föstudagur, 30. nóvember 2007

Þeir lesendur sem vilja láta koma sér á óvart og elska að láta bregða sér, hættið að lesa núna.

*Spoiler*
Í glugganum "1" á Lionsdagatalinu er súkkulaðihús.

Ástæðan fyrir því að ég opnaði það í kvöld var að á morgun mun ég rétt vakna til að fara á körfuboltaæfingu. Það er bannað að borða sykur rétt fyrir æfingu.
Ég vaknaði í morgun við að ég var að tannbursta mig og blótandi yfir því að þurfa að fara í vinnuna svona þreyttur. Allt í einu byrjaði ég að hugsa. Ég hugsaði: "hvernig í fjandanum komst ég hingað?". Ég gat ekki svarað spurningunni, þannig að ég ákvað að rannsaka málið.

Viti menn, ég var að ganga/tannbursta mig í svefni klukkan 3 að nóttu.

Hvernig stendur á því að ég get ekki gert neitt leiðinlegt í svefni eins og að þrífa íbúðina eða lyfta lóðum?

fimmtudagur, 29. nóvember 2007

Það virðist vera í tísku að hunsa mig í viðtölum hjá fjölmiðlum. Nú hefur blaðið Víkurfréttir bæst í hóp blaða sem tekur ekki viðtal við mig. Ég held áfram að berjast gegn eineltinu og svara spurningunum samt. Ég ætti að vera maður vikunnar hjá Víkurfréttum. Hér svara ég spurningunum:

Nafn: Finnur Torfi Gunnarsson.

Fæðingardagur og ár: 28. júlí 1978.

Atvinna: Tölfræðigreinir hjá 365.

Börn: Nei takk, er nýbúinn að borða.

Áhugamál: Körfubolti, tölfræði, kvikmyndir, skrif, gamanmál.

Hvaða bók ertu að lesa og hvaða bók langar þig að lesa? Er að lesa Tricks of the mind eftir Derren Brown. Langar að lesa bókina Guð er ekki til eftir Illuga Jökulson.

Hvað er það fyrsta sem kemur upp í hugann á morgnanna? "Andskotinn".

Ef þú gætir unnið við hvað sem er, hvað væri það og af hverju? Við að taka niður og flokka körfuboltatölfræði. Af því þá væri ég að vinna við það sem ég vildi vinna við.

Hvað er það allra skemmtilegasta sem þú gerir? Spila körfubolta, skoða körfuboltatölfræði, horfa á bíómyndir, sofa.

Hvað er það sem fer mest í taugarnar á þér? Ótillitsamt og eigingjarnt fólk.

Hvað er næst á dagskrá hjá þér? Að skreppa í DV með reikning eftir vinnu. Svo vonandi að ég nenni í ræktina.

Hvað gerir þú til að láta þér líða vel? Ég sef.

Hvað er með öllu ónauðsynlegt að þínu mati? Sigarettur, trú og nærbuxur.

Ef þú værir bæjarstjóri Garðabæjar í einn dag, hvað væri það fyrsta sem þú myndir gera? Ég myndi reyna að finna Garðabæ.

Ef þú gætir verið einhver einstaklingur úr veraldarsögunni, hver myndir þú vera og af hverju? Barna barna barna barn mitt eftir ca 150 ár.

Gætir þú lifað án síma, tölvu og sjónvarps? Já. Ég las það einhversstaðar á internetinu að það sé hægt að venjast öllu.

Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur gert? Ég færi ekki að segja frá því, þar sem það var neyðarlegt.

Ein góð saga úr „bransanum“? Nei. Miklu fleiri en ein.

miðvikudagur, 28. nóvember 2007

Ég er mjög vondur í að taka fljótfærnisákvarðanir. Nokkur dæmi:

* Keypti mér Peugeot bíl.
* Flutti til Reykjavíkur.
* Vel mér alltaf raðir sem stoppa á miðaldra kellingum í verslunum.
* Hver einasta hreyfing mín í körfubolta er illa ígrunduð.

Allavega, í dag tók ég bestu fljótfærnisákvörðun ævi minnar þegar ég fór í klippingu og samþykkti að láta þvo mér um hárið.

Ekkert fór úrskeiðis. Ótrúleg heppni.

þriðjudagur, 27. nóvember 2007

Það er draumur minn að stofna samtök þeirra sem eiga við drykkjuvandamál að stríða, eftir að ég klúðraði ca fjórðu helginni í röð með því að drekka ekki dropa. Ég virðist ekki geta drukkið áfengi með góðu móti.

Hópurinn myndi hittast einu sinni í viku, annað hvort á föstudögum eða laugardögum. Hér eru nokkrar hugmyndir varðandi starfsemina:

* Félagar myndu segja frá sér og vandræðum með áfengisdrykkjuna.

* Farið væri yfir jákvæð áhrif áfengis á félagslíf og líkama. Vísindamenn myndu halda fyrirlestra um ágæti áfengis.

* Félagar yrðu settir í erfiðar aðstæður, t.d. að tala við leiðinlegt fólk, með og án áfengis við hönd. Upplifanirnar bornar saman. Ályktanir dregnar.

* Styrktaraðili myndi bjóða frítt áfengi á öllum fundum. Skylda væri að drekka einn bjór.

* Vettvangsferðir yrðu farnar niður í bæ um helgar. Þar myndu félagar hvetja hvorn annan áfram í drykkjunni.

* Innbirgðiskeppni meðal félaga samtakanna um að halda sér blautum sem flestar helgar í röð. Setningar eins og "Ég heiti Finnur og ég hef verið blautur í 3 vikur" væru gjaldgengar og fagnað með lófataki, jafnvel hrópum.

* Að mæta fullur á fund yrði álitið gríðarlegt styrkleikamerki, jafnvel merki um bata.

Ég er viss um að einn daginn muni ég geta brotist úr hlekkjum edrú lífsins og orðið sauðdrukkinn. Þangað til verða vinir mínir að vera þolinmóðir. Ekki gefast upp á mér.
Dagurinn í dag er merkilegur fyrir þær sakir að í morgun hvarf síðasta sólbrúnka sumarsins.

Ég er þá orðinn fullkomlega hvítur í framan og fylli því öll skilyrði hugtaksins "náfölur", ef undan er talinn talsvert stór (3 cm í radíus) brúnkublettur á hægra hnénu á mér, sem mig grunar að sé glóðarauga á kolröngum stað.

mánudagur, 26. nóvember 2007

Enn eitt átakið er hafið. Í þetta sinn hefst það í kjölfar þess að ég sá video af sjálfum mér spila körfubolta. Ég er of mjór.

Til að þyngjast þarf ég eftirfarandi:

* Lyfta lóðum eins og fjöldamorðingi.
* Ekki sleppa úr máltíð.
* Borða kreatín á morgnanna og eftir æfingar/á kvöldin.
* Borða prótein eftir æfingar.
* Borða glútamín fyrir eða eftir æfingar.
* Aldrei hætta og aldrei taka mér pásu!
* Aldrei saga af mér útlim.

Ef ég er heppinn verð ég alvöru strákur einn daginn.
Hér er ókeypis ráð til þeirra sem vilja gjarnan skapa glundroða í menningarvæddum samfélögum:

Kleinur + Kreatín = Napalm.

Þetta lærði ég í kvöld "the hard way", sem útskýrir af hverju þessi færsla er skrifuð svona seint. Eða snemma.

laugardagur, 24. nóvember 2007

Ég gerðist hégómafullur og skráði mig á facebook.com um daginn. Þegar ég hafði safnað nokkrum vinum gerðist ég enn hégómafyllri og setti mynd af mér inn á svokallað hot or not kassa og lét samfélagið dæma útlit mitt.

Eins og sjá má hér hef ég fengið 10 í einkunn. Ef meðaltal væri aðeins tekið af hæstu einkunn sem fengist hefur þá væri ég með hæstu mögulegu einkunn. Ég er í skýjunum. Ég hafði ekki hugmynd um að fólk fyndist þetta um mig!

föstudagur, 23. nóvember 2007

Tilviljanirnar eru of miklar þessa dagana til að ég geti orða bundist.

Dæmi 1.
Í gærkvöldi skrapp ég í Kringluna með Gylfa. Við lögðum á ca 3. hæð og þegar ég var nýstiginn úr bílnum heyrðist: "WOOT! Finnur?". Röddina átti Kolla systir sem var að koma úr bílnum fyrir aftan. Hún býr á Akureyri dags daglega og var í Reykjavík eftir rúnt sem fór úr böndunum.

Við röltum inn í Kringluna, þar sem Björgvin bróðir gengur úr verslun við innganginn, nýbúinn að vinna. Ekki nóg með það heldur gengum við hlið við hlið, fyrir einhverja fáránlega tilviljun, í góðan hálftíma áður en við fórum sitt í hvora áttina.

Dæmi 2.
Ég fór í ræktina í dag. Þar hitti ég kviknakinn Eirík Stefán. Eftir 2ja sekúndna spjall var mér litið til hliðar og sá þar Gugg, Óla Rúnar og Stebba Sturlu, sem allir eiga að vera að æfa körfubolta með mér. Þeir voru að hittast fyrir tilviljun líka. Við hlið þeirra var samstarfsmaður minn. Í ræktinni hitti ég svo Daða, sem einnig er að æfa körfubolta með mér. Einnig var þarna fullt fullt af fólki sem ég sá ekki andlitin á! Sennilega af því ég var ekki með gleraugun á mér né með linsur... eða sjón.

Dæmi 3.
Ég sá stelpu sem ég þekki klæða sig úr og fara í sturtu heima hjá sér, þegar ég sat í rólegheitum í bílnum mínum og fægði glerið í kíkinum mínum. Ég neita að trúa því að þetta sé tilviljun.

fimmtudagur, 22. nóvember 2007

Ég hef gert eftirfarandi í dag:

* Bætt við nýjum myndum frá leik UMFÁ gegn Laugdælum síðasta mánudag, á myndasíðu UMFÁ.
* Bætt við nýjum hlekk hér á hægri hönd á heimasíðu Körfuboltadeild UMFÁ.
* Uppfært hlekkinn á myndasíðuna mína.
* Byrjað aftur að lyfta.
* Gleymt lyklunum mínum að íbúðinni í andyri fjölbýlisins sem ég bý í.
* Vann í 8 tíma! Geðsýki.
* Fékk tilboð um að teikna utan á geisladiskahulstur fyrir misskilning. Ég tók því.
* Fékk tilboð um birtingu Arthúrs í virtu riti fyrir jól. Ég tók því.
* Borðaði bara hollan mat til klukkan 14:00.
* Borðaði bara óhollan mat eftir klukkan 14:00.

Eins og fólk sér er hver dagur í mínu lífi ævintýri.
Þið vitið hvað höfundur þessa bloggs gerði, hvað Finnur gerði? Hann fór og spjallaði við bílasölu (fyrir 22 mánuðum): „Eigum við ekki að fá okkur kaffi? Ræða málin?“ Og hvað varð úr því? Peugeot! Og bankareikningur hans er ennþá marinn og meiddur eftir þessa ferlegu uppákomu!

Bíllinn er bilaður. Það, eitt og sér, er ekki í frásögu færandi, nema af því hann er bilaður í milljónasta skipti síðan ég keypti hann. Hver viðgerð hefur kostað mig að meðaltali kr. 50.000 (kr. 40.000 í staðalfrávik). Reiknið heildarkostnaðinn. Skilið einnig 1.000 orða greinargerð um það hversu mikið drasl Peugeot bílar eru.

Skilið þessu dæmi fyrir mánudagsmorgunn. Talað verður við foreldra þeirra sem ekki skila dæminu á réttum tíma.

Ég lofa að selja bílinn um leið og ég kem honum í söluhæft ástand.

miðvikudagur, 21. nóvember 2007

Samkvæmt Google analytics og nýjustu tölum frá Teljari.is eru eftirfarandi setningar varðandi Arthúrsíðuna staðreyndir í vikunni 12.-18. nóvember:

1. Alls komu 1.593 stakir gestir inn á Arthúrsíðuna. Það setur hana í 99. sæti yfir vinsælustu vefi landsins, ef litið er á gestafjölda.

2. Alls voru innlitin 3.591 á sömu síðu. Það setur síðuna í 90. sæti yfir vinsælustu vefi landsins, ef litið er á innlit.

3. Alls voru flettingarnar 18.962 á síðuna. Það setur hana í 85. sæti yfir vinsælustu vefi landsins, ef litið er á flettingar.

4. Gestir síðunnar stoppuð að meðaltali í 2 mínútur og 51 sekúndu í vikunni.

5. 18,63% gesta vikunnar voru nýjir gestir síðunnar.

6. Hver gestur skoðaði 5,28 undirsíður að meðaltali.

7. 95,6% heimsókna á síðunnar komu frá Íslandi.

8. Ég örvaðist þrisvar sinnum kynferðislega við að skrifa þennan pistil.
Tölfræði körfuboltaleiksins gegn Laugvetningum er komin í hús. Ætli það sé ekki best að vísa á aðra síðu til að fá hana. Ég hef orðið fyrir aðkasti frá lesendum fyrir að troða körfuboltatölfræði í kokið á þeim. Og þegar ég segi aðkast þá meina ég auðvitað múrsteinum.

Á þessari síðu er tölfræðina að finna.

Hér er svo smá grein um leikinn ásamt myndum.

Ég mun svo bæta við fleiri myndum frá leiknum sennilega á morgun.

Og að lokum mun ég hringja í hvern og einn lesanda bloggsins á fimmtudaginn og lesa umsagnir um leikinn fyrir þá.

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Getur verið að úrslit leiksins felist í þessu kerfi?

Ég spái allavega 45-1 fyrir Dönum og veðja aleigu minni. Það er möguleiki á að ég margfaldi skuldir mínar ef ég vinn.
Í laginu November rain með Guns'n Roses má finna eftirfarandi setningu:

'Cause nothing lasts forever / even cold November rain

Sem þýðist: „Því ekkert er eilíft / jafnvel ekki köld nóvember rigning".

Ég hef mjög áreiðanlegar heimildir fyrir því að höfundur textans hafi aldrei komið til Reykjavíkur í nóvember.
SIGUR!

UMFÁ: 68
Laugarvatn: 55

Mjög skemmtilegur leikur. UMFÁ hefur sigrað tvo leiki og tapað einum. Tölfræðin er á leiðinni.

mánudagur, 19. nóvember 2007

Undanfarið hef ég tekið eftir því að ég er að missa að meðaltali um 120 hár af höfðinu daglega. Í kjölfarið fór ég að velta því fyrir mér hvort hármagnið á höfðinu mínu sé að minnka og hvort ég ætti að nýta tíma minn í eitthvað annað en að telja hár. Ég afskrifaði það síðarnefnda strax en vildi fá svar við því hvort hárið væri að minnka.

Ég hljóp í Excel og setti upp eftirfarandi forsendur:

Venjuleg dökkhærð manneskja er með um 100.000 hár á höfði (heimild: wikipedia.org). Hárgreiðsludömur hafa margar talað um að ég sé með þykkt hár. Ég geri ráð fyrir að engin hárgreiðsludama sé daðrandi glyðra og því ljúgi þær ekki. Ég geri því ráð fyrir 10% aukahárum eða 110.000 hár á höfði mínu.

Meðalvöxtur á mánuði fyrir höfuðhár eru 15 mm (heimild: wikipedia.org). Það gera 0,4928 mm í vöxt á dag.

Meðallengd háranna á höfðinu mínu er 7,5 cm.

Það má því reikna út að hár mitt vaxi samtals um 5.421 cm á dag (110.000*0,4928mm). Það gera um 723 meðalhár.

Svarið er því:

Heildarmagn hára er ekki að minnka. Á meðan ég missi 120 hár á dag er að vaxa jafngildi 723 nýrra hára. Nettó er ég því að hagnast um rúmlega 4.500 cm af hári á dag. Heppinn ég.

Ef fer fram sem horfir með hárlosið, og ef við gefum okkur að ekkert nýtt hár vaxi þar sem þessi 120 á dag falla, má gera ráð fyrir að ég verði orðinn alveg nauðasköllóttur þann 23. júní 2010 klukkan 16:00. Það verður þó að teljast ólíklegt, þar sem enginn forfaðir minn hefur verið sköllóttur, svo vitað sé til.

Ég get því haldið áfram að gera grín að sköllóttum áhyggjulaus.

sunnudagur, 18. nóvember 2007

Ég vil minna aftur á leik UMFÁ gegn Laugdælingum á morgun enn hann fer fram í íþróttahúsi Álftaness klukkan 19:15 að staðartíma. Þar mun Skoppi, fyrrum leikmaður Hattar og Álftaness, spila gegn núverandi stjörnu UMFÁ og tvífara sínum, Daða.

Það kostar ekkert inn.

Þessi áminning er aðallega skrifuð fyrir sjálfan mig, þar sem ég er með gríðarlega vont minni.

laugardagur, 17. nóvember 2007

Í hádeginu í gær fór ég með Óla í Kringluna að borða, sem ég geri mjög sjaldan. Þá tók við undarleg framvinda:

Sena 1: Í miðri röð á Sbarro.
Karakterar: Finnur, afgreiðslumaður og fólk í biðröð.

-Sena hefst-

Afgreiðslumaður: "Margarítasneið og kók?".

Finnur gapir yfir hugsanalestri afgreiðslumannsins.

Finnur: "Já!"
Afgreiðslumaður: "Við hjá Sbarro höfum ákveðið að bjóða þér upp á þetta. Gjörðu svo vel."

Finnur furðu lostinn. 2 sekúndum síðar fyllist hann vænisýki.

Finnur: "Af hverju?"
Afgreiðslumaður: "Af því þú hefur komið hingað alla daga í hádeginu í þessari viku og pantað það sama. Við verðlaunum góða viðskiptavini."
Finnur: "Nú? Ó boy. Takk!"

Finnur hleypur í burtu flissandi, áður en afgreiðslumaðurinn fattar mistökin.

-Sena endar-

Eftir einhverja hugsun um þetta og spurningar til Óla kom í ljós að þetta var rétt hjá afgreiðslumanninum.

Þetta gæti verið efni í raunverulega bíómynd. Ekki ósvipað Fight Club.

Ég mæli annars með Sbarro. Snilldarstaður og snilldarafgreiðslufólk.

föstudagur, 16. nóvember 2007

Ég elska þegar prentarinn snappar um leið og excel frýs þegar einhver maður kemur hlaupandi, biðjandi um gögn fyrir fund sem er að byrja. Ég er nefnilega haldinn stressfíkn og svitablæti.

Og þegar einhver þáttastjórnandi kemur hlæjandi að mér yfir þessum aðstæðum og viðbrögðum mínum við þeim, þá vil ég að það sé á hreinu að ég veit að um falda myndavél er að ræða! Ég vissi það allan tímann. Það þarf mikið skipulag og mikinn undirbúning til að svona mikið getur farið úrskeiðis samtímis. Stórkostlegt. Ég klappa fyrir þér þáttastjórnandi!

Viðbót: Jæja, nú eru 2 tímar liðnir og enginn þáttastjórnandi mættur til að hlæja að mér. Hann ætlar að mjólka þetta atriði.
Ég minnist ljóðs.

Þeir sem bjór og brennivín
bergja dag og nætur
ættu bara að skammast sín
og kíkja á fjórfara vikunnar, en þangað var ég að bæta nýjum fjórförum

Að þessu sinni
er KörfuboltaKjarri
viðfangsefnið.
Ég veit að hann er ekki leikstjórnandi.

Annað hefði bara passað illa
við hina, orðið asnalegt,
ósmekklegt og ekki
rímað.

Þetta ljóð er remix af ljóði Davíð Þórs úr radíusflugu einhverri. Remixið samdi ég aleinn.

fimmtudagur, 15. nóvember 2007

Í gærkvöldi var gerð árás á mig. Helgi bróðir skrifaði bloggfærslu sem stofnaði lungunum á mér, maganum og nærbuxunum í bráða hættu, þar sem ég hló svo mikið að ég náði nýrri hæð í hlátri; öskrum.

Takk Helgi. Takk kærlega!

Lesið árásina hérna.

miðvikudagur, 14. nóvember 2007

Um jólin kemur út bókin Hvernig gerirðu konuna þína hamingjusama eftir Þorgrím Þráinsson. Ég hef ekki lesið hana, því ég veit hvað gerir konur hamingjusamar. Og ég ætla að deila því með ykkur:

Lykilatriði í að gera konuna þína hamingjusama er að líta út eins og Þorgrímur Þráinsson.

Ætli það sé tilviljun að kona fallegasta manns íslandssögunnar sé hamingjusöm?
Fólk er asnalegt. Ef þú ert ósammála; horfðu á sjónvarpið án hljóðs. Sérstaklega tónlistarmyndbönd. Nóg sagt.

Nei, ekki alveg nóg sagt. Næsta mánudag mun UMFÁ (mitt lið) keppa í körfubolta gegn Laugarvatni á Álftanesi í 2. deildinni. Leikurinn hefst kl 19:15 og er ókeypis inn. 25.000 krónur út.

Ég hvet alla til að mæta. Ég er að horfa á þig, Ólafur Ragnar Grímsson! Ég vil ekki fá afsökun frá þér í athugasemdirnar.

þriðjudagur, 13. nóvember 2007

Í nótt dreymdi mig leiðinlegasta draum allra tíma. Í honum sat ég og horfði á mjög þurran viðtalsþátt, þar sem tekið var viðtal við mjög gamlan mann sem mumblaði bara eitthvað svo ekkert skildist hvað hann sagði. Inn á milli voru tónlistaratriði með gamla kallinum. Ekki nóg með þessi leiðindi heldur fann ég ekki fjarstýringuna og gat ekki hreyft á mér fæturnar. Ekkert rakvélablað var nálægt heldur. Ég sat því og horfði á þetta í marga marga marga klukkutíma.

Ég hef aldrei verið jafn feginn því að vakna í svitabaði, of seinn í vinnuna og með svo mikinn náladoða í öðrum handleggnum að ég gat ekki hreyft hann.

mánudagur, 12. nóvember 2007

Ég hef skipt yfir til Vodafone hvað GSM síma, heimasíða og internet varðar. Þetta er þá í 70. skipti sem ég skipti um símafélag. Það sem gerir þetta skiptið sérstakt eru nokkrar ástæður:

1. Í fyrsta sinn er ég ekki að skipta til að hringja ókeypis í einhvern.
2. Í fyrsta sinn er ég ekki lengur "frjáls" með frelsi, heldur neyðist til að hringja eins lengi og ég vil alltaf, í reikning. Ó þvílík hefting.
3. Niðurgreitt af vinnunni.
4. Það tók ekki nema 17 daga að fá þetta allt í gegn hjá Vodafone.

sunnudagur, 11. nóvember 2007

Í kvöld hefði ég getað farið í bíó með vinum, skroppið að spila pool eða bara gert eitthvað. En nei, ég ákvað að taka krass sem ég hafði gert á blað, hlussa því í tölvuna og fitla við það í photoshop. Þemað var Arthúr. Ég fattaði of seint að ég hafði gleymt að hafa brandara á myndinni og að myndin er ömurleg.

Allavega, að neðan er niðurstaðan.

laugardagur, 10. nóvember 2007

Í gærkvöldi spilaði ég póker með samtals 11 manns heima hjá Gústa bakara. Fyrir fyrsta sæti voru kr. 10.000 og annað sæti kr. 1.000, eða ca 0,05 krónur fyrir hverja sígarettu sem reykt var það kvöldið af flestum viðstöddum.

Eftir 5 tíma spil voru tveir eftir; ég og Hallgrímur (nýliði í hópnum). 90 mínútum síðar var ákveðið að fallast á jafntefli, enda helgin bráðum á enda. Við skiptum því 11.000 krónum á milli okkar.

Og þá kem ég að punktinum sem ég ætlaði að vekja athygli á: það eru til peningaseðlar með tölunni 5.000 á. Ég hafði lesið um þetta á wikipedia en aldrei óraði mig fyrir því að þetta væri satt. Ekki nóg með það, heldur á ég svona peningaseðil núna! 5.000 króna seðillinn er ekki þjóðsaga. Ég hef séð hann.

föstudagur, 9. nóvember 2007

Peugeot bíllinn minn bilaði í dag á þann hátt að hann bað mig vinsamlegast um að stoppa bifreiðina. Vélin var að ofhitna. Ég varð við beiðni hans.

Ég hafði leitað lengi að lausn á þessu vandamáli þegar ég uppgötvaði að ég var með lausnina fyrir framan nefið á mér. Reyndar fyrir ofan nefið á mér. Ég grét í vatnskassann og fyllti hann. Þarmeð kólnaði vélin og ég var laus allra mála. Næst lét ég skipta um olíu og tékka á vélinni. Allt í himnalagi. Bíllinn kælir sig á sorg minni.

Ég hef ákveðið að selja þennan bíl, sem bilar annan hvern mánuð, aldrei. Ég ætla að greiða af honum lánið, sem tekur mig rúmt ár í viðbót, fara svo með hann og hafnaboltakylfu í Sorpu þar sem ég mun berja hann, öskrandi, niður í lítinn járnkubb og fá 15.000 krónur fyrir. Ég hata bílinn minn.

fimmtudagur, 8. nóvember 2007

Ég hef bætt við myndum í myndasafnið frá leik UMFÁ (með hverjum ég spila körfubolta) gegn Glóa. Skoðið þær hér. Það er skipun.

Ég lofa að þetta sé síðasta færslan um þennan leik.

miðvikudagur, 7. nóvember 2007

Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að hlakka til einhvers en þegar þetta er ritað hef ég ekki hlakkað til neins í marga mánuði. Ég veit samt að ég á eftir að hlakka til einhvers í framtíðinni, ég bara veit ekki hvers. Ég vil gjarnan flýta þessu ferli og hlakka til einhvers strax í dag.

Það má því segja að ég hlakki til að hlakka til einhvers.

Vandamál leyst.

Næsta vandamál: Ég er ekki heimsins besti elskhugi. Ég hvílist ekki fyrr en þetta hefur verið leyst!
Ég hef hnoðað saman nokkrum orðum um leik UMFÁ gegn Glóa á mánudaginn og sett á aðdáendasíðu UMFÁ. Þar er einnig fullkomna tölfræðiskýrslu frá leiknum sem Gísli setti saman að finna ásamt myndir úr leiknum. Kíkið á það hér.

Eftir að hafa litið á tölfræðina í leiknum sé ég að það gerðist mun meira á vellinum en tölfræðin gefur til kynna. Hér eru nokkur atriði sem finnast ekki á tölfræðiskjalinu:

* Stoðsendingin mín var sú versta sem send hefur verið.
* Ég varði 5 skot en í öllum tilvikum var flautað og eitthvað dæmt á einhvern. Yfirleitt á mig. Yfirleitt rangur dómur.
* Það mátti ekki reyna að stela bolta, þá var dæmd villa.
* Ég fékk fínt olnbogaskot í andlitið í miðjum leik. Ég þóttist vera harður en grét innra með mér. Í dag er ég hvellaumur í andlitinu og ekki svo harður.
* Fjórir í okkar liði notuðu svitabönd. Tveir hjá Glóa.

þriðjudagur, 6. nóvember 2007

Fyrir nokkrum árum vann ég 70% vinnu sem næturvörður á hóteli á grátlega lélegum launum [undir 100þ á mánuði] heilan vetur. En ég kvartaði ekki.

Í dag ég er á margfalt hærri launum. Samt hef ég mun minna á milli handanna eftir útborgun hvers mánaðar.

Það má því segja að með hærri launum verði ég fátækari. Eða að græðgi mín vaxi hraðar en launin. Eða bara að ég sé helvítis fífl.

mánudagur, 5. nóvember 2007

Ég er búinn að vera að vinna í allan dag. Ég mætti til 365, þar sem ég vinn, klukkan 8:00 í morgun. Þar vann ég til 18:15, þegar ég tók mér pásu til að keppa einn körfuboltaleik með Álftanesi gegn Glóa (eins og sjá má í síðustu færslu).

Þar vann ég meira. Í þetta sinn með liðinu. Leikurinn fór 73-66 fyrir Álftanesi og náði ég að borga mig inn í byrjunarliðið með daðurslegu líkamstali. Verið er að verka tölfræði leiksins og mun hún birtast hér öllum til gríðarlegs yndisauka.

Eftir leikinn fór ég beint í vinnuna aftur að verka skjöl fyrir mikilvægan fund á morgun. Ég sé ekki fram á að ég verði búinn að því fyrr en um klukkan 01:00 eftir miðnætti.

Það er rétt að taka fram að þessi sigurganga mín endurspeglar engan veginn líf mitt þessa dagana, þar sem mér finnst ég vera talsverður tapari. Stundum skín sól á hundsrassa.
Í dag klukkan 19:30 mun KUMFÁ (liðið mitt) spila gegn Glóa í íþróttahúsinu á Álftanesi. Ég mæli með því að sem flestir mæti og hvetji sitt lið áfram, svo lengi sem það er ekki Glói.

Aðgangur er ókeypis og ekkert fylgir með miðanum. MÆTIÐ!

föstudagur, 2. nóvember 2007

Ég þarf að koma tveimur hlekkjum á framfæri. Ég hef byrgt þessa hlekki inni í nokkra daga núna og spring ef ég fæ ekki að deila þeim með ykkur.

Sá fyrri er hlekkur á nýtt NBA blogg Baldurs Hans. Stórskemmtileg lesning, jafnvel þó þú haldir að NBA sé kynsjúkdómur. Kíkið á það hér.

Sá síðari er hlekkur á nýja heimasíðu körfuboltaliðs míns; KUMFÁ sem ég hnoðaði saman um daginn og hef verið að bæta við undanfarið. Síðan er enn ekki alveg tilbúin en hún er nothæf og skiljanleg. Á næstu vikum og mánuðum mun svo síðan byggjast almennilega upp með fleiri leikjum og tölfræði. Ég vona að fólk hlekki á þessa síðu. Hér er síðan.

Mér líður betur núna.
Ég er rosalega þreyttur í dag. Svo mjög rosalega þreyttur að ég get ekki ímyndað mér að svefn einn og sér geti lagað ástandið. Dauðadá eða grænmetisástand í nokkra mánuði gætu gert trikkið. Ég er þó of þreyttur til að standa í því veseni. Svo má ég heldur ekkert vera að því. Mig bráðvantar mjólk og ekki kaupir hún sig sjálf.

fimmtudagur, 1. nóvember 2007

Í hádeginu í dag var löngum hlut troðið í líkama minn svo úr blæddi. Eftir að hluturinn hafði komið sér vel fyrir frussaðist úr honum viðbjóðsvökvi á meðan ég orgaði úr sársauka.

Hvorki það né grátur og beiðni um miskunn fékk viðkomandi árásaraðila til að hætta. Þessu lauk þó fljótlega eftir að ég hætti að streitast á móti og allt varð betra, þó ég beri ör á sálinni eftir þetta.

Ég get svosem sjálfum mér um kennt. Ég var druslulega klæddur og það var ég sem bað um að fá svona flensusprautu.