fimmtudagur, 29. janúar 2009

Hér er það helsta í fréttum:

Augndropaævintýri
Í dag tókst mér að láta augndropa detta við vinstra munnvik í stað vinstra auga. Þetta er lang versti augndropa árangur minn hingað til. Ég vona bara að ég verði aldrei sprengjuflugvélastjóri.

Seven
Í fyrradag keypti ég DVD disk með uppáhaldsmyndinni minni; Seven. Þetta er þriðja DVD útgáfan sem ég eignast af þessari mynd.

Ég hef þó ekki opnað hana ennþá, þar sem tilgangurinn með kaupunum er annar og meiri en að skemmta mér. Tilgangurinn er að eignast 7 útgáfur af Seven, til að geta sagt á djamminu „I have seven Seven DVDs“. Ég nýt nefnilega of mikillar kvenhylli (ath. lygi). Þetta ætti að draga úr henni, vonandi eyða.

Táknmál
Mig langar mjög mikið að læra að segja "Ég kann táknmál, fíflin ykkar" á táknmælsku svo táknmálsfólkið í ræktinni hætti að vera svona montið af því að baktala mig á þessu tungumáli.

En ég er nokkuð viss um að ég myndi bara stama og gera mig að fífli. Ég verð svo skjálfhentur þegar ég er reiður.
Í dag lærði ég eitthvað nýtt í Excel. Ég lærði að nota flýtihnapp sem tekur runu af gögnum, strípar hana af formúlum og snýr henni (transpose).

Flýtihnappurinn er alt + e + s + v + e + enter. Mjög handhægt og fljótlegt.

þriðjudagur, 27. janúar 2009

Ég hef fengið nýtt viðurnefni í vinnunni. Áður en lengra er haldið skal farið yfir þau viðurnefni sem ég hef fengið:

1. Fjöldamorðinginn í horninu
Ég sit í horni hæðarinnar. Einn daginn mætti ég nánast með alskegg, vegna leti. Ennfremur var ég frekar þreyttur. Ég heyrði sölumann spyrja annan hvort hann þyrfti að tala við 'fjöldamorðingjann í horninu' til að fá tölur.

2. E-pillu Finnur
Fékk þetta af því ég er svo æstur í vinnunni. Líklega kaldhæðni.

3. E-töflu Finnur
Uppfærsla á síðasta gælunafni, þar sem ég vinn mikið í Excel töflureikni.

4. Finnur
Þetta er ég kallaðu þegar vantar gögn.

5. Snillingur
Þetta er ég kallaður þegar ég skálda viðurnefni á mig, af ímynduðu vinum mínum.

Og það nýjasta:

6. GI Joe
Þetta var ég kallaður í gær af hópi samstarfsmanna. Gæti tengst dýrslegu vaxtarlagi mínu og þeirri staðreynd að ég er ber að ofan og olíuborinn í vinnunni í dag. Eða bara kaldhæðni.
Fyrir viku fékk ég fjörfisk í hægri rist. Í fyrradag fékk ég fjörfisk í hægri mjöðm/nára. Í dag er ég með fjörfisk í hægri upphandlegg.

Ég hef sett þetta upp í Excel, gert línulega aðhvarfsgreiningu og hef komist að því að næsta skref sé að ég tryllist úr pirringi.

mánudagur, 26. janúar 2009

Aðeins tveir íslenskir karlmenn gætu mögulega verið ofurhetjur, útlitslega séð, samkvæmt talsverðri greiningarvinnu yfir helgina. Sá fyrri:

Bjarni Benediktsson, stjórnmálamaður.

Hann væri spillta ofurhetjan þar sem hann er sjálfstæðismaður, auðvitað. Hann myndi mjög líklega setja auglýsingar á búninginn sinn, aðeins bjarga ríka fólkinu frá því fátæka og setja óhæfan lögmann og vin sinn sem seðlabankastjóra.

Sá seinni:

Þorgrímur Þráinsson, barnabókahöfundur.

Hann væri góða og réttláta ofurhetjan. Aðallega af því hann er á móti reykingum, er gríðarlega vinalegur í framkomu og er ljóshærður.

Nú hefst leitin að ofurskúrkunum. Tillögur eru vel þegnar.

laugardagur, 24. janúar 2009

Ég hef ákveðið að breyta þessum topp 5 lista (yfir minnistæðustu atburðina í World Class) í topp 200 lista.

Ástæðan er atburður sem kom upp í gær, ef þannig má orða það. Nú lítur listinn ca svona út:

200.-1. sæti: Hver sekúnda sem fór í að lyfta í næsta tæki við Ragnhildi Steinunni.

föstudagur, 23. janúar 2009

Þessi færsla er bönnuð börnum innan 18 ára og öðrum viðkvæmum. Þá aðila bið ég vinsamlegast um að loka augunum þegar færslan er lesin.

Ég hef nú verið í World Class í 16 mánuði. Margt hefur gerst á þeim tíma. Hér er topp 5 listinn yfir eftirminnilegustu atburðina í World Class hingað til:

5. Þegar ég áttaði mig á því að rassastelpan, eins og ég kýs að kalla hana, er líka með andlit. Og það er fagurt. Sú gleði sem þessari uppgötvun fylgdi hvarf þó fljótt þegar ég áttaði mig á því hversu mikill viðbjóður ég er.

4. Þegar ég sá miðaldra manninn með bolinn gyrtan í nærbuxurnar og niðurfyrir þær. Sú mynd er sem greypt í huga minn. Hún hverfur ekki, sama hvað ég klóra í augun á mér.

3. Þegar ég sá loðnasta mann í heimi í sturtu. Ég hélt að hann væri í samfestingi þangað til mér var litið á ljósa blettinn í klofinu á honum, en þar var hann brasilískt snyrtur. Áhugaverð samsetning.

2. Elgmassaði náunginn sem elti mig úr sturtunni í gufuna, úr gufunni í sturtuna, úr sturtunni í þurrkunaraðstöðuna og þaðan að klefanum mínum, pósandi á hverjum stað, kviknakinn. Ég held ég sé búinn að hrista hann af mér.

1. Þegar ég var nýkominn úr sturtu og var að teygja mig upp í efstu hilluna eftir handklæðinu, snúandi mér að útidyrahurðinni að sundlauginni þegar stelpa gekk inn á mig. Ég fraus í þessari stellingu (nema berrassaður) en náði þó að heilsa henni rétt áður en hún hljóp út. Gott ef hún var ekki grátandi.

fimmtudagur, 22. janúar 2009

Ég hef orðið vitni að mesta sellouti sögunnar. Svo mikið er þetta sellout að ég pissaði með augunum, í fyrsta sinn í gærkvöldi.

Chris Cornell er þekktur fyrir að vera í grunge sveitinni Soundgarden og síðar rokksveitinni Audioslave. Eftir það hóf hann sólóferil, þar sem hann m.a. tók James Bond lagið You know my name.

Nýjasta útspil hans er vægast sagt sérstakt. Hugsið ykkur Britney Spears lag. Setjið það lag svo í Britney Spears myndband með hópdansi og öllu. Takið svo Britney Spears úr jöfnunni og setjið Chris Cornell í staðinn.

Áhugavert hjá honum að breyta markhópnum sínum frá reiðum karlmönnum yfir í 12 ára stelpur.

Mér býður við þessu, en sýni þetta samt; lagið Part of me með...[æla í háls]...Chris Cornell:Það sem gerir mig sérstaklega reiðan yfir þessu er hversu óþolandi grípandi þetta djöfulsins lag er. Hef verið að raula það í dag.

miðvikudagur, 21. janúar 2009

Þá er komið að sparnaðarráðum Finns viðskiptafræðings.

Í þessari viku kenni ég hvernig má spara tíma og þarmeð pening.

Hér eru dæmi um minn sparnað:

1. Ég mæti alltaf hálftíma of seint í vinnuna til að forðast umferð.
2. Ég fer alltaf klukkutíma of seint í morgunmat, hádegismat og kaffi til að forðast biðröð í mötuneytinu.
3. Ég vinn til kl 19, til að forðast umferð.
4. Ég fer alltaf í ræktina klukkan 19, til að forðast örtröðina á bilinu 16:00-18:30.
5. Ég versla alltaf inn á bilinu 21:00-22:00 í Samkaup, Hafnarfirði, til að forðast örtröð. Hef ekki verslað í Bónus í meira en ár.
6. Ég forðast allt ókeypis, þar sem þar skapast örtröð í 99% tilvika [gróf áætlun].

Þegar allur tímasparnaðurinn er tekinn saman í lok árs kemur í ljós að ég hef sparað mér tugi, ef ekki milljónir klukkutíma með því einu að vera á skjön við samfélagið.

Þennan tíma má t.d. nýta í að verka fisk og fá þannig hellings pening. Í bónus fær maður að sleppa við að hitta fólk.

þriðjudagur, 20. janúar 2009

Það gildir það sama um fallegt/ljótt fólk og skemmtilega/leiðinlega tónlist; ég hef mjög gaman af því að horfa/hlusta á hvorutveggja.

Allt hefur þó sín takmörk. Ég get t.d. ekki horft á Jessica Alba of lengi án þess að tryllast, eða hlustað of mikið á Nick Cave án þess að verða meðvirkur í meistaralegu þunglyndi hans.

Takmörk, jafnvel hámark, leiðinlegrar tónlistar fundust í dag þegar ég heyrði lagið Too busy being fabulous með The Eagles. Ég fann hvernig líkaminn hóf að slökkva á sér og heilinn að eyða sjálfum sér þegar viðlagið byrjaði.

Prófið (á ykkar ábyrgð):

mánudagur, 19. janúar 2009

Mér finnst ótrúlega þægilegt að bæta "etc." við upptalningu hjá mér eða sögur sem mér finnst augljóst hvernig enda.

Ástæðurnar eru eftirfarandi:

1. Það lætur mig líta mjög gáfulega út, þar sem þetta er útlenska (etc = et cetera (latína eða pólska og þýðir o.sv.frv.)).
2. Það bjargar mér yfirleitt frá vandræðalegri þögn.
3. Það lætur lista, sem eru venjulega fullkláraðir, líta út fyrir að vera lengri en þeir eru.
4. Þetta orð kemur alltaf á óvart í lok setningar eða upptalningar.
5. Fínt umræðuefni í partíum, veislum etc.
6. Etc.

sunnudagur, 18. janúar 2009

Í nótt dreymdi mig mjög skýra drauma. Svo skýrir voru þeir að mig fór að gruna ýmislegt.

Í miðjum draumförum fattaði ég svo að ég hafði sofnað með linsurnar í augunum. Ég hef áður sofnað með gleraugun á nefinu, en þau gagnast mér lítið í draumum þar sem ég sef með augun lokuð.

laugardagur, 17. janúar 2009

Lýst er eftir húfu. Húfan fór að heiman úr Hafnafirði einhverntíman í síðustu viku og hefur ekki skilað sér. Hún er dökkgræn að lit, hönnuð til að hylja eyru og er mjög þægileg viðkomu.

Hún ber nafnið Helga [Húfa Finnsdóttir], er 2ja ára og er saknað af undirrituðum.

Að neðan er mynd af húfunni, teiknuð af rannsóknardeild lögreglunnar eftir lýsingu eiganda:Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Helgu Húfu eru beðnir um að hafa samband við mig í athugasemdum.

fimmtudagur, 15. janúar 2009

Það er komið að því að líta yfir árið 2008. Að þessu sinni ætla ég að fara yfir topp 6 uppgötvanir mínar á árinu. Eins og alltaf tel ég niður til að viðhalda exótískri spennu:

6. Benny Benassi.
Einhver, einhvernveginn sendi mér hlekk á lagið Satisfaction með honum á árinu. Eftir það "keypti" ég alla diskana hans og hlustaði á án þess að blikka augunum.

5. Grái hárlokkurinn á miðjum hausnum á mér.
Fann lokk af gráum hárum á hausnum á mér í sumar. Íhugaði að lita hárið á mér hvítt til að fela hann en fattaði svo að Bogi Ágústsson er gráhærður, þannig að ég er fullkomlega sáttur við að verða bráðum gráhærður.

4. Love you should've come over með Jeff Buckley.
Kynntist þessu lagi í gegnum ástarsorg vinar míns. Hef hlustað á þetta reglulega síðan þá. M.a. í ræktinni, þegar ég æfi vöðvana sem gnísta tönnunum og halda tárum í skefjum:3. Kjúklingastaðurinn í Suðurveri. Karrýkjúklingarétturinn, nánar tiltekið.
Fyrir einhverja furðulega tilviljun fór ég á þennan stað og ákvað að velja rétt númer 7. Það var ekki snúið til baka. Síðan þá hef ég haldið staðinum gangandi.

2. Ratatat.
Fékk hlekk á lagið Loud Pipes með þessari New York sveit og missti þvag við fyrstu hlustun. Eitt leiddi af öðru og ég endaði á tónleikum með þeim 20. desember, sem var ein skemmtilegasta kvöldstund ársins. Hér er lagið Wildcat:1. Sebastian Tellier.
Heyrði í þessum meistara í Eurovision, af öllum visionum með lagið Divine. Ég varð hugfanginn, "keypti" allt með honum og komst að því að Divine er með verri lögum hans, þó það sé frábært. Fór á tónleika með honum í september eða október í Öskjuhlíðinni. Ég legg til að hann verði klónaður, til að eiga vara eintak.
Hér er lagið La Ritournelle:

Í morgun vaknaði ég einu skrefi nær takmarki mínu í lífinu; að verða elsti maður í heimi.

Ég vaknaði hinsvegar einu skrefi fjær skammtíma markmiði mínu; að sofa ekki yfir mig.

miðvikudagur, 14. janúar 2009

Í dag fór eftirfarandi atburðarás fram:

1. Ég svaf yfir mig.
2. Ég kom mjög hugsi í vinnuna.
3. Ætlaði að taka lyftu á 4. hæð, þar sem ég vinn. Ég er yfir stigagöngu hafinn, þar sem ég er háttvirtur viðskiptafræðingur.
4. Þegar í lyftuna var komið gleymdi ég að ýta á takka, svo hugsi var ég.
5. Hurðin lokaðist og ég hugsaði.
6. Ca. mínútu síðar opnaðist lyftuhurðin aftur. Lyftan var enn á 1. hæð og ég djúpt hugsi.
7. Sá sem opnaði lyftuna hélt að ég væri að koma niður af 4. hæð, svo ég spilaði með og fór út.
8. Ég labbaði, mjög hugsi, upp á 4. hæð, þrátt fyrir að vera háttvirtur viðskiptafræðingur.

Eftir þetta ævintýri finnst mér ég nánast ekkert yfir sótsvartan almúgann hafinn, enda gekk ég upp á 4. hæð.

Allavega, hér er það sem ég var að hugsa í lyftunni og stiganum:Nokkur atriði varðandi þessa könnun:
1. Allir að taka þátt!
2. Frekar pirrandi að geta ekki hugsað Íslenska stafi. Þarf að kíkja til læknis líklega.
3. Ég bætti Lindu Pétursdóttir við könnunina ef svo ólíklega vill til að einhver stelpa lesi síðuna.

þriðjudagur, 13. janúar 2009

Í byrjun september síðastliðnum kom út diskurinn Everything is borrowed (Ísl.: Allt er lánað) með breska rapparanum the Streets. Hér er coverið:


Glöggir föðurlandselskendur/nasistar taka eftir að myndin er tekin á suðurlandi Íslands; Skógarfoss í öll sínu veldi.

Aldrei hefur neinn, nokkurntíman, hitt naglann jafn vel á höfuðið með titli á plötu og vísan í Ísland. 3 vikum eftir útgáfu plötunnar hrundi Ísland, sem var byggt upp á lánum.

mánudagur, 12. janúar 2009


Þessa mynd verð ég að sjá! Hvað getur farið úrskeiðist þegar mynd heitir Rock n'Rolla? Það er löngu kominn tími á Hollywoodmynd um rokk og rollur.

Áhugamenn um hina íslensku sauðkind, hafið samband fyrir spennandi og ögrandi bíóferð.
Atvik í morgun breytti heilli kenningu sem ég hef haldið fram í mörg ár. Nú eru tvö atriði sem fá mig til að dansa;

1. Áfengi og nóg af því.
2. Hálkublettur. Því stærri blettur, því lengri er dansinn.

Í morgun dansaði ég í um 5 sekúndur fyrir utan bílinn minn. Fékk númerið hjá nágrannakonunni í kjölfarið.

sunnudagur, 11. janúar 2009


Ég hef bætt við myndum frá jólafríinu á sýbernetið. Þær má finna á facebook prófílnum mínum eða hér.

Ég hef ekkert meira um það að segja.

laugardagur, 10. janúar 2009

Nú hef ég víðtæka reynslu af kvenfólki. Ekki aðeins hef ég séð nokkrar í ræktinni heldur eiga vinir mínir nánast allir kærustur. Ég veit því ýmislegt.

Tvennt hef ég lært á þessari gríðarlegu reynslu:

1. Hver einasti kvenmaður elskar ferðalög. Ef hún gerir það ekki eru allar líkur á því að hún aki vörubíl. Ekki að það sé neitt að því.

2. Ekki nokkur kvenmaður hefur [kynferðislegan eða annan] áhuga á Excel. Ótrúlegt en satt.

Þessi tvö atriði útiloka að ég geti átt allt sameiginlegt með einhverri stelpu þar sem ég fyrirlít ferðalög og ber lostafullan hlýhug til Excel. En nóg um mig.

Þetta var fyrsta kennslustundin í stelpur 103 netáfanganum. Próf í vor.

föstudagur, 9. janúar 2009

Tvennt nýtt gerðist í dag:

1. Ég keypti svo stóran og sveran banana að ég roðnaði við að handfjatla hann.
2. Ég borðaði banana með hníf og gaffli.

fimmtudagur, 8. janúar 2009

Hér er það helsta sem ég hef verið að gera í dag í formi smásagna:

Vikulegur
Vikulegir lesendur þessarar síðu eru að rokka á milli 135-200 manns. Þú last rétt. Þú, lesandi góður, rokkar! Að því gefnu að þú sért vikulegur.

Vegabréf
Nýlega rann vegabréfið mitt út sem þýðir að ég þarf að sækja um nýtt. Á því nýja hef ég ákveðið að skrá hæð mína í ljósárum. 0,000000000000000193 ljósárum nánar tiltekið.

Ég hlakka til að lenda í slagsmálum við afgreiðsludömuna yfir þessu, að því gefnu að hún sé fíngerð.

2*Álag
Í dag var ég að vinna verkefni fyrir deild innan fyrirtækisins. Það var talsvert álag á mér að klára verkefnið fyrir klukkan 17. Þegar ég var í miðjum klíðum var ég beðinn um að vinna annað verkefni og klára það fyrir 17. Þetta var annað álagið sem ég vann undir fyrir klukkan 17.

Ég vann því undir álögum í dag í fyrsta sinn á ævinni. Það er ekki jafn slæmt og í ævintýrunum. Ég losnaði undan þeim rétt um kl 17 og hætti þarmeð að froðufella úr stressi.
Svo ég haldi áfram umfjöllun minni um myndina Yes man (þriðja færslan í röð), þá fjallar hún um félagslega óvirkan mann sem byrjar að segja já við öllu sem honum býðst.

Þar sem mér hefur verið líkt við þennan kappa ákvað ég gera það sama og hann, nema í litlum skrefum. Ég byrjaði í dag. Hér eru nokkur tækifæri sem ég fékk:

* Vaknaði klukkan 8:00. Spurði sjálfan mig hvort ég vildi ekki sofa lengur, jafnvel yfir mig. Svaraði því játandi, frekar áhugalaus. Það tókst.

* Sá í Fréttablaðinu að hljómsveitin Familjen muni halda tónleika á Nasa þann 6. febrúar næstkomandi. Ég náði ekki að klára spurninguna áður en ég öskraði JÁ yfir alla hæðina. Ég kaupi svo miða seinna.

* Var að spá í að vera mjög lélegur á körfuboltaæfingu kvöldsins. Ég greip þá hugsun á lofti og lét hana verða að veruleika!

* Í Samkaup í kvöld hugsaði ég með sjálfum mér að ég ætti að sleppa öllu nammi. Svo hugsaði ég; "Láttu ekki svona! Lifðu lífinu, segðu já við nammi!". Núna klæjar mig í tennurnar yfir öllu namminu sem ég át í kvöld, sem er skrítið því ég náði ekki að tyggja nema lítinn hluta af því, slíkur var ákafinn.

* Áður vildi ég ekki að fólk héldi að ég væri á kaf í dónalegum eiturlyfjum. Ég áttaði mig á því að það er óþarfa neikvæðni. Hér er því lagið No no no með Benny Benassi, sem ég vildi að ég kynni að dansa við:


þriðjudagur, 6. janúar 2009

Af því ég segi aldrei nei við neinn, þá dreif ég mig á myndina Yes man með vinkonu minni. Mér fannst aðalkarakterinn ekkert líkur mér! Sjá hér.

Og ef mér þætti hann líkur mér þá er það líklega bara af því hann var mjög skemmtilegur. Vinur eftir mínu höfði.

Annað vakti athygli mína. Áður en myndin byrjaði var tónlist Katy Perry spiluð. Hún reynist vera algjörlega fullkominn tvífari aðalleikkonu myndarinnar, Zooey Deschanel:

Zooey Deschanel.


Katy Perry.

Allavega, myndin kom mjög á óvart. Mæli með henni fyrir alla sem segja "já" við öllu. Með betri myndum Jim Carrey. 3 stjörnur af 4.

Tveir vinir mínir létu mig vita í gær að þeir hefðu séð myndina Yes man með Jim Carrey í aðalhlutverki. Ástæðan fyrir því að þeir létu mig vita af þessari mynd var sú að þeim fannst ég mjög líkur karakter Jim Carrey.

Jim Carrey leikur þar gríðarlega neikvæðan og leiðinlegan mann sem tekur aldrei neina áhættu. Gott ef hann hefur ekki gaman af Excel og étur Risa hraun í hvert mál. Hann er svo leiðinlegur að hann fer á námskeið í því að verða minna leiðinlegur.

Það eina sem vantar er að hann eigi tvo fyrrverandi vini sem bentu honum á hversu leiðinlegur hann væri með því að líkja honum við óþolandi náunga. Þá værum við nákvæmlega eins!

mánudagur, 5. janúar 2009

Í morgun ákvað ég, eftir talsverða innri baráttu, að klippa VISA kortið mitt í tvennt og henda. Þá er mér ekkert að vanbúnaði að nota nýja VISA kortið sem kom í póstinum í morgun með mun hærri heimild.

sunnudagur, 4. janúar 2009

Í fréttum er þetta helst:

* Ég er kominn aftur í rigninguna og blíðuna í Reykjavík. Ferðin hefði verið erfið ef ekki hefði verið fyrir stórkostlega aksturhæfileika mína og mjög góða færð.

* Ég á útrunnið morgunkorn. Ég vissi ekki að morgunkorn gæti runnið út, amk ekki á mannsævi. Mér skjátlaðist og stend hérmeð leiðréttur. Ég er betri maður fyrir vikið, þó ég sakni morgunkornsins míns. Ég hélt við yrðum gömul saman.

* Ég hef fundið endanlega lækningu við þreytu; hálft kíló af blandi í poka. Magaverkurinn verður svo óbærilegur að þú gleymir hversu þreyttur þú ert. Það er líka erfitt að sofna ælandi.

laugardagur, 3. janúar 2009

Á þessum tíma á morgun verð ég búinn að keyra rúma 650 kílómetra frá Egilsstöðum til Reykjavíkur, farinn í og úr bíó og kominn heim, gerandi mig tilbúinn til að fara að sofa.

Það er eins gott að myndin verði góð.

föstudagur, 2. janúar 2009

Þá er kominn tími á að vinna í áramótaheitunum (sjá hér).

Þetta er svokölluð HDR mynd sem Helgi tók af mér. Áramótaheitunum fannst rétt að deila henni.

7. Verða sjálfhverfari.
8. Verða almennt verri maður.


6 áramótaheit eftir.

fimmtudagur, 1. janúar 2009

Áður en ég tilkynni áramótaheit ársins finnst mér rétt að fara yfir áramótaheit ársins 2008 og hvernig þau gengu:

1. Drekka meira áfengi og mæta í partí sem mér er boðið í.
Ég varð fullur tvisvar á árinu. Fyrst í febrúar á árshátíð 365 og síðan 20. desember. Ég afþakkaði ca. 90% boða í teiti. Mjög lélegur árangur.

2. Halda áfram að þyngja mig með lyftingum og prótein-/kreatín-/glútamínáti.
Ég er orðinn 91 kg, sem er um 11% þynging. Góður árangur.

3. Taka mataræðið í gegn.
Ég borðaði reglulega en frekar óhollt. Sæmilegur árangur.

Áramótaheit 2008: 50% árangur.

Hér eru ný áramótaheit fyrir árið 2009:

1. Drekka meira áfengi.
2. Fara á fleiri viðburði*.
3. Þyngjast meira.
4. Sofa meira.
5. Verða ákveðnari.
6. Verða óhjálpsamari.
7. Verða sjálfhverfari.
8. Verða almennt verri maður.

Ég vona að þetta gangi vel, held ég.

* Viðburðir = tónleikar/partí/hátíðir.
Til að byrja með; gleðilegt 2009. Takk fyrir allt á því ári sem var að líða. Man ekki alveg númer hvað það var.

Gærkvöldið var rólegt og þægilegt. Hér eru helstu atriðin:

* Ég græddi 50.000 krónur með því að ætla að kaupa flugelda fyrir kr. 50.000 en hætta svo við.

* Áramótaskaupið fannst mér mjög gott. Gef því 7 í einkunn af 10.

* Ég ætlaði á áramótaball en þegar á hólminn kom hringdi gestur af ballinu í mig og sagði að mín væri saknað þar. Ef mín er saknað á balli þýðir það að ballið er ömurlegt. Svo ég sleppti því.

* Fyrsti dagur ársins var án birtu, þar sem ég vaknaði um klukkan 16.