mánudagur, 30. apríl 2012

Nýtt ljóð

Í dag er ég í fríi frá vinnu vegna frídaga sem ég á eftir að taka út frá í fyrra.

Dagurinn var því nýttur í að semja nýtt ljóð. Að þessu sinni tók ég fyrir efni sem er mér huglægt; ferhyrning.

Ljóðið heitir ferhyrningur


Ljóðið bætist við ljóðasafn mitt sem má finna hér og húðflúrað á bakið á mér.

Ég stefni svo á að halda ljóðaupplestrarkvöld þegar ég hef náð 250 ljóðum.

fimmtudagur, 26. apríl 2012

Skórnir teknir af hillunni

Það gleður mig andlega að tilkynna að ég hef snúið aftur á körfuboltavöllinn, eftir rúmlega 13 mánaða pásu. Það hryggir mig þó talsvert líkamlega.

Svona er ástand líkama míns eftir tvær æfingar:Rauði liturinn táknar harðsperrur og grái liturinn meiðsli. Ég tognaði á hægri þumli á fyrri æfingunni, hægra hnéið gaf sig eftir seinni æfinguna og ég laskaði á mér sköflunginn á einhverjum tímapunkti. Önnur meiðsl eru krónísk og/eða andleg.

Það er svo rétt núna, fjórum dögum eftir fyrri æfinguna að ég er hættur að ganga um eins og Robocop (eftir harðsperrur). Ég er þó hvergi nærri hættur að kveinka mér.

Á móti kemur að ég skemmti mér konunglega, þrátt fyrir að geta lítið, og ligg í endorfínvímu í sólarhring eftir hverja æfingu. Mæli með því. Ef þið eruð lítið fyrir körfubolta þá mæli ég með heróíni í staðinn.

mánudagur, 23. apríl 2012

Skuggalegur fæðingarblettur

Ég er farinn að hafa smá áhyggjur af fæðingarblettinum sem ég tók eftir fyrir nokkrum árum. Ef ég vissi ekki betur héldi ég að hann væri að stækka.


Ég hef pantað tíma hjá lækni til að taka sýni úr honum og láta senda til rannsóknar. Ég vona að bíllinn sé ekki kominn með húðkrabbamein ofan í ónýta legu í framhjóli.

fimmtudagur, 19. apríl 2012

Nýstárleg auglýsingaherferð

Í dag fékk ég þessi smáskilaboð í símann minn:

Sæll, ef þú ert með til sölu mótorhjólagalla á Ruddum átt þú skilaboð. -www.[ónefnt símafyrirtæki].is

Þetta er nýtt símafyrirtæki sem ég er ekki í áskrift hjá, né hef nokkurntíman skráð símanúmer mitt í neinn leik hjá þeim.

Þetta hlýtur að vera einhver undarlegasta aðferðin til að fá fólk í áskrift til sín, að senda skilaboð á fólk sem mögulega gæti átt "mótorhjólagalla á Ruddum", hvað sem það er.

Allavega, ég á ekki mótorhjólagalla og veit ekki hvað "Ruddum" er, svo ég sleppi að færa mig yfir að þessu sinni.

Draumför

Undirmeðvitund mín gaf mér góða vísbendingu um að ég sé að verða leiðinlegasti maður í heimi þegar mig dreymdi í alla nótt að ég væri að versla í Hagkaup. Þar skoðaði ég mangó ávexti og athugaði hvort fjólublár Gatorate væri kominn aftur í sölu. Hann var ekki kominn aftur í sölu, svo ég hélt áfram að ráfa um búðina þar til ég vaknaði andlega úrvinda eftir þessa drepleiðinlegu verslunarferð.

En ég fékk að eyða deginum með Excel, svo ég er úthvíldur fyrir næsta hræðilega draum. Ég geri ráð fyrir að hann snúist um að taka út ruslið og að ryksuga íbúðina.

laugardagur, 14. apríl 2012

Fallinn

Í gærkvöldi féll ég eftirminnilega á gos- og nammibindindi mínu þegar ég át og drakk eins og svín yfir NBA leik.

Bindindið entist í 28 daga. Á þeim tíma:

1. Sparaði ég mér 20.000 krónur sem annar fóru í nammikaup.
2. Eyddi ég um 70.000 krónum í ávexti.
3. Hrapaði lífsvilji minn niður í dimmustu hyldýpi.
4. Talaði ég ekki um neitt annað en að ég borðaði ekki nammi lengur.
5. Var ég litinn hornauga af nammifélögum mínum, sem reyndu ítrekað að fá mig á nammidjamm.
6. Gréru sprautusárin á handleggnum næstum alveg eftir nammisprautur síðustu ára.

Framundan eru bjartari tímar, amk fyrir mig og tannlækna landsins.

fimmtudagur, 12. apríl 2012

Hitt og þetta

Þetta er að frétta:

Ég bætti við fjórförum á fjórfarasíðuna
Að þessu sinni eru þeir fengnir frá Baldri Beck, körfuboltagúrú með meiru. Sjá hér.

Ég bætti við Excel skjali á Excel.is síðuna
Skjalið sýnir tölfræði leikmanna í Iceland Express deildinni í körfubolta karla nýliðið tímabil (2011-2012, regular season) og býður upp á uppraðanlegar töflur eftir tölfræðiatriðum. Sjá hér.

Óþægileg uppgötvun
Mér finnst alltaf jafn leiðinlegt að átta mig á því að ég er úr kjöti. Fáránleg tilhugsun.

Kvenhylli í ræktinni
Í kvöld ætlaði ég að fara á skíðavél í ræktinni í rólegheitum og hugsa minn gang, eins og venjulega. Þegar þangað var komið og ég farinn að svitna lítrum hrúgaðist kvenfólk allt í kringum mig.

Í fyrstu hélt ég að þetta væri grín svo ég hunsaði þær en þegar 20 mínútur voru liðnar og enn að bætast við kvenfólk var mér hætt að lítast á blikuna. Svo truflandi fannst mér þetta að ég var hættur að geta einbeitt mér að Gossip girl sem var á risavöxnum sjónvarpsskjá fyrir framan skíðaavélarnar. Ég neyddist því til að skipta yfir í hjólin, sem eru með innbyggðu sjónvarpi. Þetta dugði til að hrista þær af mér, í þetta skiptið.

mánudagur, 9. apríl 2012

Páskamatarboð

Í gær fór ég í jakkafatapáskamatarboð til pabba og Laufeyjar þar sem pabbi hafði eldað fylltan kalkún með sætum kartöflum og ýmsu meðlæti. Ennfremur hafði hann bakað franska súkkulaðiköku í eftirmat.

Ég er ekki mikið fyrir góðan mat vegna þess hversu lítið hann gerir úr minni eldamennsku. Í dag bragðast allt sem ég geri eins og mold, svo góð var þessi máltíð. Mögulega sú besta sem ég hef fengið að öllum öðrum ólöstuðum.

Ég komst ekki í ræktina í gær vegna þess að ég svaf framyfir lokunartíma anna. Þess í stað lék ég mér við Valeríu Dögg frænku í matarboðinu þar til jakkafötin mín voru orðin gegnsósa af svita. Að loknu matarboði teygði ég svo vel á, fór í sturtu, skellti jakkafötunum í suðuþvott og lék mér í Excel fram á nótt, eins og venjulega.

föstudagur, 6. apríl 2012

Uppfærð stöðluð svör

Eftir að hafa sofið fjórtán tíma í gær og hafandi ekki borðað nammi núna í rúmlega 20 daga, hef ég ákveðið að uppfæra stöðluð svör mín við stöðluðum smátals-spurningum:

1. Hvað gerirðu?
Áður: Ég vinn fyrir 365 við rannsókn og greiningu.
Núna: Ég sef. Þess á milli vinn ég hjá 365.

2. Hvað finnst þér skemmtilegast að gera?
Áður: Að borða Risa hraun og fara í bíó. Helst bæði í einu.
Núna: Að sofa.

3. Hvað finnst þér leiðinlegast að gera?
Áður: Að klára Risa hraun.
Núna: Að fara á fætur.

4. Af hverju talarðu svona mikið um svefn?
Áður: Svefn? Ég hef ekki nefnt svefn hingað til.
Núna: Af því ég kann ekkert annað.

5. Ekki má ég bjóða þér í sleik?
Áður: Bíddu, leyfðu mér að klára Risa hraunið fyrst.
Núna: Nei, ég þarf að fara að sofa.

sunnudagur, 1. apríl 2012

Meðmæli

Ég mæli með eftirfarandi:

1. Hárgreiðslustofunni Krista/Quest
Ég fór í klippingu þar í vikunni, eins og ég geri á ca hálfs árs fresti og varð ekki fyrir vonbrigðum. Mæli með klippimeistaranum Nonna, sem ekki aðeins er stórskemmtilegur heldur með puttann á púlsinum (hvað hár varðar).

2. The Adventures of TinTin (Ísl.: Sér grefur gröf) í tvívídd
Sá þessa mynd í gær í símanum mínum og skemmti mér konunglega. Myndin er fáránlega vel gerð og söguþráðurinn góður. Vantaði þó fleiri kynlífssenur.

3. Nýung hjá Chrome vafranum
Þessi nýung hjá Chrome vafranum er byltingarkennd.

4. Svefn
Ef ég geri ráð fyrir að ég þurfi sjö og hálfan tíma í svefn á sólarhring þá hef ég náð að safna upp 19 tímum umfram nauðsynlegan svefn í þessari viku, samkvæmt mælingum mínum, en ég hef verið í fríi frá vinnu eins og áður hefur komið fram. Fríinu hef ég eytt í svefn, eins og áður hefur komið fram. Hvort tveggja tók ég fram áður, eins og áður hefur komið fram.

5. Draumfarir
Ég segi draumfarir mínar ekki sléttar. Ef mig er ekki að dreyma að ég sé kominn í handrukkarafélag Íslands, þar sem ég er óvinsæll fyrir stanslaust sprell, þá er ég staddur í Trékyllisvík að skoða mig um eða, eins og í nótt, að spila leik fyrir Fulham gegn Swansea í ensku úrvalsdeildinni, einn, gjörtapa 4-0 á heimavelli og tryllast úr tapsárni og yfir því að samstarfsmenn mínir muni gera grín að mér fyrir tapið. Mæli með þessu. Eða LSD. Sami hluturinn.