föstudagur, 14. nóvember 2003





Á þriðjudagskvöldið tók ég snarpa ákvörðun og fór í bíó með Gylfa, Kára og óþekktri þriðju manneskju sem var og er kvenkyns. Myndin heitir Matrix Revolutions en það er þriðja og síðasta myndin í Matrix þríleiknum sem hófst 1999. Gylfi hafði keypt miðana fyrr um daginn og bjóst ég ekki við öðru en venjulegum sætum í venjulegum sal. Þegar á hólminn var komið sá ég að um var að ræða svokallaða MMF (Mjög Mikilvægt Fólk) miða sem kosta rúmlega helmingi meira en þeir venjulegu. Í staðinn eru sætin af Latapiltungs gerð ásamt því að popp og gos er allt ókeypis. Að sjálfsögðu fengum við ekki nema fremstu sætin en aldrei þessu vant var það í fínu lagi. Við sáum þá bara myndina fyrst af öllum í salnum.
Allavega þá gerist þessi mynd aðallega í hinum "raunverulega heimi" þar sem hinar niðurbældu mannverur standa í stríði við vélarnar. Myndin er mjög skemmtileg, spennandi og áhugaverð í alla staði. Tæknibrellur eru til fyrirmyndar, eins og í hinum tveimur og eina slæma sem ég sá við hana er óþarfa og ósannfærandi væmni sem á sér stað hér og þar í myndinni auk þess sem inn í myndina eru fléttaðar einhverjar ógeðslegar hollywood sögur al a Armageddon.
Allt í allt skemmti ég mér konunglega í góðum félagsskap, þægilegum sætum og borðandi popp og drekkandi gos fyrir mörg þúsund krónur. Kvöldið fær fjórar stjörnur af fjórum en myndin þó aðeins þrjár af fjórum.

0 athugasemdir:

Skrifa ummæli

ATH. Þegar athugasemd hefur verið rituð þarf stundum að staðfesta hana, eftir að smellt hefur verið á "Post Comment". Hafið það í huga.