mánudagur, 31. ágúst 2009

Ég er hársbreidd frá því að fá mér gæludýr, þrátt fyrir fyrirlitningu mína á þeim. Ástæðan mjög einföld; ég hef fundið hið fullkomna nafn á það. Nafnið er Bingó.

Nafnið er fullkomið af því, ef gæludýrið týndist, þá væri fyndið að ganga um allt kallandi "Bingó!".

föstudagur, 28. ágúst 2009

Ýmsar smápælingar dagsins:

* Á einum tímapunkti í hádegismatnum í dag átti ég einn Kit Kat fingur eftir en bara hálfan sopa af kóki. Löng saga stutt; það endaði ekki vel.

* Í gærkvöldi sá ég myndina Casino Royale með Daniel Craig sem James Bond. Að bera saman gömlu James Bond myndirnar við nýju James Bond með Daniel Craig er eins og að bera saman epli og mjög góðar spennumyndir.

* Mér finnst mjög líklegt að fyrirsagnir morgundagsins í blöðunum verði: "Maður deyr úr vöðvabólgu. Náði að spá fyrir um dauða sinn á blogginu sínu daginn áður."

* Súkkulaðið Villiköttur kostar 189 krónur í mötuneyti 365. Mér finnst líklegt að 60 minutes taki þetta fyrir á næstunni.

fimmtudagur, 27. ágúst 2009

Á tilkynningatöflunni í vinnunni í dag eru áhugaverð skilaboð:

Skilaboð þessi blasa við allri hæðinni.

Ég skrifaði þetta ekki þar sem ég er mjög viðkvæmur fyrir spekileka.

þriðjudagur, 25. ágúst 2009

Ég er ekki mikið fyrir að horfa á sjónvarpsþætti. Ég hef alltaf sagt að eina leiðin til að fá mig til að horfa á þætti er að byrjunin á honum innihaldi eftirfarandi:

* Andlitin á tveimur höfundum þáttanna, svífandi í stafrænu rými, á meðan leysigeislar skjótast framhjá.
* Höfuðin tvö snúast á hlið og reka út úr sér risastóra tunguna.
* Á tungunum ofurdansa litlar útgáfur af þessum tveimur höfundum í appelsínugulum samfestingum (mjög mikilvægt!) og þeir eru kynntir til leiks.
* Því næst ferðast myndavélin framhjá þeim og rekst á faxtæki, pylsu með öllu og kettlinga í sleik.
* Þá birtast svífandi hausar höfundanna aftur og andlitin á þeim springa af, stykki fyrir stykki þar til ekkert er eftir.
* Eftir stendur nafn þáttarins.
* Undir alla þessa senu skal vera undarleg blásturshljóðfærapopp/techno.

Nýlega var mér svo bent á að þessi byrjun er til. Hún er á þætti sem heitir Tim&Eric's Awesome Show. Great Job!

Hér er byrjunin:Þetta er með betri þáttum sem ég hef séð. Hér er atriði um Spaghett:Þættirnir eru 11 mínútur að lengd. Að lokum er hér einn þátturinn, þar sem aðal þemað er hin stórkostlega vara The Innernette:

Ég er með tilboð fyrir ykkur. Fyrir andvirði tekexpakka getur þú, lesandi góður, fengið ónæmiskerfi mitt. Engin falin gjöld. Ekkert greiðslugjald, stimpilgjald eða gjaldsgreiðslugjald. Bara einföld skipti.

Hversu vel virkar það? Mjög vel! Ég er reyndar veikur í annað skiptið á einni viku núna. Látið það samt ekki fæla ykkur frá. Ónæmiskerfið er hresst, þó það virki ekki.

Bíðið! Það er meira.

Ef þið pantið núna fáið þið Peugeot 206 árgerð 2000 með.

sunnudagur, 23. ágúst 2009

Mig grunar að ég hafi drukkið umtalsvert magn af skemmdum appelsínusafa í gær, því ég er mjög slappur í dag. Ég átti ekkert annað að blanda vodkann í.

Tók þátt í minni fyrstu menningarnótt í gærnótt. Ég veit ekki hvað er svona menningarlegt við endalausar biðraðir inn á skemmtistaði.

föstudagur, 21. ágúst 2009

Ég er einstaklega óheppinn með hö ("Ha" í fleirtölu). Þau eru nánast alltaf misskilin. Nokkur dæmi eru þúsund orða virði, ca:

Dæmi 1:
Einhver (A): [segir eitthvað]
Ég: "Ha?"
A: "Akkúrat! Ótrúlegt."
Ég: "Aha...einmitt. Ótrúlegt."

Dæmi 2:
Einhver (B): "[orð sem ég heyri ekki]...ólífusúpa?"
Ég: "Ha?"
B: "Ólífusúpa?"
Ég: "Ólífusúpa hvað?"
B: "Bara ólífusúpa. Eða brauð kannski?"
Ég: "Endurtaktu alla spurninguna!"
B: "Djöfull hata ég þig."

Dæmi 3:
Einhver (C): "Svo dansaði ég í leynum framundir morgunn."
Ég: "Er það?"
C [heyrist ég segja "eh... ha?"]: "Svo dansaði ég í leynum framundir morgunn!"
Ég: "Já, er það?"
C: "Ég dansaði í fucking leynum framundir andskotans morgunn, helvítis fíflið þitt!"
Ég: "já ok."

Vegna þessa dæma (sem gerast hvert ca einu sinni á dag) hef ég ákveðið að hætta að spyrja "ha?". Þess í stað hleyp eins hratt og ég get í burtu frá manneskjunni reynir að eiga samskipti við mig.

fimmtudagur, 20. ágúst 2009

Ef það er eitthvað sem ég hef lært á því að vinna með tölur þá er það eftirfarandi:

* Númer 1,2 og 3 er að vera ítarlegur.
* Númer 1,0 og 1,1 er að nota aukastafi.

miðvikudagur, 19. ágúst 2009

Það lítur út fyrir að ég sé veikur og hef verið síðustu tvo daga. En það þýðir ekki að vera neikvæður. Ég lít á þetta sem tækifæri til að bæta met.

Eftirfarandi met hef ég slegið í þessum veikindum:

1. Ég sofnaði fimm sinnum í gær. Fjórum sinnum í sófanum og einu sinni í rúminu. Fyrra metið var tvisvar sinnum.
2. Ég horfði á sjónvarpið í 10 tíma og 22 mínútur í gær. Fyrra metið var 37 mínútur.
3. Í dag skrifaði ég eina bloggfærslu um veikindamet mín. Fyrra metið var núll.

Því miður er þessum veikindum að ljúka, svo ég bæti líklega ekki mikið fleiri met.

sunnudagur, 16. ágúst 2009

Ég tók eftir einu við að horfa á There's something about Mary á DVD í kvöld; myndin er stórskemmtilega þýdd. Nokkur dæmi:

Sena: Mary er að tala við Ted þegar þau eru unglingar um áhugamál sín.
Mary: "This time it's the 49ers all the way!"
Rétt þýðing:
Mary: "Í þetta sinn eru það 49ers [ruðningslið] alla leið!"
Þýðing á DVD:
Mary: "Í ár eru það miðaldra menn alla leið"

Sena: Ted er að hitta Mary og Warren bróðir hennar í fyrsta sinn í langan tíma.
Warren: "Piggy back ride!"
Ted: "I'll take a rain check this time"
Rétt þýðing:
Warren: "Hestbak!"
Ted: "Ég ætla að eiga það inni í þetta skipti"
Þýðing á DVD:
Warren: "Hestbak!"
Ted: "Ég ætla að tékka á rigningunni núna"

Sena: Healy hittir Mary á golfsvæðinu og ræðir við hana.
Mary: "Are you...an architect?"
Healy: "Well, just until I get my PGA Tour card."
Rétt þýðing:
Mary: "Ertu...arkítekt?"
Healy: "Bara þar til ég fæ PGA golfkortið"
Þýðing á DVD:
Mary: "Ertu...arkítekt?"
Healy: "Bara þar til ég fæ leiðsögumannakortið"

Ég vil gjarnan lesa þessa þýðingu inn fyrir rétt tal, til að gera myndina enn fyndnari.

laugardagur, 15. ágúst 2009

Í kvöld ætlaði ég að leggja mig í klukkutíma. Ég var mjög ákveðinn í að ná því, þar sem ég var mjög þreyttur. Svo ákveðinn að ég svaf í þrjá og hálfan tíma.

Það gerir um 350% árangur í leggjun. Einn besti árangur minn hingað til.

miðvikudagur, 12. ágúst 2009

Mötuneytið í vinnunni hefur hægt og bítandi hækkað verð upp úr öllu valdi. Ég greip til þess örþrifaráðs í kjölfarið að hugsa um að byrja að smyrja mér nesti til að taka með í vinnuna.

Ég hljóp öskrandi (yfir ósanngirninni) í Hagkaup og keypti inn hráefni (enn öskrandi) og hélt svo heim á leið í spennandi smurkvöld.

Þegar ég ég var búinn að smyrja þrjár samlokur meiddi ég mig lítillega á fingri. Þegar á móti blæs hefur reynst vel að hætta við, þannig að ég velti fyrir mér hvort það væri einhver raunverulegur sparnaður í þessu. Ég opnaði Excel.

Fyrst er það kostnaðurinn við hverja smurða samloku:

Fimm samlokur kosta kr. 496 í hráefni eða um kr. 99 stykkið. Afgangshráefni fer á efnahagsreikninginn eða kr. 1.094. Efnahagsreikningurinn afskrifast á 5 árum með 20% í hrakvirði.

Þá er það samanburðurinn við venjulega máltíð. Ég geri ráð fyrir að venjulega kaupi ég samloku í mötuneytinu, sem mig minnir að kosti kr 400/stk. Með því drekk ég kók og borða rándýrt súkkulaði. Ég geri ráð fyrir að ég skipti aðeins út keyptri samloku fyrir heimagerða:

Ef ég held þetta út heilt ár verður mötuneytið af næstum kr. 80.000 og ég get keypt mér nýjan spandexsamfesting í ræktina.
Ég hef sett myndir inn á facebooksíðuna mína frá brúðkaupinu um helgina. Þær eru hér.

þriðjudagur, 11. ágúst 2009

Eftirfarandi myndbútur hlýtur að vera eitt magnaðasta tónlistarmyndband sem gert hefur verið. Svo stórkostlega siðlaust er það, að það fer hringinn og endar sem snilld.

Svo er lagið líka grípandi.

mánudagur, 10. ágúst 2009

Um helgina kvæntist pabbi Laufeyju Egilsdóttur á Akureyri. Brúðkaupið var mjög skemmtilegt en þetta var mitt fyrsta brúðkaup. Hlutverk mitt í brúðkaupinu var að keyra limmósínu brúðhjónanna og gekk það stórslysalaust fyrir sig. En nóg um það. Meira um tölfræðina.

Við brúðkaup þetta eignast ég þrjá nýja bræður; Egil (1974), Þórð (1976) og Braga (1977).

Fyrir vorum við fimm; Styrmir (1975), ég (1978), Björgvin (1980), Kolla (1982) og Helgi (1985).

Eins og sjá má var ég í næstelstur í systkinahópnum og mjög ánægður með það. Að vera næstelstur er alveg eins og að vera elstur nema engin ábyrgð. En nú er allt breytt:

Hér má sjá að ég, Björgvin, Kolla og Helgi föllum um 3 sæti í röðinni og ég enda í 5. sæti! Það segir þó ekki alla söguna.

Hér sést breytingin hlutfallslega.

Dæmi: Áður var ég í topp 40% minna systkina en fer niður í topp 63%. Þetta er 23% lækkun og sú mesta sem nokkur okkar þarf að taka á sig. Egill fer úr topp 33% (þar sem þeir bræður voru 3) í topp 13% (þar sem við erum nú 8).

Þetta má svo setja í mynd:
Smellið á myndina fyrir stærra eintak. NÚNA!

Allavega, þrátt fyrir verðhrun á mér er ég mjög sáttur við ráðahag þeirra hjóna. Þau passa fullkomlega saman. Til hamingju með gott val, pabbi og Laufey.

föstudagur, 7. ágúst 2009

Hér er plan næstu daga:

Föstudagurinn 7. ágúst.
Fyrsta sumarfrí sumarsins hefst.
Keyri til Akureyrar þar sem ég hitti systkini mín.
Fer í bíó eða eitthvað svipað með systkinum.

Laugardagurinn 8. ágúst.
Brúðkaup pabba og Laufeyjar fer fram.
Keyri líklega til baka síðar um kvöldið.

Sunnudagurinn 9. ágúst.
Vinn við aukaverkefni sem ég tók að mér nýlega.

Mánudagurinn 10. ágúst.
Vinn við sama aukaverkefni, sem þarf að skila 11. ágúst.

Þriðjudagurinn 11. ágúst.
Klára aukaverkefnið og fæ greitt.
Nýt þess að vera í sumarfríi.

Miðvikudagurinn 12. ágúst.
Mæti aftur til vinnu, algjörlega úthvíldur.

Þá á ég bara 21 frídag eftir. Ef einhver er með verkefni, látið vita.

miðvikudagur, 5. ágúst 2009

Í dag:

* Borgaði ég 85.000 krónur fyrir viðgerð á bílnum mínum. Þá hef ég samtals greitt um 17 milljónir í viðgerðir á honum.
* Kom í ljós að ég verð að vinna eins og múlasni á morgun, fimmtudag.
* Kom í ljós að ég verð að fresta ferð minni austur á land á sunnudaginn vegna aukavinnu sem ég fékk. Þessi vinna er unnin til að greiða viðgerð(ir) á bílnum.
* Kom í ljós að ég er 8 mínútur að ganga í vinnuna frá nýju íbúðinni. Ég var 15 mínútur að keyra í vinnuna frá gömlu íbúðinni.
* Brosti stelpan í mötuneytinu til mín.
* Bætti ég öskurmet á körfuboltaæfingu til að fá útrás. Góð tilfinning.
* Lagðist ég upp í sófa eftir körfuboltaæfingu, úrvinda. Of úrvinda til að skipta um stöð þegar Sex and the city byrjaði. Nú líður mér eins og andlegu nauðgunarfórnarlambi.

Allt í allt mjög góður dagur.

þriðjudagur, 4. ágúst 2009

Í morgun, þegar ég tók til á borðinu mínu rakst ég á símanúmer sem var hripað á blað. Ég vildi henda miðanum en vissi ekki hvort númerið væri mikilvægt.

Svo ég fór á simaskra.is og fletti upp númerinu. Niðurstaða: Finnur Torfi Gunnarsson [= ég].

Ég ákvað að henda miðanum ekki.

mánudagur, 3. ágúst 2009

Ég hef ekki nöldrað í rúmlega korter. Hér er því listi yfir þær frægu hljómsveitir sem ég get alls ekki hlustað á án þess að þurfa að skaða mig:

1. Sálin hans Jóns míns
Andstyggileg tónlist.

2. The Killers
Gríðarlega ofmetin sveit. Sérstaklega eftir lagið "Human" sem er það versta sem ég hef heyrt í mörg ár.

3. U2
Hef aldrei haft gaman af henni. Nýjustu diskar sveitarinnar gera lítið til að koma í veg fyrir að ég gubbi úr leiðindum.

4. Allar R&B sveitir/allir R&B tónlistarmenn
Stefnulaust drasl þar sem áherslan er á að vera töff. Og ég hata allt töff.

5. Stuðmenn
Allt fyrir 1985 er fínt. Restina forðast ég eins og syndina.

Þetta er auðvitað ekki tæmandi listi. Ég er endalaus uppspretta nöldurs þegar kemur að vinsælum hljómsveitum.

laugardagur, 1. ágúst 2009

Nákvæmlega þetta upplifði ég í dag:


Nema í Reykjavík eru engin börn, sem betur fer. Þeirra í stað eru túristar.

Mér fannst sérstaklega gaman að liggja í heita pottinum í kvöld umkringdur bandarískum túristum af því mér líður eins og ég sé staddur í Hollywoodmynd. Sérstaklega þegar ein konan velti því fyrir sér af mikilli alvöru hvort potturinn væri við suðumark.

Ekki slæmt að vera hluti af klipptum senum úr Dumb and Dumber.