tíma. Samtölin voru vandræðaleg í flestum tilvikum og söguþráðurinn asnalegur. Hún fær 1/2 stjörnu fyrir viðleitni.

Í gær var farið í körfubolta á Hallormsstað. Það var ágætt, hefði geta orðið skemmtilegra. Vorum helst til of stutt þarna en það verður bætt úr því næst.

Í dag ætlum við Björgvin að kíkja á Borgarfjörð Eystri til pabba. Alltof langt síðan við fórum þangað síðast. Þá fær bifreið mín nýjasta að sanna sig í langferðum loksins. Ef það kemur ekkert meira á þessa síðu þá hefur hann ekki staðið sig.

laugardagur, 26. apríl 2003

Dóttir besta kraftframherja allra tíma í körfubolta var kölluð(nr 3 af öllum) í kvenna NBA deildina í nótt. Hún heitir Cheryl Ford og pabbi hennar Karl Malone. Það má til gamans geta þess að Karl Malone er enn að spila með Utah Jazz, og er enn besti maður liðsins en hann verður 40 ára 24. júlí.
Í gærkvöldi fór ég á gamanleikritið Stútungasaga í fylgd herramanns að nafni Jökull. Í leikritinu er gert grín að íslendingasögunum. Til að gera langa sögu stutta þá skemmti ég mér mjög vel, leikritið er fyndið og leikurinn hjá öllum mjög góður. Hálfdán Helgason stóð sig sérstaklega vel sem viðbjóðslegi biskupinn sem hló eins og Kjartan galdrakall úr strumpunum. Sýningin er líka gríðarlega vel gerð, búningar vel gerðir og útsetningin fín. Það má taka það fram að Björgvin bróðir minn leikur eitt aðalhlutverkið í þessu og stendur sig mjög vel. Leiðinlegt að hafa farið á þetta svona seint því aðeins 1 sýning er eftir og fer hún af stað eftir 5 mínútur þannig að það er tilgangslaust fyrir mig að mæla með þessu.
Ég ætlaði að taka myndavélina með á þetta en gleymdi henni auðvitað.

föstudagur, 25. apríl 2003

Ég heyrði nokkuð fyndna setningu í fréttunum í morgun. Hún var einhvernveginn svona: „...'Fólk í Afríku á rétt á lyfjum við malaríu þrátt fyrir að þau séu dýr' sagði...“.
Þrátt fyrir að lyfin séu dýr eða þrátt fyrir að fólkið í afríku séu dýr?
Betra að taka fram að ég er ekki kynþáttahatari, bara fyndið klúður hjá RÚV.
Það eru ótrúlegir hlutir að gerast í lífi mínu. Í kvöld hitaði ég 5 pylsur til að gæða mér á því ég hafði ekkert hesthúsað í allan dag. Þá kom upp smá vandamál. Hversu mikla tómatsósu átti ég að hella á diskinn með pylsunum? Ég tók áhættu, skellti slatta á diskinn kæruleysislega. Þegar liðið var á átið og fjórum pylsum sporðrennt hugsaði ég með mér að þetta gæti gengið upp, tómatsósan virtist vera að hverfa í réttu hlutfalli við pylsuátið. Þegar allar pylsurnar voru búnar var tómatsósan búin og ég þurfti ekki að hafa áhyggjur af því að fara aðra ferð eftir tómatsósuílátinu eða þurfa að vaska upp, beiskur á svip, aukatómatsósuna. Í fyrsta sinn á ævi minni gekk eitthvað fullkomlega upp. Ég sé að bjartari tímar eru framundan.

fimmtudagur, 24. apríl 2003

Mér hefur loksins tekist hið ómögulega. Í dag gerði ég algjörlega ekki neitt. Ég vaknaði um kl eitt í dag og síðan þá hef ég ekkert gert. Vann ekkert, því í dag er tilgangslausasti frídagur ársins (sumardagurinn fyrsti), skokkaði ekkert, spilaði ekki fótbolta eða körfubolta, lyfti ekki og fór nánast ekkert út úr húsi. Ég klæddi mig ekki einu sinni í föt, bara stuttbuxur. Borðaði ekki neitt markverkt, í mesta lagi hálfan kexpakka. Ég hef bragðað á lífi hins fábrotna manns og það geri ég ekki aftur.
Lagið 'Move your feet' með Junior Senior er magnað lag. Hef verið að hlusta á það síðustu vikur og fæ, að því er virðist, ekki leið á því. Myndbandið er jafnvel betra en lagið en það er sett upp eins og mjög léleg tölvuteiknimynd. Hér getið þið séð það. Eitt besta og fyndnasta myndband sem ég hef séð.

miðvikudagur, 23. apríl 2003

Skeggvöxturinn gengur vel. Ég hef náð að safna enn virðulegra skeggi en áður. Síðustu viku hef ég heyrt orðróm um að fólk sé gantast með skeggvöxt minn og henda að honum gaman. Þetta þykir mér mjög leiðinlegt að heyra enda legg ég metnað í söfnunina. Hérna getið þið séð hvernig skeggið er orðið í dag, eftir ca 14 daga söfnun. Hér er svo gamla myndin, þegar ég hafði aðeins verið búinn að safna í viku. Ég vil gjarnan fá opinberlega afsökunarbeiðni frá aðilunum sem gerðu gys og glens að andlitshárvöxti mínum hér í síðustu viku.
Í gær var enn einu sinni farið í fótbolta. Í þetta sinn voru aðeins of margir og aðeins blautara. Ég var sennilega sá eini sem skemmti sér illa, enda stóð ég mig hræðilega með 1 sjálfsmark, tvisvar flaug ég á hausinn, tvisvar steig ég á boltann og 238 sinnum gaf ég lélega sendingu. Einnig náði ég að fá 2 kúlur á fótleggina á mér og slasa mig á vinstri úlnlið þannig að ég get illa beitt honum í dag og sennilega næstu daga. Spurning um að hvíla sig á fótboltanum í bili og einbeita sér að því að þjálfa Rushden & Diamonds í CM4 en ég var einmitt að koma því liði í aðra deild ensku fótboltans við mikinn fögnuð viðstaddra.
Mikið óskaplega fara gemsar í taugarnar á mér. Þeir eru ágætis dæmi um gerviþörf, eitthvað sem enginn þarf nema allir eigi. Ef enginn ætti gemsa þá væri lífið ljúft. Magnað hvernig þeir eru markaðssettir, múgurinn gleypir við þessu auðvitað því hvað er hann annað er rollur sem elta flottu hlutina sem eru auglýstir vel. Þeir eru hafðir nægilega ódýrir svo litlu krakkarnir geti keypt sér líka en hafa svo mínútugjaldið fáránlega hátt. Ég nota frelsi frá símanum og hef nú verið innistæðulaus í næstum 2 vikur. Fyrir þá innistæðu var ég innistæðulaus í 5 vikur. Ég sé ekki tilganginn lengur með innistæðu. Í þau fáu skipti sem ég tala í gemsa verð ég annað hvort innistæðulaus eða rafmagnslaus og þá er ekki óalgengt að ég bresti í grát.

þriðjudagur, 22. apríl 2003

Kóngulærnar eru mættar. Í kjallaranum hef ég myrt fimm kóngulær síðustu tvo daga og sært eina. Sú særða stefndi upp fótinn á mér í gær þegar ég náði að víkja mér fimlega frá, taka smá kollhnís og um leið grípa inniskó og slá hana í rot með honum. Því næst útbjó ég smá búnað úr kerti, eldspýtustokk, eldspítum og kaðli sem hagaði því þannig að kóngulóin myndi sturtast niður um salernisskálina eftir ca 20 mínútur ef allt færi eftir áætlun. Einhvernveginn náði hún að flýja og er ófundin enn.

Ég hef afar slæma minningu frá kónguló í fyrra þegar ég lá sallarólegur í rúminu mínu, á milli svefns og vöku þegar ég finn smá kitl við munnvikið. Ég hélt að þetta væri rykkorn eða eitthvað álíka og ætla að klóra kitlið en þá kemur í ljós að þetta var kónguló. Síðan þá verð ég að athuga hvort kónguló sé að skríða á mér við minnsta kláða, ég læt rúmi ekki snerta vegg né annað og sef með lokaðan munninn. Ég fæ tár í augun bara við a skrifa þetta.

Þar með er það algjörlega útilokað að ég nái að plata stelpur í kjallarann í heimsókn, hvað þá að gista.
Í gær var farið í fótbolta á Eiðum í rúma 2 tíma. Alls vorum við 10 manns, þar á meðal Hjalti Jón, Jökull, Björgvin, Helgi og Bergvin. Ég skemmti mér konunglega og mun, eins og áður segir, stunda þetta talsvert meira í sumar en síðustu ár. Hver veit nema maður hvíli sig aðeins á körfuboltanum.

Ég stefni á að bæta við myndum næstu helgi þannig að...

...smellið hér til að taka þátt.

mánudagur, 21. apríl 2003

Í gær ákvað ég að raka á mér andlitið í fyrsta sinn í viku. Ég tók líka þá afdrífaríku ákvörðun að skilja smá eftir í andlitinu, smá skeifu yfir munninum. Nú er ég með hnausþykkt, kolsvart of fallegt skegg. Hér getið þið séð mynd. Frábært hvernig fólk horfir á mig núna hvert sem ég fer, af því skeggið er svo glæsilegt.

Ég hef ekki hreyft mig í rúma viku sökum hósta og kvefs, fyrir utan fótboltan fyrir 2 dögum, en nú verður breyting þar á. Í dag ætla ég amk að skokka ef ekki spila fótbolta líka. Stór orð segiði eflaust en ég ætla að standa við þau, nema auðvitað eitthvað gott sé í sjónvarpinu.

sunnudagur, 20. apríl 2003

Alltaf gaman að sjá fréttir frá Trékyllisvík. Ég tók einmitt þátt í svipuðu móti í þessu húsi 1996 minnir mig. Í sumar hef ég planað að taka eina langa helgi í að fara til Trékyllisvíkur og hitta fólkið ef einhverjir eru eftir því þetta er við það að leggjast í eyði.
Um daginn horfði ég á myndina 'The Bourne identity' með Matt Damon og Franka Potente í aðalhlutverkum. Myndin fjallar um mann sem finnst fljótandi á miðju ballarhafi, minnislaus og illa farinn. Smá saman kemur í ljós hver hann er og hvert verkefni hans er. Ágætis mynd sem er vel leikin. Hún er meira Evrópsk en bandarísk finnst mér, sem gerir hana raunverulegri. Kannski fannst mér hún ekki betri af því ég var veikur þegar ég horfði á hana en mér fannst eitthvað vanta. 2 stjörnur af 4. Moby á flott lag í lokin á myndinni.
Eftir að hafa séð þátt í seríunni 'Alheimurinn' sem stöð 2 er að sýna þessa dagana rifjast upp fyrir mér að við erum ekkert. Það sem gerist á þessari jörðu skiptir ekki nokkru máli, hvað þá lítil persónuleg vandamál sem hver og einn burðast með. Við erum sýklar á drullukúlu sem flýgur í kringum eldhnött. Óþarfi að flækja það eitthvað meira. Í þættinum er stjörnufræðin rakin fyrir áhorfandann eins og hann sé 5 ára, sem kemur sér vel í mínu tilviki.
Þrátt fyrir þessa uppgötvun mína mun ég halda þessari ruglsíðu gangandi þar til ég hef ekkert að segja. Það styttist í að hún syngi sitt síðasta miðað við síðustu daga af dagbókarfærslum. Sjáum til.

laugardagur, 19. apríl 2003

Hvernig refsingu fá dópistaaumingjar sem eru gómaðir? Samkvæmt þessu er refsingin afar lítil, ef einhver. Þarna virðast löggurnar bara hafa skammað þá og svo líklega hrósað hvorum öðrum fyrir vel unnið verk.

Það kom í ljós í dag og síðastliðna nótt að fótboltinn í gær var mjög slæm hugmynd. Ég held ég hafi hóstað í ca 4 tíma samfleitt í gærnótt.
Ég hef nú bætt við rúmlega 30 myndum á myndasíðuna. Þið kusuð að sjá myndir frá Interrailferð Björgvins & co. Mjög góðar myndir í hörkuferð. Virkilega góð stemning.

Í nótt er ball í Valaskjálf með einhverri hljómsveit. Ég rúntaði örlítið áðan og sá að það er allt að verða vitlaust í bænum. Lambakjötið er leitt til slátrunar eða slátursins sem bíður í Valaskjálf vel snyrt með geli, ilmvatni, gullkeðjum og sólgleraugum. Ég gleymdi að fara í ríkið í fyrradag og get því lítið skemmt mér. Fyrir utan það er ég líka hálf veikur, áhugalaus og ófríður.

Í dag var farið í fótbolta á vellinum við nesið. Þar voru mættir galvaskir sveinar sem stóðu sig með afbrigðum vel. Ég ætlaði að sjálfsögðu að taka myndir en gleymdi því. Ég tók þó myndir í göngutúr sem ég tók í dag, í 20 stiga hita og björtu veðri, ásamt bróður mínum sem lék við hvurn sinn fingur, eins og svo oft.

föstudagur, 18. apríl 2003

Í gærkvöldi stokkaði ég aðeins upp hlekkina til hægri. Bætti við myndaflokkum og nú getið þið smellt á þá án þess að þurfa að hlaða forsíðuna áður. Í kvöld mun ég svo bæta við fleiri myndum, í þetta sinn interrail ferð Björgvins bróðir & co. Einnig mun ég skrá eitthvað í þessa dagbók.
Ég rakst á þessa grein fyrir stuttu. Ég hjó eftir einni setningu í þessum texta eftir að hafa séð Djúpu laugina síðasta föstudag þar sem þessir piltar komu fram og höguðu sér eins og hrokafull, bandarísk smábörn. „Hann segir jafnramt að þeir hafi átt nokkurri kvenhylli að fagna í för sinni og að það hafi eflaust ekki skemmt fyrir.“ Það fyrsta sem mér datt í hug var „Íslenskar stelpur eru nú meiri hórurnar“ en það er auðvitað vitlaus hugsunarháttur hjá mér. Hórur hafa vit á því að taka pening fyrir. Íslenskar stelpur gera það ókeypis.

fimmtudagur, 17. apríl 2003

Í gær heyrði ég í merkum manni í útvarpinu. Tekið var viðtal við engan annan en Jón nokkurn Bónda frá Hofi um ferð VA til álvers í Danmörku í síðustu viku. Jón var skýr, vel máli farinn og notaði falleg orð til að lýsa reynslunni. Hann fær þrjár og hálfa stjörnu af fjórum mögulegum hjá mér.

Heiðdís og Gulla eru sennilega á sólarströnd núna að spóka sig. Áður en þær fóru áttu þær skemmtilegt rifrildi á síðunum sínum. Þær eru frekar fyndnar stelpurnar. Kíki á þær hér og hér.

Þriðja mál á dagskrá er djammlagið sem ég nefndi í síðasta fréttaflutningi. Það ber nafnið Mundian To Bach Ke og er flutt af Panjabi MC. Hér getið þið séð textann við lagið og hér getið þið heyrt það (hægri smell og 'save target as...' ef þið viljið eiga það). Munið svo að syngja með og hita upp fyrir sumarið.

miðvikudagur, 16. apríl 2003

Djammlagið í sumar, eða amk næsta mánuðinn, er lagið Mundian To Bach Ke með Panjabi MC. Það er ekki oft sem kemur svona flott lag sem smellpassar fyrir djammið. Ég myndi nú samt ekki dansa við það, nema auðvitað vera blindfullur eða lenda fyrst í bílslysi og vera svolítið skrítinn í hausnum fyrir vikið.

Allavega, 5 daga frí framundan. Ég verð sennilega eitthvað að vinna í þessu fríi. Ég er nefnilega líka að vinna heima á kvöldin og um helgar sem framkvæmdastjóri Rushden & Diamonds fótboltafélags í þriðju deild ensku knattspyrnunnar, í annarri vídd sem ég tengist í gegnum lítið forrit í tölvunni minni sem kallar championship manager 4. Svolítið strembið verkefni en ég hef það á tilfinningunni að allt muni enda vel.
Ég vaknaði í morgun kl. 7 við gsm símann, gjörsamlega uppstíflaður en það er önnur saga. Ætlaði að stilla símann á 7:25 því ég var mjög þreyttur en missti hann í staðinn í gólfið, skjámyndin fraus og ekkert gekk að fá hann til að virka. Tók ég þá upp á því að reyna taka rafhlöðuna úr og setja hana í aftur til að endurræsa símann en hún sat pikkföst. Eftir ca 5-10 mínútur stóð ég upp, náði í hníf og reyndi að ná batteríinu úr, sem gekk loksins. Þá segir síminn mér að klukkan sé orðin 7:55 og ég of seinn í vinnu. Ég stökk á fætur, klæddi mig og valhoppaði út í bíl af einskærri morgunhamingju en þar er lítil klukka sem sagði mér að klukkan hafi bara verið 7:20. Til að fullvissa mig um það athugaði ég sjónvarpið. Þá var klukkan orðin 7:25 og tími til að fara á fætur.

þriðjudagur, 15. apríl 2003

Í fréttunum rétt í þessu var Halldór Ásgrímsson að segja Íslendinga viljuga við að hjálpa einu ákveðnu fórnarlambi stríðsins sem er ca 10 ára strákur sem skaðbrenndist á öllum líkamanum, missti báðar hendur, báða foreldra og öll systkini í loftárásum 'friðarsinnanna' í bandaríkjunum á Írak. Auðvitað varð ég mjög reiður við að sjá þetta og heyra. Halldór Ásgrímsson, sú viðbjóðslega kanasleikja, spilar sig út sem hetju núna eftir að hafa, ásamt öðrum þrælaríkjum bandaríkjanna, staðið á bakvið fjöldamorðin í Írak. Ég mun aldrei nokkurntíman kjósa þetta fífl eða aðra viðbjóði sem standa á bakvið þetta.
Einnig gleymdi ég að nefna sms sem ég fékk á miðnætti um daginn. Það var frá tal netsms þjónustunni og var eftirfarandi: „thx dude“. Ekki veit ég fyrir hvað er verið að þakka en hjarta mitt ljómaði við að sjá þetta, vitandi það að ég hef aðstoðað einhvern við eitthvað.

Aftur að framhaldssögunni 'Á hálum ís', öðru nafni 'Hörkufjör á heimavist'. Í síðasta þætti bar höfundur sig illa, hóstandi og emjandi. Í dag hafa þau undur og stórmerki gerst að hann mætti í vinnu, þrátt fyrir augljós veikindi. Þar mættu mér hóstandi og hnerrandi vinnumenn við iðju sína. Hvað gerist næst? Nær höfundur sér að fullu? Fyllir hann kröfur samfélagsins? Getur hann tekist á við brjálaða ræstitækninn sem herjar á skrifborð hans á nótunni?
Svar við þessu og meira til, næst, á finnur.tk.

mánudagur, 14. apríl 2003

Ég gleymi alveg að segja frá hökutoppi sem ég hafði á andlitinu á mér um helgina. Þar sem ég var veikur og lá bara ákvað ég að lífga örlítið upp á skammdegið með því að raka vikuskeggið af nema smá bút á hökunni. Þetta kom ágætlega út en þurfti meiri tíma til að ég myndi slá í gegn. Myndir voru þó teknar að því tilefni, enda ekkert betra við myndavélina að gera. Í gærkvöldi lét svo hökutoppurinn lífið eftir hetjulega baráttu gegn rakvélinni. Hann var 36 tíma gamall, ógiftur og barnslaus.
Mér líður skelfilega í dag. Svaf í ca 2 tíma, hóstaði og lét öllum illum látum. Af hverju er ekki búið að finna klukkutímalausn á kvefi og hósta? Ég held ég hafi hóstað úr mér lifrinni í nótt, er hún annars ekki fjólublá og öskrar 'drepið mig' annað slagið?

Sá í gærkvöldi að rúv sýndi myndina 'Einræðisherrann' með Chaplin um leið og stöð 2 endursýndi þættina 'Band of brothers' sem fjalla um hetjudáð bandaríkjanna í síðari heimstyrjöldinni. Ég er að spá hvort sú ákvörðun að sýna Einræðisherrann hafi verið skot á bandaríkin og stjórn Bush um leið og stöð 2 sé að sleikja upp eistun á bandaríkjunum með því að endursýna þætti, öllum að óvörum, um það hversu stórkostleg bandaríkin eru. Það er matur fyrir hugann.

sunnudagur, 13. apríl 2003

Afsakið hvað ég hef haft lítið að segja síðustu daga. Fólk hefur heldur ekkert verið að lesa þessa síðu hvort eð er. Alls mættu um 35 manns um þessa helgi á síðuna, sem er það minnsta sem mælst hefur á öllu netinu hingað til.

Ég gerði samt könnun um hvað þið viljið sjá næst á myndasíðunni. Aftur getið þið bætt við hugmyndum sjálf og aðeins kosið einu sinni, þannig að vandið valið. Engan dónaskap.

Smellið hér til að taka þátt.
Helgin hefur farið í að liggja veikur. Hingað til hefur hún verið í leiðinlegri kantinum en hver veit hvað gerist í dag. Ég kemst ekki í fermingarveislu frænku minnar sökum veikinda, eins og ég komst ekki á Borgarfjörð Eystri á föstudaginn og á leikritið 'Stútungasaga' í gær, laugardag.

Ég gerði líka heiðarlega tilraun til að horfa á óskarsverðlaunamyndina Guðföðurinn 2 en gafst upp eftir ca 3 tíma. Þótt ótrúlegt sé þá skildi ég söguþráðinn en fannst hann óáhugaverður. Hún er mjög vel leikin, Al Pacino er frábær í hlutverki Don Corleone.

laugardagur, 12. apríl 2003

Um daginn sat ég í makindum mínum og las fréttablaðið þegar ég rakst á eina bestu grein sem hefur verið skrifuð. Þar skrifar Þórarinn Þórarinsson grein um viðbjóð. Ég ætla að skrifa hana hérna upp því hún segir nákvæmlega það sem ég hef verið að segja um þetta fífl.

Asni í hvítum sokkum

Ég hélt að yfirgengileg þjóðremba Jay Leno gæti ekki ekki stuðað mig lengur en silfurhærða erkifíflinu tókst að senda mig brjálaðan í háttinn í fyrradag. Hann er að vísu ekki það mikill bógur að hann geti raskað geðró minni einn síns liðs en reyndist það hægðarleikur með aðstoð Dennis Miller, sem er víst skemmtilegasti þáttastjórnandinn í landi hinna frjálsu og hugrökku.
Kjafturinn á þessum aufúsugesti var með slíkum ólíkindum að ég varð að horfa á hann til enda bara til þess að fullvissa mig um að hann væri ekki að grínast. Geroge W. Bush er frábær að hans mati og hann hefur aldrei verið stoltari af því að vera Kani en þegar hann horfir á sprengjuregnið í Írak í sjónvarpinu.
Fréttamaðurinn Peter Arnett, Michael Moore og allir aðrir sem leyfa sér að andmæla Bush eru fávitar og voru úthrópaðir sem slíkir með þvílíkum lýsingarorðaflaumi að maður gapti. Leno skríkti yfir þessu öllu saman og salurinn klappaði og blístraði.
Ég er lítið fyrir ritskoðun en fer að hallast að því að það sé orðin spurning um siðferði að endurvarpa Jay Leno inn á heimili hugsandi fólks. Leno er hættulegt fífl og það er þessi Miller líka. Hann kann ekki einu sinni að klæða sig og mætti í jakkafötum og hvítum sokkum! Það má segja ýmislegt um þessa menn en hvað getur maður sagt um fólk sem klær að stríðsbröndurum manna í hvítum sokkum?


Þórarinn Þórarinsson, ég hylli þig.

föstudagur, 11. apríl 2003

Það hlaut að koma að þessu. Ég hafði ekki orðið veikur í næstum 2 mánuði og hélt að ég væri sloppinn undan vetrarflensunni þegar í morgun ég fór að finna fyrir fiðringi í hálsinum. Nú er ég hamingjusamlega kvefaður. Þetta er þá í fjórða skipti sem ég fæ kvef í vetur og hef ég ákveðið að reyna við heimsmetið í fjölda kvefpesta á einum vetri en það er 72 skipti. Metið á suðurskautsfarinn Ubasa Mombizu sem aldrei hafði séð snjó fyrir ferðina miklu 1999.
Helgin framundan og hún er vandlega plönuð. Í kvöld hafði ég hugsað mér að kíkja á Borgarfjörð Eystri en þar er pabbi skólastjóri. Steinn Ármann Magnússon, helmingur Radíusbræðra, leikstýrir þar skólaleikriti og frumsýning verður í kvöld. Á morgun áætlaði ég að fara á Stútungasögu þar sem Björgvin bróðir leikur eitt aðalhlutverkið en leikritið er sett upp af LME. Á sunnudaginn er svo fermingarveisla hjá frænku minni, haldin á Hótel Héraði, mínum gamla vinnustað. Talandi um fermingar, er ekki löngu tímabært að hætta með þær? Þetta er ekkert annað en peningabruðl. Rúmlega 90% þeirra sem fermast eru að því fyrir gjafir og peninga, jafnvel veislu. Fyrir utan það hversu miklir peningar fara í þetta fyrir foreldra og gesti þá er í raun ekkert að gera í fermingarveislu fyrir utan að borða tertur.

fimmtudagur, 10. apríl 2003

Ég var að enda við að uppfæra Nirvana lagið hérna til hægri. Nú er hægt að niðurhlaða 'Verse chorus verse' í stúdíóútgáfunni, víðóma og án truflanna. Þið getið hægrismellt hér og valið 'save target as...' eða hérna til hægri. 'Dásamlegt' gætuð þið hugsað en ef það er eitthvað sem lífið hefur kennt mér, þá er það að í öllu eru vonbrigði og þess vegna hryggi ég ykkur með því að tilkynna að þetta eru rúm 4mb og af erlendum server fyrir ykkur ADSL notendur. Það breytir samt ekki þeirri staðreynd að lagið er eitt það besta sem ég hef heyrt frá Nirvana, og eru þó öll mjög góð. Ég vil þakka Birninum fyrir að benda mér á þetta. Fyrir það fær hann glænýjan hlekk á síðuna sína hér í hlekkasafninu mínu til hægri.

Einnig hef ég bætt við hlekk á Hjalta Jón en hann er körfuboltaspekingur mikill.
Ég lofaði víst að tala ekki meira um auglýsingar en ég ætla að gera undantekningu í þetta skiptið. Tvær auglýsingar vefjast fyrir mér. Önnur þeirra er frá 66° norður en slagorð þeirra er „Veðrið skiptir ekki máli - verum viðbúin“. Hverju eigum við að vera viðbúin ef veðrið skiptir ekki máli? Ætli hálaunfólkið á bakvið þessa auglýsingu meini ekki „Verum viðbúin SVO veðrið skipti ekki máli“, sem hljómar líklega ekki nógu sem slagorð. Hin auglýsingin er frá Garðheimum held ég að fyrirtækið heiti. Þar er sagt í byrjun „Garðvinna er nytsamlegt sport“ og svo í lokin „Gerum garðvinnu að sporti!“. Þarna er auglýsandi í hrópandi mótsögn við sjálfan sig. Hvernig er það annars með auglýsingar á Íslandi, eru þær aldrei yfirfarnar af yfirmanni eða einhverri nefnd? Smellið hér ef þið viljið ráða mig til að gera auglýsingu fyrir ykkur.

miðvikudagur, 9. apríl 2003

Spurning um að raka á sér rasshárin áður en maður mætir í svona myndatöku. Eins og sést á svipnum á stelpuræflinum þá er þetta með vandræðalegustu augnablikum hennar.
Í dag fóru 8 vaskir piltar í fótbolta á Eiðum. Í hópnum voru m.a. ég Bergvin, Jökull og Alli. Þetta er í fyrsta sinn í ca 2 ár sem ég spila fótbolta og skemmti ég mér konunglega þrátt fyrir að verða fyrir meiri meiðslum á fótum. Í þetta sinn var sparkað í fótinn á mér en ég hélt áfram í ca 2 tíma í viðbót en haltra núna. Það er greinilegt að ég ætla að spila fótbolta meira í sumar en síðustu ár.

Muniði eftir Michael Moore sem fékk óskarinn fyrir heimildarmyndina 'Bowling for Colombine'? Hann hefur ekki verið líflátinn í bandaríkjunum fyrir ummæli sín um hálfvitann Bush. Þvert á móti. Hér getið þið lesið allt um það. Þessi maður fær 7 rokkstig frá mér fyrir ummæli sín á óskarsverðlaunahátíðinni og baráttu sína gegn stríðinu. Ef þú lest þetta Moore þá er ávísunin fyrir rokkstigunum í póstinum.
Ég fór á Old boys körfuboltaæfingu í gær aldrei þessu vant því Hattaræfingarnar, sem eru á sama tíma, eru að syngja sitt síðasta ásamt því sem ég lyfti fyrir og eftir æfingu sem er ekki í frásögu færandi nema fyrir það að þetta var sú allra leiðinlegasta æfing sem ég hef farið á. Fyrir utan það að ég gat ekki neitt var körfuboltinn sem var spilaður svo handahófskenndur að ég varð fyrir andlegu hnjaski. Ekki nóg með það heldur varð ég líka fyrir líkamlegu hnjaski því annar kálfinn á mér er helaumur eftir byltu sem ég tók.

Skelfilegt kvöld en andlegu meiðslin læknuðust að mestu með bland af Boston Public og góðum sigrum í ókeypis Championship Manager 4.

þriðjudagur, 8. apríl 2003

Batman.is hefur sett enn einn hlekkinn á mig. Í þetta skiptið er það nirvana lagið 'Verse chorus verse' sem hlekkurinn tengist, sem ég einmitt setti á síðuna mína en sagt er „í boði finnur.tk“. Takk batman.
Lagið 'Can't stop' með Red Hot Chili Peppers er ótrúlega magnað. Ekki nóg með að lagið sé einstaklega grípandi heldur er myndbandið meistaraverk sem fáir geta leikið eftir. RHCP er gott dæmi um hljómsveit sem tekur sig ekki of alvarlega, enda er tónlist ekki eitthvað sem skiptir mjög miklu máli.

Eurovision keppnin með stolna lagi Íslendinga í fararbroddi verður haldin í Lettlandi 24. maí næstkomandi. Að því tilefni verður að öllum líkindum samankoma við sjónvarpstækið þar sem ég verð búsettur, ef áhugi er fyrir hendi. Að sjálfsögðu verður ekkert nema ég verð í íbúð en sú leit stendur enn yfir. Frábært hvað er erfitt að finna íbúð hérna. Allavega, síðustu 3 ár hef ég verið með smá eurovision djamm þar sem áfengi hefur verið við hönd. Í öll skiptin hefur verið mjög góð stemning og góðar minningar.