sunnudagur, 28. febrúar 2010

Það gerist ekki á hverju ári að ég elda fullbúna máltíð, svo ég verð að skrifa um það.

Í gær steikti ég kjúklingalundir í sveppum og lauk og bræddi mozarella ost yfir. Þetta bar ég fram með hrísgrjónum og piparsósu og drakk 2009 árgerðina af Coka Cola gosdrykknum (góður árgangur). Allt gekk vel og máltíðin bragðaðist betur en ég þorði að vona. Það varð meira að segja afgangur, sem ég hyggst hita upp í kvöld.

Það var ekki fleira. Bloggfærslan er búin.

Ég veit að þetta er ekki merkilegt fyrir fólk sem kann að elda. En fyrir mig er þetta svipað sjaldgæft og að eignast barn. Og ég held að flestir myndu blogga um að eignast barn, svo ég er afsakaður fyrir matarbloggið.

Í morgun vaknaði ég svo veikur í fyrsta sinn í meira en ár. Skemmtileg tilviljun.

laugardagur, 27. febrúar 2010

Eftir körfuboltaæfingu morgunsins á Álftanesi og ferð í heita pottinn upplifði ég lokasenuna í kvikmyndinni Contact þegar ég renndi mér í hæstu rennibraut landsins þar til mér varð óglatt og neyddist til að hætta.

Fyrir þá sem ekki hafa séð Contact, hér er lokasenan:


Ég mæli annars með því að fólk horfi á myndina í heild ef það hefur ekki séð hana. Mögnuð mynd.

Ef einhver er að halda því fram að ég sé barnalegur að vera að renna mér niður rennibrautir þar til ég æli þá er það rangt. Ég var að gera stigaæfingar með því að hlaupa upp hringstigann við rennibrautina.

Það var af illri nauðsyn sem ég renndi mér niður, skríkjandi úr hamingju.

fimmtudagur, 25. febrúar 2010

Í kvöld gerðist ég þreyttur og fór í kjölfarið að velta fyrir mér hvort ekki væri rétt að láta fólk vita af því, hvort sem það vill vita af því eða ekki.

Svo fór ég að spá í hvort ég segi fólki of mikið frá þreytu minni. Ég ákvað að spyrja Jónas, sem er spjallfélagi á MSN. Hann sendi til baka nokkra samtalsbúta frá þessu ári:


Í stuttu máli: Nei, ég segi ekki nógu oft frá þreytu minni. Það líða stundum margir klukkutímar á milli þess sem ég tilkynni þreytu mína.

miðvikudagur, 24. febrúar 2010

Afsakið fá skrif undanfarið. Ég hef verið að einbeita mér að því að safna skeggi.

Þegar hingað er komið við sögu hef ég ekki rakað mig í níu daga. Þá þarf bara 75 daga í viðbót svo ég geti talist vera með trúverðugt alskegg. Þá verður gaman að lifa.

Ég heiti því hér með að raka mig ekki fyrr en Tom Green hefur lært að rappa.

Viðbót:



Ég raka mig á morgun.

þriðjudagur, 23. febrúar 2010

Örfréttir:

* Í dag fór ég óvart í svo nýjum og þröngum buxum í vinnuna að ég átti erfitt með að ganga upp tröppur. Datt tvisvar sinnum við þá iðju. Get þó huggað mig við að rassinn á mér hefur aldrei betur út við að detta, sem var ástæða seinna fallsins.

* Ég hef ekki sofið út átta daga í röð vegna körfubolta síðastliðna helgi. Ég efast um að nokkrum manni á jörðinni líði verr en mér í dag (vegna ultra syfju). Ég geyspaði fjórum sinnum á meðan ég skrifaði þetta. Eymdin!

* UMFÁ sigraði Mostra í B-riðli 2. deildar í gær 77-61. UMFÁ er þá nánast búið að tryggja sér efsta sætið í riðlinum þegar 20% leikja er eftir.

* Í kvöld keypti ég mér lítra af ís og kláraði hann á nokkrum mínútum. Samviskubitið sem fylgdi jókst um 100% þegar ég sá að þetta var ekki einn lítri heldur tveir. Ég náði þó að minnka samviskubitið um 50% með snyrtilegu uppkasti.

laugardagur, 20. febrúar 2010

Í dag gerðust nokkrir stórir viðburðir í mínu lífi:

1. Þrítugsafmæli Björgvins
Björgvin bróðir varð þrítugur snemma í morgun. Upp á það var haldið með fjölskyldunni á Vegamótum í hádeginu og síðar í kvöld með fjölskyldu og vinum niðri í bæ.

Þrítugsafmæli Björgvins markar þau tímamót í sögu þessarar fjölskyldu (foreldrar, systkinu og börn okkar systkina) að 50% hennar er nú 30 ára eða eldri. En mynd segir meira en þúsund orð:


2. Viggó
Á meðan á dvöl okkar á Vegamótum stóð gekk inn á stallinn okkar Viggó nokkur Mortensen, leikari og næstum heimsmeistari í frægð.

Hann sá að við sátum á þessum bás og snéri við. Við, sem fjölskylda, komum í veg fyrir að Viggo Mortensen fengi sæti! Ég hef þá tekið þátt í að breyta heiminum á mjög fíngerðan hátt.

3. Hvít lygi
Ég gleymdi að kaupa afmælisgjöf fyrir Björgvin svo ég greip tækifærið þegar Viggó var farinn og sagði stundarhátt "Óvænt uppákoma!". Þannig þóttist ég hafa skipulagt að Viggó léti sjá sig í tilefni dagsins.

Björgvin var mjög sáttur enda ekki á hverjum degi sem aðalleikarinn í uppáhaldsmyndinni hans kíkir í heimsókn og fer eftir hálfa sekúndu.

fimmtudagur, 18. febrúar 2010

Fólk hringir nánast stanslaust í mig og spyr hvernig körfuboltinn gangi en ég spila í 2. deild með UMFÁ.

Stutt saga löng; UMFÁ situr í fyrsta sæti B riðils með 18 stig eftir 11 leiki (9 unna og 2 tapaða). Næstu lið eru með 12 stig (6 unna og 5 tapaða) og aðeins 4 leikir eftir af tímabilinu.

Ef þið áttuð við "hvernig stendur þú þig?" þá er svarið ekki svo einfalt: Ég er að spila rúmar 19 mínútur í leik og skora 4 stig að meðaltali, ásamt því að taka um 4,1 frákast. Ekki svo góður árangur þó ég hitti úr 70% skota utan af velli.

Í byrjun tímabils setti ég mér það markmið að vera með 30 stig að meðaltali í leik. Það er ekki of seint. Hér er planið:

  1. Til að ná 30 stigum að meðaltali í lok tímabils þarf ég að ná að skora 450 stig samtals. Ég er búinn að skora 44 stig í 11 leikjum og á því aðeins eftir að skora 406 stig.

    Í síðustu fjórum leikjum þarf ég þá að skora 101,5 stig að meðaltali. Ég þyrfti því að skjóta talsvert meira en ég geri núna. En ég breyti mér ekki fyrir neinn! Sem færir mig að næsta skrefi:

  2. Ég er að skora um 22 stig á hverjar 100 mínútur spilaðar. Til að ná að skora 101,5 stig í leik þyrfti hver leikur að lengjast úr 40 mínútum í 461 mínútu og ég að spila allan tímann.

    Ég á mögulega inni greiða hjá KKÍ. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að fjölga leikhlutum úr fjórum í 46.

Með þessari breytingu væri ég ekki aðeins að skora 30 stig í leik heldur væri ég einnig með 31 frákast að meðaltali og 4,7 varin skot. Þá gæti ég loksins hætt þessu rugli í 2. deildinni og farið í NBA.

þriðjudagur, 16. febrúar 2010


Ég hef bætt við fjórförum á fjórfarasíðuna. Þá má sjá hér.

mánudagur, 15. febrúar 2010

Þessa mynd gerði ég um helgina:


Og ekkert annað.

laugardagur, 13. febrúar 2010

Hér er listi yfir óþægilegustu atvik vikunnar:

3. Glimmer
Ég geymdi lyklakippu með mjög lélegri ásprautaðri silfuráferð í vasanum í vinnunni um daginn. Silfrið flagnaði af og örsmáar agnirnar fóru úr vasanum á hendurnar á mér og af höndunum framan í mig, án þess að ég tæki eftir neinu.

Fjórum tímum síðar sá ég spegilmynd mína og öskrandi eins hátt og gat (innan í mér). Andlitið á mér innihélt ágætis magn af "glimmeri". Ég er enn, þremur dögum síðar, að týna það úr andlitinu.

2. Súkkulaðiflóð
Ég fór, aldrei þessu vant, í Bónus verslun í morgun. Þar sá ég nýuppraðaðan Risahraunstafla og tók eitt stykki. Við það losnaði mikið magn af Risahraunum og upphófst barátta við að stoppa flóðið.

Eftir mínútu af talsvert neyðarlegri baráttu gafst ég upp og keypti sjö stykki eða þar til rennslið stoppaði að mestu og ég gat hlaupið í burtu.

1. Buxnavesen
Í byrjun vikunnar rölti ég úr mötuneyti vinnu minnar með fangið fullt af matvælum að skrifborðinu mínu. Skrifborðið mitt er við enda hæðarinnar, svo ég þarf að ganga í gegnum nánast allar söludeildirnar áður en ég kem að því.

Á miðri leiðinni fann ég að buxurnar voru að renna niðrum mig, enda með mjög straumlínulaga mjaðmir. Þar sem ég var með báðar hendur uppteknar við annað fann ég ekkert ráð nema að stoppa (þar sem hreyfing hafði neikvæð áhrif á framvinduna) og svitna (eftir á að hyggja skil ég ekki til hvers).

Eftir 5 sekúndna hugsun lagði ég aftur af stað með talsvert breyttu göngulagi og komst þannig á leiðarenda án þess að sýna nema helming nærbuxna minna og uppskera talsvert lítið af hlátrasköllum.

fimmtudagur, 11. febrúar 2010

Ég skrifa sjaldan (lesist: aldrei) um neitt sem skiptir máli. En ég get erfiðlega orða bundist varðandi þessa frétt.

Þúsund manns eru þarna sakaðir um dópneyslu/sölu og ekkert fannst, sem er nánast aukaatriði.

Ég legg til að fólk sætti sig ekki við svona meðferð. Ég hefði neitað að láta leita á mér og krafist þess að fá afsökunarbeiðni frá skólayfirvöldum fyrir að taka þátt í þessu rugli.

Annars orðar Matti örviti þetta betur.

Samantekt: Ég er brjálaður fyrir hönd þeirra sem urðu fyrir þessu kjaftæði og verða fyrir því næst.
Síðustu tvo daga hafa 12 leitarstrengir frá Google ratað hingað inn.

Þessi síða er fullkomlega gagnlaus þegar kemur að hagnýtum upplýsingum, svo ég hef ákveðið að svara þessum fyrirspurnum, til að geta dáið eftir 50 ár með bros á vör vitandi að ég hafi gert gagn í lífinu.

Google fyrirspurnir og svör:

1. Hvað eyðir suzuki liana?
Lagfært: Hverju eyðir Suzuki Liana?
Svar: Bifreiðin Suzuki Liana eyðir bensíni, rúðuvökva, hjólbörðum og öðru sem notast er við að halda henni gangandi. Einnig eyðir Suzuki Liana möguleikanum á að fjölga sér, þar sem hann er mokljótur.

2. Casio + Hrópmerkt
Lagfært: Hvernig geri ég hrópmerkt í Casio reiknivél?
Svar: Ég fjallaði um þetta nýlega hér.

3. Geðlæknir homma
Lagfært: Hver er geðlæknir homma?
Svar: Allir geðlæknar eru geðlæknar homma. Nema bókstafstrúargeðlæknar. Þeir trúa ekki á homma.

4. Góður vefhýsir á íslandi
Lagfært: Hvar get ég fundið góðan vefhýsi á Íslandi?
Svar: Í tölvum. Á netinu nánar tiltekið. Dreamhost er góður.

5. Jónas reynir hotmail
Lagfært: Er Jónas Reynir með hotmail netfang?
Svar: Já. Ég hef ekki lengur leyfi til að dreifa því.

6. Kiddi í Vídeoflugunni (5 fyrirspurnir)
Lagfært: Hver er Kiddi í Vídeoflugunni?
Svar: Kiddi er miðaldra maður sem rekur videoleiguna Videoflugan á Egilsstöðum. Hann elskar diskó og er nokkuð hress.

7. Lotto líkur vinna
Lagfært: Hverjar eru líkurnar á því að vinna fyrsta vinning í lottó/víkingalottó?
Svar:
Íslenska lottóið: 1 á móti 658.008 á eina röð.
Víkingalottóið: 1 á móti 12.271.512 á eina röð.
Lífslottóið: 1 á móti 3 á rúmlega 31.000 raðir.

8. Sumarfrí excel skjal
Lagfært: Er til Excel skjal um sumarfrí?
Svar: Nei. En ef þú ert nákvæmari gæti ég mögulega útbúið það fyrir þig, án endurgjalds. finnurtg@gmail.com fyrir nánari upplýsingar.

Ég á eftir að sofa eins og ungabarn í nótt.

þriðjudagur, 9. febrúar 2010

Fyrir fimm dögum fékk ég 10.000 króna endurgreiðslu á tryggingum frá Sjóvá í formi ávísunnar. Ég hef talsverða andstyggð á fólki, svo ég fór á netið til að leysa hana út í stað þess að hlaupa öskrandi úr hamingju í næsta banka.

Við innlausn hennar á heimasíðu Sjóvá smellti ég á vitlausan takka og pantaði óvart símtal frá þjónustufulltrúa. Það var ekki hægt að taka pöntunina til baka, sama hvað ég klóraði í skjáinn, svo ég sat og beið eftir símtalinu.

Í dag hringdi svo þjónustufulltrúinn og bauð mér, áður en ég náði að segja frá mistökunum og skella á, að lækka tryggingarnar um rúmar 8.000 krónur. Ég faðmaði hann í orðum, þakkaði fyrir og skellti á.

Boðskapur sögunnar er að stundum borgar sig að vera óframfærinn og mannhatandi klaufi.

mánudagur, 8. febrúar 2010

Í gær, eins og ca alla sunnudaga, fór ég í göngutúr um Laugardalinn til að, m.a., hugsa minn gang. Þegar ég snéri aftur fór ég að hugsa leiðina sem ég fór og hversu óvenjuleg hún hafi verið.

Ég ákvað að teikna loftmynd af leið minni:


Smellið á myndina fyrir stærra eintak í nýjum glugga.

Mér fannst ég kannast við eitthvað á þessari mynd, svo ég snéri henni lítillega og stækkaði:


Óhugnarlegt! Ég var greinilega að teikna vélbyssu með gönguferð minni. Svona vélbyssu, nánar tiltekið:


En hvað átti þetta að merkja? Hvað var undirmeðvitundin að reyna að segja mér?

Ég skoðaði dagbókina mína og sá að í kvöld átti að fara fram leikur UMFÁ gegn HK í 2. deildinni og ég skráður í byrjunarlið UMFÁ. Þetta var þá merki um að ég ætlaði að skjóta eins og brjálaður í leiknum og skora eins og villisvín.

Allavega, leiknum lauk með sigri UMFÁ 83-75. Ég tók tvö skot. Undirmeðvitund mín er hálfviti.

sunnudagur, 7. febrúar 2010

Í dag rakaði ég á mér andlitið með rakvélablaði í fyrsta sinn í tvö ár en ég keypti rafmagnsrakvél fyrir tveimur árum og hef notað hana óspart síðan. Þangað til í dag.

Allavega, ég hef engu gleymt í rakvélablaðabransanum. Skar mig 6 sinnum til blóðs.

laugardagur, 6. febrúar 2010

Venjulega væri ég að vakna um þetta leyti á laugardegi en ekki í dag. Ég vaknaði kl 9 í morgun og hef gert meira en flestir gera á viku. Upptalning:

1. Fór á 2ja tíma körfuboltaæfingu. Síðasta æfingin fyrir leik á mánudaginn gegn HK (á Álftanesi kl 19:45, hint hint).

2. Fylgdist með körfuboltamóti yngri flokkana á Álftanesi en meistaraflokkur átti að sjá um dómgæsluna á því.

3. Dæmdi minn fyrsta körfuboltaleik. Sjaldan hefur nokkur einstaklingur dæmt jafn illa.

4. Dæmdi minn síðasta körfuboltaleik. Sami leikur og í 3.

5. Gleymdi skónnum mínum ofan á bílnum þegar ég fór heim frá Álftanesi. Þessi mynd ætti að útskýra framvinduna:


Gutti kom á eftir mér og pikkaði þá upp. Takk Gutti. Þú verður besti vinur minn á elliheimilinu þegar ég verð gleymandi tönnum og kynlífshjálpartækjum út um allt.

6. Bloggaði.

fimmtudagur, 4. febrúar 2010

Síðustu þrjú ár hefur, gróflega áætlað, þriðjungur umferðarinnar á þessa síðu verið frá google leitinni "Casio-9750G plus hrópmerkt" eða eitthvað í þeim dúr. Á þessari síðu er ekki að finna svar við þessari leit.

Merkilegt nokk þá er þetta meðal þeirra fimm atriða sem ég man frá háskólagöngu minni.

Hrópmerkt er táknað með upphrópunarmerki á eftir tölu og þýðir að hana skuli margfalda með þeim tölum sem eru lægri en hún. Dæmi: 5! = 5*4*3*2*1 = 120

Þetta er m.a. notað í líkindareikningi og getur orðið frekar sóðalegt (og blautt).

Allavega, hér er svarið:
  • Hrópmerkt er factorial á ensku.
  • Grikkir notuðu hrópmerkt í kynlífsathafnir (ath. ýkjur).
  • Í Excel er fallið =fact() notað fyrir þetta.
  • Í Casio-9750G PLUS vasareikninum er það [tala slegin inn] → OPTN → F6 → F3 → F1 → EXE.
Ánægð? Drullið ykkur núna af síðunni minni, háskólanördar!

miðvikudagur, 3. febrúar 2010

Í gærkvöldi tók ég þátt í risa pókermóti á netinu. Þegar leikar hófust höfðu 10.312 manns skráð sig og ég skjálfandi og öskrandi úr spennu.

Eftir tvo tíma af stífri spilamennsku var ég í topp 500 og rétt tæplega 2.000 manns eftir. Næstum klukkutíma síðar fór allt til fjandans þegar ég þurfti að pissa.

Ég endaði í 557. sæti. Efstu 1.300 sætin fengu verðlaunafé. Ég ákvað strax að þessi peningur færi í háskólasjóð barna minna.

Ef ég legg öll 40 centin inn á reikning strax, ætti ég að vera búinn að ávaxta féið upp í andvirði háskólasamloku eftir 30 ár. Ég fresta því barneignum um 10 ár í viðbót.

þriðjudagur, 2. febrúar 2010

Körfuboltaliðið mitt spilaði gegn Reyni Sandgerði í gærkvöldi í 2. deildinni. Fyrir leikinn var UMFÁ í efsta sæti B riðils með 14 stig og Reynir Sandgerði í 2. sæti með 12 stig.

Við unnum leikinn 74-63 og erum nú fjórum stigum á undan næsta liði og fimm leikir eftir af tímabilinu. Ég er svo ánægður að mér er flökurt.

Ég hugsa að þessi leikur hafi verið minn besti hingað til. Hér er tölfræðin mín ca:
  • Fékk einn olnboga í andlitið og er með laskað (en þó gullfallegt) lítið nef.
  • Var sleginn í andlitið undir lokin. Meira andlegur skaði en líkamlegur.
  • Skoraði 14 stig. Þar af 8 af vítalínunni.
  • Var olnbogaður í síðuna. Hef varla getað gengið uppréttur í dag.
  • Tók 10 fráköst. Veraldleg fráköst. Ekki huglæg eins og síðast.
  • Skar mig á hendi í upphitun við að gefa hæ fæv.
Flestir myndu ekki finna fyrir þessum barsmíðum. Það er sennilega vegna þess að flestir eru ekki viðkvæm blóm eins og ég.

Hér er full tölfræði liðsins og að neðan er video frá helstu atriðum leiksins.


Mæli með því að fólk smelli á videoið og opni það þannig í fullri stærð. Svo liggur beinast við að niðurhala því ólöglega, skrifa á DVD disk og sýna í næsta partíi.
Eftirfarandi myndir áttu sér stað frá klukkan 22:30 á laugardagskvöldinu til klukkan 22:30 kvöldið eftir. Hægt er að smella á allar myndir fyrir stærra eintak í nýjum glugga.


Fór í bíó á laugardagskvöldið á myndina The book of Eli (Ísl.: Bókin hans Ella). Hún er vel gerð og leikin en handritið aulalegt á köflum. Plottið sjálft er glórulaust en þannig virka víst vísindaskáldsögur. 1,5 stjarna af 4.



Ég svaf ágætlega um nóttina.



Á sunnudaginn tók ég langan göngutúr í Laugardalnum.


Í garðinum var þessi stytta. Mig grunar að fyrirmyndin hafi ekki verið sátt við rassastærðina.


Það er ómögulegt að ímynda sér betra gönguveður. Ég reyndi að fanga það á þessari mynd. Það mistókst.

Næst fór ég í heita pottinn í Laugardalslaug. Þar var ég beðinn um að eyða öllum myndunum sem ég tók.



Þaðan fór ég beint að borða á American Style með Jónasi Reyni. Ég prófaði svolítið nýtt á myndavélinni; paint cartoonish stillinguna. Mjög ánægður með árangurinn.



Eftir svona góðan dag var erfitt að klára hann ekki með ljóðakvöldi á Kaffi Rósenberg. Ég fór því þangað en þar, fyrir einhverja tilviljun, var Björgvin bróðir og ca 7-8 aðrir með ljóðalestur og tónlistaratriði. Mjög góð skemmtun í góðra vina hópi.

Dagurinn fær 4 stjörnur af 4. Vantaði reyndar smá kvenmannsnekt, en hún hefði hefði líklega lítið gert fyrir söguþráðinn hvort eð er.