þriðjudagur, 29. júní 2010

Seinni tíma áhrif Marsmottunnar

Í mars síðastliðnum var haldin yfirvaraskeggssöfnun, þar sem allir karlmenn landsins voru hvattir til að raka ekki á sér efri vörina allan mánuðinn. Þannig átti að vekja athygli á krabbameini karlmanna eða einhverju.

Mjög sniðugt. En þar með er ekki öll sagan sögð. Ennþá er ég að græða á þessu átaki.

Áður en þessi landssöfnun hófst fannst mér mjög fyndið að vera með yfirvaraskegg. Ég notaði hvert tækifæri til að raka á mig yfirvaraskegg og spranga stoltur um íbúðina. Nú, þegar allir hafa gert þetta, þar á meðal ég í heilan mánuð, finnst mér þetta ekki jafn fyndið.

Frá og með aprílbyrjun hef ég sleppt því að raka á mig yfirvaraskegg og ganga hnarrreistur um íbúðina í hvert sinn sem ég raka mig. Yfirvaraskeggsgangan um íbúðina tók yfirleitt um fimm mínútur. Mjög gefandi fimm mínútur.

Þar sem ég raka mig einu sinni í viku er auðvelt að reikna út að í aprílbyrjun á næsta ári verð ég búinn að spara mér 260 mínútur í yfirvaraskeggsstærilæti eða rúman fjóran og hálfan tíma.

Þeim tíma ætla ég að ávaxta með því að leggja á eftirlaunareikning.

Högg og hlaup

Einhverntíman í síðustu viku bakkaði einhver á Peugeotinn minn og ók í burtu án þess að láta mig vita. Þessa ályktun dreg ég þar sem annað afturljósið er brotið.

Þegar ég sá þetta lagðist ég á hnéin, hallaði mér upp að bílnum og hvíslaði hægt og yfirvegað "Gott á þig, helvítið þitt". Mér dettur ekki til hugar að láta laga hann.

laugardagur, 26. júní 2010

Síðastliðin vika í myndum

Hér eru fjórar myndir úr mínu lífi frá vikunni sem er að líða:

Kolla systir, Árni Már mágur og dóttir þeirra Anna María kíktu í heimsókn.
Anna María skemmti sér konunglega.
Það rigndi í Reykjavík í fyrsta sinn í langan tíma. Það er næg ástæða til að taka mynd. Mæli með fullri stærð á þessari mynd.
Ein mynd er eftir. Smelltu á 'lesa meira' til að sjá hana.

föstudagur, 25. júní 2010

Snjallræði

Í gærkvöldi var ég að hugsa um að skjótast í verslun. Verslunin er frekar langt í burtu svo ég varð að fara á bílnum. En þá mundi ég að bíllinn var næstum bensínlaus, svo ég þurfti að taka bensín í leiðinni.

Þá fékk eina bestu hugmynd ársins dagsins: "Það er frábært veður og bensínstöðin er frekar nálægt. Ég rölti bara."

Ég var kominn í skónna og á leiðinni út þegar ég fattaði hvað ég er heimskur. Ég sór þess eið að segja engum frá þessu, án árangurs.

fimmtudagur, 24. júní 2010

Nýr vinur

Í dag eignaðist ég nýjan besta vin og það í vinnunni, ótrúlegt nokk. Svona eignaðist ég þennan vin, sem ég kalla Brján hér eftir:

E-mail frá Brjáni:
Sæll. Er mikið að gera hjá þér? Gætirðu gert fyrir mig glærusýninguna fyrir fundinn á eftir? Ég er að falla á tíma með það.

Svar frá mér:
Sæll Brjánn.

Já. Ég fer í þetta. Sendi glærurnar á þig á eftir.

Kv.
Finnur

Svar frá Brjáni:
Takk! Þú ert uppáhalds vinur minn :-)

Tveimur tímum síðar.
Svar frá mér:
Gjörðu svo vel. Glærusýningin er viðhengd.

BFF.

Kv.
Finnur

Svar frá Brjáni:
Takk aftur. Bjargaðir mér alveg. Hvað þýðir bff?

Svar frá mér:
Best friends forever.

Kv.
Finnur

Lærdómur sem hægt er að draga af þessu: Það er ótrúlega auðvelt að eignast bestu vini að eilífu þegar maður kann á Office. Sérstaklega Excel.

miðvikudagur, 23. júní 2010

Drykkjuleikur

Hér er fínn drykkjuleikur. Reglurnar eru eftirfarandi:

  • Hlustað er á Hemma Gunn viðtal. Í hvert skipti sem Hemmi Gunn hlær óþarflega mikið að engu fá allir sér sopa.
Hörðustu drykkjumennirnir endast í 2 mínútur.

mánudagur, 21. júní 2010

Gengi á 52.is mótaröðinni

Mót númer 4 var mitt fyrsta mót. Mót númer 8 var í kvöld. Smellið á mynd fyrir stærra eintak.
Þessi færsla var teiknuð í flýti í gærkvöldi vegna nennuleysis. Hér eru því nokkrir viðbótarpunktar:

1. Hér má finna nánari upplýsingar um þessa mótaröð. Mótin fara fram á sunnudagskvöldum kl 20:00 á Partypoker. Það kostar 11 dollara að taka þátt á hverju móti.

2. Ég frétti af þessari mótaröð þegar mót númer 4 var að byrja. Alls er mótaröðin 10 mót.

3. 18 efstu á hverju móti fá stig sem safnast saman. Sigurvegari er svo sá aðili sem hefur flest stig eftir þessi 10 mót. Svona er staðan eftir mótið í gærkvöldi:

Ógsla spennandi ekkva.
4. Alls hafa eitthvað í kringum 70 manns tekið þátt á mótinu hingað til.

5. Ég er sá eini sem get unnið tvöfalt á þessu móti; annars vegar keppnina og hinsvegar bætt heimsmet í heppni en aldrei hefur neinn orðið jafn heppinn og ég í neinni keppni neinsstaðar.

föstudagur, 18. júní 2010

Hversdaglegar smásögur

1. NBA lokið
Síðasta mánuðinn eða svo hefur úrslitakeppnin í NBA staðið yfir og ég horft á alla leiki sem sýndir hafa verið með skelfilegum afleiðingum dagana á eftir. Oftar en ekki hafa kíkt til mín gestir að horfa á leikina og við þá gjarnan tekið hópsöng ef stemningin er góð og brennt blys.

Í gærkvöldi lauk svo NBA í ár með sigri Lakers á Celtics 4-3. Og þar með verða kaflaskipti í mínu sumri þegar ég tek upp á því að sofa meira en 4 tíma á nóttunni og ganga ekki um eins og uppvakningur. Ennfremur hyggst ég vera tárvotur í andlitinu vegna söknuðar á útsendingum.

2. Sléttar draumfarir
Í nótt dreymdi mig að ég hefði farið í sleik við Kim Kardashian, [starfsgrein] konu. Mig dreymir yfirleitt mjög raunverulega drauma, sem ætti að nægja til að bæta þessum viðburði við í CV-ið mitt.

Ennfremur finnst mér við hæfi að hafa þar mynd af væntanlegu uppkomnu afkvæmi okkar, sem hefði orðið ef ég hefði ekki þurft að mæta í vinnuna í morgun:

Sumproduct Finnsdóttir.
3. Hef alltaf verið misstiginn
Á miðvikudagskvöldið tognaði ég á ökkla í fjórtánda sinn um ævina á körfuboltaæfingu. Óhljóðin í ökklanum hefðu glumið í salnum ef ég hefði ekki kæft hljóðin með öskrum og karlmannlegum gráti.

Ég verð frá allri hreyfingu næstu tvær vikurnar og hyggst læra á Ukulele á því tímabili. Finnst rétt að vara fólk við.

Ef smellt er á "lesa meira" má sjá mynd af ökklanum á mér. Ég vara þó fólk með fóbíu fyrir fjólubláum lit við. Á myndinni er skýringatexti ef ekki skilst hvað gengur þar á.


miðvikudagur, 16. júní 2010

Hot Chip fara á kostum

Felicity Huffman Ross Lee í myndbandi Hot Chip.
Hér er áhugavert myndband við magnað lag frá Hot Chip sem heitir I feel better:Þeir lesendur sem nenna ekki að horfa á myndbandið, hér er stutt lýsing á því sem gerist:

1. Tónleikar strákabands. Trylltir aðdáaendur.
2. Sköllóttur, horaður hvítur maður með hvítari tennur svífur inn, syngjandi. Áhorfendur eru hræddir.
3. Einn af öðrum reyna meðlimir strákabandsins að dansa hann af sviðinu.
4. Sköllótti maðurinn drepur þá alla með geisla úr munninum á sér. Skelfing grípur um sig.
5. Allt verður hljótt.
6. Sköllótti maðurinn er nú hluti af hvítklæddu strákabandinu. Þeir syngja og dansa allir saman við mikinn fögnuð.
7. Fljúgandi risahaus kemur í salinn.
8. Ég pissa á mig, stjarfur af hræðslu.
9. Risahausinn myrðir strákabandið með því að skjóta rauðum geisla í strákasveitina.
10. Risahausinn myrðir áhorfendur og eyðileggur Hot Chip merkið. Lagið klárast og hausinn hlær.
11. Ég sit gapandi.
12. Ég hringi í mömmu.

Annað varðandi myndbandið:
1. Myndbandinu er leikstýrt af Peter Serafinowicz, sem er einn fyndnasti maður Twitter.
2. Sköllótti maðurinn heitir Ross Lee og er leikari, grínisti og sjónvarpsþáttastjórnandi [sjá "venjulega" mynd af honum hér]
3. Alvöru meðlimir hljómsveitarinnar Hot Chip eru á meðal áhorfenda. Þeir geta ekki farið framhjá ykkur.

þriðjudagur, 15. júní 2010

Giskunarkeppni

Ég tek þátt í að giska á úrslit í HM í fótbolta á síðunni leikurinn.is. Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að ég fylgist ekkert með fótbolta, hef engan áhuga á honum og hef ekki séð sekúndu af þessari keppni.

Ég tek samt þátt þar sem ég elska tölur og allt sem við þeim kemur.

Í keppninni eru gefin 2 stig fyrir nákvæmlega rétta ágiskun og 1 stig fyrir rétt úrslit leiks. Hér eru ágiskanirnar mínar hingað til:

SAF - MEX: 1-1 [2 stig]
URU - FRA: 0-2
ARG - NIG: 2-1 [1 stig]
KOR - GRI: 0-0
ENG - USA: 2-1
ALG - SVN: 0-1 [2 stig]
GER - ÁST: 4-0 [2 stig]
SRB - GHA: 1-1
HOL - DAN: 3-2 [1 stig]
JPN - CMR: 1-1
ITA - PAR: 4-0
NZL - SVK: 0-0 [1 stig]

Eftir þessa leiki er ég í 88. sæti af 2.243 manns og sennilega í 1. sæti yfir þá sem vita ekkert um fótbolta. Ég geri ráð fyrir hraðri niðurleið hér eftir.

Mögleg ástæða þess að ég tók þátt.

mánudagur, 14. júní 2010

Aldur minna eigna

Ef einhver var að velta fyrir sér hvað þessi bolur sem ég var í í vinnunni í dag væri gamall þá er hér súlurit yfir aldur allra minna eigna sem enn eru í notkun:

Súlurnar eru í sama lit og hlutirnir. Ótrúleg tækni.
Þennan umrædda bol keypti ég sumarið fyrir mitt fyrsta ár í Menntaskólanum á Egilsstöðum, í versluninni Táp og Fjör á Egilsstöðum fyrir kr. 1.990 ef ég man rétt. Í ágúst 1994. Hann er ennþá eins og nýr, nema þynnri:

Lafþunnur bolur. Sem er einn helstu kostur hans.

föstudagur, 11. júní 2010

11. júní 2010

Þessi dagur er búinn að vera einstaklega afkastamikill. Í stuttu máli: Ég svaf til hádegis í dag og svo í fimm tíma eftir vinnu. En ritað mál segir ekkert. Hér er dagurinn í myndum kökuriti og... einhverju:

Svona er staðan þegar klukkan er 23:00. Spennandi.
Rauður táknar vakandi. Grændökkblátt táknar sofandi.

fimmtudagur, 10. júní 2010

Hausglymjun

Í morgun heyrði ég lagið Only man með Audio Bullys í fyrsta sinn. Það hefur glumið í hausnum á mér síðan. Ég vil síður vera einn með þetta fast í hausnum, svo hér er lagið:


Nokkrir fróðleiksmolar:
* Þessi söngvari er með minnsta munn í heimi, miðað við höfðatölu.
* Lagið er af disknum Higher than Eiffel, sem ég hlustaði á í morgun. Þetta er eina grípandi lagið. Restin er mjög slöpp.
* Ég hélt að Fred Durst syngdi viðlagið og reyndi að finnast lagið leiðinlegt vegna þess. Það var rangt af mér og ég iðrast.

þriðjudagur, 8. júní 2010

Kvikmyndagagnrýni: Youth in Revolt

Michael Cera með yfirvaraskegg. Úbs, sagði frá endinum.
Youth in Revolt
Aðalhlutverk: Michael Cera og Portia Doubleday.

Bíó og tímasetning: Smárabíó, sunnudagurinn 30. maí kl 22:10.

Félagsskapur: Björgvin bróðir í hálf fullum sal 4.

Saga myndar: Ungur og bældur strákur verður hrifinn af stelpu (Cera formúlan) og grípur til þess ráðs að verða illur til að fanga athygli hennar. Upphefst ævintýri.

Leikur: Michael Cera leikur yfirleitt sama vandræðalega og feimna karakterinn. Hann gerir það líka hér, en það er í lagi, þar sem hann gerir það mjög vel. Hann sýnir þó á sér nýja hlið í þessari mynd með fínum árangri. Aðrir leikarar falla í skuggann á honum.

Annað varðandi mynd: Grínmynd með ögn af drama. Nokkuð fyndin, aðallega fyrir tilstilli Michael Cera (og handritshöfunda, auðvitað).

Boðskapur myndar: Það er í lagi að vera feiminn, ef þú ert geðveikur líka.

Fróðleikur: Það eru nokkrir frægir leikarar í aukahlutverkum í myndinni. Þar á meðal Nánar tiltekið Ray Liotta, Justin Long, Steve Buscemi og Zach Galifianakis.

Stjörnugjöf: Fyndin mynd sem hægt er að horfa á oftar en einu sinni. 3 stjörnur af 4.

laugardagur, 5. júní 2010

Dustin Hoffman og Jason Bateman

Úrslitin í NBA eru byrjuð. Fyrsti leikurinn var drepleiðinlegur. En nóg um leikinn. Meira um áhorfendurnar.

Dustin Hoffman (snillingur) og Jason Bateman (úr þáttunum Arrested Development) sátu saman á leiknum þegar kossamyndavélin stoppaði á þeim og mynd af þeim birtist á risaskjánum:


Álit mitt á þessum leikurum var mikið áður en ég sá þetta. Nú er það í hvínandi botni. Hef sjaldan hlegið jafn hátt (inn í mér) og slegið á læri mér (stafrænt).

föstudagur, 4. júní 2010

Öskufall í Reykjavík

Þegar ég kom úr vinnunni í dag tók ég eftir að Reykjavík var horfin. Þegar ég skoðaði það betur kom í ljós að hún var enn á sínum stað, bara á kaf í ösku. Ég tók nokkrar myndir:

Þetta stóra bjarta er sólin. Hún var einkennileg í laginu í dag.

Þarna á Breiðholtið að vera í bakgrunni. Þar var bara aska í dag.

Þetta er mynd af Reykjavík, séð frá Kópavogi í öskuruglinu í dag.
Það má smella á allar myndir fyrir stærra eintak í nýjum glugga. Ég mæli þó ekki sérstaklega með því.

fimmtudagur, 3. júní 2010

Smá misskilningur

Í dag ætlaði ég að leita að mynd af Rachael Leigh Cook sem nörd í einhverri bíómynd. Google reyndi að hjálpa.

Google reynir að spilla mér.

Takk Google, en ekki núna.

miðvikudagur, 2. júní 2010

Dagurinn

Dagurinn í myndum:

Mynd 1: Peugeotinn óvenju ógeðslegur í dag. Ég kenni öskufalli um.
Mynd 2: Skaut nokkrum golfkúlum út í buskann en sá ekki hvert vegna sólskins.
Mynd 3: Fann þessa vin í miðjum útivistargarði í Kópavogi. Fékk mér að sjálfsögðu að drekka, enda týndur.


Dagurinn í orðum:
Vann til kl 17:50. Kom að bílnum mínum útötuðum í viðbjóði (sjá mynd 1).
Fór í Básana í Grafarholti að skjóta golfkúlum. Sá ekkert fyrir sól (sjá mynd 2).
Fór á körfuboltaæfingu. Stóð mig eins og hetja. Gat samt ekkert.
Fór út að labba eftir æfingu. Óþolandi gott veður (sjá mynd 3).


þriðjudagur, 1. júní 2010

Kvikmyndagagnrýni: Brooklyn's Finest

Ethan Hawke, nokkuð hress í myndinni.


Aðalhlutverk:

Richard Gere, Don Cheadle, Ethan Hawke og Wesley Snipes.


Bíó og tímasetning:

Fimmtudagurinn 27. maí í Laugarásbíói. 


Félagsskapur:

Björgvin bróðir og ca 50 manns í pínulitlum sal.


Saga myndar:

Nokkrar sögur: Spillt lögga stelur peningum. Gömul lögga er dofin andlega. Lögga sem þykist vera glæpamaður á góða vini í glæpamannahópnum. Allt þetta tvinnast saman.


Leikur:

Virkilega vel leikin mynd. Þá sérstaklega hjá Ethan Hawke sem er magnaður í myndinni. Wesley Snipes gerir tilraun til endurkomu. Er óeftirminnilegur.


Annað varðandi mynd:

Virkilega þægileg og vel flæðandi mynd með stórkostlegum leik. Söguþráðurinn er fínn líka.


Boðskapur myndar:

Lífið er pimp sem stingur þig í augun þegar þú átt síst von á því. Að því loknu mígur hann í augntóftirnar.
Reyndu að njóta þess.


Fróðleikur:

Richard Gere tekur við munnmökum í mynd í fyrsta sinn á ævinni, held ég. Leikur það ekki mjög sannfærandi, samkvæmt sérfræðingum.


Stjörnugjöf:

3 stjörnur af 4.