sunnudagur, 31. ágúst 2008

Þessu laugardagskvöldi var eytt í að opna gamla kassa og skoða innihaldið. Kassar minninganna, ef þið viljið.

Allavega, þar fann ég skólamynd af mér í öllum skólunum sem ég hef verið í. Gjörið svo vel:


Hallormsstaðaskóli 1983. Tók námið full alvarlega, miðað við aldur.



Finnbogastaðaskóli 1985. Í þá gömlu góðu daga þegar ég notaði ekki gleraugu.



Fellaskóli 1989. Fyrsta árið mitt í Fellabænum. Sló í gegn með flottu hári og róandi augnaráði.



Menntaskólinn á Egilsstöðum 1996. Annað námsárið. Ladies man.



Háskólinn í Reykjavík 2006. Útskriftarmyndin. Góðir tímar. Sérstaklega fyrir eyrun á mér.

laugardagur, 30. ágúst 2008

Fólk sem hefur hitt mig undanfarið hefur tekið eftir einhverri breytingu á mér og mínum karakter, án þess þó að vita nákvæmlega hvað það er. Ég opinbera það núna:

Ég keypti mér örbylgjuofn í dag. Síðan það gerðist hef ég ljómað.

Hér eru þá fjölskyldufréttirnar þessa vikuna:

* Björgvin bróðir trúlofaður.
* Kolla systir ólétt.
* Styrmir bróðir giftur og með 2 börn. Engar fréttir svosem.
* Ég keypti mér örbylgjuofn.

Lífið breytist hratt.

föstudagur, 29. ágúst 2008


Hvernig er hægt að vera miðaldra, þunn- og síðhærður, fúlskeggjaður, sóðalegur, þybbinn, klæddur í glansjakka, keðjureykjandi, keðjudrekkandi, dópandi, stynjandi í míkrófóninn, algjörlega óskiljanlegur þegar hann talar eða syngur og samt ná að valda undaðshrolli hjá hundruðum tónleikagesta svo þeir öskra við það eitt að sjá hann (undirritaður meðtalinn)?

Sebastien Tellier getur þetta. Ég ætla að verða eins og hann þegar ég verð stór.

Tónleikarnir í kvöld með Sebastien Tellier voru magnifique (ísl.: geggjaðir). Ég held ég elski hann. Ég er samt ekki alveg viss, þannig að ekki segja honum strax að ég hafi sagt þetta.

Með betri lögum hans, Kilometer af plötunni Sexuality:

miðvikudagur, 27. ágúst 2008

Annað kvöld gerist hið óhugsandi: ég ætla að skrópa á körfuboltaæfingu. Það er þá fyrsta æfingin sem ég sleppi í háa herrans tíð. Há herrans tíð er, samkvæmt mælingum um mánuður að lengd eða frá því æfingar hófust aftur í haust.

Ástæðan er tónleikar með meistaranum Sebastien Tellier (sjá neðst fyrir hljóðdæmi) en ég efast verulega um kynhneigð mína þegar ég hlusta á tónlist hans.

Til að lágmarka körfuboltahreyfingarleysið hef ég ákveðið að stíga óvenjulegan dans á tónleikunum. Hann mun innihalda framstig, armbeygjur, sprengihopp og magaæfingar ásamt sprettum yfir allt dansgólfið og til baka.

Allavega, hér að neðan eru nokkur lög með Sebastien Tellier:



1. Roche - Fyrsta lag plötunnar Sexuality. Frábært helvítis lag.
2. Divine - Af plötunni Sexuality. Eurovisionlag Frakka í ár. Eina góða Eurovisionlag síðustu 45 ár, gróflega áætlað.
3. Pomme - Dónalag af plötunni Sexuality. Passið ykkur.
4. Sexual Sportswear - Hver kannast ekki við kynferðisleg íþróttaföt. Nú er hægt að hlusta á þau líka. Af plötunni Sexuality.
5. La Ritournelle - Líklega eitt fallegasta lag síðustu ára.
6. Divine (Danger remix) - Mjög gott remix af eurovisionlagi Tellier. Varð að láta það fylgja. Ég er svo klikkaður.

Segið svo að ég geri aldrei neitt fyrir ykkur nefapana nema uppnefna ykkur.
Undanfarið hefur aðsóknin á þessa síðu farið dalandi, sérstaklega eftir að ég kvaddi Háskólann í Reykjavík og þarmeð talsvert af aukapersónum á þessu bloggi.

Sumarið sem er að líða náði álíka lægðum og síðasta sumar, þegar ég m.a. hætti að skrifa niður hugsanir af tilliti til barna sem gætu slysast hingað inn og aldrei beðið bætur. Svo slök aðsókn er óásættanleg.

Ég ákvað því að bregða á það ráð að fá fleiri aukapersónur á þetta blogg og yngja það upp. Ég byrja á því að flytja Jónas Reyni til Reykjavíkur, svo ég geti farið með honum í bíó og jafnvel tónleika. Jónas Reynir er rétt rúmlega tvítug steingeit sem hefur gaman af póker og söngvamyndum. Hann er fyndinn. Gefið Jónasi Reyni gott klapp!

Nú vonandi glæðist aðsóknin eitthvað.

mánudagur, 25. ágúst 2008

Gísli, þjálfari körfuknattleiksdeildar UMFÁ með hverjum ég æfi, hefur sett Risahraun bann á liðsmenn. Þetta er með verstu fréttum sem ég hef fengið síðustu vikur eða daga.

Sem betur fer má fá mjög svipað bragð og af Risahrauni með því að setja rúmlega 3 matskeiðar af sykri út í hálfan lítra af Baileys blandaðan í Kahlua og hristan saman við Rice Krispies.
Helgin var viðburðarík. Hér er það helsta:

* Ég fór aldrei í bíó. Hef bara farið einu sinni í bíó síðustu 2 vikur. Ég færi skömm yfir ætt mína með þessum hræðilega árangri.

* Á laugardaginn prófaði ég tívolíið í Holtagörðum, snúandi bollana nánar tiltekið. Líklega vanhugsaðasta aðgerð síðustu ára þar sem ég verð fárveikur á því að fara yfir hraðahindrun. Ég er enn sjóveikur/bollaveikur.

* Kíkti örstutt á tónleikana á Miklatúni. Ætlaði svo að skjótast heim og fara í hlýrri föt en sofnaði í sófanum heima. Mjög lélegur skipta-um-föt árangur.

* Þvottavélin Þorgerður snéri aftur í fangið á mér fyrir tilstilli viðgerðarmanns frá Ormsson. Ég eyddi gærkvöldinu í að kúra með henni, loksins í hreinum fötum. Endaði reyndar nakinn.

Aldrei þessu vant er þetta ekki fullkomlega tæmandi listi. Ykkur kemur restin ekkert við.

laugardagur, 23. ágúst 2008

Ég var að ljúka við að horfa á úrslitaleik Ólympíuleikanna í körfuknattleik kvenna. Margar karlrembur segja kvennakörfuboltann vera mjög slappan, miðað við karlana. Ég er ósammála. Þetta var ótrúlega góð skemmtun. Ekki bara eru þær hæfileikaríkar heldur líka hressar.

Bláa liðið vann á endanum gula liðið sem var í spandex samfestingunum sem sýndi allt.

fimmtudagur, 21. ágúst 2008

Í dag tók ég mér frí í vinnunni eftir hádegi til að stunda mitt helsta áhugamál, á eftir Excelvinnslu auðvitað, en það er að sofa.

Það var þess virði, af því mig dreymdi að ég væri í vinnunni að verka Excel skjöl.
Ég hef svo mikið af blogghugmyndum að ég veit ekki hvar skal byrja. Svo margt hefur gerst og ég farið svo víða.

Við skulum byrja á þessari mynd. Ég tók hana í dag í sólinni á bakvið stýrið. Þið kunnið að velta fyrir ykkur hvert ég er að fara. Það er einfalt svar við því: Smelltu á myndina fyrir stærra eintak. Niðurstaðan mun koma ykkur á óvart.

Ef þið sjáið ekkert áhugavert við að smella á myndina, prófið enn stærra eintak.

miðvikudagur, 20. ágúst 2008

Ég varð vitni að býsna merkilegum atburði á leið heim úr vinnu í dag. Á göngu minni að útidyrahurðinni heima mætti ég hrossaflugu á röltinu. Ég bauð góðan daginn og hún svaraði í sömu mynt, enda báðir aðilar siðvæddir.

Eftir að við mættumst leit ég til baka og sá að hún stefndi á risastóran kóngulóarvef. Ég varaði hana ekki við, þar sem mér er frekar illa við hrossaflugur. Þær eru skíthælar upp til hópa.

Allavega, hrossaflugan, sem mér skilst að heiti Óliver, æddi beint í kóngulóarvefinn. Um leið og hún snerti vefinn stökk fram skaðræðis kónguló á stærð við körfubolta. Hún tók utan um hrossafluguna og batt hana með kaðli, að mér sýndist.

Á þessum tímapunkti var ég hættur að fela að ég væri að fylgjast með heldur starði og gapti. Það síðasta sem ég sá eftir að kóngulóin klæddi hrossafluguna úr fötunum og byrjaði að renna buxnaklaufinni sinni niður var að hún snéri sér við og sagði mér að halda áfram heim á leið, annars færi illa fyrir mér.

Ég snéri mér við og ákvað að birgja þetta inni. Ég hef ekki séð Óliver síðan.

Ótrúleg þessi náttúra.

mánudagur, 18. ágúst 2008



Ég ætlaði bara að láta fólk vita af því að ég er ekki með lagið hér að ofan fast í hausnum á mér. Ég hef ekki heldur niðurhalað því til að reyna að fá viðbjóð á því án árangurs. Ég hef ekki einu sinni heyrt þetta lag! Eða er þetta lag? Ég veit ekkert um það.

Hver sem heldur öðru fram fer með kolrangt mál og skal halda sér saman!

Ég hata sjálfan mig af mikilli innlifun í dag, hálf dansandi.

sunnudagur, 17. ágúst 2008

Í nótt rændi ég fyrirtækið sem ég vinn fyrir (365) með 4-5 öðrum starfsmönnum söludeildar 365. Þegar því var lokið rændum við strætó og keyrðum honum út í sveit, þar sem haldið var sveitapartý við gríðarlega ánægju yfir vel heppnuðu ráni.

Þegar leið á partýið og skákin sem ég var að tefla í partýinu var að tapast, runnu á mig tvær grímur. Ég hugsaði að með þessu ráni hafi ég verið að eyðileggja tölfræðiferil minn. Og ég byrjaði að panikka. Ég hélt þó áfram að tefla og gleymdi mér stundum í vangaveltum yfir skákinni, en alltaf kom ég niður á þennan ömurlega punkt; ég var búinn að eyðileggja tölfræðiferil minn.

Þegar svo kom í ljós að framundan væri andlegt svartnætti yfir þessu stundarbrjálæði og engin leið út fór ég að velta fyrir mér þeim möguleika að þetta væri draumur. Ég fór að öskra á mig að opna augun, við litla hrifningu mótherjans í skákinni.

Allavega, ég vaknaði og hef aldrei verið jafn ánægður á ævi minni. Það eina sem hefði getað gert þennan draum ömurlegri væri ef einhver hefði verið að segja mér hvað hann dreymdi nóttina áður. Þá hefði ég líklega drepið mig.

laugardagur, 16. ágúst 2008

Helgi bróðir, sem er í bænum yfir helgina, er gríðarlega ósáttur við samkeppnina sem IKEA veitir. Hann segist ekki geta keppt við svona lágt verð.

föstudagur, 15. ágúst 2008

Ég hef sjaldan verið jafn stoltur Íslendingur og þegar Ísland rústar viðbjóðslegum krakkafíflum Bandaríkjanna 12-1 í undankeppni heimsmeistarakeppninnar í íshokkí, í myndinni Mighty Ducks II.

Ekki aðeins eru Íslendingarnir í svörtum búningum og því mjög töff, heldur er agi þeirra aðdáunarverður og hæfni þeirra á svellinu ótrúleg.

Einhverra hluta vegna virtust yfirburðir Íslendinga ekki nægja gegn handritshöfundum Hollywood og því töpuðum við úrslitaleiknum.

Líklega besti íþróttaárangur Íslendinga, hingað til. Ég verð að hætta að skrifa núna, er að tárast.

fimmtudagur, 14. ágúst 2008

Nokkrar fréttir:

* Í kvöld sá ég þátt með Criss Angel, meintum töframanni. Fyrir utan að það er augljóst að maðurinn beitir tæknibrellum og leikurum til að ná fram viðunandi árangri, þá hef ég aldrei séð jafn sjálfdýrkandi fábjána á ævi minni, fyrir utan sjálfan mig. Hver er t.d. tilgangurinn í því að vera ber að ofan ca 90% af þættinum?

Prófið að horfa á einn þátt af Derren Brown og svo einn þátt af Criss Angel. Þið munuð æla blóði af andstyggð yfir Criss Angel og kýla svo í vegg í ca 20 mínútur. Ég lofa því.

* Nú eru fjórar körfuboltaæfingar búnar af tímabilinu. Á þeim hef ég svitnað um 37 lítrum af vatni, 2 lítrum af mæjónesi og hálfum lítra af blóði. Reyndar pissaði ég blóðinu. Mér hefur sjaldan liðið jafn vel í jafn ónýtum líkama. "It hurts so good" (Ísl.: "Baldni folinn") á vel við.

* Fólk er alltaf að spyrja mig hvar ástin sé á þessari síðu. Ég svara yfirleitt að þetta sé tilfinningalaus síða en nú er nóg komið. Hér er ást í formi erótíkur. Af ótta við að dreifa of mikilli ást í einu hef ég þurrkað út ca 95% af allri ást í myndinni.

ATH! Myndin er bönnuð þeim sem eru með gott ímyndunarafl.

miðvikudagur, 13. ágúst 2008

Fólk hefur verið að hneykslast á raftónlistaráhuga mínum í formi grjóthnullunga í gegnum stofugluggann hjá mér og barsmíða í kaffistofu 365, svo ég sé mig tilneyddan til að brydda upp á annars konar tónlist. Hér eru 5 rokk/popp lög sem ég hef stórkostlegt yndi af, auk smá styrktarlínu frá kostanda bloggsins:



1. The Dandy Warhols - We used to be friends: Mögnuð hljómsveit með geggjað lag úr asnalegum þætti og af ágætum diski.
2. Pearl Jam - Oceans: Það er eitthvað magnað við þetta gamla lag.
3. Kostandi bloggsins með smá skilaboð og/eða ráðleggingar.
4. Radiohead - There there: Flottasta lag Radiohead. Þeir sem halda öðru fram... mega hafa sína skoðun.
5. Blink 182 - I miss you: Ég get ekki fengið leið á þessu lagi. Ég get reynt það, en það myndi ekki takast.

þriðjudagur, 12. ágúst 2008

Þvottavélin mín, Þorgerður, er biluð. Ekki geðbiluð, þar sem hún er þvottavél. Hún er biluð á þann hátt að hún virkar ekki lengur. Svo biluð er hún að hún er líklegast ónýt.

Vertu því sæl Þorgerður Þvottavél. Það voru forréttindi að kynnast þér. Þín verður ávallt minnst sem besta þvottavél sem nokkur kærasti gæti átt. Ég mun aldrei gleyma nóttinni okkar saman. Þú veist um hvað ég tala. Enginn þreif eins og þú.

Hvíldu í friði. Þorgerður Þvottavél 2007-2008.


Þorgerður í einu af sínum geðköstum undir lokin.

mánudagur, 11. ágúst 2008

Svo virðist sem hrossaflugufaraldur sé í Hafnarfirði. Að meðaltali hef ég fengið 4,2 hrossaflugur í andlitið á morgnanna á leið minni frá útidyrahurðinni að bílnum mínum, á för minni í vinnuna.

Ég þarf að finna mér leiðinlegri vinnu því ég gapi alltaf úr hressleika og spennu yfir vinnudeginum þegar ég yfirgef íbúðina, með hræðilegum afleiðingum. Á móti kemur að ég þarf ekki morgunmat í vinnunni. Fínn morgunmatur líka. Ekki ósvipað kjúklingi.

En allavega, ég er kominn út fyrir efnið. Hrossaflugufaraldur í Hafnarfirði = vont. Sem orsakar: Ég = dapur.

sunnudagur, 10. ágúst 2008

Fyrsta körfuboltaæfing tímabilsins er að baki. Hún var í gærmorgun. Þetta tímabilið hefur liðið, UMFÁ, fastráðinn þjálfara sem sýnir enga linkind.

Í dag er ég með harðsperrur í 95% líkamans, þar á meðal í hjartanu. Bara að rita þessa færslu hefur kostað mig 25 mínútur, mikinn sársauka og smá blóð úr liðamótum fingranna.

Næsta æfing er svo á morgun klukkan 19. Ég hlakka svo til að ég ældi smá.

föstudagur, 8. ágúst 2008

Það gleður mig að tilkynna að ég hef eignast nýjan uppáhalds lit. Hér er sagan öll:


Í upphafi var aðeins nammi. Uppáhaldsnammi mitt var blár Ópal. Blár varð því uppáhaldsliturinn minn.


Svo þroskaðist ég upp í körfubolta. Ég hélt með Utah Jazz, sem voru í fjólubláum búningum. Þarmeð varð fjólublár uppáhaldsliturinn minn.

Síðan hefur heimurinn breyst. Blár Ópal er hættur í framleiðslu og Utah Jazz skipti um lit svo ég fór í tilvistarkreppu hvað uppáhaldslit varðar.


Svo varð Excel og Excel uppfærðist. Fyrr á þessu ári uppfærði ég Excel 2003 upp í Excel 2007. Í nýju uppfærslunni er litadýrðin mun meiri en áður. Það var þar sem ég kynntist nýjum lit; blágrænn/sægrænn/grænn. Nú lita ég allar mínar Excel skýrslur með þessum lit og nota hvert tækifæri til að spjalla við fólk um hann.

Blágrænn/sægrænn/grænn er nýr uppáhalds liturinn minn!

Mér fannst siðlaust að láta ekki lesendur vita af þessari breytingu, ef einhver ætlaði t.d. að gefa mér samfesting eða eitthvað.

fimmtudagur, 7. ágúst 2008

Í gærkvöldi funduðu nokkrir ungir menn á Álftanesi. Á þeim fundi var m.a. mynduð meirihlutastjórn Körfuknatt- leiksdeildar ungmennafélags Álftaness. Hún er erftirfarandi:

Formaður: Albert Formaður. Eftirnafn hans þótti vel við hæfi.
Ritari: Raggi Arinbjarnarson (fyrir miðju myndarinnar, sauðdrukkinn).
Gjaldkeri: Víðir Þórarins (fjarverandi), þegar hann er ekki fullur eða í Vestmannaeyjum þeas.
Meðstjórnandi 1: Óli Rú, gítarsólóleikari.
Meðstjórnandi 2: Finnur Torfi Gunnarsson, einnig þekktur sem Finnur Forstöðumaður Samskiptasviðs Meistaraflokks Körfuknattleiksdeildar Ungmennafélags Álftaness.

Einnig var Gísli skipaður þjálfari liðsins í vetur, það skjalfest með hoppfævi og því svo fagnað með hópsöng.

Lögin sem sungin voru eru hér að neðan í spilara.




1. Prodigy - Climbatize: Gamalt og gott. Svo gamalt að það má næstum heyra í harmonikku. Næstum!
2. Daft Punk - Aerodynamics: Eitt af mínum uppáhalds með Daft Punk.
3. Justice - Valentine: Rómantískt. Nýlega uppgötvað. Ekki ósvipað Veridis Quo með Daft Punk.
4. Aphex Twin - Logon Rock Witch: Hélt að ég væri orðinn geðveikur þegar ég heyrði þetta lag fyrst. Svo varð það sturlað.

miðvikudagur, 6. ágúst 2008

Um daginn fór ég að efast um heilbrigði tanna minna og fékk því tíma hjá tannlækni.

Hann tók tvær myndir, leit yfir tennurnar og öskraði svo "Í fínu lagi með allt", gnístandi tönnum.

Fyrir þessar 5 mínútur greiddi ég aðeins 8.500 krónur, sem gera rúmlega 100.000 krónur á klukkutímann fyrir tannlækninn og rétt um 17,7 milljónir á mánuði.

Þá tel ég ekki bensínkostnaðinn við að keyra þessa 12 km leið til hans í Grafarvog, sem gera ca 200 krónur.

En þetta er í fínu lagi. Ég hefði hvort eð er bara eytt þessum peningi í Risa hraun og þarmeð eyðilagt í mér tennurnar. Þar af leiðandi hefði ég líklega þurft að sitja í stólnum í klukkutíma, sem gera yfir 100.000 krónur, samkvæmt útreikningum að ofan. Þá tel ég ekki bensínkostnaðinn með.

Þannig að ótrúleg heppni mín í fjármálum heldur áfram.

þriðjudagur, 5. ágúst 2008

Sönn saga:

Í dag bætti náungi mér við á msn. Svona var okkar fyrsta samtal í kjölfarið. ATH. Það er þýtt úr ensku, þar sem hann er frá útlöndum og talar útlönsku.

Ég: halló
Baldni folinn: sæll, ég er Skarphéðinn úr IJBL, stjórna Suns.
Ég: já, sæll. Notarðu Excel?
Baldni folinn: ehh..já.
Ég: Gott. Þá ertu ekki á hálum ís.
Baldni folinn: Vitaskuld ekki, þrátt fyrir að það sé allt vitlaust á kaffihúsinu.

Allavega, ég fattaði það ekki fyrr en eftir á að upphafslína mín á netinu er sú sama og ég nota á stelpur á skemmtistöðum, nema auðvitað að ég kallaði Skarphéðinn ekki hóru.

mánudagur, 4. ágúst 2008

Það hefur ýmislegt gengið á síðustu daga. Hér eru nokkur dæmi með myndum!


Myrkrið er komið aftur. Þetta eru fréttir fyrir þá lesendur sem sofa á nóttunni. Velkomið aftur Myrkur, gamli glæpafélagi. [Stærra eintak]



Tré. Þau gerðust. [Stærra eintak]



Þetta er Heiðdís. Þessi mynd er tekin þegar Heiðdís hugsaði sig um hvort ég mætti taka mynd af henni. Hún svaraði neitandi. Ég ákvað því að spyrja hana ekki hvort ég mætti birta myndina sem ég mátti ekki taka. [Stærra eintak]

sunnudagur, 3. ágúst 2008

Það er ýmislegt að í heiminum. Sem dæmi má taka olíustríð, miðaldra kellingar í Bónusbiðröðum, hátt verð á skúffukökum, verðbólga, sjúkdómar og spilling.

En ekkert af þessu hefur haft jafn slæm sálræn áhrif og sú staðreynd að einhver myndagooglaði "Edda Björgvins nakin" í gærkvöldi og komst á síðuna mína.

föstudagur, 1. ágúst 2008

Nýlega var mér boðið upp á "ljúfengt" Íslenskt Brennivín af, því sem ég get aðeins ímyndað mér að sé geðveikur dópisti. Ég afþakkaði þar sem mér þykir vænt um iðrin á mér og vegna þess að drykkurinn er eitthvað það bragðversta sem fundið hefur verið upp. Geðveiki dópistinn sagði Brennivín alls ekki bragðvont, ekki ef maður borðar hákarl með.

Þetta eru góð rök. Með sömu rökum er alls ekki sársaukafullt fá kjaftshögg. Ekki ef maður er með öxi í hausnum.

Allavega, hann kvartaði amk ekki undan kjaftshögginu sem ég gaf honum.