fimmtudagur, 31. júlí 2008

Nokkrar fréttir:

* Ég get ekki hætt að kaupa og borða nýjustu skúffukökurnar frá Myllunni. Grínlaust; prófið þær. Ég er ekki í boði Myllunar, ennþá amk. Ég myndi þó gera hvað sem er fyrir Myllu skúffuköku.

* Ég er að vinna í nýju útliti fyrir þetta blogg. Næstum 6 ár með sama útlit er nóg í bili. Meira um það síðar.

* Í gær henti ég helmingi af Risa hrauni vegna nammiáhugaleysi. Ég hef pantað tíma hjá geðlækni til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig.

* Ég fer ekki á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í ár. Ekki frekar en í fyrra. Eða árið þar áður. Eða nokkurntíman. Ástæðan er sú að ég er ekki alkóholisti áhugamaður um áfengisneyslu. Fyrir utan að ég nenni því ekki.

* Að þessu sinni býð ég upp á 5 lög í einu! Þau eru hér að neðan.



1. Karmacoma - Massive Attack: Gamalt og gott. Erfitt að fá ógeð á þessu lagi.
2. Velvet Pants - Propellerheads: Var uppáhaldslagið mitt í gegnum menntaskólann.
3. Beggin - Frankie Valli & the four seasons: Gamalt lag sett í nýjan búning. Sturlað.
4. Everyday - The Field: Þægilegt lag sem auðvelt er að vinna við, dansandi.
5. Lebanese Blonde - Thievery Corporation: Rosalegt stef. Hundleiðinlegur söngur hinsvegar.

miðvikudagur, 30. júlí 2008

Ég hef loksins bætt við aðdáenda- myndum af Risa hrauni á aðdáendasíðu Risa hrauns sem ég stofnaði á Facebook fyrir einhverju síðan.

Þið getið séð þær hér.

Ef einhverjir facebooklausir einstaklingar vilja sjá myndirnar þá eru þær líka hér.

Með þessari fórn til Risa hraun guðanna, vænkast vonandi hagur minn, amk þegar kemur að Risa hraunum.

þriðjudagur, 29. júlí 2008

Mér finnst ég skulda þeim gríðarfjölda sem sendu mér afmæliskveðju í gær greiningu á afmælisdeginum.

Kveðjufjöldinn:

16 á facebook.
14 í persónu.
11 á blogginu.
10 í talsíma.
9 á msn.
6 í gegnum sms.
1 í gegnum e-mail.
1 grein í Mogganum (ef einhver á hana í pdf formi eða moggann + skanna, hafðu samband).

Afmæliskveðjur frá 60 manns alls (8 kveðjur voru endurtekningar)! Líklega heimsmet.


Hápunktar dagsins:

* Hóp-afmælissöngur ca 30 samstarfsmanna í vinnunni. Ekki óspað þessari senu.
* 5 köku veisla í vinnunni í tilefni afmælis.
* Lambi fórnað í vinnunni, mér til heiðurs.
* Stórskemmtileg rækt.
* Afmælisgjöf frá mömmu, pabba, Kollu systir og Árna má. Alltof mikið!
* Ísrúntur með Heiðdísi.
* Skokk um minningagötu.
* Ævintýra margar kveðjur. Og margar þakkir frá mér.

Ég þakka öllum fyrir allt sem gerðist alltaf. Þó sérstaklega í gær.
Í nótt dreymdi mig að ég væri að flytja asíska kvenstrippara til landsins. Tvær þeirra lögðu sig í rúminu mínu og vildu fá mig til að svæfa sig. Ég ætlaði fyrst að tannbursta mig og tannþráðast inni á salerni.

Þegar ég kom aftur var enginn annar en Jeremy Clarkson úr þáttunum Top Gear að gamna sér með þeim. Einhverra hluta vegna trylltist ég, henti honum út og ákvað að vakna of seinn í vinnuna með tandurhreinar tennur.

mánudagur, 28. júlí 2008

Þegar þetta er ritað eru:

* 149 dagar til jóla.
* 31 dagur í tónleika Sebastien Tellier í Öskjuhlíðinni, sem ég einmitt fer á.
* 14 dagar ca í að körfuboltatímabilið byrji aftur hjá UMFÁ.
* 7 tímar í að ég eigi að vera mættur í vinnuna.
* 2 mínútur í að þessi færsla verði tilbúin til birtingar.
* Mínus 2 tímar síðan að stórafmæli mitt hófst en í dag, 28. júlí varð ég þrítugur.

Ég skil vel ef þið hættið að vilja þekkja mig.

Ég er nú þegar búinn að gefa sjálfum mér bæði afmælisgjöf og jólagjöf með því að horfa á myndina Seven í ca 15.000 skipti í faðmi kodda.

Takk ég!

Það var ekkert.

laugardagur, 26. júlí 2008

Ég hef snúið aftur til Reykjavíkur eftir 4 ævintýradaga á Egilsstöðum, Fellabæ nánar tiltekið.

Á Egilsstöðum hefur ýmislegt breyst, þó aðallega fólkið og starfsgreinarnar sem þar eru stundaðar eins og sést á myndinni sem fylgir fréttinni. Þetta er Helgi bróðir sem margfaldar tekjur sínar sem starfsmaður Olís með því einu að ganga í þessum bol.

Fleiri myndir eru hér.

föstudagur, 25. júlí 2008

Í gær hafði ég endalaust af blogghugmyndum. Ég geng jafnvel svo langt að segja hug minn hafa verið Geysi blogghugmynda.

En svo hugsaði ég "Ég hef verið frekar neikvæður undanfarið. Er ekki kominn tími á að sleppa allri bölsýni?" og ég svaraði sjálfum mér "ok þá".

Þess vegna bloggaði ég ekkert í gær.

En í dag líður fólki almennt illa, að því er virðist, auk þess sem ský hefur dregið fyrir sólu og bensínverð hækkaði nýlega. Þannig að ég er í nokkuð góðu skapi.

miðvikudagur, 23. júlí 2008

Fyrir 3 vikum fékk ég flensuna. Viku síðar sló mér niður og svo aftur 3 dögum síðar.

Í gær kom ég til Egilsstaða, þar sem er 70 stiga hiti, gróflega áætlað. Þar fékk ég flensuna. Núna ligg ég inni í 70 stiga hita.

Ég er mjög sáttur.

Ef einhver vill skipta við mig á líkama þá er gott tækifæri núna. Ég borga vel á milli, sérstaklega eftir að ég refsaði ónæmiskerfi mínu með góðum barsmíðum í morgun.

þriðjudagur, 22. júlí 2008

Í dag flaug ég til Egilsstaða. Ég varð flugveikur, enda snérist flugvélin nánast í hringi vegna vindgangs.

Seinna um daginn rúntaði ég um Egilsstaði og las blað af ógeðslegum áhuga. Ég varð bílveikur.

Um kvöldið settist ég í rúm sem dúaði óþarflega mikið. Ég varð næstum sjóveikur.

Ég er mikill aðdáandi þróunarkenningarinnar og vil halda því fram að hún sé í fullu gildi, þrátt fyrir glasafrjóvganir. Ég er líka mjög á móti hreyfiveiki (flug- bíl- og sjóveiki) og vil gjarnan eyða því úr mannskepnunni.

Til að flýta fyrir þróunarkenningunni hef ég ákveðið að fjölga mér ekki. Eru fleiri með í þessu, vonandi afdrífaríku sprelli?

mánudagur, 21. júlí 2008

Á morgun fer fram 4. tilraun mín til að taka sumarfrí, en ég hef hætt við í öll skiptin hingað til vegna ótta um aðgerðaleysi. Í þetta sinn dýfi ég mér bara í djúpu laugina, þó að fullt af breytum séu óráðnar. Svona lítur planið ca út:

Á morgun fer ég í Egilsstaði með flugvél. Á flugvöllinn sækir X mig. Því næst verður farið í X að X, áður en X verður borðað hjá X. Ég býst fastlega við því að eyða öllum stundum í X, þó mér ég verði aðeins að kíkja á X áður en ég fer.

Ég á eftir Xa Reykjavíkur X mikið, þó sérstaklega X og X.

Á Egilsstöðum ætla ég að reyna að leita mér lækningu á þessu handarXemi. Samkvæmt útreikningum mínum í Xcel læknast það bara með því að höggva af mér hendurnar með Xi.

Ég kem svo aftur til Reykjavík þann X. júlí næstkomandi. Þá verður íbúðin líklega X, bíllinn X og X steindautt úr X.


X = óráðið.

laugardagur, 19. júlí 2008

Pókerklúbburinn BFF kom saman í gærkvöldi hjá Víði og spilaði póker þar til blæddi úr hnefum og augum.

Fréttamaður veftímaritsins Við rætur hugans frétti af þessu og kíkti á svæðið.

Löng saga stutt; eftir ca 6 tíma stóð Maggi Tóka uppi sem sigurvegarinn. Ég segi ekki að hann hafi borgað sig inn oft en hann ávaxtaði fé sitt nettó um 3% eftir kvöldið.

Sá skandall varð að fréttamaður veftímaritsins varð í 2. sæti, við litla hrifningu viðstaddra. Æstur múgurinn varð ekki róaður fyrr en undirritaður hafði lofað að gefa allan ágóða kvöldsins til góðgerðamála.

Í óskyldum fréttum; Veftímaritið Við rætur hugans hefur nú stofnað góðgerðasamtökin „Sveltandi Viðskiptafræðingar“. Frjálsframlög eru vel þegin.

föstudagur, 18. júlí 2008

Í kassan hér að neðan hef ég troðið öllum mínum uppáhaldstónlistarmönnum þessa dagana í einn kassa. Prófið þá. Ókeypis.

Ég mæli svo með því að þið skráið ykkur á Jango, veljið ykkar uppáhaldstónlistarmenn, finnið mig (finnurtg) og skráið sem vin. Eða kunningja amk. Í versta falli sem erkióvin.



Nýlega sá ég þessa auglýsingu í sjónvarpinu eða útvarpinu. Man ekki hvort.

Allavega, í auglýsingunni eru eftirfarandi starfstéttir sýndar drekka áfengi í vinnunni:

* Kranaverkamaður.
* Flugumferðarstjóri.
* Tannlæknir.
* Grunnskólakennari.

Þema auglýsingarinnar er "Bara einn", sem þýðir að allir væru að fá sér einn drykk í þessum aðstæðum. Svo er spurt "Finnst þér þetta í lagi?"

Ég skil vel að kranaverkamaðurinn gæti gert mistök fullur og drepið slatta af fólki.

Léttur flugumferðarstjórinn gæti sagt flugvél að lenda ofan á annarri eða eitthvað, sem væri vont (og smá fyndið).

Tannlæknir í glasi gæti borað augun úr sjúklingunum.

En hvað getur grunnskólakennarinn gert af sér undir áhrifum? Velt skrifborðinu sínu yfir krakkana? Kennt þeim Pýþagorasregluna í góðu skapi, jafnvel flissandi? Brotið vínglas á andliti einhvers krakkans?

Mér finnst næstum í fínu lagi að grunnskólakennarar drekki áfengi á meðan kennslu stendur. Ef ég væri að kenna fullt af krökkum alla daga þá væri ég án nokkurs vafa mjög drykkfelldur. Ef ekki drykkfelldur þá ofbeldishneigður.

fimmtudagur, 17. júlí 2008

Hér er listi yfir allar myndir í bíói um þessar mundir. Ég hef þróað nýtt fljótvirkara kerfi til að fara yfir þær. Svona er uppsetningin:

* [Nafn á mynd með hlekk á mynd ásamt íslensku nafni]
* [Upplýsingar] [Stjörnur] [Ókeypis í bíó]
Í fyrsta hornklofa táknar X að ég hafi séð myndina og V að ég vilji sjá hana. Restina vil ég ekki hafa nálægt húsi mínu.

Í öðrum hornklofa er einkunnagjöf í stjörnum. 4 er mest 0 er minnst.

Í þriðja hornklofa er merkt við þær myndir sem ég fæ ókeypis fyrir 2 á.
* Að lokum er lítilsháttar umsögn um hverja mynd.

Big Stan
[V] [ - ] [Ó]
Sennilega sæmileg gamanmynd.

Deception
[V] [ - ] [ ]
Veit ekkert um þessa. Vonast eftir nekt.

Hancock
[X] [2,0] [Ó]
Drama/vísindaskáldsaga. Mjög sérstök blanda.

Hellboy II: The Golden Army
[X] [3,0] [Ó]
Flott og illa skrifuð. Skemmtileg.

Indiana Jones IV
[X] [2,5] [ ]
Vísindaskáldsaga umfram allt.

Kung Fu Panda
[V] [ - ] [Ó]
Kadoosh. Nóg sagt.

Mamma mia
[ ] [ - ] [Ó]
Frekar klóra ég úr mér augun.

Meet Dave
[ ] [ - ] [Ó]
Frekar ríf ég úr mér hjartað og ét það.

Sex and the City
[ ] [ - ] [Ó]
Frekar horfi ég á hommaklám.

The Bank Job
[V] [ - ] [ ]
Örugglega fín spennumynd.

The Chronicles of Narnia: Prince Caspian
[ ] [ - ] [ ]
Nei!

The Incredible Hulk
[X] [2,0] [Ó]
Skilur lítið eftir sig.

Wanted
[X] [2,5] [ ]
Bónus útgáfan af Matrix.

Ef einhver vina minna (ef einhver trúir að ég eigi vini) fyllir eftirfarandi skilyrði, hafið samband:

1. Les þetta blogg.
2. Er ennþá vinur minn eftir að hafa rekist á þessa síðu.
3. Vill sjá einhverja mynd sem er merkt V og Ó.
4. Hefur ekkert á móti andstyggilegu útliti eða viðbjóðslegum karakter mínum.
5. Er ekki milljónamæringur og kemst því aldrei í bíó vegna kostnaðar.
6. Notar ekki gleraugu. Ég læt ekki sjá mig með nördum.

þriðjudagur, 15. júlí 2008

Vinir mínir, fjölskylda, samstarfsfólk og lögregluþjónar hafa bent mér á að ég sé með of háan standard þegar kemur að kvenfólki. Allt í lagi. Ég hef ákveðið að lækka viðmiðið talsvert. Hér eftir set ég bara tvö skilyrði fyrir hina einu réttu:

Hún verður að líta nákvæmlega svona út:

Patricia Velasquez.
Og hún verður að elska þetta lag (Veridis Quo með Daft Punk):



Öld lauslætis er að hefjast hjá mér.
Orkan auglýsir þessa dagana "2ja krónu afsláttur á bensíni í Hafnarfirði. Spáðu í hvað þú sparar!"

Bensínlítrinn kostar venjulega 173,1 krónur en núna 171,1. Það gera um 1,15% afslátt! Vá takk Orkan!

Við að fylla 50 lítra bíl sparar maður um 100 krónur. Fyrirtækið mætti sleppa því að segja fólki að spá í hvað það spari.

Ég spara mér meira á því að sleppa að kaupa mér eitt súkkulaðistykki, sem ég geri auðvitað ekki.

mánudagur, 14. júlí 2008

Það besta við að vera einhleypur er að ég get fengið mér 2ja manna ofursparneytinn bíl án þess að stressa mig á plássleysi.

Þó að ég eignist barn þá þarf ég ekki að kaupa mér nýjan, stærri og ósparneytnari bíl, þar sem við værum þá bara tveir eða tvö.

sunnudagur, 13. júlí 2008

Við lokin á veikindum mínum (4. sinn sem ég minnist á þau) náði ég einhvern veginn að smita tölvuna mína af vírusnum. Vírusinn felur í sér að ég get ekki tengst netinu.

Ef ég hefði vitað að ég gæti smitað tölvu hefði ég aldrei notað tunguna.

Ég er allavega kominn í hjúkkubúninginn, þar til vírusinn hefur verið barinn úr betri helmingi mínum (með hamri helst).

föstudagur, 11. júlí 2008

Í kvöld prófaði ég, í örvæntingu minni við að reyna að drepast ekki úr leiðindum (eða veikindum), að horfa á Britains next top model (ísl.: Næsta Hagkaupsfyrirsæta Breta). Það gekk ágætlega framan af en svo fóru vafasamar hugsanir að spretta í hausnum á mér. Þó aðallega þessar línur:

What sick ridiculous puppets we are
and what gross little stage we dance on
What fun we have dancing and fucking
Not a care in the world
Not knowing that we are nothing
We are not what was intended


Ef enskukunnátta mín bregst mér ekki þá yfirfærist þetta ca svona yfir á íslensku:

Lífið er lag
Sem við syngjum saman tvö
dag eftir dag
Þú og ég
göngum saman gleðinnar veg
um ókomin ár

fimmtudagur, 10. júlí 2008

Eiki frændi


Eiki frændi
Originally uploaded by finnurtg
Þegar þetta er ritað eru akkúrat 6 dagar síðan ég fékk flensuna, sem ég er enn að kljást við.

Þetta kvöld var ég að spila snooker við Eika frænda minn, að ég hélt.

Á meðfylgjandi mynd, upp á sekúndu, fékk ég einmitt flensuna. Mér fannst þetta undarleg tilviljun nokkrum dögum síðar og ákvað að hringja í Eika frænda og spyrja hann nánar út í þetta.

Eiki kannaðist ekkert við að hafa spilað við mig snooker þetta kvöld. Getur verið að ég hafi náð mynd af flensunni, sem líkist frænda mínum ótrúlega mikið?

Og getur verið að hún hafi rústað mér ítrekað í snooker? Óhugnarlegt.

miðvikudagur, 9. júlí 2008

Mér hefur tekist að hitta ekki á dyr við að reyna að labba í gegnum þær. Mér hefur líka tekist að stunga puttanum í augað á mér við að reyna að klóra mér á hökunni. Hvorutveggja í dag.

En ekkert fær mig til að hata sjálfan mig jafn mikið og að misnota sniðskot á 10 cm færi í vinnunni í dag, sitjandi yfir ruslafötunni, eins og sjá má á myndinni sem fylgir færslunni.

Ég hef samt nóg af afsökunum:

1. Ég er veikur.
2. Ég hef ekki spilað körfubolta í 2 vikur.
3. Ég var alblóðugur í framan.
4. Ég var taugaspenntur.
5. Ég var að borða.
6. Ég vildi í raun ekki henda blaðinu.

Innst inni veit ég þó að ég er bara lélegur í að henda í rusl.

þriðjudagur, 8. júlí 2008

Í gær sofnaði ég strax eftir vinnu frá 18:00 til 22:30 eða í fjóra og hálfan tíma.

Í nótt sofnaði ég svo kl 03:00 og svaf til 14:00 (hringdi inn veikur, enda nær dauða en lífi) eða í 11 tíma.

Þegar þetta er ritað hef ég því sofið 15,5 tíma síðastliðinn sólarhring eða um 65%.

Og ég er hvergi nærri hættur. Ég stefni á að sofa um 130.000 tíma í viðbót þangað til ég dey, þeas ef ég dey.

mánudagur, 7. júlí 2008

Mér finnst rétt að benda lesendum á að það er laust pláss í þrjá klúbba sem ég stunda grimmt. Þeir eru eftirfarandi:

Matarklúbbur
Klúbburinn hittist á skyndibitastað 1-2 sinnum í viku. Skyndibitamatur snæddur.
Aðgangur er ókeypis, fyrir utan að greiða fyrir matinn.

Gönguklúbbur
Klúbburinn hittist í World Class 5-6 sinnum í viku. Gengið er í 10-15 mínútur í senn á hlaupabretti, yfirleitt í 5% halla. Einnig er boðið upp á að hittast fyrir utan bílinn minn hjá 365 kl 9 á morgnanna og ganga upp 4 hæðir. Stundum er lyftan tekin.
Aðgangur er ókeypis.

Bókaklúbbur
Klúbburinn hittist í rúminu mínu í lok hvers dags og bók lesin, þar til einhver stingur upp á svefni.
Aðgangur er 250 krónur skiptið.

Ég hef verið að mæta einn á fundina undanfarið og finnst það ekki nógu góð mæting.
Ég bæti hér með enn einu atriðinu við ókosti þess að drekka áfengi en hér er listinn fyrir viðbótina:

* Þynnka.
* Andleg vanlíðan daginn eftir.
* Peningaeyðsla.
* Málgleði (ókostur fyrir alla viðstadda).
* Stjórnleysi (lesist: dans).
* Svefnleysi.
* Eyðilegging líkamans.
* Hárgreiðslan eyðileggst.
* Blóðugir hnúar.

Og nú:
* Varnir líkamans hverfa.

Ég fæ oftar en ekki flensu eða kvef daginn eftir drykkju. Þessu tók ég eftir á föstudaginn (daginn eftir mjög litla drykkju), hóstandi og hnerrandi úr mér tennurnar. Mjög ánægjuleg viðbót við annars skemmtilegan lista.

föstudagur, 4. júlí 2008

Þessi föstudagur er búinn að vera nokkuð fínn, fyrir utan að ég mætti í öfugri peysu í vinnuna í morgun, fékk stöðumælasekt og er að kljást við bæði þynnku og lífshættulegt einbeitingaleysi.

En það breytir því ekki að ég ætla að deila með ykkur þremur hlutum sem hafa gert líf mitt mun betra:

1. Fyrst er að nefna einhverja fyndustu hugmynd sem ég hef séð framkvæmda. Hana má sjá hér. Ef einhver er til í að gera þetta með mér, þá endilega látið mig vita svo við getum byrjað á rússibanasmíðunum.

2. Næst er það hljómsveitin Creed en hún var að gefa út myndband við nýtt lag. Það má sjá hér að neðan:



Að sjálfsögðu er verið að gera grín að þessari öfgakenndu hljómsveit.

3. Til að bæta upp fyrir Creed hryllinginn er hér lagið Loud Pipes (Ísl.: Baldni folinn) með hljómsveitinni Ratatat (Ísl.: Bang og mark), en svo skemmtilega vill til að ég hef hlustað á þetta lag ca 2492349p0ö2830948234 sinnum síðustu 2 daga:

fimmtudagur, 3. júlí 2008

Eitthvað það skemmtilegasta sem ég geri er að fara yfir dagskrá RÚV. Ekki af því dagskráin er svo skemmtileg, þvert á móti. En henni er nú samt troðið í kokið á okkur, svo það er um að gera að hafa gaman af henni. Og mér hefur tekist að finna stórskemmtilega hlið á henni.

Þýðingin á erlendum þáttum og bíómyndum er bæði í senn súrrealísk og fáránlega fyndin. Hér er listi yfir 5 bestu þýðingarnar á dagskrárliðum síðustu viku:



Til hamingju RÚV með þýðinguna á Rough Diamond, sem Baldni folinn. Snilld!

Í heiðursætinu situr svo þátturinn Bang og mark, sem er íslenskur þáttur um fótbolta, hannaður af mönnum sem hafa horft of mikið á Batman sem börn.

miðvikudagur, 2. júlí 2008

Helgi Hóseasson í góðum gír.
Annað kvöld, fimmtudagskvöldið 3. júlí, verður útgáfupartí hjá Atómstöðinni (ens.: Atomstation) en þeir voru að gefa út diskinn Exile Republic (ísl.: Allt í hers höndum). Allir eru velkomnir. Hér eru nánari upplýsingar:

Tímasetning: Fimmtudaginn 3. júlí 2008 klukkan 21:00 og frameftir kvöldi/nóttu.
Staðsetning: Bar 11.
Tilefni: Útgáfuteiti Atómstöðvarinnar á disknum Exile Republic.
Dagskrá: Diskurinn spilaður. Rætt um þróun stýrivaxta. Ókeypis áfengi drukkið af þeim sem mæta tímanlega.
Dresskóði: Enginn.

Mætið! Annars er mér að mæta. Nema ekki, þar sem ég verð á Bar 11, að slamma úr mér augun.

þriðjudagur, 1. júlí 2008

Samtal úr vinnunni:

Ég: Góðan dag, svo virðist sem tölur dagsins hafi ekki verið uppfærðar í morgun.
Svarandi: Ah, ég uppfæri þær. Afsakaðu það.
Ég: Allt í lagi. Bara aldrei láta þetta gerast aftur.
Svarandi: Eða hvað?
Ég: Eða ég fucking hauskúpubrýt þig!
Svarandi: Sannaðu það!
Ég: BOO YA! [Stend fyrir aftan viðkomandi með gsm símann við eyrað]
Svarandi: ok ok, fyrirgefðu! Þetta gerist ekki aftur.
Ég: Of seint! [Hausinn sprengdur af með loftvarnarbyssu á 20 cm færi]
Ég: AAAAHAHAHAHAHAHAHA!

Svarandi: Ertu þarna?
Ég: Já, fyrirgefðu, var aðeins að hugsa.
Svarandi: Áhugavert.
Ég: Bæ!

Alveg óskylt þessu; ég horfði á Rambo í gærkvöldi. Merkilegt hvað hún er raunsæ.