þriðjudagur, 30. júní 2009

Sökum íþróttahnjasks sem ég varð fyrir nýlega sé ég mér ekki fært að skrifa neitt um það sem á daga mína hefur drifið, þar sem ég get ekkert hreyft mig af viti.

Þess í stað sit ég vinnandi og hlustandi á tónlist eins og fífl. Hér eru tvö sem ég uppgötvaði nýlega:

1. Wake up and smell the millenium - DJ Nobody. Úr myndinni Superhigh me.



2. The Horror - RJD2.

mánudagur, 29. júní 2009


Ég hef bætt við fjórförum á fjórfarasíðuna. Að þessu sinni er það besti vinur minn í öllum heiminum sem fær fjórfara; Google Chrome.

laugardagur, 27. júní 2009

Nýlega fékk ég þær fréttir að Michael Jackson sé ekki lengur til. Frekar vondar fréttir þar sem hann var snjall tónlistarmaður.

Viðbrögð fólks skiptast í tvennt; annars vegar að grínast með dauða hans (til að forðast tárin) og hinsvegar að sleppa sér í taumlausri sorg (til að forðast grínið).

Ég ætla að fara milliveginn. Fyrst byrja ég að gríninu:

Smellið á myndina fyrir stærra eintak í nýjum glugga.

Því næst ætla ég að skella tveimur uppáhaldslögum mínum með Michael Jackson á síðuna, ná í bréfþurrkur og öskra út gráti þar til ég æli úr eymd.

1. Earth Song (sem átti fyrst að heita Eartha Kitt Song en var breytt á síðustu stundu):



2. Jam:



Bónuslag, til að ná almennilegu flugi í sorginni.
3. Give into me:



Hann kunni þetta.

föstudagur, 26. júní 2009

Í gærkvöldi lenti ég í tvíþættu ævintýri í sturtunni í Laugum, eftir að ég kom úr sundi.

1. þáttur: Siðblindinginn
Þegar ég sté í sturtuna sá ég mann vera að pukrast í horninu með rakvél. Þegar betur var að gáð sá ég að hann var að raka á sér, greinilega, stærri heilann og fylgihluti hans. Lausar stíga menn varla í vitið.

Þarmeð líkur fyrsta þætti.

2. þáttur: Linsan
Eftir sturtuna þurrkaði ég mér fyrir utan sturtuklefann þar sem allt er fullt af speglum. Í þessari aðstöðu myndast oft mikill raki í loftinu, eins og þetta kvöldið. Mikill raki hefur þau áhrif á linsur að þær festast stundum við augnlokin svo erfitt getur reynst að opna augun.

Ég var einmitt með linsur í augunum þetta kvöld og þegar gáfumennið með rakvélina gekk fyrir aftan mig mættust augu okkar í speglinum.

Það var þá sem ég reyndi að blikka augunum með þeim árangri að annað augað neitaði að opnast í ca hálfa sekúndu. Ég blikkaði því nýrakaðan pjakk í sturtuaðstöðu Lauga í gærkvöldi.

Ég vildi bara segja mína sögu áður en þetta kemur á vísir.is.

fimmtudagur, 25. júní 2009

Hér er samtal sem ég átti við Óla í morgun:

Ég: Í hvaða götu er þetta?
Óli: Nótatúni.
Ég: Hvar er Nóatún?
Óli: Veistu hvar Nóatún er?
Ég: Já.
Óli: Þar er Nóatún*.
Ég: Já, ok.

* Verslunin Nóatún er í götunni Nóatún.

miðvikudagur, 24. júní 2009

Ég heyrði nýlega af ungu barni sem kastaði upp úr frekju. Þá grét hún svo mikið úr frekju að hún kastaði upp. Mjög áhrifaríkt, án efa.

Það besta sem ég hef gert er að kasta upp úr hausverk, áfengi eða veikindum. Fyrir næstum viku kastaði ég svo næstum upp úr hugsun eftir þetta samtal:

Ég: Hey, manstu eftir Topher Grace úr That 70's show?
Viðmælandi: Já, mjög vel.
Ég: Manstu eftir náunganum sem lék með honum þar?
Viðmælandi: Kurtwood Smith?
Ég: Nei, hinum.
Viðmælandi: Ah, Aston Kutcher.
Ég: Já, akkúrat. Manstu eftir konunni hans?
Viðmælandi: Já, Demi Moore.
Ég: Einmitt. Og fyrrverandi manni hennar?
Viðmælandi: Bruce Willis.
Ég: Já. Vissir þú að núverandi kona hans á afmæli í dag?
Viðmælandi: Bíddu nú við. Á núverandi kona fyrrverandi manns konu meðleikara aðalhlutverksins í that 70 show afmæli?
Ég: Ég er ekki viss.

þriðjudagur, 23. júní 2009

Mér hefur tekist nokkuð sem engum vísindamanni hefur tekist í sögu mannkynsins; að vinna bug á þyngdaraflinu!

Þessi uppgötvun mín mun ekki aðeins gera mig að milljarðamæringi og bjarga Íslandi úr kreppuveseninu heldur mun tækninni fleyta fram á ofurhraða í kjölfarið. Flugbílar, flughjólabretti, flugskór og fleira tengt mun líta dagsins ljós og allir verða hamingjusamir.

Og allt þetta útaf einum hárlokki á hausnum á mér sem fylgir ekki þyngdaraflinu, sama hvað ég reyni að greiða hann niður. Magnað!

Viðbót: Ég prófaði gel og hárlokkurinn fór niður, loksins. Hunsið allt sem ég sagði um að vinna bug á þyngdaraflinu.

mánudagur, 22. júní 2009

Ég er ekki mesti sérfræðingur landsins um sambönd en eitt veit ég; aldrei segja "hell hath no fury like a woman scorned, beljan þín" við kærustu eða nokkra aðra stelpu. Þær brjálast.

Þá hef ég deilt öllu sem ég veit um stelpur.

Mér leikur forvitni á að vita hver markhópur chat.is er eftir að hafa séð auglýsinguna að ofan í smáauglýsingum Fréttablaðsins á laugardaginn.

Verandi með svokallað gömlukonublæti ákvað ég að kíkja á síðuna chat.is. Ég varð fyrir talsverðum vonbrigðum þegar ég sá mér til hryllings unga og gullfallega konu, liggjandi á gólfinu að spjalla, eins og gengur og gerist, en ekki sjóðandi heita langömmu.

föstudagur, 19. júní 2009

Nýlega fékk ég fyrirspurnina: "Hvað kostar að hafa tónlista mjög hátt í bílnum á meðan maður keyrir?" frá æstum lesanda.

Svarið er einfalt.

Ég á bíl og spila gjarnan tónlistina mjög hátt til að heyra síður í sjálfum mér syngja með, þar sem ég er frekar laglaus og með vonda söngrödd. Svo datt mér í hug í flippstuði að skipta um bremsuklossa.

Þá kom í ljós að ég var búinn með bremsuklossana og líka diskana undir þeim. Það var því komið "Járn í járn" ástand sem á að vera mjög hávært en ég tók ekki eftir, þar sem ég var að hlusta á hátt stillta tónlist.

Það kostar semsagt rúmar 20.000 krónur aukalega að hlusta tónlist hátt í bíl.
Athyglisbrestur minn hefur náð nýjum hæðum. Í World Class þarf að skanna augun til að komast inn fyrir. Augnskönnunin tekur ca eina sekúndu og krefst þess að ég horfi beint í skannann.

Þrisvar sinnum missti ég einbeitingu í þessa sekúndu og leit undan þegar augun voru skönnuð í gærkvöldi, við litla kátínu tölvuraddarinnar í skannanum.

Ég kýs að gefa ekki upp ástæðuna fyrir einbeitingaleysi mínu, né heldur í hvernig teygjubuxum hún var.

fimmtudagur, 18. júní 2009

Það lítur út fyrir að mitt eina afkvæmi eigi hálfgert afmæli. Í dag er Arthúr 34.000 klukkutíma gamall, sem gera 1.417 daga eða 3,88 ár.

Á þeim tíma hefur eftirfarandi tölfræði átt sér stað:
* 529 strípur.
* 2,61 strípur á viku.
* 5.262 hlekkir á Arthúr á netinu.
* 1.137.775 stakir gestir.
* 24.207 stakir gestir að meðaltali á mánuði.
* 803 stakir gestir að meðaltali á dag.
* 2 gagnagrunnshrun á síðunni.
* 253 ný grá hár á hausnum á mér.

þriðjudagur, 16. júní 2009

Einhver sagði mér nýlega að orkudrykkir væru stórhættulegir. Ef ég man rétt þá hló ég framan í þá manneskju og gott ef ég skyrpti ekki framan í hana.

Síðan þá hef ég tvisvar slasað mig á orkudrykkjum. Í fyrra skiptið skar ég á mér tvo putta við að reyna að opna orkudrykkjarflösku, svo kolsýrt blóð mitt flussaðist í allar áttir.

Í gær náði ég svo að endursnúa á mér vinstri úlnliðinn þegar ég gerði tilraun til að opna aðra flösku. Ég frumsnéri úlnliðinn í ræktinni í síðustu viku við axlaæfingu. Ekki spyrja.

Ég stend því hér með leiðréttur. Ég forðast orkudrykkina héðan í frá eins og syndina.

mánudagur, 15. júní 2009

Ég hef fengið einingu af símtali (næstum tugi símtala) þar sem ég var skammaður yfir lagaleysi á þessari síðu, síðasta laugardag.

Ástæðan er einföld; ég var of upptekinn við að drullutapa í póker á netinu. Ég bæti það upp hér með.

Fyrst er nýtt myndband við nokkuð gamalt lag lag FM Belfast, Par Avion, af stórkostlegri plötu þeirra How to make friends.

Ég fór einmitt sælla minninga á dansiball þeirra og Ratatat á Broadway í desember síðastliðinum, þar sem ég skemmti mér konunglega, þrátt fyrir misgáfuleg atvik.

Ekki þeirra besta lag, en mjög gott samt:



Seinna lagið er óvenjulegt. Það er auglýsingastef úr nýjustu Vodafone auglýsingunni en hana sá ég fyrst í bíó á föstudaginn, þar sem ég tók andköf yfir laginu, gæði auglýsingunnar, fegurð módelanna og frábæru tilboði hjá Vodafone. Líklega flottasta auglýsing sem ég hef séð (edrú).


Þessi auglýsing minnir mig nokkuð mikið á þennan morgun, þegar ég mætti hrossaflugugengi á leið að bílnum. Stærstu flugur sem ég hef séð. Þá tel ég vísindaskáldsögubíómyndir með.

sunnudagur, 14. júní 2009

Ég átti mína bestu körfuboltahreyfingu hingað til á körfuboltaæfingu gærdagsins þegar mitt lið var 10-9 yfir (í leik upp í 11) og ég keyrði í átt að körfunni með boltann, stefnandi á öruggt sniðskot.

Þar mætti mér þróttugur drengur sem braut á mér í loftinu svo ég snérist í hálfhring og kastaði snúningsbolta aftur fyrir mig í spjaldið ofan í.

Ég er með harðsperrur hendinni eftir öll hæ fævin sem ég fékk.

En þessi gleði entist ekki lengi. Ég kaus að líta á svörtu hliðarnar, til að ójafnvægi myndaðist ekki í blóðinu. Ég hefði getað gert þessa hreyfingu í alvöru leik. Með fullt af áhorfendum. Jafnvel myndavélar (og klappstýrur). En nei, ég gerði mína bestu hreyfingu á 7 manna sumarkörfuboltaæfingu sem er gleymd daginn eftir.

Það var mér til happs að hugsa þetta allt í sturtunni, svo enginn sá tárin.

fimmtudagur, 11. júní 2009

Í gær skar ég mig til blóðs á tveimur puttum við að reyna að opna orkudrykkjarflösku í ræktinni.

Þetta er án efa versti árangur við að opna eitthvað og langheimskulegasta tólið til að skera mig til blóðs með. Hér er annars listinn:

5. Hnífur - Við að ná í sundur frosnum smákökum.
4. Rakvélablað - Fann eitthvað blautt í tösku; blóðugir puttar mínir eftir rakvélablað.
3. Glerbrot - Reyndar á fæti. Og af því það var skilið eftir á gólfinu heima.
2. Blað - Óteljandi oft.
1. Orkudrykkur - Aðeins of æstur í drykkinn.

Gríðarlega óspennandi listi. Líklega með þeim minnst spennandi sem ég hef gert. Listi um það síðar.

miðvikudagur, 10. júní 2009

Þegar ég sá veðurspánna um daginn, sem innihélt helling af rigningu, hvíslaði ég óhugnarlega "glæsilegt" og meinti það.

Nóttina eftir, þegar ég gat illa sofið fyrir sólskini og hita í herberginu, hugsaði ég hvað ég saknaði vetrarins þegar hægt er að hjúfra sig undir risasængina mína án þess að svitna, í svartnætti.

Daginn eftir fór ég í kolsvörtu fötin mín, greiddi mér einkennilega og keyrði í vinnuna þar sem ég öskraði "Fökking djöfulsins hálfviti!" á einhvern bíl sem gaf ekki stefnuljós.

Þá fyrst áttaði ég mig; ég er bara einu öri í andliti og einu plani um eilífan vetur frá því að vera eitt mesta illmenni mannkynssögunnar.

Sem færir mig að tilgangi þessarar bloggfærslu; hér er topp 5 listi yfir uppáhalds vondu kallana mína í bíómyndum:

5. Agent Smith - The Matrix
4. The Thin Man - Charlie's Angels
3. Patrick Bateman - American Psycho
2. The Joker - The Dark Knight
1. John Doe - Seven

Tvö bónus illmenni sem náðu ekki á topp 5

* The Albino Twins - The Matrix Reloaded
* Dr. Octopus - Spiderman 2

þriðjudagur, 9. júní 2009

Ég hata hryllingsmyndir. Það er eitthvað við viðbjóð, að láta mér bregða og að sofa ekkert á næturnar sem mér finnst ekki aðlaðandi. Með öðrum orðum; ég er rola.

Svo mikil rola er ég að, við að skoða þessa síðu, sá ég myndina að neðan og varð viti mínu fjær úr skelfingu:



Ég varð þó ekki hræddur strax, því myndin er mjög lúmskt óhugnarleg. Það var ekki fyrr en ég var búinn að pissa á mig að ég áttaði mig að ég var mjög hræddur.

Myndin er kynningarplagg fyrir hryllingsmyndina Orphan (Ísl.: Böðvar fer í fríið) en hana ætla ég aldrei að sjá.

mánudagur, 8. júní 2009

Ég vil ekki monta mig en svo virðist sem ég sé elskaður, ef marka má símtal frá í morgun:

Ég: "Ég geri einhver gögn og sendi á þig á eftir"
Viðmælandi: "Takk ástin mín"

Þar hafiði það. Þið þurfið ekki að vita að samtalið endaði svona:

Ég: "ehh í alvöru?"
Jón: "Nei..heyrðu. Ég hélt ég væri að tala við konuna mína í smá stund"
Ég: ":-("

Nafni aumingja mannsins hefur verið breytt.

laugardagur, 6. júní 2009

Laugardagur! Sem þýðir þrennt:

1. Ég sef út.
2. Körfuboltaæfing.
3. Tónlistarmyndbönd á þessari síðu.

Fyrra lagið er Night Court með Mux Mool, sem þið getið sótt ókeypis hér.


Myndbandið hér að ofan er óopinbert og tekið úr þættinum Tim and Eric's awesome show. Great job!. Nánar tiltekið þættinum Snow party úr 4. seríu. Mæli með þeim. Hér er kynningarbrot fyrir seríu 4:



Hér er svo lagið Otto's Journey með Mylo af disknum Destroy Rock&Roll:

fimmtudagur, 4. júní 2009

Í kvöld heyrði ég tvo menn bera saman árin 1998 og 2009 í sambandi við hagsæld og annað kjaftæði.

Þar sem ég er mjög sjálfhverfur maður hugsaði ég ósjálfrátt "Hey! Af hverju eru þeir ekki að bera saman 1998 við 2009 í sambandi við mig? Er ég ekki nógu merkilegur?"

Hér kemur því samanburður á mér frá 1998-2009:



Og svo samanburðarmynd af mér frá 1998 og 2009:



Ef einhver veit um leið til að ég geti orðið sjálfhverfari, endilega látið vita.

miðvikudagur, 3. júní 2009

Í gær, klukkan 18:59 ætlaði ég að skjótast yfir í mötuneyti 365 til að kaupa mér banana fyrir rækt, en mötuneytið lokar kl 19:00 svo tíminn var knappur. Á leiðinni þangað rakst ég á mann sem var greinilega að koma úr mötuneytinu.

Ég: Er semsagt enn opið?
hann: hvar?
ég: Í mötuneytinu.
hann: tja... jah, ég er ekki viss.
ég: Nú?
hann: Afgreiðslumaðurinn var að gera sig tilbúinn að loka.
ég: já ok, ég reyni samt.
hann: já, flýttu þ...
*Smellur*

Hurðinni að mötuneytinu læst fyrir aftan mig.

Ég: :-(
Hann: :-/

Þetta er sönnungargagn númer ∞ um að mannleg samskipti hafi aldrei leitt neitt gott af sér.

þriðjudagur, 2. júní 2009

Oftar en ekki er ég spurður "Hvernig skiptist tónlistarsmekkur þinn hlutfallslega niður á tónlistarstefnur og hvernig hefur hann þróast frá fæðingu?". Ég er orðinn frekar þreyttur á því svo hér kemur ítarlegt svar:

Tónlistarstefnur sem hafðar eru í gröfunum eru rokk, popp, raftónlist, kántrí, klassík og jólalög.

Mynd 1:
Hér má sjá mínúturnar á dag sem eytt hefur verið í hlustun á tónlistarstefnur (og heildarhlustun). Ég virðist hlusta meira og meira á tónlist, með hækkandi aldri.

Mynd 2:
Hér sést hlutfallsleg skipting á tímanum sem eytt er í tónlist milli tónlistarstefna. Þarna sést skýrt hvernig poppinu er skipt út fyrir rokkið og rokkið og poppinu skipt út fyrir raftónlistina. Ennfremur sést æskublóminn deyja með minnkandi hlustun á jólalög.

Mynd 3:
Þessi mynd er sett upp til að sýna hvernig tónlistarhlustun mín er uppfyllt af umræddum tónlistarstefnum. Raftónlist á hug minn allan þessi árin.

Ath. Það má smella á allar myndir fyrir stærri og þar af leiðandi meira spennandi eintök.

Ég geri ráð fyrir að fólk hætti nú að spyrja út í tónlistarsmekksþróun mína og fari að spyrja meira út í gráu hárin á hausnum á mér, sem farin eru að vekja athygli.