sunnudagur, 30. nóvember 2008

Elsta kona heims dó í fyrradag, enn eina ferðina. Það hlýtur að vera ömurlegt að vera hún. Þetta er í 6. skipti sem hún deyr á þessu ári.

Ég vil gjarnan tileinka þessari aumingja konu eftirfarandi lag; Sombre Detune með Röyksopp:
Ég skora á alla að hækka í botn og öskra með, henni til heiðurs. Vonandi deyr hún ekki oftar á þessu ári.

laugardagur, 29. nóvember 2008

Ég sat í rólegheitum mínum og snæddi Kjúklinga Kessedía (held það sé rétt skrifað) á Serrano í dag þegar ungabarn í ungbarnastól og 3-4ra ára barn fóru að leika sér nokkrum borðum frá mér svo ungbarnið skríkti úr hamingju.

Allir viðstaddir hlógu og höfðu gaman af, þar á meðal ég sem leit upp og kímdi, þar sem ég hafði ekki orku í meira.

Allt í einu hætti hláturinn. Ég leit upp og sá að börnin tvö störðu á mig. Athygli þeirra á mér vakti athygli annarra. Það komst á dauðaþögn og undarleg stemning í ca hálfa mínútu á meðan við horfðumst í augu. Ég leit svo undan og þóttist ekki taka eftir neinu.

Viðvera mín hafði eyðilagt grínið hjá börnunum, einhverra hluta vegna. Það er ótrúlega margt sem getur farið úrskeiðis þegar maður ætlar að fá sér eitthvað fljótlegt að borða. Súrrealísk sena að baki.

Næsta atriði; Finnur fer í ræktina án þess að drepa einhvern. Gangi mér vel.

föstudagur, 28. nóvember 2008

Samviskan leyfir mér ekki að halda þessu leyndu lengur; svo virðist sem rót kuldakastsins sem er að ganga yfir Reykjavík og nágrenni sé í Hafnarfirði, nánar tiltekið í herberginu mínu.

Svo kalt var þar í nótt að ég svaf í risapeysunni, undir sæng, teppi og í sokkum ásamt því að kveikja lítinn eld í rúminu. Samt skalf ég.

Kuldakastinu lýkur líklega í dag, þar sem ég lokaði glugganum að herberginu áður en ég fór í vinnuna í dag. Það var ekkert.

fimmtudagur, 27. nóvember 2008

Ég vil að það sé karma í heiminum, þeas að fyrir allt það góða sem maður gerir fáist eitthvað gott í staðinn á endanum. Og öfugt, auðvitað. Falleg hugsun en þannig virkar heimurinn víst ekki.

Ef hann virkar þannig, þá á ég inni að framkvæma amk eitt þjóðarmorð fyrir að hafa fengið stærstu peysu sem ég hef séð í stað XL peysunnar sem ég keypti á ebay.

Hér er mynd af mér í henni (gerð svarthvít til að fela hvað ég var rauður af taumlausri heift).

Ég kaus að skila henni ekki af því mig vantaði sæng, gardínur og segl á skútuna sem ég mun einhverntíman hugsa um að kaupa.
Ég hef fengið nóg af því að fólk segi mér að kíkja til læknis vegna lappanna á mér, sem láta ekki af stjórn þegar á reynir.

Hér er það sem gerst hefur í læknaferðum mínum bara á þessu ári. Og er þetta í síðasta sinn sem ég nefni þessar náttúruhamfarir sem fæturnar á mér eru.

* Ég fór til heimilislæknis í byrjun árs. Hann sendi mig til taugasérfræðings.

* Ég fór til taugasérfræðings 2 mánuðum síðar. Hann sendi mig í taugaleiðnipróf.

* Ég fór í taugaleiðnipróf mánuði síðar. Hann sendi mig aftur til taugasérfræðingsins án svara.

* Ég fór til taugasérfræðings mánuði síðar. Hann sendi mig í myndatöku á hrygg.

* Ég fór í myndatöku nokkrum vikum síðar.

* Ég fékk símtal frá taugasérfræðingi nokkrum vikum síðar. Hann sendi mig til sjúkraþjálfara.

* Ég fór til sjúkraþjálfara viku síðar og fjórum sinnum næstu 2 vikurnar án þess að það gerði gagn. Hann sendi mig aftur til taugasérfræðingsins.

* Taugasérfræðingurinn hættir að svara símtölum frá mér. Ég gefst upp.

Niðurstaða: mínus ca 30.000 krónur og ég engu nær. Og þetta tók ekki nema 8 mánuði. Sá næsti sem stingur upp á ferð til læknis fær högg í gagnaugað, að því gefnu að sá hinn sami verjist ekki.

þriðjudagur, 25. nóvember 2008

Ég á erfitt með að skrifa fyrir gleðitárum sem streyma niður vanga mína yfir þeim fréttum sem mér barst í dag að rafsveitin Ratatat sé að leið til landsins til að halda dansiball á Broadway þann 20. desember næstkomandi.

Sýnishorn; Ratatat - Loud pipes:Kaupið miða hér. Aðeins 2.500 krónur. Jafnvel jeppaeigendur hafa efni á þessu!
Í gær fór ég í Kaupþing/KB Banka/Búnaðarbankann og skilaði 25% Visakortanna minna þar sem ég notaði það ekkert. Ég var mjög ánægður með að létta buxurnar um ca 0,004% og minnka rassinn á mér um 0,000000074% þar sem það var geymt í rassvasanum.

Síðar sama dag barst mér bréf frá Tryggingastofnun. Samkvæmt þeim hef ég eytt nógu miklu í lækna til að fá afsláttarkort út árið (sem þyngir buxur og stækkar rassinn aftur). Sjaldan hefur mér liðið jafn mikið eins og aumingja. Nokkrar athugasemdir:

* Fjáreyðsla mín til lækna taldi bara heimsóknir til sérfræðinga vegna fótanna á mér, sem í eru verkir þegar á reynir.
* Þrátt fyrir að hafa eytt morðfjár í þessa sérfræðinga eru hvorki ég né læknarnir neinu nær hvað er að mér. Peningum vel eytt.
* Ég gafst upp á þessum sérfræðingum fyrir 4 mánuðum síðan. Ályktun: Tryggingastofnun vinnur hratt og vel.

Til að taka þetta saman: Ég hef eytt morðfjár í lækna án þess að fá neitt svar. Ég býð öllum til læknis með nýja afsláttarkortinu!

mánudagur, 24. nóvember 2008

Það eru allar líkur á því að í nánustu framtíð muni auglýsingar frá Góu birtast á Arthúr síðunni, nánar tiltekið auglýsingar fyrir Risa hraun sem er ein aðal uppistaðan í neyslu minni.

Við biðjum ekki um mikið fyrir auglýsinguna; bara helling af Risa hrauni og ánægjuna að vita af því að við erum að dreifa boðskapnum.

Það eru góðir tímar framundan.

laugardagur, 22. nóvember 2008

Á laugardögum eru körfuboltaæfingar hjá mér klukkan 10:30. Að morgni!

Ég mætti á æfingu í morgun en þar með er ekki öll sagan sögð. Enginn hefur nokkurntíman fórnað jafn miklu og ég fyrir þessa körfuboltaæfingu.

Mig dreymdi þessa dömu í alla nótt og hefði líklega haldið því áfram ef ég hefði bara slökkt á öllum 7 vekjaraklukkunum. Ég fer ekki ekki nánar út í drauminn af ótta við að fólk missi vitið úr frygð.

Allavega, hér eru aðsóknartölur síðustu þrjá daga á þessa síðu:

19.11.08: 61 gestur.
20.11.08: 61 gestur.
21.11.08: 61 gestur.

Vinsamlegast verið aðeins frumlegri í dag, helst með hærri tölu.

föstudagur, 21. nóvember 2008

Pælingar:

* Svertingjar heilsa oftar en ekki með orðinu "Yo!", samkvæmt bíómyndunum. Sá kynstofn sem er hvað lengst frá þeim svarta er sá Írski. Þeir heilsa yfirleitt með orðinu "Oi!". Áhugavert.

* Um daginn sagði ég við vinkonu mína, sem vildi vita hvort ég væri kítlinn, "Skiptum um umræðuefni". Þarna kom ég þremur um-um í röð án þess að blikna og er nokkur stoltur af. Hún kítlaði mig samt.

* Hvernig er hægt að koma fimm "og" í röð í setningu svo það sé rökrétt?

Svar 1a: Með því að spyrja "hvar eru bilin í setningunni 'Finnur og Risahraun'?"

Svar 1b: Á milli Finnur og og og og og Risahraun.

* Hvernig er hægt að koma sautján "og" í röð í setningu svo það sé rökrétt?

Svar 2a: Með því að spyrja "hvar eru bilin í setningunni 'Á milli Finnur og og og og og Risahraun'?"

Svar 2b: Á milli á og milli, milli og Finnur, Finnur og og, og og og, og og og, og og og, og og og og og og Risahraun.

fimmtudagur, 20. nóvember 2008

Þegar ég mætti í vinnu í morgun lét ég mig dagdreyma um morgunmat í mötuneyti 365.

Þegar ég svo mætti þangað klukkan 10:15 var morgunverðarborðið lokað svo ég fékk engan morgunmat. Ég er semsagt ekki berdagdreyminn.

miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Það er löngu kominn tími á eitthvað fyndið.

Kanye West fékk grínistann Zach Galifianakis til að gera myndband við lag sitt Can't Tell me noting (Ísl.: Getur ekki sagt mér ekkert). Það er eitthvað rangt við útkomuna:Hér er eitthvað sem allir internettengdir karlmenn hafa lent í, nema ég auðvitað:Þessi strípa fékk mig til að flissa og roðna smá (yfir því að flissa).

þriðjudagur, 18. nóvember 2008

Í fyrradag gleymdi ég að minnast á leik UMFÁ gegn KFF Þóri, sem fram fór í gærkvöldi á Álftanesi kl 19:15 (fyrir þá sem eiga tímavél).

Í gærkvöldi gleymdi ég svo að tilkynna úrslit leiksins en hann fór 85-62 fyrir UMFÁ, eftir 21-3 yfirburða fyrsta leikhluta.

Til gamans má geta þess að ég var í byrjunarliði UMFÁ að þessu sinni. Því miður segir það ekkert um getu mína í körfubolta. Ég er couscous liðsins; hvorki góður né slæmur, bara uppfyllingarefni í máltíðina/liðið. Ennfremur veld ég stundum uppköstum, en bara hjá áhorfendum.

mánudagur, 17. nóvember 2008

Ég er mikið fyrir listaverk, einkum og sér í lagi málverk. Ég á myndarlegt málverkasafn sem ég hef beðið með að stækka vegna kreppunnar.

En í fyrradag rakst ég á listaverk sem ég varð að eignast. Ég gerði mér grein fyrir að kaupin myndu rugla upp fjárhagsáætlunum næsta ársfjórðunginn en samt rétti ég fram VISA kortið, jóðlandi yfir heppninni að hafa fundið það.

Hér má sjá listaverkið.

Og hér má svo sjá málverkasafnið mitt í heild sinni.

Viðbót: Ég var að komast að óvæntri viðbót: Það kemur súkkulaði úr þessu listaverki!

laugardagur, 15. nóvember 2008

Í gærkvöldi fór ég í bíó með Óla Rú og frú (rím í tilefni laugardags). Þegar ég var nýbúinn að versla helling af nammi kom að Óla og Ernu.

Afgreiðsludama: Get ég aðstoðað?
Óli: Já, ég ætla að fá tvö Kit Kat. Eða Kit Kött.
Ég: Meinarðu ekki Kit Ketti?
Afgreiðslustúlka: Drulliði ykkur út.

föstudagur, 14. nóvember 2008

Í fréttum er þetta helst:

* Ég fann mig tilknúinn að uppfæra fjórfara Beggu Klöru í ljósi nýrra upplýsinga. Kíkið á nýja meðlim fjórfaranna hér. Verið annað hvort nýbúin að pissa eða í bleyju, því uppfærði fjórfarinn er hot hot hot hot etc.

* Í kvöld (föstudagskvöldið 14. nóvember 2008) klukkan 20:30 mun UMFÁ mæta liðinu Lazershow í utandeild Breiðabliks. Ef Lazershow eru jafn góðir og nafnið gefur til kynna ættu þeir að sigra með um 2.500 stigum. Leikurinn fer fram í Smáranum í Kópavogi. Aðgangur er ókeypis peningalega, en smá bútur úr sál hvers og eins er krafist við inngang.

* Kreppan hefur hafið innreið sína í líf mitt. Í kvöld borðaði ég bara tvö Risahraun vegna lausafjárskorts.

fimmtudagur, 13. nóvember 2008

Í hvert einasta skipti þegar eitthvað áhugavert er í sjónvarpinu og ég þori varla að blikka augum af spennu, frýs myndlykillinn minn og endurræsir sig. Þetta tekur venjulega hálfa mínútu, svo ég missi nánast alltaf af nektarsenunni spennuatriðinu.

Flestir myndu missa vitið eftir nokkur skipti, en ekki ég.

Ég lít á þetta sem tækifæri. Tækifæri til að spjalla við öskrin í hausnum á mér, sem eru svipað ósátt við þennan galla myndlyklanna.

miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Þegar ég get ekki boðið upp á andlega upplyftingu með vandræðalegum sögum af mér, þar sem ég ýmist geri mig að fífli, slasa mig eða bæði, þá verð ég að bjóða upp á veraldlega hluti:

* Fólk á mjög erfitt með að byrja að mæta í ræktina þar sem það kann lítið á tækin, vænti ég. Ég býð því upp á heimatilbúið æfingaplan. Því er stillt upp á þann hátt að hægt er að smella á allar æfingar. Þá opnast vefvafrari sem sýnir æfingarnar og býður upp á video til að taka allan vafa af.

Hér er planið í 2003 Excel útgáfu og hér í Excel 2007 útgáfu.

* Lagið Electric feel með MGMT: Hér.

* Ég mæli ekki með Who's your daddy með Benny Benassi, þar sem myndbandið við það er viðbjóðslegt klám. Ég vara ennfremur ættleidda við frekar erfiðum spurningum í laginu sem gætu orsakað sálarflækju. Hér.

þriðjudagur, 11. nóvember 2008

Það er komið að óvenjulegri gagnrýni; bókagagnrýni (fleirtala).

Að þessu sinni tek ég fyrir fjórar bækur, sem ég hef lesið síðustu 6 mánuði. Það gerir eina bók á sex vikna fresti, sem hlýtur að vera heimsmet í hraðlestri.

1. Darkly Dreaming Dexter (2004) (Ísl.: Dexter í dimmum draumi) eftir Jeff Lindsay.
Bókin fjallar um Miamíska blóðmeinafræðingin Dexter Morgan sem er haldinn morðfíkn. Hann drepur þó bara vont fólk og kemst upp með það, þar sem hann kann alla klækina.
Allavega, annar og betri fjöldamorðingi fer á stjá í Miami. Uppgjör! Fjör.
Fyrsta sería Dexter þáttanna er gerð eftir þessari bók, þó að þættirnir séu mun betri.
Ég las íslensku þýðinguna, sem er klaufaleg.
Fín bók engu að síður. Tvær og hálf stjarna af fjórum.

2. Dearly Devoted Dexter (2005) (Ísl.: Dexter dáðadrengur. Grínlaust) eftir Jeff Lindsay.
Framhald Darkly Dreaming Dexter. Nýr "fjöldamorðingi" er mættur til Miami sem fer vægast sagt illa með fórnarlömbin sín. Ég hef unun af ofbeldi en lýsingarnar í þessari bók fengu mig til að kjökra. Andstyggilegt.
Æsispennandi bók sem er mun betri en fyrsta. Þrjár og hálf stjarna af fjórum.

3. Dexter in the Dark (2007) (Ísl.: Dexter í Drungalegum Dansi. [ágiskun]) eftir Jeff Lindsay.
Framhald fyrri bóka. Að þessu sinni hverfur innri rödd Dexter sem hjálpar honum að drepa um leið og illa farin lík tveggja stúlkna finnast.
Andstyggilega leiðinleg bók. Plottið er glórulaust, spennan engin og uppbyggingin vonlaus. Ótrúlegt að þetta sé eftir sama höfund og síðasta bók.
Hálf stjarna af fjórum.

4. Kvæðahver (2008) (Ens.: Geysir of poems) eftir Lubba Klettaskáld.
Ljóðabók eftir bróðir minn, Lubba Klettaskáld. Fjallar um hvað á daga hans hefur drifið síðan síðasta bók hans var gefin út, fyrir 5 árum.
Líklega alvarlegasta ljóðabók Lubba hingað til en samt mjög fyndin. Hann heldur áfram að leika sér með formið og gera grín að öllu.
Mæli með þessari bók. Fjórar stjörnur af fjórum.

mánudagur, 10. nóvember 2008

Í dag mun UMFÁ mæta ÍG í 2. deildinni í körfubolta, í íþróttahúsi Álftaness nánar tiltekið. Nánast tiltekið byrjar hann svo klukkan 19:15. Mætið! Æsispennandi leikur, án nokkurs vafa.

sunnudagur, 9. nóvember 2008

Það er vægast sagt nóg að gera hjá mér þessa dagana. Fyrir utan hefðbundinn dag sem felur í sér vinnu, ræktina og/eða körfuboltaæfingu þá:

* Arthúr strípur 3x í viku.
* Er að smíða nýja síðu tengda Arthúr. Meira um það síðar.
* Á að vera að smíða nýja síðu fyrir UMFÁ. Hef ekki haft mikinn tíma undanfarið. Sé þó um að uppfæra núverandi síðu.
* Ég og Jónas gerðum 4ra blaðsíðna gestastrípu fyrir Hugleik, um eineygða köttinn Kisa sem mun birtast í nýjustu bók Hugleiks; Eineygði kötturinn Kisi og ástandið.
* Er að verka kannanir og rannsóknir fyrir ýmis félög gegn vægri þóknun.
* Er/var að hjálpa 3 aðilum með bókfærslu/excel/tölfræði vegna náms.
* Er í stjórn UMFÁ.
* Á Facebook reikning, sem felur í sér Facebook vafr.
* Er með bíófíkn á háu stigi, sem veldur því að ég verð að fara í bíó amk 3x í viku, annars fæ ég blóðnasir.

Þetta ætti útskýra af hverju ég...
...hef ekki talað við fjölskyldu mína í marga mánuði.
...drap þennan kettling um daginn og át.
...keyri alltof alltof hratt.
...er alltaf þreyttur.

laugardagur, 8. nóvember 2008

Mér hefur tekist hið ómögulega; að eyða ekki krónu í dag, laugardaginn 8. nóvember 2008.

Það eina sem þurfti var:

* Gríðarlegan sjálfsaga.
* Að halda mér mjög uppteknum í allan dag.
* Smá töfraþulu.
* Að kaupa allt sem ég þurfti í dag í gær, t.d. 3 kg af nammi og 0,5 kg af mat.

Með öðrum orðum; ég er kominn með hálstak á kreppuna og stefni á að snúa hana niður, kviknakinn.
Ég mæli með því að fólk kíki á útgáfupartý Björgvins bróðir í kvöld klukkan 20:00-22:00 á Næsta bar, Ingólfsstræti 1a.

Hann mun lesa úr nýjustu ljóðabók sinni Kvæðahver. Tilboð á áfengi og trúbador á eftir.

Mætið!

föstudagur, 7. nóvember 2008

Nýlega datt mér í hug að stytta á mér hárið. Ég hugsaði; hvernig ætli ég myndi líta út þannig? Jafnvel alveg krúnurakaður?

Það er erfitt að komast að því nema láta verða af því. En sem betur fer fann ég síðu á netinu sem gat hjálpað.

Nákvæmlega svona lít ég út þessa stundina:Svona lít ég svo út ef ég klippi það styttra:

Eyrun koma í ljós = vont.

Sem betur fer hafði ég þetta forrit til að kanna útlit mitt, því ef ég hefði krúnurakað mig hefði ég litið svona út:

Eyrun sjást of vel og augun yrðu brún.

Þar slapp ég fyrir horn. Takk andlitsgerðarsíða!

fimmtudagur, 6. nóvember 2008

Hér eru fréttir dagsins:

* Körfuboltalið mitt, UMFÁ, keppir í bikarkeppninni í ár. Við drógumst gegn ÍBV, í eyjum núna á föstudaginn. Þetta er minnsti fyrirvari, svo sannað sé, í heimi. Næsti deildarleikur er svo á mánudaginn. NBA lið keppa færri leiki en við, gróflega áætlað.

* Peugeot bifreið mín, sem hefur kostað mig samtals um 1,5 milljarð króna í viðgerðarkostnað frá því ég keypti hana fyrir 3 árum, komst í gegnum skoðun í dag án athugasemda. Það eina sem þurfti til að ná þessum frækna árangri var 40.000 króna viðgerð, blindan og lamaðan skoðunarnáunga og dýrafórn til Bifreiðaskoðunarguðsins.

* Ég var í fríi í dag. Þá á ég bara 4 vikur og 4 daga eftir af sumarfríinu mínu, sem ég verð að taka síðar. Jafnvel næsta sumar.

* Þessi færsla er skrifuð í Chrome vafranum frá Google. Mæli með honum.

* Hljómsveitin Siriusmo er nýjasta æðið hjá mér. Ef öll þrjú lögin sem ég á með henni væru hnefar og eyrun á mér andlit, þá væri það með opið beinbrot ca núna. Hér er hljóðdæmi:

þriðjudagur, 4. nóvember 2008

Eitt það mest óþolandi fyrirbæri í heimi eru svokölluð bloggklukk. Það virkar þannig að eitthvað er gert á blogginu (t.d. spurningalista svarað) og svo eru aðrir bloggarar klukkaðir í að gera það sama.

Aðeins eitt er meira óþolandi og það er að vera aldrei bloggklukkaður. Þannig að ég tek til minna ráða. Ég svara klukki, þó ég hafi aldrei verið klukkaður, andskotinn hafi það.

Listinn er eftirfarandi:

1. Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina
* Verkstjóri í unglingavinnu Fellabæjar.
* Ritari á heilsugæslu Egilsstaða.
* Fulltrúi á Skattstofu Austurlands.
* Sérfræðingur á tölfræðisviði 365.

2. Fjórar íslenskar bíómyndir sem ég held upp á
* Sódóma Reykjavík.
* Reykjavík - Rotterdam.
* Brúðguminn.
* Skytturnar.

3. Fjórir staðir sem ég hef búið á
* Hallormsstaður.
* Trékyllisvík.
* Fellabær.
* Reykjavík.

4. Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum
* Egilsstaðir.
* Ítalía.
* Minneapolis.
* Rúmið mitt.

5. Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar
* Dexter.
* House.
* Arrested Development.
* NBA Action.

6. Fjórar síður sem ég skoða daglega
* www.ijbl.net
* www.facebook.com
* www.mbl.is
* www.google.com/reader

7. Fernt matarkyns sem ég held upp á
* Risa hraun.
* Soyaborgarar.
* Cheerios.
* Núðlur í mozarella osti.

8. Fjórar bækur/blöð sem ég held upp á/les oft
* Dexter, fyrstu tvær.
* Tricks of the mind eftir Derren Brown.
* Lifandi vísindi.
* Facebook.

9. Fjórir staðir sem ég vildi vera á núna
* Rúmið mitt.
* Vinnunni.
* Á auðum körfuboltavelli.
* Á sólarströnd, nánar tiltekið í vatnsleikjagarði.

10. Fjórir bloggarar sem ég á að klukka
* BB King.
* Kolla systir.
* Jónas.
* Hjálmar (ekki hljómsveitin).

Þið sem klukkuðuð mig ekki; hvað eruð þið enn að gera hérna? Þið eruð ekki velkomin lengur.

mánudagur, 3. nóvember 2008

Í kvöld hef ég ekkert að bjóða. Fyrir utan nýja fjórfara. Og von mína og líf mitt.

sunnudagur, 2. nóvember 2008

Helstu fréttir helgarinnar:

* UMFÁ sigraði HK á laugardaginn, 67-52 í andstyggilegum leik. Hér er tölfræðin.

* Vegna kreppunnar hefur gestaleikara Veftímaritsins Við Rætur Hugans, Jónasi Reyni, verið sagt upp störfum. Hann flytur aftur austur á land í fyrramálið. Veftímaritið þakkar vel unnin störf síðustu 3 mánuði, sem orsakað hefur 23% aukningu í aðsókn á síðuna.

* Ég náði ekki að versla hálft kíló af nammi í nammilandi á laugardaginn. Ég skalf því og svitnaði þann daginn, mestmegnis í óminni. Gott ef ég rændi ekki gamla konu síðar um kvöldið.

* Mig dreymdi að Beyoncé Knowles væri kærasta mín í nótt. Hún var mjög vergjörn en ég hafði engan tíma fyrir syndina, þar sem ég þurfti að drepa drauga sem ásóttu okkur.

* Mér tókst næstum að sannfæra stelpu um að ég væri 17 ára í partíi um helgina. Hún trúi bara seinni hlutanum, að ég væri í partíi.

laugardagur, 1. nóvember 2008

Í dag fer fram annar leikur liðs míns, UMFÁ, í körfubolta. Að þessu sinni mætir liði HK í Digranesi (heimavelli HK).

Leikurinn hefst kl 16:30 og er ókeypis inn. Ég mun verma áhorfendabekkinn og hvetja mína menn áfram með tárin í augunum (af stolti).

Áfram UMFÁ!!!